Leita í fréttum mbl.is

Stjórnmálaelítan og forsetinn !

Það er ótrúlega ótrúlegt hvað menn hafa verið seinheppnir með hina lagalegu umgjörð að stofnun lýðveldisins 1944. Það er eins og hlaupið hafi verið út í eitthvað algjörlega undirbúningslaust, því svo illa hefur verið um hlutina búið að það er eins og allt hafi verið gert með þeim hætti að það yrði bara að laga það seinna. En þetta seinna lagfæringarferli hefur ekki enn skilað sér á nokkurn hátt.

Lögfræðingar á þessum tíma, sem voru líklega almennt talað töluvert skárri en þeir sem nú eru uppi, virðast hafa verið í mikilli tímapressu við vinnu sína að stjórnarskrármálum og öðru slíku og verkin sýna þar merkin. Menn geta þannig lengi spurt um skýrar línur varðandi þetta og hitt en þær virðast hreint ekki fyrirliggjandi.

Hver er stjórnskipunarleg staða forseta Íslands ? Hvernig hefur hún verið skilgreind í lögum og hvaða ókostir fylgja þeirri skilgreiningu. Hvað vantar þar upp á og hvað er þar til úrbóta ? Hvernig má svara þessum og þvílíkum spurningum á viðhlítandi hátt ?

Hvernig stendur á því að einföld kosning skuli hafa átt að tryggja kjör forsetans ? Bjuggust menn aldrei við að fleiri en tveir byðu sig fram ? Hverskonar lýðræðissýn höfðu þessir menn sem ákváðu þetta fyrirkomulag á sínum tíma og af hverju hefur því ekki verið breytt í ljósi reynslunnar af ótvíræðum vanköntum þess ? Eða var kannski aldrei meiningin að forsetinn yrði kosinn með eðlilegri og lýðræðislegri kosningu meirihlutavalds ?

Allar götur frá 1944 hefur það legið fyrir að reglur um vald forseta Íslands, starfssvið hans og stöðu, hafa verið mjög óskýrar svo ekki sé meira sagt og það eina skýra í málunum þar er hinn fyrirliggjandi og óskiljanlegi óskýrleiki.

Hefur stjórnmálaelíta landsins kannski haft það sem óhagganlegt viðmið allan þennan tíma að forsetinn eigi bara að vera eins og klassísk brjóstmynd úti í horni ; ekki lifandi öryggisventill fyrir þjóðina til varnar gegn stjórnmálalegum stórslysum og landráðum, heldur dauður sýnisventill einhversstaðar afsíðis ?

Hversvegna gat Ólafur Ragnar Grímsson upp á sitt eindæmi gjörbreytt valdsstöðu forsetans, gert hana að lifandi tannhjóli í stjórnkerfinu, tannhjóli sem varð að taka tillit til, öfugt við það sem áður var ? Var það ekki vegna þess að hann sá og skildi möguleikana sem fólust í hinni óskýru framsetningu stjórnarskrárinnar á valdi forsetans og færði það sér í nyt !

Hann fór að fara fram með forsetavaldið á nýjan og afgerandi hátt og þó ýmsum valdamönnum hugnaðist það enganveginn, gátu þeir ekki með nokkrum gildandi rökum sagt að hann færi í þeim tilfellum út fyrir valdssvið sitt. Skilgreiningin var ekki til staðar með þeim hætti að hægt væri að setja honum skorður, enda vissi Ólafur það manna best.

Leiðtoga-reynsla Ólafs Ragnars Grímssonar er óumdeilanlega mikil, hæfni hans til að sjá við öðrum er alkunn og maðurinn er löngu orðinn meistari í því að tala vel fyrir sínu máli. En það er engum hollt að sitja of lengi. Ólafur Ragnar er ekki ómissandi og má ekki vera álitinn ómissandi, þjóðin má ekki álíta að svo sé og hann enn síður. Maður kemur í manns stað og svo mun áfram verða.

Mikilvægast fyrir þjóðina er hinsvegar að kjósa áfram í embætti forseta einstaklinga sem líklegir eru til að þróa embættið um komandi ár sem þann lifandi öryggisventil þjóðlegrar velferðar sem það þarf að vera og er í raun veigamesta röksemdin fyrir tilvist þess. Það þarf að vera arfleifð Ólafs Ragnars Grímssonar þegar hann lætur af embætti hvenær sem það nú verður.

Forsetinn þarf að vera sterkur persónuleiki og núverandi forseti er það vissulega. Það eru áreiðanlega mörg ár síðan ráðherrar og þingmenn skildu að það væri ekki líklegt að þeir yrðu feitir af því að abbast upp á þann forseta sem tók við embættinu 1996 og hefur setið í því óhagganlegur síðan. Það leggur enginn í stjórnmálaelítunni í það að glíma við Ólaf Ragnar Grímsson.

Og áfram þurfa forsetar okkar að vera sterkir persónuleikar og geta staðist þrýsting, þó þeir þurfi ekki endilega að vera steyptir í mót núverandi forseta. Forsetinn á ekki að vera einfaldur tauháls eða flott samkvæmispía, hann á að vera miklu meira en það.

Stjórnmálaelítan bíður vafalaust með óþreyju þess tíma að nýr forseti taki við, og þá er það eflaust hugsun margra á þeim vígstöðvum að koma verði í veg fyrir að hann vaði uppi eins og Ólafur Ragnar þykir hafa gert. Þá verður reynt að koma málum í gamlar og hagfelldar skorður. Þá vilja pólitískir valdamenn vafalaust aftur fá fallegt stofublóm í glugga eða klassíska brjóstmynd úti í horni.

Það er það sem þjóðin þarf að koma í veg fyrir þegar þar að kemur !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 168
  • Sl. sólarhring: 210
  • Sl. viku: 1425
  • Frá upphafi: 316426

Annað

  • Innlit í dag: 146
  • Innlit sl. viku: 1150
  • Gestir í dag: 145
  • IP-tölur í dag: 143

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband