Leita í fréttum mbl.is

ÚTRÁSARPISTILL

Við lifum á tímum sem rugla fólk illilega í ríminu gagnvart eigin stöðu og annarra. Viðmiðunaráráttan setur mark sitt á flesta ef ekki alla og enginn vill standa öðrum að baki hvað varðar svokölluð lífsgæði. Baráttan fyrir gerviþörfunum er þegar orðin grimmari en hún var í gamla daga fyrir frumþörfunum. En réttlæting hennar er engin í samanburði við frumþarfabaslið.

Í gerviþarfabaráttu tapast alltaf meira en það sem vinnst, vegna þess að sú barátta byggir á fölskum forsendum og styrkir ekkert sem er mannlegt og gott.

Efnisleg verðmæti hafa verið sett á stall sem aldrei fyrr á kostnað andlegra verðmæta. Auðgildi hafa öðlast tilbeiðslu á ný eins og á tímum rómverska keisaraveldisins og auðvitað á kostnað manngilda. Siðferðisstaðlar hafa verið stórlækkaðir undir yfirskyni frelsis og mannréttinda og með því hefur verið dregið úr styrk löglegra yfirvalda til að halda við stoðum heilbrigðs mannfélags.

Öfugsnúin hugmyndafræði ræður ríkjum í fjölmiðlum og stöðugt er verið að tala máli þeirra sem naga utan af þeim grunni sem þjóðfélag okkar stendur á.

Íslenskir fjölmiðlamenn hafa verið iðnir við að tala máli innflytjenda og það virðist siðvenja þeirra að draga fram einstök dæmi sem eiga að sýna kynþáttahatur landans og illmennsku hans í garð þeirra sem eru sagðir koma hingað til að hjálpa okkur til að vinna störfin sem við viljum ekki vinna. Innflytjandi sem á við einhverja erfiðleika að stríða er óðar kominn í sjónvarp eða útvarp og reynt að afla samúðar með honum en þegar eins stendur á fyrir íslenskum manni er það ekki talið fréttaefni.

Hannes Hólmsteinn, sérfræðingur hægri manna varðandi lífskjör hérlendis, skrifar lærðar ritgerðir um hvað allt hér sé gott og blessað og skýrir allt út frá meðaltali. Það þýðir ekkert fyrir Stefán Ólafsson að benda á dæmi um afturför eða íslenska fátækt, Hannes Hólmsteinn er óðar kominn með meðaltalsútreikninga sína og samkvæmt þeim er engin fátækt á Íslandi. Björgólfarnir og fleiri slíkir geta nefnilega léttilega lyft meðaltalinu upp í hinar gullnu hæðir.

Velferðin á Íslandi hefur t.d. aldrei orðið slík að starfandi ríkisstjórn hafi talið fært að fella niður hið svívirðilega stimpilgjald sem er einn versti ræningjaskattur sem þekkist á byggðu bóli. En meðan stimpilgjöld eru innheimt hér er tómt mál að tala um velferð. Að hugsa sér að ungt fólk sem er að berjast við að eignast húsnæði fyrir nýstofnaða fjölskyldu, skuli við þær erfiðu aðstæður þurfa að borga slíkan skatt til ríkisins. Það er hneisa og hverri íslenskri ríkisstjórn sem situr án þess að taka á því máli til ævarandi skammar.

Af hverju eru húsnæðiskaup, sem er fjárfesting en ekki neysla, skráð inn í neysluvísitölu sem lögð er til grundvallar verðbólgustöðunni í landinu ? Liggur ekki fyrir að verðbólgan sem verið hefur um 5,2 % væri um 1,9 % ef húsnæðiskostnaðurinn væri ekki skráður í neysluvísitöluna ?

Með því að breyta þessu væri með einföldum hætti unnt að færa þeim sem eru að kaupa íbúðir stórfellda kjarabót. Þetta hafa ýmsir bent á en valdaelítan hlustar ekki á eitt eða neitt og fer bara sínu fram í hroka sjálfumgleðinnar.

Og hvernig er með verðtryggingu lána sem þekkist ekki í þeim löndum sem við helst miðum okkur við ? Hvar er viljinn til að leggja hana af ?

Lánafyrirgreiðsla til íbúðarkaupa hérlendis er í svívirðilegu fari vegna þessarar verðtryggingar og hátt í helmingi hærri en víðast annarsstaðar þekkist.

Menn hafa gumað af fjármálasnilli íslenskra bankamanna, það er talað um útrás og fleira. Bankarnir hafa verið einkavæddir, sem þýðir að þeir hafa verið gefnir útvöldum yfirlýstum snillingum, en þessir menn þurfa samt að hafa sérstakar forréttindareglur til að geta rekið þessi fjármálaskrímsli sín.

Meðan þetta verðtryggingar-arðrán heldur áfram á Íslandi er ekki hægt að tala um neina velferð. Vandamálið er að við höfum alltaf aumingja við stjórn í þessu landi. Það eru engir stjórnskörungar við lýði á Íslandi - aðeins litlir karlar þó sumir þeirra séu og hafi verið með stórar bláar hendur.

Konurnar sem ætluðu fyrir 25 árum eða svo að siðbæta íslenska pólitík, þvo burt alla spillingu, gera þjóðfélagið fjölskylduvænna og náttúrugrænna, hafa allstaðar, í öllum flokkum, apað eftir körlunum og eru síst betri en þeir. Þær tala eins og þeir og þræða nákvæmlega í þeirra spor, ekki síst í ósiðunum. Aukin innkoma kvenna í pólitíkina hefur ekki skilað neinu til hagnaðar fyrir þjóðfélagið. Enda var aldrei við því að búast. Sú ímyndun að það sem er á milli fótanna á fólki ráði hugsunargangi þess var náttúrulega og er firra.

Konur eru ekki síður valdagráðugar en karlmenn og hugsanir þeirra hverfast um feril og frama alveg eins og hjá körlunum. Og það virðist ærin þörf að taka það fram varðandi konur að hugsanir þeirra búa í toppstykkinu en ekki fyrir neðan naflann !

Íslensk velferð, bull og kjaftæði ! Þetta borgríki er á hraðri ferð út í vitleysu og hin rómuðu fjölskyldugildi falla eitt af öðru í Mammonsginið sem er að hakka allt í sig við ötulan stuðning stjórnvalda.

Landsbyggðin er að drepast, enda svelt til hins ítrasta. Menningarhúsin verða þar síðustu minnisvarðar þjóðar sem varð að borgarlýð !

Og innflytjendamálin, þvílík reginheimska hefur ráðið í þeim málum síðustu 15-20 árin ! Börnin okkar eiga eftir að þakka okkur fyrir það hvað við sváfum illilega á þeim verði - eða hitt þó heldur !

Nú er svo komið að íslenskir iðnaðarmenn eru ýmsir áhyggjufullir um að verið sé að ráðast að áunnum kjörum þeirra með því að flytja inn erlenda iðnaðarmenn í stórum stíl. Þannig er víða leitast við að þrýsta  niður lífskjörum fólks.

En fjölmiðlamenn taka létt á þeim vanda og virðast aðeins vilja fjalla um vandamálin frá sjónarhóli hagsmuna innflytjenda eins og að framan greinir.

Það þyrfti kannski að færa vandann til svo hann brynni á þeirra eigin skinni.

Nú liggur fyrir að fjölmiðlamenn í Austur-Evrópu hafa víða misst atvinnu sína við stórbreyttar aðstæður þar. Það væri því fróðlegt að vita hvernig íslenskir fjölmiðlamenn brygðust við ef við myndum flytja inn svo sem 500  fjölmiðlamenn austan úr álfu og byðum þeim vinnu hér á helmingskjörum miðað við íslenska fjölmiðlamenn. Ég hugsa að þá myndi hljóðið fljótlega breytast í þessu sjálfskipaða varnarliði hins skjámyndaða réttlætis !

Á ekki sýnin til framtíðar að vera þjóðleg hjá þeim sem þykjast vera vörslumenn almannaheilla  ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 1432
  • Frá upphafi: 315602

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1153
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband