Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Um traust á þingflokkum o. s. frv.

Mörgum þótti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur takast það ófimlega fyrir nokkru að tyfta og aga þingflokkinn sinn. Sjálfsagt hafa margir hugsað með sér, að henni væri öllu nær að gæta að eigin stöðu og reyna að standa sig í henni. Fyrir kosningar munu kjósendur líklega helst velta því fyrir sér hvort þeir geti borið traust til flokksformannanna sjálfra, sem marka trúlega frekast þá stefnu flokka sinna sem farin verður.

Sú var tíðin í Samfylkingunni að Össur þótti ekki nógu frambærilegur sem formaður fyrir kosningar. Þá var gripið til þess ráðs að gera sjálft stjörnugoðið, umrædda Ingibjörgu Sólrúnu, að forsætisráðherraefni flokksins og átti það að verða til þess að kjósendur hlypu hver um annan þveran til að kjósa Samfylkinguna.

Slík ofurtrú ríkti þá innan flokksins á því trausti sem þjóðin átti að bera til Ingibjargar Sólrúnar. Þessi flétta fór þó að mestu leyti í vaskinn því það vantaði kjarnann í hana – þjóðin hafði einfaldlega ekki þetta ætlaða traust á Ingibjörgu og taldi hana sjáanlega ekkert stjörnugoð !

Og hvert varð svo framhaldið ? Jú, þingflokkurinn hélt áfram að hafa mikla trú á Ingibjörgu þrátt fyrir allt og brátt var hún gerð að formanni flokksins og þá átti nú aldeilis að birta yfir. En saga Samfylkingarinnar er enn ýmsum skuggum vafin og vandséð hvað hleypt getur birtu inn í þær pólitísku dimmuborgir.

Og svo kom að því sem fyrr segir, að Ingibjörg formaður sem á bersýnilega í vandræðum með að skýra gengisleysi flokksins undir eigin stjórn, greip til þess örþrifaráðs að gagnrýna sitt eigið ráðuneyti, sem hingað til hefur mænt upp á hana votum hundstryggðaraugum.

Skyldi ekki þingflokkurinn hér eftir fara að þvo af sér persónudýrkunarglýjuna og sjá hlutina í raunhæfara ljósi ? Það er þó ómótmælanlegt að innan þess hóps eru einstaklingar sem hafa staðið sig vel í sínu starfi og njóta trausts sem slíkir. Þeirra tími hlýtur að koma myndi margur segja.

Ingibjörg Sólrún hefur nú haldið a.m.k. tvær illa grundaðar ræður utan Reykjavíkur. Það er eins og hana skorti súrefni til heilans þegar hún fer í ræðustól utan borgarmarkanna. Haldi hún hugsanlega þriðju ræðuna með svipuðum hætti, gæti svo farið að þingflokkur Samfylkingarinnar færi að efast um hæfni hennar fyrir komandi kosningar og flokkurinn yrði aftur tvíhöfða fyrirbæri, forustulega séð. Össur yrði gerður að forsætisráðherraefni flokksins fyrir kosningarnar og hún yrði eins og hann áður - halaklipptur formaður.

Það yrðu vissulega stórslysaleg örlög fyrir margra ára stjörnugoð Samfylkingarinnar !

Margir hafa orðið til þess að undrast umsögn Ingibjargar varðandi eigin þingflokk, sumir hafa harmað þá uppákomu en pólitískir andstæðingar séð ríka ástæðu til að fagna af því tilefni.

Jafnvel Framsóknarmenn hafa þóst góðir yfir þessu axarskafti Ingibjargar og  haft málið í skympi, en þeir virðast ekki hafa hugsað út í það í hvílíku glerhúsi þeir sjálfir hafa staðið í hliðstæðum efnum.

Nýlega urðu formannsskipti hjá þeim og fráfarandi formaður gat ekki séð nokkurn möguleika á því að láta kjörinn varaformann taka við embættinu. Honum var sem sagt ekki treystandi til að halda á málum fyrir flokkinn. Ekki var þingflokkurinn beysnari að áliti guðföður kvótakerfisins, því enginn þar kom heldur til greina sem formannsefni. Slíkt var hæfnisleysið !

Reynt var að troða upp með viðskiptagúrú út í bæ sem formann en hann fékk ekki þann stuðning sem þurfti.

Þá brá fráfarandi formaður Framsóknar sér í öfugan snúning og sótti formannsefni í Seðlabankann sem síðan var karað formlega í embættið nokkrum vikum síðar. Við þá athöfn var svo sami varaformaður og hafði mætt fyrrgreindu vantrausti kosinn þrumukosningu á ný eins og ekkert hefði í skorist !

Steingrímur Hermannsson hefði sennilega hrist hausinn yfir svona vinnubrögðum og sagt mæðulega : “ Æ, ég verð nú bara að segja að ég hef áhyggjur af þessu ! “

En mæðudagar Framsóknar verða nú varla fylltir fyrr en þá í vor og sennilega hefði verið ráðlegast að stilla Kristni H. Gunnarssyni  upp sem formannsefni flokksins.

Segja má að hann einn þingmanna Framsóknar hafi verið svona nokkurnveginn frír við alla Halldórsvitleysuna sem hefur gengið yfir þennan fyrrverandi félagshyggjuflokk eins og farsótt á undanförnum árum og drepið hann í dróma íhaldsþjónkunar og sívaxandi aumingjadóms.

En þar sem Kristinn er farinn úr Framsókn og flokksmönnum þar var fyrirmunað að sjá í tíma að hann gæti hugsanlega bjargað þeim, er sú fléttan auðvitað farin.

Það er svo sem ekki nema von að þjóðin eigi erfitt með að gera upp hug sinn fyrir komandi kosningar þegar pólitískir valkostir eru að verða jafn snautlegir og raun ber vitni. Jafnvel menn sem hafa alla tíð haft sannfæringu fyrir ákveðnum valkosti sem hinum rétta, eru nú í fullkominni óvissu með hvað þeir koma til með að gera.

Sumir halda því líka blákalt fram að mannlegu atgervisstigi innan þingsins hafi verulega hrakað á seinni árum og líklega má færa þó nokkur rök fyrir því að svo sé. Ef það er í sannleika svo, er um lýðræðislega afturför að ræða sem hefur sín slæmu áhrif fyrir þjóðina alla. Þeim virðist stöðugt fjölga sem telja sig sjá dæmin um þetta.

Það er meira en dapurlegt þegar það virðist að öllum líkindum gildandi staðreynd, að alþingi sem slíkt hafi aldrei í sögu sinni notið minni virðingar meðal þjóðarinnar en einmitt núna. Það er meira en dapurlegt segi ég, því það er beinlínis hættulegt með tilliti til eðlilegrar lýðræðisþróunar í landinu.

Skyldi ekki mega halda því fram að þjóðhagsleg nauðsyn kalli á það að kannað verði hvernig á því stendur ?

Jan. 2007.
Rúnar Kristjánsson


SJÁLFSSÓKNARFLOKKURINN

Mörgum finnst sem pólitískar landamæralínur milli Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafi hreinlega horfið á síðustu árum. Þar segja menn engin greinanleg skil lengur.

Víða er á það bent að Framsókn hafi færst talsvert til hægri undir forustu Halldórs Ásgrímssonar og telja sumir að maddaman sé jafnvel farin að skáka Sjálfstæðisflokknum á ýmsum fornum kjörsviðum hans. Það sé því nokkuð hlálegt að hugsa til þess að flokkurinn sem forðum hafði á hraðbergi slagorðið “ Allt er betra en íhaldið “ skuli,  að margra dómi, vera kominn allt að því hægra megin við íhaldið í stóriðjumálum, frjálshyggju-sjónarmiðum, einkavæðingar-stefnu og hömlulausri Mammonsdýrkun.

Vilja sumir tala um Stóra Sjálfstæðisflokkinn og litla sjálfstæðisflokkinn í þessu sambandi. Þykir mörgum sem Framsókn hafi slitið öll tengsl sín við félagshyggjustefnu fyrri ára með blóðsáttmála sínum við íhaldið undanfarin ár. Segja þeir hinir sömu jafnframt að Framsóknarforustan sé þegar búin að slá öll forn met krata í undirgefni og þjónkun við íhaldið og er þá vissulega langt gengið.

Er það nú ætlun sumra að Framsóknarflokkurinn muni með tíð og tíma renna saman við Sjálfstæðisflokkinn, enda sé það tóm vitleysa af mönnum með sama hugsunarhátt að vera að halda úti tveim flokkum !

Allt er þetta umhugsunarvert því ljóst er að fáir líta á Framsóknarflokkinn sem vinstri flokk nú til dags, þó hann hafi óneitanlega í eina tíð viljað gangast við slíkri skilgreiningu.
En Framsókn hefur svo sem ýmsu tjaldað um dagana.

Um skeið var flokkurinn inn á því að skilgreina sig sem miðjuflokk og varaði þá við öfgum jafnt til hægri sem vinstri. En svo kom Steingrímur Hermannsson flokknum aftur í nokkurnveginn hefðbundið vinstra far en þó brá alltaf fyrir ýmsum maddömu-sveiflum til hægri og vinstri, sennilega  eftir því sem vindurinn blés. En svo segja menn að Halldór Ásgrímsson hafi sem formaður kippt flokknum snarlega upp úr Steingríms-farinu og dregið hann langleiðina inn í Sjálfstæðisflokkinn. Með þeim gjörningi hafi Halldór í raun lagt undirstöður að nýjum hægri flokki – Sjálfssóknarflokknum ! Flokki sem sækir allt fyrir sjálfan sig og sjálfan sig einan !

Mörgum fannst nú nóg að hafa einn slíkan flokk fyrir í landinu þó ekki bættist annar við !
Davíð Oddsson færði, svo sem flestum er kunnugt, Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra-embættið á samtryggðu silfurfati. Með þeim gjörningi hefur Davíð sennilega fyrst og fremst verið með það í huga, að þóknast Halldóri persónulega með því að gefa honum kost á vegtyllu sem sá síðarnefndi mun vafalaust all lengi  hafa haft augastað á.

Einhverjir maddömumenn munu samt sem áður hafa verið ósáttir við það, að formaður Framsóknarflokksins skuli hafa fengið forsætisráðherraembættið sem einhverskonar dúsu eða umbun frá Sjálfstæðisflokknum - eins og framlag fyrir veitta þjónustu....!

En skiptir það einhverju máli þegar Framsóknarmenn, að minnsta kosti margir hverjir, virðast  orðnir að gallhörðum Sjálfstæðismönnum í hjarta sínu ?

Víða í sveitum landsins sitja gegnheilir Framsóknarmenn af eldri kynslóðinni, sem hafa alltaf haft á hreinu hugsjónir félagshyggju og samvinnustefnu, en sem nú vita ekki sitt rjúkandi ráð. Þeir horfa sem eyðilagðir menn upp á flokksforustuna vinna í öfugum anda sem hjálparkokkur íhaldsins í því  að brjóta niður ölturu félagshyggjunnar í þessu landi. Ölturu sem Framsóknarmenn fyrri ára lögðu mikið í að byggja upp !

Vegna þessarar þjónkunar gerði íhaldið Halldór Ásgrímsson að forsætisráðherra. Það vissi að öllu var óhætt, þeirra maður sat hvort sem var og engu að síður í embættinu  !

Stóri Sjálfstæðisflokkurinn var þannig um tíma leiddur af  litla sjálfstæðis-flokknum. Stóri flokksformaðurinn gekk nefnilega út af sviðinu undir dynjandi lófataki dýrkenda sinna og skildi við flokkinn sinn í þeirri auðmýkjandi stöðu, að sitja undir forsæti litla flokksformannsins.
Það var nú lokasigurstaðan hjá þeim mikla manni !

Og litli flokksformaðurinn var sæll og glaður um tíma með sína vegtyllu, þó hann hefði leitt flokkinn sinn inn í pólitískt tómarúm sem hefur ef til vill lokað alfarið á alla afturkomu til félagslegra átthaga fyrri hugsjóna.

En svo ákveður hann allt í einu að hætta í stjórnmálum og hefði þó verið skynsamlegra af honum að sitja út kjörtímabilið, svo hans yrði ekki minnst eftirleiðis sem Framsóknarforsætisráðherrans, sem smeygt var í gustukaskyni inn á milli tveggja sjálfstæðismanna !

En hann er þó ekki meira hættur en það, að hann vill sjálfur ráða mestu um það hver tekur við af honum í Framsóknarflokknum og nú er hald sumra að Jón úr seðlabankanum eigi að vera arftakinn, eftir að Finni var fargað í beinni.

Sú var tíðin að afdankaðir ríkisstjórnargaurar urðu nánast sjálfkrafa blýantsnagarar í seðlabankanum og ekki síst formenn flokka, en nú er farið að snúa þeim málum heldur hressilega við, maður er sóttur í seðlabankann og gerður að ráðherra og hver veit, kannski flokksformanni innan tíðar !

Og Guðna varaformanni, sem nánast einn Framsóknarráðherranna hefur að einhverju leyti reynt að halda í þjóðlegar hefðir og félagsleg viðhorf, virðist alfarið hafnað af flokksforustunni sem framtíðarleiðtoga flokksins.

Hvað myndu þeir Tryggvi og Jónas annars segja, ef þeir gætu horft upp á flokkinn sinn í dag, miðað við þá afstöðu til mála sem þeir höfðu meðan þeir voru og hétu ? Skyldu þeir þekkja flokkinn sinn aftur, skyldu þeir kunna við þá græðgi sem hefur einkennt valdatíð hans síðustu árin eða kannski telja að fram væri komið eitthvað fyrirbæri sem væri verra en íhaldið ?

Rúnar Kristjánsson

(Ritað sumarið 2006.)

---

FRAMSÓKN – FYRR OG NÚ

Er Jónas og Tryggvi með talandi verkum
tímunum breyttu með vorhuga sterkum,
svo samvinnuhugsjónin lýsti upp landið
með lifandi hætti – var forustu treyst.
Gegn íhaldsins valdi þeir sigrana sóttu
og sérstakir foringjar alla tíð þóttu,
svo fjölmargir tóku á sig flokkslega bandið
og Framsóknarmerkið var þannig upp reist !

Þó upphafið væri með vænlegum hætti
sem víða úr meinlegum aðstæðum bætti,
þá sóttu nú að hinar sérlegu þarfir
og svo fór að lokum að mörgu var gleymt.
Því flokkslega hagstjórnin heimtaði mikið
og hanarnir settust þar fljótlega á prikið,
og breyttu þar áherslum öllum svo djarfir,
að enginn gat lengur hið glataða heimt !

Og þannig var spilað með hugsjónir háar,
að hagstjórnin gerði þær allar svo smáar,
og þynnti hvert gildi sem göfugt var talið
uns græðginnar andi þar húsunum reið.
Og pólitísk skurðgoð við tilbeiðslu tálsins
þá tálmuðu framgangi upprunamálsins,
og síðan var stöðugt á einsýni alið
og uppeldið miðað við flokkslegan seið !

Og þjónkun við öfuga sjálfstæðis siði
var saumuð við flokkinn með útlendu sniði.
Þótt hanarnir göluðu um íhaldið auma
þeir áttu í hjartanu samleið með því.
Svo fljótt stefndi allt fyrir ætternisstapa
því erfitt er löngum úr hugsjón að skapa
þann raunveruleika sem ræður við drauma
og ratar til framtíðar gæfuspor í !

Þó Jónas og Tryggvi með talandi verkum
tímunum breyttu með vorhuga sterkum,
fer nú í súginn til sjálfstæðismanna
hver sigur er forðum var unninn af þeim.
Svo nú er hún Framsókn að falla á tíma
því flokknum er liðin úr minni sú glíma
sem fyrrum var háð fyrir samvinnu sanna
með sækjandi krafti um íslenskan heim !

Rúnar Kristjánsson


Wolfowitz siðferðið

Þegar George W. Bush varð forseti Bandaríkjanna hérna um árið, illu heilli, fylgdi honum harðsnúin haukasveit inn í Hvíta húsið og brátt kom í ljós hverskonar lið var þar á ferð. Donald Rumsfeld fékk Pentagon í sinn hlut og hans hægri hönd þar var Paul Wolfowitz. Mörg mistök Bandaríkjamanna í Írak má, að mati ýmissa sérfróðra manna, skrifa beint á reikning Rumsfelds, sem er talinn hrokafullur og yfirgangssamur maður og lítið fyrir að hlusta á aðra.

En þessi mannlýsing er ekki síður talin eiga við fyrrum aðstoðarmann Rumsfelds í Pentagon, fyrrnefndan Paul Wolfowitz. Fyrir tveimur árum var hann gerður að forstjóra Alþjóðabankans, en með þeim gjörningi hefur Bush trúlega hugsað sér að verðlauna þennan alikálf sinn með feitu embætti og jafnframt kannski viljað færa hann aðeins til. Ýmsar harðlínu umsagnir Wolfowitz sem rötuðu til fjölmiðla beint eða óbeint áttu það nefnilega til að vekja upp meiri andúð á stjórn Bush og var þar ekki orðið á bætandi.

Wolfowitz hóf feril sinn innan Alþjóðabankans með því að krefjast tiltektar í flestum efnum og gekk hart fram í því að uppræta spillingu og tryggja í hvívetna siðlega framgöngu starfsfólks bankans. Það var að minnsta kosti yfirlýst markmið hans á þeim tímapunkti. Ekki hirti hann um að hafa samráð við aðra í neinu varðandi þessa tiltekt, enda vanur því að fara sínu fram. Þótti samt sumum í byrjun sem þarna væri ekki svo illa af stað farið og full þörf væri á breytingum til batnaðar í starfsháttum bankans.

En svo fór ýmislegt að koma í ljós sem sýndi svo ekki varð um villst að umræddur Paul Wolfowitz var ekki beint sjálfum sér samkvæmur í þessari  herferð sinni gegn spillingu og siðleysi. Hann réð tvo félaga sína úr Bush-flokknum sem sína helstu ráðgjafa innan bankans og skenkti þeim verulega kauphækkun. Hann sá til þess að ástkona hans, sem starfaði hjá bankanum, fengi heilmikla launahækkun þó hún hætti störfum hjá bankanum og færi til starfa í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Ekki þótti hæfa að hún starfaði áfram hjá bankanum eftir að Wolfowitz tók þar við forráðum, en bankinn tók hinsvegar að sér að greiða laun hennar hjá utanríkisráðuneytinu til næstu 5 ára og þau voru jafnframt hækkuð sem fyrr segir. Wolfowitz sá sjálfur um þessar ákvarðanir og virðist ekki hafa verið smátækur á fé bankans í þessu augljósa hyglingarmáli.

Launahækkunin var slík að á ársgrundvelli virðist hún nema ríflega tvöfaldri launahækkun annarra starfsmanna bankans. Auk þess hefur komið í ljós að snúi blessuð konan aftur til bankans eftir 5 ár, fær hún stöðuhækkun og getur hugsanlega orðið aðstoðarbankastjóri árið 2015. Þess ber ennfremur að geta að hún hefur að öllum líkindum hærri laun í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna en sjálfur utanríkisráðherrann Condoleeza Rice ! Ástkonu Wolfowitz bankastjóra hefur því greinilega ekki verið í kot vísað með kjör og kosti, eins og staðreyndir málsins sýna og sanna.

En Wolfowitz hefur hinsvegar orðið ber að því að viðhafa tvöfalt siðferðismat í afstöðu til mála. Hann herjar á aðra fyrir spillingu en virðist hiklaust brjóta hinar siðferðilegu reglur þegar það hentar honum og hans skylduliði. Fyrir hann og þá sem hann tekur að sér gildir einn rúmur mælikvarði, fyrir aðra þröngur og strangur mælikvarði. “Oh, how American !“, gæti einhver freistast til að segja í þessu sambandi.

Það er í fyllsta mæli undarlegt þegar hálærður haukur á borð við Wolfowitz blæs til sóknar gegn spillingu og þykist vera í einhverskonar krossferð gegn röngum starfsháttum, en reynist svo sjálfur ekki virðingarverðari persóna en þetta. Er maðurinn gjörsamlega dómgreindarlaus ?

Paul Wolfowitz hefur sjáanlega opinberað sína eðlis innréttingu í þessu máli og hún virðist ekki traustlega smíðuð að siðferði, réttlætistilfinningu og sanngirni. Hann virðist vissulega eiga margt og mikið sameiginlegt með þeim Bush og Rumsfeld – það mætti halda að allir þessir menn hefðu það beinlínis að markmiði að koma óorði á Bandaríkin, því þannig hafa verk þeirra komið milljónum manna fyrir sjónir. Bandaríkin þurfa svo sannarlega á leiðtogum að halda sem eru af öðru og betra tagi en þessir menn.

Framganga Wolfowitz hefur verið með undarlegum hætti á ýmsum tímum. Sagt er t.d. að þekktur Bandaríkjamaður sem sat fund með honum, líklega skömmu eftir árásina á tvíburaturnana, hafi eftir á sagst hafa farið að velta því alvarlega fyrir sér hvort hann væri “ really on our side “ !
Dómgreindarbrestur Wolfowitz í því máli sem hér hefur verið reifað er slíkur, að allt virðist mæla eindregið með því að hann verði settur af sem forstjóri Alþjóðabankans. Trúlegt þykir hinsvegar að Bush forseti muni halda verndarhendi sinni yfir þessum samverkamanni sínum fram í bláan dauðann, jafnvel þótt ljóst sé að Wolfowitz hafi ekki komið fram sem heppilegur fulltrúi fyrir Bandaríkin í starfi sínu.

Menn sem ganga fram í nafni tiltekins ríkis í störfum sínum, verða jafnan að skilja það, að athafnir þeirra, ef slæmar eru, varpa rýrð á þann skjöld sem borinn er fyrir þeim. Paul Wolfowitz virðist hinsvegar ekki hafa skilið þann sannleika og því miður er alls konar Wolfowitz siðferði í fullum gangi víða um heim.

Menn geta svo rétt ímyndað sér hvílíkan skaða slíkt framferði vinnur þeim gildum sem allir ættu að virða. Þegar maður veltir þessu máli fyrir sér, fer maður óneitanlega að hugleiða hverju megi búast við af smáfuglunum þegar haukarnir hegða sér með þessum hætti ?


Hvert stefnir með ábyrgð og annað?

Það að bera ábyrgð virðist vera mjög afstætt hugtak í íslensku þjóðfélagi eins og það horfir við augum í dag. Við höfum séð lögmenn standa í ströngu við að bjarga forstjórum stóru olíufélaganna frá dómi vegna hinna illræmdu samráðsmála. Þar ber víst enginn maður neina ábyrgð og lögfræðikunnátta hefur vissulega stundum virst nægilegt framlag til að tryggja uppmálað sakleysi. Varnarmálaráðuneyti samtryggingarinnar hefur jafnan reynt að sjá til þess að þeir stóru sleppi fríir og frjálsir frá málum og allt of oft hefur það gengið eftir. En þjóðin sem slík veit hvað gerist þegar um spillingarmál er að ræða og hún mun aldrei sýkna framferði sem gengur í bága við alla réttlætiskennd.

Nú hefur löngum verið sagt að háttsettir menn eigi rétt á háu kaupi vegna mikillar ábyrgðar sem þeir beri í störfum sínum. Því hærra sem maðurinn standi í goggunarröð mannvirðinganna því meiri ábyrgð beri hann og því hærra kaup eigi hann að fá. En raunveruleikinn sýnir okkur að þegar reynir á þessa ábyrgð, er hún þeim mun minni sem viðkomandi maður stendur hærra í tignarstiganum. Varnarmálaráðuneyti samtryggingarinnar bregst nefnilega því harðar við sem maðurinn sem á að bjarga frá réttlætinu stendur hærra.

Íslensk réttvísi virðist því tröppuskipt fyrirbæri, sem minnkar þeim mun meira að virkni og gagnsemi eftir því sem brotavaldurinn stendur hærra. Það getur því orðið mikill munur á dómsniðurstöðum gagnvart þeim sem stela miklu og standa hátt og gagnvart þeim sem stela litlu og standa lágt, eins og segir í vísunni alkunnu. Það þykir með öðrum orðum sjálfsagt að þeir sem lágt standa, axli fulla ábyrgð á sínum axarsköftum og verði nokkurskonar syndahafrar dómskerfisins.

Í ljósi þessara staðreynda sjáum við gjörla að ef allt væri með felldu, ættu menn að fá því lægra kaup sem þeir standa hærra, því ábyrgð þeirra er sannarlega þeim mun minni sem því nemur.

Íslenskt þjóðfélag virðist á allra síðustu árum hafa verið að breytast í einhverskonar frjálshyggjufyrirtæki, sem tilbiður gullkálf sérhyggjunnar af ástríðu, en kýs að fleygja öllum félagslegum gildum í sorpið. Unga kynslóðin er nú til dags alin upp við óþjóðlegan kapitalisma sem er svo gengdarlaus í græðgi sinni að gamla fólkið situr gjörsamlega agndofa yfir heimtufrekju og tillitsleysi tíðarandans. Og það segir við hvert annað: “ Ekki háðum við okkar baráttu til að koma á þessari vitleysu ! “

Dýrkun á auðmönnum og allskyns peningapúkum, víxlurum og hagfræðidindlum, virðist fara dagvaxandi. Jafnvel forseti lýðveldisins virðist haldinn einhverri ánetjun af þessu tagi, því hann virðist mikið á sveimi í kringum auðmenn heimsins. Sumir þeirra kynnu að eiga erfitt með að upplýsa hvernig þeir fóru að því að sanka að sér þeim auðævum sem þeir teljast eiga í dag. Myndin er ekki hreinni en það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar að rétt væri að halda forsetanum sem mest utan við umræður um dagleg álitamál, en stundum er framganga hans með þeim hætti að maður getur ekki orða bundist.

Forseti Íslands er fulltrúi íslensku þjóðarinnar, almennings í þessu landi, fólksins sem vinnur hörðum höndum fyrir sér og sínum, jafnvel með margföldu vinnuframlagi. Það fólk á enga samleið með milljarðafurstum sem arðræna alþýðu manna út um allan heim og þjóðkjörinn forseti okkar mætti vel hyggja að því að þjóðin gæti talið annan félagsskap honum hollari og betri. 

Ég játa það hiklaust að ég fæ hálfgerð ónot í mig þegar ég sé forseta okkar í föruneyti slíkra manna og tel það hvorki honum né þjóðinni til gildis. Ekki get ég með nokkru móti séð Kristján Eldjárn, okkar alþýðlegasta og íslenskasta forseta, fyrir mér í flaðursleik af slíku tagi !

Það er von mín sem og vafalaust allra sem enn vilja heita þjóðhollir Íslendingar, að þjóðin gái að sér og tapi ekki áttum í þeim gerningaveðrum sem að henni eru mögnuð í yfirstandandi tíma. Þeir eru margir froðusnakkarnir sem lofa Gósentíð framtíðarheilla ef við gefum sjálfstæði okkar eftir og hlaupum berrössuð inn í Brusseldilkinn. En við skulum varast þær óvinatungur og áróður þeirra.

Landhelgin okkar sem vannst eftir mikla baráttu á sínum tíma, má aldrei verða skiptimynt í skítugum skollaviðskiptum við erlend arðránsöfl.

Vörum okkur á íslenskum talsmönnum evrópskrar alræðishyggju sem vilja fullveldi okkar sannarlega feigt. Þeir flagga kannski margföldum menntagráðum og sitja kannski við kjötkatla í háborg íslenskrar menningar, en þeir eru þjóðvilltir aumingjar fyrir því.

Verjum sjálfstæði okkar og sögulega arfleifð þjóðarinnar með andanum sem ríkti 1918 og 1944 - endurvekjum hann og setjum hann í öndvegi á ný.

Slík framganga mun gegna bestu ábyrgðarhlutverki nú sem áður fyrir heilbrigða hagsmunastöðu lands og þjóðar.

Rúnar Kristjánsson


Nýja NATO - Hugleiðingar að gefnu tilefni

Nú eru þegar liðin nokkur ár frá því að Nýja Nato steig sín fyrstu skref á styrjaldarbrautinni. Og ljót voru þau skrefin og ógeðsleg, eins og allt sem snýr að manndrápum. Gamli stofnsáttmálinn var þá þegar úr sögunni hvað yfirstjórnina snerti, valdakjarnann sjálfan, það er að segja Bandaríkin, en undiraðildar þjóðirnar, hin ríkin, héldu þó áfram að ímynda sér að hann væri í gildi. Það var hin tálbeitta hugsvölun þeirra.

En valdakjarninn í hinu fyrrverandi varnarbandalagi vestrænna þjóða var búinn að breyta skipulaginu. Það hafði verið haldinn útbreiðslufundur við eldinn niðri og oddvitinn stóð þar auðvitað á sínum stað, í þvögunni miðri, svo tekin sé líking af kvæði Davíðs Stefánssonar “ Vér skipuleggjum “.

Mergur málsins er því að gamla Nato er horfið og reglur þess með því. Bandalagið átti um tíma í miklum erfiðleikum með að finna fótfestu og hlutverk í breyttum heimi eftir að kalda stríðinu lauk. Það varð því að skilgreina hlutverk Nató upp á nýtt og brátt birtist það umheiminum enn naktara og augljósara en áður, en það er einfaldlega að tryggja bandarísk yfirráð og áhrif um veröld alla.

Það eru nóg vopn til í geymslum Sáms frænda og vafalaust nóg framboð af hershöfðingjum sem vilja ólmir fá að nota þau. Til hvers er að hlaða öllum þessum morðtólum upp, ef það má aldrei nota þau, segja generálarnir í Washington, vafalaust stórhneykslaðir á sína vísu !

Nú eru Sovétríkin ekki lengur til að halda aftur af stríðsmönnum Pentagon-klíkunnar, nú er hægt að leika sér án þess að eiga beint á hættu kjarnorkustríð. Þannig virðist viðhorfið vera ! Varnarbandalag er því talið úrelt hugtak í dag, þar sem enginn árásaraðili er fyrir hendi sem óttast þarf. Og hershöfðingjarnir kunna sér ekki læti. Þeir hafa því breytt skipulaginu, búið til árásar-bandalag, enda finnst þeim það miklu flottara. Nú er svigrúm til að nota tækin og tólin og sjá almennilega hvernig þau virka. Það er sko munur en í gamla daga.

Og Nýja Nato hefur því sturtað stofnsáttmála Gamla Nato niður um gullhúðaða klósettið í Pentagon sem var sérstaklega hannað fyrir þá æðstu…. engar reglur, takk, þær flækja bara málið ! En fyrir Breta og Þjóðverja og annað undirmálslið yfir í henni Evrópu er sjálfsagt að gera málið huggulegra með því að tala hlýlega um gamla stofnsáttmálann. Hann var nú einu sinni undirritaður hér á árum áður af fulltrúum allra þessara friðelskandi þjóða sem eru svo sannar og sjálfum sér samkvæmar. Og auðvitað gerðu þær það í góðri trú – til að bjarga heiminum !

En í veruleikanum er Gamla Nato dottið út, en Nýja Nato siglir fyrir þöndum herseglum inn í sitt tvíeflda og endurhannaða hlutverk – að gæta hagsmuna heimsveldis Pentagon og Wall Street-manna í hvívetna !

Nú skal gert út á nýja nýlendustefnu. Auðlindir jarðar mega ekki vera í höndum einhverra ómerkilegra undirmálsþjóða. Olía, demantar og gull, allt á þetta auðvitað að tilheyra þeim sterkasta ! Þannig hljóma raddirnar frá Pentagon, Washington og Wall Street. Og samkvæmt herfræðinni er það sóknin sem gildir en ekki vörnin. Allir skulu fá að sjá og viðurkenna, að Kaninn er stærstur, voldugastur og mestur  ! Það er Stórkaninn sem ræður landakortum heimsins í dag.

Nýja Nato á að sjá til þess að Sámur gamli hafi allsstaðar úrslitavöld. Heimsherlögreglan er í nánd við teikniborðið og hún verður hönnuð í hvívetna í anda Pinochets og hans líka. En því miður verður ekki friðvænlegra í henni veröld við þetta nýja skipulag, heldur þvert á móti – það segir sig sjálft.
Sá sem vill ráða yfir öllum, þarf nefnilega stöðugt að færa sönnur á að hann hafi styrkinn til þess. Það verða  því vafalaust fleiri sem munu hljóta þau örlög að verða sprengdir í loft upp, og jafnvel aftur á steinöld, á næstu árum. Írakar og Serbar verða ekki þeir einu !

Ef eitthvert ríki á nú sögulega samsvörun við assýríska heimsveldið, þá eru það Bandaríki Norður Ameríku sem virðast  algjörlega hafa snúið baki við hugsjónum og gildum Washingtons, Adams, Jeffersons og Lincolns – allir þessir menn myndu trúlega snúa sér við í gröfum sínum ef þeir sæu atburðarás heimsmálanna í dag. Barnið sem þeir ólu upp er orðið að ófreskju í augum tugmilljóna manna út um allan heim. Það hefur nánast breyst í andstæðu sína. 

Það er skiljanlegt að Kofi Annan hafi notað tækifærið á síðustu dögum sínum sem aðalritari S. Þ. til að vara Bandaríkin við afleiðingum óbreyttrar stefnu.

En það er kannski ekki svo ýkja langt í skuldadagana, þar sem því hefur verið spáð, að ógnaratburðir muni leika Bandaríkin svo, að þau muni sundrast að mestu og ofurvald þeirra hverfa.Valdshroki þeirra er orðinn að höfuðsynd, því heimsvaldastefna er dauðastefna, ekki síst fyrir þann sem heldur henni fram.

Það er risafingur að rita á veggi um allan heim dóminn yfir Bandaríkjunum –  Mene tekel upharsin !Honum verður ekki áfrýjað eða breytt úr þessu.

Rúnar Kristjánsson.


NOKKUR ORÐ UM ÍRAKSMÁLIN

Ég ritaði þessa grein eftir að sú skelfilega staðreynd lá fyrir að tveir menn hefðu dregið Ísland inn í hóp taglhnýtinga Bush-stjórnarinnar og gert íslensku þjóðina að árásaraðila gegn írösku þjóðinni. Greinin fékkst ekki birt í blöðum.
 
Ekki er hægt að segja að maður geti verið ýkja hreykinn af því að vera Íslendingur þessa dagana. Ríkisstjórn landsins hefur af einstakri þjónkun og lítilmennsku hlaupið í lið með Bush-stjórninni og ábyrgðarlausum stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak.

Litla friðarþjóðin í norðrinu er allt í einu komin í hóp harðlínuþjóða sem telja það sitt stærsta lífsmál að fylgja Stóra bróður í öllu því sem hann tekur upp á. Með athöfnum sínum er ríkisstjórn Íslands að grafa undan alþjóðlegri samvinnu til lausnar deilumálum. Sameinuðu þjóðirnar standa auðvitað veikari eftir þegar Bandaríkin hundsa alþjóðlegt samstarf og fara sínu fram hvað sem hver segir. Og utanríkisráðherra Íslands sem talaði í haust með öðrum hætti en nú, hefur sýnilega verið talaður inn á línuna sem forsætisráðherra gaf sér strax að væri sú eina rétta. Þegar þessir tveir forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa svo verið spurðir út í málin, hafa þeir ekki átt nein  önnur svör en að tíunda glæpi Saddams Husseins og benda á hvílíkur voðamaður hann sé og hafi verið.

Það hefur verið aumkvunarvert að hlusta á þessa ráðamenn okkar og ekki hefur síður verið lélegt að horfa upp á hvað fréttamenn sjónvarps hafa verið linir við þá og látið þá komast upp með allskyns útúrsnúninga. Báðir hafa þeir Davíð og Halldór talað margsinnis í sjónvarpi og víðar um stríð Íraka við Írani, þar sem Saddam Hússein hafi verið valdur að því að ein milljón landa hans hafi látið lífið. Og ennfremur hafa þeir talað um efnavopnanotkun hans gegn Kúrdum sem gífurlegan höfuðglæp. Þetta er í sjálfu sér allt rétt svo langt sem það nær. En sagan er ekki sögð nema að litlu leyti.

Mergur málsins er sá, að þessir miklu glæpir voru framdir meðan Saddam Hússein var yfirlýstur bandamaður Vesturveldanna og þá undir sérstakri blessun Bandaríkjanna. Það voru Vesturveldin sem mokuðu vopnum í hendur Saddams Hússeins svo hann gæti staðið í stríðinu við Írani. Það voru Vesturveldin sem létu hann fá efnavopn og þá var ekki talað um hvað það væri hættulegt að fá slíkum manni slík vopn í hendur. Þegar Saddam beitti svo þessum efnavopnum gegn Kúrdum í Norður-Írak, heyrðist ekki mikið í ríkisstjórnum Vesturlanda. Saddam Hússein var nefnilega vinur þeirra og bandamaður. Það voru Vesturveldin sem byggðu kjarnorkuver fyrir Saddam Hússein og umheimurinn má þakka Ísraelum fyrir það að þeir rústuðu því 10 árum fyrir Flóabardaga og fengu reyndar skammir um allan heim fyrir vikið. Hefði Saddam hugsanlega fengið að þróa kjarnavopn í friði í áratug geta menn spurt sig að því hvað hefði getað gerst 1991?

Það þarf að segja hverja sögu eins og hún er. Það er hinsvegar sjaldnast gert þar sem það þjónar ekki yfirlýstum markmiðum þeirrar áróðursvélar sem gengur stöðugt fyrir lygum en virðist aldrei geta gengið fyrir eldsneyti sannleikans.

Eftir 1990  breyttist hið pólitíska landslag í Mið-Austurlöndum  allt saman. Innrásin í Kúveit var nefnilega skoðuð sem alvarleg ógnun við olíuhagsmuni Bandaríkjamanna og Breta. Skyndilega var farið að deila á Saddam Hússein fyrir glæpina sem hann drýgði meðan hann var enn í náðarfaðmi Vesturveldanna. Allt í einu var besti bandamaðurinn gegn klerkaveldinu í Íran, orðinn hinn versti glæpamaður. Samt var þetta maður sem Bandaríkin og fylgiríki þeirra höfðu áður tekið sér til jafnaðarmanns án þess að depla augum, þó að þeim væri gjörkunnugt um blóðidrifinn feril hans.  Það væri ærlegra af mönnum eins og Davíð og Halldóri, að segja söguna eins og hún er, í stað þess að velja úr henni það sem þeir telja áróðursins vegna útgengilegast hverju sinni.

*** 

Nú virðist nefnilega sem verið sé að byggja upp nýja ímynd Íslands fyrir augum umheimsins. Það á víst að sýna okkur núna sem herskáa þjóð sem vill taka þátt í stríðum, skapa eyðileggingu og stuðla að manndrápum. Við Íslendingar erum greinilega komnir langt frá hinum gömlu fyrirheitum um ævarandi hlutleysi. Aðild að sóðaverkum fylgir því náttúrulega að vera í ógeðslegum félagsskap hernaðarsinna og arðránsmanna.

En til að dylja alvöru málsins og alla svívirðuna, tala forsætisráðherra og utanríkisráðherra fjálglega um að við ætlum að sýna þá ábyrgð að taka þátt í tiltektinni eftir stríðið. Fyrst á að vera aðili að eyðileggingunni og svo á að sýna gæskuna og taka til. Hverskonar málflutningur er þetta eiginlega?

Skyldu tiltekin fyrirtæki sem hafa fitnað á veru Ameríkana hér, eiga að fá sporslur við tiltektina, eins og fyrirtæki Cheneys og fleiri hauka vestanhafs? “Miklir menn erum við, Halldór minn,” er kannski sagt um þessar mundir í stjórnarráðinu af þeim sem telur nú rússneska kosningu sterkasta vottinn um ósvikið lýðræði.  Það er sýnilega mikill hershöfðingi við stjórnvölinn á Íslandi.

***

Ekki var það heldur til fyrirmyndar þegar forsætisráðherra talaði opinskátt um það í sjónvarpi, að það yrði mikil landhreinsun ef Saddam Hússein yrði drepinn og harmaði hann jafnframt að einhver tilræði við forseta Íraks hefðu mistekist. Ég tel að enginn eigi að tjá sig með slíkum hætti í starfi yfirráðherra á Íslandi. Ég hugsaði með mér, er það sem mér heyrist, að forsætisráðherra okkar Íslendinga sé að tala blákalt um það að eðlilegt og réttmætt sé að myrða mann án dóms og laga? Og fréttamennirnir gerðu enga athugasemd við þessi orð og virtust telja þau hin eðlilegustu. Ég spyr, er ekki grundvallaratriði í réttarkerfi okkar, sem og annarra vestrænna ríkja, að menn séu dæmdir að lögum ? Er það virðingu okkar Íslendinga samboðið að talað sé opinberlega með þessum hætti af forsætisráðherra landsins, um að drepa mann? Eiga börnin okkar að hlusta á slíkt af vörum þeirra sem með völdin fara í þessu landi?

Sannfærður er ég um það, að heimurinn myndi ekki missa mikið þó Saddam Hussein félli frá, en engu að síður er rangt og siðlaust að tala með þeim hætti sem forsætisráðherra gerði í sjónvarpinu. Engin leið í slíku máli sem hér um ræðir getur verið eðlileg önnur en sú, að hver brotamaður verði með löglegum hætti dæmdur fyrir þær sakir sem á hann sannast.

Sú eðlilega réttarfarsregla á að gilda um Saddam Hússein, Pinochet og aðra harðstjóra jafnt sem aðra menn. Ef hinir sjálfskipuðu “góðu gæjar“ áskilja sér rétt til að myrða menn hér og þar, þá endar sú stefna sjálfkrafa í siðlausum vítahring. Að talsmenn þjóða sem vilja láta kenna sig við lýðræði og heilbrigt réttarfar tali um að eðlilegt sé að ráða menn af dögum, er ískaldur vitnisburður um afturhvarf til frumstæðari siða, þar sem hnefaréttur og ofbeldi gilda. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæmir og fylgja þeim gildum sem hafa gert samfélög okkar á Vesturlöndum að réttarríkjum.

Ég vil lýsa vanþóknun minni á  ummælum forsætisráðherra og tel þau langt frá því að vera mælt í íslenskum anda. Andinn í þeim virðist miklu fremur vera andi bandarísku Bush-stjórnarinnar, og eins og mál horfa við í dag, er sá andi sýnilega miklu hættulegri heimsbyggðinni en sú ógn sem sumir menn vilja segja að stafað hafi af stjórn Saddams Hússeins í Írak.

Bandaríkjamenn hafa um langt skeið haft tvo mælikvarða á hlutunum. Annar er ákaflega rúmur og snýr að þeim sjálfum, en hinn er afskaplega þröngur og snýr að öðrum þjóðum. Við Íslendingar megum gæta okkar á því að taka ekki upp slíkan ósið.

***

Það er nú deginum ljósara, að bandaríska herveldið er með framferði sínu, að sá fyrir því  að á komandi árum verði ekki friðsamlegt í veröldinni. Nú munu ýmsar þjóðir sameinast um að mynda mótvægi gegn yfirgangi Bandaríkjanna og nýtt vígbúnaðarkapphlaup er fyrirsjáanlegt. Fleiri hafa yfir gereyðingarvopnum að ráða en Ameríkanar einir.

Það gæti þessvegna orðið stutt í það að kjarnorkuvopnin verði látin tala! Hverjir skyldu ætla sér að taka til eftir þá eyðileggingu?

Menn kvöddu 20. öldina fyrir skömmu, hina skelfilegu öld heimsstyrjalda, þjóðarmorða og kjarnorkuógnar og sögðust stefna inn í ljósið og friðinn, hina alþjóðasamfélagsvænu öld.
Hvað er nú orðið um allar þær fögru yfirlýsingar sem gefnar voru við upphaf nýrrar aldar af fjölda ráðamanna, um upplýst mannkyn sem gengi til móts við nýja tíma friðar og áður óþekktrar samstöðu milli þjóða?

Við þræðum sömu, gömlu blóðugu sporin sem liggja að feigðarósi mannkynsins. Og sárast er fyrir friðelskandi Íslendinga, að horfa upp á það, að forustumenn íslenska ríkisvaldsins séu nú í þeim haukakór sem kallar  eftir stríði, drápum og eyðileggingu.
                                                      
***

Rúnar Kristjánsson


Að lenda í þessu!

NOKKUÐ hefur borið á því að þegar menn hafa farið illilega út af sporinu og gleymt löglegum aðferðum við að koma málum sínum fram, sé talað um það sem eitthvað sem viðkomandi hafi lent í, sennilega þá fyrir slysni!

Þannig talaði núverandi forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru um tiltekinn fyrrverandi þingmann, sem hefur eftir lykkjufall á leið sinni, boðið sig fram til þings á ný. Forsætisráðherra sagði eitthvað á þessa leið: "Fyrst hann þurfti nú að lenda í þessu!"

Og margir aðrir hafa talað svipað um aumingja mennina sem hafa þurft að lenda í þessu og hinu. Vesalings olíuforstjórarnir sem þurftu nú að lenda í þessu samráði! Aumingja frambjóðandinn sem þurfti nú að lenda í því að keyra ölvaður á staur og það rétt fyrir kosningar!

Svona tala sumir sem eiga að vera ábyrgir og þó einkum þegar í hlut eiga einhverjir sérmerktir fulltrúar kerfisins og ýmissa pólitískra átthagafélaga. Það vantar ekki að reynt sé að verja slíka fugla í bak og fyrir, þó það liggi á ljósu að einatt er það ábyrgðarleysi, hroki og glannaskapur sem er forsendan fyrir brotum þeirra. Í Byrgismálinu, sem er afskaplega ljótt mál á allan hátt og ekki síst fyrir eindæma vitleysisgang þeirra sem sinntu því af ríkisins hálfu, er ekki að sjá að neinn sé ábyrgur. Enginn þarf að segja af sér, enginn þarf að axla ábyrgð.

Gripið er til gamals varnarráðs í pólitískum skilningi, – "kerfið brást", er sagt, "látum kerfið taka á sig sökina, þá þarf enginn að taka pokann sinn".

Og ábyrgðin þynnist fljótlega út í ekki neitt því vandamálið er þæft þangað til það er kæft. Þannig er farin hin gamla spillingarleið niðurþöggunarinnar hér á landi sem annars staðar. Hún virðist eiga að gilda í hverju málinu af öðru.

Eyrnablautir unglingspiltar sem leiddir hafa verið í valdastöður vegna æskudýrkunar, þurfa því ekki fremur en aðrir að gjalda grunnfærni sinnar og reynsluleysis, en þjóðin fær að greiða glappaskotin.

Og þrátt fyrir þvílík mál fá opinberir aðilar hérlendis alltaf annað slagið sérstök skírteini erlendis frá um að það sé engin spilling á Íslandi og sennilega allra síst í pólitík!

En hætta á spillingu er alls staðar fyrir hendi þar sem menn takast á um völd og áhrif. Það er margsannað mál. Og í valdabaráttunni er yfirleitt ekki spurt um aðferðir en öllu meir um árangur. Tilgangurinn virðist vera látinn helga meðalið í flestum viðskiptum og skrattinn fær litla fingurinn í byrjun, síðan höndina alla og hjartað og sálina að lokum. Það er gömul og ný ógæfusaga.

Það er ekki gott þegar einhver tekur sér það sjálfdæmi að skammta sér laun úr opinberum sjóðum, en sá sem slíkt gerir treystir sennilega ekki svo lítið á það, að það verði alltaf einhverjir félagar í valdaklíkunni til að harma það að hann skyldi lenda í slíku og bera í bætifláka fyrir hann. Menn lenda víst ekki óvart í því að eignast slíka vini!

Það er einlæg von mín að íslenska þjóðin lendi aldrei í því að forustumenn hennar lendi svo illa á afgötum lögleysunnar, að það gæti leitt til þess að þjóðarskútan næði ekki framar lendingu í vör réttlætisins. Sumir gætu vissulega freistast til að halda að hættan á slíku sé orðin veruleg.

Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.


Fáu er hægt að koma í kring með kjaftæðinu einu

Ekki skilar okkar þing
ennþá gagni neinu.
Fáu er hægt að koma í kring
með kjaftæðinu einu.

---

Sjáðu í austri röðul rísa,
rauðu bliki um himin stafar.
Lífið allt er eins og vísa,
ort á milli vöggu og grafar.

---

Meðan sálin sólskin á
og söngvar hjartans óma,
streymir léttu lyndi frá
líf í fullum blóma.

(Úr Vísur frá Skagaströnd. © 1991 Rúnar Kristjánsson)


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 111
  • Sl. sólarhring: 494
  • Sl. viku: 1520
  • Frá upphafi: 315501

Annað

  • Innlit í dag: 107
  • Innlit sl. viku: 1233
  • Gestir í dag: 107
  • IP-tölur í dag: 107

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband