Leita í fréttum mbl.is

Smá innlegg í íslenska efnahagsmálasögu

 

 

 

 

Hér á árum áður var það löngum viðkvæði sjálfstæðismanna að vinstri menn kynnu ekkert fyrir sér í efnahagsmálum. " Látið okkur um peningamálin " sögðu þeir jafnan við kjósendur og börðu sér á brjóst með steigurlæti miklu.

Það mun reyndar satt vera, að þeir voru og eru ekkert óvanir að höndla með peninga og tölur, enda var flokkur þeirra á þeim tíma sem ég er að vísa til stundum kallaður heildsalaflokkurinn. Þar voru nefnilega heildsalar æði fyrirferðarmiklir sem og kaupmenn yfirleitt. Sumum nægði nú reyndar ekki að vera réttir og sléttir kaupmenn og vildu heita stórkaupmenn, svona eins og tíðkaðist hjá evrópskum aðli i den tid, t.d. stórhertogi o.s.frv.

En allt er breytingum undiropið og að því kom að heildsalarnir urðu tilneyddir að víkja nokkuð fyrir lögfræðingunum sem gerðust smám saman frekastir til mannvirðinganna í " flokki allra stétta ". Ég man ekki betur en að einu sinni hafi í sex efstu sætum framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík til alþingiskosninga setið tómir lögfræðingar.

Þegar ég segi tómir, meina ég bara eða aðeins, en ekki að þar hafi setið heilalausir menn, þó stundum hefði mátt ætla að svo væri eftir vinnubrögðum þeirra á þingi. En þar sinntu þeir náttúrulega því aðalhlutverki flokksins að hlynna að sérhagsmunum en létu yfirleitt heildarhagsmuni þjóðarinnar mæta afgangi.

Í Sjálfstæðisflokknum er og hefur alltaf verið mikið af mönnum sem hugsa út frá lífsmottóinu " Ég um mig frá mér til mín ", enda flokkurinn byggður upp frá öndverðu sem sérstakur griðastaður eiginhagsmunaseminnar.

Þykir mér ekki fjarri lagi að ætla að hugsanir margra flokksmanna snúist yfirleitt svona í kringum 90% um peninga og eitthvað sem tengist því að græða og eignast fleiri krónur.

Iðulega gengur sú auraleit mest út á það að hafa eitthvað út úr kerfinu og finna þar einhverjar girnilegar matarholur.

Ég tel mig þekkja til sjálfstæðismanna sem ég hygg að nái því að tengja hugsanir sínar allt að 98% við peninga, en ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma hér.

En sem sagt, þessar forsendur gera það að mörgu leyti skiljanlegt, að dæmigerðir sjálfstæðismenn hafi löngum talið að enginn kynni með fé að fara nema þeir. Þeir hafa jú jafnan átt mest af því og leiðandi í þeirra hagsmunafylkingu hafa jafnan verið menn af þeim ættum sem frekast hafa státað hérlendis af auði og velsæld um áratugaskeið.

En sá auður hefur þó oftar en ekki byggst á arðráni og vinnu annarra og þannig  síður en svo verið í ærlegum skilningi eitthvað til að státa af.

Sú velmegun sem þjóðin var búin að skapa sér, vannst nefnilega ekki fyrir tilverknað Sjálfstæðisflokksins heldur þrátt fyrir hann. Félagshyggjuflokkarnir unnu að mestu hið þjóðlega framfaraverk, en íhaldið drattaðist með vegna þess að það mátti til.

Sjálfstæðismenn hafa eins og flestum er kunnugt horft blóðugum augum á eftir hverri krónu sem farið hefur til félagslegra verkefna á vegum ríkisins og talað þá sem oftar um þörfina á einkavæðingu. Það á nefnilega eftir þeirra forskriftum alltaf að einkavæða gróða en ríkisvæða tap.

Lengi vel gátu þeir samt ekki komið sínum stórkapítalísku draumum fram vegna þess að félagshyggjuöflin voru það vel á verði að það var ekki hægt og jafnframt voru framan af fyrir í flokknum borgaralega frjálslyndir menn sem höfðu nokkurn hemil á vitleysingunum sem vildu vaða þar uppi.

En loks kom að því að hin svörtu öfl Sjálfstæðisflokksins fengu í hendur vopnið sem þau höfðu lengi þráð að eignast.

Það birtist í frjálshyggjunni um og upp úr 1980. Þegar hinni borgaralegu frjálslyndisstefnu var úthýst úr Sjálfstæðisflokknum eftir ríkisstjórnarmyndun Gunnars Thoroddsen, myndaðist þar tómarúm sem veitti stórkapítalískum frjálshyggju-sjónarmiðum mikið svigrúm. Á tiltölulega stuttum tíma lagði frjálshyggjan flokkinn algerlega undir sig.

Fyrstu árin fékk þó flokkurinn ekki verulegt tækifæri til að beita þessu nýja stefnuvopni í þágu einkahagsmuna gegn þjóðarhagsmunum, því til þess vantaði meirihluta á alþingi. En upptaka kvótakerfisins var þó fyrsta meiriháttar ógæfusporið og það varð svo meginforsenda þeirrar bölvuðu framvindu sem síðan tók við. Þegar svo Framsóknarflokkurinn gaf sig í það Íslands ógæfuhlutverk að tryggja íhaldinu 12 ára ofurvöld á Íslandi var óspart farið að beita  frjálshyggjuvopninu og bestu mjólkurkýr þjóðarinnar voru leiddar út úr ríkisfjósinu og skornar frá heildarhagsmunum okkar og færðar yfir á sérhagsmuna-brennimörkin.

Bankarnir, síminn, allt var þetta látið fara fyrir slikk í einkavæðingu með persónulegri hagsmunablessun Davíðs og Halldórs, íhalds og Framsóknar, og þjóðin þekkir þá syndasögu undir nafninu  - einkavinavæðingin mikla !

Og nú höfum við fengið uppskeruna af því sem sáð var til með 12 ára frjálshyggjustjórn íhalds og Framsóknar -  raunverulegt þjóðargjaldþrot !

Flokkurinn sem kennir sig við sjálfstæðið hefur skapað gífurlega hættu á því að við glötum sjálfstæði okkar. Það hefur hann gert með ábyrgðarlausri stefnu sinni og vítaverðri sérhagsmunablindu.

Öll áföllin sem hafa verið að hellast  yfir okkur að undanförnu eru beinar afleiðingar stjórnarhátta þessara tveggja fyrrnefndu flokka undir viðvarandi alræðisforustu Sjálfstæðisflokksins. Því getur enginn neitað og það ber að hafa í minni.

 

Og nú er gamla kenningin um efnahagsmála-dómgreind sjálfstæðismanna gjörsamlega hrunin og meira öfugmæli varla til í íslenskri sögu.  Raunar er sárgrætilegt að hugsa til þess hvað lengi umrædd kenning gekk í fólk til skaða fyrir allt sem íslenskt er.

 

Sjálfstæðismenn !!!  þeir einu sem þóttust kunna á efnahagsmálin í þessu landi !

Sjálfstæðismenn !!!  þeir einu sem þóttust kunna með fé að fara í þessu landi !

Sjálfstæðismenn !!! þeir einu sem þóttust eiga stórvini í öllum nágrannalöndum okkar !

Nú hver er staðan eftir samfelldan stjórnarforustuferil þeirra í 17 ár :

Þeir hafa haldið þannig á málum, að þeir hafa rústað efnahag þjóðarinnar, rúið okkur trausti og farið svo með góðan orðstír okkar að seint verður þar um bætt.

 

Og enn eru þeir margir hverjir kokhraustir og reyna að skella skuldinni á alþjóðlega kreppu í stað þess að þegja og skammast sín !

 

Eftir þetta skipbrot hlýtur leiðin að liggja til vinstri, til félagshyggjunnar, til þeirra sameiginlegu hagsmuna sem byggt var á áður en frjálshyggjan eyðilagði það skásta sem til var í Sjálfstæðisflokknum - hina borgaralegu frjálslyndisstefnu - og gerði flokkinn að algeru skaðræði þjóðarsögunnar.

Hver Íslendingur ætti nú að vita að slíkum öflum sem frjálshyggjunni, ætti enginn maður með óspillta þjóðlega vitund, að veita brautargengi.

Hún hefur reynst verri en hinar plágurnar sem gengið hafa yfir þjóðina, Svartidauði, Stóra bóla, Móðuharðindin og Spánska veikin, -  því hún getur ekkert gott vakið upp í mannssálinni -  !

Aldrei framar verði menn svo skyni skroppnir að styðja mannfjandsamlegan kapítalisma frjálshyggjunnar  til valda á Fróni.

Hremmingarnar sem við höfum fengið yfir okkur fyrir svefngengils-efnahagspólitík Sjálfstæðisflokksins, með ógeðslegum undirlægjustuðningi Framsóknarflokksins, mun skrifuð verða í þjóðarsöguna sem svörtustu mistök sem gerð hafa verið af íslenskum stjórnvöldum og fjármálayfirvöldum og Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei geta fríað sig við það að hann ber meginábyrgðina á því sem gerðist.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 141
  • Sl. sólarhring: 440
  • Sl. viku: 1550
  • Frá upphafi: 315531

Annað

  • Innlit í dag: 137
  • Innlit sl. viku: 1263
  • Gestir í dag: 136
  • IP-tölur í dag: 135

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband