Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Um persónugerðan vanda o.fl.

Það hefur farið um suma heldur betur eftir að Davíð Oddsson kom fram í enn einu kóngs eða drottningarviðtalinu í sjónvarpinu fyrir skömmu.

Þeir sem hafa dýrkað Davíð og dýrka hann enn, gátu varla vatni haldið af hrifningu á öllu því sem hann sagði, en flestum held ég að hafi þótt nóg um hroka hans og séð betur en nokkru sinni fyrr, að þjóðfélagið hefur ekki efni á því að hafa slíkan mann í valdastöðu. Davíð talaði um sína góðu samvisku og að hann hefði varað við á öllum stigum aðdraganda bankahrunsins.

Hann ætlast til að menn taki hann trúanlegan, þegar hann segir að þeir menn sem alltaf hafa hlýtt honum og verið hans undirdánugir þjónar, hafi ekkert mark tekið á viðvörunum hans. Hvernig ber að skilja slíkar yfirlýsingar ?

Hann virðist skjóta föstum skotum að Geir Haarde og hans ríkisstjórn, en Geir segist ekki taka það þannig ! Þegar Sigmar fréttamaður hjó eftir þessari ádeilu Davíðs og spurði hvort hann væri þá að meina að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki tekið neitt mark á viðvörunum hans, fékk hann yfir sig ákúrur fyrir að skilja málið þannig ? Lítur Davíð Oddsson virkilega svo á að ríkisstjórn undir forustu  Sjálfstæðisflokksins eigi ekkert sammerkt með Sjálfstæðisflokknum eða að við þær aðstæður beri flokkurinn enga ábyrgð á því sem gerist í ríksstjórn ?

Í umræddum sjónvarpsþætti var Davíð Oddsson ekki í viðtali. Hann var stjórnandi þáttarins og talaði oft, að minni hyggju, niður til fréttamannsins sem átti að stjórna þættinum ! Þetta gerir ekki nokkur annar maður og það er ömurlegt að upplifa slíkan hroka og þá veruleikafirrtu sjálfsréttlætingu sem þarna kom fram.

Já, Davíð talar um góða samvisku og að fjöldi fólks telji hann eina manninn sem hægt sé að bera traust til ! Þvílíkur málflutningur !

Það mætti spyrja margs og til dæmis eftirfarandi spurninga :

Hver hefur verið hér mestur valdsmaður síðan 1991, í nærri 18 ár, og sennilega ráðið meiru en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður fyrr og síðar ?

Hver gerði frjálshyggjuna endanlega að ráðandi stefnu í Sjálfstæðisflokknum ?

Hver stóð fyrir einkavæðingu bankanna og afhenti þá útrásarvíkingunum sem síðan hafa spilað öllu til andsk..... í fullu umboði stjórnvalda ?

Hver setti íslensku þjóðina á skrá með þeim þjóðum sem studdu Bush-innrásina í Írak og hirti ekki um að fara þar eftir eðlilegum stjórnarfarsleiðum ?

 

Við getum lengi bætt við á slíkan lista ýmsu sem verða að teljast ávirðingar og við vitum öll hver maðurinn er sem á þetta. Það þýðir ekki fyrir þann sama mann að tala um sína góðu samvisku og að hann hafi varað við.

Hann stjórnaði ferðinni og markaði manna mest stefnuna að því sem varð.

Ég er sannfærður um það, að ef sósíalistar hefðu verið í stjórnarforustu hér undanfarin l8 ár og spilað öllu til fjandans, hefði enginn gagnrýnt þá harðar en einmitt Sjálfstæðisflokkurinn ! Er einhver til sem efast um það ?

Ótrúlegustu menn taka undir sönginn, að ekki megi persónugera vandann. Jafnvel Steingrímur J. Sigfússon. En hvað eru stjórnmálamenn að segja þegar þeir tala svona. Þeir eru að fría félaga sína á þingi og í ríkisstjórn við að vera ábyrgir gerða sinna ? Pólitíkusar standa saman í þessu og virðast hugsa með sér, í dag ert það þú, á morgun verður það ég - tryggjum okkur sameiginlega !

En hverjir hafa verið harðastir í að persónugera vanda kommúnistaríkja undanfarna áratugi ? Hverjir aðrir en sjálfstæðismenn. Í þeirra augum var Stalín  vandi Sovétríkjanna, Ceausescu var vandi Rúmeníu, Pol Pot var vandi Kambodíu, Mao var vandi Kína o.s.frv. Milljónir manna um heim allan voru farnar að líta svo á að Bush væri vandi Bandaríkjanna !

Af hverju má þá ekki persónugera vandann hér, er samtryggingarkrafa pólitíkusa hér svona miklu öflugri en alls staðar annars staðar ?

Davíð Oddsson segist hafa góða samvisku, en ég segi fyrir mig, að ég gef ekki  mikið fyrir samvisku hans. Ég held að íslenska þjóðin sé búin að fá allt of stóran skammt af Davíð Oddssyni og hans stjórnarháttum !

Ég veit ekki frekar en aðrir hvað tekur við, en ég veit hinsvegar hvað ég vil ekki. Ég vil ekki mann eins og hann til forustu fyrir minni þjóð eða í nokkurri meiriháttar valdastöðu í þjóðfélaginu.  

Ég tel ekkert að því að vandinn sé persónugerður og í mínum huga er engin ein persóna stærri hluti af því sem gerst hefur en Davíð Oddsson.

Nú á hann bara að víkja til hliðar og gefa þjóðinni frið til að jafna sig.

Það er að mínu viti gott fyrir þjóðina og best fyrir hann sjálfan.

 


" Jón er kominn heim "

Þá liggur það fyrir, að Jón Magnússon er aftur genginn í Sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem alltaf hefur verið í raun hans eina og sanna pólitíska heimili, svo það má sannarlega segja - Jón er kominn heim !

Eftir 18 ára eyðimerkurgöngu í þjóðmálageiranum, er glataði sonurinn kominn í gamla vonarhreiðrið aftur. Það er alltaf gott að vita að menn átti sig á því hvar þeir eigi heima, en ég hefði getað verið búinn að segja Jóni Magnússyni það fyrir löngu, að hann ætti hvergi annars staðar pólitískt lögheimili en í Sjálfstæðisflokknum. Innræti þess flokks er nefnilega alveg sérstaklega hannað fyrir menn eins og Jón Magnússon. Hann áttaði sig bara ekki alveg á því hér áður fyrr, vegna þess að hann var ungur og reynslulítill og haldinn sálarlegri metnaðarpínu sem margfaldaðist brátt fyrir flokkslega sýkingarþætti.

Það var nefnilega þannig, að Jóni Magnússyni leið ekki sérlega vel heima hjá sér í Sjálfstæðisflokknum hér á árum áður, og ástæðan var fyrst og fremst sú að hann gat varla snúið sér þar við án þess að rekast á annan Jón Magnússon.

Ef hann ætlaði í framboð á vegum flokksins, voru tíu nafnar hans á undan honum í goggunarröðinni og ef hann renndi hýru augu til einhverrar vegtyllu innan flokksins eða utan  var segin saga að einhver annar Jón Magnússon hrifsaði bitann frá honum. Það var því margt sem angraði Jón Magnússon !

Hann sat þó um kyrrt í flokknum, soltinn og klæðlaus, andlega talað, og reyndi að yrkja í Moggann en fékk ósköp lítið í gogginn.

Jón Magnússon gerðist því smám saman af þessum sökum beiskari og sárari innan Sjálfstæðisflokksins en flestir nafnar hans þar, því honum fannst að þeir fengju þó alltaf bita af og til en hann fengi aldrei neitt.

Það var eins og allt legðist á eitt með að hindra framadrauma hans og þó taldi hann sig svo dæmalaust hæfan til svo margs, en aðrir sáu það bara ekki eða vildu að minnsta kosti ekki viðurkenna það.

Að lokum varð Jón Magnússon svo sár, að hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann hljóp í fússi að heiman, og yfirgaf alla þessa nafna sína þar sem höfðu troðið á honum linnulaust og aldrei gefið honum nokkurt tækifæri til að höndla þar ætan bita !

Jón Magnússon fór sem sagt í fýlu og hljóp pólitískt berrassaður út í óvissuna og var talið að söknuðurinn í herbúðum flokksins út af brotthlaupi hans hefði ekki mælst marktækur á nokkurn hátt !

Þannig byrjaði aumingja stráið hann Jón Magnússon sína eyðimerkurgöngu !

Næstu árin fóru í það hjá honum að reyna að verða sér úti um annað andlegt heimili. En þar sem Jón Magnússon er ekkert annað en sjálfstæðismaður og verður aldrei annað en sjálfstæðismaður, kom hann nánast alls staðar að luktum dyrum því enginn vildi binda trúss við hann til lengdar og þá bláu fylgju sem aldrei vék frá honum. Saga hans á þessum árum er slík að hún gæti komið krókódíl til að gráta.

Víða knúði Jón Magnússon þó á hurðir og vildi að honum yrði hleypt inn og jafnan leitaði hann þangað sem hann áleit einhverja kjötkatla vera að finna. Hann hefur óneitanlega alltaf haft nokkra hæfni til að þefa þá uppi.

En Jón Magnússon fann brátt að það var víðar hægt að vera sár og beiskur en í Sjálfstæðisflokknum. Það breytti engu þótt hann hlypi út og suður, sýndi leikræn tilþrif sem pólitískt kameljón, tjaldaði nýju afli og reyndi að vera frjálslyndur og á móti kvótakerfinu. Enginn hafði trú á því að hann væri annað en sá sami Jón Magnússon sem hann hafði alltaf verið. Meira að segja Addi Kitta Gau sá fljótlega í gegnum hann og þykir hann þó ekki glöggur í því að leggja mat á menn þó hann sé þar fyrir utan ágætur matmaður.

Jón Magnússon varð því stöðugt sárari og beiskari og fannst sem allir væru vondir við hann og neikvæðir gagnvart því að gefa honum tækifæri til að brillera. Þó að hann hefði að lokum komist rétt innfyrir dyrnar í Frjálslynda flokknum, fór honum brátt að líða þar afar illa. Vanlíðan hans kom þó ekki til af því að hann gæti ekki þverfótað í Frjálslynda flokknum fyrir nöfnum sínum, heldur vegna þess að flokkurinn var ekki neitt sérstaklega hannaður fyrir hann og hans líka. Jóns Magnússonar módelið gekk þar bara ekki - jafnvel þótt það væri knúið nýju afli. Og Addi Kitta Gau var svo fyrirferðarmikill að hann var einhvernveginn alltaf fyrir, einkum á þverveginn, þegar Jón Magnússon vildi komast í sviðsljósið. Það er sannarlega ekki heiglum hent að komast framfyrir slíka breiðsíðukarla.

Það fór því svo að Jón Magnússon fór í vaxandi mæli að þrá sína einu sönnu, pólitísku heimahaga. Það kvað svo rammt að því að hann fór að dreyma Ólaf Thors á hverri nóttu og heyrði hann segja skipandi röddu " Farðu heim, Jón ! "

Og Jón Magnússon sá sér þann kost vænstan að hlýða gamla Kveldúlfinum og leggja í hann heim á leið. Hann strauk af sér frjálslyndið með endurvakinni hægri sveiflu og gekk tindilfættur inn í þau bláu íhaldsbjörg sem hann átti auðvitað aldrei að yfirgefa.

Og þó að fögnuðurinn yfir komu hans hafi nú verið nánast í sögulegu lágmarki, var hann samt meðtekinn á ný og einkum vegna þess að flokkurinn er þekktur að því að vilja endurheimta það sem honum tilheyrir, hvað lélegt sem það er.

Og nú er það spurningin hvort Jón Magnússon unir sér til frambúðar innan um alla þá Jón Magnússona kássu sem alltaf er í Sjálfstæðisflokknum ?

Hann verður nefnilega að byrja á því að sætta sig við það, að átján ára eyðimerkurganga hans á óflokkslegum slóðum, hefur ekki beinlínis lyft honum ofar eða hærra í goggunaröð metorðanna innan flokksins !

En hvað sem því líður, er þó væntanlega alltaf munur fyrir hann að vera aftur kominn heim !


Hagfræði andskotans

Gunnar Tómasson hagfræðingur lýsti því skilmerkilega yfir í Silfri Egils fyrir skömmu, að hagfræðingar samtímans hefðu að mestu verið aldir upp á bulli í þeim skóla sem fagið bauð upp á, eftir að frjálshyggjan afnam þar almenna skynsemi. Það eru athyglisverð ummæli, sett fram af manni sem sjálfur er hagfræðingur, en hann hefur lengi varað við afleiðingum þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í peningakerfum auðvaldsheimsins undanfarna áratugi.

Sú nýfrjálshyggja sem Paul Samuelson lagði grunninn að og Milton Friedman færði í nýju fötin keisarans, hefur nú lagt það að mestu í rúst sem hún þóttist ætla að byggja upp til allsnægta. Innbyggt í þann óskemmtilega veruleika er fjárhagslegt niðurbrot milljóna manna um heim allan með tilheyrandi persónulegum harmsögum. En eins og fyrri daginn er enginn talinn ábyrgur fyrir neinu og alltaf virðast nógu margir þannig sinnaðir, að þeir reyna með öllu móti að verja svikahrappana sem fóru hér ránshendi um banka og þjóðarbú.

Þeir framselja ekki frjálshyggjuna undir dóm fremur en Pinochet til Spánar á sínum tíma ! Það er í eðli þeirra að verja sína óþokka og þeirra óþokkastrik !

Sænski tæknikratinn Göran Persson var í viðtali fyrir skömmu hjá Boga Ágústssyni í sjónvarpinu. Þar mun hann hafa sagt að hagfræði væri sennilega ofmetnasta fræðigrein veraldar og þótti mér merkilegt að maður eins og Persson skyldi hafa uppgötvað þau sannindi og það jafnvel hjálparlaust.

En Persson bætti um betur og sagði að í grunninn snerist hagfræðin í raun að mestu um almenna skynsemi. Það þýðir með öðrum orðum, að starfsheitið hagfræðingur er notað til að undirstrika menntunarstig langskólamanna, sem hafa enn til að bera þá almennu skynsemi sem þeir höfðu áður en þeir fóru að mennta sig. Það er sem sagt eftir einhver glóra í þeim þrátt fyrir menntunina !

En ekki er öll vitleysan eins og alltaf verða einhverjir páfagaukar til þess að enduróma vanhugsuð dellukerfi í þeirri trú að það geri þá að einhverjum númerum í heimi viskunnar. Nokkrir slíkir hafa hinsvegar áunnið sér svo alræmt ferilorð í asnahætti hérlendis að þeir verða áreiðanlega taldir fífl til eilífðarnóns.

Óforbetranlegir nýfrjálshyggjumenn eins og Hannes Hólmsteinn virtust halda að Samuelson, Friedman og Hayek hefðu fundið upp nánast skothelda leið til að búa til auðmagn úr engu. Það vill svo til að það er til þáttur þar sem Hannes Hólmsteinn leggur út af þessu og veit ég varla nokkurt efni kynna betur það fyrirbæri sem ég hef skilgreint áður í pistli hér á síðunni - sem sé lærðan asna !

George Bernard Shaw mun hafa sagt á sínum tíma  að "   þótt allir hagfræðingar heimsins væru lagðir hver við endann á öðrum, myndu þeir aldrei komast að niðurstöðu ". Ég býst nú ekki við að sú staða mundi auðvelda þeim ákvarðanatöku, en miðað við niðurstöður þeirra undanfarin ár, mætti halda að þeir hefðu verið í annarlegum stellingum við úrlausnirnar - sennilega staðið á haus, enda hefur flest sem þeir hafa komið nálægt farið á hausinn !

Það er líka svo með öll kenningakerfi að það er reynslan sem sker úr um það hvort þau eru nothæf sem slík eða ekki. Frjálshyggjukerfi átrúnaðargoða Hannesar Hólmsteins hefur á prófi reynslunnar beðið algert skipbrot, og hann sjálfur sem helsti hugmyndafræðingur stefnunnar hér á landi, ætti að sýna það skipstjórnarlega hugrekki að fara endanlega niður með flakinu.

Ég get fyrir mína hönd og minna vandamanna lofað honum því, að enginn söknuður mun af okkar hálfu, fylgja lóðréttu falli hans alveg niður á heljarbotn hagfræði-heimskunnar.

Í framhaldinu vona ég svo að Ísland verði svo gæfusamt á komandi árum, að losna við glóruleysis-postula af svipuðum toga, menn sem hafa prédikað þær kenningar sem hafa trúlegast verið úthugsaðar á ónefndum stað, almennu fólki til óþurftar og skaða, enda geta þær með réttu kallast hagfræði andskotans !


" Þetta var meiri sirkusinn "

Ég horfði nýlega á umræðuþátt í sjónvarpi og þar sagði kunn manneskja úr bloggheimum frá því að hún hefði verið á þingpöllum nýlega og fylgst með umræðum á alþingi. Þar ofbauð henni framkoma margra kjörinna fulltrúa í þingsal og virtist henni sem þarna væri bara einhver vitleysa í gangi.

Og hún spurði réttilega:  " Er þetta fólkið sem á að bjarga þjóðinni úr þeim vanda sem við er að glíma ? "

Svo hristi hún höfuðið og sagði, " Þetta var meiri sirkusinn ! "

Og því miður er það svo, að mörgum ofbýður vöntun þingsins á veruleikaskyni við þær hrikalegu þjóðfélagsaðstæður sem nú eru uppi. Þjóðina vantar leiðtoga á öllum stjórnvaldssviðum, það vantar fólk sem hefur tilfinningu fyrir þjóð og landi, það vantar fólk sem vill hugsa um heildarhagsmuni þessarar þjóðar !

Það er til nóg af liði sem er að hugsa um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn geti plumað sig sem best í næstu kosningum og það sama gæti jafnvel gilt um alla flokkana, en meðal ráðamanna virðast fáir sem eru að hugsa um Ísland, landið okkar og okkur öll sem þjóð ! Það er það sem vantar svo sárlega.

Og því miður virðast margir sem stefna á framboð í vor, vera af sama sauðahúsi og þeir sem fyrir eru, menn sem eru fyrst og fremst með framadrauma í huga, menn sem stefna á að komast á jötuna, fyrir eigin hag ! Hvar er allt mannvalið sem menntadýrkun liðinna ára og langskólakerfið á að hafa skilað okkur ?

Það er einmitt af þessari ástæðu sem Jón Baldvin Hannibalsson, sem stendur á sjötugu, gefur kost á sér til forustustarfa á ný. Hann hefur náttúrulega séð forustuleysið á fjölmörgum sviðum. Og nú er þessi gamli krataforingi sýnilega kominn með snert af Churchill heilkenni og elur vonir um að verða " The Grand Old Man " á Íslandi. En Jón Baldvin er þar á villigötum og hann verður að láta sér nægja að hafa  " bjargað " Eystrasaltsríkjunum - því innviðir hans eru ekki þesslegir, að hann muni bjarga Íslandi á nokkurn hátt.

Hann talaði fyrir því á sínum tíma að Eystrasaltsríkin yrðu frjáls og losnuðu frá sovéska miðstjórnarvaldinu, en hann talar nú fyrir því við öll hugsanleg tækifæri að Ísland verði bundið á klafa hins evrópska miðstjórnarvalds, þar sem það verður núll prósent aðili til frambúðar. Í þeim gjörningi felast bjargráð Jóns Baldvins til handa íslensku þjóðinni fyrst og síðast.

Hann hataðist við miðstjórnarvaldið í Moskvu, en miðstjórnin í Brussel er honum eins og töfralausn allra mála, enda er það ekkert nýtt að menn sem hafa verið utanríkisráðherrar Íslands verði býsna fljótt óþjóðlegastir allra manna.

Nei, leyfum Jóni Baldvin og öðrum afdönkuðum stjórnmálaskussum þessa lands að tóra á sínum eftirlaunum og hleypum þeim ekki að einu eða neinu framar.

Þeir eiga flestir ef ekki allir sinn þátt í því sem orðið er.

Við þurfum nýtt blóð, nýtt fólk, fólk sem er í tengslum við grasrótina í landinu, þekkir og á samleið með þeim breiða fjölda sem myndar almenning þessa lands. Sá breiði fjöldi er  nefnilega undirstaða alls þess besta sem við eigum sem þjóð.

Við þurfum nýtt hugarfar. Ekki það spillta hugarfar sem hér hefur ríkt undanfarin ár, ekki það hugarfar sem drepur manneskjuna í dróma og metur ekkert nema fjármagnseign. Við þurfum hugarfar sem metur manngildi umfram auðgildi, hugarfar sem er þjóðlegt og samfélagslegt, hugarfar sem byggir upp traust og gömul gildi, hugarfar sem treystir stoðir þjóðfélagsins á mannlegum forsendum.

Í slíkum anda ber okkur að ganga til kosninga í vor. Við þurfum að kjósa með það eitt í huga sem getur gagnast best fyrir framtíð lands og þjóðar. Kjósum ekki til að viðhalda lífi í gjörspilltum flokkum, refsum þeim sem refsa ber og gefum þeim almennilegt tækifæri sem verðskulda fremur traust.

Veljum út frá því sem við teljum af innstu sannfæringu best fyrir land og þjóð !

Setjum okkur það, að axla þjóðlega skyldu okkar í kjörklefanum og gera okkar besta til þess að ný löggjafarsamkunda þjóðarinnar verði með þeim hætti eftir komandi kosningar, að glöggar manneskjur sem koma á þingpalla, þurfi ekki að segja : " Þetta er nú meiri sirkusinn " !

 

 


Um höfuðvandamál Sjálfstæðisflokksins

 

Það er tímatalsleg staðreynd, að frá bankahruninu og þar til meirihlutastjórn íhalds og Samfylkingar gafst upp, liðu um 100 dagar. Margir litu svo á að stjórnvöld hefðu verið aðgerðarlítil þann tíma og látið hlutina bara hafa sinn gang. Sjálfstæðismenn, með Geir Haarde í broddi fylkingar, töluðu þó lengi vel fjálglega um að það ríktu full heilindi milli stjórnarflokkanna og margt þyrfti að gera.

En eftir að stjórnin sprakk á úthaldinu, lýsti Geir því yfir að Samfylkingin hefði verið komin í tætlur og ekki lengur verið stjórnhæf og síðan komu einstakir sjálfstæðismenn til og kvörtuðu hver um annan þveran yfir því að það hefði vantað öll heilindi af hálfu Samfylkingarmanna.

Sjálfir sögðust þeir hafa verið fullkomlega heilir í þessu samstarfi og staðið við sínar skyldur út í ystu æsar ! Já, sjálfstæðismenn kunna alltaf að matreiða hlutina með sínu lagi ofan í fólk og alltaf þykjast þeir vera drenglyndastir allra manna !

En svo vildu þeir að nýja stjórnin sættist á Sturlu áfram sem forseta sameinaðs alþingis - af því að hann hefði staðið sig svo vel, og enn mega þeir ekki heyra að Davíð fari úr Seðlabankanum, þó það séu nú flestir á því að hann hafi staðið sig þar illa og bankinn þurfi sannarlega nýtt andlit út á við til að endurreisa traust.

Kosning nýs forseta sameinaðs alþingis hafði hinsvegar ekkert með persónu Sturlu Böðvarssonar að gera. Það er bara eðlilegt mál, að nýr þingmeirihluti kjósi nýjan forseta í þinginu. En mér skilst að Þorgerður hafi nú viðurkennt að hún og aðrir sjálfstæðismenn hafi verið að nudda þetta í stríðni !

Er það ábyrg framkoma af hálfu þingmanna íhaldsins, við þær hrikalegu aðstæður sem blasa við í efnahagsmálum þjóðarinnar, eftir langtíma stjórn þeirra sjálfra á þeim málaflokki, að menn séu að dunda sér við stríðni á þingi og tefja fyrir  aðkallandi málum ?

Ég þykist sjá á öllu, að sjálfstæðismenn muni gera stöðugar kröfur um að nýja stjórnin, sem er minnihlutastjórn, geri öll þau kraftaverk á 80 dögum, sem þeir gátu ekki gert á 100 dögum í algerri meirihlutastjórn !

Um það mun hin sterka stjórnarandstaða þeirra koma til með að snúast eins og Geir Haarde boðaði strax í upphafi. Þeir ætla ekki að gera neinum það auðvelt að þrífa upp eftir þá spillingarskítinn eftir fjármálasukkið og svínaríið !

Það er einkennilegt að þeir skuli geta borið sig svo mannalega, vitandi að þeir eru meira og minna ábyrgir fyrir því efnahags-stórslysi sem hér hefur orðið.

En hvað gera menn oft þegar þeir vita upp á sig skömmina, þeir forherðast og verða enn verri en þeir voru áður. Ég hygg að margir sjálfstæðismenn standi einmitt í þeim sporum nú. Þeir neita að viðurkenna staðreyndir í forherðingu hjartans. Þeir virðast líta svo á að Sjálfstæðisflokkurinn sé og eigi að vera nr. 1 í þeirra lífi en Ísland nr. 2.

Sjálfstæðisflokkurinn glataði mörgu af því skásta sem í honum bjó fyrir tilverknað Davíðs Oddssonar og frjálshyggjunnar. Þessi flokkur sem fór hamförum hér á árum áður í gagnrýni sinni á persónudýrkun á valdamönnum austan járntjalds, hefur sjálfur fallið í þá gryfju, að upphefja svo mikla persónudýrkun, að ekkert sambærilegt dæmi þekkist í þjóðarsögunni.

Davíð Oddsson náði með einhverjum undarlegum hætti slíkum heljartökum á Sjálfstæðisflokknum, að menn hættu að vera þar sjálfstæðir menn og byrjuðu að mæna upp á hann eins og jarðneskan guðdóm.

Sjálfur Maó hefði fundið til öfundar ef hann hefði séð þá hundslegu auðmýkt sem margir framámenn í Sjálfstæðisflokknum hafa sýnt Davíð Oddssyni árum saman og sýna jafnvel enn. Persónudýrkun er ógeðslegt fyrirbæri hvar sem hún fyrirfinnst -  hún gerir marga menn að skriðdýrum og þann sem dýrkaður er að verri manni en ella. Hann fer að fá svo háar hugmyndir um sjálfan sig, að það skaðar bæði hann og aðra. Það hygg ég að hafi gerst í tilfelli Davíðs Oddssonar !

Eins og bankarnir voru orðnir allt of stórir fyrir þjóðarbúið, varð hann tiltölulega snemma allt of stór fyrir þjóðina - að minnsta kosti í eigin áliti og sinna helstu áhangenda.

Við Íslendingar höfum hreinlega ekki efni á því að eiga slíkt " stórmenni " !

Landið bókstaflega hallast hvar sem hann stígur niður fæti !

Meðan Davíð var forsætisráðherra var hann trúlega líka seðlabankastjóri, og fram í janúar á þessu ári var hann seðlabankastjóri og trúlega líka forsætisráðherra, en nú er komin ný ríkisstjórn, stjórn sem vill ekki að seðlabankastjórinn sé líka forsætisráðherra og setji sig ofar ríkisstjórn lands og þjóðar. Það gengur ekki að einn maður, sama hver hann er, haldi heilli þjóð í gíslingu og hreyki sér upp, til skaða fyrir hagsmuni þjóðarinnar og álit okkar í umheiminum. Davíð Oddsson seðlabankastjóri er orðinn persónugervingur glórulausrar þversagnar sem rís gegn þjóðarhagsmunum og það er vont fyrir þjóðina og það er líka vont fyrir hann sjálfan !

Jafnvel þó harðkjarni Sjálfstæðisflokksins sé enn með Davíð Oddsson á stalli persónudýrkunarinnar, þá eru æ fleiri sjálfstæðismenn að átta sig á því að Davíð Oddsson er orðinn höfuðvandamál flokksins. Meðan forusta flokksins fruktar fyrir honum eins og hún hefur gert, er það bein vísun á fylgistap og vöntun á trausti.

Tími Jóhönnu er kominn og hann mun að öllu óbreyttu vara þessa 80 daga, en tími Davíðs er liðinn og meira en það. Það tímaskeið endaði skelfilega fyrir okkur öll - nema alikálfana sem hann leiddi á legg og létu svo ekki að stjórn til lengdar. Davíð talaði um það í haust að við ættum ekki að borga skuldir fyrir óreiðumenn, en hann gleymdi því sýnilega, að þar er um að ræða sömu mennina og hann afhenti bankana okkar, á þeim forsendum að þeir væru snjöllustu fjármálamenn þjóðarinnar. Davíð sagðist ekki hafa verið útrásarsinni en það eru til ótal myndir af honum sem sýna og sanna annað.

Það er aumkunarvert að sjá helstu fylgismenn hans í dag reyna að hvítþvo hann í bak og fyrir, því þær tilraunir eru svo gjörsamlega vonlausar, að þær gera bara lítið úr dómgreind viðkomandi manna. En þar eiga sjáanlega í hlut menn sem eiga erfitt með að segja skilið við persónudýrkunina og goðið á stallinum.

Sennilega hefðu þeir margir hverjir tekið sig prýðilega út austan tjalds, á tímum Stalíns eða í kalda stríðinu, því þar var líka hollustan við leiðtogann talin hin æðsta dyggð - hvað sem öllu öðru leið !

 

 


"Löglegt en siðlaust "

 Ofangreind orð eru löngu orðin fræg en þau komu á sínum tíma úr munni Vilmundar heitins Gylfasonar, manns sem barðist fyrir því að hreinsað yrði til í íslenska stjórnkerfinu og spillingu úthýst þar.

Ef kerfið væri heilbrigt og eðlilegt ætti að liggja fyrir að ekkert gæti stuðst þar við lög sem siðlaust væri. En reyndin er og hefur verið önnur.

Allir sem þekkja eitthvað til íslenskra þjóðmála, þekkja jafnframt til þeirrar baráttu sem Vilmundur Gylfason háði á fjölmörgum pólitískum vígstöðvum fyrir velferðarsýn sinni varðandi framtíð lands og þjóðar.

Vilmundur stofnaði Bandalag jafnaðarmanna og hugsaði sér það sem félagslegt tæki til baráttu og sóknar fyrir þær hugsjónir sem hann hafði að leiðarljósi.

Það sópaðist strax að Vilmundi allmikið stuðningslið, en heldur smátt var þar á stykkjum og margir munu hafa verið hálfvolgir í málunum svo ekki sé fastar að orðum kveðið. Vilmundur mun hafa séð strax eftir kosningarnar 1983, að hinn pólitíski leiðangur sem hann hafði í hyggju að hefja, hafði ekki þá burði sem vonir hans stóðu til. Honum fannst sér ekki líft ef hann gæti ekki barist fyrir þeim málum sem honum voru helgust og því fór sem fór.

Sennilega hafa hugsjónir þær sem leiddu til stofnunar Bandalags jafnaðarmanna fyrst og fremst búið í hjarta Vilmundar sjálfs, en fylgifiskarnir margir hverjir synt með í von um æti.

Það hefur aldrei vantað tækifærissinna á Íslandi !

Ég horfði á umræðuþátt í sjónvarpinu fyrir nokkru, þar sem Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sat með öðrum fyrir svörum. Rætt var m.a. um hugmyndir um frystingu eigna auðmanna eða leiðir til að fá útrásargreifana til að axla ábyrgð gagnvart þjóðarhag, vegna bankahrunsins og þeirrar hrikalegu stöðu sem þjóðin komst í fyrir tilverknað þeirra og sofandi stjórnvalda. Ragnheiður var nú ekki aldeilis á því að fara ætti slíkar leiðir.

Hún benti ítrekað á að fyrst yrði að sanna að viðkomandi auðmenn hefðu brotið eitthvað af sér ! Hún vissi ekki til þess að þeir hefðu í sjálfu sér brotið nein lög, þó illa hefði kannski verið á spilum haldið !

Þannig talaði Ragnheiður Ríkharðsdóttir í þessum umræðuþætti.

Nú er það svo, að síðustu átján árin eða þar um bil, hafa viðverandi stjórnvöld í landinu, útfært ýmsar lagasetningar fyrir útrásargreifana, þeim til  halds og trausts, og jafnvel afnumið ýmislegt sem þeir töldu vera sér til óþurftar.

Það var sem sagt þjónað undir frjálshyggjufurstana í bönkunum með margvíslegum hætti og unnið í því að gera lagaumhverfi þeirra sem frjálsast. Eftir það gátu þeir hegðað sér nánast að vild án þess að brjóta beinlínis lög.

Í skjóli sérhannaðra lagafríðinda sátu þeir svo og sönkuðu að sér illa fengnum gróða. Og enn sitja þeir og njóta spillingarágóðans og láta fara vel um sig meðan þjóðin berst í bökkum !

Þeir vita að þeir eiga talsmenn í þingmönnum eins og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þeir vita að þeir eiga enn aðdáendur sem verja þá og tala um að þeir hafi ekki brotið neitt af sér. Þeir vita að þessir aðilar staðhæfa stöðugt að það verði að sýna fram á lögbrot af þeirra hálfu ef eitthvað eigi að hreyfa við þeim.

Annars séu þeir ósnertanlegir og saklausir eins og börn í vöggu !

Og þarna getum við velt fyrir okkur orðunum: " löglegt en siðlaust ".

Nú man ég ekki betur en umrædd Ragnheiður Ríkharðsdóttir hafi verið meðal þeirra sem gengu til liðs við Vilmund Gylfason á sínum tíma. Þá var hún ung og vígreif baráttukona og taldi sig áreiðanlega andvíga allri spillingu í kerfinu og tilbúna til að berjast gegn öllu af því tagi. Þá vissi hún að margt gat svo sem verið löglegt en siðlaust fyrir því.

En síðan eru liðin mörg ár og margt hefur breyst og ekki allt til batnaðar.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur hinsvegar aukið frama sinn á hinu veraldlega sviði, en líklega á kostnað fyrri hugsjóna, ef þær voru þá nokkurn tíma sannar sem slíkar. Hún er komin á þing fyrir forréttindaflokkinn og berst nú sýnilega gegn mörgu því sem hún áður taldi rétt og satt.

Sennilega segir hún núna, eins og svo margir aðrir sem yfirgefið hafa  hugsjónir sínar og farið að þjóna sérhagsmunum í einu og öllu, " að hún hafi þroskast "!

En fróðlegt væri fyrir fólk að heyra í dag þann málflutning sem hún viðhafði á sínum tíma þegar hún var í liði með Vilmundi Gylfasyni og studdi hugsjónir Bandalags jafnaðarmanna. Í orðum hennar frá þeim tíma, myndu menn heyra í allt annarri manneskju og að minni hyggju geðugri manneskju, þó það sé mikil spurning í ljósi eftirtímans, hvort hún hafi nokkurntíma verið heil í því að vera í framboði fyrir hugsjónastefnu Bandalags jafnaðarmanna.

Kannski var hún bara fiskur sem synti um í ætisleit ?

Nú er Ragnheiður Ríkharðsdóttir ekki jafnaðarmaður og nú telur hún það sýnilega helstu skyldu sína, að verja þá aðila sem hafa í skjóli flokks hennar,

varnarliðs forréttindanna, sett íslensku þjóðina undir skelfilegan skuldaklafa til langrar framtíðar. Þeir menn virðast vera hennar sálufélagar í dag !

Ég velti því fyrir mér, hvort fyrrverandi liðsmaður Vilmundar Gylfasonar geti fjarlægst öllu meir þau gildi sem hann stóð fyrir ?

 


Um pólitískan geðklofahátt íhaldsins

 

Sjálfstæðisflokkurinn eða Þjóðarógæfuflokkurinn, eins og ég kýs að kalla hann, er undarlegt fyrirbæri frá sálfræðilegu sjónarmiði. Það mætti alveg kalla flokkinn með persónulegum hætti pólitískt kleyfhugabatterí eða geðklofagallerí.

Þó að þessi svokallaði flokkur " allra stétta " sé alfarið byggður utan um sérhagsmuni, hagsmuni þeirra betur megandi í þjóðfélaginu, á hann það til að láta við vissar aðstæður eins og hann sé einhverskonar alþýðleg samhjálparhreyfing !!!

Nú skulum við skoða hvernig þeir hlutir gerast og ganga fyrir sig.

Ungt fólk sem alist hefur upp á venjulegum alþýðuheimilum í landinu og síðan gengið menntaveginn, stendur yfirleitt frammi fyrir tveim meginkostum, að ganga til liðs við félagshyggju sem tekur mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar eða að styðja einstaklingshyggjuna, sem tekur fyrst og fremst mið af eigingirni og sjálfselsku, þó aldrei hafi það sýnt sig eins afgerandi og á síðustu árum.

Það hefur stundum verið sagt að þeir sem ganga í Sjálfstæðisflokkinn án þess að hafa uppeldislegt bakland þar, verði oft verstu íhaldsgaurarnir. Þeir telji sig alltaf þurfa að vera að sanna sig fyrir hinum blóðhreinu flokksmönnum. Það er svona svipað því og þegar sumir gerast kaþólskari en páfinn !

Um all langt skeið hefur verið mikill áróðursþrýstingur á ungt menntafólk, að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn og hin frjálshyggjusinnuðu fjármálaöfl.

Þeir hafa því miður orðið margir sem ekki hafa þolað þann þrýsting og gengið á mála hjá Valhallarvaldinu.  Draumur ungra tauhálsa í framhaldsskólum landsins varð á stuttum tíma sá, að útskrifast í hagfræði eða viðskiptafræði. Það þótti flottast og stíllinn gekk allur út á það.

" Stefndu að því að verða ríkur, sama hvað þú treður á öðrum í leiðinni að því markmiði ". Þessi einkunnarorð urðu brátt leiðarvísir ungra hægri manna og þeirra sem ákváðu að ganga undir gunnfánum græðginnar í þessu landi !

En nú eru flestir Íslendingar vonandi farnir að sjá að græðgi er ekki góð og afleiðingar hennar enn verri, sama hvað Hannes Hayek Friedman segir.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt of lengi verið við stjórn í landinu, enda hefur hann þurrausið ríkisbrunninn í þágu sinna alikálfa. Hann hefur stöðugt létt skatta á hátekjufólki og þyngt þá að sama skapi á almennu launafólki og hyglað án afláts þeim ríku á kostnað hinna efnaminni. Hann hefur staðið fyrir óþjóðlegri stefnu og farið eyðileggingarhöndum um þjóðarbúið. Verkin sýna þar merkin !

Samt gat Geir Haarde komið fram um daginn og hrósað sér af því að hafa náð ríkisskuldum Íslands niður meðan hann var fjármálaráðherra hér á árum áður og fleiri sjálfstæðismenn hafa síðan étið það upp eftir honum. Það sem gerðist var einfaldlega að bestu mjólkurkýr ríkisins voru seldar, til óþurftar fyrir okkur öll, og síðan farið í að borga þessar ríkisskuldir með þeim peningum.

Það hafði ekkert með góða fjármálastjórn að gera, það voru bara seldar eignir sem við þurftum að eiga áfram vegna heildarhagsmuna þjóðarinnar.

Geir Haarde hefði átt að tala um stöðuna eins og hann skildi við hana, núna í janúar, ríkið á hausnum, öllu steypt undan þjóðinni og allt í meiri voða en nokkru sinni hefur verið - eftir samfellda fjármálastjórn sjálfstæðismanna frá 1991 ! Geir sjálfur var ýmist fjármálaráðherra eða yfir-efnahagsmálaráðherra allan þennan tíma og ætti því að bera nokkuð mikla ábyrgð á ömurlegri lokastöðunni. Það er mjög sérstakur  " hæfileiki " að geta útilokað sig svona gjörsamlega frá óþægilegum staðreyndum, sem ættu þó að æpa upp í eyrað á hverjum manni sem heyrn hefur. En þessa eigind hafa sjálfstæðismenn alltaf átt öðrum mönnum fremur.

Af þessu og öðru sést, að eðlilegt er að tala um Sjálfstæðisflokkinn sem pólitískt geðklofaheimili og enn er eitt stórt atriði sem áréttar það.

Jú, um leið og þessi aðalsflokkur fer í stjórnarandstöðu, gerist hann nánast sjálfkrafa " flokkur fólksins " og fer að hafa óskaplegar áhyggjur af kjörum almennings í landinu ! Sá tónn er nú þegar farinn að heyrast frá þessum óskemmtilega hópi, en falskari getur hann þó varla verið.

Það er deginum ljósara að sjálfstæðismenn munu kosta kapps fram að kosningum að reyna að breyta ímynd sinni og gera hana almenningsvæna.

Sómatilfinning innan flokksins hefur aldrei virst mikil að vöxtum, en við þessar aðstæður er hún sennilega alveg á lægsta punkti. Raunar gera staðreyndir þær sem við blasa í landsmálum, þá siðferðilegu kröfu til sjálfstæðismanna, að þeir þegi og reyni að skammast sín.

En það fylgir öðru þjóðaróláni að þeir kunna hvorugt !

Menn munu því sjá á næstunni Birgi Ármannsson, Bjarna Benediktsson, Guðlaug Þór Þórðarson, Illuga Gunnarsson, Sigurð Kára Kristjánsson og aðra stórstimplaða frjálshyggjumenn Þjóðarógæfuflokksins, taka sér stöðu sem málsvara fólksins, tala eins og þeir séu og hafi alltaf verið fólksins megin, tala eins og þeir séu félagsvænir og þjóðvænir fulltrúar á alþingi.

Og þar kemur hinn pólitíski geðklofi enn og aftur fram, því enginn þessara manna er fólksins megin. Þeir eru innvígðir í Valhöll - einherjar íhaldsins !

Sjálfstæðisflokkurinn kemur fram sem algerlega eitt falskt númer fyrir kosningar og fullkomlega annað falskt númer eftir þær og umsöðlunin er yfirgengileg !

Þetta geta menn alveg gefið sér fyrirfram, því sumir eru einfaldlega þannig að þeim þykir ekkert að því að tjalda öllum tuskum óhreinlyndis og falskra frasa, ef það getur skilað þeim einhverju.

Ef almenningur í þessu landi er ekki því vökulli fyrir þeim hættum sem að honum steðja, getur svo farið að Þjóðarógæfuflokkurinn nái aftur völdum eftir kosningar og það með tilstyrk Framsóknarflokksins, sem er víst þegar á uppleið eftir málamynda hundahreinsun innan sinna vébanda !

Ef svo færi, yrði það herfileg niðurstaða fyrir lýðræðið í landinu, eftir bankahrun og þjóðargjaldþrot og algjöra ábyrgð umræddra flokka á þeim ósköpum.  Vanhæfi þeirra til að ráða bót á þeim skaða sem þeir ollu, hlýtur að liggja í augum uppi. Ef þessir þjóðarhrunsflokkar ná völdum hér aftur eftir kosningar verður það skelfilegt mál fyrir íslensku þjóðina.

Það væri nánast hliðstætt því að ótilgreindur flokkur hefði tekið aftur við völdum í Þýskalandi eftir ósigurinn 1945 - eins og ekkert hefði í skorist !

Megi allar góðar vættir forða okkur frá svo illum örlögum !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 143
  • Sl. sólarhring: 329
  • Sl. viku: 1164
  • Frá upphafi: 309858

Annað

  • Innlit í dag: 130
  • Innlit sl. viku: 996
  • Gestir í dag: 130
  • IP-tölur í dag: 129

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband