Leita í fréttum mbl.is

Djöfullegt vald !

 

Enn er eitt voðaverkið framið í Bandaríkjunum og enn falla margir fyrir samborgara sem síðan tekur sitt eigið líf. Hvað er í gangi í Bandaríkjum Norður Ameríku ?

 

Það virðist augljóst að eitthvert djöfullegt vald nær tökum á hverjum manninum af öðrum, vald sem kallar á tortímingu lífs án þess að nokkur hafi til þess unnið. Markmiðið virðist vera það eitt að drepa bara einhverja og jafnvel sem flesta !

 

Hvaða vald er það sem fær menn til að kasta frá sér allri mennsku ? Gerir þá að skepnum og skrímslum í mannsmynd. Hvaða vald vekur upp í mönnum svo blint hatur og svo ofboðslega reiði að hugurinn nemur það eitt að drepa ?

 

Það vald er vissulega í öllu eðli sínu djöfullegt því í gegnum það rís makt myrkranna upp úr Víti sjálfu !

 

Lífsfirringin virðist orðið stórfellt samfélags-vandamál í Bandaríkjunum og ameríski draumurinn er sem óðast að snúast í ameríska martröð. Nokkur dæmi eru um hliðstæð voðaverk í öðrum löndum, en hvergi í þeim mæli sem þau birtast í Bandaríkjunum. Þar eru þau í algleymingi hryllingsins !

 

Hversvegna þetta djöfullega vald virðist eiga greiðari leið að fólki í Bandaríkjunum er mikil spurning og beinir athyglinni helst að samfélagsgerðinni. Hliðstæð voðaverk virðast líka heldur eiga sér stað þar sem eftirfylgni við bandarísk lífsviðhorf er í meira lagi !

 

Það er enganveginn ásættanlegt að búa við það að nánast hver sem er í umhverfi manns geti brjálast og skotið fólk niður án nokkurrar skýringar. Hver truflast næst, er það nágranninn, sem verður vitlaus, einhver löggæslumaður, hermaður í leyfi eða bara einhver ? Alls staðar er nóg af drápsvopnunum. Það virðist ekki þurfa annað en að opna skúffu á bandarísku heimili til að finna skotvopn, tilbúin til notkunar !

 

Svo segja ráðamenn sem þykjast vera ábyrgir, að þetta hafi ekkert að gera með galopið aðgengi að vopnum. Og á meðan þeir tala, falla saklausir borgarar í tugatali fyrir morðsjúkum einstaklingum sem ganga um alvopnaðir meðal fólks – helteknir djöfullegu valdi sem knýr þá til ódæðisverka, knýr þá til að breyta lífi í dauða !

 

Bandaríkin eru augljóslega minna varin en önnur ríki fyrir þessum ófögnuði. Þau hafa kallað þetta yfir sig öðrum ríkjum fremur. Hver er skýringin ?

 

Það er áreiðanlega til lítils að hafa skrifað einhversstaðar í skinhelgi - In God We Trust - og treysta svo sýnilega á allt annað. Það ríki er aumt sem getur enganveginn verndað eigin borgara fyrir eigin annmörkum og sjálfsköpuðum voða. Þar er lífið í umgerð sem er langt frá eðlilegum kringumstæðum !

 

Bandarísk yfirvöld hafa sýnilega í hroka sínum haft forgöngu um það að hleypa að þjóðinni öflum sem ekkert hafa í för með sér nema tortímingu lífs og heilbrigðra gilda. Þeim er ekki sjálfrátt og efnishyggjan og auðvaldið blindar þau alveg. Það er nánast gangandi Úteyjarástand um öll Bandaríkin. Leitin að hamingjunni hefur þar snúist í andstæðu sína !

 

Hver hefur sinn verndarengil og hver hefur sinn djöful að draga segir Heilög Ritning. Það er ekki erfitt að sjá hvort aflið er drýgra í bandarísku samfélagi. Af hverju víkur þar hin guðlega vernd, og af hverju margfaldast hið djöfullega vald með þessum hætti, svo hvert voðaverkið tekur við af öðru ? Það er eitthvað mikið að í samfélagi þar sem svona atburðir eru að verða daglegt brauð !

 

Bandaríkjamenn þurfa að hætta að þykjast alltaf vera að taka til hjá öðrum, já, út um allan heim. Það er löngu kominn tími til þess að þeir taki til hjá sjálfum sér, taki til heimafyrir, þar sem þjóðarheimili þeirra er blóði drifið og fórnarlömbin liggja sundurskotin á víð og dreif, ekki síst ungt fólk sem ætti að eiga framtíðina fyrir sér !

 

Ætla bandarísk yfirvöld aldrei að vitkast ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 197
  • Sl. viku: 1432
  • Frá upphafi: 315602

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1153
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband