Leita í fréttum mbl.is

UM LÆRÐA ASNA OG LÍTIÐ VIT

 


Það er alkunn staðreynd að þegar smíða á eitthvað sem þarf að vera traust og ábyggilegt, þarf að velja efniviðinn vel. Deigir málmar nýtast ekki eins og stál og greni er ekki það sama og eik. Náttúrulegar eðliseigindir hljóta alltaf að skipta miklu þegar hugmyndin er að skapa eitthvað sem á að skila sér verulega vel. Þau grundvallaratriði hafa ekki síður mikið að segja þegar búa á til úr mönnum meiri menn í krafti aukinnar menntunar.

Við lifum á tímum þar sem búið er að gera hugtakið  - menntun -  að miklu töfraorði. Sumir ganga svo langt í opinberri umræðu að tala eins og menntun sé lausnin á öllum vandamálum heimsins. Það þurfi bara að mennta alla og þá sé allt komið í himnalag. Menntunin muni leiða allt mannkynið til ljóss og friðar.

Slíkar staðhæfingar eru fjarri öllum sannleika, þar sem menntun getur stundum beinlínis verið orsök vandamála og nægir þar að benda á afleiðingar menntahroka manna fyrr og síðar. Það er heldur ekki margt sem segir okkur í gegnum almenna skynsemi að menntaða fólkið sé besta fólkið í heiminum. Margir myndu hiklaust telja að því væri þveröfugt farið.

En nútíminn býður upp á meira aðgengi að svokallaðri menntun en áður hefur þekkst og í dag erum við að mennta fólk langt umfram það sem efniviðurinn býður upp á. Þó að fólk fari með einum eða öðrum hætti í gegnum skólakerfið og fái sínar gráður þar, getur veruleikinn sýnt það með skýrum hætti, að þrátt fyrir langskólamenntun geta menn verið mestu asnar.

Þegar allir ætla að verða sérfræðingar kemur einfaldlega í ljós að það hafa ekki allir innviðina til þess. Sumir eru bara þannig gerðir að þeir eru asnar að upplagi og menntakerfið er ófært til að af-asna þá. Þeir skakklappast einhvernveginn í gegnum skólana en verða þó aldrei meira en lærðir asnar eftir menntunina.

Og þó að venjulegur asni geti svo sem verið nógu afleitur í mannlegum samskiptum, þá þarf enginn að velkjast í vafa um það að lærður asni er honum miklu verri.

Þessir lærðu asnar fá margir hverjir ýmis embætti, einkum í ríkiskerfinu, út á gráður og loðin lærdómsstig, og geta þannig orðið beinlínis hættulegir fyrir samfélagið. Þeir fá völd sem þeir eru ekki menn til að fara með og geta þannig valdið miklum skakkaföllum og þurfa þó sjaldnast að bera nokkra ábyrgð þegar illa fer. Þegar asnaskapurinn sem veldur skaðanum kemur í dagsljósið, er nefnilega fyrsta spurningin : Hver réði þennan asna ?

Þá berast böndin að öðrum og hvar endar það ? Af þeirri ástæðu hefur kerfið  jafnan kosið að vernda sína asna og samtryggja asnaskapinn. Það fer þó senn hvað líður að verða óvinnandi verk þar sem menntuðum ösnum hraðfjölgar.

Það má heita að nú sé staðan sú,  að þar sem einn slíkur asni var fyrir hendi fyrir aldarfjórðungi séu tíu í dag og þó að menntakerfið reyni stöðugt að gera greni að eik eða ál að stáli, þá gengur það ekki og mun aldrei ganga því efniviðurinn leyfir það ekki.

Með öðrum orðum, það geta ekki allir orðið fræðingar og forsjármenn annarra.

Þegar asnar eru látnir fá forustuhlutverk út á menntun sem þeir hafa fengið með einhverjum framhjáhlaupum í skólakerfinu, er ekki sáð fyrir vænlegri útkomu. Og þegar menn sem almennt hafa verið taldir skynsamir láta leiðast af slíkum ösnum er full ástæða til að efast um skynsemi þeirra. Þjóðfélag sem er að fyllast af lærðum ösnum er því ekki á góðum vegi þegar litið er til framtíðar. Það nýtur kannski enn ávaxtanna af verkum fyrri kynslóðar, en stendur ekki að gæfulegri sáningu í eigin lífsverki.

Menntun er hverju þjóðfélagi eðlilega mikil nauðsyn, en sú ofuráhersla sem lögð hefur verið á hana í seinni tíð hefur að sumu leyti verið skaðleg. Þjóðin þarf á fleirum að halda en langskólagengnu fólki og margt af því fólki sem í dag hefur skriðið með harmkvælum út úr þessu skólakerfi okkar hefur einfaldlega ekki þá andlegu burði sem ættu að liggja til grundvallar menntunarstigi þess.

Það gengur fram í hroka og sjálfsdýrkun sem sýnir hvað andlega hliðin er lítilfjörleg og gerir lítið annað en að vera hluti af hinum sístækkandi hópi hinna lærðu asna. Í þeim hópi virðist almenn dómgreind vera nokkuð sem kemur ákaflega lítið við sögu.

Ég á vissulega þá frómu framtíðarósk til handa þjóð minni, að hún megi verða sem mest laus við lærða asna og þeirra forsagnir, og fari jafnan sem mest eftir því sem er í takt við almenna skynsemi.

Hinsvegar verður að segjast eins og er, að flest virðist benda til þess að ferli mála sé og komi áfram til með að verða alveg öfugt við þessa frómu ósk.

Ég óttast því að komandi tímar eigi eftir að verða býsna asnalegir !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 48
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1477
  • Frá upphafi: 315647

Annað

  • Innlit í dag: 34
  • Innlit sl. viku: 1186
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband