Leita í fréttum mbl.is

Greiningardeilda vísindin og gráðungakerfið

Flestir landsmenn vita að einkavæðing bankanna átti að gera Ísland að efnahagslegu stórveldi. Þannig töluðu frjálshyggjupostularnir í Sjálfstæðis-flokknum og þeir voru ekki í vafa um, að þegar " séníin þeirra " myndu fá svigrúm fyrir hæfileikana, myndi heimurinn falla fram og tilbiðja Ísland.

Margir gengust inn á þessa svikulu og síuppsettu tálmynd og fóru að trúa á goðin ! En þessar hugmyndir voru aldrei raunhæfar og beinlínis þjóðhættulegar eins og kom á daginn með skelfilegum afleiðingum.

Hin alræmda mynd af Geir Haarde og Valgerði Sverrisdóttur við að undirrita gjörninginn við Björgólfsfeðga ætti héreftir að hanga uppi á hverju íslensku heimili sem viðvörunarmerki undir forskriftinni " ALDREI AFTUR " !

Ógeðslegri mynd hefur varla verið tekin á seinni tímum - enda boðaði hún ekkert gott fyrir land og þjóð.

En nú skulum við athuga pínulítið hvernig þessir einkavæddu bankar störfuðu. Það voru settar á fót greiningardeildir til að sjá með góðum fyrirvara hverja hættu sem að steðjaði, svo hægt væri að bregðast við henni fljótt og örugglega. Hámenntað gráðufólk ( gráðungar ) í fjármálavísindum, var sett þar til starfa og ekki á neinum smálaunum. Edda Rós Karlsdóttir sem stjórnaði deildinni hjá Landsbankanum var með yfir 7 milljónir á mánuði og það er skrítið hvað starfsbræður hennar hjá Kaupþingi og Glitni voru lágt metnir miðað við hana, með rétt um 2,3 milljónir. En þetta var náttúrulega talið toppfólk innan fjármálablindgötugeirans.

En þegar þetta fólk kom í sjónvarpi í viðtal til að skýra út stöðu mála, var aldrei hægt að henda reiður á því sem það sagði. Það var sama hvort það var Edda Rós, Ásgeir Jónsson eða Ingólfur Bender.

Það voru alltaf hafðir uppi sömu frasarnir. " Við verðum að sjá hvað markaðurinn gerir ", " við verðum að bíða og sjá ", " Það er erfitt að spá í stöðuna eins og hún er núna " o.s.frv. o.s.frv........................ !

Fólkið virtist aldrei vita neitt hvað var að gerast. Það var í forustu fyrir varnar viðbragðadeildum bankanna, en virtist aldrei vita hvað var á seyði. Var virkilega verið að borga frá 2,3 upp í rúmar 7 milljónir á mánuði fyrir svona varðgæslu ? Svo kom hrunið, sem ekkert af þessu fólki sá fyrir og engar varnir voru settar við.

En eftir það er einmitt þetta fólk, þetta sama fólk, að flytja fyrirlestra, skrifa " lærðar greinar " og jafnvel " bækur " um hrunið, eins og t.d. Ásgeir Jónsson. Þá er allt ljóst og liggur þeim í augum uppi og enginn vandi fyrir þetta lið að teygja lopann með hagfræðilegum útskýringum og hvaðeina.

En eftir situr, að þegar þetta fólk var í lykilstöðum á hólmi fjármálanna, virtist það ekki vita neitt í sinn haus, varaði ekki við neinu og var alltaf að bíða eftir því að markaðurinn léti frá sér heyra !

Það var á háum launum til að sjá hlutina fyrir, svo hægt væri að bregðast við í tíma og byggja upp varnir. Það hafði allar mögulegar forsendur til að vega og meta málin, upplýsingar hvaðanæva að o.s.frv. En útkoman og eftirtekjan virðist sannarlega hafa orðið eitt stórt núll fyrir íslenska samfélagið. Toppfólkið var líklega ekkert toppfólk þegar allt kom til alls. Það stóð enganveginn undir væntingum þeirra sem treystu á getu þeirra og greiningarhæfni.

Það virðist hafa hirt sín háu laun út á verðleika sem voru ekki fyrir hendi eða reyndust allt of hátt metnir.

Þetta er nú eitt dæmið um þá vitleysu sem kemur upp þegar menntagráðurnar einar eru látnar ráða för, án nokkurrar samfylgdar reynslu og almennrar skynsemi !

Gunnar Tómasson hagfræðingur segir að það sé verið að reyna bjargráð sem séu engin bjargráð, því allra leiða sé leitað til að halda áfram að hygla þeim sem hyglað hefur verið undanfarin ár. Meðan ekki sé haldið á efnahagsmálum og peningastjórnun í landinu af neinu viti, sitji menn alltaf í sama feninu.

Það er ekki krónan sem er vandamálið. Það er meðferðin á krónunni eins og hún hefur verið, í höndum óhæfra manna sem allt of lengi hafa farið með þau mál til tjóns og skaða fyrir almenning þessa lands - þjóðina sem býr í þessu landi !

Árinni kennir illur ræðari. Krónan er og hefur verið verkfæri í höndum manna sem kunna ekki með hana að fara. Því þarf að linna.

Þjóðin sjálf - í heild sinni - er og á að vera besta greiningardeildin sem við höfum. Fyrir gullkálfsdans Davíðsáranna var til næg almenn skynsemi í þessu landi. Vekjum hana að nýju til vegs og virðingar og látum rök hennar ráða en ekki hálaunaheilabræðing gráðunganna.

Dekrið við sérfræðingana og sérgæðingana er búið að vera okkur nógu dýrt til þessa. Eltum ekki meira ólar við ábyrgðarlaust greiningarlið.

Við þurfum nýja þjóðarsýn, nýja hugsun til valda, hugsun sem tekur mið af þjóðarhagsmunum en ekki einkahagsmunum einhverra Bakkabræðra hér og þar.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 32
  • Sl. sólarhring: 100
  • Sl. viku: 1062
  • Frá upphafi: 309954

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 935
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband