Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Hugleiðing um forsjárhyggju !

Það er mjög fróðlegt að skoða í bloggheimum og víðar hvað hægri sinnað fólk getur tekið stórt upp í sig varðandi það sem það kallar forsjárhyggju.

Nú liggur fyrir að Ísland hefur verið sett á hausinn vegna skorts á forsjárhyggju, vegna þess að úlfarnir fengu að vaða yfir allt og enginn veitti viðnám. Jafnvel þeir sem voru á háu kaupi í kerfinu til að vernda almannahag gerðu ekki neitt.

Það var sem sagt engin forsjárhyggja í gangi - því miður !

Í fyrsta lagi hefði hrunið ekki orðið ef heilbrigð forsjárhyggja hefði verið til staðar, í öðru lagi ættu allir sæmilega skynsamir menn að geta skilið að það sem gerðist, ætti einmitt að kenna okkur þá lexíu að full þörf sé á vissri forsjárhyggju til að tryggja öryggi þegna samfélagsins.

Við höfum séð til hvers það leiðir að hafa enga forsjá í málum og því ætti sérhagsmunadeildin að skammast sín til að hafa hægt um sig meðan verið er að reyna að taka til og þrífa þjóðfélagið eftir skítmennskuveisluna !

Hvað er fólk að meina þegar það hatast við forsjárhyggju og hræðist hana ? Á ekkert að vera til sem setur fólki takmörk ? Höfum við ekki séð og erum við ekki alltaf að sjá afleit dæmi þess hvernig fjöldi fólks getur látið þegar ekkert setur nein mörk í neinu ? Á yfirgangur þess sterka og ríka að gilda í okkar þjóðfélagi ?

Sú var tíðin að ekki mátti vera nein verkalýðshreyfing, því þá var sagt að einhverjir væru farnir að hugsa fyrir fólkið. Það mátti náttúrulega ekki. Sérhagsmunahyskið vildi bara geta kúgað verkalýðinn í friði og verkalýðshreyfing þýddi bara vandræði -  að þess mati.

Verkalýðsbaráttan var ekki síst vegna þess löng og ströng og einn helsti forustumaður Vinnuveitendasambandsins sagði víst eftir samningana 1942,  " að hann vissi ekki hvert þetta þjóðfélag stefndi eiginlega, verkamenn væru farnir að kaupa hægindastóla ! "

Eins var það með vökulögin og verkamannabústaða-frumvarpið ! Hægri menn voru helbláir af vonsku út af því að það ætti að koma á þessum sjálfsögðu mannréttindum. Og auðvitað var talað um forsjárhyggju og kommúnisma í öðru hverju orði af þeirra hálfu. En þessi mál komust samt í gegn og að því kom að jafnvel sjálfstæðismenn þóttust aldrei hafa verið á móti þessum málum !

Eins var með almannatryggingakerfið ! Það var nú forsjárhyggja í sinni verstu mynd að mati hægri manna. En Bismarck, járnkanslarinn sjálfur, var þó ekki í þeirra hópi í þeim efnum. Hann sá gildi þessa þjóðlega öryggisnets og stuðlaði að framgangi þess í Þýskalandi.

En menn sjá vonandi á þessu að það á sínar skýringar, að sumir hatast við þessa svonefndu forsjárhyggju !

Ég tel það hinsvegar liggja ljóst fyrir, að margir sem hatast við forsjárhyggju eru fyrst og fremst hræddir um að þeir fái ekki áframhaldandi tækifæri til að arðræna náungann. Verndin verði svo mikil að ekki verði hægt að flá og kúga eins og í gamla daga.

Það hefur nú verið gaman fyrir hefðarslektið að lifa, þegar aðallinn og kirkjan réðu öllu, og fólk hafði engin mannréttindi !

Ég væri ekki hissa á því að sumir í Valhöll ættu sér þá ósk heitasta að upplifa slíka tíma aftur. Af þeim sökum þarf alltaf að hafa það í huga, að það er hægt að missa áunninn rétt, og mest er hættan á því ef fólk lætur hræða sig til að kjósa þá sem níða réttindi þess niður.

Fólk verður að skilja að heilbrigð forsjárhyggja þarf að vera til staðar - til að vernda mannréttindi almennings gegn þeim hákörlum sem alltaf vilja arðræna og pína náungann - mönnum sem eru blóðsugur í eðli sínu og vilja lifa með þeim hætti.

Þeir eru ófáir í dag sem virðast halda að mannréttindi nútímans hafi alltaf verið sjálfgefin, en sem fyrr segir, svo var nú aldeilis ekki. Það þurfti baráttu árum saman -  blóð, erfiði, tár og svita, fyrir venjulegt fólk að ná því að fá að standa upprétt. Og slíkir kúgunartímar gætu runnið upp aftur, ef fólk heldur ekki fast um áunnin réttindi sín. Því ætti  fólk að halda vöku sinni og muna að hafa vopnabúr búsáhaldanna jafnan innan seilingar.

Það fólk sem æpir í dag gegn forsjárhyggju er að öllum líkindum í hópi þeirra sem vilja hafa fullt frelsi til þess að herja á aðra og hafa ávinning af því að éta frá öðrum. Það er hin illræmda afætuhugsun sem birtist í því atferli, að níða niður allt sem kemur í veg fyrir að einn gangi á annars rétt. Sú hugsun hefur alla tíð hatast við mannlegan jöfnuð, því sérgæskan hefur alltaf notið sín best þar sem jöfnuðurinn er minnstur.

Heilbrigð forsjárhyggja af hálfu stjórnvalda byggir upp og veitir þá vernd sem þörf er á alls staðar í veröldinni - til þess að hákarlar arðráns, kúgunar og misskiptingar éti ekki brauðið frá munni þeirra sem minna mega sín.

 

 

 

 


VIÐVÖRUN

 

 

 

Evrópustórríkið allt vill gleypa,

öllu fullveldi niður steypa.

Miðstjórnarokið þar eykur kvöl

sem álfunnar mesta þjóðaböl !

 

Ganga þar margir gulli á hönd,

græðgin fer víða eldi um lönd.

Þó verði engin íslensk sál

orðuð við þvílík svikamál !

 

Vilja samt banka á Brussel dyr

blindaðir menn og þjóðvilltir,

kjósandi afar kaupin þar,

keyptir í þrælsins hugarfar !

 

Þeir sem þar ganga í bölvuð björg,

blóta við ramman Mammons hörg.

Glata þar íslenska andanum,

- hann á ekki samleið með fjandanum !

 


Veruleikafirring íhaldsins

 

Margir sjálfstæðismenn virðast hafa tekið þann kostinn undanfarið að leika sig nánast veruleikafirrta og telja það sýnilega það skásta sem þeir geti gert eins og sakir standa. Þeir vita upp á sig skömmina með svo margt að það hálfa væri nóg.

Þessvegna kjósa þeir margir hverjir að láta sem staðan sé allt önnur og betri en hún er. Hinar föllnu stjörnur flokksins, Davíð Oddsson og Geir Haarde, hafa líka gengið á undan í þessum efnum og ekki viljað kannast við að þeir hafi gert nokkuð rangt eða að þeim sé þörf á því að biðja þjóðina afsökunar á einu eða neinu. " Eftir höfðinu dansa limirnir " segir máltækið og það hefur ekki hvað síst sannast á Sjálfstæðisflokknum.

Davíð Oddsson flutti veruleikafirrta ræðu á nýafstöðnum landsfundi flokksins og reyndi að leika þar skemmtikraft á skrítnum nótum, en lítið fór þar fyrir ábyrgum forustumanni. Salurinn hló samt og klappaði fyrir aulafyndni hans og mátti segja að ræðumaðurinn hæfði salnum og salurinn honum.

Sjaldan hefur manni fundist landsfundur sjálfstæðismanna vera jafn mikill lágkúruvettvangur og hann sýnilega var undir þessari dæmalausu ræðu Davíðs.

Verst var þó að ræðan sem slík bjó ekki yfir neinu efnislegu gildi.

Þarna var bara beiskyrtur og vonsvikinn maður að hella úr skálum reiði sinnar og tala neikvætt um fólk sem var þarna hvergi nærri og viðstaddir létu sér það heyranlega vel líka. Það lýsir því væntanlega hvers konar söfnuður þetta er sem kemur þarna saman.

Ekki get ég séð fyrir mér prúðmenni á borð við Geir Hallgrímsson flytja slíka ræðu, en samt gekk hann í gegnum erfiða reynslu á sínum pólitíska ferli, reynslu sem hefði gert margan manninn beiskan. En Geir kom sýnilega út úr þeim reynslueldi sem heilsteyptari og þroskaðri maður.

En Geir Hallgrímsson var líka formaður í öðrum Sjálfstæðisflokki en þeim sem nú hefur höggvið svo illa að rótum hins íslenska sjálfstæðismeiðs. Sú stefna sem flokkurinn hefur fylgt undanfarin ár hefur nefnilega ekki aðeins skaðað þjóðina heldur hefur hún hreinsað burt úr flokknum flest það sem var þó einna skást við hann, þó aldrei væri hann góður.

Nú er það trú margra, að innviðir flokksins séu orðnir gegnrotnir af spillingaranda. Það megi því segja að þeir minni helst á innvolsið í Dorian Grey eins og það mun hafa verið orðið undir það síðasta og sennilega er ástæðan fyrir meinsemdinni söm í báðum tilfellum, enda skrattanum skemmt.

Ef ég hefði ekki á sínum tíma farið sérstaklega í það verk að gera mér glögga grein fyrir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn er og hvernig hann er, hefði ég hugsanlega getað farið að vorkenna honum í dag. En sem betur fer veit ég út á hvað flokksmaskínan þar gengur og fyrir hverju og því er það alveg útilokaður hlutur að ég geti fundið til með þeirri sérhagsmuna og samtryggingarófreskju sem Sjálfstæðisflokkurinn er.

En sem betur fer gerist það merkilega oft, að áróður sjálfstæðismanna verður svo vitleysislegur að hann snýst gegn þeim sjálfum. Þeir eru nefnilega oftast svo uppteknir af eigin sjálfsupphafningu, að þeir taka ekki eftir því þegar þeir fara rökfræðilega villuhringi í málflutningi sínum.

Tökum eitt dæmi. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var kjörin formaður Samfylkingarinnar með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða stóð ekki á því að Morgunblaðið talaði um rússneska kosningu. En sú var tíðin að Davíð Oddsson var kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins með 98% atkvæða, en ekki kallaði Morgunblaðið það rússneska kosningu.......Nei, nei, nei !

Þar var bara verið að sýna yfirgnæfandi traust til yfirnáttúrulega hæfs leiðtoga !

En þannig var einmitt viðhorfið til hinna rússnesku toppskarfa meðan þeir voru og hétu og þó sjálfstæðismenn fordæmdu þá persónudýrkun sem viðgekkst austantjalds, virðast þeir engu að síður hafa iðkað hana í eigin flokki og einkum gagnvart þeim manni sem þar hefur náð mestum alræðisvöldum.

En veruleikinn er ekki svarthvítur og fólk lætur ekki blekkja sig endalaust með sömu rökvillunum. Forusta Sjálfstæðisflokksins mætti því virkilega huga að því sem skáldið sagði forðum : " Hálfsannleikur oftast er / óhrekjandi lygi ! "

Meðferð Sjálfstæðisflokksins á fjöreggi lands og þjóðar hefur verið slík, að jafnvel ég -  lífstíðar svarinn andstæðingur flokksins - hefði ekki búist við því að óreyndu, að flokkurinn gæti farið svo hrapallega að ráði sínu sem reyndin sýnir.

Ég hef þó sem fyrr segir, enga samúð með flokknum, en þjóðarinnar vegna hefði ég samt kosið að staðan væri önnur, því íslenska þjóðin er svo óendanlega miklu meira virði en nokkur stjórnmálaflokkur.

Við hljótum nú að vera búin að fá nóg í bráð af sérhagsmunadekri á kostnað alþjóðar, og ef við eigum að halda velli til frambúðar verðum við að standa saman og huga betur að því sem heldur okkur sameiginlega uppi sem þjóð.

Því er það einlæg ósk mín og von, að komandi kosningar leiði til þess að hér taki við völdum með fullu umboði stjórn sem hefur heildarhagsmuni lands og þjóðar að leiðarljósi á næstu árum.

 

Því Ísland er landið sem áður

og öll við það tryggðin sé fest.

Og heill vor og hamingjuþráður

að hlynna að því sem best !

 

 

 

 

 

 

 


Fenrisúlfur frjálshyggjunnar

Það liggur fyrir að íslenska ríkið er stórslasað og lemstrað eftir efnahagsleg hryðjuverk svonefndra útrásarvíkinga og taglhnýtinga þeirra innan kerfisins.

Ógnaröfl græðginnar fóru á kreik við nánast algera yfirtöku hins ábyrgðarlausa frjálshyggjuliðs á bönkum og fjármálastofnunum. Sú yfirtaka átti sér greinilega stað með þegjandi samþykki stjórnmálamanna innan ríkiskerfisins og manna í eftirlitsstöðvum þess, manna sem voru frjálshyggjusinnaðir með sama hætti.

Þessi ógnaröfl urðu að þeim Fenrisúlfi sem allt gleypti, því óargadýri sem svalg í sig sparifé landsmanna af fullkomnu samviskuleysi fram á síðustu sekúndu fyrir hrun. Þannig var beinlínis staðið að málum, að efnahagshrunið varð í rauninni óhjákvæmilegt og bókstaflega sáð fyrir því. Eyðileggingarstarfsemi útrásarliðsins og fylgihnatta þess í kerfinu, virðist hafa skilið eftir sig mikið til sviðna jörð hvað snertir orðspor þjóðarinnar út á við og fjárhagslega stöðu ríkisbúsins. Stór hluti fyrri landkynningar er þar með að litlu sem engu orðinn. Svo enginn velkist í vafa um það hvað ég er að segja vil ég undirstrika, að ég er hér að tala um glæframennsku glæframennskunnar með hliðsjón af því tjóni sem unnið hefur verið á hag þjóðarinnar.

Það er því til himinhrópandi skammar, að við þessar aðstæður séu til menn, jafnvel á þingi, sem vilja teljast ábyrgir, en segja samt " Þeir brutu engin lög " !

Hjá slíkum aðilum er greinilega löngunin til að verja skaðvaldana eins og boðorð æðstu skyldu. En er þá hægt að rústa gjörsamlega hag heillar þjóðar án þess að brjóta lög ? Er það enginn glæpur að setja heilt þjóðfélag á hausinn ?

Ef svo er, til hvers erum við þá að dröslast með þessi lög ef þau eru vita gagnslaus til varnar fyrir hinn almenna borgara og öryggi hans ?

Ég hélt að lög væru sett með það að höfuðmarkmiði að vernda borgarana og samfélagið í heild og bregðast við hverri ógn sem að því steðjar ?

Stjórnun Sjálfstæðisflokksins og kvótaaflanna yfir höfuð, hefur þessu til viðbótar leikið svo sjávarauðlindina okkar, að stefnan sem átti að efla fiskistofnana og koma atvinnugreininni í gott horf, hefur eftir aldarfjórðungs reynslu skilað þeirri stöðu, að fiskistofnarnir eru í verra ástandi en nokkru sinni fyrr og greinin skuldsettari en dæmi eru til um. Hún er svo skuldsett að þar er í raun allt komið hrikalega á hausinn.

Samt koma fram bæjarstjórar á landsbyggðinni í Morgunblaðinu í dag og vara við hugsanlegri " þjóðnýtingu " á kvótanum. Það myndi setja allt í rúst ef ætti að taka hann frá byggðunum..... Heyr á endemi !

Og þessir menn þykjast vörslumenn almannahagsmuna á landsbyggðinni !

Hafa þeir ekki séð hvernig kvótagreifarnir hafa leikið byggðir landsins á undanförnum árum ?  Halda þeir að Guggan sé ennþá gerð út frá Ísafirði ?

Í hvaða flokki skyldu þessir bæjarstjórar annars vera ?

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hóf fyrst að flagga frjálshyggjunni fyrir kosningar sem stefnu flokksins, þá undir slagorði leiftursóknar, brugðust þáverandi félagshyggjuflokkar hart við og kölluðu stefnuna í gagnáróðri sínum " leiftursókn gegn lífskjörum " !

Það skilaði góðum ávinningi í eftirfylgjandi kosningum, því fólk á þeim tíma virtist skilja hvað í húfi var. En síðar tókst íhaldinu smám saman að ryðja frjálshyggjunni braut inn í nánast alla hluti og afleiðingarnar eru nú ljósar og sanna það sem fyrr var sagt, að í raun var um að ræða leiftursókn gegn lífskjörum !

Á örfáum árum hefur tiltölulega fámennri sveit fjárbraskara og svikahrappa, með dyggri aðstoð kvislinga innan kerfisins, tekist að koma Íslandi í svo geigvænlega kreppustöðu, að áratuga ávinningur lífsbaráttu fyrri kynslóða getur hreinlega glatast með öllu.

Nú þarf hugarfarsbreytingu og gjörbreytta lífssýn til að sigrast á vandanum.

Það þarf að binda græðgisandann til frambúðar, ófreskju eigingirninnar og sjálfselskunnar. Það þarf að hreinsa til í kerfinu og takast á við mosagróna spillinguna þar. En það þarf meira til en Læðing og Dróma.....

Það þarf Gleipni - samtvinnaðan bjargarvað úr einbeittum þjóðarvilja til endurreisnar og  heilshugar afturhvarf til félagslegra gilda !

 

Fram það allir mæli munnar

meðan glóra er til í haus.

Fenrisúlfur frjálshyggjunnar

fái hvergi að ganga laus !


Hvar voru þeir meðan dansinn dunaði ?

 

 

Það hefur vakið athygli mína, að nokkrir prestar hafa tekið sig saman að undanförnu og sent ágætar hugvekjur í fjölmiðla. Þetta gera þeir til að undirstrika hin gömlu gildi og benda fólki á lærdóminn sem draga megi af falli efnishyggju og hömlulausrar dýrkunar á fjármunum. Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um slíkt siðbótarframtak að segja og vissulega eiga þarna í hlut hirðar sem hafa skyldur við sína hjörð og þar með þjóðfélagið allt.

En ég spyr hvar voru þessir ágætu kennimenn þegar dansinn um gullkálfinn stóð sem hæst, hvar töluðu þeir þá gegn hinum græðgisfulla tíðaranda og hvernig beittu þeir sér sem hirðar á þeim tíma ?  Ég minnist þess ekki að þeir hafi þá varað fólk mikið við glórulausum yfirboðum markaðshyggjunnar ?

Sátu þeir kannski uppi í blómabrekkunni, meðan á dansinum stóð, fullkomlega meðvirkir og slógu taktinn ?

Á undanförnum árum hefur slíkt efnishyggjuæði verið í gangi, að sannkristnir menn hefðu átt að skilja sig frá því og vara við því sem var að gerast. Ekki síst hefði slíkt átt að gilda um presta og andlega forstöðumenn. Þannig hefðu þeir sýnt að markmið þeirra væru háleit og sönn í lífinu og á engan hátt bundin við verðbréf og veraldlegan hagnað. Þeir væru þvert á móti með hugann við andleg verðmæti sem mölur og ryð fengi ekki grandað.

En því miður virðist sem þeir flestir hafi skellt sér á fullu í dansinn og gert sitt málamiðlunar samkomulag við tíðarandann.

Það er heldur dapurleg niðurstaða.

Svo koma þeir svona eftir á og fara að leggja fjálglega út af afleiðingum þess sem þeir vöruðu aldrei við !

Ég vil að þeir sem taka að sér að vera hirðar, andlegir hirðar, séu vakandi, séu til staðar til að vara fólk við og leiða það frá villu síns vegar. Ég vil að þeir gangi fram í þeirri köllun sem á að búa í hirðisstarfinu. Mér mislíkar þegar ég finn ekkert í prestsklæðunum annað en andlausan embættismann, sem virðist líta svo á að hann eigi bara að láta fara vel um sig í þægilegu starfi.

Það að vera prestur er ekki að hafa slíka afstöðu til mála - prestur er og á að vera hirðir - sá sem leiðir hjörðina, sá sem hefur köllun til slíks starfs !

Prestsstarfið er erfitt starf og ábyrgðarmikið - ef því er sinnt eins og vera ber.

Presturinn er fyrst og fremst þjónn Guðs og hann ber mikla ábyrgð gagnvart hjörð sinni og gagnvart Drottni. Hann á ekki að vera þjónn Tíðarandans eða fylgja tískustraumum í almenningsáliti. Hann á að standa á Bjarginu sem stöðugt er og bera því vitni sem hann er og á að vera kallaður til.

Hann á að vera til vitnisburðar fyrir Sannleikann í rótlausum heimi og skrýðast þar alvæpni andans. Þannig maður er hirðir sem þekkir köllun sína og ábyrgð.

Við höfum öll gott af því að fá heilbrigð áminningarorð þegar við förum út af sporinu. En það er hvorki gott né rétt, þegar ætlaðir hirðar vilja vanda um við hjörð sína fyrir villuráf, þegar þeir sjálfir virðast ekki hafa verið til staðar á réttum tíma til að vísa réttan veg.

Hvar voru þeir þegar mest var þörfin fyrir þá ?

 

 

 


Hvað er list ?

Þar sem sett hefur verið upp listamiðstöð á Skagaströnd, hefur talsverð umræða  farið af stað milli manna á staðnum um það hvað sé list, hvert sé mikilvægi listar og jafnvel um þjóðhagslegt gildi listarinnar ? Það verður víst með það eins og svo margt annað, að þegar stórt er spurt verður lítið um svör.

En listin er þó yfirleitt eitt af því í lífinu sem allmikil virðing er borin fyrir og víst er að margir listamenn hafa gefið mannkyninu stórkostlegar gjafir með verkum sínum og glatt og auðgað með því veröld alla.

Sumum finnst reyndar nú á tímum sem öll list sé orðin úrkynjuð og úr takti við alla eðlilega skynjun. Listamenn séu oftast að einhverju fálmi út í loftið og aðalmálið sé að höndla það að vera frumlegur. Að ná því að fá viðurkenningu sem frumlegur listamaður jafngildi því nánast að öðlast frelsi til alls. Það sé því um að gera að láta sér detta eitthvað fáránlegt í hug.

En þeir sem hugsa þannig um listafólk virðast hafa einhverskonar hellenískt viðhorf til listar. Þeir gera sýnilega kröfur til þess að hún gnæfi yfir allt og vilja sennilega helst sjá gríska fagurfræði í hverju verki.

En það verður að segjast eins og er, að Fídías og Praxiteles eru ekki að störfum í dag og marmarastyttur Grikklands hins forna eru sem önnur mannanna verk börn síns tíma. Listin er þar fyrir utan eins og flest annað í lífinu síbreytilegt viðfangsefni og enginn tími er þar öðrum meiri þegar á allt er litið.

Listhneigð mannsins skýtur eðlilega rótum í þeim tíma þar sem hann er sjálfur þátttakandi og tekur mið af því sem þar er í gangi á einn eða annan hátt. 

Það má líka með nokkrum rétti segja, að hver sá sem stundar listsköpun af ástríðu anda og sálar, sé nokkurskonar landkönnuður í heimi hinnar dýpri hugskynjunar og beri í sér ríka tilfinningatengingu við draumheima dulrænna vídda. Viðkomandi einstaklingur er að sjá og heyra, finna og skynja svo margt sem býr handan við allt það augljósa í lífinu og hann reynir að opna leiðir til að yfirfæra listræna upplifun sína til annarra. Með því eru stundum opnaðir farvegir sem búa yfir nánast takmarkalausum möguleikum á lifandi tjáningu í sköpun og list.

Ég er að hugleiða þetta vegna þess að ég var spurður um daginn þessarar spurningar af einum samborgara: " Hvað er list ?  Ég svaraði spursmálinu snarlega með því að segja, að list væri eitt af því sem gæfi lífinu gildi.

Ég gerði mér þó strax grein fyrir því að ég hafði svarað með nokkuð flötum hætti og svarið kallaði þannig á enn frekari spurningar ef út í það færi.

Á leiðinni heim frá vinnu þennan dag fór ég því að hugsa frekar um þessa spurningu og hvernig hægt væri að svara henni frekar. Það leiddi til þess að ég orti ljóðið sem fer hér á eftir.

Það er von mín að það feli í sér að nokkru leyti það sem mér fannst vanta á fyrra svarið :

 

HVAР ER  LIST ?

 

Hvað er list ?

Það er eitthvað sem hugann hrífur,

hátt eins og fuglinn svífur,

bláminn sem logar og lifir,

lyftir sér grámann yfir ;

eldur sem býr í blóði,

bjartsýnin ein í sjóði,

knúsuð bæði og kysst.....

Það er list !

 

Hvað er list ?

Það er draumur á degi nýjum,

dynjandi regn úr skýjum,

dropar sem detta og falla,

dásemd sem snertir alla ;

veröld sem víddir eykur,

vorandans sóknarleikur,

hugsjón í hjartans vist.....

Það er list !

 

Hvað er list ?

Allt sem ber mannleg merki,

mótað af hugans verki,

innsýn í aðra heima,

orka sem fær að streyma ;

kengúra og köttur í mýri,

kostulegt ævintýri,

skekið í heild og hrist.....

Það er list !

                                        Rúnar Kristjánsson

 

****************


"Frelsisvæðing þjóðfélagsins " !

Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra, sem aldrei sá ástæðu til að biðja þjóðina afsökunar á einstökum sofandahætti ríkisstjórnar sinnar fyrir og í aðdraganda bankahrunsins, bað á nýafstöðnum landsfundi flokkinn sinn - Sjálfstæðisflokkinn, forláts á því hvað illa hefði tekist til með stjórnun efnahagsmálanna.

Þar geta menn líklega séð hvort er honum hugstæðara -  þjóðin eða flokkurinn ?

Geir sem nú er hættur störfum sem flokkspáfi í Valhöll, lét líka hafa eftir sér athyglisverð ummæli í fjölmiðlum fyrir skömmu: " Við frelsisvæddum þjóðfélagið en sumir kunnu ekki með það frelsi að fara !"

Þessi orð Geirs sýna að hann er enn á frjálshyggjulínunni. Hann telur enn að stefnan hafi verið ágæt, það hafi bara einhverjir klikkað. Það er með ólíkindum að maður eins og Geir, menntaður hagfræðingur, með víðtæka reynslu hérlendis sem erlendis, fjármálaráðherra til margra ára og forsætisráðherra þar á eftir, skuli geta verið jafn blindur á augljósar staðreyndir og raun ber vitni.

Svona á sá maður ekki að tala sem gegnt hefur lykilstöðum í efnahagsmálum okkar til fleiri ára, sem sagt, alkunnur reynslubolti, hann á að vita betur !

Ekki veit ég annað en Geir hafi sagt í umtöluðu viðtali við fréttamann BBC, að reynslan af bankahruninu sýndi að ekki væri hægt að hafa hér galopið hagkerfi.

Þar virðist þó sem einhver glóra hafi verið til staðar varðandi það, að ekki væri gott að veita hér skotleyfi á allt í efnahagslegum skilningi.

Geir H. Haarde gumaði mjög af því sem forsætisráðherra að við værum með svo stóra og öfluga banka. Á sama tíma var ég, venjulegur leikmaður á sviði þjóðlífsins, að halda því fram við ýmsa, að bankarnir væru vaxnir ríkinu yfir höfuð og það væri hreint ekki gott fyrir öryggi landsmanna. Það þótti nú ekki góð latína og ég fékk ýmislegt á mig í því sambandi frá ýmsum þeim sem dýrkuðu útrásina og sáu ekki sólina fyrir bönkunum og voru á þeirri línunni að segja fram í gegnum nefið : " You Aín´t Seen nothing Yet ! "

En svo varð bankahrunið og þá kom enn umræddur Geir H. Haarde fram og sagði að ein meginástæðan fyrir hruninu og þeim vanda sem skapast hefði við það, væri sú staðreynd að bankarnir hefðu verið orðnir allt of stórir !  

Af hverju sá þessi hámenntaði og reynslumikli hagfræðingur það ekki fyrir ?

Jú, helsta ástæðan fyrir blindunni er sennilega sú afstaða hans að hann taldi og telur sýnilega enn að fylgt hafi verið réttri stefnu. Það hafi bara einhverjir farið illa með það viðskiptafrelsi sem boðið var upp á. Já, sem sagt, frjálshyggjuliðið í bönkunum fékk frelsi til alls og yfirvöldin ákváðu bara að treysta því að það hegðaði sér vel og enginn færi að sýna græðgi og óheiðarleika !!!

Eftirlitskerfi ríkisins virkaði hvergi nema í sambandi við launagreiðslur.

Fjöldi manns var á eftirlitsvaktinni en svaf þar bara á vænu kaupi !

Þannig var það því miður og þessvegna vilja Geir H. Haarde og aðrir forustusauðir Sjálfstæðisflokksins ekki skilja eða viðurkenna að þeir hafi valdið  þjóðarhag þvílíku tjóni sem raun er á orðin. Þeir treysta sér ekki til að horfast í augu við ábyrgð sína ?

Það lágu aðeins tveir valkostir fyrir Sjálfstæðismönnum eftir að þeir sigldu hér öllu í strand, að vera Íslendingar umfram það að vera Sjálfstæðismenn, ganga í sig og viðurkenna staðreyndir og þegja svo og skammast sín ........eða....... og þann kostinn virðast þeir flestir hafa tekið því miður, að kannast ekki við neitt, rífa kjaft og reyna áfram að blekkja og afvegaleiða kjósendur.

Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni að annarri eins forherðingu í pólitískum skilningi hjá nokkrum mönnum hérlendis eins og flestum Sjálfstæðismönnum í dag og Framsóknarmönnum að hluta til. Þeir neita að draga lærdóm af því sem gerst hefur og halda áfram að berja höfðinu við steininn. Þeir virðast ekki ætla  að láta sér segjast með eitt eða neitt. Frjálshyggjan er enn það sem gildir í þeirra augum. Það er slæmt fyrir þá og okkur öll og Ísland fyrst og fremst.

Fái slíkir afneitarar staðreynda völdin aftur eftir kosningar, munu þeir líta á það sem aflátsbréf frá kjósendum - syndakvittun - og stefna að nýrri útfærslu á frjálshyggjunni, sem mun leiða til þess að seinna áfallið verður verra því fyrra og sennilega banabiti þjóðarinnar !

Látum það ekki gerast, landsmenn góðir  !

 

 


Enginn haldi í íhaldið

 

 

" Flokkur með ógeðs ýtnum

anda er fjarri sátt.

Liggur í ljótum skítnum,

lagast á engan hátt ! "

 

Það er margsannað mál að sagan hefur tilhneigingu að endurtaka sig. Kannski ekki alveg nákvæmlega en furðu nákvæmt þó. Á sínum tíma var Bjarni Benediktsson leiðandi innan Sjálfstæðisflokksins í því að koma Íslandi inn í Nató en með því var snúið baki við þeirri hlutleysisstefnu sem átti að vera ófrávíkjanlegt grundvallaratriði í utanríkismálum Íslands. Nú þegar annar Bjarni Benediktsson er orðinn formaður flokksins, má kannski spyrja sig þeirrar spurningar, verður hann sá maður sem á eftir að gegna hliðstæðu hlutverki við að plata þjóðina inn í Evrópusambandið ?

Í því sambandi er vert að hafa það í huga, að Sjálfstæðisflokkurinn er enganveginn eins mikill Sjálfstæðisflokkur og hann vill vera láta. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að innan flokksins hafi  verið og séu ýmsir sérhagsmunir yfirleitt mun þyngri á metaskálunum en sjálfstæði lands og þjóðar !

Nú um stundir hafa Sjálfstæðismenn hinsvegar kosið að hampa andstöðu við aðild að Evrópusambandinu og þóst allra manna þjóðlegastir, en ástæðan er einfaldlega sú, að þeir liggja í skítnum í öllum öðrum málum. Þeir hafa engu öðru að flagga fyrir væntanlegar kosningar en hugsjón sjálfstæðisins, en flokkurinn er þó enganveginn heill í því máli.

Veit einhver hver er afstaða Bjarna Benediktssonar í því máli eða afstaða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur ?  Áfram mætti líka spyrja, hvaða afstöðu hefur Illugi Gunnarsson til þess máls ?  Ætli það sé ekki nokkuð loðið viðfangs að vita það ?

Bjarni Benediktsson hefur alls ekki verið sjálfum sér samkvæmur í afstöðu sinni til þessa stóra máls og í raun og veru veit enginn hver afstaða hans er og hvar hann er staðsettur í málinu. Kannski er það einmitt þessvegna sem hann er orðinn formaður flokksins - nokkurskonar persónugerð málamiðlun !

Evrópusambandssinnar í flokknum hafa líklega talið að Bjarni væri þeim hliðhollur, en hafi kosið af klókindum að láta það ekki uppi um sinn. Þeir hafa því kosið hann í trausti þess að hann kæmi til liðs við þá síðar.

Andstæðingar aðildar hafa áreiðanlega haft efasemdir um heilindi Bjarna, en kosið hann í von um betri tíð og blóm í haga, einkum eftir að Bjarni fór að tala meira svo þeim líkaði.

Gamla fólkið í flokknum kaus svo Bjarna vegna nafnsins og heldur víst og vonar að það sé að fá gamla foringjann sinn aftur endurborinn. En í því sambandi er áreiðanlega óhætt að fullyrða að hinn nýi Bjarni Ben er ekki gamli Bjarni Ben endurfæddur þó kynið sé það sama.

Það er alltaf leiðinlegt að sjá hvað íslensk pólitík er yfir höfuð á lágu gæðastigi.

Það er ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn að sakast í þeim efnum, þó að sá aðili valdi auðvitað miklu sem mestu völdin hefur haft í þjóðfélaginu og mestu burðina til að gera illt af sér ef út í það er farið. En þegar Sjálfstæðisflokkurinn negldi sig alveg niður við spillingu kvótakerfisins fór hann gersamlega yfir öll mörk eðlilegrar siðvitundar og hefur setið í þeim skít síðan. Þar vann hann það skemmdarverk á almennum íslenskum frjálsræðisanda sem seint eða aldrei verður bætt.

Þegar Geir H. Haarde gumaði af því að hann og flokkur hans hefðu frelsisvætt íslenskt samfélag, en sumir ekki kunnað með það frelsi að fara, gleymdi hann greinilega því mikla ófrelsi sem kvótakerfismismununin færði með sér gagnvart öllum þeim mikla fjölda sem úthýst var frá fornum íslenskum mannrétti. Og hann átti áreiðanlega ekki við kvótagreifana þegar hann sagði að sumir hefðu ekki kunnað með það frelsi að fara sem þeim hefði verið fært upp í hendurnar.

En Sjálfstæðisflokkurinn rændi svo miklu sjálfstæði af íslenskum almenningi með kvótakerfinu að fæstir gera sér fulla grein fyrir því enn hvílíkur glæpur var þar drýgður gegn heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Það er því ljóst að þessi vandræðaflokkur þarf að fara í ítarlega naflaskoðun á sjálfum sér og nauðsyn ber til að hann sé utan stjórnar meðan hann verður í þeim skylduga hreinsunareldi. Ég myndi halda að sú skrúbbun á flokknum tæki í það minnsta 4 ár og þar til henni er lokið ætti enginn að reikna með Sjálfstæðisflokknum færum til eins eða neins.

Kjósendur þurfa því í komandi kosningum að tryggja það að þessi réttnefndi Þjóðarógæfuflokkur sé ekki að þvælast fyrir endurreisn þjóðarinnar í komandi tíð, því ekkert bendir til þess að hann sem iðrunarlaus gerandi sé líklegur til að leggja þar eitthvað gott til mála.

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 147
  • Sl. sólarhring: 364
  • Sl. viku: 1556
  • Frá upphafi: 315537

Annað

  • Innlit í dag: 142
  • Innlit sl. viku: 1268
  • Gestir í dag: 141
  • IP-tölur í dag: 140

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband