Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Castro lætur af völdum - nokkur orð um það.

 

 

 Nú hefur Fidel Castro, forseti Kúbu, lýst því yfir að hann sé að láta af völdum og  Raúl bróðir hans taki við, en hann hefur gegnt störfum um skeið sem forseti í veikindaforföllum bróður síns. Sú tilhögun mála er þó að flestra mati lausn, hugsuð til bráðabirgða.

Athyglisvert er að skoða jafnt viðbrögð einstaklinga sem fjölmiðla við þessu útspili Castros. Í fjörutíu og níu ár hefur þessi maður staðið uppi í hárinu á öflugasta ríki heims, staðið af sér efnahagsþvinganir þess og tilræði allt fram á þennan dag. Og ég spyr, er dæmi um að maður sem hefur haft jafnmikil völd jafnlengi hafi farið vægilegar með þau en hann ?

Morgunblaðið fjallar um Castro í leiðara undir fyrirsögninni " Einræðisherra fer frá ". Þar er samkvæmt gömlu línunni, reynt að tína til ýmislegt áróðursefni gegn Kúbuforseta, en svo undarlegt sem það er virðist samt örla á því að sumsstaðar skíni í gegnum textann ákveðin aðdáun á Castro.

Þegar talað er um einræðisherra er náttúrulega ekki hægt að stilla öllum slíkum upp í einu lagi. Það er t.d. ekki hægt að setja Fidel Castro í hóp með Adolf Hitler, Stroessner, Somoza og slíkum eða þá Stalín og Pol Pot.

Hvernig væri heimurinn ef Hitler hefði haft 49 ár til athafna sem einræðisherra ?

Fidel Castro hefur vafalaust gert ýmis mistök um dagana, en flest bendir til þess að hann hafi alltaf haft stórt hjarta fyrir sinni þjóð. Það hefur hann sýnt með ýmsu móti í orðum og verkum. Og staðreyndin mun líka vera sú að mikill fjöldi Kúbumanna sé stoltur af forseta sínum.

Það er með ólíkindum hvílík áhrif Kúba hefur haft um alla Rómönsku Ameríku.

Nú sitja leiðtogar í sumum ríkjum þar sem líta á Castro sem huglæga fyrirmynd.

Þeir sjá í honum mann sem gat boðið Bandaríkjunum byrginn og fyrst Kúba gat haldið sinni stöðu við þær aðstæður, því skyldi þá ekki Venezúela geta það eða önnur ríki álfunnar.

Sú var tíðin að því var haldið fram af hægri mönnum, að kommúnistar gætu hvergi náð völdum nema með ofbeldi og blóðugri byltingu. Svo gerðist það að marxistinn Salvador Alliende var kosinn forseti í Chile í lýðræðislegum kosningum. Þá brá svo við að hægri menn, lýðræðishetjurnar sjálfar, gerðu blóðuga byltingu, drápu forsetann og þúsundir landsmanna og í kjölfarið fylgdi herstjórn undir forustu hins ógeðslega Pinochets. Og velþóknun Bandaríkjanna fylgdi Pinochet alla tíð, enda mun hann trúlega hafa verið orðinn handbendi CIA þegar hann framdi valdaránið.

Þegar Nelson Rockefeller var varaforseti Bandaríkjanna, fór hann sem slíkur í opinbera heimsókn til nokkurra landa Suður-Ameríku. Það þurfti mikinn herafla til að gæta hans því hvarvetna á för hans kom til mikilla óeirða og mótmæla gegn Bandaríkjunum og arðránsstefnu þeirra í þessum heimshluta. Robert Kennedy gat þess í ræðu á sínum tíma, að Bandaríkin yrðu að breyta um stefnu gegn löndunum í suðri. Þar væru börnin alin upp í hatri á Bandaríkjunum, hákarlinum sem alltaf brytjaði niður sardínurnar eftir geðþótta.

En það var ekki hlustað á Robert Kennedy frekar en William Fulbrigt, Ramsay Clark og aðra sem hafa viljað gera vestræna heimsveldið manneskjulegra og sjálfu sér samkvæmara. Bandaríkin studdu stjórn Batista á Kúbu, enda hefur það aldrei skipt stjórnina í Washington neinu máli að völdin séu í höndum einræðisherra svo framarlega sem hann þjónaði undir Bandaríkin.

Þegar Fidel Castro náði völdum vildi hann breyta ástandinu á Kúbu sem átti þá allt sammerkt með öðrum löndum hinnar arðrændu álfu. Hann mætti þá miklum þröskuldum og hefur átt við margháttaða erfiðleika að stríða á sínum ferli, en samt verið sjálfum sér miklu samkvæmari en nokkur sá sem setið hefur sem forseti í Washington á hans valdatíma.

Frægt var þegar hann sendi kúbanskar hersveitir til Angóla til að hjálpa innfæddum til sjálfstæðis gegn nýlendukúgurum heimsvaldasinna þar og handbendum þeirra. Það sýndi að hann fann til ríkrar samkenndar með þeim sem voru að berjast fyrir þjóðfrelsi í sínum heimalöndum.

Bush forseti hefur lýst því yfir að hann voni að lýðræði komist á á Kúbu innan skamms - og í hans augum og hans líka er lýðræði að fullu og öllu bandarískt fyrirbæri. En Bush gleymdi því að hluti af Kúbu er bandarískt yfirráðasvæði samkvæmt áratuga gömlum samningum og þar er ekki haldið vel á málum í lýðræðislegum skilningi. Þar eru alþjóðalög þverbrotin og mannréttindi fótum troðin.

Ég vil því leyfa mér að halda því fram að bandaríska lýðræðið sem viðhaft er í Guantanamo geti enganveginn þótt eftirsóknarvert í augum Kúbumanna, þó á Kúbu kunni að vísu að finnast menn sem þrá að komast í þá aðstöðu að geta arðrænt meðbræður sína.

Ég held að arfleifð Castros verði seint útmáð í Rómönsku Ameríku og til hans muni verða vitnað þar í mörgu um ókomna tíð.

Að öllu samanlögðu tel ég því að ferill hans sanni að hann verðskuldi þá virðingu sem honum er sýnd í umræddum heimshluta og raunar víða um heim. Ég yrði því ekki hissa á því að þeir yrðu til sem myndu nafnið Fidel Castro þegar enginn myndi lengur eftir George W. Bush !


Samtryggingarsamningar


 Það er búið að semja ! Það er búið að semja í þessu ríka þjóðfélagi, þessu velsældarþjóðfélagi, þessu þjóðfélagi þar sem allir eru sagðir hafa það svo gott !

Og hvernig eru samningarnir, hvernig eru kjör fólks tryggð til næstu ára ? Jú, það er fljótsagt, lægstu laun eru slík að þau standa ekki undir eðlilegri framfærslu, ekki frekar en verið hefur. En samt er sagt eins og alltaf hefur verið sagt, að það hafi verið alveg sérstaklega hugsað um hag þeirra sem lægstu launin hafi haft og svo hafi náttúrulega þurft að bregðast við verðbólgunni, þessu voðalega fyrirbæri sem alltaf hefur komist í aðalhlutverk þegar almennir kjarasamningar hafa legið fyrir höndum.

Og nú eins og alltaf þegar valda-aðilarnar beggja megin borðsins taka höndum saman í því að svíkja alþýðuna, tala menn í einum samradda kór. Það var gert hér um árið við svonefnda þjóðarsáttarsamninga, þegar valdaklíkan samþykkti að láta verkalýðinn bera allar byrðarnar af efnahagsóstjórninni. Og það hefur greinilega verið þegjandi samkomulag um það núna að fara eins að. Menn skulu bara athuga hvernig ríkisstjórnin er saman sett.

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tala um tímamótasamninga, sama gerir Guðmundur Gunnarsson. Það er þungu fargi létt af Vilhjálmi Egilssyni og Ingimundur Sigurpálsson ljómar af fögnuði. Æðstu menn ASÍ og atvinnurekenda faðmast í fjölmiðlum og Ásmundur Stefánsson sést skælbrosandi í bakgrunninum. Forseti ASÍ talar um miklar umbætur á lægstu launum, Ólafur Stephensen ritstjóri talar um samningamennina sem mikið afreksfólk, það er talað um lækkun verðbólgu og allt er sett fram á fjálgum nótum eins og fyrri daginn.

En það hefur ekkert gerst, það hefur ekkert afrek verið unnið, afraksturinn er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Forusta launþegasamtakanna hefur aðeins gengið í lið með atvinnurekendum og samið á þeirra nótum. Og eins og vant er á alþýða þessa lands að borga verðbólgubrúsann. Það er alltaf farin sú leið að níðast á almenningi sem berst við að ná endum saman. Verðbólga skapast ekki af offjárfestingum, kaupréttarsamningum, starfslokasamningum, fjármálasukki og spillingu, verðbólga skapast aðeins ef almenningur fær sæmilega kjarabót. Eftir því viðhorfi er unnið og það virðist gilda jafnt um ASÍ og samtök atvinnurekenda. Þessvegna er virkilega séð til þess að verkafólk fái enga almennilega leiðréttingu á sínum kjörum.

Hvenær hefur Vilhjálmur Egilsson borið almenning þessa lands fyrir brjósti ? Af hverju skyldi vera þungu fargi af honum létt ? Jú, skýringin er sú að hann veit manna best að samningarnir hljóða ekki upp á neinar kjarabætur.

Það er engin verkalýðshreyfing lengur til í þessu landi ! Það er aðeins fyrir hendi steindautt batterí sem tórir á fornri frægð. Þar vinnur að vísu fullt af fólki á skrifstofum, yfirleitt á ágætis kaupi, en öll hugsjón er þar löngu dauð, enda enginn verkalýður að störfum þar !

Við eigum enga verkalýðsforingja í dag, fólk þekkir ekki einu sinni nöfnin á þessu fólki sem trónir á toppnum hjá ASÍ og helstu félögunum, enda er þar um að ræða fólk sem er gjörsamlega slitið frá allri grasrót í verkalýðsmálum, ef það hefur þá nokkurn tíma haft þar rætur. Við sitjum þar uppi með afdankað lið sem er algerlega gagnslaust til að semja fyrir okkar hönd og ætti löngu að vera farið.

Þessi úrkynjun ASÍ hófst þegar Ásmundur Stefánsson var gerður að forseta sambandsins, sem aldrei skyldi verið hafa. Hagfræðin var sett við stjórn en verkalýðshugsjóninni úthýst. Sennilega verður að byrja baráttuna upp á nýtt frá grunni því svo er það kerfi orðið spillt og ónýtt sem fyrir er að því verður tæplega við bjargandi.

Hvað skyldu nú þessar manneskjur hafa í laun sem þykjast vera í forustu fyrir verkalýðinn í landinu ? Hver skyldu laun Grétars Þorsteinssonar vera eða Ingibjargar Guðmundsdóttur ? Hvað skyldu formenn helstu sambandanna hafa í laun, Guðmundur Gunnarsson, Sigurður Bessason o.fl., eða þá Gylfi Arnbjörnsson og Ólafur Darri ?

Ég veit það ekki en ég þykist vita að þetta fólk gæti enganveginn lifað af þeim launum sem það er að semja um fyrir aðra. Og samt grobbar það af því að það sé að gera vel. Þvílík hræsni, þvílík slepja og yfirborðsmennska !

En það á víst að heita að það sé búið að semja og samningarnir eru slíkir að þungu fargi er létt af Vilhjálmi Egilssyni. Það segir allt sem segja þarf og það ætti hver maður að skilja sem heila hefur og einhvern vilja til að nota hann.

Fyrir alþýðu þessa lands er aldrei neitt í boði nema skítur á priki og meginástæðan fyrir því er óþjóðlegt kúgunarvald burgeisa með bláar hendur.

 


Vandræðagangurinn í borgarstjórnarmálum Reykjavíkur

 

 

 

Hvað er að gerast í Reykjavík, hinni háheilögu Davíðsborg eða hinni vanheilögu Sódómu, borginni sem hefur verið vagga íhaldsins á Íslandi um áratugaskeið ? Já, hvað er að gerast þar ?

Rifjum aðeins upp ferli liðinna missera. Íhaldið og Ólafur F ætluðu að mynda meirihluta eftir síðustu kosningar, Björn Ingi kom þá með samstarfstilboð sem íhaldsoddvitanum Vilhjálmi Þ. hugnaðist betur. Ólafur var látinn lönd og leið í beinni og varð eðlilega mjög sár. Féll ef til vill í depurð vegna þess.

Síðan verður Vilhjálmur Þ. borgarstjóri og aldrei hefur annað legið fyrir en hann hafi átt að verða borgarstjóri líka í því samstarfi sem átti að taka upp við Ólaf F. En svo klúðrar íhaldið málum og þó einkum fyrir vanhæfa forustu Vilhjálms Þ. Hann lék klárlega einleik og hafði ekki félaga sína í borgarstjórn með í spilinu og honum varð ýmislegt fleira að fótakefli.

Hann vissi um kaupréttarsamningana sem voru í smíðum en segist ekki hafa vitað hvað hver og einn átti að fá. Ég lít svo á að hafi hann vitað um kaupréttarsamningana, sem hann viðurkennir, hafi honum verið skylt að vita nánar um hvað í þeim fólst. Hverskonar borgarstjóri er það sem veit að slíkt er í bígerð en kynnir sér ekki hvernig er verið að fara þar með almannafé og hvað mikið sé í húfi ?

Það bendir ekki til þess að mikið sé verið að hugsa um heildarhag !

Vilhjálmur Þ. hefur enganveginn gert hreint fyrir sínum dyrum í þessum málum og það eru margir á þeirri skoðun að það muni hann seint geta.

Hinir borgarfulltrúar íhaldsins urðu sárir og svekktir þegar þeir voru sniðgengnir í málunum, og  gerðir að hálfgerðum núllum í atburðarásinni. Þeir gagnrýndu vinnubrögð leiðtoga síns og sennilegt er að sumum þeirra hafi hreint ekki líkað hvernig átti að gera út um málin.

Trúnaðarbresturinn milli þeirra og Vilhjálms Þ. varð augljós en sá innanflokksslagur fór þó að mestu leyti fram án vitundar fjölmiðla, því kastljós þeirra beindist um þessar mundir að Svandísi Svavarsdóttur sem ótrauð tók forustu í þeirri baráttu að afhjúpa þann spillingarvef sem verið var að spinna.

Nýr meirihluti var myndaður og svívirðilegri atlögu að almannahagsmunum var afstýrt. En hvað gerðist svo ?

Hinum sex borgarfulltrúum íhaldsins, sem tekið höfðu afstöðu gegn oddvita sínum og hans vinnubrögðum, var í framhaldinu haldið til hlýðni af Valhallarvaldinu og þeir látnir endurnýja hollustueið sinn við hinn afsetta og lánlausa Vilhjálm Þ.

Og síðan var hafist handa á fullu við að reyna að sprengja samstöðu sitjandi meirihluta. Og það fannst maður sem tilbúinn var í verkið, tilbúinn að versla !

En þau viðskipti kostuðu nokkuð sem íhaldið hafði aldrei fyrr látið úr höndum sínum ganga. En staðan var orðin svo veik að í fyrsta sinn urðu bláliðar að kaupa meirihlutavaldið með stóli borgarstjóra. Og þeir gengust undir að greiða það ofurgjald !

Af hverju ? Jú, það er nefnilega ljóst að einveldi íhaldsins í höfuðborginni heyrir sögunni til !

Nú er sú staða komin upp og hefur sannast undanfarin ár, að íhaldið getur ekki náð völdum í Reykjavík nema með því að afla sér viðbótarhækju.

Það var auðvitað súrt fyrir hægri menn að þurfa að kingja svo blóðugri staðreynd, en þó hefur veruleikinn versnað enn frekar fyrir Valhallarvaldið.

Það hefur neyðst til að lúta enn einu áfallinu og afhenda borgarstjórastólinn til einliðans baklandslausa. Sjö borgarfulltrúar urðu að dansa þar eftir hljóðpípu hans.

Að hugsa sér afturför íhaldsins frá veldisárum Davíðs í borginni ! Það virðist nú alveg heillum horfið og lýðræðið styrkist áreiðanlega við það á öllu landinu. Fleiri og fleiri eru sýnilega farnir að sjá að það er hægt að lifa í Reykjavík án þess að selja sig Sjálfstæðisflokknum.

Og það hrynur meir og meir úr gömlu valdablokkinni. Fólk sér hvað er að gerast. Íhaldið þarf hækju, íhaldið gefur frá sér borgarastjóraembættið, íhaldið er upp á aðra komið með völd og áhrif, íhaldið er á flótta !

Og nú þegar Vilhjálmur Þ. er orðinn að meginvandamáli Sjálfstæðisflokksins í borginni og það blasir við að það er höfuðnauðsyn fyrir íhaldsmenn að losa sig við hann, koma sér upp nýjum oddvita og hefja gagnsókn, láta þeir hann sitja og lýsa yfir stuðningi við hann svo hann geti safnað að þeim meiri og meiri óvinsældum. Og enn virðist sem þeir ætli honum að vera í forustu í borginni fyrir næstu kosningar. Þvílík glámskyggni hjá mönnum sem þykjast hafa vit á pólitík !

Vilhjálmur Þ. er versti valkostur sem þeir geta valið sér í þeim efnum og kýrljóst er að íhaldið mun fara illa út úr hverjum þeim kosningum þar sem honum er ætlað að leiða liðið. Rei-málið hefur vakið upp það vantraust meðal almennings á Vilhjálmi Þ. og starfsaðferðum hans að þar dugir ekki neinn plástur til bóta eða nokkur skottulækningabrögð. Hann hefur verið veginn og léttvægur fundinn af almenningsálitinu og traustið er farið. Trúlegt er líka að það hafi aldrei verið til staðar í verulegum mæli. Það er því orðin óhagganleg staðreynd að oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík er rúinn trausti.

En íhaldið má hinsvegar mín vegna berja höfðinu við veggi Valhallar og tjalda valkostum sem eru búnir að vera.


Bankakerfisrúllettan og fyrirhyggjuleysið

 

 


 "Valdið hefur sút og sekt,

síst til hjálpar beysið,

fyrr og síðar fjandalegt,

fyrirhyggjuleysið."

 

Ég hef dálítið verið að velta því fyrir mér upp á síðkastið hvort gamla lagið " Give me my old time religion " muni verða með vinsælli lögum á Íslandi í komandi tíð, að sjálfsögðu með öðrum og nýjum texta," Give me my old time state banks ". Það skyldi þó aldrei fara svo ?

Fyrirhyggjuleysi hefur löngum fylgt Íslendingum og einkum þeim sem hafa haft ríkar hneigðir til að sýna sig nokkrum númerum stærri en við hæfi hefur verið. Ég hef lúmskan grun um það, að strákarnir sem fengu bankana okkar til að leika sér að sem einhverskonar þroskaviðfangsefni, séu nú þegar farnir að misþyrma þessum leikföngum og kannski eru þeir strax orðnir leiðir á þeim.

Ég ritaði eitt sinn hörmungarpistil um Móðuharðindin gömlu og kom þar inn á margt. Nú er það von mín að ekki hlaupi slíkur gaddjaxl í bankakerfið okkar, að þjóðin þurfi að sverfa hann með stáli úr forsjármönnum bankanna. Það væri nefnilega spurning með þá suma hvort hægt sé að komast að gaddjöxlunum fyrir grænjöxlunum í þeim.

Menn geta fengið sárindi og sýkingu í munn og tannhold, háls og eitla, eftir að hafa sporðrennt og kokgleypt allskonar stórfjárfestingar á mettíma, svo maður tali nú ekki um forkaupsréttarhlunnindi á hlutabréfum og hagstæða starfslokasamninga sem hesthúsaðir eru oftast án þess að nokkur viti. Meðan hægt er að fá lánsfé á sérkjörum eiga sumir það til að fá hreint og beint kaupæði.

Og bankastrákarnir hafa keypt og keypt og keypt. Í Baunverjalandi voru menn farnir að hafa stórar áhyggjur af því að eggið væri að kaupa hænuna í heilu lagi !

Og strákarnir á hvítu skyrtunum, með bindin og uppbrettu ermarnar, hlógu dátt þar sem þeir sátu fyrir framan tölvuskjáina og kölluðu svo hátt að það heyrðist upp í stjórnarráð: " Iss, þetta er öfund, hrein og klár öfund, við erum bara miklu snjallari en þeir !"

Og hagspekingar annarra landa sem varað hafa við íslensku bankarúllettunni, eru afgreiddir í heilu kippunum. " Gamaldags viðhorf, úrelt sjónarmið, fylgjast ekki lengur með, ekkert að marka þessa fauska, os.frv.

Einn sléttgreiddur strákur var álitinn svo mikill snillingur að hann var keyptur háu verði inn í tiltekinn banka, fékk hlutabréf og hvaðeina og sagt var að með því að samtvinna hagsmuni hans og bankans yrði hann miklu trúrri fyrir vikið. Svo kom býsna fljótt að því að bankinn var tilbúinn að borga hundruð milljóna í starfslokasamning til að losa sig við snillinginn !

Hvað varð um alla snilldina og hollustuna - ég spyr ?

Og hvað gerðist svo ? Annar strákur var keyptur með sama hætti, sömu hlunnindum og rúllettan er á fullu. Greiningadeildir starfa og meta hagstjórnarmöguleikana í sífellu og einn bankinn hefur fyrir nokkurskonar mottó að menn eigi að hugsa lengra. Hann ætlaði svo að kaupa erlendan banka, " mestu kaup Íslandssögunnar " var sagt, en innan þriggja mánaða var séð að þetta var tóm vitleysa og komið var í veg fyrir gjörninginn. En það voru engin mistök viðurkennd, aðeins tekið fram að markaðsaðstæður hefðu breyst !

Þrír mánuðir - hugsaðu lengra, greiningadeildir o.s.frv............ !

En svo skall ein ófyrirséð markaðsdýfa yfir og allt hrundi um leið. Yfirheilinn í viðkomandi banka var sendur í hvínandi hvelli til arabísku furstadæmanna til að reyna að sleikja út þarlent fjármagn sem auðvitað er sagt fást án nokkurra skuldbindinga !

Og leikfanginu er áfram þeytt fram og aftur milli eyrnablautra sléttgreiddra slána sem spila á nótur fyrirhyggjuleysisins með sérstakri blessun yfirvalda.

Og persónugervingur Calvin Coolidges sem hefur setið um hríð efst í pýramída hins íslenska stjórnkerfis, segir eins og forðum: " Leyfum þeim að leika sér !"

( sem þýðir með öðrum orðum = Wall Street is safe forever. )

En fyrirhyggjuleysi getur verið dauðasynd. Gunnar átti ekki aukastreng í bogann og var drepinn fyrir vikið, Kjartan fór að heiman með ónýtt sverð og var drepinn fyrir vikið, Vésteinn hlýddi ekki aðvörun og var drepinn fyrir vikið.

Dæmin eru mörg og nú er orðin hætta á því að yfirstrákarnir í bankakerfinu fái gaddjaxl og  geispi jafnvel golunni út af því og annarri innanskömm. Fái sem sagt aldrei að njóta blessunar starfslokasamninganna.

Svei mér þá, mér vöknar um augu þegar ég hugsa um þetta !

En ég veit að ég þarf svo sem ekki að hafa miklar áhyggjur. Það er óþarfa tilfinningasemi í mér að fara að vatna músum út af þessu.  Þjóðin verður auðvitað látin koma snillingunum sínum til hjálpar ef þeim verður það á að brjóta leikföngin sín í hita leiksins. Calvin Coolidge sér til þess - jafnvel þótt Wall Street hafi ekki verið öryggið sjálft þegar til kom.

Fyrirhyggjuleysi - já, fyrirhyggjuleysi !

Hvað skyldi það fyrirbæri koma til með að kosta okkur Íslendinga á komandi árum ?

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 101
  • Sl. sólarhring: 155
  • Sl. viku: 1351
  • Frá upphafi: 316741

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 1046
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband