Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Að loknum kosningum

Nýkominn frá Reykjavík fór ég á kjörstað og kaus. Þegar ég leit yfir kjörseðilinn fannst mér magnið sem boðið var upp á miklu meira áberandi en gæðin. En ég kaus það sem ég gat verið sáttur við og skilaði mínum seðli.

Ekki get ég neitað því að nokkur uggur var í mér varðandi þá hættu að þjóðarógæfuöfl sérhagsmunanna næðu hér völdum aftur.  Ég vonaði því innilega að sem flestir kjósendur forðuðust að kjósa það sem ég myndi aldrei kjósa undir nokkrum kringumstæðum.

En það er margur úlfurinn í sauðargæru og margir brosa breitt á kjördag þó að lítill trúverðugleiki fylgi þeim brosum. Og það eru svo oft óhreinu öflin sem hrósa sigri því tilgangurinn helgar meðalið hjá þeim og fjármagnið þar er oftast mikið og óspart notað til að ná sínu fram. Ég orti á leið frá kjörstað:

Læðist yfir landið vá,

lítt að marka brosin.

En aldrei kýs ég andstyggð þá

sem aldrei skyldi kosin !

Í þeim efnum vísa ég til þess stjórnmála-afls sem ég tel hafa valdið hér mestri þjóðarógæfu og skaðað þúsundir landsmanna og heill þeirra í víðtækum skilningi.

Það er hinsvegar mikið vafamál að Íslendingar hafi dregið einhvern bitastæðan lærdóm af hruninu, sem vísað gæti veginn til heilbrigðari stjórnarhátta.

Nú liggur það til dæmis fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur með sínum stóru loforðum náð að vinna drjúgt fylgi í þessum nýafstöðnu kosningum og telst hann því fyrst og fremst sigurvegari þeirra.

Ekki er ég búinn að gleyma því hvernig þessi flokkur hegðaði sér gagnvart almannahagsmunum á árunum 1995 til 2007 þegar hann gegndi því hlutverki að vera mesta hækja sem íhaldið hefur nokkru sinni haft í sinni þjónustu. Ég tel því útkomu Framsóknar hreint ekki verðskuldaða og býð ekki í útkomu flokksins eftir þetta kjörtímabil þegar hann þarf að svara til saka fyrir sín fjögur ár.

Ég tel nefnilega næstum víst að hann muni falla á prófinu !

Sjálfstæðisflokkurinn náði líklega aðeins að bæta stöðu sína miðað við það sem skoðanakannanir höfðu sagt á síðustu vikum, en hann er langt fyrir neðan þær væntingar sem flokksmenn þar höfðu gert sér fyrir síðustu áramót og þar fyrst á eftir.

3% aukning á fylgi miðað við fyrri kosningar sem voru þær verstu í sögu flokksins er náttúrulega ekki mikið til að gleðjast yfir. Það virðist þó hafa haft mikil áhrif þegar Bjarni formaður nánast grét í beinni og talaði um að ef til vill ætti hann að hugleiða að segja af sér. Þá rann greinilega mörgum íhaldsblóðið til skyldunnar og tárin fóru að renna í takt við Bjarna.

Sumir flokksmenn sem höfðu verið eins og mannýgir bolar út í Bjarna, snerust  þannig allt í einu til fylgis við hann og fóru að sleikja hann í ræðu og riti niður á skósóla.

Sjálfstæðisflokkurinn nær því að verða stærsti flokkur landsins aftur í atkvæðum og prósentum talið, en Framsókn nær sömu þingmannatölu og það er náttúrulega það sem mestu máli skiptir.  

Stjórnarflokkarnir tapa miklu sem var reyndar fyrirséð, en tapið er líklega mun meira en búist var við og Össur Skarphéðinsson lýsir útkomu Samfylkingarinnar sem pólitískum hamförum. Vinstri græn virðast sleppa eitthvað betur en vafalaust má meta það með ýmsum hætti.

Björt framtíð og Píratar ná það hátt að koma inn mönnum og flestir jöfnunarmennirnir koma í þeirra hlut. Litlu munaði þó að Píratar næðu ekki mönnum inn.

Ég hygg samt að Björt framtíð eigi sér ekki bjarta framtíð í þingsal því að málflutningur flokksins er að mínu mati ekki sérlega heilsteyptur og þarf því eitthvað meira til svo flokkurinn festist í sessi sem sæmilegur valkostur. Ekki  finnst mér ólíklegt að þetta nýja afl muni smám saman fjara út og leifarnar að lokum skila sér heim til Framsóknar eða Samfylkingar.

Píratar eru hinsvegar af nokkuð öðru tagi og gætu því haldið velli á sínum forsendum eitthvað áfram ef forustan bilar ekki. Birgitta hefur hlotið vissa viðurkenningu sem baráttumanneskja og þykir tala af einlægni. Fróðlegt verður að sjá hvernig henni og pírötum tekst til við að vinna úr þeirri stöðu sem þeir hafa hlotið nú um sinn.

Ég sem vinstri maður og sósíalisti er auðvitað ekki sáttur við að þeir flokkar séu líklega komnir aftur til valda sem réðu hér á árunum frá 1995 til 2007.

Sporin hræða vissulega í þeim efnum, en þó verður að hafa það hugfast að þessir flokkar standa í dag undir talsvert meira aðhaldi en var á þeim árum. Þeir vita nefnilega að fylgið mun þurrkast af þeim ef þeir koma ekki til móts við fólkið í landinu.

Það verður því fylgst vel með þeim og sú reynd gæti sannast á Framsóknarflokknum áður en langt um líður sem vituð er, að margir kunna að vinna sigra en þeir eru miklu færri sem ná því að vinna vel úr þeim og halda þeim !

 

 

 

 

 


Yfirvöld arðráns og sérhagsmuna viljum við ekki !

Líklega má segja með nokkrum sanni, að við Íslendingar séum staddir á sérstökum tímamótum í sögu okkar einmitt núna. Við höfum haft einstakt tækifæri til að kryfja þjóðmálin og komast að því hvernig í raun og veru hefur verið farið með okkur - almenning þessa lands. Hrunið var endanleg staðfesting á mörgu sem þjóðinni hafði verið misboðið með lengi, en margir höfðu neitað að trúa eða viðurkenna !

Skyndilega afhjúpaðist svikamylla fjármagnsaflanna með svo hrikalegum hætti að jafnvel einstaklingar meðal hinna heilaþvegnu fóru að skilja hlutina !

Nú þegar liggja fyrir fjölmargar staðreyndir eftir hrunið, sem ekki voru jafn ljósar fyrst í stað, en ættu nú að blasa við hverjum manni sem vill í alvöru horfast í augu við það sem gerðist og draga lærdóm af því, og er ekki haldinn af pólitískri blindu og blekkingaröflum samtíðar og fortíðar.

Þjóðfélagið er fyrirtæki sem við öll erum hluthafar í. Þegar vel gengur eigum við öll að njóta þess og þegar illa árar eigum við öll að bera byrðarnar.

Verðtrygging skulda var til þess sett af pólitískri samtryggingarmafíu að losa fjármagnseigendur frá því að bera sinn hluta af byrðunum og honum var velt á aðra, einkum þá sem höfðu nóg að bera fyrir !

Þetta var gert þrátt fyrir það að það séu nú yfirleitt afleiðingar verka fjármagnseigenda sem leiða til skuldaskelfingar eins og hrunið sannar best.

Þar var það ábyrgðarlaus stefna einkavæddra banka og fjármagnseigenda, í skjóli meðvirks ríkisvalds, sem keyrði allt í kaf !

Verðtrygging skulda sá til þess að þessir aðilar voru leystir frá allri ábyrgð og öllu svikasullinu velt yfir á almenning. Fjármagnseigendur eru nefnilega bara með í þessu þjóðfélagi þegar vel gengur og deila á út arði !

Ég ætla að hafa þennan pistil stuttan og ljúka honum með því að setja hér fram 12 staðhæfingar sem ég tel að liggi nú þegar fyrir sem sögulegar staðreyndir :

1.

Sjálfstæðisflokkurinn brást algerlega almennum þjóðarhagsmunum á árunum      fyrir hrunið, vegna yfirgengilegrar sérhagsmunagæslu sinnar !

2.

Það gerðu líka samstarfsflokkar í ríkisstjórnum undir forustu hans frá 1991, Alþýðuflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin  !

3.

Þessir samstarfsflokkar tryggðu á þessum tíma Sjálfstæðisflokknum þingmeirihluta til óhæfuverka gagnvart þjóðarhag. Einkum á það við um Framsóknarflokkinn !     

4.

Framkvæmdavaldið var hvorki þjóðlegt né réttsýnt á þessum tíma, heldur spillt og ranglátt mismununarvald !

5.

Einkavæðingarstefna Sjálfstæðisflokksins var andstæð almannahagsmunum !

6.

Alþingi brást  hlutverki sínu sem löggjafi og þjóðþing !

7.

Stjórnunin á Seðlabankanum var með öllu óskiljanleg á þessum tíma. Þjóðhagsstofnun hafði verið lögð niður og raunveruleg efnahagsstjórnun á grundvelli þjóðhagslegra gilda var ekki til !

8.

Ríkiskerfið var meira en nokkru sinni fyrr sniðið að þörfum fjársterkra          

sérhagsmunahópa, pólitískra flokksgæðinga og vildarvina valdaklíkunnar !

9.

Eftirlitskerfið var gegnrotið og svikult og þjóðleg öryggisgæsla þess lítil sem engin. Það brást nánast allt !

10.

Greiningardeildir bankanna skiluðu sér eins og innistæðulausar ávísanir !

11.

Dómskerfið var gert þannig úr garði á þessum tíma að það er ekki lengur traustvekjandi sem vettvangur réttlætis !

12.

Kvótakerfið og þjóðspilling þess skapaði forsendurnar sem leiddu til efnahagshrunsins !

 

Þetta tel ég staðhæfingar sem hver kjósandi ætti alvarlega að velta fyrir sér áður en hann tekur afstöðu til þess hvernig hann ver atkvæði sínu í komandi kosningum. Eða dettur nokkrum heilvita manni í hug að hátt í tveggja áratuga samfellt valdaskeið Sjálfstæðisflokksins, sem endaði með efnahagslegu hruni, hafi verið ávaxtaríkur tími fyrir velferð íslensku þjóðarinnar ?

Nei, þvert á móti, sá tími fæddi af sér alvarlegasta tilræðið sem sjálfstæði okkar  hefur verið sýnt síðan við fengum fullveldi !

Lærum af reynslunni og kjósum ekki fulltrúa arðráns og sérhagsmuna í valdastóla hérlendis !

 

 

 

 


Ein lítil dæmisaga !

Einu sinni var ákveðið að byggja stórt hús sem rúmað gæti tiltekna örþjóð.

Það var mikill vilji fyrir verkinu svo allir sem vettlingi gátu valdið komu að þeirri byggingu. Það vantaði ekki hjá fólki fúsleika til verksins og það hafði greinilega mikla trú á því að í húsinu yrði gott að búa fyrir þá sem þar áttu að eiga heima.

En byggingin krafðist auðvitað margs og það tók sinn tíma að koma henni upp. Það verður seint hægt að lýsa öllu því erfiði sem fylgdi þeirri baráttu og margir voru þeir sem féllu í miðju stritinu og lifðu það ekki að sjá sigurdaginn þegar flutt yrði inn í nýja húsið.

Í baráttusögu þeirri segir frá mörgum hetjum sem lögðu mikið fram af fórnfýsi og óeigingirni og án slíkra hefði byggingin aldrei orðið að veruleika.

En að lokum var svo komið, fyrir mikinn samtakamátt og þrotlaust starf, að til varð þetta stóra hús sem átti að rúma þessa litlu þjóð, og víst var það stæðilegt á að líta og sumum fannst það eiginlega stórglæsilegt !

Þarna stóð það loksins, samsvaraði sér nokkuð vel og virtist ætla að mæta með forsvaranlegum hætti þeim kröfum sem til þess þurfti að gera.

Íbúarnir voru í fyrstu mjög ánægðir og margir þeirra héldu áfram að hlynna að öllu og snyrta og laga. Þeir voru stoltir af því sem hafði áunnist !

Þeim fannst skyldurnar kalla áfram á það að vel væri sinnt um húsið, svo það héldi þeirri stöðu og hlýddi því hlutverki að vera til gagns og prýði og gæða fyrir íbúana og ekki bara þá, heldur líka alla sem kærðu sig um að koma í heimsókn !

Þeir sem best voru settir efnalega höfðu í upphafi fengið að ganga í valið með aðstöðu í húsinu og var það í takt við tíðarandann. Þeir höfðu tekið efstu hæðirnar undir sig og sitt skyldulið og vildu hafa mesta útsýnið.

Sá hluti hússins fékk því nokkuð fljótt heitið Valhöll. Aðrir hlutar hússins fengu líka sín heiti, miðhlutinn var nefndur Sambandshúsið en neðstu hæðirnar voru kallaðar Almenningshúsið.

Húsið rúmaði að vísu alla en það kom snemma í ljós að samskipti milli hæða urðu ekki eins og vonast hafði verið til. Húshlutirnir afmörkuðu sig furðu fljótt frá hvor öðrum og sumir íbúanna urðu fljótlega ónæmir fyrir lífinu í húsinu nema þá því sem gerðist á þeirra hæð. Það virtist einkum gilda um þá sem byggðu efstu hæðirnar.

Og fljótlega kom líka í ljós að það höfðu aldrei verið útfærðar fastmótaðar húsreglur. Flestir höfðu verið svo önnum kafnir við að koma húsinu upp að það hafði alveg gleymst að setja varanlegar reglur varðandi rekstur þess og afkomu í komandi tíð !

Það skorti alveg skýrar reglur um það hvernig réttindi og skyldur ættu að haldast í hendur og hvernig umgengni fólks við hvert annað ætti að vera í húsinu. Þetta varð til þess að skapa verulegan vanda.

Brátt kom líka upp sú leiðinlega staða, að íbúarnir á efstu hæðunum fóru í bókstaflegri merkingu að líta niður á þá sem bjuggu á neðri hæðunum og fyrirlíta þá nánast sem bjuggu í kjallaranum og þar í nánd !

Þegar húsfundir voru haldnir, fóru málin jafnan svo að íbúum efstu hæðanna tókst með allskyns brellum og brögðum og ekki síst efnalegum yfirburðum að ráða alfarið öllu varðandi málefni hússins. Stundum sömdu þeir um einhverjar ívilnanir til handa íbúunum á miðhæðunum gegn stuðningi þeirra eða fengu jafnvel einhverja af neðstu hæðunum til að standa með sér út á eitthvað sem einhversstaðar hefði verið kallað mútur.

Loks var svo komið að hin mikla bygging var farin að láta mjög á sjá vegna þess að íbúar efstu hæðanna sem öllu réðu og höfðu lifað hreinasta lúxuslífi á kostnað annarra í húsinu, höfðu gersamlega komið í veg fyrir eðlilegt viðhald hússins og allan aðbúnað sem gat komið öðrum íbúum þess og byggingunni sjálfri til góða.

Í skjóli þess að nákvæmar húsreglur voru ekki fyrir hendi og séð hafði verið til þess að þær yrðu það ekki, hafði mafía efstu hæðanna leikið lausum hala og hvorki skeytt um skyldur eða ábyrgð. Það eina sem hafði skipt máli fyrir hana var að hafa alla sína hentisemi í húsinu hvað sem aðrir sögðu.

Og að því kom að húsið mikla riðaði nánast til falls !

Þá skildu íbúar neðstu hæðanna loksins að eitthvað verulega mikið væri að !

Þeir fylltust skelfingu og sameinuðust um þá kröfu að fá yrði sem fyrst skýrar og góðar húsreglur sem kvæðu á um skyldur og ábyrgð allra íbúanna í húsinu, líka þeirra á efstu hæðunum, nokkurskonar hússtjórnarskrá !

Íbúarnir á efstu hæðunum urðu strax fúlir og reiðir og töldu enga þörf á því að breyta gömlu húsreglunum sem hefðu bara dugað vel. Þegar þeim var bent á aumlegt ástand hússins að utan sem innan, svöruðu þeir því til að það hefði alltaf verið hægt fyrir aðra íbúa að ræða þau mál á húsfundum, en enginn hefði vakið máls á því. Allt hefði verið í opnu og lýðræðislegu fari.

Þeir bæru ekki ábyrgð á ástandi hússins, að minnsta kosti ekki meiri ábyrgð en aðrir sem byggju í því og það væri fáránlegt að kenna þeim um hlutina !

Og við þessar aðstæður er spurningin auðvitað  - hvað á að verða um húsið mikla, sem við getum kallað þjóðfélagsbygginguna okkar ?

Á sjálfstæðismafían að halda áfram að einoka efstu hæðirnar og vaða yfir allt og alla og koma í veg fyrir að heiðarlegar húsreglur fái að gilda ?

Getur fólk ekki gert eitthvað í þessu máli, til dæmis 27. apríl næstkomandi ?

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Kjósum með þjóðarvelferð að markmiði !

Það styttist með hverjum degi í kosningar til þjóðþings okkar og fróðlegt er sem fyrr að velta fyrir sér á hvaða forsendum kjósendur velja sér fulltrúa þar ?

Ég er til dæmis ekki í nokkrum vafa um að kröfur í þeim efnum hafi rýrnað að gildi eins og tíðarandinn sjálfur. Þegar siðferðileg gildi falla hefur það auðvitað áhrif um allt samfélagið. Þessvegna sitja að mínu mati allnokkrir á þingi í dag sem hefðu ekki komið til greina sem þingmannsefni fyrir einum mannsaldri eða svo. Nú mætti jafnvel halda að það eina sem menn þyrftu að hafa í veganesti á þing væri bara að vera nógu miklir kjaftaskar - ekki síst í fjölmiðlum !

Menn virðast meira að segja auðveldlega geta orðið ráðherrar út á það eitt að vera kjaftaskar, enda að margra mati nóg dæmin um það í seinni tíð.

Það virðist sem afar fáir spyrji nú til dags spurninga sem eðlilegar þóttu fyrir ekki alls löngu - er maðurinn heiðarlegur, er hann ábyrgur, er hann heill gagnvart landi og þjóð ?

Og ef við gerum æ minni kröfur hvað þetta varðar, verða afleiðingarnar þá ekki  óhjákvæmilega þær, að fulltrúar þjóðarinnar á þingi verða stöðugt flatneskjulegri og ómerkilegri sem slíkir ?

Það hlýtur að gefa auga leið !

Þingið virðist líka orðið í þjóðarinnar augum einhverskonar kjaftaklúbbur þar sem fátt er talið heyra viskunni til og margt til aðhláturs. En þjóð sem velur sér þinglið sem er aðhlátursefni hlýtur að kalla það yfir sig að verða aðhlátursefni sjálf og varla viljum við það ?

En hvernig viljum við þá að fulltrúar okkar á þjóðþinginu séu ?

Þurfa þeir ekki að bera þjóðinni gott vitni, þurfa þeir ekki að vera virðingarverðir menn, vammlausir menn, menn sem skara fram úr og eru jafnvel hæfastir hinna hæfu - eða hvað ?

Nú er það svo að ég er meðal þeirra mörgu sem vilja flestalla þá sem nú sitja á þingi burt ! Það lið sem situr á þingi er að stórum hluta og kannski allt merkt af því sem látið var gerast í kringum hrunið, það er merkt af þeim svikagjörningum á einn eða annan hátt.

Eplin í körfunni þar eru orðin skemmd að mínu mati !

Og skemmd epli bæta ekki heilbrigð epli, þau sýkja út frá sér eins og reynslan kennir. Við þurfum því nýtt fólk með nýja sýn fyrir þjóðlegri samstöðu og velferð. Hamingja okkar veltur á því hvernig við höldum á eigin málum !

Við þurfum fólk á þing sem við getum treyst í stað þess fólks sem reynslan hefur sýnt að við höfum ekki getað treyst. Við þurfum í samfélagslegu ljósi þeirrar bitru reynslu að breyta hér býsna mörgu.

Eitt af því sem þarf til dæmis að gera, er að endurskipuleggja allt dómsmálakerfi landsins. Af hverju ? Af því að þar virðist ekki neitt ganga eðlilega fyrir sig og þekktir lögfræðingar setja þar jafnvel á svið leikrit þegar þeim sýnist svo !

Það þarf að vinna að því að tryggja að valinkunnir einstaklingar geti varið og sótt mál fyrir dómstólunum á grundvelli réttlætis og sannleika, menn sem beita öðru fyrir sig en lagakrókum. Íslensk dómsmálasaga hefur á síðustu árum verið hrein hörmung í flesta staði og mál að þar hefjist almennileg endurhæfing.

Sem almennur borgari lít ég svo á að lögfræðingar landsins hafi í miklum mæli fallið á prófi sem verjendur réttlætisins !

Þeir virðast þjóna núorðið fyrst og fremst undir fjármálavald og auðmenn og eru orðnir allt of dýrkeyptir þjónustuaðilar til að almenningur geti nýtt sér þekkingu þeirra. Þessvegna er hægt að níðast svo mikið á venjulegu fólki, því það hefur ekki lengur efni á að leita sér lögfræðiaðstoðar.

Það er ekki af engu sem svonefndur „ flokkur allra stétta ´´ hefur ekki verið hrifinn af gjafsóknarákvæðum í lögum og reynt að takmarka þau sem mest.

Þar hefur þjónustan við aðalinn í landinu alltaf ráðið ferðinni !

Það hefur heyrst í umræðum manna á milli að ungir lögfræðingar í dag segi að þeim beri bara að fara eftir lögunum en að þeir tali ekki mikið um réttlætið sem frumvaka í málum. Þeir vita sennilega manna best að lagasetning seinni ára á í mörgum tilfellum enga samleið með réttlætinu eða siðferðinu.

Ég hef satt að segja miklar efasemdir um að lögfræðimenntaðir menn í þessu landi hafi í raun heilbrigt hugarfar gagnvart velferð lands og þjóðar ?

„The Welfare of the People is the Supreme Law ´´ eru einkunnarorð Missouriríkis og víðar eru þau notuð sem áminningarorð. Þau eru tekin frá rómverska mælskumanninum Cicero, salus populi suprema lex esto :

Velferð fólksins (þjóðarinnar) eru æðstu lögin !

Þau einkunnarorð virðast hreint ekki hafa verið höfð mikið í heiðri í íslenska dómsmálakerfinu og síst í seinni tíð. Það er löngu tímabært að hefja slíkt viðmið til vegs og virðingar í þessu landi - með eða án aðkomu lögfræðinga !

Velferð þjóðarinnar þarf að vera höfuðmálið í sérhverjum málaflokki, allt þarf að prófast og skoðast í ljósi þess hvort það sé hagkvæmt fyrir þjóðina sem slíka.

Sérhagsmunakerfið verður að víkja með sínum rotna hugsunarhætti og heildarhagsmunir verða að ríkja í kraftbirtingu ærlegra gilda !

Við verðum að skilja það, að við sækjum ekki velferð lands og þjóðar til ráðstjórnarinnar í Brussel eða annarra erlendra aðila. Við verðum að vinna hana sjálf úr gæðum lands og sjávar. Það gerir það enginn fyrir okkur, en þeir úlfar eru til, bæði austan hafs og vestan, sem vilja komast í þá aðstöðu að hirða af okkur gæði lands og sjávar og gera okkur afskipt í þeim efnum.

Kjósum því þingfulltrúa okkar á grundvelli hugsjónar fyrir þjóðarvelferð !

Stöndum vörð um arfleifð okkar og verðum áfram frjálsir Íslendingar í eigin landi !

 

 

 

 


Kosningaspjall !

Það stefnir í kosningar og margt skrítið hefur komið fram í opinberri umræðu að undanförnu. Bjarni Ben II lýsti því yfir á landsfundi að flokkur hans væri búinn að endurvinna traustið !

Engar skýringar fylgdu hvernig það traust hefði unnist á ný eða hversvegna þurft hefði að vinna það aftur, hvernig það hefði glatast og svo framvegis. Það eru hlutir sem Bjarni og flokksmenn hans tala ógjarnan um.

Slagorðið sem sett var fram á landsfundinum var hinsvegar eins og hrópandi háðsyrði  - Sjálfstæðisflokkurinn - í þágu heimilanna !

Hafa menn heyrt annað eins ? Af hverju voru heimilin í landinu komin á ystu nöf eftir nærri tveggja áratuga samfellda stjórn Sjálfstæðisflokksins ?

Hefðu ávextirnir af svo löngum valdatíma ekki átt að vera aðrir ef vel hefði verið haldið á málum í þjóðarþágu og þar með í þágu heimilanna í landinu ?

Raunveruleikinn segir nefnilega allt annað, hann segir - Sjálfstæðisflokkurinn - plága heimilanna !

Illhugi flokksins gagnvart almannahagsmunum kemur skýrt fram í tillögum um úrbætur. Þar er ekki verið að koma til móts við aðstæður hins almenna fólks, nei og aftur nei. Tillögurnar miðast allar við að koma almannafé í gagnið fyrir fólk í tekjuhærri hópum og til fyrirtækja, en þar er helstu fylgifiska flokksins yfirleitt að finna.

En sem betur fer virðist fólk vera það vakandi, að það ætlar ekki að sýna þessum svokallaða flokki traust og gerir það vonandi aldrei aftur. Sjálfstæðisflokkurinn er í raun og veru ekki stjórnmálaflokkur, þar er fyrst og fremst um ótrúlega óforskammað sérhagsmunabandalag að ræða, sem gæti ekki þrifist í þjóðfélagi sem byggi við sæmilega lagavernd almannahagsmuna og þjóðarheilla.

Kerfisspillingin á Íslandi er auðvitað sköpuð að langmestu leyti af þeim pólitísku öflum sem ráðið hafa í landsstjórninni.

Og hvaða afl skyldi nú hafa sett sitt kolsvarta brennimark dýpst og lengst á landsstjórnina, misnotað völd og áhrif þar um áratugaskeið ?

Það er einmitt þessi svonefndi flokkur sem vill kenna sig við sjálfstæði lands og þjóðar, en hnuplaði í raun því nafni á sínum tíma vegna þess að annar flokkur sem fyrr var við lýði hafði gert það frægt og vinsælt.

En þetta hagsmunabandalag hægri aflanna hefur aldrei staðið ærlega undir þessu sögufræga nafni og það stóð heldur aldrei til að það gerði það.

Óþjóðlegra flokks-skrípi að allri gerð er ekki til á Íslandi þó Samfylkingin geri reyndar allt sem hún getur til að slá því við í þeim efnum.

Ég ætla annars hvorki að tala hér um Samfylkinguna eða Vinstri græna. Þeir flokkar hafa fengið að reyna sig í landsstjórninni að undanförnu og ég tel að þeir hafi uppskorið mikil vonbrigði stórs hluta kjósenda sinna. Samfylkingin er eins og allir vita með sálina út í Brussel, en ég held að enginn viti núorðið hvar sálin í Vinstri grænum er og sennilega síst af öllu þeir sem þar stjórna málum.

En ég ætla að fara hér nokkrum orðum um Framsóknarflokkinn, því gamla

maddaman virðist ætla að fara að gegna stóru hlutverki á ný í landsmálum sem enginn hafði eiginlega talið að hún ætti eftir að gera.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sennilega mesti lýðskrumarinn í hópi íslenskra pólitíkusa um þessar mundir. Síðustu fjögur árin hefur hann haft á takteinum lausnir á öllum hlutum og ráðamenn, að hans mati, sífellt verið að gera tómar vitleysur !

Ég man þó ekki betur en þessir sömu ráðamenn hafi fengið sérstakan stuðning Sigmundar og Framsóknar þegar þeir hófu sína samvinnu í ríkisstjórn snemma árs 2009 !

Þá talaði Sigmundur öðruvísi og reyndar á hann það til að tala á mjög breytilegum nótum eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Sigmundur Davíð hefði í raun átt að heita Halldór Davíð því það nafn hefði fært hann miklu nær sönnum uppruna !

Hann er í raun talsmaður fyrir auðvaldið í Framsóknarflokknum sem lifði sína bestu tíma á árunum 1995 til 2007, þegar það sameinaðist auðvaldinu í Sjálfstæðisflokknum svo gersamlega að enginn sá þar nokkurn mun á.

Og þessi tengsl hafa hvergi rofnað þó nokkrum Framsóknardruslum hafi verið hent út vegna þess að þjóðin hafði fengið svo mikla skömm á þeim að það tjáði ekki að tjalda þeim lengur.

Ef raunveruleg hugarfarsbreyting hefði fylgt þeim forustubreytingum innan Framsóknarflokksins sem urðu á sínum tíma, hefðu menn að sjálfsögðu skipt um nafn á flokknum !

En blekkingin er sú að það varð engin hugarfarsbreyting. Það var bara Skolli gamli sem fór á kreik til að uppfæra sín vélabrögð við breyttar aðstæður, og það er klárt mál að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður seint leiðtogi sem starfa mun í þágu almennra þjóðarhagsmuna á Íslandi !

Til þess verður hann, að mínu mati, að skera á eigin rætur í svo mörgu og ég sé það ekki fyrir mér að hann muni gera það !

Skoðanakannanir ganga Framsókn mjög í vil um þessar mundir og er það að minni hyggju ekki verðskuldað en þó skiljanlegt þar sem Sigmundur hefur verið að leika það hlutverk sem Steingrímur J. lék sem lengst og best fyrir hrun.

Hann gæti því uppskorið vel í þessum kosningum, eins og Steingrímur gerði 2009, en ég hygg að við þar næstu kosningar verði hann gjörfallin stjarna.

Maðurinn hefur einfaldlega lofað allt of miklu !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 44
  • Sl. sólarhring: 74
  • Sl. viku: 1319
  • Frá upphafi: 316238

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 1047
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband