Leita í fréttum mbl.is

,,Upplýsingaveitan” Costco !

 

Margt hefur gengið á síðan verslunarkeðjan Costco haslaði sér völl til viðskipta hérlendis. Uggur hefur sjálfsagt verið í mörgum sem hafa litið hingaðkomu fyrirtækisins illu auga og talið það ógna hagsmunum sínum og ákveðinni einokunaraðstöðu sem lengi hefur verið til staðar með tilheyrandi okri !

 

Neytendur hafa hinsvegar fagnað aukinni fjölbreytni í viðskiptalegu tilliti og fundið að þjónusta Costco hefur á margan hátt komið til móts við þarfir þeirra og hagsmuni og nú hafa margir sem áður sáu ekkert athugavert við hlutina áttað sig á því hvernig verðlagsmál hafa löngum verið sett hér upp – að því er virðist - til að viðhalda sem mestu arðráni á kostnað almennings !

 

Viðskiptaframlag Costco hefur þannig virkað á íslenska neytendur sem sannkölluð upplýsingaveita um margt sem afleitt hefur verið hér í viðskiptaháttum og nú sjá margir að hægt er að hafa hlutina öðruvísi og koma miklu meir til móts við neytendur en gert hefur verið. Það er því ekki að furða þó sumum arðránsgreifum líki ekki sú samkeppni sem hafist hefur og vonandi er komin til að vera !

 

Þó að mörgum hafi nú skilist að illa hafi verið að þeim búið á íslenskum neyslumarkaði, vantar samt ekki verjendur fyrir það háttalag sem löngum hefur tíðkast hérlendis af hálfu verslunar-auðvaldsins gagnvart hagsmunum og rétti neytenda. Oftast eru slíkir verjendur hagsmunatengdir því arðráni sem hefur verið svo lengi ríkjandi í íslensku verslunar-umhverfi og efnaleg velmegun þeirra hefur skapast af því að geta verið þar í sérstöðu við kjötkatlana !

 

Það munu því koma fram ýmsar skýringar af slíkra hálfu á því verðlagi sem Costco býður viðskiptavinum sínum og auðvitað verður aldrei viðurkennt að neitt hafi verið athugavert við viðskiptahættina. Innræti arðránsmanna er alltaf með því lægsta sem til er í mannlegu samfélagi og þar verður blóðsugueðlið seint upprætt !

 

En íslenskur almenningur hefur fengið þá upplýsingu í gegnum Costco sem virkilega hefur að margra áliti flett ofan af svikamyllu álagningar og verðlags hérlendis og það sem aldrei fyrr. Fjöldi manna hefur áttað sig á því hvernig þeir hafa verið hlunnfarnir á umliðnum árum og það er uppsöfnuð reiði víða til staðar !

 

Íslensku verslunar-keðjurnar mega vara sig á þeirri reiði því hún er réttlát og ætti skilyrðislaust að bitna á þeim sem til þess hafa unnið. Og flestir vita alveg við hverja er að sakast í þeim efnum !

 

Íslenskir neytendur þurfa að vera miklu meira á verði gagnvart arðráni og uppsprengdu verðlagi en þeir hafa verið. Þeir þurfa að hafa verðskyn á við hagsýnar, þýskar húsmæður. Þegar þær ágætu konur telja á sér brotið með siðlausri verðlagningu, taka þær sig saman og sniðganga þær verslanir sem þannig haga sér !

 

Niðurstaðan verður sú að viðskiptin detta niður og fjara út og viðkomandi gróðapungar neyðast til að setja græðgi sinni mörk. Það ættu fleiri að taka sig saman um að koma slíkum skilaboðum fram þegar þörfin krefur. Íslenska blóðsugukerfið verður að breytast og fara að samlagast heilbrigðum mannlífsháttum !

 

Við sem erum almennir neytendur megum aldrei vera óvitandi um rétt okkar til mannsæmandi viðskiptakjara – og hlynna í vanþekkingu að þeim sem vilja í óseðjandi græðgi sinni sjúga lífsblóðið úr okkur og fjölskyldum okkar. Það hefur verið nóg um slíka aðila hérlendis og mál að linni !

 

Megi Costco áfram bjóða Íslendingum viðunandi verslunarkosti og landið vera opið fyrir öllum þeim sem vilja hefja hér verslunar-rekstur á mannlegri og betri hátt en hingað til hefur að mestu tíðkast.

Þjónustustig gæða við almenna velferð mun alltaf verða grundvallar-forsenda fyrir góðum viðskiptaháttum og neytendur munu leita til þeirra sem bjóða þar besta kosti !

 

Vinnum gegn sýki í verslunar líki,

verum þar einhuga þjóð.

Mafíur víki – það réttlæti ríki

sem ræktar upp viðskipti góð !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 38
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 1068
  • Frá upphafi: 309960

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 941
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband