Leita í fréttum mbl.is

Hægri hönd Davíðs - Palladómur um Geir Haarde.

 

 

Geir H. Haarde á þann feril að baki, að ekkert er eðlilegra en að segja að hann hafi verið hægri hönd Davíðs Oddssonar, meðan sá maður var og hét opinberlega formaður Sjálfstæðisflokksins. Flestallt sem Davíð gerði eða lét gera á sínum opinbera valdatíma er því einnig markað fingraförum Geirs Haarde.

Geir stóð Davíð næst og Davíð kunni að meta hann, því að hollusta hans var skilyrðislaus og algjör.

Munurinn á Davíð og Geir er fyrst og fremst sá að Davíð er foringi í sér. Hann er leiðtogi af þeirri gerð sem efast aldrei um eigin rétt til almættis, en Geir er hinsvegar fæddur til að vera hægri handar maður - maður númer 2. Hann hefur það ekki í sér að vera foringi eða leiðtogi sem neinu nemur.

Davíð hefur ekki síst kunnað að meta Geir, vegna þess að hann gat alltaf treyst því að hann yrði sér aldrei hættulegur á nokkurn hátt. Geir myndi aldrei verða keppinautur hans í neinu valdatafli. Geir var bara hans hægri hönd og eins þægur og meðfærilegur í því hlutverki sem hugsast gat.

Davíð hefur nefnilega verið eins og aðrir sem talið hafa sig fædda til forustu, að hann hefur ekki alið upp nein foringjaefni. Í því á hann sammerkt með mörgum öðrum ofurvaldsmönnum eins og t.d. Tító í Júgóslavíu. Menn sem draga alla valdaþræði til sín, kæra sig ekki um að það vaxi upp í kringum þá arftakar, sem geri ef til vill tilkall til valda -  og það jafnvel fyrir tímann !

Þessvegna voru menn eins og Geir, Árni Matt og fleiri teknir í innsta hring hjá Davíð. Þeir voru drottinhollir meðalmenn - eins og Davíð vildi hafa þá !

Mörg eru dæmin um að ofurvaldsmenn ala ekki upp foringjaefni. Til dæmis má nefna að eftir dauða Stalíns tók við, til að byrja með, maður að nafni Malenkov.

Það vissi enginn hver ætti að taka við. Þetta var því biðleikur í stöðunni.

Þessi lítt þekkti mallakútur var svo látinn víkja, þegar Krússi var kominn með völdin, og gerður að rafveitustjóra eða einhverju þvíumlíku austur í Síberíu.

Hua-Kuo-feng var látinn taka við fyrst eftir Mao, en er nú öllum gleymdur. Þessir menn voru lítilla sanda og sæva og náðu því ekki einu sinni að vera hægri handar menn.  En Geir Haarde er það hinsvegar !

Kannski á Geir það fyrir sér í framtíðinni að verða sveitarstjóri í Fjarðabyggð eða fjármálastjóri við Kárahnjúka. Það er nefnilega trúlegt að embættisgatan hjá honum eigi heldur eftir að liggja niður á við á komandi árum. Það liggur svona einhvernveginn í kortunum, nema hann bregði sér í framtíðinni til Brussell !

Kannski er það einmitt þar sem hann sér nú helstu framavonirnar í komandi tíð ?

Já, Davíð vissi snemma hvar hann hafði Geir og hvað bjó í Geir. Þar var ekkert sem þurfti að óttast. Aðeins maður með mikla foringjahæfileika og leiðtogagen tekur upp á því að snúast gegn pólitískri forsjá sinni þegar færi gefst.

Það átti ekki við um hann Geir ! Menn af hans tagi eru alltaf hæstánægðir með að vera hægri handar menn sinna foringja. Metnaður þeirra stendur ekki til annars og hæfni þeirra ræður trúlega ekki við meira.

Í hartnær tuttugu ár þjónaði Geir Haarde undir Davíð Oddsson á þessum nægjusömu forsendum.  Þegar Davíð fyrirskipaði eitthvað, hljóp Geir af stað til að sjá til þess að boði hans yrði hlýtt. Þeim bar aldrei neitt á milli, því samband þeirra var byggt á mjög einfaldri reglu, - annar réði og hinn hlýddi.

Þegar Davíð ákvað að draga sig út úr stjórnmálunum, eins og það átti víst að heita, vildi hann auðvitað ekki að einhver með mikla foringjahæfileika tæki við af honum. Enginn mátti varpa skugga á hann og hans foringjatíð.

Þar að auki er það nú þannig, að menn eins og Davíð draga sig eiginlega aldrei í hlé, nema þeir séu beinlínis neyddir til þess. Þeir vilja áfram ráða og gera það þá í gegnum aðra, yfirleitt menn sem eru orðnir háðir áhrifavaldi þeirra.

Davíð var af þessum sökum auðvitað hlynntur því að Geir tæki við af honum, vegna þess að þá gat hann treyst því að áhrif hans réðu áfram. Geir var nefnilega enn sem áður hægri hönd hans.

Og svo var Geir gerður að formanni Sjálfstæðisflokksins en Davíð stýrði náttúrulega flokknum áfram, en nú úr aftursætinu - á bak við tjöldin.

Geir varð líka forsætisráðherra, en Davíð fór að ráðskast í Seðlabankanum og hvar sem hann kaus að koma við sögu. Enginn sagði neitt við því, allra síst hægri höndin hans.  Davíð var auðvitað foringinn og leiðtoginn !

Svo kom að stjórnarmyndun og úr vöndu var að ráða, þar sem gamla hækjan var orðin ónothæf og finna varð nýja. Jafnvel Davíð vissi eiginlega ekki hvað best væri að gera. Strax var reyndar hugsað til Samfylkingarinnar með samstarf, en Davíð var mjög efins, því aldrei hefur honum nú gengið vel að lynda við Ingibjörgu Sólrúnu. Þar hittir yfirleitt skrattinn ömmu sína !

Þeir Davíð og Geir krunkuðu eitthvað saman um Vinstri græna, en Skallinn þótti illa vaxinn til hækju-hlutverksins. Það stóð því í stappi með þetta um tíma því engin lausnarleið þótti góð. En þá gerðist það, að Þorgerður Katrín kom af saumaklúbbsfundi frá Ingibjörgu og hafði meðferðis boð um stjórnarsamstarf.

Geir mun óðara hafa hringt í Davíð, en þá var sá síðarnefndi ekki viðlátinn, því hann var að sögn með Hannesi Hólmsteini á einhverri tilbeiðslustund eða andatrúarsamkomu, sem helguð var minningu Milton Friedmans.

Geir mun ekki hafa vitað hvað hann ætti til bragðs að taka, því hann er jú bara skapaður til að vera hægri handar maður. Að mynda stjórn upp á eigin spýtur var því ekki hans meðfæri. En eftir þraut og þónokkra þarmaspennu, ákvað hann samt að taka boði Ingibjargar, enda herti Þorgerður Katrín ótæpilega að honum með það. Þannig komst núverandi stjórn á koppinn - eiginlega án atbeina Geirs og það sem verra var -  án blessunar Davíðs !

Og þess verður að geta, að Davíð varð hreint og beint öskureiður. Það hafði verið gengið framhjá honum og heil ríkisstjórn standsett án hans leyfis ! Foringjastöðu hans og yfirboðarahlutverki hafði verið freklega misboðið og það af þeim er síst átti slíkt að gera.

Hægri höndin mun því vafalaust hafa fengið harða ofanígjöf þar sem seðlabankastjórinn hefur líklega handtérað forsætisráðherrann með heldur óvirðulegum hætti.

En foringi er foringi og hægri hönd er hægri hönd. Geir hefur trúlega lofað bót og betrun, og sagt eins og krakkar gera oft, þegar upp kemst um óknytti þeirra, " ég skal aldrei gera þetta aftur !"

Og enn á ný sannfærðist hann um að hollusta hans við Davíð væri nokkuð sem aldrei mætti bila. En með því mun hann vafalaust hafa persónugert það vandamál sem orðið var stærst í hans eigin sálarlífi og stangaðist stöðugt verr þegar fram í sótti við heillir lands og þjóðar.

Tilvist Davíðs Oddssonar sem seðlabankastjóra er nefnilega orðið vandamál í þjóðfélaginu, tilvist hans sem baktjalda-formanns Sjálfstæðisflokksins er orðið  vandamál í flokknum, sem æ fleiri eru að átta sig á, og tilvist hans sem skugga-forsætisráðherra í ríkisstjórninni er allsendis óviðunandi fyrir alla aðila - flokkinn, stjórnkerfið, þingið og ekki síst íslensku þjóðina !

En Geir er bara hægri handar maður og fær sig ekki til að blaka hendi við foringja sínum, því það væru áreiðanlega einskonar drottinsvik, að hans mati. Auk þess óttast hann eflaust, að ef verk Davíðs fella Davíð, sé líklegt að hægri höndin geti fylgt þar með. Af þessum ástæðum reynir hann í pólitískum vanmætti sínum, að lýsa því yfir að ekki megi persónugera vandann, en vandinn er stöðugt að sýna sig meir og meir í gegnum persónu Davíðs Oddssonar og fyrirferðarvægis hans í stjórnkerfinu.

Valdatími Davíðs er orðin slík tímaskekkja, að hann á ekki lengur neina heilbrigða stoð í veruleikanum. Við byggjum ekki upp íslenskt þjóðfélag á ný með slíka fylgju í farteskinu - það er nokkuð sem liggur hreint fyrir !

En Ísland er í þeirri stöðu sem stendur, að það þarf meira en hægri handar mann við stjórnvölinn. Það þarf mann sem hefur það í sér að geta notið trausts sem ábyrgur leiðtogi.

Geir Haarde er ekki og getur aldrei orðið slíkur maður !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 74
  • Sl. sólarhring: 199
  • Sl. viku: 1324
  • Frá upphafi: 316714

Annað

  • Innlit í dag: 53
  • Innlit sl. viku: 1032
  • Gestir í dag: 51
  • IP-tölur í dag: 51

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband