Leita í fréttum mbl.is

Uppréttir viljum við standa

 

Að vera Íslendingur hefur verið Frónbúans fylgja allt frá því að forfeðurnir kvöddu Noreg og konungsvaldi var hafnað í fyrsta sinn. Að vera frjálst fólk á eigin ættjörð hefur alltaf átt rík ítök í hjarta Íslendinga og þjóðarsálin hefur ekki verið til sölu fyrir aðkeypt efni, þó fimmtu herdeildar menn hafi verið til hér sem víðar. En það hefur vissulega oft verið erfitt að vera Íslendingur.

Það hefur kostað sitt að halda reisn og þjóðlegum metnaði. Því neitar enginn maður. En hingað til hefur að mestu verið sátt um það, að þjóðin haldi fast í það fullveldi og það sjálfstæði sem vannst á ný  eftir aldalanga áþján - og það fyrir ekki svo ýkja löngu síðan.

1944 höfnuðu Íslendingar konungsvaldi aftur og kusu að búa eftirleiðis við lýðræðisfyrirkomulag. Þá voru nánast allir búnir að sjá hvers virði það var að fá að ráða eigin málum og hvílíkt þrautaferli gat fylgt því að þurfa að dansa eftir annarra pípu með alla hluti. Og þá þótti ekkert að því að menn væru þjóðlegir og töluðu um það að Íslendingar ættu að hlynna að sínum garði sem best.

Og framyfir 1970 héldu landsmenn sínum þjóðlegu einkennum og stefndu áfram í málum sínum sem þjóð. En þegar kom fram undir 1980 fóru að hrannast upp óveðursský á stjórnmálahimninum - einkum vegna þess að margnefnd frjálshyggjuófreskja var mætt til leiks. Félagsleg gildi voru úthrópuð á næstu árum og sérhyggjan byrjaði að undirbúa komu keisarans sem birtist síðan og settist að völdum 1991.

Samfara frjálshyggjunni var rekinn öflugur áróður fyrir því að fólk ætti að vera upplýst og víðsýnt, en í raun gekk sá áróður út á það að framhaldsmennta fólk hér til að vera óþjóðlegt. Milli menntaðs fólks og fortíðar í torfkofum var settur upp veggur sem rauf öll tengsl þar á milli. Í augum gráðufólksins sem innan tíðar varð svo gráðuga fólkið, var ekkert varið í það að vera Íslendingur og allt sem íslenskt var þótti menningarlega lítilvægt. Þetta fólk horfði hungruðum augum til Bretlands, Frakklands og Þýskalands í hámenningarlegri tilbeiðslu.

Þannig byrjaði Evrópusýkin að geisa meðal íslenskra menntamanna - fyrst og fremst á kostnað þjóðmenningarlegra gilda.

Áður höfðu menntamenn þjóðarinnar staðið fremst í víglínu fyrir slíkum gildum en nú fór allnokkur hluti þeirra að tilbiðja skurðgoð -  í heimsmenningarlegum tilgangi - að sagt var. Íslensk þjóð var þá komin í þá óskemmtilegu stöðu að vera að mennta fólk, ekki til að vera þjóðlega varnarmenn gegn aðsækjandi niðurrifsöflum, heldur til að vera fimmta herdeild ásælins erlends valds.

Menntamusteri þjóðarinnar sem áður voru hennar sterkustu varnarvé, fóru í framhaldi af þessu að breyta um áherslur og nú er helst eins og engan Íslending með eðlilega tengingu við land og þjóð sé þar að finna.

Nýlega ræddi Guðni Ágústsson í grein í Mbl. um Gissur Þorvaldsson í höfði Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að Gissur Þorvaldsson og hans verk eigi miklu meiri samleið með því sem Guðni og hans félagar gerðu hér meðan þeir sátu að völdum. Gissur er að mínu mati, í því samhengi, ekki svo fjarri höfði Guðna, og sennilega ætti sá síðarnefndi að halda sig bak við eldavélina héðan af og láta aðra um umræðuna. Guðni sagði einnig í grein sinni að hann væri löngu búinn að fyrirgefa Gissuri það sem hann gerði, en það gerir enginn Íslendingur sem veit í raun hvað Gissur kallaði yfir þjóð sína með því að véla hana af eiginhagsmunaástæðum undir konungsvald.

Og ég fyrirgef heldur ekki Davíð, Geir, Halldóri, Valgerði og Guðna og þeirra fylgifiskum, ábyrgðarleysið sem þeir sýndu gagnvart íslenskum þjóðar málstað með því að þvæla okkur til stríðsþátttöku, viðhalda kvótasukkinu og stefna hér öllu til hruns með helmingaskipta-svínaríinu.

Annar maður ræddi nýlega í Mbl. um Evrópusambandsmál og vildi að menn væru ekki með sögulegar tengingar í því sambandi og allra síst við Jón Sigurðsson. Sennilega má af því þekkja hvar sá maður stendur.

Við skulum líta aðeins yfir söguna, þvert á hans ráðgjöf.

Hefði Jón Sigurðsson viljað ganga í Evrópusambandið ? Hefðu Fjölnismenn viljað það, Jón Eiríksson eða Skúli Magnússon ? Nei, ég hygg að þeir hefðu seint viljað það.

Við getum hinsvegar nokkurnveginn gefið okkur að Sturla Sighvatsson, Gissur Þorvaldsson og Þorgils skarði, Jón skráveifa og þeirra líkar hefðu gerst þjónustumenn konungserinda frá Brussel engu síður en frá Noregi.

Höfuð Gissurar er því víða til í okkar landi enn með sínar hugsanir og Jón skráveifa gengur um ljósum logum - en nú er hann bara orðinn hámenntaður og heimsmenningarlegur í þokkabót og ekki á dönskum skóm - heldur á skóm frá Brussel. Það vantar ekki gyllinguna á slíka fugla, sem flíka höfði Gissurar jarls í annan endann og Brussel-skóm í hinn.

Guð forði okkur frá öllum þeim sem vilja draga þjóðina í dýflissu ófrelsis og arðráns. Stöndum fast í gegn öllum slíkum hvar í flokki sem þeir standa.

Uppréttir Íslendingar viljum við vera áfram og lifa sem frjálsir menn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 56
  • Sl. sólarhring: 61
  • Sl. viku: 1331
  • Frá upphafi: 316250

Annað

  • Innlit í dag: 33
  • Innlit sl. viku: 1051
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband