Leita í fréttum mbl.is

Fáein orð um sameiningarpólitík !

 

Enn er verið að fá fólk í hinum dreifðu byggðum til að sameinast í nýjum og stórum sveitarfélögum þar sem öllum á að líða miklu betur. Það er talað um miklu öflugra þjónustustig þegar svo er komið og lítil sveitarfélög ráði bara ekki við verkefnin !

 

Jú, jú, ætli menn kannist ekki við þetta frá fyrri tíð og enn eru sameiningar-rökin þau sömu þó talsvert sé nú farið að slá í þau sum hver. Og ekki sýnist manni að lausn félagslegra vandamála verði neitt auðveldari þó sveitarfélög séu stór eða verði stór við sameiningu.

 

Þó sjá megi nauðsyn hins hjálpandi halds,

þá hamlar oft ráðandi klíka.

Það gleymist í áróðri gleypandi valds

að gallarnir margfaldast líka !

 

Sama tilhneigingin virðist nefnilega löngum til staðar sem áður á kerfislega vísu að lágmarka alla þá þjónustu sem getur orðið almenningi til hagsbóta. Hinsvegar er oft eins og einhver sérþjónustu við einhverja útvalda geti verið fyrir hendi og þá ekki í smáskömmtum !

 

En samt er boðskapur kerfisins alltaf í uppörvunarstíl þó efndir verði oft litlar og alltaf á björgin sem blessar að vera á næstu grösum eða í það minnsta á leiðinni:

 

Í heiminum margt er svo veikburða og valt

og vegferðin þúsunda erfið og sár.

Við erum á leiðinni að laga hér allt

en líklega tekur það fjöldamörg ár !

 

Hvernig var til dæmis með ábyrgð og öryggi barnaverndarmála í stærsta sveitarfélaginu þar sem hættulegur maður lék lausum hala í þeim geira árum saman án þess að kærumálum gegn honum hafi verið sinnt ? Þurfti ekki einhver að segja af sér út af því ? Nei, auðvitað ekki, það þarf fyrst einhver að vera ábyrgur !

 

Hvernig hefur réttindum fatlaðra verið sinnt í Vesturbyggð þar sem fötluð kona fékk ekki lögboðna akstursþjónustu og það í sameinuðu sveitarfélagi ? Er það ekki áfellisdómur yfir viðhorf og vinnubrögð í kerfi hins eflda þjónustustigs ?

 

Sameiningarsinnar segja þegar á svonalagað er minnst : ,, Já, en þetta eru einstök tilfelli !” Já, er það, en eru þau ekki orðin nokkuð mörg yfir það heila ? Og hvernig á svonalagað að geta gerst í stórum sveitarfélögum þar sem þjónustustigið á að sögn að vera miklu betra ?

 

Af hverju gerist slíkt þar sem sagt er - að eftir sameiningu verði miklu betur að málum staðið ? Það mætti vissulega halda að ýmislegt sé hreint ekki á hreinu þó marglofuð sameining hafi átt sér stað !

 

Mál Leonhards Haraldssonar og fleiri vekja til dæmis miklar efasemdir um þá velferð sem sögð er búa í kerfisþjónustunni því býsna oft virðist gyllingin ein til staðar þegar á reynir. Það er vissulega slæmt ef svo er !

 

Fæst viljum við borða eitthvað sem við vitum ekki hvað er og það er nú svo með þessi sameiningarmál að þar er oftast eitthvað líkt á ferð. Fólki er sagt að gleypa eitthvað sem það veit ekki hvað er og ef afleiðingarnar verða slæmar þá á það bara að sitja uppi með þær meltingartruflanir. Engin leið er til baka. Kerfið hefur talað – og svo er nánast sagt ef einhver er með gagnrýni : ,,Æi, þegiðu nú !”

 

Aðalatriðið af kerfisins hálfu virðist vera að koma upp einhverri stjórnsýsluhöll á einhverjum tilteknum stað, þar sem nóg verði líklega um innihaldslitla pappírsvinnu fyrir einhverja útvalda, en ávinningur fyrir almenning vill oft verða næsta lítill !

 

Og svo þarf bara eitt símtal ofan úr ráðuneyti í stjórnsýsluhöllina og ekki þarf að tala víðar. Þvílíkur léttir – fyrir kerfið !

 

Það virðist alveg vilja gleymast í svona umræðu að fyrir nokkrum árum varð hér efnahagslegt hrun sem fór með allt traust í samfélaginu norður og niður. Þá var stolið svo miklu af fólki um allt land að það verður aldrei tölum talið og margir hafa verið í sárum síðan !

 

Og ekkert hefur gerst eftir það sem unnið hefur upp traust á yfirvöldum eða kerfi. Það var bara lögð táli vígð teppisdrusla yfir ósómann og þagnarlögmálið látið gilda. Það hefur sem sagt hvergi verið tekið á neinu til að byggja upp traust aftur og því er það í núll stöðu !

 

En enn á fólk samt að treysta því að eitthvað óskilgreint, eitthvað loftkennt sem hvergi má festa hönd á, sé á leiðinni í stóru fallegu batteríi til að bæta alla þjónustu og það í stjórnkerfi sem hefur gjörsamlega brugðist eins og sannaðist í hruninu, kerfi sem alltaf er duglaust og auralaust þegar kemur að félagslegum lausnum !

 

Löggetan er þá bara sett í afsláttargírinn og fólki sagt að bíða og þar við situr !

 

Það er svo sem ekkert nýtt að almennum borgurum sé boðið upp á hluti með þeim hætti að um leið sé það undirstrikað að ekki muni talið að glóran þvælist fyrir þeim !

 

Hitt má svo auðvitað segja og það með töluverðum rétti að menn séu ekki að detta úr háum söðli frá því sem verið hefur víðasthvar á sveitarstjórnarstiginu. En alltaf er þó æskilegast að breytingar verði til bóta og þegar engin trygging er fyrir því að svo verði, er bara mannlegt að margir séu tortryggnir og hugsi sitt. Menn vita svona nokkurnveginn hvað þeir búa við en ekki hvað breyttar aðstæður bjóða upp á. Tilraunadýr kerfisins hreppa yfirleitt ekki háa vinninga !

 

Mistök í íslenskri stjórnsýslu eru sem vitað er daglegt brauð og enginn býst svo sem við miklu úr þeirri áttinni, allra síst eftir að sérfræðingar allra mála hafa tekið völdin meira og minna í sínar hendur með þeim afleiðingum sem það hefur. Milljarðar hafa fengið að fjúka í tóma vitleysu og þjóðin fær að borga margfaldan gráðuskattinn !

 

Og undarlegustu umsagnir varðandi hin ýmsu mál koma oft frá mönnum sem ættu að vita betur. Þar virðist koma fram - allt að því ósjálfrátt - sú tilhneiging að verja kerfið og vitleysur þess hvað sem tautar og raular !

 

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sagði til dæmis nýlega í útvarpi varðandi Landeyjahöfn að sumir hefðu sagt að hún myndi sökkva í sand en ekki hefði það nú gerst. Jæja, hver væri staðan þar ef ekki væri búið að dæla ógrynni af sandi burt árum saman fyrir tugi ef ekki hundruð milljóna ? Hverskonar blekkingartal er þetta hjá þjóðkunnum reynslubolta í íslenskum sveitarstjórnarmálum ?

 

Málið er að raddir kerfisins skeyta oft lítið um sannleikann og því kemur oft upp staðan sem lýst er í vísunni góðu :

 

Satt og logið sitt á hvað,

sönnu er best að trúa.

En hvernig á að þekkja það

þegar flestir ljúga ?

 

Þegar búið er að sameina allar lygarnar sem í gangi eru til að rugla fólk enn frekar í ríminu, verður líklega hálfu erfiðara að henda reiður á sannleikanum ; eða hvort boðskapur að sunnan varðandi breytingar í stjórnsýslumálum hafi eitthvað gott í för með sér fyrir þá sem eiga að njóta hinna allt að því ósýnilegu ávaxta !

 

Að ofan kemur ýmislegt

sem ekki er gott að skilja,

er sérvaldið í sinni mekt

svínar á fólksins vilja !

 

Það er sýnilega ráðrík sameiningarstefna í gangi. Hún þarf svo sem ekki að vera alslæm, en margt er við hana að athuga, ekki síst það að valdið verður oftast fjarlægara og ópersónulegra, vald skriffinnsku og aukinnar kerfishyggju – sem endar kannski að lokum í Brussel !

 

Það er full ástæða til að fara varlega í öllum málum sem hafa með frelsi einstaklinga og almennings að gera og valkostir sem leyfa ekki að stigið sé til baka – ef mönnum hugnast ekki boðnar breytingar – hljóta jafnan að teljast tortryggilegir !

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 90
  • Sl. sólarhring: 279
  • Sl. viku: 1111
  • Frá upphafi: 309805

Annað

  • Innlit í dag: 79
  • Innlit sl. viku: 945
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband