Leita í fréttum mbl.is

Um guðfeður útrásarinnar og fleira

  Hvað lengi skyldi þjóðin þurfa að bera ábyrgð á Davíð Oddssyni og öllu því sérhagsmunafylleríi sem viðgengist hefur í kringum hans þjóðarbús- ráðsmennsku ?

Er maðurinn ekki búinn að vera þessari þjóð nógu þungur í skauti ?

Er ekki kominn tími til þess að hann skilji að flestir telja þjóðina betur komna án hans afskipta af málum ?

Einu sinni var heilt þjóðþing sent heim með orðunum:  " You have sat too long for any good you have been doing !"

Þau orð eru að öllu leyti tímabær varðandi brottför Davíðs Oddssonar úr stóli seðlabankastjóra. Í þann stól átti hann aldrei að setjast frekar en nokkur annar afdankaður pólitíkus. Þar á að sitja maður sem nýtur trausts til að taka á málum með faglegum hætti og er ekki vafinn í neinar pólitískar siðblinduflækjur.

Afleiðingar stjórnarhátta Davíðs Oddssonar, sem forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, hafa leitt til gífurlegrar ógæfu í efnahagslegu tilliti fyrir þjóðina, ógæfu sem hefur skaðað nánast alla íbúa landsins fyrir utan gullkálfana, sem hlupu strax með halann milli fótanna til útlanda.

Þetta voru gullkálfarnir hans Davíðs, efnahagsmálaundrið hans, einkavæðingar-vinirnir, útrásarvíkingarnir, snillingarnir sem allt áttu að kunna og geta, og Davíð sjálfur lagði vopnin til verkanna í hendur þeirra. Vopnin sem nú hafa höggvið efnahag þjóðarinnar niður í smátt.

Þó að Davíð og Ólafur Ragnar hafi sjaldan verið sammála í málum, þá voru þeir sammála í því að dásama útrásina og monta sig yfir henni. Nú virðist sem hvorugur þeirra vilji kannast við eigin orð og framgöngu í því sambandi.

En þeir voru hvor með sínum hætti taldir af mörgum nokkurskonar guðfeður

" hinnar stóríslensku fjármálasóknar " inn á hið alþjóðlega samkeppnissvið.

Þar áttu hin íslensku " séní "  að leggja undir sig heiminn með snilli sinni !

Nú er hinsvegar að renna upp fyrir mörgum hve yfirgengileg vitleysa var þarna á ferðinni og nú eru margir í miklum önnum við að reyna að fela gengna slóð.

Fyrir skömmu var bókarhandriti um forsetann kippt úr prentsmiðju á síðustu stund, að sögn til að umrita texta sem þótti ekki lengur frambærilegur. Sagnfræðileg heilindi virðast þar hafa orðið að víkja fyrir umhyggju viðkomandi höfundar fyrir glansímynd forsetaembættisins. En þó að reynt verði að breyta þar um varðandi aðkomu forsetans að útrásinni, vita allir að hann var á hjólum í kringum auðmennina og var þar algjörlega í andlegu kompaníi við gullkálfagengi Davíðs og Có !

Verða slíkir ráðamenn ekki að axla ábyrgð gagnvart þjóðinni ?

Þungavigtarmenn í ógæfuflokknum segja í sífellu að ekki megi persónugera vandann ! Hvað þýðir það á mannamáli ?

Það þýðir að Davíð eigi ekki að bera neina ábyrgð, það þýðir að gullkálfarnir eigi ekki að bera neina ábyrgð, það þýðir að sofandi yfirvöld og steindauðar eftirlitsstofnanir eigi ekki að bera neina ábyrgð !

Getum við sætt okkur við það ?

Af hverju hafa Reykvíkingar ekki hópast í þúsundatali niður á Austurvöll og heimtað Davíð burt úr Seðlabankanum og allt þetta lið frá völdum sem hefur splundrað lífskjörum okkar eins illa og raun ber vitni ?

Hvað er að fólki, hefur það orðið að andlegum aumingjum við áfallið ?

Það þyrfti að setja á fót utanþingsstjórn í landinu - nokkurskonar " brain trust stjórn " og afsegja núverandi framkvæmdavald sem og þingið.

Boða þyrfti svo til kosninga innan hæfilegs tíma þegar óháð rannsókn af hálfu tilkallaðra erlendra sérfræðinga hefði farið fram. Þá ætti fólk að geta kosið á grundvelli þeirra niðurstaðna sem fyrir lægju.

Í millitíðinni þyrftu svo menn með sæmilega hreinar hendur að vinna fyrir okkur í stjórn og stofnunum - við eigum nefnilega að eiga samkvæmt endalausum yfirlýsingum völ á svo mörgu vel menntuðu og hæfu fólki til allra hluta !

Við getum auðvitað aldrei byrjað aftur að byggja upp á eðlilegum grunni ef Davíðsvinaklúbburinn á að vera rannsóknaraðilinn að eigin afglöpum !

 

En því miður, sennilega er ekkert af þessu hægt - vegna þess að öll ráðamannaklíkan er samsek í þessari efnahagsmálaspillingu sem nú liggur fyrir og stjórnkerfið sem slíkt þolir engin hreinsunarefni. Það er með kapítalískt ofnæmi fyrir þeim !

Óværan er þar til staðar og verður þar og spillingin mun halda áfram að grafa um sig, ekki síst vegna þess að stór hluti þeirra 40% landsmanna sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn, er í bullandi afneitun gagnvart staðreyndum og styður áfram flokkinn eins og ekkert hafi í skorist og sú afstaða undirstrikar með geigvænlegum hætti hina gamalkunnu umsögn -  " allt verður Íslands óhamingju að vopni " !

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 1297
  • Frá upphafi: 316216

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 1040
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband