Leita í fréttum mbl.is

" Þetta var meiri sirkusinn "

Ég horfði nýlega á umræðuþátt í sjónvarpi og þar sagði kunn manneskja úr bloggheimum frá því að hún hefði verið á þingpöllum nýlega og fylgst með umræðum á alþingi. Þar ofbauð henni framkoma margra kjörinna fulltrúa í þingsal og virtist henni sem þarna væri bara einhver vitleysa í gangi.

Og hún spurði réttilega:  " Er þetta fólkið sem á að bjarga þjóðinni úr þeim vanda sem við er að glíma ? "

Svo hristi hún höfuðið og sagði, " Þetta var meiri sirkusinn ! "

Og því miður er það svo, að mörgum ofbýður vöntun þingsins á veruleikaskyni við þær hrikalegu þjóðfélagsaðstæður sem nú eru uppi. Þjóðina vantar leiðtoga á öllum stjórnvaldssviðum, það vantar fólk sem hefur tilfinningu fyrir þjóð og landi, það vantar fólk sem vill hugsa um heildarhagsmuni þessarar þjóðar !

Það er til nóg af liði sem er að hugsa um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn geti plumað sig sem best í næstu kosningum og það sama gæti jafnvel gilt um alla flokkana, en meðal ráðamanna virðast fáir sem eru að hugsa um Ísland, landið okkar og okkur öll sem þjóð ! Það er það sem vantar svo sárlega.

Og því miður virðast margir sem stefna á framboð í vor, vera af sama sauðahúsi og þeir sem fyrir eru, menn sem eru fyrst og fremst með framadrauma í huga, menn sem stefna á að komast á jötuna, fyrir eigin hag ! Hvar er allt mannvalið sem menntadýrkun liðinna ára og langskólakerfið á að hafa skilað okkur ?

Það er einmitt af þessari ástæðu sem Jón Baldvin Hannibalsson, sem stendur á sjötugu, gefur kost á sér til forustustarfa á ný. Hann hefur náttúrulega séð forustuleysið á fjölmörgum sviðum. Og nú er þessi gamli krataforingi sýnilega kominn með snert af Churchill heilkenni og elur vonir um að verða " The Grand Old Man " á Íslandi. En Jón Baldvin er þar á villigötum og hann verður að láta sér nægja að hafa  " bjargað " Eystrasaltsríkjunum - því innviðir hans eru ekki þesslegir, að hann muni bjarga Íslandi á nokkurn hátt.

Hann talaði fyrir því á sínum tíma að Eystrasaltsríkin yrðu frjáls og losnuðu frá sovéska miðstjórnarvaldinu, en hann talar nú fyrir því við öll hugsanleg tækifæri að Ísland verði bundið á klafa hins evrópska miðstjórnarvalds, þar sem það verður núll prósent aðili til frambúðar. Í þeim gjörningi felast bjargráð Jóns Baldvins til handa íslensku þjóðinni fyrst og síðast.

Hann hataðist við miðstjórnarvaldið í Moskvu, en miðstjórnin í Brussel er honum eins og töfralausn allra mála, enda er það ekkert nýtt að menn sem hafa verið utanríkisráðherrar Íslands verði býsna fljótt óþjóðlegastir allra manna.

Nei, leyfum Jóni Baldvin og öðrum afdönkuðum stjórnmálaskussum þessa lands að tóra á sínum eftirlaunum og hleypum þeim ekki að einu eða neinu framar.

Þeir eiga flestir ef ekki allir sinn þátt í því sem orðið er.

Við þurfum nýtt blóð, nýtt fólk, fólk sem er í tengslum við grasrótina í landinu, þekkir og á samleið með þeim breiða fjölda sem myndar almenning þessa lands. Sá breiði fjöldi er  nefnilega undirstaða alls þess besta sem við eigum sem þjóð.

Við þurfum nýtt hugarfar. Ekki það spillta hugarfar sem hér hefur ríkt undanfarin ár, ekki það hugarfar sem drepur manneskjuna í dróma og metur ekkert nema fjármagnseign. Við þurfum hugarfar sem metur manngildi umfram auðgildi, hugarfar sem er þjóðlegt og samfélagslegt, hugarfar sem byggir upp traust og gömul gildi, hugarfar sem treystir stoðir þjóðfélagsins á mannlegum forsendum.

Í slíkum anda ber okkur að ganga til kosninga í vor. Við þurfum að kjósa með það eitt í huga sem getur gagnast best fyrir framtíð lands og þjóðar. Kjósum ekki til að viðhalda lífi í gjörspilltum flokkum, refsum þeim sem refsa ber og gefum þeim almennilegt tækifæri sem verðskulda fremur traust.

Veljum út frá því sem við teljum af innstu sannfæringu best fyrir land og þjóð !

Setjum okkur það, að axla þjóðlega skyldu okkar í kjörklefanum og gera okkar besta til þess að ný löggjafarsamkunda þjóðarinnar verði með þeim hætti eftir komandi kosningar, að glöggar manneskjur sem koma á þingpalla, þurfi ekki að segja : " Þetta er nú meiri sirkusinn " !

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 85
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 1335
  • Frá upphafi: 316725

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 1040
  • Gestir í dag: 59
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband