Leita í fréttum mbl.is

Þriggja punkta þenkingar

Það getur vissulega verið margt spaugilegt í tilverunni þegar að er gáð. Stundum fara hlutirnir alveg þvert á það sem væntingar manna hafa staðið til. Athafnir sem hafa miðað að því að gera tilteknum manni óleik geta því snúist upp í það að verða þeim hinum sama til ávinnings.

Þannig var það til dæmis með ádeilu Jóhannesar Bónuskaupmanns á Björn Bjarnason. Jóhannes sem þarf ekki að horfa neitt sérstaklega í peninginn, spreðaði a.m.k. nokkrum hundraðþúsundköllum í auglýsingar eins og kunnugt er, trúlega til að valda Birni pólitískum ófarnaði.

En allar líkur eru hinsvegar á því að þetta útspil Jóhannesar hafi orðið Birni til framdráttar. Sennilega hefði Björn orðið að víkja sem ráðherra núna við stjórnarskiptin, en vegna inngrips Jóhannesar gat Geir Haarde auðvitað ekki fargað Birni. Það hefði komið út eins og það hefði verið gert eftir beinni pöntun frá Baugi.

Jóhannes skapaði því Birni Bjarnasyni hreina ráðherra-líftryggingu með  auglýsingunum og var það þó áreiðanlega ekki ætlun hans eða vilji.

Skemmtilegt er að sjá að þessi útgjöld Jóhannesar virðast þannig hafa komið Birni beint til góða. Ég segi skemmtilegt, því niðurstaðan er mátuleg á Jóhannes. Hann notaði auð sinn til að reyna að klekkja á manni sem embættislega er í þjónustu þjóðarinnar og sú aðferð er ekki geðfelld. Jafnvel þó Jóhannes kunni að hafa ýmsar málsbætur, voru þessar auglýsingar mistök af hans hendi og útkoman eftir því. Vopnin geta stundum snúist illilega í höndum færustu manna.

Trúlega hefur glöggskyggni Jóhannesar verið talsvert meiri þegar hann var að koma Bónusveldinu á stofn á sínum tíma, en þetta sýnir líklega að öllum förlast með aldrinum.

***

George W. Bush var nýverið á einhverjum flækingi um heimsbyggðina og skiljanlega fáum til skemmtunar. Hann kom við í Albaníu til að hressa sjálfsálitið, en þar virðast ótrúlega margir líta á hann sem stórmenni. Sennilega byggist sú afstaða manna  alfarið á því að Bushinn virðist inn á því að leggja Kosovohérað, órjúfanlegan hluta Serbíu, undir Albani og þar með Albaníu síðar meir. Það segir vafalaust ýmsum hvernig þeir eiga að fara að því að leggja undir sig annarra arfleifð. Þegar nýbúar eru orðnir í meirihluta í tilteknum landshluta, er krafist sjálfstæðis og síðan er hægt með tíð og tíma að sameinast heimalandinu hinum megin landamæranna.

Bandaríkin hafa alltaf verið andvíg því sem þau nú virðast vilja koma á í Kosovo. Hefðu þau fylgt þessari nýju stefnu árið 1861, hefðu Suðurríkin væntanlega átt framtíð fyrir sér sem sjálfstætt ríki.Er Bush þá að segja að  Norðurríkin og Abraham Lincoln hafi haft rangt fyrir sér í deilu þeirri sem leiddi til amerísku borgarastyrjaldarinnar ?

En sleppum því, snúum að núinu. Bush var þarna í Albaníu innan um vini sína og banda og vandamenn, en þá uppgötvast allt í einu að úrið hans er horfið. Já horfið með öllu sínu Stars and Stripes skrauti.

Jafnvel þarna –  í hópi albanskra aðdáenda forsetans heillum horfna, - virðist hafa verið til staðar manneskja sem vildi sýna Bush að það væri kominn tími á hann !

Því hvað undirstrikaði það betur en einmitt þessi gjörningur, að taka af honum úrið ?

***

Það dylst ekki neinum, að ýmsir þungavigtarmenn tengdir Framsóknarflokknum eru ekki sérlega hressir yfir því að Guðni Ágústsson sé orðinn formaður flokksins. Það er talað um að það þurfi að yngja upp og endurnýja og látið í það skína að Guðni greyið sé nátttröll frá fyrri tíð eða risaeðla sem eigi bara að vera á safni og skemmta þeim sem þangað koma.

En hver veit nema Guðni reynist bara skaplegasti formaður ? Hann hefur margháttaða pólitíska reynslu og er þjóðmálasviðinu vanur.

Ég er ekki að segja að ég hafi álit á honum, nei, nei, því fer fjarri, en mig grunar að þessir menn sem hafa verið, svona undir rós og allavega, að höggva í Guðna, hafi annarlegar ástæður fyrir breytni sinni. Ef til vill óttast þeir frekar að hann kunni að standa sig sem formaður og efli þannig þær málaáherslur í flokknum sem hann hefur talið sig standa fyrir – og þær áherslur eru trúlega það sem þessir menn vilja ekki upp á borðið.

Það eru nýkapitalistarnir í Framsóknarflokknum, peningafurstarnir og arftakar samvinnuforstjóranna, þeir sem hafa blómstrað undanfarin ár í samvörðu skjóli stjórnarþátttöku flokksins, sem hræðast það nú að Framsókn fari að halla sér aftur að þjóðlegum samfélagsáherslum eftir tólf ára frjálshyggjufyllerí með Sjálfstæðisflokknum !

Og vissulega er Guðni þegar farinn að tala með þeim hætti að aumingja mennirnir búa nú við þessar áhyggjur, en hvort hann meinar nokkuð með því sem hann segir – það er svo önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 400
  • Sl. viku: 1422
  • Frá upphafi: 315403

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 1139
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband