Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

,,Bölvaðir bankarnir´´ !

Þeir eru hreint ekki svo fáir í þessu landi sem minnast ekki á bankana öðruvísi en að hnýta við breytileg nöfn þeirra einhverju sem í eina tíð hefði verið kallað óprenthæft ! Og það er afskaplega skiljanlegt því þannig hafa bankarnir komið fram undanfarin ár gagnvart fólki og efnahag þess, að það er með ólíkindum.

Trú hins almenna manns á trúverðugleika og viðskiptalega tillitssemi þessara stofnana er því verulega sködduð, enda hefur ágengni á mannlega þáttinn að margra mati, farið þar langt yfir öll mörk og engin ábyrgðarkennd lánardrottna verið viðurkennd eða öxluð. Eftir situr, að það virðist ekkert nema glórulaus, ómanneskjuleg gróðahyggja stjórna þessum stofnunum sem virðast helst orðnar að einhverjum vélrænum auðsöfnunar-skrímslum !

En það ber að taka skýrt fram, að það er auðvitað ekki við almennt starfsfólk að sakast í bönkunum, ekki fremur en í heilbrigðiskerfinu. Það er yfirstjórnin og kerfið sjálft sem er ómanneskjulegt !

Það þarf að koma upp nýju bankakerfi í landinu sem tekur mið af heilbrigðum lífsforsendum, kerfi sem er fólkvænt, kerfi sem hefur uppbyggileg, þjóðleg sjónarmið að leiðarljósi en ekki það að arðræna fólk linnulaust !

Við þurfum að losna við Landsbankann, Arionbankann  og Íslandsbankann,  - þetta eru allt höfuð á sömu ófreskjunni og þríhöfða skrímsli er aldrei geðslegt. Við þekkjum það frá olíufélögunum ! Við þurfum að fá viðskiptabanka sem við getum treyst og starfar á mannfélagsvænum grundvelli !

Og Seðlabankinn með sína paradísarfugla má alveg fara sömu leiðina, eins og hann hefur verið rekinn. - Þannig hefur hann hvort sem er aldrei verið til mikils gagns á þjóðarvísu - fyrst og fremst verið notalegt peningahreiður fyrir  aflóga pólitíkusa og málglaða hagfræðinga, menn sem tala mikið og virðast birta margt án ábyrgðar, eins og alþjóð er kunnugt !

En spyrja má í þessu sambandi, hvar er þá íslenskt þjóðaröryggi til húsa, hver gætir að fjöreggi okkar, efnahagslegu öryggi landsmanna ? Er það forsetaembætti hins ætlaða lýðveldis, er það ríkisstjórn eða þing, stofnanir sem allar fengu falleinkunn vegna efnahagshrunsins ?

Framyfir síðustu aldamót var hér líka svonefnd Þjóðhagsstofnun sem átti að hafa eftirlit með þjóðarefnahag á faglegum grundvelli. En hún var líklega orðin of sjálfstæð og þar af leiðandi þyrnir í augum sumra pólitíkusa. Og einn daginn heyrði þessi stofnun sögunni til !

Það var talin geðþóttaákvörðun íslenska Zarsins, að leggja Þjóðhagsstofnun niður. Stefna hans miðaðist náttúrulega að mjög takmörkuðu leyti við þjóðarhag og stofnunin var því álitin óþörf með öllu. Einnig var talið að menn þar hefðu verið farnir að líta nokkuð stórt á sjálfa sig og jafnvel verið með derring við sjálfan höfuðpaurinn, sem var óþolandi virðingarleysi við sjálfa uppsprettu Valdsins !

Og svo er það líka ef til vill spurning út af fyrir sig hvort stofnun, þó að hún sé látin heita Þjóðhagsstofnun, sé í raun og veru að vinna eitthvað í þágu þjóðarhags ? Pólitíkin vill iðulega taka svo yfir í slíkum kerfiseiningum, að sjálfstæð og fagleg vinnubrögð fá ekki byr í seglin, en pantaðar niðurstöður fara þess í stað að ráða. En hvernig sem það hefur verið, virðast margir þó líta svo á, að eitthvað hafi verið spunnið í Þjóðhagsstofnun fyrst hún var lögð niður með þeim hætti sem gert var.

Við Íslendingar verðum eins og allir aðrir, hver þjóð í sínum veraldarreit, að geta borið traust til stjórnvalda og þjónustustofnana í landinu. Við þurfum banka sem geta staðið undir því að vera bankar fólksins, traustar peningastofnanir sem hafa þjóðfélagslega velferð að markmiði. Margir af gömlu sparisjóðunum voru einmitt slíkar stofnanir, þeir stóðu fólkinu nær og glötuðu ekki jarðtengingunni, tengingunni við fólkið og lífvæn gefandi markmið fyrir tilvist þess í landinu. Bankarnir hafa jafnan verið eins og rotnir ávextir miðað við þann anda sem bjó í gömlu sparisjóðunum, enda aldrei notið trausts á við þá. Traust skapast nefnilega best við heilbrigð og gefandi samskipti !

Ég hef aldrei heyrt menn bölva sparisjóðum í sand og ösku, enda er ljóst að þeir hafa alltaf staðið fólkinu í landinu nær og verið því nátengdari. Við þurfum banka sem starfa meira í líkingu við þá sparisjóði sem byggt hafa sitt á þjóðlegum grunni ærlegra gilda. Það mun farsælast fyrir land og þjóð að búa við banka sem byggjast upp á þeim merg og þá mun fólk geta séð jákvæðari mynd af þeim og hætta brátt við breytta reynslu að tala um -  „bölvaða bankana"!

 

 

 

 


Kvæði um Karl I.

 

Karl fyrsti var breskur kóngur

sem kunni ekki neitt á lýðinn,

og vildi bara að hann væri

vinnusamur og hlýðinn ;

skaffaði hirðinni og honum

heilmikið fé til að eyða,

og væri til reiðu röskur

reikninga hans að greiða !

 

Karl fyrsti við fólkið barðist,

fús til alræðisvalda,

spáði í óhrein spilin,

spilltur að baki tjalda ;

andstaðan óx gegn honum

á hann fór margt að knýja,

vansæll af valdastólnum

varð hann svo loks að flýja !

 

Karl fyrsti var breskur kóngur,

kollinn sinn þó hann missti,

heimskinginn hélt að hann gæti

haft það eins og hann lysti ;

reis gegn hans ríkisvilja

rammefldur þjóðarlýður,

brann þá í blóði manna

baráttuvilji stríður !

 

Karl fyrsti það fékk að reyna,

að fólkið á styrk í vonum,

hálshöggvinn lífi lauk hann,

lítill var missir að honum ;

auðvitað ættu með tölu

allir kóngar að falla,

veröldin væri betri

væri hún laus við þá alla !

 

                                          

 

 

 

 


Að slá Viktoríumetið !

Elísabet II er búin að sitja drjúglengi í embætti sem drottning Breta eða í 61 ár samtals. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort drottningin hafi eitthvað spáð í það að víkja fyrir syni sínum eða sonarsyni, en það er ekki líklegt að það verði fyrr en hún hefur setið í - segjum 64 ár, en þá hefur hún líka setið í hásætinu lengst allra breskra krúnuhafa.

Viktoría drottning ríkti frá 1836 til 1901 eða í 63 ár og 7 mánuði og hefur enginn setið svo lengi að völdum í Bretlandi sem hún til þessa, en verði Elísabet II enn í hásætinu árið 2015 mun hún slá þetta met Viktoríu einhverntímann í september það ár. Það keppa allir að einhverju og ég hef lúmskan grun um að Beta hafi augun hjá sér varðandi þetta atriði. Það þarf engum að blandast hugur um að hún hefur sinn metnað og sína löngun til að setja þetta met, enda stutt í að það náist !

Nokkrir eru þeir sem hafa setið býsna lengi í breska hásætinu en það hefur þó alls ekki þýtt það að þeir hafi komið meiru góðu í verk eða verið merkari en margir þeir sem skemmri viðdvöl hafa haft þar. Hér skal nefna nokkra þeirra.

Hinrik III ríkti frá 1216 til 1272 eða í um 56 ár, en var á síðustu árum sínum á tímabili nokkuð laus frá hásætinu vegna aðalsuppreisna. Hann var sonur Jóhanns landlausa og því bróðursonur Ríkharðs ljónshjarta, eina „Frakkans" sem hefur verið gerður að enskri þjóðhetju ; jafnframt var hann faðir Játvarðar I sem lét  meðal annars taka William Wallace af lífi.

Játvarður III, sonarsonur Játvarðar I, var konungur 1327 til 1377 eða í 50 ár og dundaði sér mikið á þeim tíma við svokallað hundrað ára stríð við Frakka og kostaði það ekki svo fáa þegna hans lífið, en skemmtun konunga þótti víst aldrei of dýru verði keypt á fyrri tímum !

Georg III sat í 60 ár sem konungur, frá 1760 til 1820, en stundum var hann ruglaður og gegndi þá sonur hans störfum á meðan, og svo mun að mestu hafa verið tíu síðustu árin. Það var harðlínu stjórnarstefna Georgs III sem leiddi til þess að nýlendur Breta í Ameríku gerðu uppreisn og stofnuðu síðan Bandaríkin.

Elísabet I, nafna nútíma-Betu, var drottning í tæp 45 ár, 1558-1603, og var oft kölluð Meydrottningin eða The Virgin Queen. Það leiddi það af sér að Walter Raleigh kallaði eina nýlenduna vestanhafs eftir henni eða Virginíu, sem mætti þá trúlega heita á okkar tungu Meyjarland.

Hinsvegar er ég ekki viss um að þessi fyrri Beta hafi verið eins mikil meydrottning og sumir virðast hafa haldið eða látið heita;  en hvað um það, hún var að minnsta kosti mikill skörungur og á hennar dögum var lagður grunnurinn að stórveldistímum Breta og einkum þó sjóveldinu.

Líklegt má telja að Francis Drake, sem uppi var á hennar dögum, sé einn mesti sævíkingur allra tíma og jafnframt einn mesti afreksmaður enskrar sögu.

En hver tími hefur sín einkenni og þó Elísabet II hafi ríkt lengi og margt hafi gerst í hennar hásætistíð, hefur hún auðvitað ekki haft þau skilyrði sem flestir fyrirrennarar hennar höfðu til að gera þegna sína höfðinu styttri ef þeir gerðust eitthvað uppivöðslusamir gagnvart hátigninni. Beta hefur samt verið talin nokkuð staðföst og farsæl sem drottning og þannig jafnan náð að halda all miklum vinsældum meðal þegna sinna, enda talið að breska þjóðin sé öllum öðrum þjóðum dýpra sokkin í konungsdýrkun og drottningartilbeiðslu. Í þeim efnum hefur slepjan yfirleitt lekið af hverju strái á akri Breta !

Í dag ætti hin ætlaða upplýsing auðvitað að vera orðin nægilega þroskuð til að menn sæju að upphafning einstaklinga með þeim hásætishætti sem þekktist forðum er algjör vitleysa, en mannseðlið er enn samt við sig og ekki síst þegar að snobbi og yfirborðsmennsku kemur. Þar hlaupa þeir jafnvel fyrstir fram sem síst hefði verið talið að ættu og myndu láta sjá sig á vettvangi slíkrar heimsku !

Það hefur reyndar alltaf legið fyrir, að svonefndar menntastéttir hafa lagt sitt til í snobbið og ríflega það, enda titlatog löngu þekkt og dýrkað í slíkum hópum. Getur ekki meistaragráða í tilnefndri fræðigrein nú á dögum alveg þótt jafngildi barónstitils frá liðinni tíð og krefjast svipaðrar lotningar og undirgefni af annarra hálfu ? Er þá ekki hrokinn og yfirlætið komið innan seilingar sem fyrr ?

Það skiptir í sjálfu sér ekki svo miklu hver situr í manngerðu tignarhrokahásæti og kallast þar konungur eða drottning, en það er aldagamalt tilræði við mannlega dómgreind að menn skuli vera settir í slík hásæti og það enn í dag. Meðan sýndarmennska falskrar valdstjórnar birtist með slíkum hætti, er ljóst að mannkynið á enn langa göngu fyrir höndum til lifandi þroska og hugarfarslegrar jafngöfgi !

 

 


,,Aumingja ríkisstjórnin'' !

Frá mannlegu sjónarmiði vilja eflaust sumir leyfa sér að finna til samúðar með ríkisstjórninni, en það geri ég ekki, einkum og sér í lagi vegna þess að hún virðist helst ekki vilja gera neitt frá mannlegu sjónarmiði !

Við Íslendingar erum svo sem ýmsu vanir þegar ríkisstjórnir eru annarsvegar, en það er eins og lengi sé hægt að auka við þau öfugu met sem þar hafa verið sett.

Nú er til dæmis enn einu sinni farið að fjasa hástöfum um byggingu hátækni-sjúkrahússins sem Davíð Oddsson ætlaði á sínum tíma að byggja fyrir ágóðann af sölu Símans ! Síminn var seldur en sjúkrahúsið var ekki byggt og líklega er ágóðinn af sölunni ekki kominn í hús hjá ríkinu ennþá, og ætli það sé ekki bara vegna þess að Síminn hafi aldrei verið borgaður frekar en annað í einkavinavæðingunni alræmdu ?

Meðan vinstri stjórnin sat og var að reyna að gera eitthvað í bágustu stöðu sem nokkur ríkisstjórn hérlendis hefur þurft að glíma við, fóru silfurskeiðungarnir Bjarni Ben og Simmi hamförum á þingi og í fjölmiðlum og skömmuðust yfir því að ekkert væri gert. Nú þykjast þeir vera að bjarga heimilunum með skuldalausn sem er enn í ákaflega hægfara fæðingu og verður líklegast steinbarn áður en lýkur !

Í sumar voru svo stórlega skertar vaxtabætur til fólks og helst virðast þeir félagarnir vilja skera niður barnabæturnar líka, svo greinilegt er að það á að ná sem flestu af fólki, áður en blekkingin með skulda-niðurfærsluna verður sett fram að fullu. Svo sagði Bjarni líka varðandi jólauppbótina til atvinnulausra að ekki gæti orðið af henni því peningarnir væru ekki til, en svo varð hann að láta undan með það mál og peningar urðu til ! Það vantaði hinsvegar ekki peninga í sumar þegar skatti var aflétt af sægreifunum og silfurskeiðungar vildu skeina LÍÚ !

Öðruvísi talaði Bjarni líka þegar vinstri stjórnin átti allt að gera og hafa nóga peninga til alls og gerði hún þó miklu meira fyrir almennt fólk en þessi himinhrópanlega „aumingja stjórn"!

Eygló Harðardóttir talaði líka mikið áður en hún varð ráðherra og þóttist sjá leiðir til allra bjargráða og hvar er hún nú ? Hún situr að vísu í ríkisstjórninni og það sem velferðarráðherra, en hvar er nú hin skelegga framganga ?   Líklega þyrfti að skipta um fremsta stafinn í starfsheiti hennar og setja þar h í staðinn ! Þá væri líklega allt í meira samræmi við veruleikann og framgönguna !

En því miður, Eygló Harðar er greinilega komin í svipað far og Bjarni Ben, segist auðvitað vilja vel og óskar vafalaust öllum allslausum í landinu alls hins besta, en það sé í raun lítið sem ekkert hægt að gera, því það séu bara engir peningar til !!!

Af hverju þóttist þetta fólk, sem nú situr í loforða-ríkisstjórninni miklu, sjá lausnir til alls í stjórnarandstöðunni, en getur svo ekki neitt þegar það er komið í stólana ?

Hversvegna er þetta stjórnmálalið alltaf í skollaleik við okkur fólkið í landinu, er því gjörsamlega fyrirmunað að geta verið sjálfu sér samkvæmt ?

Frosti Sigurjónsson talaði líka mjög hástemmt fyrir kosningar og hafði lausnir mála mjög á takteinum, en það er eins og hann hafi verið í andlegu frosti síðan hann komst á jötuna. Hlutverk Gáfnaljóss Lausnanna leikur hann að minnsta kosti ekki lengur og kannski finnst honum heldur engin þörf á því - við kjötkatlana !

Eiginlega virðist allt Framsóknar forustuliðið komið í frosna stöðu gagnvart almannaheill og það svo að grýlukertin hanga núorðið niður úr loforða-loftbelgnum mikla sem blásinn var upp fyrir kosningarnar og þar er ekki að sjá neitt lífsmark lengur !

Þvílíkir lýðskrumarar og loddarar virðast þessir Framsóknarfroskar vera - nánast upp til hópa ! Þeir hoppa á einhverja hugmynd sem þeir halda að slái í gegn í kosningum og þykjast vera afar þroskuð mannlífseintök með snjallan málflutning og sjá lausnir umfram alla aðra, en svo er allt sem þeir hafa fram að færa, þegar á hólminn er komið, aðeins ófullburða halakörtufræði sem engum gagnast !

Eini Framsóknarmaðurinn í landinu sem enn virðist geta komið fólki í gott skap með orðum sínum og gerðum er líklega Guðni Ágústsson, en þó er hann líka því  marki brenndur að bera menjar eftir slæman félagsskap á stjórnmálasviðinu og það til margra ára. Það verður margur sálarlega sviðinn af slíkum samskiptum !

Við Íslendingar höfum orðið að búa við margar „aumingja ríkisstjórnir" og þessi stjórn sem nú situr virðist hafa alla burði til að verða ofarlega á blaði í þeim hópi, og það jafnvel sem „aumingja ríkisstjórn"  „aumingja ríkisstjórnanna" !

Maður á eiginlega ekki orð yfir vesalmennskunni, tvöfeldninni, loddarahættinum og lygaþvælunni sem auglýsir mest þetta ömurlega stjórnvald sérhagsmunanna sem komið er á koppinn og sem aldrei skyldi verið hafa !

Erum við Íslendingar virkilega svo slæm þjóð að við eigum svona ríkisstjórn skilið ?

 

 

 

 

 


"Skuldaniðurfellingin mikla !"

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þykist nú líklega hafa staðið við sín stóru orð og „upprisa íslensku millistéttarinnar" á að standa fyrir dyrum að hans mati. En hin margupphafna skuldaniðurfelling er í þeim mæli að aðeins virðist hægt að segja um hana, að fíll hafi tekið jóðsótt og fætt mús !

Það segir sína sögu, að allir þeir aðilar sem aldrei hafa fagnað því að almenningur fengi eitthvað í sinn hlut, fagna nú. Og af hverju skyldu þeir fagna ? Þeir geta ekki leynt ánægju sinni með það hvað skammt er farið. Þeir voru nefnilega farnir að verða hræddir við hið gagnstæða, sem þó aldrei þurfti að óttast ! Niðurstaðan er hinsvegar fullkomlega í anda hinnar mögnuðu sannindavísu:

Til að öðlast þjóðarþögn

þegar þeir aðra véla,

gefa sumir agnarögn

af því sem þeir stela !

Ég var alla tíð sannfærður um að lítið myndi koma út úr þessu bjargráðalýðskrumi. Ég veit nefnilega að silfurskeiðungar koma ekki til móts við þarfir venjulegs fólks. Þeir arðræna það og einmitt vegna þess er þessi skuldavandi til staðar !

Fólk var blekkt í stórum stíl, haft af því fé, og það fé varð ekki alveg að engu. Það er áreiðanlega enn í talsverðum mæli í höndum þeirra sem ódáðirnar frömdu ! En það hefur löngum virst svo sem ekki megi snerta við þeim aðilum. Þeir hafa virst njóta fullkominnar friðhelgi innan lögsögu hins íslenska lagakerfis. Þeir virðast varðir í bak og fyrir, þessir óhappamenn sem fengu fyrir hrun - frá pólitískum lagsbræðrum sínum - nánast ótakmarkað skotleyfi á almenning !

Nú eru að vísu einhver tilþrif í gangi, lægra dómstig virðist hafa sýnt nokkra festu og samborgaralega ábyrgð, en hvað gerir Hæstiréttur ? Þeir eru ófáir sem virðast trúa því að hann muni snúi þeim dómum við sem nú hafa verið felldir, og komi þannig fram sem einhver verndari valdamikilla samtryggingarafla í þjóðfélaginu ? Ég veit ekki hvernig þar verður á málum tekið, en ég verð að segja það fyrir mig, að í ljósi atburðarásar undanfarinna ára, ber ég ákaflega lítið traust til Hæstaréttar og því miður er hann ekki í mínum augum það sem ég tel að virðingarverður Hæstiréttur eigi að vera !

En við skulum sjá hvað setur !

Ég hef tekið eftir því að nú eru bankaskrímslin byrjuð að þylja gamla áróðurinn um sparnað ! Af hverju skyldi það vera, skyldi það ekki vera til þess að hægt sé að hirða sparnaðinn af fólki þegar hann er orðinn að álitlegri fjárupphæð ?

Það er svo miklu erfiðara að ná fé af fólki sem sparar ekki og eignast ekki neitt ! Svo það verður að hvetja fólk til þess að spara. Það er sama gamla leikfléttan sem auðvald heimsins hefur beitt gagnvart almennum einstaklingum öld af öld, - þú átt að vinna, vinna mikið, skapa verðmæti, spara, spara, reyna að eignast eitthvað ! Og svo er hugsunin á bak við, - og þegar þú ert búinn að basla og þræla, skapa verðmæti, spara og leggja fyrir, þá ætlum við að koma og hirða það af þér !

Afstaða silfurskeiðunga-stjórnarinnar til almenns fólks í þessu landi kom í ljós þegar vaxtabætur voru skornar niður við trog í sumar. Voru þær ekki ákvarðaðar á sínum tíma af fyrri stjórn til þess að bæta fyrir mistök fyrirhruns-stjórnvalda í eftirlitshlutverkinu með fjármálagjörningum síðustu ára ? Höfðu fyrri stjórnvöld ekki sagt að það væri réttlætismál vegna þeirra mistaka ?

Árið 2012 voru vaxtabætur veruleg hjálp fyrir margt fólk í greiðsluvanda vegna stökkbreyttra lána, en 2013 var allt skorið niður í lúsarlíki og sennilega hefur núverandi stjórn þá verið að byrja að safna í það verkefni  að láta fólkið sjálft borga brúsann fyrir „skuldaleiðréttinguna miklu"!

Hið mikla kosningaloforð Framsóknar um réttlæti í þessu máli hefur þegar snúist upp í andhverfu sína, niðurstöðurnar eru með ótvíræðum Valhallarfnyk og sýna glöggt að annar sérgæðaflokkur hefur haft mikið um útþynningarþátt málsins að segja  og haft þar sína stóru bláu krumlu á bagga !

Það er viðbjóður að horfa upp á menn hreykja sér og berja sér á brjóst fyrir smáskammtalækningar af þessu tagi. Ég þóttist vita að loforðið mikla yrði aldrei haldið, en það virðist stefnt að því einu að svíkja það með svo ísmeygilegum og lúmskum hætti að undrun sætir og er maður þó orðinn ýmsu vanur frá íslensku stjórnmálamafíunni. Þaðan er einskis góðs að vænta fyrir venjulegt fólk !

Ég óska þess af heilum hug, að allir þeir sem komið hafa að tilurð þessarar blekkingarleikfléttu, taki það út á sjálfum sér sem þeir hafa gert þjóð sinni og heimilunum í landinu með þessum margútþynnta músargjörningi ! Það er alltaf gott að vita hver andstæðingur manns er, en versti andstæðingurinn er alltaf hinn svikuli bandamaður, sá sem þykist vera með okkur en er í raun á móti okkur !

Það var stolið miklu af fólki fyrir hrunið, svo miklu að margir hafa misst sinn lífssparnað, en „réttlætis-skilagjörð" silfurskeiðunga hljóðar upp á vesæla agnarögn af ránsfengnum og í raun sýna hugsaðar tilfærslur fjármuna að það á að láta fólkið sjálft borga sína skuldaleiðréttingu !

Þegar bóndinn datt í flórinn forðum, gerði hann sér undireins fulla grein fyrir ástandi sínu og því hver staðan var og honum varð því að orði: „Nú er sannarlega skítalykt af mér !"

Ég geri mér engar vonir um að íslenskir ráðamenn, hvort sem er í ríkisstjórn, á þingi eða í öðrum valdamiklum stofnunum, muni nokkurntíma mæla slík orð, þó þeir margir hafi sokkið upp fyrir haus í mesta skítahaug Íslandssögunnar - haug efnahagshrunsins ! En í mínum huga er bóndinn sem datt í flórinn sinn hreinn í samanburði við þá og virðing mín fyrir svokölluðum yfirvöldum þessa lands er því miður ekki líkleg til að lyfta sér upp fyrir núllið í fyrirsjáanlegri tíð !

 

 

 

 

 


Nelson Mandela

 

Að þakka er þörf,

því hátt bera í heimi og sögum

á hérvistar samtíðar dögum,

þín stjórnvisku störf.

Að þakka er þörf !

 

Þú tjáðir þá trú,

sem ræktar það réttlæti í verki

og reisir það samfélagsmerki,

sem bætir hvert bú.

Þú tjáðir þá trú !

 

Þú leystir þitt land,

frá helgreipum haturs og reiði

af hvítum og svörtum meiði,

sem boðaði blóðugt grand.

Þú leystir þitt land !

 

En nú ertu nár,

en líf þitt er dæmi um dáðir,

í drómanum glímu þú háðir

og sigraðir sérhvert ár.

En nú ertu nár !

 

En samt ertu sá

er lifa mun áfram um aldur

sem elskaður lífheima Baldur

í friðar og frelsisþrá.

En samt ertu sá !

 

Við eigum þig öll,

manninn er sannaði og sýndi,

og sérhvern í trú þeirri brýndi,

að hægt væri að flytja fjöll.

Við eigum þig öll !

         

                                    Rúnar Kristjánsson

 

 

 


Fjölmiðlahasar eða harmleikur - hvert stefnum við ?

Það vill sannast víðar en í Bandaríkjunum, að þegar vopn eru orðin fastir fylgihlutir manna, er oftast stutt í að einhverjir deyi. Það er dapurt til þess að hugsa að geðsjúkir menn fái hvergi inni í kerfinu og séu látnir ráfa um meðal fólks og settir inn í íbúðir innan um venjulegt fjölskyldufólk. Svo þegar búið er að skapa þær aðstæður í lífi slíks einstaklings að hann ræður alls ekki við þær og gerir eitthvað af því sem alveg mátti búast við af manni í hans ásigkomulagi, er hann skotinn til bana !

Íslenskt samfélag er nú búið að upplifa þennan áfanga á „þroskabraut nútíma þjóðfélags" að einn samborgari okkar, andlega sjúkur maður, hefur fallið fyrir byssukúlum lögreglumanna. Það er vond tilfinning sem fylgir því !

Maður veltir því líka fyrir sér hvernig aðkoma fjölmiðla að svona harmleik er orðin í veruleikanum, hvernig allt virðist snúast um fréttina, hvernig menn virðast hreint út sagt velta sér upp úr svona atburðum ! Maður fer eiginlega að spyrja í fullri alvöru, eru fjölmiðlamenn hættir að skilja einfaldar siðareglur í mannlegu samfélagi ?

Hvað er í gangi þegar svona „fréttahasar" fer af stað ? Eru menn að sinna svokallaðri upplýsingaskyldu við almenning og samfélagið eða eru það önnur og verri sjónarmið sem ráða ferðinni ? Erum við að komast á það stig að vera tilbúin í það að versla með alla hluti ? Ég verð að segja að mér hugnast enganveginn þau vinnubrögð sem virðast vera orðin gildandi í svona tilfellum, því stundum finnst mér sem umfjöllun fjölmiðla um margskonar persónulega harmleiki innan samfélagsins verða afskaplega virðingarlaus og stundum beinlínis sóðaleg. Það er oft eins og vanti allan næmleika gagnvart hinum mannlega þætti og margt virðist látið flakka án allrar ábyrgðar !

Lögreglustjóri sagði er hann greindi frá atburðarásinni í Hraunbæjarmálinu, að viðkomandi maður hefði særst og verið fluttur á sjúkrahús og þar hefði hann síðan látist ! Þarna hefði verið nákvæmara og nær að segja, að maðurinn hefði verið lífshættulega særður eða í það minnsta alvarlega særður, en lögreglustjóri tók svo vægilega til orða, að maður hefði getað haldið að um væri að ræða minniháttar skotsár á öxl eða fæti ! En því miður reyndist staðreynd málsins öllu alvarlegri !

Systir þessa vesalings manns sem lést í þessum harmleik í Hraunbæ, benti réttilega á kjarna málsins sem er sá, að andlega vanheilir einstaklingar eiga auðvitað ekki að vera úti á meðal fólks. Þar eru þeir eins og tifandi tímasprengjur ! Það verður að vera einhver vettvangur fyrir þetta hjálparþurfandi fólk þar sem því er sinnt og það getur fengið rétta aðhlynningu.

Við höfum fengið nokkur dæmi á síðustu árum um illa stödd þjóðsystkini okkar sem hafa gleymst, verið úthýst úr mannfélaginu og svikin um allan rétt í kerfinu, og þannig sett út á gadd ómannlegrar grimmdar og miskunnarleysis. Í hvert skipti sem einhver hefur látið lífið í slíku svartnætti sálarinnar hefur verið talað um að ráða þyrfti bót á þessum málum, en lítið sem ekkert virðist hafa gerst, og hið yfirlýsta, heilaga mannslíf virðist ekki svo heilagt á Íslandi þegar allt kemur til alls !

Það er ömurlegt til þess að vita, hvernig íslenskt samfélag virðist þannig fara með sín brotabörn og sárt að upplifa það sem staðreynd, að það sé hvergi neinn ásættanlegur samastaður fyrir þau í tilverunni. Það er sjáanlegt að sérgæskan sem fór hamförum hérlendis fyrir hrun, hefur á ýmsan hátt breyst í kerfislegt miskunnarleysi eftir hrun !

Það vantar auðvitað víðasthvar peninga eftir hrunið, því þeir fóru nú mikið til á færibandi fjárglæfranna í gegnum bankakerfið til íslensku oligarkanna og að því er virtist með fullri blessun sofandi yfirvalda. Og þessvegna er þjóðfélagið í sárum ! Það er nefnilega ekki endalaust hægt að ræna öðruvísi en að þess sjái einhvern stað og afleiðingar ránskaparins og alræðis frjálshyggjunnar eru sjáandi mönnum augljósar á Íslandi. Heilbrigðiskerfið er í rúst, velferð lands og þjóðar á leið niður á dýpstu Halamið andskotans, og það vantar neyðarhjálp og félagslegt athvarf fyrir andlega sjúkt fólk !

Það vantar orðið að miklu leyti það öryggisnet sem átti að vera hér til staðar og gumað var af sem mest fyrir ekki svo mörgum árum ! Það vantar, í stuttu máli sagt, býsna margt af því sem talið er að verði að vera til staðar ef samfélag á að geta talist sæmilega mannvænt !

Og svo vil ég til viðbótar nefna það sem er eitt það versta af þessu öllu saman, einkum ef litið er til hugsanlegra möguleika á endurreisn mála, að þjóðin er gjörsamlega forustulaus. Það virðist þvílík atgervis-ládeyða yfir því liði sem þar þykist halda á málum, sama hvert litið er, að annar eins aumingjasöfnuður er vandfundinn að mínu mati !

Ef við hefðum ræktað garðinn okkar vel, ef við hefðum haldið trúan vörð um þjóðleg gildi, ef við hefðum verið samhuga í því að ávaxta sem best þær dyggðir sem liðnar kynslóðir eftirlétu okkur í arf, ef við hefðum lagt meira upp úr heimafengnum böggum en aðkomnum sora, þá væri veruleiki samfélags okkar annar og betri en hann er !

Þá væri eiturlyfjadjöfullinn ekki valhoppandi í kringum æskulýðinn okkar allar stundir, á skólalóðum og hvar sem fyrirsát má gera, þá væri ábyrgðarleysi og óheiðarleiki ekki vaðandi uppi hérlendis sem aldrei fyrr, þá væri ekki vanheilt fólk, hættulegt sjálfu sér og öðrum, ráfandi innan um almenna borgara landsins sem tifandi tímasprengjur, þá væri ekki farið að skilgreina drápsvopn í okkar samfélagi sem nauðsynleg varnartæki fólks gegn fólki - þá væri ekki þörf á neinni hersveit eða sérsveit hér - grárri fyrir járnum !  HVERT STEFNUM VIÐ EIGINLEGA ?

                                                     

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 1098
  • Frá upphafi: 315003

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 822
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband