Leita í fréttum mbl.is

Um pólitískan geðklofahátt íhaldsins

 

Sjálfstæðisflokkurinn eða Þjóðarógæfuflokkurinn, eins og ég kýs að kalla hann, er undarlegt fyrirbæri frá sálfræðilegu sjónarmiði. Það mætti alveg kalla flokkinn með persónulegum hætti pólitískt kleyfhugabatterí eða geðklofagallerí.

Þó að þessi svokallaði flokkur " allra stétta " sé alfarið byggður utan um sérhagsmuni, hagsmuni þeirra betur megandi í þjóðfélaginu, á hann það til að láta við vissar aðstæður eins og hann sé einhverskonar alþýðleg samhjálparhreyfing !!!

Nú skulum við skoða hvernig þeir hlutir gerast og ganga fyrir sig.

Ungt fólk sem alist hefur upp á venjulegum alþýðuheimilum í landinu og síðan gengið menntaveginn, stendur yfirleitt frammi fyrir tveim meginkostum, að ganga til liðs við félagshyggju sem tekur mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar eða að styðja einstaklingshyggjuna, sem tekur fyrst og fremst mið af eigingirni og sjálfselsku, þó aldrei hafi það sýnt sig eins afgerandi og á síðustu árum.

Það hefur stundum verið sagt að þeir sem ganga í Sjálfstæðisflokkinn án þess að hafa uppeldislegt bakland þar, verði oft verstu íhaldsgaurarnir. Þeir telji sig alltaf þurfa að vera að sanna sig fyrir hinum blóðhreinu flokksmönnum. Það er svona svipað því og þegar sumir gerast kaþólskari en páfinn !

Um all langt skeið hefur verið mikill áróðursþrýstingur á ungt menntafólk, að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og hin frjálshyggjusinnuðu fjármálaöfl.

Þeir hafa því miður orðið margir sem ekki hafa þolað þann þrýsting og gengið á mála hjá Valhallarvaldinu.  Draumur ungra tauhálsa í framhaldsskólum landsins varð á stuttum tíma sá, að útskrifast í hagfræði eða viðskiptafræði. Það þótti flottast og stíllinn gekk allur út á það.

" Stefndu að því að verða ríkur, sama hvað þú treður á öðrum í leiðinni að því markmiði ". Þessi einkunnarorð urðu brátt leiðarvísir ungra hægri manna og þeirra sem ákváðu að ganga undir gunnfánum græðginnar í þessu landi !

En nú eru flestir Íslendingar vonandi farnir að sjá að græðgi er ekki góð og afleiðingar hennar enn verri, sama hvað Hannes Hayek Friedman segir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt of lengi verið við stjórn í landinu, enda hefur hann þurrausið ríkisbrunninn í þágu sinna alikálfa. Hann hefur stöðugt létt skatta á hátekjufólki og þyngt þá að sama skapi á almennu launafólki og hyglað án afláts þeim ríku á kostnað hinna efnaminni. Hann hefur staðið fyrir óþjóðlegri stefnu og farið eyðileggingarhöndum um þjóðarbúið. Verkin sýna þar merkin !

Samt gat Geir Haarde komið fram um daginn og hrósað sér af því að hafa náð ríkisskuldum Íslands niður meðan hann var fjármálaráðherra hér á árum áður og fleiri sjálfstæðismenn hafa síðan étið það upp eftir honum. Það sem gerðist var einfaldlega að bestu mjólkurkýr ríkisins voru seldar, til óþurftar fyrir okkur öll, og síðan farið í að borga þessar ríkisskuldir með þeim peningum.

Það hafði ekkert með góða fjármálastjórn að gera, það voru bara seldar eignir sem við þurftum að eiga áfram vegna heildarhagsmuna þjóðarinnar.

Geir Haarde hefði átt að tala um stöðuna eins og hann skildi við hana, núna í janúar, ríkið á hausnum, öllu steypt undan þjóðinni og allt í meiri voða en nokkru sinni hefur verið - eftir samfellda fjármálastjórn sjálfstæðismanna frá 1991 ! Geir sjálfur var ýmist fjármálaráðherra eða yfir-efnahagsmálaráðherra allan þennan tíma og ætti því að bera nokkuð mikla ábyrgð á ömurlegri lokastöðunni. Það er mjög sérstakur  " hæfileiki " að geta útilokað sig svona gjörsamlega frá óþægilegum staðreyndum, sem ættu þó að æpa upp í eyrað á hverjum manni sem heyrn hefur. En þessa eigind hafa sjálfstæðismenn alltaf átt öðrum mönnum fremur.

Af þessu og öðru sést, að eðlilegt er að tala um Sjálfstæðisflokkinn sem pólitískt geðklofaheimili og enn er eitt stórt atriði sem áréttar það.

Jú, um leið og þessi aðalsflokkur fer í stjórnarandstöðu, gerist hann nánast sjálfkrafa " flokkur fólksins " og fer að hafa óskaplegar áhyggjur af kjörum almennings í landinu ! Sá tónn er nú þegar farinn að heyrast frá þessum óskemmtilega hópi, en falskari getur hann þó varla verið.

Það er deginum ljósara að sjálfstæðismenn munu kosta kapps fram að kosningum að reyna að breyta ímynd sinni og gera hana almenningsvæna.

Sómatilfinning innan flokksins hefur aldrei virst mikil að vöxtum, en við þessar aðstæður er hún sennilega alveg á lægsta punkti. Raunar gera staðreyndir þær sem við blasa í landsmálum, þá siðferðilegu kröfu til sjálfstæðismanna, að þeir þegi og reyni að skammast sín.

En það fylgir öðru þjóðaróláni að þeir kunna hvorugt !

Menn munu því sjá á næstunni Birgi Ármannsson, Bjarna Benediktsson, Guðlaug Þór Þórðarson, Illuga Gunnarsson, Sigurð Kára Kristjánsson og aðra stórstimplaða frjálshyggjumenn Þjóðarógæfuflokksins, taka sér stöðu sem málsvara fólksins, tala eins og þeir séu og hafi alltaf verið fólksins megin, tala eins og þeir séu félagsvænir og þjóðvænir fulltrúar á alþingi.

Og þar kemur hinn pólitíski geðklofi enn og aftur fram, því enginn þessara manna er fólksins megin. Þeir eru innvígðir í Valhöll - einherjar íhaldsins !

Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram sem algerlega eitt falskt númer fyrir kosningar og fullkomlega annað falskt númer eftir þær og umsöðlunin er yfirgengileg !

Þetta geta menn alveg gefið sér fyrirfram, því sumir eru einfaldlega þannig að þeim þykir ekkert að því að tjalda öllum tuskum óhreinlyndis og falskra frasa, ef það getur skilað þeim einhverju.

Ef almenningur í þessu landi er ekki því vökulli fyrir þeim hættum sem að honum steðja, getur svo farið að Þjóðarógæfuflokkurinn nái aftur völdum eftir kosningar og það með tilstyrk Framsóknarflokksins, sem er víst þegar á uppleið eftir málamynda hundahreinsun innan sinna vébanda !

Ef svo færi, yrði það herfileg niðurstaða fyrir lýðræðið í landinu, eftir bankahrun og þjóðargjaldþrot og algjöra ábyrgð umræddra flokka á þeim ósköpum.  Vanhæfi þeirra til að ráða bót á þeim skaða sem þeir ollu, hlýtur að liggja í augum uppi. Ef þessir þjóðarhrunsflokkar ná völdum hér aftur eftir kosningar verður það skelfilegt mál fyrir íslensku þjóðina.

Það væri nánast hliðstætt því að ótilgreindur flokkur hefði tekið aftur við völdum í Þýskalandi eftir ósigurinn 1945 - eins og ekkert hefði í skorist !

Megi allar góðar vættir forða okkur frá svo illum örlögum !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 49
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1478
  • Frá upphafi: 315648

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 1187
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband