Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Lagt svolítið út af hlerunum

  Undanfarin ár hafa verið að koma í ljós ýmsar upplýsingar sem sýna hvernig lýðræðisleg yfirvöld á Íslandi hegðuðu sér gagnvart tilteknum lands og þjóðar þegnum hér á árum áður.

Margt sem þar hefur komið á daginn er vissulega umhugsunarefni og einkum vegna þess að sýnt er að þau öfl sem gjarnan kenna sig við lýðræði og frelsi hafa  iðulega fundið sér ástæðu til að grípa til þeirra vinnubragða sem þau hafa fordæmt harðlega hjá öðrum.

En þar sem þau hafa alltaf talið sig vera að bjarga lýðræðinu og verja frelsið virðast þau hafa litið svo á að þeim væri flest eða allt leyfilegt í svo göfugri viðleitni.

Það liggur því fyrir að rauð hlerun - framkvæmd af kommúnísku yfirvaldi - var hinn hroðalegasti glæpur, en hvít hlerun - framkvæmd af lýðræðislegu yfirvaldi -  sjálfsögð varnarráðstöfun !

Og til þess að Ísland mætti nú vera öruggt fyrir öllu þessu voðalega byltingarpakki, blóðrauðum bolsum, æsingamönnum og alhliða vitleysingum, eins og Kjartani Ólafssyni, Ragnari Arnalds, Páli Bergþórssyni, Arnari og Þórhildi og fleiri slíkum, þótti sjálfsagt að sveigja og beygja mannréttindin svolítið og túlka stjórnarskrána með afskaplega frjálslegum hætti.

Fyrir nokkru ræddi breskur ráðherra um þörf á því að stjórnvöld yrðu leyst frá mannréttindaákvæðum Genfarsáttmálans um meðferð fanga o.s.frv.  til þess að hægt væri að heyja stríðið gegn hermdarverka-hópunum með skilvirkari hætti. Fulltrúi lýðræðislegra stjórnarhátta fór sem sagt fram á það að fá að hegða sér með svipuðum hætti og hermdarverkamenn gera - brjóta gegn borgaralegum réttindum, fangelsa fólk án dóms og laga, pynta það o.s.frv. !

Með illu skal illt út reka og tilgangurinn helgar meðalið - eða hvað ?

Þarna virðist viðkomandi ráðherra hafa verið að fara fram á að fá að taka upp Guantanamo-kerfið í Bretlandi. Það átti sem sagt að leggja lýðræðið af um stundarsakir - bara um stundarsakir - meðan yfirlýst illgresi mannfélagsins væri reytt í burtu með skilvirkum hætti !

En halda menn virkilega að lýðræði og mannréttindi myndu ekki bíða hnekki við slíkar aðfarir ? Halda menn að hægt sé að fara til baka eftir að slíkt hefur verið gert ?

Nei, afturhaldsöflin hafa farið offari um allan hinn vestræna heim á síðustu árum vegna þess að þau hafa verið svo vitlaus að halda að sósíalísk þjóðfélagshugsun hafi dáið út við hrun Sovétríkjanna !

Sovétríkin eru vissulega hrunin en sósíalísk þjóðfélagshugsun er ekki fallin og getur aldrei fallið. Hún hefur ávallt átt allar sínar rætur í eðlilegri framrás alþýðlegrar mannréttindasóknar um allan heim og mun áfram lifa þar óbuguð .

Sovétríkin áttu alls ekki þessa hugsun - þau tóku hana miklu frekar að láni sér til vegs og viðgangs og misnotuðu hana á margan hátt. Þau hlutu því að gjalda fyrir það.

Þegar ríkisvald fer að beita kúgun við þegna sína er það komið úr öllum takti við sósíalíska þjóðfélagshugsun og það ríki sem fer inn á þá braut á skilið að falla.

Í því sambandi skiptir engu máli þó það hafi viljað skilgreina sig sem sósíalískt ríki. Hvert ríkisvald sem gengur gegn þegnum sínum með ranglæti og ofbeldi, til að hygla klíkuhópum allskyns sérréttinda ber feigðina í sér. Í þeim skilningi er engin eftirsjá að Sovétríkjunum, en sósíalísk þjóðfélagshugsun stendur óhögguð eftir sem áður.

Þær hleranir sem framkvæmdar voru hér á landi á árum áður voru auðvitað hrein og klár mannréttindabrot. Þær voru fyrirskipaðar af mönnum sem brutu með því gróflega á þeim gildum sem þeir þóttust standa fyrir.

Það virðist með öllu óásættanlegt að menn sem eru blóðskyldir slíkum mönnum séu fulltrúar ríkisvaldsins í viðkomandi málum nú þegar slíkar upplýsingar eru að koma fram og verið er að rannsaka slík mál.

Þeir hljóta að vera fullkomlega vanhæfir til að fjalla um þessa hluti og það eitt að þeir sjá það ekki sjálfir, segir betur en nokkuð annað hvernig þeir eru gerðir.

Athyglisvert er líka þegar slíkir aðilar benda mönnum á að þeir geti farið dómstólaleiðina ef þeir hafi yfir einhverju að kvarta, þegar það liggur fyrir að sömu aðilar hafa verið að þrengja möguleika gjafsóknar - sem virkar beint þannig að fólk á erfiðara með að leita réttar síns vegna óheyrilegs kostnaðar.

Það er ekki hægt að segja annað en sumir vinni einkennilega að málum " fyrir fólkið " eins og það er látið heita. Staðreyndin er hinsvegar sú að það eru stöðugt í gangi blekkingar og sjónhverfingar hjá varðhundum sérhagsmunaaflanna í landinu og áunnin réttindi almennings virðast hvarvetna á undanhaldi.

Kaldastríðsfarsóttin liggur enn mörgum manninum í anda og æð og dylst það ekki þegar að er gætt. Þeir sem bera í sér sjúkdómseinkennin frá þeim tíma eru ekki færir um að lækna eða bæta neitt í mannlegum samskiptum í nútímanum.

Þeir halda bara áfram að sýkja og eitra út frá sér og tala fyrir röngum viðhorfum.

Hlerunarmálin þarf skiljanlega að gera upp og fulltrúar stjórnvalda þurfa að hafa þann manndóm í sér að biðjast afsökunar á þeim eins og hverri annarri valdníðslu -, það mun gera þjóðfélagið betra því þar sem skítugt er þarf hreingerningar við. Eins er um alla aðra óværu í málum - það þarf að hreinsa hana burt - hún fer ekki af sjálfu sér.

En meðan nákomnir ættingjar fyrri ráðamanna sitja hugsanlega í valdamiklum embættum og jafnvel á ráðherrastólum, bundnir af sömu blindunni og þeir voru haldnir, er varla við miklum skilningi eða réttlætissýn að búast.

Það er ekki að ástæðulausu að í Ritningunni er fjallað um syndir feðranna og hvað af þeim getur hlotist !


Fjórði meirihlutinn

 

Stundum er það svo að meðferð manna á lýðræði þykir ekki til fyrirmyndar.

Það hefur að margra mati þótt sannast í Reykjavík á því hvernig sumir fulltrúar í borgarstjórn hafa farið með sitt vald á yfirstandandi kjörtímabili.

Það ætti að vera hverjum manni augljóst að það er afar mikilvægt að festa ríki í starfi sveitar og bæjarstjórna. Þá er hægast  fyrir þá sem mynda meirihluta að afloknum kosningum hverju sinni að einbeita sér að þeim verkum sem fyrir liggja.

Stundum getur að vísu svo farið að þreyta skapist í samstarfi og menn sjái að hlutirnir ganga ekki upp eins og til var ætlast. Þá fer oftast svo að samstarfi er slitið og nýr starfhæfur meirihluti er myndaður.

Fyrirkomulagið í kerfinu myndar eðlilegt svigrúm til slíkra breytinga og yfirleitt eru kjörnir fulltrúar þess meðvitandi að á þeim hvílir sú ábyrgð að tryggja með stjórnhæfum hætti framgang mála.

Þegar kjörtíma er hinsvegar sundrað í margar pólitískar uppákomur með meirihlutamyndanir, þannig að vinnufriður verður lítill sem enginn, eins og gerst hefur í Reykjavík, eru mál komin út í allt annan og verri farveg.

Þá vaknar sú spurning hvort kjörnir fulltrúar séu ekki farnir að leika sér með lýðræðið af nokkuð miklu ábyrgðarleysi ?

Eðlileg vinnubrögð raskast, stöðugar stefnubreytingar valda óróa og allskyns aukakostnaður bætist við í ýmsum málaflokkum. Óvissa grefur um sig og eitrar út frá sér.

Allir hljóta náttúrulega að sjá hverjir bera skaðann af því þegar þannig er staðið að málum ?

Það eru auðvitað kjósendurnir, borgararnir, þeir sem eiga að njóta ávaxtanna af lýðræðisfyrirkomulaginu, en gjalda þess þegar kosnir fulltrúar reynast miður en skyldi.

Almenningur hefur fylgst með framvindu mála í borgarstjórn Reykjavíkur undanfarin misseri og furðað sig á framferði margra þeirra sem þar eiga að vinna þau verk sem fyrir liggja. Fjórir borgarstjórar hafa mátað stólinn á þessu kjörtímabili og ljóst er að tveir þeirra hafa orðið fyrir verulegum álitshnekki.

Framagirni manna verður stundum slík að öllu virðist vera fórnað til að hreppa tiltekna vegtyllu. Það er spilað á lýðræðið með slíkri ófyrirleitni að marga setur hljóða og enn aðrir fara hamförum í fordæmingu á vinnubrögðum sem ættu ekki að eiga sér stað.

Og hver borgarstjórinn af öðrum lofar að vinna fyrir fólkið, láta hendur standa fram úr ermum o.s.frv. o.s.frv.......!

Og það er eins og þessir pólitíkusar hugsi með sér, " þetta er allt í lagi, það verða allir búnir að gleyma þessu við næstu kosningar og við sleppum frá þessu öllu saman, þó við höfum nú kannski klúðrað einhverju !

En er fólk virkilega svo fljótt að gleyma..... ? Lætur fólk hafa sig að fíflum aftur og aftur....... !

Munum að lýðræðið leggur almenningi vopn í hendur. Það vopn er kjörseðill í frjálsum kosningum.

Allir sem fylgst hafa með stjórnleysismálunum í Reykjavík að undanförnu, ættu að setja sér það að gleyma ekki því sem gerst hefur og muna við næstu kosningar hvernig framganga margra kjörinna fulltrúa þar hefur verið.

Sér í lagi ætti að muna hvernig vinnubrögð Sjálfstæðismanna, Ólafs F. Magnússonar og Framsóknarfulltrúanna hafa verið.

Valdabrölt þessara aðila hefur verið með ólíkindum og því hefur fylgt meira ábyrgðarleysi en kjósendur ættu að sætta sig við.

Það er heldur ekki líklegt að umræddir aðilar muni bæta mikið fyrir sín mörgu axarsköft á þeim tíma sem eftir er af kjörtímabilinu, jafnvel þótt þeir færu allir í endurhæfingu til Edinborgar.

Þó þeir leggi trúlega enn traust sitt á gleymsku kjósenda, ættu þeir öllu frekar að sjá sóma sinn í því að víkja svo frambærilegir borgarfulltrúar geti sem fyrst hafið störf í þeirra stað.

Það yrði bæði Reykjavík og þjóðfélaginu í heild til verulegra hagsbóta.

 

 


Andinn frá Babylon

 

Það hefur alltaf verið stríð í heiminum milli hinna tveggja meginhneigða í fari mannsins, hinna holdlegu eiginda og hinna andlegu.

Hinn andlegi maður leitar upp í átt til himinsins, til hins Lifandi Guðs, en hinn holdlegi maður er svo bundinn af hinu skammvinna jarðlífi og hinum efniskennda heimi, að allur veruleiki hans er Mammon. Hann eyðir lífi sínu og kröftum í að safna forgengilegum auði, en skeytir litlu sem engu um sálarheill sína. Hann er haldinn andanum frá Babylon, andanum frá hinni vanhelgu borg óguðlegra lífshátta, þjónar skækjunni miklu sem talað er um í 18. kafla Opinberunar-bókarinnar.

Hinn andlegi maður er hinsvegar á þeirri línu sem tengist Jerúsalem, hinni helgu borg, sem er táknmynd hinnar himnesku borgar í andlegum skilningi. Um hana er talað í 21. og 22. kafla Opinberunar-bókarinnar og sagt þar af þeim sem er Alfa og Omega, að hún sé arfleifð þeirra sem verða Lambsins megin við hinstu skil.

En þótt varnaðarorðin séu skýr, er maðurinn alltaf á flótta frá Guði og lögmáli hans. Hann vill ekki lúta Skapara sínum og hroki hans hrekur hann yfir til hinna holdlegu hneigða sem gera hann að auðsveipu verkfæri í þjónustu hins babylonska anda, andans sem kemur að neðan.

Allt frá dögum Nimrods hefur Babylon verið táknmynd upp á óhlýðni við Guð og svo er enn. Sami andinn ræður í kauphöllum nútímans og réði í Babylon til forna. Það skiptir ekki máli hvort við erum að tala um London, París, New York, Brussel, Tokyo eða aðrar fjármálamiðstöðvar heimsins, andinn þar er babylonskur.

Bandaríkjunum er í dag algerlega stjórnað af þeim anda engu síður en Rómaveldi á sínum tíma. Það er hin holdlega hneigð til yfirráða og  kúgunar um heim allan, sem hefur heltekið stjórnkerfi Bandaríkja Norður Ameríku gjörsamlega.

Hin sögulega tenging við frumherja sjálfstæðisbaráttunnar og það sem þeir stóðu fyrir, er að engu orðin.

George Washington, John Adams, Thomas Jefferson, Benjamin Franklin, allir þessir menn myndu hylja andlit sitt af skömm og viðbjóði ef þeir gætu séð framferði Bandaríkjanna í dag. Andinn frá Babylon var aldrei drifkraftur í lífi þeirra. En það er ljóst að hinar háleitu hugsjónir þeirra varðandi frelsi og  mannréttindi hafa nú ekkert raunhæft vægi í hugum þeirra ráðamanna sem sitja að völdum í Hvíta húsinu og Pentagon. Þar er hin babylonska yfirdrottnunar stefna allsráðandi.

Skömm sé þeim er svíkja þannig frelsisarfleifð þjóðar sinnar !

David Wilkerson hefur sagt að Bandaríkin séu búin að fylla bikar misgerða sinna, þar verði engu breytt héðan af. William Branham hafði fyrir dauða sinn látið svipuð orð falla.

Mayflower-andi frumherjanna og hinnar fyrstu kynslóðar er ekki lengur yfir Bandaríkjunum, en þrumuský bölvunar og náttúruhamfara eiga eftir að hrannast upp yfir þeirri þjóð sem hefur snúið baki við sinni góðu arfleifð og gengið til þjónustu við skækjuna miklu.

New Orleans var aðeins lítilsháttar aðvörun um það sem koma skal !

 

Andinn frá Babylon

 

Hver hefur völdin í Washington

og vígtennur brýnir í Pentagon,

spyrja nú þjóðir sem þekkja ei von,

- en það er andinn frá Babylon !

 

Það er andinn sem ætlar sér

að eignast heiminn í gegnum stríð,

sem áður notaði Hitlers her

og heimtar blóðskattinn alla tíð.

 

Og yfirgangshneigðin sem þá var þýsk

og þjóðir herjaði vítt um lönd,

hún er nú orðin amerísk

og ógnar á ný með þrældómsbönd,

 

-  þar reiðir kúgunar kvalapísk

  að kynþáttum jarðar - blóðug hönd !

 

 


BLESSUNARLAUS blessun

Um nokkurt skeið hef ég fylgst undrandi með sumum prestum þar sem þeir virðast keppast um það í fjölmiðlum að skora mörk í vinsældakeppni Tíðarandans sem sérstakir málsvarar samkynhneigðar !

Ég velti því fyrir mér hverskonar nám það sé sem þessir menn hafa stundað til að verða guðfræðingar, þegar þeir tala sem gamalgrónir kerfiskarlar sitt stofnunarmál og virðast eingöngu líta á kristna kirkju eins og hvert annað veraldlegt ráðuneyti.

Sumir þessara manna hafa birt langar greinar í blöðum varðandi samkynhneigð, þar sem þeir þvæla fram og aftur um kirkjusögulegt efni, ýmsar ákvarðanir kirkjuþinga, hin og þessi ummæli Lúthers  o.s.frv. o.s.frv.

Það er varpað stórum orðum í allar áttir en vísvitandi forðast að koma inn á kjarna málsins. Ekki er í einu orði minnst á Aðalpersónu lífsins, þá Persónu sem er algjör forsenda þess að kirkjan er til og ég spyr því í hreinskilni hjartans:

Hvar er Guð í þessu sambandi og Orð hans ?

Menn sem eiga öllum öðrum fremur að verja Heilaga Ritningu og boðskap hennar, hlaupa út og suður með efni hennar eftir kröfu þrýstihópa, sem virðast hafa það eitt í sigtinu að brjóta niður kristin gildi. Það þarf víst ekki að furða sig á því að maður eins og Sten Nilsson hafi talað um Satan sjálfan sem fyrsta frjálslynda guðfræðinginn !

Hvar eru þeir prestar staddir sem telja sig þess umkomna að blessa það sem Orð Guðs segir að sé ekki blessunarhæft ? Telja þeir sig orðna æðri Guði eða er Guð ekki til fyrir þeirra sálarsjónum ?

Þegar slíkir menn tala um að blessa það sem Orð Guðs segir að ekki sé hægt að blessa, um hverskonar blessun er þá að ræða ?  Að minni hyggju er þar aðeins í gangi merkingarlaust sjónarspil manna sem ganga ekki á Guðs vegum og hlýða ekki Orðinu sem eitt getur verið grundvöllur þess að þeir ræki starf sitt með eðlilegum hætti.

Slíkir prestar virðast vera með það eitt í huga að sækjast eftir hylli manna og háværir minnihlutahópar virðast eiga auðvelt með að fá þá til liðs við sig og sínar kröfur. En hylli manna er löngum skammgóður vermir og ég trúi því að það muni þessir skammsýnu hirðar fá að reyna áður en lýkur nösum.

Enginn þjónn kristinnar kirkju hefur rétt til að blessa það sem Orð Guðs segir ekki blessunarhæft. Svo einfalt er málið.

Ég hef tekið eftir því að menn virðast skammast sín svolítið þegar þeir tala um blessun með þeim hætti sem þeir gera, þeir tala ekki um Guðsblessun, þeir tala  um blessun kirkjunnar og sinn eigin vilja til að blessa þetta og hitt.

En ég gef ekkert fyrir slíkar blessanir. Blessun af hálfu presta er ekki mikils virði ef hún helgast ekki af Orðinu og sannleika þess. Þeir prestar sem tala um að blessa það sem Orðið dæmir sem synd bæta með því synd ofan á synd.

Blessun af hálfu Drottins er aftur á móti stórkostlegt undur. Að veita slíka blessun er ekki á mannlegu færi, nema fyrir sérstaka Náð Guðs og smurningu sem veitt er í því skyni að ofan, því eins og segir í bæn Davíðs konungs í Ritningunni, það sem Guð blessar er blessað að eilífu.

Hver sá sem breytir inntaki Orðsins gæti að sáluhjálp sinni !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 198
  • Sl. viku: 1432
  • Frá upphafi: 315602

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1153
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband