Leita í fréttum mbl.is

Um ábyrgð sem reynt er að þurrka út

 

Hverjir eru ábyrgir fyrir því efnahagslega hruni sem dunið hefur yfir land og þjóð á undanförnum dögum ?

Hverjir bera ábyrgðina á fjölda harmleikja sem átt hafa sér stað vegna fjárhagstjóns hjá einstaklingum og fjölskyldum í þessu landi ?

Það er mörgum ljóst hvar í flokki þeir standa sem vilja segja með Geir Haarde forsætisráðherra, að ekki megi persónugera vandann. En vandinn er skapaður af persónum og hefur þannig persónugert sig sjálfur.

Allt tal um annað eru einungis tilraunir vissra manna til að forða þeim sem sekir eru undan afleiðingum gerða sinna og kannski sjálfum sér um leið.

Það verður að rannsaka þessa hluti og komast til botns í því sem gerðist og greina frá því hvernig það gat gerst. Við verðum sem þjóð að moka okkur í gegnum skítahauginn og gera málin upp. Annars lærum við ekkert af þessu og sitjum til langframa í öllu svínaríinu, blind og sinnulaus.

Stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um einhverja hvítbók, eitthvert sannleiksrit um þessi mál. Það getur aldrei orðið boðlegt, því stór hluti þjóðarinnar treystir ekki stjórnvöldum til að gera þau skil á þessu sem trúverðug væru.

Yfirvöldin eru nefnilega sjálf sek í þessum efnum, sek um sofandahátt, skeytingarleysi og hreint og beint kæruleysi gagnvart heildarhagsmunum þjóðarinnar. Þau munu varla fara að tína það til sem þeim er sjálfum til víta.

Miklu fremur eru þau líkleg til að gera tilraun til að breiða yfir fjölmargt sem ekki þætti gott að yrði opinbert. Sannleiksrit af þeirra hálfu yrði því miklu frekar hvítþvottartilraun en trúverðugt uppgjör mála.

Ég tel að þeir sem voru fremstir manna í því að reisa hina fjármunafreku spilaborg sem nú hefur hrunið, hljóti að þurfa að svara til saka.

Um daginn var í útvarpinu frétt um einhverja konu á skilorði sem var víst staðin að því að hnupla tvennum nærbuxum í búð. Konustráið var náttúrulega sakfelld með það sama fyrir glæpinn. Í þessu sambandi er það hugarkrefjandi mál að velta því fyrir sér, hvernig einstakir fjármálabófar gátu sett heilt þjóðfélag um koll með  framferði sínu, án þess að það bryti í bága við lög, gátu veðsett og skuldfært þjóðfélagið upp fyrir haus með samþykki yfirvalda og horfið síðan af vettvangi með milljarða í vösunum ?

Hafa viðkomandi lög kannski beinlínis verið sett með þeim annmörkum, að slíkir aðilar gætu haft sem mest svigrúm til að arðræna þjóðina ?

Það er kýrljóst að það mun verða reynt til hins ítrasta af vissum aðilum að hvítþvo útrásarvíkingana og hin föllnu fjármálaséní. Sú viðleitni er þegar komin í gang í fjölmiðlum og var reyndar aldrei felld niður þar með öllu.

Í dag segir Mbl. t.d. á forsíðu " Þeir felldu íslensku bankana " og er þar vísað til erlendra seðlabanka ! Tiltekin blaðakona er skrifuð fyrir greininni og enginn þarf að efast um í hvaða herbúðum samúð þeirrar manneskju liggur.

Íslensku oligarkarnir fá enn sem fyrr drjúgt rúm í fjölmiðlum til að tala fyrir sínu máli og auðvitað er allt öðrum að kenna. En ég trúi því aldrei að þjóðin láti blekkjast af skrumi þeirra í annað sinn.

Sagan vill oft endurtaka sig og mér verður hugsað til eins sögulegs dæmis.

Þegar Þjóðverjar höfðu tapað fyrri heimsstyrjöldinni komu þýskir hægrimenn af stað áróðursmaskínu heima fyrir um að herinn hefði aldrei brugðist eða verið sigraður á vígvellinum. Það hefðu verið Gyðingar, sósíalistar og aðrir vinstri menn sem hefðu svikið herinn. Þetta var almennt kallað " rýtingsstungan  ( í bakið ) " (Der Dolchstoss).

Mér finnst sumir landar mínir vilja viðhafa hliðstæð viðbrögð við bankahruninu. Það hafi ekki verið útrásarvíkingarnir sem brugðust þjóðinni heldur hafi erlendar bankastofnanir rekið rýtinginn í bak þeirra á ögurstund. Heyr á endemi !

Og með svona áróðurs sjónhverfingum á að villa almenning og fá hann til að trúa því að enginn hér hafi brugðist, svikið eða féflett aðra. Enginn hérlendis sé ábyrgur fyrir því að svona fór !!!

Svo er talað í hræsnisfullum anda um að við Íslendingar séum og eigum að vera ein fjölskylda, standa saman í mótlætinu, berjast gegn þeim sem eru að ofsækja okkur erlendis frá !

Hvers virði þótti slík samheldni þegar fjármálapúkarnir æddu yfir allt og settu þjóðarbúið og heildarhagsmuni landsmanna í veð fyrir því sem þeir gerðu í græðgisþorsta sínum ?

Hún var ekki til í huga þeirra þá, hún var út í hafsauga !

Margan daginn dr..........

drepa okkar rétt.

En þegar slíkir þarfnast okkar,

þá er talað slétt !

Látum ekki telja okkur trú um að útlendingar hafi bruggað samsæri gegn íslensku þjóðinni. Gerum okkur grein fyrir því að brotalamirnar voru smíðaðar hér heima og þeir sem hömruðu þær til, eiga skilyrðislaust að bera fulla ábyrgð á því hvernig fór. Það má aldrei verða að þeir verði settir upp á punt á ný.

Skömm þeirra þarf að skrifast inn í þjóðarsöguna skýrt og greinilega svo hún verði þar öðrum til viðvörunar um alla framtíð undir yfirskriftinni:

 " Svona má aldrei neinn Íslendingur hegða sér "!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 42
  • Sl. sólarhring: 63
  • Sl. viku: 1072
  • Frá upphafi: 309964

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 943
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband