Leita í fréttum mbl.is

Um söguvillta sagnfræði !

Það er vel þekkt staðreynd að sumir fá allt aðra og betri stöðu í Sögunni en þeir hefðu átt skilið. Salah-ad-Din er til dæmis mjög lofaður, en sögur um göfgi hans og réttsýni eru líklega talsvert orðum auknar. En Ríkharður ljónshjarta, andstæðingur hans í þriðju krossferðinni, er þó miklu fremur með sögulega gyllingu þvert á staðreyndir og verðleika !

Ríkharður hefur í bókmenntum og ýmsum eftirmælum verið gerður að enskri þjóðhetju og á skoski rithöfundurinn Walter Scott þar líklega töluverðan hlut að máli. En Ríkharður var fyrst og fremst franskur að uppruna og öllu eðli og lét sig litlu skipta málefni Englands og allra síst til góðs fyrir alþýðu manna.

Konungur Englands var hann í tíu ár frá 1189 og stóð sig sem fyrr segir illa í þeirri stöðu. Hann mun aðeins hafa dvalið í Englandi í nokkra mánuði á ævinni, talaði frönsku og lærði aldrei að tala ensku. Kvartaði hann yfir veðurfarinu í Englandi þann stutta tíma sem hann var þar og kunni að flestu leyti lítt við sig þar eins og kemur víst fyrir Fransmenn enn í dag !

Ríkharður stundaði það á flestan hátt sem Englandskóngur að pína fé út úr ensku þjóðinni fyrir eigin græðgishít og til áframhaldandi stríðsrekstrar á meginlandinu. Þar stóð hann í linnulítilli styrjöld við Filippus II. Ágústus Frakkakonung og féll að lokum í þeim bardögum.

Fall hans var á engan hátt sérstakur skaði fyrir England. Eftirmaður hans og bróðir í hásæti Englands var John, sem hefur lengstum búið við afleit eftirmæli sögunnar og líklega að verðleikum. Hann er þar oft kallaður hinn landlausi, John Lackland.

Þar sem Ríkharður ljónshjarta var ekki nema rúmlega fertugur að aldri þegar hann féll frá, er fróðlegt að velta því fyrir sér hver framvinda mála í Englandi hefði orðið ef hann hefði lifað og haldið völdum eitthvað lengur. Ætla má að maður af hans gerð hefði seint fengist til að undirrita Magna Carta frelsisskrána, eins og John bróðir hans neyddist til að gera sextán árum síðar. Hefði Ríkharður verið konungur þá hefði það því getað breytt sögu Englands talsvert og að öllum líkindum til hins verra.

Það er mjög undarlegt að Walter Scott skyldi fara þá leið í sögum sínum Ívari hlújárn og Kynjalyfinu, að stilla þar Ríkharði ljónshjarta upp sem enskri þjóðhetju. Það er kunn staðreynd að Scott var stoltur af sínu þjóðerni og vildi veg Skota sem mestan, en sennilega hefur honum ekkert verið sérlega hlýtt til Englendinga fremur en mörgum Skotanum var og er.

Í hinum mörgu deilum og styrjöldum Skota við Englendinga fyrr á öldum nutu þeir fyrrnefndu hinsvegar lengst af stuðnings af hálfu Frakka og margháttuð tengsl og góð voru þá á milli þjóðanna. Má til dæmis nefna að móðir Maríu Stúart var frönsk og af hinni áhrifamiklu hertogaætt Guise sem á þeim tíma réð miklu í ríkismálefnum Frakklands.

Það er því allra hluta vegna nokkuð skemmtilegt að hugsa til þess að skoskur rithöfundur, með sterka tengingu við sögu sinnar þjóðar, skuli hafa átt mikinn þátt í því að gera franskan Englandskóng að enskri þjóðhetju, þvert á allar sögulegar staðreyndir og réttan veruleika !

Maður veltir því jafnvel fyrir sér hvort þetta hafi verið úthugsuð kaldhæðni af hálfu Scotts, að heiðra þannig hin sögulegu tengsl Skota við Frakka með vissum hætti og ná sér um leið niðri á þeirri þjóð sem hann vissi vel að var öllum þjóðum fremur hinn forni fjandi skosku þjóðarinnar. Það er að minnsta kosti mikil spurning hvað honum getur hafa gengið til með þessari kolröngu sögutúlkun sinni ?

Það er nefnilega enginn vafi á því að Scott vissi vel að túlkun hans á persónu Ríkharðs og framgöngu gekk þvert á allar staðreyndir og því er það mjög furðulegt að hann skuli hafa umsnúið svo málum frá öllu því sem rétt var. En því miður er engin skýring fyrir hendi á þessu uppátæki Scotts af hans hálfu !

Hinsvegar eru til ýmis fleiri tilfelli um það að ætlaðar þjóðhetjur hafi nú ekki beinlínis svarað til þeirrar lýsingar sem í veðri hefur verið látin vaka. Má þar til dæmis nefna El Cid á Spáni. En þó er líkast til fáheyrt að maður af annarri þjóð taki það upp hjá sér að búa til þjóðhetju fyrir þjóð, sem lengi vel var helsta fjandaþjóð þjóðar hans, nema háð og spott hafi búið þar að baki ?

Englendingar sjálfir gætu svo sem átt það til að gera ýmsa að enskum þjóðhetjum, hvað svo sem sagan segir, en einn maður hefur þó líklega þá sérstöðu í sögu Englands að hann verður aldrei talin fullgild ensk þjóðhetja, sem hann þó að ýmsu leyti var. Það er Oliver Cromwell !

Ástæðan mun líklega fyrst og fremst vera sú að Cromwell var ekki nein konungssleikja og þar að auki gallharður Púritani. Hann fellur því áreiðanlega seint inn í enskan hofmóð og hræsnistúlkun efri stétta á sögulegri framvindu, enda hefur löngum margt verið gert til að gera lítið úr honum. En stórvirki Cromwells eru söm fyrir því og hafa ber í huga að hann barðist fyrir stjórnarfarslegum réttindum ensku þjóðarinnar en ekki gegn þeim eins og kóngarnir oftastnær gerðu. Þar er mikill munur á !

Varðandi Ríkharð ljónshjarta vil ég aðeins að lokum segja, að það sé svo sem mátulegt á Englendinga að sitja uppi með franskan mann sem enska þjóðhetju, en það verður samt aldrei sagnfræðilega rétt frekar en margt annað í mannkynssögunni eða þá enskri sögu !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 71
  • Sl. sólarhring: 200
  • Sl. viku: 1321
  • Frá upphafi: 316711

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1029
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband