Leita í fréttum mbl.is

Alþjóðlega fjármálaríkið - Ísland - halló, halló !


 Þegar íslensku bankarnir voru einkavæddir og yfirlýstir fjármálasnillingar landsins komust út í takmarkalaust markaðsfrelsið, byrjaði nýr kapítuli í sögu þjóðarinnar. Alikálfarnir hlupu út í vorblíðuna og slettu rosalega úr klaufunum.

Hin fjármálalega útrás var hafin með glans og ekki skyldi lengur í neinu miða markhópinn við þessar þrjú hundruð þúsund kuldakræklur hérna uppi á klakanum. Hagfræðingar og verðbréfaspámenn, greiningarsérfræðingar og gróðaspírur af öllu tagi fóru á handahlaupum upp metorðastigana í bankakerfinu hver í kapp við annan.

Umræðan sem áður hafði að mestu tekið mið af litla Íslandi, fór nú að snúast um miklu stærri hluti. Menn ætluðu nefnilega að leggja heiminn að fótum sér !

Nú var líka farið að tala um milljarða þar sem áður var talað um milljónir.

Svo var farið að agnúast út í litla krónu og lítið hagkerfi og vöntun á betri spilaaðstöðu.  Það væri geysilega aðkallandi þörf fyrir alþjóðlegan gjaldmiðil og miklu stærra hagkerfi svo svigrúm yrði fyrir ótakmarkaða hæfileika hinna íslensku fjármálasnillinga.

Óánægjan fór því brátt að krauma í fjármálaséníunum sem voru ekki lengi ánægð með að hafa fengið bankana okkar á pólitískri útsölu.

Það var fárast út í smáborgaraskapinn hér heima og nesjamennskuna, aumingjadóminn á öllum sviðum og talað um að menn ættu að tengja sig við nýja tíma, hugsa stórt og vera framsýnir.

Fjölmiðlar voru teknir í áróðursþjónustu hinna nýju viðhorfa og látnir pumpa í sífellu fréttum um hvað það gæti verið miklu betra að eiga fjármálalegt heimili við aðrar og betri aðstæður, t.d. í Brussell, og kaupa sína matarkörfu þar.

Það mátti segja að það væri stöðugt verið að hella óþjóðlegum viðhorfum yfir landslýðinn því eins og menn vita þekkir fjármagnið engin landamæri og allra síst útþenslufjármagn, fengið að láni hér og þar, en einkavæddir bankarnir voru í óða önn að fjárfesta erlendis með gunnfána útrásarmarkmiða við hún.

Og almenningur á Íslandi sem hafði til þessa verið sæmilega sáttur við þjóðlega stöðu sína, fór smám saman að trúa því að við ættum að hegða okkur eins og við hefðum ótakmarkaða vaxtarmöguleika í efnahagslegu tilliti.

Gömul ráðdeild hvarf á nokkrum árum og andi neysluhyggjunnar fór í hæðir með tilheyrandi eyðslu og vellystarfylleríi. Allskyns verslunarkort ýttu undir aukin útgjöld fólks og endalaus gylliboð runnu í stríðum straumum inn á borð neytenda.

Svona gekk það eiginlega ótrúlega lengi, en svo kom skyndilega dálítið bakslag í málin. Bankarnir sem höfðu talað fyrir framsýni og voru með heilan her á launum til að greina sérhvern vanda með góðum fyrirvara, stóðu allt í einu frammi fyrir því að væntingar þeirra voru ekki að skila sér.

Skyndileg dýfa á fjármálamörkuðum kom þeim í opna skjöldu og offjárfestingar hinnar hóflausu bjartsýni leiddu til erfiðrar rekstrarfjárstöðu og allt í einu var leikur alikálfanna að breytast í það að verða að martröð þjóðarinnar.

Byrjað var að tala með nýjum hætti, þingmenn úr hópi sjálfstæðismanna fóru að tala um að bjarga yrði bönkunum, og skyndilega fór fólk að átta sig á því að sérgæskuliðið vildi hafa ríkisábyrgð í bakhöndinni fyrir hin einkavæddu fjármálamusteri !

Það var nýbúið að gera kjarasamninga þar sem verðbólgugrýlan var óspart notuð á almenning, en fyrrnefndir þingmenn virtust telja að verðbólga væri ekki það versta, aðalmálið væri að bjarga bönkunum, þó almenningur yrði að axla kostnaðinn.

Sem sagt, búið er að gera marga meira en forríka í gegnum einkavæðingu bankanna, en þjóðin á að bera alla ábyrgð ef illa fer.

Svona var þetta með Flugleiðir, sótt um óafturkræfan styrk til ríkisins þegar illa áraði, en hluthöfum greiddur arður eftir veltuár.

Ólafur Þ. Stephensen skrifaði leiðara í 24 stundir 20. mars sl. um einkavæðingu og er það nokkuð skrautleg lesning. Hann talar þar um að markmið einkavæðingar eigi að vera auðstjórn almennings, en heldur illa hafi tekist til í ýmsu og nefnir hann t.d. sölu Símans. Þar hefðu menn getað alið einkavæðingunni óskabarn, en málum verið klúðrað !

Halló, halló, var málum klúðrað ? Var framkvæmdin ekki einmitt eins og að var stefnt - í raun og veru ?

Allt í þessu ferli gengur út á eitt, að færa eigur í almannaeign til séraðila  - á tombóluverði. Þegar menn reyna að segja að ríkiseignir ( eignir almennings ) eigi að fara í einkavæðingu til þess að fólkið geti eignast þær, er um svo ótrúlega vitleysu að ræða í málflutningi að engu tali tekur.

Síminn átti t.d. að geta boðið upp á mun betri kjör eftir einkavæðinguna, en hefur einhver orðið var við þá kjarabót ?

Nei, það er aldrei stefnt að því að gera eitthvað fyrir almenning með einkavæðingu - það veit Ólafur Þ. Stephensen jafnvel og ég, og að gefa almenningi kost á að kaupa fyrir hundruðir milljóna eða milljarða eignir sem hann á í sameiginlegum potti fyrir, er íhaldsgálgabrandari af versta tagi.

Geir H. Haarde sagði í sjónvarpi nýlega vegna þotumálsins, að hann hefði ekki staðið þannig að málum á sínum ferli að fara illa með fjármuni almennings !

Ég er samt einmitt á því að það hafi hann og Sérhagsmunaflokkurinn hans gert undanfarin ár - meira en nokkru sinni áður.

Ragnar Önundarson segir í grein í Mbl. að bankarnir hafi verið reknir eins og óregluheimili og vandar þeim ekki kveðjurnar sem hafa haldið þannig á málum. Kona sem þekkir vel til í bankaheiminum sagði í sjónvarpi nýlega að allir þar hefðu verið svo hugfangnir af útrás og stækkun - að það mátti bara ekki tala um að fara varlega. Það var strax stimplað sem neikvæð hugsun og niðurrifstal eins og hjá Danskinum sem átti bara að vera svo öfundssjúkur vegna hinnar íslensku fjármálasnilldar.

Nei, það mun verða leitt í ljós, þó síðar verði, að kvótakerfið til sjávar og sveita, einkavæðingin á bönkunum, Símanum o.fl. hefur farið verr með lýðræði á Íslandi og almenningshagsmuni en nokkuð annað í allri lýðveldissögu þjóðar okkar.

Og aðalsökudólgurinn í þeim efnum er auðvitað stóri Sérhagsmunaflokkurinn og hækjan sem hann studdist við til óþurftarverkanna.

Það ber að hafa í huga þegar að reikningsskilunum kemur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 43
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 1472
  • Frá upphafi: 315642

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1184
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband