Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Tíu prósenta þjóðfélagið !

Á Íslandi hefur verið unnið að því sem aldrei fyrr síðustu tuttugu og fimm árin eða svo, fyrir atbeina auðvalds og frjálshyggju, að skapa hér þjóðfélagsaðstæður sem þjóni í einu og öllu hagsmunum 10 % þjóðarinnar - þeirra ríkustu !

Reyndar gætu sumir sagt - eru það ekki bara 5% eða 7 %, en við skulum gefa okkur að vera rýmileg með þetta og segja 10%.

Þannig var kvótakerfinu komið upp og síðan framsalið sett á, bankarnir einkavæddir frá þjóðinni og síminn sömuleiðis.  Allt var þetta sett upp til að þjóna hagsmunum hinna allsráðandi tíu prósenta, kolkrabbanum, hinu marghöfða kvótaskrímsli, fjármálamafíunni, eða í stuttu máli sagt - hinum íslenska persónugervingi Mr. Hydes ! 

Miðað við meðferð ráðamanna á íslensku samfélagi er mikil spurning hvort við hefðum nokkurntíma átt að skilja við danska ríkið og stofna hér til sjálfstæðs

ríkisbúskapar ? Sennilega hefðu lífskjör almennings orðið talsvert betri innan danska ríkisins enda hefur það miklu frekar verið rekið á almennum og þegnvænum forsendum en ekki samkvæmt tíu prósenta sérgæða-reglunni !

Dönsk yfirvöld bera höfuð og herðar yfir íslensk yfirvöld út frá viðhorfi heildarhagsmuna.. Þar eru yfirleitt ríkisstjórnir sem starfa fyrir þjóðarhagsmuni en ekki sérhagsmuni, þar eru að mestum hluta þingmenn sem virðast skilja starf sitt mun betur en starfssystkin þeirra hérlendis og þar eru dómsstólar sem njóta mun meiri tiltrúar en dómsstólar hér á landi.

Og nú er talað um að sníða íslenska húsnæðislánakerfið eftir danskri fyrirmynd !

Ég segi bara, af hverju var það ekki gert strax í byrjun, var ekki fullkomlega eðlilegt að skoða þá fyrirmynd sem þar var gefin - strax í upphafi ?

Jú, en það var auðvitað ekki hægt vegna þess að sérhagsmunirnir þurftu sitt og almannahagsmunir urðu að víkja samkvæmt íslensku spillingar-reglunni !

Við erum lítil þjóð og megum ekki við því að viðhalda hér kerfi sem miðast allt við hagsmuni eins tíunda hlutar landsfólksins - sem jafnframt er auðvaldshítin í landinu !

Við megum ekki við því að skerða sífellt lífskjör og velmegun þeirra sem hafa skapað hér öll gæðin með því að hygla stöðugt og óaflátanlega gráðugum og heimtufrekum, sérútvöldum minnihluta ! Það er í öllu siðlaust og ranglátt fyrirkomulag og í því felst glæpsamlegt misrétti gagnvart þegnum landsins og eðlilegum mannréttindum þeirra !

Íslenska ríkiskerfið þarf mikillar uppstokkunar við og það þarf að gera það miklu manneskjulegra en það hefur verið. Þetta skítfreðna forréttindabákn þarf að komast út úr kansellí-tímanum og skiljast frá steingerðri embættismanna mafíu fortíðarinnar og fara að átta sig á því að það þarf að vera lifandi fyrirbæri með þjónustulund gagnvart almenningi, gagnvart fólkinu í landinu !

Þetta langstaðna tíu prósenta hagsmunakerfi er villa sem þarf að leiðrétta, það er löngu tímabært. Íslenska þjóðin má ekki og á ekki að þola það misrétti lengur sem í því hefur falist og hefði aldrei átt að líða það !

Það er vissulega búið að arðræna landslýðinn nóg undanfarna áratugi til þess að sérgæðingsöflin geti makað krókinn !

Hér eftir þurfa alþjóðarhagsmunir að vera í fyrirrúmi. Skapa verður það öryggisumhverfi sem tryggir að hver maður geti unnið sitt lífsstarf í þeirri trú að það veiti honum og þjóð hans í heild lífvænlegri undirstöðu.

Í því felist að hver maður geti treyst því að grunninum sem hann leggur verði ekki stolið af sérhagsmunaþjónandi stjórnkerfi eða einhverjum blóðsjúgandi einkalögsögubarónum áður en hann getur farið að byggja ofan á hann !

Lifum sem frjálst fólk í þessu landi en ekki sem níutíu prósent kerfisáþjánarþýja sem þræla til þess eins að 10 prósenta afætuhyski geti lifað hér í vellystingum pragtuglega !

Þannig hefur fortíðin verið, þrælbundin, negld og njörvuð og samofin stefnu sjálfstæðisflokksins, hagsmunagæslubandalags tíu prósentanna !

Látum þá baneitruðu örlagastöðu ekki verða framtíðina fyrir börn lands og þjóðar !

 

 

 

 

 


,,Ó, Sigmundur Davíð ! ´´

Nú þegar vilja ýmsir meina að farnir séu að birtast brestir í hin hástemmdu kosningaloforð Framsóknar. Mörgum þótti til dæmis ills viti þegar Sigmundur Davíð fór að segja að hann hefði ekki  vitað fyrr að staða ríkissjóðs væri svo slæm sem raun bæri vitni og þetta og hitt þyrfti að athuga betur !

Nú vita allir að kosningasigur Framsóknar verður einkum og sér í lagi skýrður með loforðum formannsins um leiðréttingar varðandi skuldamál heimilanna !

Þessi eftir-kosninga-ummæli Framsóknargoðans hafa því virkað á suma eins og einhverskonar forboði fyrstu undirbyggingar í málflutningi hans fyrir komandi undanhald í loforðamálunum og sumir óttast að það verði ekki staðið við mikið. Þeir eru til sem telja að Framsóknarforinginn sé þarna strax að byrja að svíkja og leið hans í því sé að beita fyrir sig gamalkunnugri prettapólitík.

Það virðist þó ljóst að staða ríkissjóðs sé ekki svo slæm að viðhalda þurfi veiðigjaldi, en þar kemur þó líklega fleira til.  Þegar LÍÚ stjórn tekur við völdum ræður LÍÚ trúlega ferðinni og blágræna auðvaldið í sjálfstæðisframsókninni verður líkast til að hlýða sínum herrum !

Síðustu fjögur árin hefur formaður Framsóknarflokksins sem kunnugt er verið manna iðnastur við það, ásamt Bjarna meðbróður sínum, að gera sitjandi ríkisstjórn allt til óþurftar og mæðu. Öll bjargráðastefna ríkisstjórnarinnar, sama hvert litið var, var ómöguleg að mati Sigmundar Davíðs því alltaf hafði hann sýn til annarra og betri úrræða.

En þegar hann hefur, í krafti þessara allt umlykjandi úrræða sinna og glæsilegra loforða um betri tíð og blóm í haga, unnið stóran kosningasigur, fer hann allt í einu að tala um vandamál sem komin séu í ljós, vandamál sem höfðu að hans mati hreint ekki verið til áður. En þó hafði hann í kosningabaráttunni afgreitt allt tal um vandamál með þeirri röksemd að það væru þúsund leiðir til að sigrast á þeim og alls staðar tækifæri til að gera betur !

Er slíkt ekki forkastanlegt lýðskrum ?

Og Sigmundur Davíð hefur talað um nýjan kafla í stjórnmálum, ný og betri samskipti og að allt sé að breytast í þeim efnum ? Ef ég skoða pólitíska framgöngu hans yfir síðasta kjörtímabil, sé ég ekki að hann hafi þar verið sérstakur boðberi einhverrar siðvæðingar í stjórnmálum eða að hann hafi skorið sig frá öllum öðrum með meiri trúverðugleika og sannari hætti !

Höskuldur Þórhallsson gæti kannski borið því vitni af eigin raun, að Sigmundur Davíð sé brautryðjandi nýrra starfshátta í pólitískum leikfléttum, en ég efast um að hann geri það og skil það reyndar ósköp vel. Upplifun þolanda er nefnilega yfirleitt allt önnur en upplifun geranda !

Og ég segi hiklaust - verði íslenska þjóðin, enn og aftur og jafnvel meira en nokkru sinni fyrr, þolandi svikinna loforða - býð ég ekki í framtíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er sest að völdum.

Sigmundur trítlar á toppinn

með tvíræðan kosningafeng.

Stjórnin er komin á koppinn

en kannski hún fari í spreng !

Ég er hinsvegar ekki að óska þess að svo fari - ég hef alltaf vonað að sérhver ríkisstjórn Íslands gæti reynst þjóð sinni vel, en því miður eru mörg dæmi um að svo hefur ekki farið. Og mér þykir Sigmundur Davíð ekki trúverðugur sem boðberi þeirra stefnumiða sem hafa nú fleytt honum upp í forsætisráðherrastólinn !

Hvernig mun þessi sjálfskipaði kraftaverkamaður fara að því að framkvæma kraftaverkin, hvernig gerist þessi silfurskeiðardrengur bjargvættur fólksins  í landinu, hvernig ætlar hann að færa rangfengið fjármagn, sem bankar og yfirvöld hafa rænt af fólkinu með ólögum og andstyggð, til fólksins aftur ? Er hann, sem virðist í öllu vera skilgetið afkvæmi auðvaldsins í landinu, líklegur í raun til að standa fyrir slíkum réttlætisverkum og það með sjálfstæðisflokkinn að bakhjarli ?

Trúi því hver sem vill en ekki mun ég trúa því að slíkt gerist fyrr en það liggur fyrir sem staðreynd ! Mér er öllu nær að halda að eitthvað í stíl við eftirfarandi erindi verði að veruleika:

Ó, Sigmundur Davíð þú sigur þinn vannst

með sérstöku loforðaflæði.

En það varir bara á meðan þú manst

og minnið á viðkvæma þræði !

 

Og kannski þú tapir af þráðunum þeim

og það falli sitthvað í gleymsku.

En orkir þú þannig á íslenskan heim

þú endar - sem dæmi um heimsku !

Það er margt hægt að íhuga í sambandi við hina nýju ríkisstjórn og hvernig hún er skipuð og kannski ekki síður hvernig hún er ekki skipuð.

Kringum brellur mála mauks

mælist eitt á hreinu,

að aldrei var þar Vigga Hauks

valkostur í neinu !

En ýmsir aðrir kostir virðast hafa verið kannaðir og viðurkenndir sem slíkir. Og kannski er það - til að mynda - hið besta mál, að utanríkismálefni okkar Íslendinga verði nú um skeið - til reynslu -í höndum Kaupfélags Skagfirðinga !

 

 

 

 


Stjórnmálamenn stimpilgjalda og verðtryggingar !

Lengi hafa íslenskir ráðamenn röflað fram og aftur um stimpilgjöld og gefið í skyn að þeir væru að leita leiða til að fella þau niður. En sú viðleitni hefur aldrei sýnt sig vera annað en lýðskrum og innihaldslaus orð ! Þegar um réttlætismál er að ræða sem kemur almenningi til hagsbóta virðast hlutirnir yfirleitt ganga ákaflega hægt fyrir sig innan þeirrar stofnunar sem kallast alþingi, enda hefur sú þjóðaröryggisvakt verið með ýmsu móti sem þar hefur verið sögð staðin og mörg meinsemdin komið þar í ljós !

En nú eru margir nýir þingmenn að fara að stíga sín fyrstu skref sem lýðræðiskosnir fulltrúar þjóðarinnar og hvers má vænta af þeim ?

Verða þeir samskonar stjórnmálamenn stimpilgjalda og verðtryggingar eins og þeir sem setið hafa hingað til, verða þeir LÍÚ varðhundar og ranglætismagnandi sérhagsmunaþjónar ?

Það hefur nánast verið sama hver flokkurinn hefur átt í hlut, allir hafa þeir boðið upp á stimpilgjalda pólitíkusa og þar hefur hver virst öðrum ómerkilegri að orðum og gerðum. Ranglætishlutir sem hafa viðgengist hér og hvergi þekkst annarsstaðar í þeim löndum sem við höfum miðað okkur við, hafa verið látnir standa óhaggaðir ár eftir ár og fólk verið látið borga, borga og borga !

Það er sannarlega enginn íslenskur stjórnmálamaður að vinna í dag í anda Jóns Sigurðssonar fyrir land og þjóð. Allt hefur þetta flokkapólitíska falslið undangenginna ára verið meðalmennskunni vígt og varla það.

Verkin hafa sýnt þar merkin með afgerandi hætti !

Ef þarna hefðu hinsvegar verið menn að störfum í réttum anda, fólk sem hefði haft slagkraft til einhvers annars en að skara eld að eigin köku, væru stimpilgjöld trúlega liðin tíð ásamt verðtryggingu og ýmsum öðrum sambærilegum efnahagslegum kúgunartækjum íslenska kerfisins gagnvart almenningi !

En alltaf hefur samt verið sagt að stefnt skyldi að því að afnema stimpilgjöld  í áföngum eða alfarið " þegar aðstæður leyfa " !

Hvað skyldi slíkt þýða á mannamáli ?

Eins óhæfir og stjórnmálamenn landsins hafa verið, hefur náttúrulega aldrei komið upp sú staða að aðstæður hafi leyft að byrðum yrði létt af landsfólkinu og auðvitað hefur aldrei verið meint neitt með þessu lausnartali, það hefur bara verið viðhaft til að róa fólkið niður - í spennitreyjunni !

En eins og fyrr er sagt hér, eru margir nýir menn að koma inn á þing og nú er það spurningin - koma þeir til með að draga dám af þeim sem fyrir hafa verið og munu þeir falla í gamla spillingarfarið, eða koma þeir með einhverja nýja strauma með sér, einhverja nýja sýn, einhverja svo til áður óþekkta hugsun á þingi, sem sé að reyna sem best að duga vel til starfa fyrir þarfir landsfólksins ?

Ég veit ekki hvað verður, en óneitanlega verður mér hugsað til körfunnar með skemmdu eplunum. Þar geta ný epli ekki bætt stöðuna meðan skemmdu eplin eru fyrir í körfunni !

 

 


Ólánasýslan og skuldahrepparnir !

Íslenska ríkið er sannkölluð ólánasýsla fyrir landsmenn. Þar hafa algerlega óhæfir kerfiskarlar um langt árabil haft með höndum efnahagsmál okkar og gert það með þeim hætti að yfirgengileg skömm er að því. 

Ég leyfi mér að fullyrða, að þó ýmislegt geti sjálfsagt verið að á hinum Norðurlöndunum, hafi meðferð opinberra fjármuna verið þar með miklu betri hætti en hér hefur tíðkast.

Það er svívirðileg lenska hér, að valdamiklir aðilar og hagsmunasamtök hafa alltaf fengið að blóðsjúga ríkið á forsendum sérhagsmuna og heildarhagsmunir aldrei verið sérlega mikils metnir.

Við slíkar aðstæður verður sérhver lánasýsla hins opinbera að ólánasýslu sem þrýstir skuldaklöfum á herðar alls vinnandi fólks í landinu og þurrkar upp allar skapaðar forsendur fyrir velmegun.

Og það gæti svo sannarlega ríkt velmegun hér. því þjóðin er dugleg og vinnusöm að öllu jöfnu, en blóðsugurnar eru orðnar allt of margar sem sjúga linnulaust frá fólkinu mestan hluta af því sem það aflar í sveita síns andlitis.

Ríkisaðallinn er skelfilegt ógæfulið fyrir þjóðina og  svipaða sögu er að segja af ráðsmennskunni á sveitarstjórnarstiginu. Þar hafa víðast hvar hreiðrað um sig kjötkatlaklíkur sem maka krókinn fyrir sig og sína á kostnað almennings.

Þar eru skuldahrepparnir í leiðandi stöðu !

Jafnvel þó einhver sveitarfélög eigi peninga, sem helst er þá vegna sölu eigna, er vandlega séð til þess að þeir peningar fari ekki í að bæta þjónustu við almenning. Þær krónur skulu sérmerktar gæðingunum við kjötkatlana með einum eða öðrum hætti. Og allar álögur á fólkið eru hafðar sem hæstar, jafnvel hjá þeim sveitarfélögum sem guma af góðri fjárhagsstöðu sinni og eiga einhverja peninga - oftast vegna seldra eigna !

En það er alltaf sagt, af hálfu opinberra aðila, að það verði að hækka þjónustu -gjöld vegna erfiðra aðstæðna í þjóðfélaginu og þungrar stöðu ríkis og bæja !

En hvar eru þær erfiðu aðstæður fyrst og fremst, sem verið er að vitna til, eru þær ekki hjá almenningi sem hefur orðið að bera drápsklyfjar syndagjaldanna alla tíð og síðast hryllinginn eftir hrunið og frjálshyggjufylleríið mikla ?

Og um leið og ólánasýslan og skuldahrepparnir hækka gjöldin, hækka skuldir almennings og skuldir heimilanna og verðtryggingardjöfullinn hlær hástöfum !

Og meðan heilbrigðisþjónustan er svelt og svikin um ærlega meðferð fær Harpan viðbótarfé þvert ofan í gerða samninga. Raunsæir menn vissu að þar myndu hlutirnir aldrei standa undir sér, en menningarpostularnir þóttust vita betur og fengu sitt fram. Og svo eru fasteignagjöld sem alltaf lá fyrir að þyrfti að greiða ekki borguð og þess í stað grenjað á meira fé.

Ábyrgðarleysið gagnvart almannahag sést vel í þeim gjörningum :

Síst er landsins svelta þjóð

sátt við skammtinn smáa,

þó Harpa syngi Hörpuljóð

á Hörpulaufið gráa !

Og nú ætla skilgetnir synir hrunsflokkanna að kippa öllu í lag ?

Nýafstaðnar kosningar virðast fyrst og fremst endurspegla smekk kjósenda fyrir gálgahúmor !

Ég var spurður að því eftir að úrslit lágu fyrir hvað ég héldi að kæmi út úr málum ?

Svar mitt var eftirfarandi :

Sigmundur Davíð með Kögunarkjarna

mun koma sér saman við Valhallar-Bjarna,

þó fortíðin hræði

og ferlið þar mæði

og fráleitt sé yfir því hamingjustjarna !

Og þeir félagarnir Sigmundur Davíð og Bjarni, sem endurbornir Halldór og Davíð, voru ekki búnir að ræða mikið saman þegar þeir urðu sáttir á eitt atriði, þeir urðu strax sammála um að þeir yrðu að vera góðir við LÍÚ, enda verður óburðurinn sem settur verður á laggirnar hreinræktuð LÍÚ-stjórn !

Loforðapostuli Framsóknarflokksins er samt þegar byrjaður að grenja yfir því að staða ríkisins sé miklu verri en hann hafði haldið, sem virðist ávísun á það að ekki sé inneign fyrir gullnu framtíðinni sem hann lofaði !

Bjóst þessi lýðskrumari við því að staða ríkissjóðs væri góð - fimm árum eftir hrun ?

Ef honum hrýs hugur við stöðu mála núna, hvernig hefði honum þá litist á að taka við árið 2009 þegar allt var í rúst ?

Síðan þá hefur hann samt alltaf þóst hafa lausnir á öllum málum, standandi sem stjórnarandstöðuleiðtogi  í ræðustól í þinginu, en hvar eru þessar lausnir nú, þegar hann er varla tekinn við - en samt byrjaður að barma sér ?

Megi Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson uppskera eins og þeir hafa sáð til. Þeir sáu ráð til alls meðan þeir voru í stjórnarandstöðu og aðrir þurftu að glíma við efnahagsósköpin sem hægri flokkarnir, flokkar þeirra, sköpuðu með ábyrgðarleysi sínu.

Nú tekur ábyrgðin við og uppfylling loforðanna sem gefin voru ! Og kannski er von að þeir Sigmundur og Bjarni séu farnir að svitna svolítið og heykjast gagnvart því að standa við sitt !

Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir fara að því að stjórna og standa við heitin, hvernig þau öfl ætla að koma til liðs við almenning sem aldrei hafa gert það fyrr, hrunsöflin sjálf  !

Ég yrði ekki hissa þó ríkið yrði enn meiri ólánasýsla í gegnum valdaferil þessara nýju topptvíbura og skuldahrepparnir næðu nýjum hæðum í efnahagslegu öngþveiti því sannleikurinn er sá -

að lýðskrumarar reynast aldrei vel !

 


Að versla, breyta og velja í núinu !

Uppstigningardagur er minningardagur upprisu Jesú Krists sem er viðurkenndur sem Sonur Guðs og Frelsari mannkynsins af þeim þjóðum sem kristnar eru !

Við getum lengi spáð í það hvernig kristindómurinn sé meðal kristinna þjóða og rökrætt það fram og aftur, en varðandi tímasetningar sem tengjast ákveðnum atburðum er oftast fylgt einhverjum reglum. Þannig er það auðvitað einnig með Uppstigningardaginn að hann er tímasettur samkvæmt reglu.

Nú er það svo, að sumum virðist ekkert heilagt í dag og þeir sem þannig eru innréttaðir, hafa oftast sérstaka nautn af því að rífa niður reglur. Þeir eru hreint ekki svo fáir sem vilja rífa niður kristindóminn í heilu lagi, en hafa engin sérstök rök fram að færa hvers vegna. Kristindómurinn er bara fyrir þeim og heldur uppi kenningum sem þeim hugnast líklega ekki.

Í guðspjöllunum segir frá því þegar Kristur hreinsaði musterið, en það gerði hann vegna þess að allskyns prangarar voru nánast að leggja undir sig sjálft Guðshúsið með verslunarviðskiptum sínum. Og Kristur vandaði þeim ekki kveðjurnar.

Hann benti þeim skýrt á það að musterið ætti ekki að vera vettvangur slíkra mála !

Það er sitthvað kaupmennska og verslun og trú og andleg helgun. Hvorttveggja getur átt sínar heimastöðvar, en það fer ekki vel þegar þessu tvennu er ætlað að fara saman sem nánast einum og sama hlut. Sumir kaupmenn hafa verið og geta verið ágætir kristnir menn og farið ærlega með sín málefni. En slíkir menn myndu aldrei fara að versla í musteri Guðs eða þeirri kirkju sem þeir sækja !

Uppstigningardagur er einn af þeim dögum sem margir vilja versla með í dag og ástæðan er augljós. Dagurinn er þeim einskisvirði sem sérstakur minningardagur Upprisunnar og enginn skilningur fyrir hendi hjá þeim á gildi þess atburðar fyrir alla menn, vegna þess vilja þeir versla með daginn. Vinna á Uppstigningardag og fá frí á eftirfarandi föstudegi, fá sem sagt lengra samvirkandi helgarfrí !

Ég er ekki að segja að menn geti ekki haft val með þetta, en það er hinsvegar ljóst að þegar virðingin fyrir Uppstigningardeginum er farin ásamt skilningnum á gildi upprisu Jesú Krists, verður þessi dagur bara afnuminn sem helgidagur.

Það hlýtur að koma að því !

En skyldu þessir blessaðir menn sem vilja versla með Uppstigningardaginn og hefðu líklega á sínum tíma ekki séð neitt athugavert við að versla í musterinu, hafa þá einu hugsun í kollinum að þegar þeir séu dauðir þá séu þeir bara dauðir ?

Geta þeir ekki skilið að Uppstigningardagurinn er helgaður þeirri von sem kristnin  gefur hverri sál, að þeir sjálfir eigi von um upprisu frá hinum fyrri dauða ?

Og er þá ekki hægt að sjá gildi þess - fyrir alla menn - að einn dagur á ári sé helgaður upprisuvon allra manna - í gegnum Jesú Krist ?

Ég er vinstri maður í öllum hugsunargangi, en ég hef aldrei verið hlynntur því að breyta hlutum breytinganna vegna. Það sem er gott og hefur sannað sig á að fá að standa. Íhaldssemi sem felst í því að viðhalda sönnum og ærlegum gildum er í alla staði þess verð að vera varin.

Ég tel mig skilja það gildi sem felst í Uppstigningardeginum, því hefði Kristur ekki stigið til himna ættum við enga von um lausn frá dauðanum. Ég vil því halda þessum tiltekna degi sem helgum degi og er andvígur allri verslun með hann !

Eins er ég mótfallinn allri verslun innan vébanda kristinnar kirkju og hverskonar samblandi veraldlegra og andlegra mála í þeim efnum sem öðrum !

Kaupmennska og verslun er eitt, trú og andleg helgun er annað !


Ávinningur kvenna ?

Kvenréttindi hafa verið eitt af þeim töfra-hugtökum sem samtíminn hefur sett fram sem lausn á svo mörgum lífsvandanum, en hvernig skyldu nú þessi margumræddu kvenréttindi vera að skila sér fyrir konur og samfélagið allt ?

Í dag eru konur vissulega komnar í allt aðra stöðu samfélagslega séð en þær hafa lengstum haft, en er það víst að það sé að skila þeim meiri hamingju og lífsfyllingu en konum á fyrri tíð ? Það er nú kannski fyrst og fremst spurningin sem svarar því hvað hefur áunnist og hvort þar sé um að ræða raunhæfan lífsávinning fyrir konur þegar á allt er litið ?

Í gamla daga var rómantískur blær fegurðar og blíðu oftast tengdur við  kvenfólk með einum eða öðrum hætti, og ef til vill hafa ömmur þeirra kvenna sem nú eru upp á sitt besta verið ólíkt blíðari og kvenlegri í háttum en þær ?

Kvenréttindin hafa nefnilega komið því til leiðar að kona þarf hreint ekki að vera neitt kvenleg nú til dags, ekki frekar en hún vill !

Menntaðar konur á framavegi ganga nú um klæddar upp eins og aukaútgáfur af körlum á sömu braut. Það er oft nokkuð vandséð hvernig finna á konuna í þeirri mynd sem þar er gefin !

Samlíkingin milli karlrembunnar og kvenrembunnar hefur á seinni árum orðið stöðugt sýnilegra fyrirbæri í hinu daglega lífi og ef einhver skilsmunur er þar á, leikur kvenremban konuna líklega verr en karlremban karlinn !

En þar sem það er ótvíræður hluti af réttindabaráttu kvenna nú á tímum, að fá að taka upp ósiði karlmannsins, er líklega ekkert við því að segja !

Konur í dag eru sagðar miklu sjálfstæðari fyrir vikið og þannig standa konum fyrri tíma miklu framar og margir trúa því að svo sé. Mín skoðun er samt sú að ömmurnar hafi vinninginn þegar á allt er litið, bæði sem konur og manneskjur !

Metnaður kvenna ætti að mínu viti að beinast sem mest að því að rækta sem best hina kvenlegu eðliskosti anda, sálar og líkama, frekar en að eltast við að vera jafnokar karla á öllum sviðum og kannski helst á þeim sviðum þar sem þeir hafa orðið sér mest til skammar.....!

Við sjáum ekki svo fá dæmin um það í samtímanum !

Í dag reykja konur til jafns við karlmenn og jafnvel meira en þeir. Í dag gætu þær sumar hverjar drukkið karlana sína undir borðið ef þeim sýndist svo. Þær geta bölvað á við þá og hafa jafnvel tileinkað sér grófleika í orðum og gerðum sem varla þekktist áður meðal kvenna -  og allt á þetta víst að vera liður í því að sanna sjálfstæði og getu, að vera þáttur í því sem sumir vilja kalla mannréttindabaráttu kvenna !

Í ýmsum sviðsverkum nú á tímum er konan farin að verða þetta allt sem að framan greinir. Þar sannar hún líklega frelsi sitt en líka það að hún kann ekkert betur með það að fara en karlmaðurinn !

Hún er sjáanlega stöðugt að sanna það sem táknmynd upp á sjálfstæði sitt, að hún geti verið karlmanninum fremri - og að því er virðist - ekki síst í ósiðunum !

Já, konur í dag eru hreint ekki í þeirri nöturlegu stöðu sem þær telja að ömmur þeirra  hafi verið í, þær telja sig sannarlega ekki vera þrælkaðar fyrri tíma konur.

Þær finna sig frjálsar, svo frjálsar að frelsi þeirra verður þeim líklega að byrði áður en langt um líður !

Og sumar þeirra eru svo miklar kvenréttindakonur að allt annað í lífinu fer framhjá þeim. Þær eru í heilögu stríði við karlaveldið, meintan yfirgang karla allar stundir. Þær ganga svo langt í hatrinu á bölvaðri karlrembunni að þær fyllast bölvaðri kvenrembu fyrir vikið !

En það er ekki allt sem sýnist og það er vert að hafa það í huga, að hinar ágætu fyrri tíma konur, ömmur þeirra kvenna sem storma um lífssviðið í dag í fullum herklæðum, þær voru þannig að gildi og gerð, að þær höfðu alltaf eitt umfram allt annað á hreinu -  nefnilega það - að vera konur !

Og það er hreint ekki lítilvægt mál að hafa það á hreinu !

Það að vera kona og sá farvegur lífsins sem konan ein getur verið, er stórkostlegt hlutverk og því er meðferð konunnar á því hlutverki  einn skýrasti vitnisburðurinn um það hvernig ástand samfélagsins er á hverjum tíma !

Sérhvert þjóðfélag sem er haldið af Jessabel-anda er á röngum vegi og stefna þess getur aldrei verið til góðs !

Ávinningur kvenna af völdum slíks andavalds er og verður alltaf innantómur svika-fengur. Fylgja þess býður aðeins upp á óhamingju og einmanaleika fyrir mannlega sál þó að yfirborð lífsmálanna kunni oft að virðast glæst !

Hamingjuleið sérhvers samfélags liggur í gegnum heilbrigt samstarf karla og kvenna , því aðeins í einingu geta karlar og konur orðið samarfar að lífsins náð og sannur farvegur blessunar fyrir framtíð barna sinna !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 181
  • Sl. viku: 1285
  • Frá upphafi: 316204

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1028
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband