Leita í fréttum mbl.is

Ný stjórnmálaforusta ?

 

Þegar maður lítur yfir söfnuðinn sem myndar stjórnmálaforustu Íslands í dag er ekki hægt að segja að það veki hjá manni vongleði og tiltrú. Helmingurinn er að verja mistök sem hann átti þátt í að gera hér á árum áður og mun aldrei fást til að viðurkenna. Hinn helmingurinn virðist aftur á móti svo fullur af virðingu og undirlægjuhætti gagnvart hinum ætluðu reynsluboltum, að hann sýnist albúinn til að elta dellur þeirra og dómgreindarleysi út í það óendanlega !

 

Samningur úr liðinni tíð eins og EES, sem hefur smám saman verið að breytast í hengingaról fyrir íslenska ríkið er því varinn, þó nánast allir ættu að vera búnir að sjá þá hættu sem hann býr yfir gagnvart sjálfstæði okkar og fullveldisrétti. Þeir sem samþykktu á sínum tíma að fara inn í forstofuna hjá Evrópusambandinu með þessum samningi, þóttust samt vera afskaplega klókir með þessum gjörningi og fá mikið fram fyrir okkar hönd. Sögðust svo bara labba út aftur einn daginn !

 

En raunveruleikinn talar öðru máli. Þeir í Brussel litu svo á og líta svo á enn - að úr forstofunni væri bara um það að ræða að ganga áfram inn í kastalann. Og valdstjórnin í Brussel er ekki til að leika sér að. Hún hefur allar götur síðan hert á sinni afstöðu og reglugerðarfarganið að utan er farið að standa öllu heilbrigðu íslensku framtaki fyrir þrifum og þá er ekki við góðu að búast !

 

Þetta vita margir nú sem vildu ekki trúa slíku fyrir nokkrum árum. En sannleikurinn er þegar orðinn þeim hinum sömu of beiskur. Þeir neita að horfast í augu við staðreyndir. Það er vont að keyra krefjandi málefni líðandi stundar áfram á sjónarmiðum afdankaðra stjórnmálamanna sem eru fyrst og fremst og síðast og fyrst að verja eigin feril !

 

Hvar er þjóðhollustan í slíkum tilfellum ? Hversu trúir eru slíkir fulltrúar hagsmunum þjóðarinnar þegar egóið þrammar fram og aftur í hugum þeirra eins og fullskipuð rómversk herdeild ? Núverandi valdamenn treysta sér ekki til að ganga í hreinsunarstarfið eftir EES vitleysuna vegna þess að það mun afhjúpa dómgreindarleysið sem sýnt var við umrædda samningsgerð og jafnframt kippa árunni að fullu frá höfðum ýmissa átrúnaðargoða !

 

Hvað á að láta hlutina danka lengi án þess að tekið sé á málum ? Hvað lengi á að leyfa hengingarólinni að styrkjast og hindra aðgang okkar að náttúrulegu og lífvænlegu súrefni ? Er frelsi í verslun og viðskiptum ekki það eina sem sæmir sjálfstæðri og fullvalda þjóð ? Af hverju fylgjum við ekki heilshugar slíkri stefnu ?

 

Aðildin að EES átti sinn þátt í ýmsum þeim fjármálaglæfrum sem komust á græðgislegginn og leiddu til hrunsins 2008 og fóru þannig með hagsmuni þjóðarinnar að í fyrstu virtist þar ekki standa steinn yfir steini. Allt komið í rúst !

 

En hvað hafa menn lært af þeim óförum ? Hvar er núverandi stjórnmálaforusta landsins stödd með stóra egóið sitt um þessar mundir ? Þetta 50% kauphækkunarlið sem segir að allt fari til fjandans ef launþegar landsins fá meira en 4% í sinn hlut !

 

Sjálfstæðisflokkurinn hafði í stjórnarandstöðu fyrir 1991 verið mjög gagnrýninn á aðildina að EES en til að mynda stjórn með krötum sneri Davíð Oddsson algerlega við blaðinu. Það var örlagaríkt fyrir Ísland og á eftir að sýna sig þannig enn frekar !

 

Aldrei var reynt í þessum efnum að ná tvíhliða samningi við ESB um fjórfrelsið án þess að Íslendingar yrðu aðilar að stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins. Í hruninu kom svo skýrt í ljós hve illa var sinnt um þjóðarhagsmuni Íslands innan EES !

 

Það á aldrei að rétta skrattanum litla fingurinn. Það var gert með því að gera EES samninginn og íslensk stjórnmálaforustu var þar á algjörum villugötum. Það er ekki í fyrsta sinn sem ráðamenn Íslands tefla hagsmunum þjóðarinnar í tvísýnu af ástæðum sem beinlínis hljóta að teljast utan við alla dómgreindarlega afstöðu !

 

Núverandi stjórnmálaforusta landsins mun vafalaust heiðra í öllu fjálglega 100 ára fullveldisafmæli lands og þjóðar á þessu ári og það í hverju orði. En hvernig skyldu menn standa hina raunverulegu vakt um fullveldi landsins ? Er það ekki kjarni málsins hvernig það er gert ? Og þá er það kýrljóst að þeir sem vilja hanga í hengingaról EES eru ekki að verja sjálfstæði og fullveldi landsins heldur þvert á móti !

 

Vægi afdankaðra pólitíkusa í núverandi stjórnun mála lands og þjóðar er allt of mikið. Þar eru of margir sem eru að verja rangar gjörðir úr liðnum tíma, verja sinn feril og sín mistök. Það er oftar en ekki gert á kostnað hagsmuna lands og þjóðar !

 

Raunverulega þurfum við nýja stjórnmálaforustu, sem er laus við spilltar tengingar við fortíðina og heldur sig fast við hið eina og sanna kjarnaatriði – sem er að vernda íslenskt sjálfstæði og fullveldi þeirrar þjóðar sem þarf að geta átt sitt frelsi óskert eins og allir aðrir. Fjöregg okkar verður aldrei öruggt í annarra höndum !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 120
  • Sl. viku: 1297
  • Frá upphafi: 316216

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1040
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband