Leita í fréttum mbl.is

Að leiðrétta lýðræðið !

 

Það fer að verða nokkur spurning hvort konur sem eru í pólitík séu yfir höfuð lýðræðissinnaðar ? Þegar þær bjóða sig til þjónustustarfa fyrir kjósendur og fá minna gengi en þær vonast eftir, verða þær býsna oft fúlar og kenna því um beinlínis eða óbeinlínis að verið sé að níðast á þeim vegna þess að þær séu konur !

Svo er gerð krafa um leiðréttingar á lýðræðinu vegna þess að það þjónar ekki þeirra væntingum ! Hverskonar vitleysa er þetta eiginlega ?

Eiga kjósendur ekki að birta vilja sinn í kosningu og á sá vilji ekki að ráða ? Ef svonefndur Sjálfstæðisflokkur getur til að mynda ekki borið sitt barr vegna óánægðra kvenna í flokknum eftir úrslit prófkjöra, á hann ekkert að vera að vesenast með þessi prófkjör. Hann er þá ekki fær um það. Þá verður hann bara að fara aftur í gamla klíkufarið og stilla upp, og nú eftir staðfestri kyngreiningu, kona í fyrsta sæti, karl í annað, kona í þriðja o.s.frv.

Það virðist nefnilega svo komið að fulltrúar okkar á þjóðþinginu eigi ekki að mælast út frá því sem hugsunarhæfni þeirra býr yfir heldur öllu heldur því sem aðgreinir fólk fyrir neðan nafla !

Eftir prófkjör sjalla á Suðurlandi voru kallaðir tveir stjórnmálafræðingar til umræðu um málið á Bylgjunni. Þar var um tvær konur að ræða, enginn karl kvaddur til, heldur tvær konur, og þær töluðu náttúrulega eins og við var að búast, konum væru bara vanþökkuð frábær störf o.s.frv !

En hvernig er það með almenning, kjósendur þessa lands, er þar ekki bæði um karla og konur að ræða ? Af hverju fá þá konur ekki betra brautargengi og af hverju þola þær svo illa - sem raun ber vitni - dóm almennings ?

Ef það gengur illa hjá þeim, segjast þær hættar í pólitík, neita að taka unnið sæti á listanum af því þær stefndu hærra, eru grátbólgnar og grútfúlar í viðtölum og kvarta yfir því að vera af hinu vanmetna kyni !

Og hvernig stendur á því að kynsystur þeirra meðal kjósenda bera ekki meira traust til þeirra en mælist í þessum prófkjörum ?

Á að sveigja og beygja lýðræðið svo að framaþyrstar konur fái það upp í hendurnar sem aðrir hafa hingað til þurft að berjast fyrir ?

Ef fólk telur sig eiga erindi í pólitík, verður það að taka þann slag sem því fylgir, hvort sem í hlut eiga konur eða karlar. Það þýðir ekkert að skæla þegar blæs á móti. Ein konan sem bauð sig fram, orðaði það svo eftir prófkjörið sem sló hana niður, að hún tæki úrslitunum af karlmennsku !

Hvernig hún fer að því veit ég ekki, en ég vona að þeir karlmenn sem sitja á þingi hafi eitthvað af þeim eiginleika til að bera - og það vil ég líka vona að kvenmennska vaxi svo að dáð að konur geti sagt í mótlæti að þær taki ósigrum – ekki með karlmennsku – heldur með lifandi og lýðræðishollri kvenmennsku !

Þessi endalausa síbylja um kynja-jafnrétti í öllu er algerlega gengin sér til húðar og á þeirri leið að gera alla vitræna umræðu að tómri vitleysu.

Við kjósum flest það fólk í ábyrgðarstöður fyrir land og þjóð sem við treystum best til verka, fyrst og fremst vegna þeirrar hæfni sem við teljum það hafa til hugar og handa – en ekki hvort viðkomandi er karl eða kona !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 100
  • Sl. viku: 1297
  • Frá upphafi: 316216

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1040
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband