Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Skrifað í skvettustíl um staðlæg "stjórnmál" !

Það á að kjósa á Skagaströnd, - að hugsa sér ! Það er hreint og beint lýðræðishátíð framundan og sjómannadagshelgi í ofanálag. Einhverntíma hefði einhver líklega sagt á slíkum tímamótum: „ Nú er mikið um dýrðir" !

Fullt af fólki, - og menn skulu gera sér grein fyrir að það er fullt af fólki á Skagaströnd -, virðist varla ráða sér fyrir tilhlökkun ! Það er nefnilega ekki eins og þessi tilbreyting sé í boði fjórða hvert ár hér á Ströndinni, nær væri að segja áttunda hvert ár og þegar tilboðsdagarnir loksins koma, þá er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér - í alvöru - hvað sé raunverulega í boði ?

Og það er náttúrulega alltaf pínulítil spurning þegar pólitík er annarsvegar, hvað sé raunverulega í boði, því þó að tilboðsmarkaðurinn fari alltaf nokkuð mikið upp á við í kringum þessar sérstöku aðstæður, er uppsveiflan oftast nokkuð vafasöm á köflum - og rúmlega það, ekki síst vegna þess að þeim virðist alltaf fjölga sem tengja loforð ekkert endilega við efndir. Menn eiga það jafnvel til að segja eftirá þegar einhver fer að tala um efndir: „Æi, láttu ekki svona, aðstæður kröfðust þess bara í augnablikinu að ég lofaði þessu, ég meinti ekkert með því, þetta var bara grín !"

Ég orti eitt sinn við þær aðstæður að mér fannst miklu lofað :

Lygin víða fær sitt flug,

fer um land með dunum.

Í ýmsra munni almáttug

á undan kosningunum !

                                                       En hvernig sem loforðalínurnar annars eru, er það samt hið besta mál að það séu og verði kosningar og þá í það minnsta fjórða hvert ár, en ný framboð verða samt að snúast um eitthvað meira en bara það að tryggja að það verði kosningar. Þegar ég sá nýja listann sem boðinn hefur verið fram hér á Skagaströnd, hrökk mér af munni þessi vísa:

Fullan jöfnuð skörp og skýr

skapar staðan fágæt.

Konur sjö og karlar þrír,

kynjahlutföll ágæt !

                                              Gamli elítulistinn sem nú heitir H-listi og virðist einna helst einhverskonar uppsuða úr gömlum graut, komst á koppinn með viðbótar-bragðefnum í lok apríl eða þar um bil. Var þar um einhverja málamynda-uppstillingu að ræða, sennilega til að koma til móts við nýjar framboðsáherslur. Var þó ekki laust við að einhver taugatrekkingur væri í gangi í kringum það sjónarspil, enda var um það kveðið :

Sjallar ætla að kjósa í kvöld,

kynna lausn á málum.

Komin virðist önnur öld,

enda er Dolli á nálum !

                                                  Það er svo sem aldrei tíðindalaust á Skagaströnd, en margt gerist fyrir kosningar sem ekki gerist endranær. Oddvitinn er fyrir nokkru hættur að mæta í Neistakaffið og Steindór Rúniberg er svo á kafi í sértækum iðnvæðingarmálum að hann hefur hreint ekki neinn tíma í framboðsmálin, allra síst framboðsfund ! Það minnir óneitanlega nokkuð á Þröst Líndal og rollurnar hans hérna um árið. Það þykir víst sumum bara ágætt að bjóða sig fram og vera svo ekki til viðtals. En það er líklega allt í lagi með það, því það er ljóst að -

Sumum þykir Steindórs staða

stórbrotin að allri gerð.

Líkt og stjarna á ljóssins hraða

leiftri hann á sinni ferð !

 

Sömu raddir segja að Dolli

sé með öllu í blóð og merg,

daufur bæði í dúr og molli,

dansi verr en Rúniberg !

                                               En líklega veit þó enginn hvar við dönsum næstu jól, en hinsvegar vilja sumir meina að það sé ljóst að -

Þeir sem kjósa ætla Ð,

ákveðnir frá rótum,

dansa ekki Dolla með,

dansa á öðrum nótum !

                                        Og því er ekki að neita að dansinn í sveitarstjórnarmálunum hér hefur verið nokkuð einhæfur síðustu tuttugu árin og þessvegna hreint ekki fráleitt að æfð séu ný dansspor í þeim efnum.

Dolla og Magga dansinn er

dottinn út úr tísku.

Síst þar gefinn sjansinn er

með sólskinsbragði frísku !

                                              Það þarf auðvitað einhverja ferska aðila á hið pólitíska dansgólf okkar Skagstrendinga með ný spor og nýja vendi, til að sópa og prýða hinn málefnalega sameignarsal og hleypa almenningslífinu þangað inn, en spurningin er hinsvegar, hefur raunverulegt tilboð í þeim efnum verið lagt fram ? Reynslan mun skera úr því hvort nýir framboðsaðilar standi undir væntingum,  en fólk má auðvitað eiga sér þær vonir í millitíðinni að einhverjar breytingar verði með tilkomu slíkra á sviðið :

Á málin gæti komið kast

með keppnisanda nýrra manna.

Ef allt er ekki frosið fast

á fimbulvelli hagsmunanna ?

                                                   Það er því í sjálfu sér gott að fólk hafi val og ef um raunhæft val er að ræða, er það enn betra. Það er vonandi að Skagstrendingar geti hér eftir gengið að kjörborði fjórða hvert ár til að velja sér forustulið og það falli ekki oftar niður kosningar en orðið er. Við íbúar á Skagaströnd hljótum að sjá til þess eftirleiðis að svo verði og það innifelur náttúrulega nánustu aðstandendur beggja framboðslistanna og alla þá sem hér búa. Í því mengi erum VIÐ ÖLL !

Ég lýk þessu pistilgreyi svo með eftirfarandi stöku :

Ströndin okkar bjart með blikið

ber vort líf í skauti sér.

Hún á skilið margt og mikið,

meira en í boði er !

 

 

 

 


Að viðhalda lýðræðislegri vöku !

Það er alltaf þörf á nýliðun í lýðræðislegu starfi, en best er auðvitað að reynsla og þroski í félagslegu starfi geti átt fulla samleið með ferskleika nýrra sjónarmiða. Við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að veröldin er ekki eitthvað sem kallast getur fast viðmið, þar er allt breytingum undirorpið.

En þegar einhverjir eru búnir að koma sér svo vel fyrir á heimslega vísu, að það fer ákaflega notalega um þá, vilja þeir yfirleitt engu breyta. Það sem þeir halda að sé og vilja að sé ríkjandi ástand, þjónar þeim best. Fólk í slíkum sporum verður afturhaldssamt og andvígt framfarasinnuðum sjónarmiðum.En það áttar sig ekki á því að breytingarnar gerast samt og hljóta óumflýjanlega að eiga sér stað.

Hver ný samtíð elur af sér breytt viðhorf og þó að afturhaldssinnuð stjórnvöld hafi oft getað tafið fyrir framrás breyttra sjónarmiða, nær krafa tímans fram með einum eða öðrum hætti. Sums staðar með hægri en sterkri undiröldu, annars staðar, þar sem kúgun hefur kannski verið þess meiri, með skyndilegri flóðöldu sem sópar öllu gamla draslinu burt í einum svip. Slík skyndibreyting þjóðfélagslegra aðstæðna er oft kölluð bylting og heitir það líka með réttu.

Það er óþekkt í sögunni að byltingar í þessum farvegi komi frá hægri. Hægri viðhorf eru sem fyrr segir í eðli sínu íhaldssöm og beinast fyrst og fremst að því að halda í það sem er, halda í þann feng sem fortíðin hefur skilað í hendur manna, oft með þeim hætti að um hreinan ránsfeng er að ræða. Við þær aðstæður skapast ótti í hópi sérhagsmunaafla við allar breytingar sem hugsanlega gætu orðið til þess að ránsfengurinn verði tekinn af mönnum í krafti einhverrar réttlætisvakningar, sem vill uppgjör við gamalt ranglæti.

Félagslegar vakningar í þjóðfélagslegum skilningi, sem beinast að leiðréttingum á fornu misrétti, nokkurskonar skuldaleiðréttingar, koma yfirleitt frá vinstri. Öflin sem standa fyrir rétti hins almenna manns til að geta gengið uppréttur, eru vinstrisinnuð og fæðast meðal fólksins sjálfs. Í gamla tímanum var allt vald í krumlum kónga og aðals, forstokkaðra hægrimanna sem pláguðu og mergsugu mannfólkið. Þessvegna er saga mannsins fyrir tuttugustu öldina fyrst og fremst saga forréttindahópa sem nutu valda og allrahanda fríðinda. Almennur mannréttur komst hvergi að !

Það var samt stöðugt reynt að brjóta þá samþjöppuðu afturhalds-skjaldborg yfirvalda þeirra tíma sem réði og skammtaði jafnan öðrum skít úr hnefa og sagan greinir frá mörgum merkilegum tilraunum til þess. Seinni hluti nítjándu aldar sótti þar í sig veðrið eftir að fyrri hluti þeirrar aldar hafði verið að mestu lokað kerfi fyrir áhrif Metternichs og annarra steinrunninna forustumanna afturhaldsins.

1848 léku vindar mannfrelsis og mannvitundar um Evrópu alla og álfan lék á reiðiskjálfi. Þrýstingurinn var orðinn svo mikill að yfirvöld urðu að láta undan síga í mörgum löndum fyrir framrás breytinganna. En víða var þeirri frelsissókn mætt með fullu hervaldshelsi og vægðarlausu ofbeldi afturhaldsins.

Þegar hin afar íhaldssömu yfirvöld í Austurríki höfðu ekki bolmagn til að sigra ungverska frelsisherinn undir forustu Kossúths og Görgeys, tók Nikulás I Rússakeisari, útvörður afturhaldsins í Evrópu, til sinna ráða. Hann sendi rússneska heri yfir steppurnar til að bæla niður ungverska frelsisandann. Honum rann þar blóðið til skyldunnar, að hjálpa keisaranum í Vínarborg til að halda sínu svo afturhaldið í álfunni væri tryggt. Rússnesku blóði var hiklaust úthellt til að varðveita austurrísk yfirráð yfir örlögum annarrar þjóðar. Svo blint og blóðugt var afturhaldið á þeim tíma !

En atburðirnir 1848 settu sitt mark á öldina og framrásin varð ekki stöðvuð. Hún tafðist að vísu, en safnaði í sig krafti með hverju árinu, þrátt fyrir svívirðilegt sérhagsmuna stjórnvaldsferli Estrups og annarra slíkra víða um lönd.

Og að því kom að alda hinnar almennu mannréttindakröfu reis svo hátt að hún varð ekki stöðvuð. Það var fyrst og fremst í gegnum hina félagslegu framrás tuttugustu aldarinnar, í gegnum hugsjónir verkalýðshreyfingar og  heildarhyggju sem hið ómennska sérhagsmunaveldi tók að láta undan síga og sannarlega var löngu kominn tími til þess að það félli í sína bölvuðu syndagröf.

En látum okkur ekki detta það í hug að sérhagsmunaófreskjan sé dauð. Hún hefur áfram mikil völd í þessum heimi, sérstaklega fyrir áhrif illa fengins peningalegs auðs, og hún liggur hvarvetna í leyni og bíður átekta, bíður færis til að mylja niður hinn almenna mannrétt og skapa það sem hún kallar „eðlilegt ástand" á ný. Við skulum því jafnan vera þess minnug að afturhaldið þráir í raun stöðuna eins og hún var fyrir 1848 !

Lýðræði er ekki eitthvað sem vinnst til fullnustu. Engin ein kynslóð getur tryggt þar sigur til frambúðar fyrir þær kynslóðir sem á eftir koma. Sérhver kynslóð verður þar að axla sína skyldu. Unga kynslóðin má ekki líta svo á að réttindi hennar hafi verið tryggð af kynslóð mömmu og pabba. Veröldin breytist og viðhorfin með, nýir tímar krefjast nýrra og óslitinna vanda til að sópa uppsafnaðan skít af gangstéttum mannfrelsisins. Lýðræðið þarfnast þess að vakað sé yfir því og sú vaka er í þágu allra sem vilja stefnu mannlegrar velferðar yfir línuna.

Höldum þeirri vöku í öllum lýðræðislegum kosningum, hvort sem er til sveitarstjórna eða þjóðþinga. Það er stór gildisliður í því að varðveita hinn almenna rétt mannsins til að hafa áhrif á sín eigin örlög og þar með grundvallaratriði í allri heilbrigðri hugsun varðandi samfélagslega velferð !

 

 

 

 


Hugleiðingar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga !

Lýðræði virðist í augum margra, ekki síst nú á dögum, vera einhverskonar alfrjáls leikur, þar sem engin sérstök gildi eigi að ráða og menn eigi að geta átt sér vegi sem liggi til allra átta. Þeir sem líta þannig á málin virðast hugsa með sér : „Ég vil engar hugsjónir, enga ótvíræða stefnu, ekkert sem bindur, það sem skiptir máli er bara ég og mín löngun til frama !"

Svo streyma gyllingar-framboðin inn í veruleikann, Flokkur mannsins, Flokkur fólksins, Besti flokkurinn, Flokkur umbótasinna. Og nöfnin eru auðvitað sérvalin með það í huga að þau trekki sem mest. Og á næsta leyti eru vafalaust ný framboð með enn sterkari tilvísun til gæða, Flokkur Sannleikans, Flokkur réttlætisins, Velferðarflokkurinn, Flokkur Allra góðra mála  o.s.frv !

Skyldum við aldrei fá að sjá þessa fljótsprottnu framboðshópa ganga fram undir því sem kalla mætti réttari og eðlilegri nöfn fyrir þá, svo sem Flokkur tækifærissinna, Flokkur Blekkinganna, Sérhagsmunaflokkurinn, Kjötkatlamafían o.s.frv. En, nei, ónei, það  sem undir liggur í þessu verður seint afhjúpað, þó mikið og fagurt sé talað - og einkum fyrir kosningar - um að allt eigi að vera gagnsætt og uppi á borðinu !

Eitt af því sem fylgir lýðræðislegum stjórnarháttum er að fólk á að eiga rétt á því að kjósa. Þegar kosningar falla niður eins og dæmi eru til um, vegna þess að ekki hefur komið fram nema eitt framboð, þykir mörgum fúlt að fá ekki að kjósa. Það er því alveg til í dæminu að sett séu upp framboð framboðsins vegna. Það er að segja, ekki er neitt sérlega verið að stilla á stefnumál, heldur að halda í það mál - eitt og sér - að fá að kjósa !

Þetta virðist svona fyrir ýmsum svipað því og að fara á ball. Kosningar eru tilbreyting og mega ekki falla niður, fólk er að skemmta sér og vill fá að kjósa. Og ef einhver álpast til að segja: „ Bíddu, en um hvað er verið að kjósa ?" Þá getur svarið þessvegna orðið : „ Það skiptir engu máli, við eigum bara rétt á því að fá að kjósa !"

Svo það að ímynda sér bara að boðið sé upp á eitthvert val virðist vera mörgum hugstæðara en að kryfja það til mergjar hvað í framboði felst og vita hvort eitthvað sé þar á föstu byggt. Myndi margur segja að nokkur grunnhyggni fælist í slíkri afstöðu og lítil löngun til að leiðast af dómgreindarlegum forsendum.

Það er ný og gömul saga, að framgjarnt fólk sem fær ekki brautargengi í framboðsmálum eða sæti á listum sem fyrir eru, hlaupi út í það að stofna nýtt framboð, í einhverri fýlu eða óánægju með að hafa ekki fengið að komast að. Oft eru slík framboð byggð á því einu, að viðkomandi manneskja fær aðra til liðs við sig út á eigið nafn og stöðu, svo aðrir sem koma að málum hafa oftast þá einu línu til viðmiðunar að  - „ fylgja foringjanum" !

Og stundum og reyndar oftast eru nú slíkir foringjar með þeim hætti að þeir verða engir burðarásar lýðræðisins í ljósi reynslunnar, þótt flöggin hafi verið fögur í byrjun og margt fallegt sagt. En sjálfskipuð forusta er heldur ekki fyrirbæri sem lyft er upp af fólkinu í krafti einhverra réttlætismála eða heilbrigðrar baráttusóknar í þágu fjöldans. Það er oftast gamla viðmiðið eitt á ferð, að einhver vill hlaða undir sjálfan sig, og telur sig hafa orðið afskiptan þegar jólagjöfum var síðast úthlutað !

Þegar raunverulegt val er ekki fyrir hendi, þegar hráskinnaleikur einn er í gangi, á fólk alltaf það val að mæta á kjörstað og skila auðu. Þá má segja að kjósendur virði hinar lýðræðislegu leikreglur, en segi með auðu atkvæði sínu  - ég verð að skila auðu vegna þess að ég tel að ekkert það sé í boði sem ég get treyst og trúað til góðrar framgöngu. Það hefur sinn tilgang að kynna þá afstöðu. Autt atkvæði segir nefnilega sína sögu. Það segir að viðkomandi kjósandi telji ekki boðið upp á neitt sem hægt sé að kjósa. Þá er það kannski svona eins og einu sinni var sagt „ nú eru úlfshalar einir á króki" og fyrir mér er valið ekki neitt !

Lýðræði viljum við öll vafalaust hafa, en birtingarmyndir lýðræðisins geta verið mjög mismunandi og sumar hreint ekki geðfelldar. Það er til dæmis þekkt á okkar landi í sveitarstjórnarkosningum að efstu menn á listum eru oft og iðulega starfsmenn sveitarfélaga, jafnvel forustufólk í verklegum rekstri sveitarfélagsins, allra handa stjórar. Mér hugnast ekki að fólk í slíkum stöðum séu sínir eigin yfirmenn, enda tel ég að hagsmunagæslan sé þar komin yfir eðlileg mörk. Einn ágætur einkaframtaksmaður sagði mér fyrir nokkru, að hann hefði sagt við einn slíkan : „Þú ert ekki bara báðum megin við borðið í þessu máli, þú ert allt í kringum borðið !"

Spilling er ekki einfalt mál. Menn í valdastöðum vefjast oft inn í ranga hluti hægt og sígandi, og brátt er svo komið að þeir sjá ekki lengur hvað staða þeirra er orðin óeðlileg og fara að verja það sem þeir hefðu nokkrum árum áður talið óverjandi.

Samfélag manna þarf að byggja á sáttmála um að haldið sé vel utan um öll þau mál sem snerta sameiginlega velferð. Þar er traust grundvallaratriði, og enginn ætti að kjósa sér fulltrúa í almannakjöri nema á þeim forsendum að trúa því að viðkomandi manni sé treystandi til að inna þær skyldur af hendi á forsvaranlegan hátt sem hann er að sækjast eftir að takast á hendur.

„Eftir höfðinu dansa limirnir" segir spakmælið og samfélag sem býr við forustu sem ekki er sátt um eða skortir heilbrigðan stuðning fjöldans, mun alltaf finna það á eigin gengi og innri móral að eitthvað er ekki eins og það þyrfti að vera.

Raunverulegt lýðræðislegt VAL þarf því að koma til, svo hægt sé að tryggja sem best samfélagslega sátt og að fólk geti fundið og sannreynt í málum að ekki sé verið að hygla einhverjum á kostnað annarra og skekkja heilbrigð viðmið. Ef réttsýni og sanngirni ræður ferð í samfélagsmálum þurfa menn sem þar eru við stjórn ekki að hafa áhyggjur af stuðningi fólksins, hann verður þá sjálfkrafa fyrir hendi í krafti þess trausts sem skapað hefur verið !

 

 

 


Að standa fast í fætur fyrir góðar rætur !

Viljum við ekki almennt talað að menn séu sjálfum sér samkvæmir ? Varla er það líklegt til að glæða öryggistilfinningu okkar í mannlegu samfélagi, að fólk segi  eitt í dag og annað á morgun ? Hvers krefjumst við af öðru fólki ?

Og hvernig erum við sjálf ? Erum við sjálfum okkur samkvæm, erum við traustvekjandi manneskjur ? Gerum við þær kröfur til okkar að við séum samfélagi okkar til styrktar og sýnum við með festu í framgöngu að við séum og viljum vera ábyrg og trúverðug ?

Það er nú það ! Oft vill það reynast svo í veruleikanum, að fólk gerir meiri kröfur í samfélagslegu tilliti til annarra en sjálfs sín. Það leiddi til þess sem kom fram í ræðu John F. Kennedys forðum er hann sagði hin fleygu orð: „And so my fellow Americans, ask not what your country can do for you, ask what you can do for your country !"

Þjóðfélagið hagnast eða tapar á samfélagslegum viðhorfum einstaklinganna. Ef allir hugsa bara um eigið skinn og heimta og heimta, en leggja ekkert fram á móti, er það skýrt dæmi um kæruleysi gagnvart þjóðarheill og þjóðarhag. Samfélag sem býr við slík viðhorf í ráðandi mæli er ekki líklegt til að verða framtíðarvænt !

Hvers krefjumst við af kjörnum fulltrúum okkar á þingi og í ríkisstjórn ? Viljum við að þeir séu menn orða sinna ? Eða afsökum við þá þegar þeir svíkja orð og eiða og segjum: „Þetta er nú bara pólitíkin, hún er alltaf svona !" En hvernig verður pólitík til ef ekki fyrir atbeina manna. Erum við ekki enn og aftur að skammast út í áhaldið þegar við tölum þannig, í stað þess að krefjast þess einfaldlega að fulltrúar okkar í stjórnmálum landsins séu ábyrgir og sjálfum sér samkvæmir ?

Menn eru kjörnir til trúnaðarstarfa hjá ríki og sveitarfélögum, stéttarfélögum og félagslegum áhrifablokkum, en það er sjaldan farið mikið ofan í saumana á því hvernig maðurinn er í raun og hvort hann sé líklegur til að vera traustsins verður. Oftast eru menn bornir fram í krafti einhverra pólitískra afla og þá er frekar spurt um það hvort maðurinn sé flokkshollur en hvort hann sé þjóðhollur. Og menntun er auðvitað mikið atriði en langt frá því að vera það úrslitaatriði sem hún er yfirleitt talin í dag. Margt gráðum prýtt fólk hefur reynst afspyrnu illa í lykilstöðum og þá er það oft vegna þess að það er orðið svo sjálfumglatt og yfirmeðvitað um  eigið gildi að hrokinn fellir það. Það kann ekki lengur að umgangast aðra á eðlilegum mannlegum grundvelli. Það tekur háskólapróf í þessu og hinu en fellur svo kylliflatt við prófborð lífsins. Þess eru jafnvel dæmi að siðfræðimenntaðir menn hafi komið út með þeim hætti - þveröfugt við væntingar !

Traust er grundvallaratriði í öllum mannlegum samskiptum. Hefur þú velt því eitthvað fyrir þér hvernig þú átt að fara að því að umgangast mann með „eðlilegum hætti" sem engin leið er að treysta ? Hvernig þú átt að leysa samskiptamál við mann sem virðist gjörsneyddur ábyrgðarkennd ?

Færðu það ekki strax í andlitið að þú sért með fordóma ef þú sættir þig ekki við allt ? Er ekki bókstaflega verið að því að sérlaga nútímann að þörfum þeirra sem virða ekki neitt og brjóta allar reglur og þykjast samt stöðugt boðendur frelsis, víðsýnis og mannréttinda ? Og ef þú dirfist að andmæla einhverju af því sem veður uppi í dag fyrir tilverknað slíkra aðila og telur það ekki gott framlag til samfélags-uppbyggingar, færðu bara fordómastimpilinn um leið þvert yfir fésið á þér og það gæti jafnvel gerst á Fésbók !

Nú virðist nefnilega svo komið að „fordómaleysið sjálft" sé farið að framkalla fordóma algerlega fyrir eigin vélarafli og það bara í talsverðum mæli. Ég hef kallað slíkt  „rétttrúnaðarfordóma", en það þýðir að það er talið allt í lagi að þú sért með bullandi fordóma, ef þeir eru bara á réttri línu, ef þeir lyfta því upp sem virðast ráðandi sjónarmið á leikvelli lífsins í dag !

En það getur komið að því - og fyrr en nokkurn varir, að bresturinn í hjarta samfélagsins verði svo mikill að hann verði ekki bættur. Að við verðum komin svo langt út á villugöturnar að við verðum endanlega úti, að við náum ekki aftur heim til föðurhúsanna. Og við skulum átta okkur á því, að þegar sá sem alltaf hefur leitað hins eina, hefur verið sniðgenginn og forsmáður og honum úthýst úr hjörtum okkar, þá er ekki neitt öryggi lengur til staðar, ekki neitt traust sem varir lífið út og lengra en það !

Viljum við samfélag sem leiðist af þeim sem hæst hrópa og vilja í stöðugri uppreisn úthýsa Guði og góðum siðum ?

Ég held ekki og við þurfum því sannarlega, hvert og eitt, að sýna í verki að við viljum halda í okkar eigin rætur og treysta þær á Bjargi aldanna, sem er hinn Lifandi Guð ; að við viljum að Guð vors lands sé og verði áfram Guð vors lands og veiti þjóð okkar þá leiðsögn sem hún er, að minni hyggju, í meiri þörf fyrir nú en nokkru sinni fyrr !

 

 


ÞEIRRA EIGIN ORÐ -

í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar og á meðan styrjöldin stóð yfir.

Fróðlegt er að skoða hvað ýmsir leiðtogar og kunnir menn sögðu á þessum tíma og leggja mat á það í ljósi hinnar sögulegu framvindu málanna.

Tilvitnanir :

„Vér þekkjum þrjú ríki sem á undanförnum árum hafa ráðist á önnur ríki. Án tillits til mismunandi stjórnarfars, hugmyndakerfis og efnahags og menningarstigs þjóðarinnar sem á var ráðist, réttlæta öll ríkin þrjú árásirnar með einu og sömu hugmyndinni - barátta gegn kommúnismanum. Stjórnendur þessara ríkja hugsa í einfeldni sinni, eða réttara sagt, látast hugsa sem svo, að þeim nægi að mæla orðin „gegn kommúnisma" til þess að öll svik þeirra og glæpir í alþjóðamálum verði fyrirgefnir."

(Maxim Litvinov utanríkisráðherra Sovétríkjanna, á þingfundi Þjóðabandalagsins í september 1937.)

........... 

„Okkur er sagt, að við megum ekki skipta Evrópu í tvennar vígbúnar herbúðir. Eiga þá aðeins aðrar herbúðirnar að vera vígbúnar, hinar vígbúnu herbúðir einræðisherranna, og utan um þær útkjálkaþjóðir, sem bíða eftir því hver verði tekin fyrst og hvort þær verði kúgaðar eða einungis arðrændar ?"

(Winston Churchill, ræða í Manchester 10.maí 1938.)

...........

„Eining er aðalatriðið og aðalhættan sem yfir heiminum vofir nú, stafar ekki frá Þýskalandi né Ítalíu.....heldur Sovétríkjunum !"

(Sir Arnold Wilson, einn af fylgismönnum Chamberlains í breska þinginu, 11. júní 1938)

.........

„Ef ríkisstjórn hans hátignar er vanrækt hefur landvarnirnar, er hent hefur frá sér Tékkóslóvakíu ásamt öllu því sem Tékkóslóvakía þýðir í hernaðarmætti, er látið hefur oss ábyrgjast hervarnir Póllands og Rúmeníu, - kastar nú frá sér og hafnar hinum lífsnauðsynlega stuðningi Sovétríkjanna og leiðir oss með því á hinn versta hátt inn í hina verstu styrjöld, hefur hún illa verðskuldað það traust sem þjóðin hefur sýnt henni !"

(Winston Churchill í ræðu 27.maí 1939 )

........

„Mr. Chamberlain samdi sjálfur við Hitler og fór til Þýskalands til að hitta hann. Hann og Halifax lávarður fóru í heimsókn til Rómar, skáluðu við Mussolini og sögðu honum að hann væri besti náungi. En hvern senda þeir til Sovétríkjanna ? Þeir senda ekki einu sinni lægst setta ráðherrann, þeir hafa sent skrifara í utanríkisráðuneytinu. Það er móðgun...! Þeir hafa enga hugmynd um það sem við á eða alvöru heimsástandsins þegar heimurinn nötrar á barmi hyldýpisins.....!"

( David Lloyd-George í ræðu 29. júlí 1939 )

........... 

„Það var augsýnilega nauðsynlegt fyrir öryggi Sovétríkjanna gegn ógnun nazistanna, að sovétherirnir tækju sér stöðu á þessari línu. Skapaðar hafa verið austurvígstöðvar sem Hitlers-Þýskaland þorir ekki að ráðast á. Þegar Ribbentrop var kvaddur til Moskvu í vikunni sem leið var það til að fá að heyra um þá staðreynd og viðurkenna þá staðreynd, að fyrirætlanir nazista um Eystrasaltslöndin og Úkraínu yrðu ekki framkvæmdar."

(Winston Churchill, útvarpsávarp 1. október 1939.)

............  

„Sovétríkin höfðu molað Mannerheim-línuna og áttu auðvelt með að hernema allt Finnland, en gerðu það ekki og kröfðust heldur ekki skaðabóta fyrir tjón í styrjöldinni eins og hvert annað ríki hefði gert,en gerðu aðeins lágmarkskröfur. Við miðuðum friðarsamningana við það eitt að tryggja öryggi Leningrads, Múrmansk og Múrmansk-brautarinnar !"

(Vyachslav Molotov í ræðu í Æðsta ráði Sovétríkjanna 29. mars 1940.)    

............  

.... fasistarnir komu sínu fram í landinu yfirleitt og í hernum. Áróðurinn gegn kommúnistum var rykskýið er huldi hið mikla samsæri um að lama Frakkland og auðvelda störf Hitlers. Notadrýgstu verkfæri fimmtu herdeildarinnar  voru Weygand, Pétain og Laval. Á ráðuneytisfundi er haldinn var í Cangé nálægt Tours, 12. júní 1940, hvatti Weygand hershöfðingi stjórnina til að ljúka stríðinu. Aðalrök hans voru þau að kommúnistabylting hefði brotist út í París. Hann fullyrti að Maurice Thorez aðalforingi kommúnistaflokksins, hefði þegar búið um sig í forsetabústaðnum. Georges Mandel innanríkisráðherra símaði tafarlaust til lögreglustjórans í París er neitaði fullyrðingu Weygands, engar óeirðir væru í borginni, almenningur rólegur.... Jafnskjótt og Pétain og Weygand höfðu hrifsað  völdin í ringulreið hrunsins, með aðstoð Lavals og Darlans, flýttu þeir sér að afnema allt pólitískt frelsi, kefla alþýðuna og setja upp fasistastjórn."

Pierre Cot, fyrrum flugmálaráðherra Frakklands í bók sinni Triumph of Treason.)

............

„Samkvæmt athugunum mínum og samböndum síðan 1936, tel ég að auk forseta Bandaríkjanna hafi engin ríkisstjórn í heimi séð skýrar en Sovétstjórnin hættuna sem friðnum stafar af Hitler, nauðsyn sameiginlegs öryggis og bandalags friðsömu þjóðanna. Sovétstjórnin var reiðubúin að fara í stríð fyrir Tékkóslóvakíu. Sovétstjórnin sagði upp griðasáttmálanum við Pólland fyrir Munchen-samninginn til þess að greiða sér leið gegnum Pólland fyrir her sinn til hjálpar Tékkóslóvakíu, ef nauðsynlegt reyndist, að uppfylla skyldur sáttmálans. Jafnvel eftir Munchen er komið var fram á vor 1939, var sovétstjórnin fús til að leggja lið Bretlandi og Frakklandi ef Þýskaland réðist á Pólland og Rúmeníu, en hvatti til þess að haldin yrði alþjóðleg ráðstefna friðsamra ríkja til að ákveða, hlutlægt og raunhæft, hvað hvert ríki gæti gert og lýsa síðan yfir við Hitler ákvörðun um sameiginlegt viðnám. Þessari tillögu hafnaði Chamberlain vegna mótbára Póllands og Rúmeníu gegn þátttöku Sovétríkjanna. Allt vorið 1939 reyndi Sovétstjórnin að koma á bindandi samningi er fæli í sér samstilltar aðgerðir og samfelldar hernaðaráætlanir til að stöðva Hitler. Bretland neitaði að samþykkja sömu öryggisráðstafanir fyrir Sovétríkin hvað snerti Eystrasaltslöndin og Sovétríkin vildu samþykkja fyrir Bretland og Frakkland, kæmi til árása á Holland eða Belgíu. Sovétstjórnin sannfærðist um, og hafði talsverða ástæðu til þess, að ekki væri hægt að gera neinn raunhæfan, beinan og praktískan samning við Bretland og Frakkland. Hún var rekin út í griðasáttmála við Hitler."

(Joseph E. Davies sendiherra Bandaríkjanna í Moskvu í bréfi til Harry Hopkins, ráðgjafa Roosevelts forseta, 18. júlí 1941.)

......... 

„Ferill Japans síðasta áratuginn hefur verið samhliða og ferill Hitlers og Mussolinis í Evrópu og Afríku. Nú er hann orðinn meir en samhliða. Komin er á samvinna svo nákvæmlega skipulögð að herfræðingar fasistaríkjanna líta nú á allar álfur heims og heimshöfin sem einn gríðarstóran vígvöll. Árið 1931 réðist Japan á Mansjúkúó - fyrirvaralaust ! Árið 1935 réðist Ítalía á Abessiníu - fyrirvaralaust ! Árið 1939 réðist Þýskaland á Tékkóslóvakíu - fyrirvaralaust ! Síðar á árinu 1939 réðist Þýskaland á Pólland - fyrirvaralaust ! Árið 1940 réðist Þýskaland á Noreg, Danmörku, Holland, Belgíu og Luxembourg - fyrirvaralaust ! Árið 1940 réðist Ítalía á Frakkland og síðan Grikkland - fyrirvaralaust ! Árið 1941 réðist Þýskaland á Sovétríkin - fyrirvaralaust ! Og nú hefur Japan ráðist á Malakkaskaga, Thailand og Bandaríkin - fyrirvaralaust !  það er allt með sama mótinu !"

(Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna í ræðu til þjóðarinnar  9. desember 1941.) 

...........

„Hitler mun ráða öllu í Sovétríkjunum eftir mánuð !"

(Bandaríski þingmaðurinn Martin Dies 24. júní 1941.)

..........

„Það þyrfti stærra kraftaverk en nokkuð annað frá dögum Biblíunnar til að bjarga rauðliðum frá algerum ósigri á mjög skömmum tíma."

(Fletcher Pratt, New York Post, 27. júní 1941.)

...........  

„Sovétríkin eru dæmd til ósigurs og Bandaríkin/Bretland geta ekki hindrað skjótan ósigur þeirra fyrir leifturstríði nazistahersins sem á þeim dynur." 

(Hearstblaðið New York Journal American 27. júní 1941.)

.......... 

„Hvað snertir herstjórn og forustu, þjálfun og útbúnað eru þeir (Rússar) engir menn til að mæta Þjóðverjum. Timochenko, Budenny og Stern eru ekki af sömu stærð og Keitel og Brauchitsch. Hreinsanir og stjórnmál hafa lamað Rauða herinn."

(Hanson W.Baldwin, New York Times, 29. Júní 1941.)

.......... 

„Það þarf engar afsakanir eða skýringar aðrar en þær, að hæfileikaleysi, harðstjórn, vöntun á forustuhæfileikum, framkvæmdaskortur, stjórnarfar byggt á ótta og hreinsanir, hafa gert risann varnarlausan og duglausan. Sovétríkin hafa blekkt heiminn í aldarfjórðung en nú er blekkingunni lokið.... Við verðum að búa okkur undir þann skell að Sovétríkin verði algerlega þurrkuð út úr stríðinu."

(George E. Sokolski, 26. júní 1941. )

............  

„ Árið 1938 var ég kominn að þeirri niðurstöðu, að ef styrjöld brytist út milli Þýskalands annars vegar en Englands og Frakklands hinsvegar, myndi því annaðhvort ljúka með þýskum sigri eða eyðingu og niðurlægingu Evrópu. Ég mælti þessvegna með því, að England og Frakkland leyfðu Þýskalandi að þenjast út í austurátt, inn í Rússland án þess að fara í stríð."

(Charles E. Lindbergh, 30. Október 1941.)

............

„Fullnægjandi skýring hefur ekki fengist á því hversvegna almenningi í Bandaríkjunum hefur að mestu verið haldið í fáfræði um þær efnalegu framfarir sem orðið hafa í Sovétríkjunum síðustu tvo áratugi. Þegar Hitler réðist á Sovétríkin, var það nær samhljóða álit manna hér á landi að Stalín entist ekki lengi. Okkar „fróðustu menn" höfðu enga von um Sovétríkin. Þeir gerðu ráð fyrir skjótum sigri nazista. Flestir Bandaríkjamenn héldu að Sovétríkin myndu hrynja þegar nazistar sæktu fram. Hvernig og hversvegna var eðlilegri fræðslu um Sovétríkin haldið frá Bandaríkjamönnum allan þennan tíma ?"

( Ritstjórnargrein í Houston Post undir fyrirsögninni Fáfræðin um Sovétríkin, 20. nóv.1941.)

............

„Ef við byggjum við frið væri hægt að leiða þessar baráttuaðferðir hjá sér sem atferli manns sem stendur andlega á sama stigi og fólk á galdrabrennuöldinni. En við búum bara ekki við frið. Við eigum í ófriði og þær efasemdir og sú gremja sem þessi og svipuð ummæli hr. Dies vekja í hugum almennings gætu eins vel stafað frá Göebbels hvað afleiðingarnar snertir. Í raun og veru myndu afleiðingarnar fyrir baráttukjark okkar ekki vera eins skaðlegar ef hr. Dies væri á föstum launum hjá Hitler..... Við Bandaríkjamenn verðum að gera okkur ljóst hvað þessi óhugnanlega staðreynd hefur í för með sér."

(Henry A.Wallace varaforseti Bandaríkjanna 29.mars 1942.)

..........

„Ekki má láta nokkra gervi-föðurlandsvini sem nota hið helga prentfrelsi til að bergmála skoðanir áróðursmannanna í Berlín og Tokyo lama stríðsreksturinn."

(Franklin D.Roosevelt 28.apríl 1942.)

..........

Til allrar óhamingju eru sterk og athafnasöm öfl í þessu landi sem af yfirlögðu ráði ala á fjandskap í garð Rússlands... Ég vil bara nefna sem dæmi Hearstblöðin og Patterson-McCormick blaðaöxulinn, sérstaklega hin síðarnefndu... Ef þessir blaðaútgefendur hata Rússland og Stóra-Bretland, er hatur þeirra á þeirra eigin landi meira en hægt er að láta afskiptalaust...Þeir hljóta að hata sitt eigið land og fyrirlíta stjórnmálastofnanir þess, ef þeir að yfirlögðu ráði stefna að því að vekja hatur á þeim tveim þjóðum sem við verðum að fá aðstoð frá, ef við eigum að sigra Hitler."

(Harold L. Ickes innanríkisráðherra Bandaríkjanna í ræðu á fundi í Madison Square Garden sem haldinn var til að minnast 10 ára afmælis stjórnmálasambands milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna 8. nóv. 1943. )

...........

„Núverandi heimsástand bendir til þess að vonir siðmenningarinnar séu bundnar við lotningarverða gunnfána hins hugrakka,rússneska hers. Um mína daga hef ég tekið þátt í fjölda styrjalda og orðið áhorfandi að öðrum, auk þess sem ég hef kynnt mér af mikilli nákvæmni herferðir afburða foringja liðinna alda. Þar hef ég hvergi kynnst svo árangursríku viðnámi gegn þyngstu höggum óvinar, sem aldrei hafði beðið lægri hlut, en síðan sundurmolandi gagnárás, sem er að reka óvininn aftur til hans eigin lands. Umfang og mikilleiki þessa átaks gera það að mesta hernaðarafreki allrar mannkynssögunnar !"

(Douglas MacArthur hershöfðingi í Bandaríkjaher í ræðu til landa sinna 22. febr. 1942. )

...........  

„Engin stjórn, sem menn hafa nokkru sinni myndað, hefur verið fær um að standast svo þung og grimm áföll og þau sem Hitler hefur bakað Rússlandi....... Rússland hefur ekki einungis staðist og náð sér eftir þessi skelfilegu áföll, heldur hefur bakað þýsku hernaðarvélinni banvænan skaða, sem ekkert annað afl í heimi hefði getað bakað henni."

(Winston Churchill í ræðu í Quebec um Sovétstjórnina og forustu hennar, 31. ágúst 1943 .)

........... 

„Lýðræðisríkin eiga nú um tvo kosti að velja. Annar er að starfa með Rússlandi að endurreisn heimsins - því til þess er ágætt tækifæri, ef við trúum á styrk okkar eigin grundvallarsjónarmiða og sönnum það með því að fara eftir þeim. Hinn er að flækja okkur í ráðabruggi við öll afturhaldssöm og lýðræðisfjandsamleg öfl Evrópu, en eini árangur þess yrði að gera Kremlstjórnina okkur fráhverfa."

(Ritstjórnargrein í New York Herald Tribune 11. febrúar 1945. )

..........,,..........,,..............,,................,,...............,,...............,,..............,,...............,,..........

 


Stórir Kanar og litlir bretar !

 Árið 1945 var tímamótaár í heimssögunni á margan hátt. Eitt af því sem var endanlega fullbókað af veruleikanum á því atburðaríka ári, stimplað og staðfest, var að Stór-Bretinn var liðinn undir lok og Stór-Kaninn tekinn við !

Allar götur síðan hefur bretinn verið slík undirlægja Kanans að það er með ólíkindum miðað við þá sögu sem fortíðin geymir. Í Súezdeilunni 1956 kom þetta til dæmis skýrt í ljós þegar Kaninn skipaði bretum og frökkum að hundskast heim frá Egyptalands-ævintýrinu, annars yrði krafist greiðslu á öllum skuldum þeirra við Bandaríkin, og forustumenn þessara gömlu stórvelda Evrópu lögðu niður skottið og skömmuðust heim. Forsætisráðherrar beggja landanna neyddust til að segja af sér og þessi gömlu yfirgangsríki voru þannig beygð í duftið. Eftir það var enganveginn hægt að setja stóran staf við breta og frakka þegar Kaninn  var annarsvegar. Eggið sem klaktist út 1776 var farið að ráðskast heldur betur með hænumömmu !

En það byrjaði alvarlega að gefa á byrðing breska heimsveldisins þegar í fyrri heimsstyrjöld, því þá þegar voru Bandaríkjamenn komnir á bullandi sóknarsiglingu á kostnað breskra áhrifa víða um heim.  Kanar stækkuðu og bretar minnkuðu !

Winston Churchill horfði til dæmis manna mest breskra forsætisráðherra vestur um haf og þurfti margs við. Hann var alla tíð maður margra hliða og satt best að segja ekki sérlega geðfelldur persónuleiki. Hefði hann hrokkið upp af, segjum 1938, hefði hann áreiðanlega fengið þau eftirmæli að hann hafi verið algjörlega misheppnaður stjórnmálamaður. En stríðið bjargaði honum og gerði hann að goðsögn í lifanda lífi. En hversvegna varð Churchill eftirmaður Chamberlains, maður sem var eiginlega búinn að vera utangátta í breska íhaldsflokknum um nokkurt skeið og litinn hornauga af þeim sem með forustu flokksins höfðu að gera ?  Jú, stjórnarstefnan sem fylgt hafði verið, hafði beðið algert skipbrot eftir Munchen-samningana, og allir forustumenn flokksins voru þar með einum eða öðrum hætti samsekir.

Það mistókst að beina Þýskalandi til stríðs í austri, gegn Sovétríkjunum, eins og því hafði verið ætlað að gera, því Hitler lét auðvitað ekki lengi að stjórn. Þau vestrænu öfl sem pumpuðu hann upp, Montague Norman og Englandsbankaklíkan, Sir Henry Deterding, Vickers/Armstrong hringurinn og Schneider-Creuzot hringurinn, Henry Ford og aðrir sem höfðu lagt fé til stefnunnar „Drang Nach Osten," stóðu fyrr en varði eins og glópar og höfðu verið hafðir að fíflum af nazistastjórninni. Hitler vildi fyrst af öllu gera upp við Frakkland !

Churchill hafði gagnrýnt þessa „vináttustefnu við Hitler", því þótt hann hafi alltaf verið hræddur við „rauðu hættuna" sem svo var kölluð og löngum varað við henni, var hann eini þekkti breski stjórnmálamaðurinn til hægri sem virtist gera sér ljósa grein fyrir hvítu hættunni sem var að hlaða sig upp í Þýskalandi.

Hann hafði ítrekað varað við Hitler og þegar íhaldsflokkurinn var búinn að verða sér til skammar með undanlátsseminni við nazista, var engum hægt að tjalda til forustu nema honum. Eitthvað var að vísu reynt að ota Halifax lávarði fram, en hann tók sjálfur af skarið með það að gefa ekki kost á sér. Svo „ nú var úlfshali einn á króki" eins og segir í gömlum íslenskum bókum um það þegar fárra kosta er völ.

En Churchill stóð óneitanlega fast í lappirnar sem stríðsleiðtogi og landar hans kunnu vissulega að meta hann á sinn hátt. En breska þjóðin sýndi samt einn mesta lýðræðisþroska sem nokkur þjóð hefur sýnt, þegar hún afsagði hann í kosningunum árið 1945. Breskir kjósendur vissu að bestu kostir karlsins höfðu nýst vel í stríðinu og komið þjóðinni að góðu gagni, en þeir höfðu ekki áhuga á því að láta gamla brýnið stjórna að stríðinu loknu. Enda sýndi það sig í ræðunni í Fulton í Missouri 1946, að Churchill var enn sami gaurinn og hann hafði verið fyrir stríð og hafði lítið lært til friðar. Hann hefði þessvegna verið til í krossferð gegn „rauðu hættunni" strax í stríðslok ef því hefði verið að skipta. Hann átti ólíkt meira sameiginlegt með Truman en Roosevelt !

Í augum margra var Churchill þó ímynd breskrar seiglu og breskra kosta, en það gleymist mörgum og sumir vita það hreint ekki, að hann var ekki breti nema að hálfu. Móðir hans var amerísk svo Churchill hinn mikli breti, var í raun hálfur kani ! Síðan 1945 hafa líka flestir bretar virst vera hálfir Bandaríkjamenn og sá helmingur þeirra sem virðist  bandarískur hefur sjáanlega ráðið allri ferð.

Allir forsætisráðherrar breta hafa verið 100% bandarískar undirlægjur frá 1945 að þeim meðtöldum sem núna situr. En það hlægilegasta við þessa föstu stöðu, er að bretinn er enn í dag að leika sig stóran, eins og ekkert hafi breyst. En hann er sannarlega hvorki stór í dag né sjálfstæður sem slíkur !

Og það grátbroslegasta er -  að eina konan sem gegnt hefur forsætisráðherra-embættinu hjá bretum, reyndist í því starfi öllum körlunum hrokafyllri og þóttist jafnan tala fyrir mikið stórveldi. Líklega hefur hún meira að segja talið sig prívat og persónulega vera stórveldi út af fyrir sig og sumir trúðu því líka, enda eru  hannesar af því tagi út um allar jarðir. En blekkingar eru ekki staðreyndir og staðreyndin er að Kaninn er Stóri aðilinn en bretinn sá litli !

Litlabretland er því nú á dögum bara fjarstýrt peð í höndum Stór-Kanans og hefur verið það allar götur frá 1945. Það er þannig heill mannsaldur, síðan Stóra-Bretland lagðist af sem slíkt og farið hefur fé betra !

Þungamiðja heimsmálanna er að færast á nýjar stöðvar. Kínverjar virðast endanlega hafa náð vopnum sínum eftir arðrán og kúgun fyrri tíma og fátt virðist hamla þeim nú um stundir, Indland er öflugt ríki á sinn hátt og fleiri ríki hafa mikla vaxtarmöguleika til valda og áhrifa í náinni framtíð. Enginn veit í raun enn hvernig Rússland kemur til með að verða í komandi tíð en núverandi ástand mála þar virðist vægast sagt óstöðugt og eykur ekki bjartsýni manna á frið í veröldinni.

En það er ljóst að Bandaríkin eru í dag hnignandi heimsveldi, enda mörg ríki búin að fá sig fullsödd af langtíma yfirgangi þeirra og sætta sig ekki lengur við algjört forræði þeirra eins og bretinn. Auk þess er bandaríska ríkið skuldum vafið og ef það þyrfti að greiða Kínverjum fyrirvaralítið allt sem það skuldar þeim, gæti verið að Stór-Kaninn lenti í svipuðum vanda og bretar og frakkar í Súez-deilunni forðum og yrði jafnvel eftir það lítill kani ?

Heimsveldi koma og fara, það segir mannkynssagan okkur. Sovétríkin hafa hrunið á okkar dögum og í fyllingu tímans munu Bandaríkin hrynja líka - og líklegast einnig af innanskömm !

Þá verður þessi veröld trúlega enn erfiðari heimur fyrir þá sem þá verða athvarfs og öryggislausir, eftir að hafa leikið sig stóra í skjóli sem horfið er. Ýmsa mætti svo sem staðsetja í þeim hópi, en eitt er víst að þar verður litla breta helst að finna í breyttum heimi framtíðarinnar !

 

 


Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar !

Það er löngu orðið knýjandi mál að endurreisa verkalýðshreyfinguna, byggja hana upp aftur og blása lífi í hana á ný. Við almennir þegnar þjóðfélagsins megum ekki við því að hreyfingin sé áfram í tröllahöndum eins og verið hefur og öll barátta fyrir velferð og viðgangi launafólks í landinu sé eyðilögð í aðalstöðvum hreyfingarinnar sjálfrar, af fölskum forustumönnum sem aldrei hefðu átt að komast þar inn fyrir dyr. Öll samningagerð síðustu ára fyrir almennt launafólk hefur verið svikin af þeim sem síst skyldi og þar hefur ekkert fæðst nema óburðir óburða, hvert steinbarnið af öðru !

Það fólk sem er í forustu verkalýðshreyfingarinnar nú, og hefur verið um allt of langt skeið, er gjörsamlega gagnslaust lið og frá mínum bæjardyrum séð ekkert nema blygðunarlausar afætur fyrir hag hreyfingarinnar. Það þarf að vísa því á dyr fyrir fullt og allt og því fyrr því betra. Bestubitahjörðin í kringum Gylfa Arnbjörnsson og aðra manngjörða innanstokksmuni í höfuðstöðvunum er nógu lengi búin að verða sér til skammar í forustu verkalýðshreyfingarinnar. Vesaldómurinn innan stjórnar Alþýðusambands Íslands er svo mikill og alþekktur orðinn, að margir halda víst að ASÍ skammstöfunin standi fyrir Aðal Svínarí Íslands !

Það þarf að rjúfa samtryggingu mafíunnar í vítisturni vélráðanna og valdaeinokun hennar á samningamálunum og færa samningsvaldið aftur út til félaganna. Það verður að virkja launafólk á ný til starfa í hreyfingunni með því að gefa því kost á að semja fyrir sig sjálft. Stóra samflotið er aðeins ávísun á spillta starfshætti og pólitískar millifærslur. Það er löngu orðið úrelt fyrirkomulag og vinnur nú gegn því sem því var ætlað að gera í upphafi.  Lygaáróðri þjóðarsáttarkjaftæðis og öðru slíku verður að vísa til föðurhúsanna. Slíkt blekkingartal er markleysa og bara sett fram til að breiða yfir þá staðreynd, að vangefin stjórnvöld ætlast alltaf til að almenningur borgi brúsann af öllu misferli sem á sér stað í málum þjóðarbúsins vegna spillingar kerfisklíkunnar, og þegar verkalýðshreyfingin er í tröllahöndum verst hún hvorki né berst !

Núverandi forseti ASÍ, sem er innvígður og innmúraður fyrsti umboðsmaður lífeyrissjóðakerfisins, á enga samleið með almennu launafólki í landinu, skoðið bara hvað hann hefur í laun og hvernig hann og hans líkar halda á málum ? Hann er fyrst og síðast í því hlutverki að gæta hagsmuna fjármagns sem af fólkinu er tekið, en skilar sér varla í mýflugumynd til þess aftur.

Lífeyrissjóðakerfið er í einu orði sagt skítlegt kerfi og hefur líklega skaðað hagsmuni launafólks meira en flest annað. Það er skoðun mín að það sé engin siðferðileg hlið til varðandi það kerfi - að mínu mati er það einfaldlega siðlaust. Tilvist þess er byggð á ranglæti og þjónar því markmiði fyrst og fremst að framlengja launamisréttið í landinu út yfir gröf og dauða !

Það er með ólíkindum hvað margir voru blekktir með þessu kerfi og héldu í upphafi og fram eftir árum að það væri gott fyrir almennt launafólk. Ég segi bara - fjandinn hirði lífeyrissjóðakerfið í heilu lagi - og öll þau skítlegheit sem skapast hafa í kringum það. Það er ekkert nema enn eitt arðránskerfið sem níðir skóinn niður af almenningi og  er þeim frekast til bölvunar sem það þykist vinna fyrir !

Verkalýðshreyfingin þarf að vera undir stjórn almenns launafólks, hún þarf að byggja líf sitt á þeim grundvallartengslum því hún er fólksins vegna til. Sérhver tilhneiging  í stjórnunarmálum þar, sem gengur út á að skapa valdakerfi til einkanota, er andstæð hugsjónum hreyfingarinnar og gengur þvert á almenn mannréttindi og á ekki að líðast.

Verkalýðshreyfingin er sem stendur í tröllahöndum og það þarf að leysa hana úr fjötrum forhertrar fjármagnselítu og höggva niður þann steingerða flækjuskóg sem hún situr í. Menn sem hafa setið sem verkalýðsfélagsformenn áratugum saman, fyrir spillingarkraft samtryggingar og sérhagsmuna, og eru löngu liðin lík í hugsjónalegum skilningi, verða að víkja svo ferskir vindar geti blásið á ný.

Það þarf að gera 1. maí aftur að kraftmiklum baráttudegi í þágu þeirrar fjöldahreyfingar sem hann er vígður og sýna með því og sanna að almennt launafólk eigi aftur sitt varnarþing - frjálst, mikilfenglegt og umfram allt mannheilt, - lifandi samtök sem voru sköpuð til þess í upphafi og eiga að vera til þess að standa á þeim meginrökum mannlegs samfélags að velferð fólksins séu æðstu lögin !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 171
  • Sl. sólarhring: 304
  • Sl. viku: 1580
  • Frá upphafi: 315561

Annað

  • Innlit í dag: 158
  • Innlit sl. viku: 1284
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 156

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband