Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Hvernig er andinn sem ræður ?

Oft er sagt að andinn í þessu og hinu sé góður eða slæmur eftir atvikum. Þegar einhver sýnir framkomu sem er handan alls sem eðlilegt getur talist, er gjarnan sagt : " Það hefur hlaupið einhver illur andi í hann ! "

Við eigum sem sagt að vita, að það getur hlaupið illur andi í menn og skepnur. Nóg eru líka dæmin til að vísa á í því sambandi svo sem varðandi svínin í Gerasena og íslenska bankakerfið.......!

Ég hef stundum haft það býsna sterklega á tilfinningunni þegar borgir eru annarsvegar, að þar sé mikið andavald til staðar. Verður mér þá oft hugsað til bóka Frank Perettis, en þar er því hiklaust haldið fram að borgir séu skilgreind valdasvæði illra anda.

Þessvegna er það oftast svo með okkur landsbyggðarfólkið, að þó það geti verið viss tilbreyting í því að skreppa til Reykjavíkur, er ánægja okkar alltaf mest fólgin í því að komast aftur heim. Við finnum nefnilega að andrúmsloftið er þar ólíkt hreinna en í borgarlífinu.

Ekki skal því þar með haldið fram að ekkert gott geti þrifist í borgum, en andlega talað geta borgir annaðhvort dregið dám af Jerúsalem eða Babylon. 

Og ég verð nú að segja, að mín skoðun er sú að Babylonar-svipurinn sé nú æði fyrirferðarmikill á flestum borgum samtímans og Jerúsalem-einkennin þar ólíkt minni. Oft hefur verið talað um Sódómu Reykjavík í mæltu máli og er þar samlíking á ferð sem mér hugnast illa því vissulega þætti mér betra að höfuðborg Íslands bæri svip af einhverju öðru en sögulega talað fordæmdri borg.

Árið 2006 var ég eitthvað að spá í þessa hluti og það varð til þess að ég orti  dálítið kvæði sem ég birti hér með.

Það segir kannski sína sögu um það hvernig manni fannst ástand mála vera skömmu fyrir hrunið, þegar viðbjóður græðginnar hafði heltekið svo marga, að heilbrigð hugsun virtist öll á hverfanda hveli og stjórnunarlegar öryggisstoðir samfélagsins voru horfnar á kaf í vímu veraldlegrar nautnahyggju.

 

Borgarandinn

 

Sá andi sem býr í borgum

er bölvun og sálarneyð.

Hann fitnar á sárum sorgum

og soranum opnar leið.

Hann iðkar það eitt að spilla

og afvegaleiðir mest.

Þar blóðsugueðlið illa

í ágirndar flogum sést.

 

Ég afneita borg og borgum

með boðorðin ærusnauð.

Þar talar það eitt á torgum

sem tilbiður stolinn auð.

Hjá mörgum er markið setta

að margfalda fé sitt þar.

Þó tali hver tálsins flétta

um tómleikans hugarfar !

 

Í borginni er málamiðlun

sem margan fær illa villt.

Á flestu sem rétt er riðlun

og ranglætið víða hyllt.

Þar Mammon til hæstu hæða

er hafinn sem veldis stoð.

Og fjölmargir fá að blæða

fyrir það borgargoð !

 

En borgin er full af fólki

sem flækist um torgin víð.

Og heldur að Mammon mjólki

og metti það alla tíð.

Það biður um brauð og leiki,

sú beiðni er ævaforn.

Og andskotinn er á kreiki,

- oftast við næsta horn !

 

                                  Rúnar Kristjánsson

                                        - Ort 2006 -

 


Krabbameinsæxli þjóðarlíkamans

Sú var tíðin að Þjóðarsálin lét til sín heyra í hljóðvarpi og var oft fróðlegt að hlusta á þær skoðanir sem þar komu fram, því auðvitað endurspegluðu þær viðhorf almennings eða svokallaða þjóðarsál að talsverðu leyti og á sinn hátt.

Það er líka oft vitnað til anda þjóðarinnar gagnvart þessu og hinu og fyrst menn tala um þjóðarsál og þjóðaranda er heldur ekki úr vegi að tala um þjóðarlíkama. Ef íslenska þjóðarsálin á að vera heilbrigð þarf hún líklega að vera til húsa í styrkum og stæltum líkama. Við getum spurt okkur hvernig sá líkami þurfi að vera uppbyggður til að hann skili sínu hlutverki eins og best verður á kosið ? Getum við séð fyrir okkur að ríkisstjórnin sé hjartað í þessum líkama sem dælir heilbrigðu blóði út um hann allan ?

Er það annars ekki hlutverk framkvæmdavaldsins ?

Gerir ríkisstjórnin þetta eða eru athafnir hennar meira til þess fallnar að veikja líkamann en styrkja hann ?

Getum við hugsað okkur Alþingi sem heilann í þessum líkama, stöðugt starfandi að því að koma fram með heilbrigðar og uppbyggilegar reglur fyrir heilsufar og viðgang þessa líkama sem við erum öll hluti af ?

Sjáum við Hæstarétt í því hlutverki að vaka yfir því að eðlileg réttlætistilfinning sé til staðar í þessum líkama og heilbrigður viðgangur sannleikshugsunar ?

Getum við trúað því að prestastéttin varðveiti hin hreinu siðferðilegu gildi í hugsun þessa líkama svo engin saurgun hugarfarsins eigi sér þar stað ?

Getum við fundið að fjármálageirinn stjórnist af einlægri hugsun fyrir viðgangi og vexti þessa þjóðarlíkama okkar og vilji honum allt hið besta ?

Ef við hugsum okkur að Forsetinn sé nafli þjóðarlíkamans, fósturstrengur fortíðar og nútíðar, getum við treyst því að hann sé á sínum stað, en ekki stöðugt að ímynda sér að hann sé hjarta eða heili þjóðarlíkamans eða í miklu stærra hlutverki en honum er ætlað að vera ?

Nei, því miður, þá getum við ekki heimfært borgaralegt öryggi í neinum traustvekjandi mæli yfir á neitt af þessu. Gömlu Grikkirnir áttu oft í miklum erfiðleikum með sitt lýðræði enda frumherjar í málinu, en þeir vissu að besta staðan er heilbrigð sál í hraustum líkama - Mens Sana in Corpore Sano. Það á auðvitað jafnt við um einstaklingslíkama sem þjóðarlíkama.

Íslensk yfirvöld virðast hinsvegar ekki hafa mikinn skilning á þeirri staðreynd.

Ríkisstjórnir landsins hafa sjaldnast haft til að bera sérstakt hjarta fyrir velferð þjóðarinnar, og heilastarfsemi heildarinnar sem situr á Alþingi í dag virðist í besta falli vafasöm með vísun til þeirrar velferðar.

Hæstiréttur virðist að margra áliti í einhverju tómarúmi þegar kemur að réttlætismálum og mikil spurning hvort sannleikurinn geri menn þar frjálsa. Prestastéttin hefur átt slíkum vítum að mæta innan eigin vébanda, að hún hefur tæpast verið aflögufær í siðferðilegum efnum eða til þjóðlegrar leiðsagnar í þeim málaflokki.

Fjármálageirinn, með bankana í broddi fylkingar, virðist hafa tekið að sér hlutverk illkynjaðra krabbameinsæxla á þjóðarlíkamanum í stað þess að byggja þar upp heilbrigða vefi.

Það er því fátt sem bendir á batamerki í þeim efnum og aukið traust fólks á viðkomandi aðilum er hvergi á leiðinni til baka. Þar syrtir áfram í álinn !

Forsetinn var árin fyrir hrunið eins og fló á skinni í alþjóðlegum skilningi og virtist þá fjarlægjast mjög þann líkama sem hann átti að vera hluti af.

Hann þyrfti líklega að fara í rækilega naflaskoðun á sjálfum sér, varðandi það hvernig hann hefur rækt hlutverk sitt, á heildina litið, með hliðsjón af þjóðarvelferð. Sú rannsókn gæti kannski flokkast undir gagnrýna hugsun af hans hálfu - gagnvart sjálfum sér, en hugtakið gagnrýn hugsun virðist mjög vinsælt meðal háskólamanna í dag, einkum þeirra sem höfðu víst enga hugmynd um yfirvofandi hrun og bera því auðvitað enga ábyrgð á því.

Ferill manna er sannarlega ekki alltaf í samræmi við það sem skyldurnar ættu að bjóða og það hefur sýnt sig í allt of miklum mæli hjá íslenskum ráðamönnum fyrir og eftir hrun, til mikils skaða fyrir íslenska þjóð og almenna velferð í þessu landi.

Þegar við skoðum samhengi þessara hluta í alvöru virðist flest í lausu lofti í borgaralegum öryggismálum þegar litið er til yfirvalda, enda er það líka mikil spurning hvort yfirvöldin séu í raun með hjarta fyrir þjóðarlíkamanum eða lífskjörum fólksins í landinu.

Hinsvegar er enginn vafi á því að yfirvöldin hafa löngum haft stórt hjarta fyrir fjármagnseigendum og þeirra hagsmunum og geta sjáanlega gengið býsna langt til móts við þá eins og hrunið og eftirmál þess sýna best og sanna.

Almenningur getur hinsvegar ekki borið traust til yfirvalda því hagsmunir hans eru alltaf fyrir borð bornir, hvort sem það er gert sem afleiðing af " þjóðarsátt " eða afleiðing efnahagslegs hruns eða bara vegna þess að það er og hefur alltaf verið stefna Sjálfstæðisflokksins að sérhagsmunir gangi fyrir almannahag !

Íslensk yfirvöld virðast svo gegnsýrð andanum frá hægri, jafnvel þó þau komi frá vinstri, að þau kunna hreinlega ekki að þjóna svikalaust almennri velferð.

Þessvegna er þjóðarlíkaminn kaunum sleginn og graftarkýlin um allt !

Það er dæmigert fyrir þá kaldhæðni sem ríkir oft í heimi stjórnmálanna, að nú hefur verið settur á koppinn sérstakur velferðarráðherra, sennilega í tilefni þess að velferðin hefur verið bundin niður í spennitreyju hinnar kerfislegu íslensku sérhagsmunagæslu. Alltaf fá blekkingarnar sitt stóra rúm.

Og nú er búið að opna snobbhöllina í Reykjavík fyrir menningarneyslu toppanna og varla fær Björgólfur Guðmundsson veglegri bautastein en þann eyðslubrunn.

Þar láta svo kvótagreifar kerfisins, allra flokka alikálfar, almenning borga herlegheitin eins og fyrri daginn, til að fullnægja sínu skítlega eðli !

Þingmenn landsins sitja eins og fangar í fílabeinsturni gervimennskunnar og virðast ekki vita að þeir hafa meira og minna gengið í björgin bláu þar sem enginn maður heldur heilum sönsum til lengdar, þar sem menn ganga erinda sérhagsmunanna - jafnvel án þess að vita það !

Er annars ekki kominn tími til að loka Bastillunni við Austurvöll ?

 

 


Um svikræði og sérþarfir

Þar sem ég hef hér á undan ritað pistil um lýðræði og þjóðarþarfir, ætti ég kannski að fara nokkrum orðum um það sem kalla mætti svikræði og sérþarfir.

Að sjálfsögðu er þar um málefni að ræða sem rísa í gegn þeim hugtökum sem ég fjallaði um í fyrri pistli. Svikræði er alltaf eitthvað sem stríðir gegn almannaheill ekki síður en sérþarfir. Allt sem er svikult og blekkingum háð er andstætt heilbrigðum þjóðfélagsgildum og löghlýðin yfirvöld eiga að vernda þegnana fyrir svikræði og sérþörfum. En þegar yfirvöldin bregðast þeirri frumskyldu sinni og standa sjálf fyrir svikráðum sérþarfanna er voðinn vís.

Það leiðir til trúnaðarbrests milli almennings og yfirvalda og allt traust hverfur á undraskömmum tíma út í veður og vind. Það er aldrei góð tilfinning að finna sig svikinn og þegar sá svíkur sem síst skyldi verður beiskjan skiljanlega mikil. Íslensk yfirvöld hafa glatað almenningstrausti fyrir að bregðast skyldum sínum  við þjóðarheill og eru ekki að endurheimta það.

Og vegna hvers skyldi það vera ?

Vegna þess að þau halda áfram að skeina óhreina rassa í stað þess að huga að almannaheill. Að koma til móts við sérþarfa-mafíuna virðist yfirvöldum miklu hugstæðara mál en að hjálpa almenningi upp úr svikagryfjunni sem þau leyfðu að grafin væri til ránskapar á borgurum þessa lands.

Og þessi yfirvöld eru að setja sig upp á móti því að Hell's Angels komi hér, sem er reyndar slæmt mál í sjálfu sér, en nokkuð lengi þyrftu þeir djöflar, að mínu mati, að starfa hér áður en þeir næðu því að ræna svo miklu af fólki að það jafnaðist á við það sem bankar og yfirvöld hafa gert.

Það skyldi þó aldrei vera óttinn við slíka samkeppni sem gerir yfirvöld svona skilvirk og vakandi gegn hingaðkomu Hell´s Angels ?

Nú eru haldin málþing um gagnrýna hugsun af hálfu ýmissa menntamannahópa en hvar var þessi gagnrýna hugsun þegar Mammon óð á skítugum skónum yfir íslenska samfélagið og tók yfirvöld og leiðandi klíkur í þjónustu sína og jafnvel marga sem nú tala fjálglega um gagnrýna hugsun ?

Það eru margir á flótta frá fyrri ferli í dag, allt frá forsetanum og niður úr !

Og í alvöru talað er kýrljóst að íslenska ríkiskerfið er verulega illa sýkt af svikráðahyggju sérþarfanna og íslenska réttarkerfið er heldur ekki á góðum vegi statt og nýtur lítillar tiltrúar almennings. Að vantreysta yfirvöldum er því fullkomlega eðlileg afstaða af hálfu íslenskra borgara.

Traust er eins og eik í skógi. Traustið vex og dafnar við samskipti sem byggjast á heilindum. Eikin vex hægt en örugglega fái hún frið til þess. Ef eikin er hinsvegar höggvin rís hún ekki svo auðveldlega upp af rótum sínum á ný. Ef traustið er eyðilagt má mikið gerast til að það vinnist aftur.

Þjónustumenn ríkis og réttarkerfis eru oft svo hrokafullir í samskiptum við almenna borgara, að ljótar sögur af slíku ganga fjöllum hærra á milli manna.

Það sýnist t.d. ekki vera borin mikil virðing í þessu þjóðfélagi fyrir lögfræðingum og oftar virðist litið svo á að þeir séu fólki miklu frekar til bölvunar en gagns. Almenningsálitið telur það fullvíst að siðfræðileg viðmið séu ekki hátt metin innan þeirrar stéttar.

Það er að sjálfsögðu slæmt því auðvitað ættu lögmenn að njóta virðingar sem gæslumenn laga og réttar, ef allt væri eins og það ætti að vera. Lögfræðingar hafa hinsvegar verið mjög áberandi í nánast öllum málum sem tengst hafa hruninu og sennilega hefur engin stétt borið jafn mikið úr býtum fjárhagslega við allar þær hörmungar sem yfir þjóðina hafa dunið á síðustu árum. Ekki er hægt að fjalla um eitt eða neitt án þess að " njóta ráðlegginga " löglærðra manna og stimpil þeirra þarf nánast á öll skjöl. Engir virðast fitna meira en lögfræðingar á öllu hrunsbölinu og það er því ekki hægt að búast við því að almenningur hrífist af þeim sem virðast þrífast best á því sem veldur ógæfu og böli meðal fólks.

Við þurfum á öllum sviðum leiðandi fólk sem stjórnast af þjóðlegri sýn, við þurfum fólk í forustu sem vill duga sínu samfélagi, fólk sem er heiðarlegt og réttsýnt. Við þurfum sem sagt fólk sem er ekki eins og fólkið sem lætur fara vel um sig í kerfinu í dag á kostnað samborgara sinna og heldur samt að það haldi þjóðfélaginu uppi. Það fólk er háð duttlungum sérgæskunnar og verður aldrei frambærilegt sem fulltrúar almannaheilla.

Það þarf að ryksuga ríkiskerfið og hreinsa það af óværunni sem hlaðist hefur þar upp á liðnum árum. Það þarf að fá lifandi fólk til starfa þar, fólk sem dregur andann í vinnunni og hefur opin augu fyrir samfélagi sínu og vill þjóð sinni vel.

Ef það reynist ekki hægt vegna þess að spilling sé orðin svo víðtæk hér, gætum við reynt að fá nokkur hundruð Færeyinga til Íslands og gera þá að ríkisstarfsmönnum hér.

Þá þyrfti ekki að óttast svikræði og sérþarfir.

Hollusta Færeyinga gagnvart íslenskum þjóðarhagsmunum er nefnilega hafin yfir allan efa !

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 68
  • Sl. sólarhring: 454
  • Sl. viku: 1477
  • Frá upphafi: 315458

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 1193
  • Gestir í dag: 67
  • IP-tölur í dag: 67

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband