Leita í fréttum mbl.is

Bölvun Íslands

 

Kvótakerfið er réttnefnd bölvun Íslands á síðari tímum ! Það má leiða ljós rök að því að forsendurnar fyrir allri efnahagsmálavitleysunni í landinu undanfarin ár hafi að fullu átt rætur sínar í kvótakerfinu. Þá gátu útvaldir ríkisómagar farið að fjárfesta í öllum sköpuðum hlutum og fengið peninga til þess á færibandi frá ríkinu. Aðeins átta árum eftir síðustu landhelgisdeiluna, var þannig búið að stýra ávinningi þjóðarinnar af útfærslunni inn í spilltan sérhagsmunadilkinn !

Þeir stjórnmálamenn sem stóðu að þeim gjörningi munu alla tíð teljast meðal verstu óhappamanna Íslandssögunnar, því það sem þeir gerðu var himinhrópandi  misindisverk gagnvart alþjóðar hagsmunum. Bundið hafði verið í lög að sjávarauðlindin væri sameign þjóðarinnar, enda voru landhelgisstríðin háð með það fyrir augum, en allt var það svikið og einni verstu sérhagsmunaklíku landsins afhent þessi lífshlunnindi til viðvarandi arðráns og auðsöfnunar.

" Föðurland vort hálft er hafið " stendur í góðu kvæði og landhelgisgæslan hefur, eftir því sem ég best veit, þá hendingu sem sín einkunnarorð, en þessi helmingur föðurlandsins var svikinn úr höndum þjóðarinnar og kvótaaðallinn leiddur á legg í kjölfarið. Þá gerðist það að margir útgerðarmenn sem höfðu verið á hausnum áður, fóru að fjárfesta í flugfélögum og hverju sem þá lysti, því þeir voru komnir á fast ríkisframfæri og fengu hundruð milljóna sendar heim úr ríkiskassanum á hverju ári í formi veiðiheimilda.

Sú misnotkun leiddi til algerrar siðblindu meðal þess hóps sem naut góðs af svínaríinu. Og spillingin breiddist út frá kvótagreifunum og gróf um sig uns allt siðferði var horfið úr viðskiptum hérlendis og græðgin ein hafði völdin.

Sú græðgi fékk sína helstu rótfestu með tilkomu kvótakerfisins !

Við vitum hvað af því leiddi og hvernig óþverranum í fjármálaheiminum hefur verið sturtað reglulega niður til almennings undanfarna mánuði, síðan bankahrunið varð, meðan þjófarnir sitja í paradís vellystinganna og eru verndaðir í bak og fyrir af félögum sínum í frjálshyggjugenginu illræmda.

" Þeir brutu engin lög " hefur verið viðkvæði þeirra sem staðið hafa í vörn fyrir sérhagsmuna og forréttinda gaurana, en það er ekki minnst á það, að lögin voru í meira en áratug sveigð og beygð eftir óskum þeirra og þörfum.

Niðurstaðan er vantrú fólks á að það búi við eðlilegt lagaumhverfi. Réttarkerfið hefur stórlega sett ofan vegna meintrar hagsmunagæslu fyrir kvótakerfið og nú er svo komið að vaxandi hópur landsmanna telur íslenskt réttarkerfi orðið beinlínis hættulegt og andstætt almannahagsmunum. Það sé fyrst og fremst orðið að veiðistöð fyrir óprúttna lagarefi sem sérhæfi sig í að plokka fé af almenningi.

Þegar svo er komið málum, má segja að stoðir réttarríkisins beri lítið uppi lengur

og framhaldið geti aðeins versnað, nema til komi gagnger siðbreyting.

Ekkert gæti stutt betur að slíkri siðbreytingu en einmitt afnám mesta ranglætisins - kvótakerfisins !

Og það er sannarlega þjóðarþörf að leggja niður þetta margbölvaða kerfi, því það vita allir í dag, að það hefur hvorki bjargað atvinnugreininni eða fiskistofnunum, eins og áróðurinn fyrir því gekk út á. Nú ættu allir að sjá að kvótakerfið var eingöngu sett á til að koma auðlindinni undir útvalda sérgæðinga. Og þeir hafa sannarlega makað krókinn á kostnað alþjóðar.

Með því var liðin tíð óvirt, samtíðin svikin og framtíðin lögð í hlekki arðráns og spillingar. Þannig byrjaði græðgis-rúllettan að spinna sig upp í þann tryllta leik sem endaði með bankahruninu.

Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður til höfuðs því ranglæti sem býr í kvótakerfinu. Það var gott skref, en þegar forustumenn flokksins voru skensaðir með því að flokkurinn væri eins máls flokkur, gengu þeir í gildruna og fóru að dreifa kröftunum. Frjálslyndi flokkurinn átti eingöngu að halda sig við baráttuna gegn kvótakerfinu því það mál er svo stórt að það hefur sín áhrif á öll önnur mál í þjóðfélaginu. Kvótakerfið er átumein íslensks samfélags, æxlið sem sýkir þjóðarlíkamann allan.

Ef endurreisn Íslands á að vera gerleg, er stærsta og þýðingarmesta málið að afnema bölvun Íslands - kvótakerfið - sem fyrst.

Verði það ekki gert, verður allt annað sem gert verður fálm eitt og fánýti.

Þjóðin og byggðir landsins eiga sjávarauðlindina með öllum rétti !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 206
  • Sl. sólarhring: 224
  • Sl. viku: 1615
  • Frá upphafi: 315596

Annað

  • Innlit í dag: 176
  • Innlit sl. viku: 1302
  • Gestir í dag: 173
  • IP-tölur í dag: 172

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband