Leita í fréttum mbl.is

“Maturinn er til !”


Í auglýsingu kringum síðustu jól og áramót mátti heyra þessa setningu og var hún sögð ein sú fegursta sem við ættum í okkar máli. Og ég fór að hugsa út í þá staðhæfingu. Það er líklega alls ekki út í bláinn að halda henni fram.

Víða er það nefnilega svo að matur er ekki til. Og í eina tíð dugði ekki að segja slíkt hérlendis. Í þá daga fóru margir svangir að sofa á Íslandi !

 

En nú snýst lífsbarátta meginhluta Íslendinga ekki lengur um að mæta frumþörfunum, það eru komnar svo margar aðrar þarfir til sögunnar og því miður eru þær flestar ekkert annað en ómerkilegar gerviþarfir, pumpaðar upp af græðgi þess sjálfs sem aldrei fær nóg og vill stöðugt meira !

Það er sem betur fer nógur matur til í landinu, en skömm að því hvernig oft er farið með hann. Þar þarf mikið um að bæta því það er synd að fara illa með mat !

 

En sumir hugsa afskaplega lítið út í það hvað náunganum líður og virðast lifa algerlega sjálfum sér í upphafinni eigingirni. Gamall læknir sagði í viðtali um 1990 að peningagræðgi Íslendinga væri orðin svo langt úr hófi að hún væri að nálgast það að verða sjúkdómur. Og víst er að ekki hefur það batnað síðan !

Fullyrt er að fátækt fari nú vaxandi á Íslandi vegna verulega aukinnar misskiptingar og ekki er erfitt að sjá hvaða afl grefur gjána í þeim efnum !

 

Við vitum líka að hungursneyð á sér víða stað í heiminum. Það verða þurrkatímabil og uppskerubrestir og allskyns hörmungar og maturinn er þá ekki til. Verst af öllu eru þó stríðin, sem eru af mannavöldum, þar sem einhverjir vilja drýgja sinn hluta til lífsgæða með hlífðarlausu ofbeldi og drápum.

En hvað gerist þegar hungursneyð er í gangi einhversstaðar, til dæmis í Afríku ?

 

Jú, meðal annars það að páfinn í Róm kemur fram á svalirnar sínar og biður almenning um að gefa. Hann sem situr á því sem kallast ómetanlegir fjársjóðir biður venjulegt fólk að gefa. Ef hann seldi eitt málverk í eigu páfagarðs myndi það leysa vandann ! Mestu listamenn heims þjónuðu undir páfaveldið á sínum tíma árum saman og veraldlegur auður í fórum þess er líklega algerlega ómælanlegur !

 

Einhversstaðar stendur “ Safnið yður ekki auði sem mölur og ryð fær grandað !” Og það er talað um að mannleg gæska safni sér himneskum fjársjóðum. Ef menn eigi tvennt af einhverju eigi þeir að gefa náunganum annað. En það er ekki hlustað á hinn biblíulega boðskap í þeim efnum og allra síst af kirkjulegum yfirvöldum.

Það er - þvert á móti kristnum meginkenningum - safnað veraldlegum auði sí og æ og honum staflað upp í geymslum gróðans, meðal annars í ofurskreyttum musterum páfadómsins í Róm !

 

Hvað myndi mönnum finnast um að auðmenn heimsins kæmu fram á einhverjar svalir háhýsa sinna og brýndu almenning til að gefa til mannúðarmála, Warren Buffett, Bill Gates og aðrir slíkir ? Það yrði líklega svipur á sumum, en þetta gerir páfinn reglulega fyrir hönd kirkjudeildar sem er svo veraldlega rík, að hún uppfyllir alla lýsinguna á hinni sérgæskufullu Laodíkeu-kirkju, ein og sér !

 

Fyrir nokkrum árum var safnað fé hérlendis fyrir hönd kirkjunnar til að mæta neyð út í heimi. Birtar voru myndir í fjölmiðlum af þekktu fólki með söfnunarbauka, á fullu við að eltast við aura almennings, jafnvel á reiðhjólum. Og hverjir skyldu þar hafa verið að leggja manngæskunni lið ?

Jú, Dorrit Moussajev þáverandi forsetafrú, óhemjurík forréttindakona, í mikilli þörf fyrir hámarks athygli, Halldór Ásgrímsson þáverandi ráðherra með meiru, ekki beint auralaus sjálfur, og Björgólfur Guðmundsson bankastjóri, þá vaðandi í peningum, og því sleiktur daglega enda á milli, af öllu hinu aurasjúka menningarhyski landsins !

 

Þessir sérútvöldu einstaklingar áttu að virka svo sterkt á venjulegt fólk við að safna peningum til góðra verka ? Ég verð nú að segja að þessi hræsnisuppstilling hafði alveg þveröfug áhrif á mig. Mér blöskraði sýndarmennskan á bak við þetta, að fólk sem í raun var þekkt af því að gefa aldrei neitt, nema þá í auglýsingaskyni, væri fengið með þessum hætti, til að kroppa krónur út úr launalágri, alþýðu manna !

En svona er yfirleitt afstaðan hjá þeim ríku: Gefið þið, gefið þið, gefið þið !”

 

Páfinn á nógan mat til. Það er ekki svelti í Vatikaninu, kardinálarnir fitna og hafa gert það um aldir. Þeir ganga um eins og útblásnir, rauðir loftbelgir. En heimurinn í kring mæðist í mörgu og sveltur stundum heilu hungri !

Og þá kemur hvítklæddur páfinn, maðurinn sem kallar sig staðgengil Krists á jörðinni, út á svalirnar sínar, og segir við fólkið : “ Gefið þið !”

 

Hann segir ekki, “ég ætla að sjá til þess að kaþólska kirkjan eigi áfram allar sínar ómetanlegu gersemar og haldi áfram að auðgast og dafna. Það er fyrst og fremst mín skylda !” Nei, hann segir það ekki, en sú tjáningarafstaða býr samt í hegðun hans og framferði. Hann gætir auðsins í eigin garði eins og hinir auðjöfrarnir og ef einhversstaðar er ekki matur til, þá býður hann öðrum að bæta úr því og hrópar út yfir mannfjöldann á torginu :“ Gefið þið !”

 

Þannig er “heimsgæskunni” stjórnað af þeim sem eiga miklu meira en nóg, af þeim sem vita alltaf að maturinn er til, af þeim sem safna meðan þeir hvetja aðra til þess að gefa.

John D. Rockefeller var sagður hafa látið taka myndir af sér á sínum tíma við að gefa börnum smáaura, maðurinn sem varð að skipta upp risafyrirtæki sínu Standard Oil vegna þess að stærð þess braut í bága við hina yfirtaks rúmu bandarísku auðhringalöggjöf. Og páfinn í Róm situr alltaf botnfastur á sínum ómælanlegu, veraldlegu fjársjóðum, en hvetur aðra til að hjálpa. Forríkt fólk á Íslandi er auglýst upp á þeytingi með söfnunarbauka - allt eru þetta birtingarmyndir sama falska eðlisins, sýndarmennskan í fullum gangi !

 

Maturinn er til “ er vissulega falleg setning og þyrfti svo sannarlega fá að hljóma í hvers manns garði. En vöntunin í þeim efnum er fyrst og fremst vegna ómannlegrar græðgi annarra, þeirra sem éta stöðugt yfir sig, þeirra sem éta stöðugt frá öðrum, þeirra sem gera sig þannig til eðlis og anda, að þeir eru og hafa verið öllu mannkyni til skammar allt fram á þennan dag !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 303
  • Sl. sólarhring: 327
  • Sl. viku: 1560
  • Frá upphafi: 316561

Annað

  • Innlit í dag: 257
  • Innlit sl. viku: 1261
  • Gestir í dag: 244
  • IP-tölur í dag: 240

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband