Leita í fréttum mbl.is

Hugleiðingar um áramót

 

Eitt af því sem mörgum þykir hvað mest ógnvekjandi við nútímann er hvað það geta skjótlega sprottið upp menn sem lítið er í sjálfu sér vitað um og þeir jafnvel orðið valdamestu menn heimsins á tiltölulega skammri stund. Áður í tímanum var slíkt sjaldgæfara og dæmið þar einna hrikalegast varðandi Hitler en í seinni tíð hafa margir smá-Hitlerar birst snögglega sem valdamenn og jafnvel ýmsir stærri en það. Hver þekkti t.d. nafnið Vladimir Putin áður en sá umdeildi maður komst á valdatoppinn í Rússlandi sem eftirmaður Jeltsins ?

 

Margs er hægt að spyrja varðandi það ferli sem undanfarið hefur leitt til valdatöku ýmissa manna. Hefði George W. Bush orðið forseti Bandaríkjanna ef eðlilegar forsendur og ærleg, lýðræðisleg vinnubrögð hefðu legið að baki kjöri hans ? Hvað með verðandi forseta Donald Trump, er hann fyrirboði þess sem verða skal ?

 

Eiga gífuryrtir, grófir og vafasamir menn eftir að eiga auðveldast með að verða æðstu menn héðan í frá ? Á Trump hugsanlega eftir að verða hættulegur leiðtogi, bæði fyrir Bandaríkin og heiminn allan ? Hvað er raunverulega um hann vitað þegar allt kemur til alls, er það ekki fyrst og fremst það að hann er ólíkindatól sem er vís til alls ef út í það fer ? Forsjónin hefði sannarlega átt að sjá til þess að nafn hans hefði byrjað á P en ekki T !

 

Hvað með ofbeldishneigða - og að því er virðist samviskulausa menn - sem komast til valda, eins og sum dæmi eru til um, menn sem jafnvel taka fanga af lífi án dóms og laga til að kenna öðrum miskunnarlausa breytni ? Eru slíkir menn nýja leiðtogatýpan, menn sem eru eins og fengnir að láni úr siðlausum tölvuleikjum samtímans ?

 

Hvað með Pólverja sem kvörtuðu í eina tíð sí og æ yfir ófrelsinu undir yfirráðum Sovétmanna, en eru nú sem sjálfstætt stjórnvald stöðugt að rýra frelsi og lýðræði eigin þjóðar ? Hvar er Solidarnosc-samstaðan núna ?

Vantar kannski fjárveitingar frá CIA í andstöðudæmið þegar pólitíska nauðsynin er ekki lengur fyrir hendi ? Er Pilsudski kannski farinn að ganga aftur í Póllandi og fasisminn þar á næstu grösum ?

 

Hversvegna eru Vesturlönd svona ágjörn sem raun ber vitni þegar um reytur dánarbús Sovétríkjanna er að ræða ? Voru þessir bitar sem nú er rifist um ekki hluti af Sovétveldinu og ekki um það deilt í eina tíð ? Hver er með ásælni og hver er í vörn ?

Hverjum dettur í hug að það hafi orðið friðvænlegra í heiminum eftir fall Sovétríkjanna ? Hverjir halda nú aftur af þeim vandræðaöflum sem þorðu þó ekki annað í eina tíð en að hlýða Moskvu ?

Halda menn að það verði friðvænlegra í heiminum eftir fall Bandaríkjanna sem verða örugglega næsta stórveldi sem hrynur ?

Hverjir skyldu koma til með að bítast um það dánarbú þegar þar að kemur ?

 

 

Bandaríkin hafa allt frá stríðslokum 1945 verið slæm fyrirmynd fyrir heiminn. Og þar sem áhrifavald þeirra hefur verið svo gífurlegt sem raun ber vitni, er heimsmyndin í dag að miklu leyti afleidd niðurstaða af þeirra framferði. Og þar hefur ekki verið um að ræða neina göfgandi þróun heldur sístækkandi brennimark bölvunar !

Þar byrjaði agaleysi og uppreisn unga fólksins, þegar óhlýðni og virðingarleysi gagnvart reynslu þeirra sem eldri voru fór að setja mark sitt á allt. Þar byrjaði allt ferlið varðandi fjölmenningu sem hefur verið eins og tilræði við allt sem er þjóðlegt !

 

Og Bandaríkin - eins og önnur heimsvaldaríki - munu vissulega hljóta sinn dóm ! Það er óhjákvæmilegt. Blóðslóðin er orðin of löng og of stór. Blóð þúsunda myrtra indíána kallar enn til himins frá jörðu og krefst réttlætis. Svívirðilegur yfirgangur dollaraveldisins um allan heim er orðinn einn efldasti hatursvaki sem til er meðal fjölmargra þjóða !

 

Bandaríkin eru Rómaveldi nútímans og vitna um sömu lestina og fyrra ríkið, ágirnd og græðgi, siðspillingu og hroka. Einn rúmur mælikvarði gildir fyrir Bandaríkjamenn, annar þröngur fyrir aðra. Nákvæmlega sama og gilti meðal Rómverja. Þegar ein þjóð hefur sig með slíkum hætti yfir allar aðrar þjóðir en fallið ekki langt undan !

 

Bandaríkin hafa í raun þegar innsiglað dóm sinn með siðlausu framferði sínu. Það eina sem eftir er, er endanleg tímasetning á uppfyllingu örlagadómsins. En það er ekki langt í hann og við þær hamfarir sem þá verða mun hin þekkta heimsmynd gjörbreytast !

 

Það er búið að fara svo illum og skítugum höndum um veröldina okkar að hún er víða að verða óheilbrigt aðsetur fyrir börn jarðar. Og þar hefur bandarískt auðmagn verið einn drýgsti gerandinn um langt skeið.

Þó sardínur heimsins komi engum lögum yfir hákarlinn sem enn fer sínu fram í blindum hroka – mun hann brátt farast í eigin soradíki.

Það kemur alltaf að syndagjöldunum !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 139
  • Sl. viku: 1442
  • Frá upphafi: 315612

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1162
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband