Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Hugleiðing um hégóma !

Fjölskyldumynstrið á Íslandi hefur breyst mjög hin síðustu ár. Hin fyrrum hefðbundna fjölskylda virðist nánast á förum og að mörgu leyti mun flóknari samsetning komin í staðinn. Föður og móðurímynd er á hverfanda hveli og hlutverkum þar skipt í andstæðu sína, ef svo má að orði komast !

Allt þetta vekur miklar spurningar um það hvernig búið sé að börnum og uppeldi þeirra í þeirri fjöleðlisútgáfu sem virðist vera á þessum málum núna. Stöðumynd heimilisaðstæðna í nútímanum er sannarlega orðin miklu losaralegri en hún var og ég fæ ekki betur séð en hún sýni flöktandi ferli í flestu !

Við erum líklega komin á þann stað, að kalla fram ókostina við þá dýrkun einstaklingshyggjunnar sem í gangi hefur verið undanfarin ár. Þegar sjálfið hefur algeran forgang í lífi fólks verður fjölskylda, hjónaband, heimili og annað að líða fyrir það. Maður sem er bara í því að umfaðma eigið sjálf missir smám saman frá sér allt sem gefur lífinu raunverulegt gildi !

Það er ljóst að staða mannsins í nútímanum er slík að hún undirstrikar mikið öryggisleysi, enda hafa menn lengi verið í því hlutverki að höggva allar þær rætur frá sér sem hafa veitt bindingu við gömul og góð gildi. Uppsöfnuð sannindi í reynslu liðinna kynslóða hafa verið meira eða minna hundsuð og í nútímanum virðast menn helst uppteknir af því að hrokast upp og líta smáum augum á allt sem áður hefur verið !

En einu sinni var ort : „Það voru kallar á þeirri tíð/en þeir eru allir dauðir !" Og svo mun enn verða, að við núlifandi fólk munum safnast til feðra okkar og mæðra á sama hátt og fyrirrennarar okkar hafa gert, en spurning er hvernig eftirmælin verða um okkar lífsskeið ; munu þeir sem eftir okkur koma sjá mikla ástæðu til að meta verk okkar eða þakka fyrir okkar framlag í þeirra þágu ? Ég verð því miður að segja, að ég sé ekki að við séum yfirleitt að gera góða hluti með tilliti til hags þeirra sem á eftir koma, en það eru skiljanlega þeir sem mest eiga skilið af okkur, börn okkar og afkomendur !

Það er sannarlega ærið margt sem ég skil ekki en vildi þó feginn geta skilið. Ég get til dæmis aldrei skilið hvað menntun, sem í eðli sínu ætti að teljast til þess sem gott er, virðist oft snúist upp í það að fylla fólk af yfirlæti og heimskulegum hégóma ?

Ætti aukin þekking og menntun ekki að vera vörn gagnvart slíkum ókostum í mannlegu fari, og ef svo er, af hverju skilar það sér þá jafn illa og raun ber vitni ? Eða er mannlegt eðli virkilega þannig - að það vinni með öfugum hætti úr því sem ætti að vera því til ávinnings ? Það virðist að minnsta kosti koma þannig fram hjá býsna mörgum !

Þegar minnst er á hégóma, og þá ekki hvað síst í tengslum við menntahroka, kemur í ljós að fólk sem þjáist af þeim andskota er mjög upptekið af því að sérmerkja sig og sitt skyldulið með einhverjum þeim hætti sem athygli getur vakið. Þetta kemur til dæmis skýrt fram í mannanafnavali nú um stundir, því geysileg tilhneiging er til staðar hjá mörgum þar að sýna frumlegheit sjálfsins þegar eigin nöfn eru túlkuð og framsett og ekki síður þegar nöfn eru valin á afkvæmin !

Það er jafnvel svo komið að fyrrum góð og gild málfræði verður að víkja þegar nafnaval er annarsvegar. Karlkynsorð og kvenkynsorð eru þá bara gerð að samkynsorðum því allt skal vera frjálst í þessum efnum og vera skýr og lifandi vitnisburður um víðsýna og fordómalausa hugsun, samkvæmt tíðarandanum. En slíkt atferli gegn reglu og skikkan mála getur aðeins átt sér stað í samtíma sem einblínir á orsakir til ávinnings í augnablikinu en hirðir ekkert um afleiðingar til lengri tíma litið. Og í því sambandi skal það undirstrikað, að niðurrif gilda verður aldrei neitt sem á skylt við uppbyggingu !

Í dag er ekki óalgengt að sjá fjölskyldulýsingu með eftirfarandi hætti: „ Sigurlína Sóldís Sigurhjartar og Margrétardóttir  er í sambúð með Kjartani Goða Geirþrúðarsyni og saman eiga þau soninn Kolbjörn Skugga og dótturina Kolgrímu Skímu. Áður átti Sigurlína soninn Eldgrím Orra og Kjartan dótturina Mildu Mánadís. Sigurlína starfar sem menningarfulltrúi með sérfræðiþekkingu og Kjartan er yfirumsjónarmaður kerfisfræðimála hjá ríkinu !"

Það virðist mega lesa út úr texta af þessu tagi, að þarna sé eitthvað stórkostlega flott á ferðinni, eitthvað óbundið af öllu því sem er gamaldags og ekki forsvaranlegt í glæstu núinu !

En ekkert er nýtt undir sólinni og fólk í dag hefur ekkert fram yfir það fólk sem áður hefur lifað í þessum heimi. En það hefur sýnilega í mörgum tilvikum skammtað sér svo ríflega meðgjöf af hroka og gráðutengdum hégóma, að það yfirgengur líkast til allt það sem áður þekktist í hliðstæðum efnum ! Í arf af því taginu frá fyrri tímum hefðu menn þó eiginlega síst átt að sækja, því þar leiðir ekkert til göfgunar mannsandans en hinsvegar allt til FALLS !

Margt varðandi hégómadýrð fólks og mikillæti er auðvitað afar hlægilegt í sjálfu sér og sýnir hvern sem upphefur sjálfan sig í raun enn aumingjalegri en ella, í andlegri vesöld og nöktum yfirborðshætti. Þeir eru nefnilega margir sem sífellt eru að burðast við að verða meiri menn sem aldrei hafa náð því að verða menn !


Lífsstíll eða trú, hvert stefnum við ?

Það er fátt í okkar heimshluta sem hefur haft eins mikil áhrif síðustu 2000 árin og kristindómurinn. Nánast hver einasta manneskja sem hefur virkilega verið öðrum til blessunar í verulegum mæli á lífsleið sinni á Vesturlöndum á þessu tímaskeiði hefur verið kristin og nærst andlega af brunni Krists !

Við getum nefnt þar ótal nöfn, en það er ekki efni þessa pistils, heldur að fara nokkrum orðum um stöðu hinna kristnu á Vesturlöndum í dag og þar er Ísland innifalið. Í siðrænum efnum stöndum við þar núna sem vegir virðast liggja til allra átta og það virðist svo að æ fleiri hallist að því að prófa eitthvað nýtt, jafnvel bara tilbreytingarinnar vegna.

Þær hættur sem því fylgja óhjákvæmilega eru afgreiddar með ábyrgðarlausum hætti og að því er virðist fullkomnu kæruleysi, enda sálarleg staða fólks í nútímanum orðin afskaplega doðakennd eftir efnishyggjueinræði síðustu áratuga. Tilfinning fólks fyrir andlegum verðmætum virðist því orðin mjög brotakennd og hreint út sagt í sögulegu lágmarki !

En sú var tíðin að kristindómurinn var helsta vörnin við öllu því sem vildi ýta undir að fólk ætti mök við andaheiminn. Og þó margt í þeirri varnarviðleitni færi stundum á verri veg en æskilegt hefði verið og sumir sem áttu að vita betur hafi valdið öðrum tjóni, er ljóst að mörgum var oft forðað frá meiriháttar sálargrandi meðan vökul varðstaða var fyrir hendi, gegn þeirri mögnuðu hjátrú og þeim hindurvitnum sem oftast eiga svo greiða leið að fólki sem á sér einhverja drauma um að verða andleg stórveldi í krafti einhverra strauma að handan !

En það er með kristindóminn eins og margt annað, að fólk getur verið í tengslum við hann með margvíslegu móti. Því miður virðast mjög margir meðtaka hann nú á tímum sem einhversskonar form á lífsstíl, en þeim virðist aftur á móti fækka sem beinlínis vilja rækta hann í lífi sínu sem leiðina til sambands við hinn Lifandi Guð, Skapara himins og jarðar.

Margt fólk sem tilheyrir hinum kristna geira, er í raun fólk sem aðhyllist kristin gildi fyrst og fremst sem lífsstílsmál, en áskilur sér um leið fullan rétt til að velja þar og hafna eftir eigin geðþótta. Það er því ekki svo, að það viðurkenni alfarið Guðs Orð sem grundvöll réttrar breytni, því það er hreint ekki óalgengt að ýmis tíðaranda-sjónarmið hafi þar betur. Í því sambandi má benda á viðhorf til kvenréttinda og viðhorf til mannréttinda í þeim ofurvíða skilningi sem lagður er í þau mál á nútímavísu !

Svo Biblían er fyrir slíku fólki, þó það segist vera kristið, ekki bjargföst undirstaða lífssjónarmiða eða handbók fyrir lífsgönguna, heldur öllu fremur viðmiðun, sem virðist býsna mikið á fljótandi gengi, þegar tíðarandinn er annarsvegar !

Slík afstaða er, eins og gefur að skilja, enganveginn undirstöðugóður kristindómur og raunar spurning hvort þar er yfirleitt um kristindóm að ræða ?  Það er nefnilega ljóst, að þaðan hafa komið ýmis tækifærissinnuð málamiðlunarviðhorf í þann samsuðugraut tíðarandans sem ræður sjónarmiðum í dag og það vægast sagt á mjög villukenndan hátt !

Það virðist orðið tómt mál að tala um þjóðfélög á Vesturlöndum nú á dögum sem kristin. Það fer ekki mikið fyrir skýrum línum í því sem þar kallast kristindómur í dag og býsna margir sem eru í forsvari fyrir kirkjudeildir og söfnuði nútímans virðast öllu öðru fremur - og fyrst og fremst - vera á vinsældavakt í starfi sínu.

Það er sagt að mikilhæf og mæt Guðs kona sem nú er látin, hafi sagt fyrir nokkrum árum, að þó Andi Guðs hyrfi alfarið af jörðinni myndi 90% kirkjustarfs halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Það segir kannski sitt undir hvaða áhrifum er verið að vinna víða í nafni kristnihalds nú á dögum !

Það er meira framboð af svokölluðu andlegu fóðri í dag en lengst af hefur verið og kemur þar margt til. Upplýsingatæknin er orðin miklu meiri en áður þekktist og margir hafa tekið hana í þjónustu sína og á ýmsum mjög mismunandi forsendum. Alls konar lífslausnir eru boðnar fram nú á tímum sem lítið komu við sögur áður og austurlensk hindurvitni vaða uppi um öll Vesturlönd !

Það er þó sammerkt með flestu af þessu sem boðið er fram, að það kemur oftast fljótt í ljós að það snýst aðallega um peninga. Það eru ótal tilboð um yoga þetta og yoga hitt, allt á það að hjálpa fólki, en það kostar hreint ekki svo lítið. Svo þekkjum við söguna um heilun og reiki og hvað þetta allt saman heitir, sem á að lyfta fólki upp á við og opna þetta og hitt fyrir því sem áður var lokað. Og þar verða menn fljótt meistarar að mennt og útskrifaðir sem slíkir til að leiða aðra !

Og svo er til fólk sem er önnum kafið við að lyfta þeim átrúnaði sem þjóðin hvarf frá fyrir þúsund árum, vegna þess að flestir hinna bestu manna þess tíma sáu að hinn nýi siður var miklu háleitari, kærleiksríkari og fegurri á allan hátt en sá gamli. En þetta fólk telur sig í dag vita miklu betur en göfugmennin Gissur hvíti, Hjalti Skeggjason og Síðu-Hallur, og það kafar ofan í forneskjubrunna fyrri tíma af mikilli áfergju og leitar svara í dularfræðum goðsagnaheimsins !

Það er Tolkien-andinn sem tjáir sig þar eins og yfirleitt alls staðar þar sem leitast er við að setja gömul aflögð goð á stalla á ný. Menn verða oft sem andsetnir af yfirþyrmandi hugmyndum sem sækja að þeim og ég tel mjög líklegt að svo hafi verið með Tolkien. Hann var að sjálfsögðu starfandi prófessor í háskóla og ég spyr bara, hvað annað hefði hann átt að vera ?

En sem fyrr segir, framboðið af svokölluðu andlegu efni er mikið í dag og það segir okkur einmitt að þar hljóti ýmislegt að vera sem þörf sé að varast. Magnið er yfirfljótandi en gæðin áreiðanlega ekki. Og spyrja má, til hvers höfum við dómgreind ef við notum hana ekki okkur til verndar og viðgangs í lífinu og til að varast það sem varast ber ?

Það ætti flestum að vera ljóst, að það er umtalsverður aðgangseyrir að öllum þessum yfirlýstu andlegu gæðum sem verið er að bjóða fram nú á dögum, því það er með ólíkindum hvað margt fólk - sem segist bara vera fyrir andlega hluti og vera stórlega upplýst í þeim efnum, virðist þurfa mikið af peningum, og hvað það teygir sig langt eftir þeim efnislegu verðmætum sem mölur og ryð fær grandað !

Fégræðgin virðist vera þar nánast óseðjandi og það ætti nú að geta verið mörgum viðvörun um að ekki sé nú allt eins og það ætti að vera !

Það er til drjúgt af fólki í þessu litla landi okkar sem leggur sig niður við það að spá fyrir öðrum og þykist geta upplýst menn með þeim hætti um það sem á eftir að gerast. Og eins og fyrr segir, er fjáröflunarviðleitnin á fullu í kringum slíkt !

Það er jafnvel svo komið víða, að þau mörk sem ættu skiljanlega að vera á milli  menningar og kukls eru farin að verða ákaflega óskýr, svo að það sem í eina tíð hefði með afgerandi hætti verið talið ómerkilegt kukl, virðist núorðið geta verið talið til menningar og jafnvel vera styrkt sem slíkt !

Það sést líka á ýmsu, að sitthvað af því sem tilheyrir föstum lífsháttum Sígauna, virðist eiga sér sínar hegðunarsamstæður hérlendis, og með hliðsjón af því mætti segja að íslenskir sígaunar séu til sem stundi sambærileg „tekjuöflunar-trix !"

Að öllu samanlögðu má segja, að býsna margir sem segjast vera kristnir í þessu landi, hafi lífsstíl og sterkar tengingar við afkomumál sem greinilega eru af öðrum anda en þeim sem heiðrar raunverulegan kristindóm. Og hin nöturlega staðreynd er, að stærstur hluti þess sem kallast kristindómur í landinu er út í gegn kaldrifjuð og óforskömmuð málamiðlun á kostnað kristinna gilda !

Það er því skiljanlegt að íslensk þjóð hafi lent í hruni, og neiti enn í forherðingu að læra nokkuð af því, og taki þannig stefnuna í fullkominni blindni beint í annað og verra hrun !

Málið er nefnilega þveröfugt við það sem tiltekinn forsætisráðherra sagði hér um árið. Guð blessar ekki Ísland meðan þau öfl ráða hér ferð sem hatast við kristin gildi og stunda niðurrif á öllu því sem mest og best hefur varðveitt þessa þjóð í gegnum aldirnar !

Við erum á andlegum og siðferðilegum villugötum með okkar samfélag í dag og aðeins bænir fyrri kynslóða verja okkur endanlegu syndafalli !

Við stefnum ekki inn í bjarta framtíð, við stefnum inn í sorta siðleysunnar !

 

 


Hugsað til nokkurra genginna Skagstrendinga (Vísur úr safni )

Kveð ég glatt um gamla skagga,

gott er að halda við þá tryggð.

Seint mun gleymskuþögnin þagga

þeirra lof í okkar byggð !

 

Tóti Flankur flottur var,

flugið tók með galsa.

Fyrstur út á fjalirnar

fór með tónum valsa !              ( Þórbjörn Jónsson 1917-1996 )                                               

 

Svo var Björgvin bróðir hans

býsna hress og glaður.

Góður karl í fjörsins fans,

félagshyggjumaður!                    ( Björgvin Jónsson 1921-1991 )

 

Hvar sem dagsins driftar von

duginn kveikti sanna,

reyndist  Jóhann Jakobsson

jafnan fremstur manna !            ( Jóhann Jakobsson 1913-1987 )

 

 

Bjössi á Jaðri að jöfnu við

járn og tré var kenndur.

Vígði af snilld um verkasvið

vaskar starfsins hendur !              ( Björn Sigurðsson 1913-1999 )

 

Gunnar Helga í gíra tók,

gætti að ráði snjöllu.

Vörubílnum víða ók,

verður trausts í öllu !                   ( Gunnar Helgason 1924-2007 )

 

Spjall þó bættist spotti við

spillti ei gleði í taugum.

Snorri Gísla glotti við,

glettnin skein úr augum !             ( Snorri Gíslason 1918-1994 )

 

Ef ég heyri um hraustan mann

 hlýða skyldum öllum,

þá fer ég að hugsa um hann

Hadda á Iðavöllum !                     ( Haraldur Sigurjónsson 1914-1986 )

 

Upp í mörgu oft var hrist,

yndið toppum náði.

Benni Ólafs lék af list,

lífsgleðina tjáði !                                 ( Bernódus Ólafsson 1919-1996 )

 

Bjarni Lofts með syfjusvip

sínum fylgdi vana.

En höndin tjáði gæðagrip,

gott var að taka í hana !                   ( Bjarni Loftsson 1920 -1990 )

 

Árni á Bergi búinn ró

beitti sér til verka.

Hér á vegum hafði þó

heilsu ekki sterka !                             ( Árni Max Haraldsson 1929-1976 )

 

 

 

 


Hinn einvaldi "Stalín" bandarísku ríkislögreglunnar !

Bandarísku ríkislögreglunni FBI var eins og kunnugt er, stjórnað áratugum saman af J. Edgar Hoover (1895-1972), manni sem bjó að margra mati yfir ýmsu sem ekki var sérlega geðslegt. Hann varð býsna snemma eins og lítill Stalín í bandaríska stjórnkerfinu og svo voldugur að enginn þorði að blaka við honum. Það var árið 1924 sem hann tók um valdataumana í stofnun þeirri sem var fyrirrennari FBI og síðan var hann nánast alvaldur forstjóri ríkislögreglunnar allt frá endurnýjaðri stofnun hennar 1935 til dauðadags 2. maí 1972. Hann hélt forstjórastöðunni þó hann hefði átt að vera hættur störfum nokkrum árum fyrr aldurs vegna. Hoover var vægast sagt mjög umdeildur maður í bandarísku samfélagi, en svo virðist sem hann hafi alltaf átt „sína verndara" !

Sumir telja að hann hafi stundað það að safna viðkvæmum upplýsingum um valdsmenn í Washington og haft þær sem tryggingu fyrir því að hann væri látinn í friði og fengi að fara sínu fram. Hvernig sem því hefur verið varið, er ljóst að J. Edgar hélt völdum ótrúlega lengi og enginn virtist þora að kljást við hann þó margt þætti athugavert við embættisverk hans og starfsaðferðir.

Harry Truman á að hafa sagt eitthvert sinn, „að Hoover hafi breytt FBI í sína einkalögreglu, þar sem menn væru á kafi í kynlífshneykslum og fjárkúgun og allir þingmenn væru hræddir við Hoover".  Truman á svo að hafa bætt við,  „við þurfum enga Gestapo eða leynilögreglu hér" ! Og þegar minnst er á Gestapo, verður manni hugsað til Reynhard Heydrichs, sem sagt er að hafi safnað persónulegum upplýsingum um forustumenn nazistaflokksins á sínum tíma, líklega til að ryðja sér braut til meiri valda seinna meir og kannski hefur hann hugsað sér með tíð og tíma að taka við af Hitler. En tékkneskir frelsisvinir komu Heydrich fyrir kattarnef og það var mikil landhreinsun þótt fórnarkostnaðurinn yrði vissulega hár.

J. Edgar Hoover var sem fyrr segir umdeildur í meira lagi. Lífshættir hans þóttu býsna dularfullir og ýmsar sögur spunnust um einkalíf hans. Hann kvæntist aldrei en var þó orðaður við sumar konur. Nánasti samstarfsmaður hans Clyde Tolson var að margra mati meira en samstarfsmaður og samband þeirra félaganna uppspretta mikilla sögusagna alla tíð og er enn.

Eitt af því sem Hoover var gagnrýndur fyrir, var að hann virtist ekki vilja hafa mjög frambærilega menn í FBI. Það mátti enginn skyggja á hann þar. Melvin Purvis var talinn einn af þeim sem urðu að hætta þar af þeirri ástæðu. Minna þessar tilhneigingar Hoovers óneitanlega á yfirgangssama einvaldsstæla sumra annarra valdsmanna, bæði austan tjalds og vestan, á þessum tíma.

J. Edgar Hoover mun eflaust hafa lagt til mikil gögn varðandi starfsemi Óamerísku nefndarinnar og kommúnistaveiða McCarthy-tímans og var þar áreiðanlega í essinu sínu. Hann var þá sem endranær ímynd hins  trausta föðurlandsvinar í augum harðra hægri manna. En allt hefur sinn ákveðna tíma og æstir eldar kulna út um síðir. Svo var komið 1959, að Truman fyrrverandi forseti lét hafa það eftir sér „að óameríska nefndin væri sannarlega það óamerískasta fyrirbæri sem til væri í landinu" !

 J. Edgar Hoover vildi að sjálfsögðu að það orð færi af honum að hann upplýsti mál allra manna best, en hann virtist hinsvegar ekki alltaf jafn fús að fara nákvæmt í hlutina. Þegar kom til mála sem honum fannst kannski ekki mikil ástæða til að rannsaka, gat hann farið afar hægt í sakirnar og jafnvel svo að sumir töldu hann ekki kæra sig um að upplýsa viðkomandi mál. Þannig var það með morðið á Kennedy forseta, að sumum fannst forstjóri FBI býsna tómlátur varðandi það mál !

Talið er víst að bæði Harry Truman og John F. Kennedy hafi á sínum tíma hugleitt að losa sig við Hoover, en komist að þeirri niðurstöðu að því myndi fylgja of mikill pólitískur kostnaður. Tengsl Hoovers við ýmsa forustumenn í flokki Republikana eru talin hafa verið mikil og trúlega hefur Hoover átt þar heima - og þó lengst til hægri. Meintar tilraunir hans til að ófrægja Adlai Stevenson fyrir forsetakosningarnar 1952 geta líka sagt sitt varðandi pólitískar skoðanir hans og þeir sem oftast hylltu hann í ræðu og riti voru yfirleitt stjórnmálamenn lengst til hægri og þá var nær undantekningalaust að finna í Republikanaflokknum.

FBI - aðalstöðvarnar í Washington DC eru nefndar eftir J. Edgar Hoover. Margir hafa viljað breyta því, en því hefur hingað til ekki verið sinnt af yfirvöldum. Harry Reid öldungadeildarþingmaður mun hafa stutt tillögu þess efnis á sínum tíma og hafa sagt við það tækifæri að „ nafn Hoovers á aðalstöðvunum væri eins og óhreinindi á byggingunni" ! En sumir sjá þar greinilega eitthvað annað en óhreinindi og sennilega öllu heldur helgiljóma !

Lík J. Edgar Hoovers mun hafa legið um stund á viðhafnarbörum undir hvolfþakinu í þinghúsinu í Washington og útfararræður verið fluttar með innfjálgum hætti. Richard Nixon þáverandi forseti, kallaði Hoover við hliðstætt tækifæri „ einn af risunum, sem unnið hefði ótrúleg afrek í helgaðri þjónustu við land sitt sem hann hefði elskað svo heitt"!

En það er nú svo með Nixon, að hrósyrði hans um menn eru talin þeim hinum sömu til lítillar sæmdar nú til dags og skyldi engan undra. Auk þess má benda á það, að  J. Edgar Hoover og Nixon voru nánir bandamenn á árunum í kringum 1950, enda hugarfarið líkt hjá báðum. Það er mjög algengt í ákveðnum valdahópum, að menn ausi hvern annan lofi og stuðli út á við að allskyns verðlaunaveitingum þeim til handa sem þar eru til húsa, í því skyni að efla hagsmuni hópsins.

Þess má svo geta, að lokum, að J. Edgar Hoover var frímúrari frá unga aldri og hlaut margháttaðan frama og viðurkenningar innan þessarar leynireglu sem margir telja eina mögnuðustu samtryggingarmafíu heimsins. Er varla að efa að hann hefur notið stuðnings þaðan og veitt stuðning þar á móti, eins og reglubræðrum er skylt að gera.

Bandaríska þjóðfélagið er eins og allir vita mjög stórt í sniðum og þar er margt að finna, bæði gott og slæmt. Í bandarískri sögu má finna nöfn fjölda manna, manna eins og Franklíns og Washingtons, Adamsfeðga, Jeffersons og Lincolns, sem bregða ljóma yfir Bandaríkin og heim allan enn í dag !

Í samanburði við nöfn slíkra manna, má segja að nafn J. Edgar Hoovers sé einungis hliðstæða þess í sögu Bandaríkjanna, sem Reid öldungadeildarþingmaður sagði að væri fylgja nafns hans á aðalstöðvum ríkislögreglunnar !

 

 


Ógeðslegasta mannskepna Evrópu !

Nokkrir menn eru þeirrar gerðar í mannkynssögunni að það mætti alveg gefa sér það að þeir hafi verið sendir beint upp úr helvíti til að sá bölvun á þessari jörð og þar er austurríska ómennið Adolf Hitler einna fremstur í flokki.

Það er í rauninni djúpstæður leyndardómur hvernig þessum misheppnaða ólánsmanni tókst að ná heljartökum á einni hæfileikaríkustu þjóð þessa heims og beita henni fyrir sig til einna verstu skítverka sem unnin hafa verið í þessum heimi. Það sýnir að engin þjóð er örugg fyrir því að verða handbendi verstu siðleysingja ef mál skipast þannig og vissulega hafa margar þjóðir búið við illa valdhafa og goldið þess á margan hátt.

Siðleysinginn Adolf Hitler safnaði skiljanlega um sig samviskulausum mönnum af sínu tagi og þannig urðu menn eins og Himmler, Göring, Bormann, Göebbels og Ribbentrop valdamiklir ógnvaldar, menn sem aldrei hefðu átt að hafa nokkur völd og hefðu aldrei getað fengið þau þar sem nokkurnveginn eðlilegt stjórnvald hefði verið til staðar. Himmler hefði til dæmis aldrei átt að hafa forráð yfir einu eða neinu, maðurinn var 100% skíthæll og einmitt þennan mannvesaling kallaði Hitler  sinn traustasta vin, „Der Treue Heinrich" !

Þegar Hitler gerði sér loksins grein fyrir því - að einhverju leyti, að styrjöldin væri töpuð, þá var sökin ekki hans, sökin lá hjá þýsku þjóðinni sem hafði að hans mati brugðist. Þessvegna fannst honum eðlilegt að þjóðin færist með honum, hún ætti ekki annað skilið. Þannig hegða sér skítmenni sem vilja að allt snúist um þau. Þegar þau hafa spillt öllu og splundrað og geta ekki bjargað sér undan maklegum málagjöldum nema með því að svipta sig lífi, þá verða allir að deyja með þeim. Hver fylgjandi verður að sýna hina algjöru hollustu og fylgja foringjanum út yfir gröf og dauða !

Enn virðast vera til menn víða um heim sem eru nazistar í eðli sínu og tilbúnir að þjóna hliðstæðu valdi ef tækifæri gefst. Það er óhugnanleg staðreynd á okkar dögum. Það eru sjáanlega alltaf til einhverjir sem ekkert vilja læra, einhverjir sem neita öllum staðreyndum og viðurkenna ekki neitt sem brýtur í bága við öfgafull og ofbeldisfull lífsviðhorf þeirra. Það er jafnvel sagt að til séu sagnfræðingar sem neita því að helförin hafi átt sér stað, það sé allt saman helber lygi, soðin saman af gyðingum og kommúnistum ! Hverju má búast við af mönnum sem hegða sér þannig ?

Það hefur svo sem brugðið fyrir mörgum ógeðslegum mannskepnum í sögu Evrópu, bæði fyrr og síðar, en ég held að Hitler hljóti að vera þar verstur allra. Ódáðir hans voru svo skelfilegar og hittu svo marga fyrir, að þar munu aldrei öll kurl koma til grafar. Til þess er glæpaferlið svo stjarnfræðilega stórt !

Það verður heldur ekki viðurkennt svo glatt hverjir gerðu þennan erkifant álfunnar út fjárhagslega, því Hitler hefði ekki komist langt með sín skammastrik ef hann hefði ekki fengið þann öfluga fjárstuðning sem hann fékk frá mörgum aðilum  -  og að stærstum hluta frá hægri öflum í Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum !

En það merkilega er, að Hitler sveik lánardrottna sína - þeir fjármögnuðu hann til að hann færi í austur, en hann kaus fyrst að fara í vestur. „ Allt Óvinarins veldi er sjálfu sér sundurþykkt" stendur á vísum stað, og með því að fara fyrst í vestur skapaði Hitler forsendur fyrir hernaðarbandalag ríkja sem enginn hefði ímyndað sér nokkrum árum fyrr að yrðu samherjar í stríði. En vopnin snerust fyrir rás atburðanna algjörlega í höndum þeirrar  valdaklíku sem gerði ófreskjuna út.

Og það vald, útgerðarvaldið sem gerði Hitler út og gerði úr honum ógeðslegustu mannskepnu Evrópu, var ekki sigrað sem hann 1945. Það er enn við lýði og hefur meiri völd í dag en það hefur nokkru sinni haft. Það er hið samviskulausa fjármálavald auðhringa og vopnasala, peningavaldið sem fjármagnar stríð enn í dag og býr sér stöðugt til nýja markaði fyrir banvæna framleiðslu sína.

Menn eins og Basil Zaharoff eru víða á ferð í dag, menn sem eru kaupmenn dauðans og óvinir mannkynsins, og hver veit hvenær þeir gera út og fjármagna annan Hitler til að strá dauða og tortímingu um heim allan, meðan þeir telja sitt illa fengna fé !

Mannskepna eins og Hitler verður ekki til af sjálfu sér, slíkt fyrirbæri er búið til og gert út af skuggavaldi. Og Hitler var gerður út í ákveðnum tilgangi af hálfu þeirrar valdaklíku sem hér að framan er nefnd, valdaklíku sem unnið hefur mestu hermdarverk, gegn heimsfriði og sátt milli þjóða, sem unnin hafa verið á þessari jörð fram á þennan dag !

Sú valdaklíka er enn söm við sig og ein helsta bölvun þessa heims !

 

 


"Þeir kunna ekki mannganginn !"

Ein öld er nú senn liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Og hún átti að vera síðasta styrjöldin, það átti að búa svo um hnútana að mál yrðu framvegis leyst við samningaborðið. Þjóðabandalagið var stofnað !

Rúmum tveimur áratugum síðar skall seinni heimsstyrjöldin á, skilgetið afkvæmi þeirrar fyrri. Og eftir hana átti líka að girða fyrir slík Ragnarök svo heimurinn þyrfti ekki að þola annað eins blóðbað aftur. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar !

Síðan hafa verið stöðugar styrjaldir heitar sem kaldar, og ekkert hefur breyst, nema maðurinn er alltaf að setja ný hryllingsmet í skepnuskap. Og ef Göebbels, áróðurslærifaðir valdhafa nútímans, gæti litið upp úr helvíti í dag, myndi hann fagna yfir öllum sínum mörgu lærisveinum og segja við Foringjann sinn á áðurnefndum stað : „ Sjáðu Foringi minn ! Það hafa engir mótað framtíðina eftir 1945 meira en við !"

Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út stóð þing þýska skáksambandsins í Mannheim sem hæst og varð auðvitað að standa upp frá því óloknu. Sænski rithöfundurinn og skákunnandinn Franz G. Bengtsson, sem var stúdent á þessum tíma og tefldi oft í lítilli kaffistofu í Lundi ásamt fleiri stúdentum, lýsti málum þannig frá sjónarhóli skákáhugamannsins:

„Ef ég man rétt, braust heimsstyrjöldin út einn góðan veðurdag þegar við sátum við taflið á þessum stað. Mér finnst ég muna þann kvíða sem greip okkur alla - þá einu tegund kvíða sem gat gripið okkur - en það var vegna einvígisins um heimsmeistaratitilinn milli Laskers og Rubinsteins, einvígis sem mikið hafði verið rætt um og nú yrði kannski ekkert úr vegna þessa gauragangs í mönnum sem kunnu ekki einu sinni mannganginn, - ruglukollum sem til alls voru líklegir. Kvíði okkar reyndist ekki ástæðulaus, aldrei varð neitt úr einvíginu !"

Já, hver lítur á málin frá sínu sjónarhorni. Bengtson og félagar hans voru alteknir af skákinni og stríðið skemmdi þá hluti fyrir þeim eins og það skemmdi, eyðilagði og drap um allan heim ; stráði dauða og óhamingju um veröld alla !

Woodrow Wilson forseti var merkur maður og vildi vel. En Versalafundurinn var samkoma blóðhunda og svikahrappa. Hann átti ekki heima í þeim söfnuði. Lloyd-George og Clemenceau kunnu þar hinsvegar á hlutina og gerðu allt að engu sem Wilson vildi til málanna leggja.

Þeir hæddust að hugsjónagrundvelli þeim sem hann vildi vinna út frá og voru fyrst og fremst kaldrifjaðir pólitíkusar. Og þegar Wilson kom heim höfnuðu Bannsettu ríkin, hans eigið bakland, öllum kjarna stefnu hans og lögðu þannig sitt til þess sem á eftir kom. En Wilson gafst ekki upp, hann barðist fyrir stefnu sinni til síðasta dags, en ofgerði sér, missti heilsuna og andaðist skömmu síðar.

Í mínum huga er hann annar tveggja mestu forseta sem sátu í Hvíta húsinu á tuttugustu öld. Einn lélegasti forseti sem setið hefur að völdum í Washington tók við af honum. Það sýndi skýrast hvað þjóð hans taldi sér best hæfa á þeim tíma og ekki hefur smekkurinn batnað því nú verða jafnvel enn síðri menn forsetar vestra.

Ráðamenn í dag eru eins og þeir voru þá og þó að sumu leyti verri. Og enn kunna þeir ekki mannganginn ; þeir kunna ekki að virða lífið, þeir vinna ekki að því að vernda lífið, þeir standa öfugt að öllum sínum skyldum við þjóðir sínar og heimsfriðinn almennt, þeir stunda bara sama, gamla valdataflið og mannslífin skipta þar litlu sem engu. Þeir kunna ekki mannganginn - það er kjarni málsins !

Mannfólkið og gangur þess er bara eins og skítur á priki á skákborði þessara ruglukolla, eitthvað sem bara má fjarlægja ef þurfa þykir, ryðja út af borðinu ! Þeir hrópa þá bara í hroka sínum og drambi : „ Hvað eru öll  þessi peð að gera þarna, til hvers eru þau eiginlega ? Þau eru bara fyrir, burt með þau !"

Og peðunum hefur verið rutt burt sem fyrr, þar hefur lítið sem ekkert breyst. Þeim er hent í fjöldagrafir í Írak, Lýbíu, Afghanistan og víðar, já, hvar sem er, hvar sem talin er þörf að losna við þau, svo stóru mennirnir fái meira svigrúm, í heimi sem stefnir hraðfara í átt til eigin glötunar !

Þriðja heimsstyrjöldin er nær en flesta grunar. Andspæni risaveldanna er ekki lengur fyrir hendi, það hélt aftur af mörgu sem núna leikur lausum hala. Óvissan í alþjóðastjórnmálum er mikil og vaxandi og enginn veit hvað kann að gerast í náinni framtíð.Því er uggur og kvíði í fólki áberandi um allan heim.

En eitt getum við verið viss um, þó flest annað sé á huldu. Eftir þriðju heimsstyrjöldina þarf hvorki að stofna Þjóðabandalag eða Sameinaðar þjóðir !

Það verða engir til að standa að því, ekki einu sinni peð !

 

 

 

 


Samkeppni eða samráð ?

Ein helsta röksemd þeirra sem æpa eftir einkavæðingu alls sem getur skapað ábata, er að þá skapist eðlilegt samkeppnisástand og það muni skila ávinningi til almennings. En hlutirnir hafa aldrei skilað sér með þeim hætti. Eðlilegt samkeppnisástand er nokkuð sem þekkist ekki á Íslandi og er ýmislegt þess valdandi svo sem viðvarandi fákeppni og áskapað samráð í stað samkeppni !

En samt er alltaf klifað á því af ákveðnum aðilum að samkeppni sé góð, en aldrei  hinsvegar minnst á það að það sem kallað er samkeppni hérlendis, er hreint ekki fyrir hendi á heilbrigðum eða eðlilegum grundvelli, svo íslenska útgáfan á samkeppni er sjaldnast góð sem slík. En málflutningur sem byggist á blekkingum er yfirleitt talsvert stór hluti af þeirri umræðu sem fram fer í landinu hverju sinni og gætir þess í þessum efnum sem öðrum.

Og það ætti auðvitað ekki að dyljast neinum, að einkavæðingarsinnar halda  alltaf áfram að tala á sama veginn hvað sem í skerst og vilja aldrei horfast í augu við staðreyndir og reynslu. Þeir sögðu á sínum tíma : „ Einkavæðum bankana, það mun skila ávinningi fyrir almenning !"       Hvað kom á daginn, ekkert hefur skaðað fjárhag almennings í þessu landi meira en einkavæðing bankanna !

Þeir sögðu: „ Einkavæðum Símann, það mun skila sér til almennings !" Hefur einhver fundið að símagjöld séu lægri eftir þá einkavæðingu eða að almenningur búi að einhverju leyti við eitthvað betra, ekki ég ?

Og svo eru nú ýmsar einkavæðingar sem hafa beinlínis verið gerðar þannig, að eignir hafa verið seldar frá Ríkinu, eignir þjóðarinnar, og mörgum árum síðar hefur komið í ljós að gleymst hefur að rukka inn söluverðið eða að söluverð hefur kannski 10 árum síðar aðeins verið greitt að litlum hluta til. Það er í raun verið að afhenda einhverjum alikálfum eða gæðingum hlutina og einkavina-sjónarmiðin eru svo allsráðandi og yfirvaðandi, að það gleymist að innheimta verð, jafnvel þó oftast sé um hreint afsláttargjald að ræða !

Einhver hefði nú sagt að þegar svona væri staðið að verkum, væri bara um þjófnað að ræða. En á Íslandi verður einkavæðing, hvernig sem hún annars er framkvæmd, aldrei þjófnaður. Það má náttúrulega ekki tala þannig um þá sem í hlut eiga, þar eru þess í stað notaðar aðrar skilgreiningar, hagræðing er ein af þeim, en hagræðingu fyrir hvern eða hverja er þá um að ræða ?

Þeir menn sem eru stöðugt að dásama kosti hins eðlilega samkeppnisástands á Íslandi, vita alveg að slíkt ástand hefur aldrei þekkst hér, en af hverju tala þeir þá svona ? Skýringin er ósköp einföld ! Svarið er hagsmunir !

Þeir tala út frá því sem þeir telja að þjóni hagsmunum þeirra prívat og persónulega. Sú afstaða hefur ekkert með það að gera hvað er rétt og hvað er rangt. Hún hefur heldur ekkert að gera með það hvað er satt og hvað er logið. Menn sem stjórnast alfarið af hagsmunapólitík, skeyta ekki um réttlæti, sannleika eða þjóðarheill, það eina sem ræður afstöðu þeirra til mála er allsráðandi eiginhagsmunafíkn !

En eiginhagsmunafíkn er í eðli sínu þannig, að það verður alltaf að klæða hana í eitthvað sem verður að heita eitthvað annað, eitthvað sem afhjúpar ekki tilganginn sem að baki liggur og virkar betur ! Og býsna oft er gripið til þess að tala um samkeppni í slíku sambandi og hvað hún sé nú góð fyrir almenning !

En fáir menn í þessu landi bera hag almennings jafn lítið fyrir brjósti og þessir sígapandi og sígleiðu samkeppnispostular, sem eru hreint út sagt stöðugt á höttunum eftir gjafapökkum frá Ríkinu, sem afhendast þeim þegar vinir eru í stjórn, alveg án tillits til þess hvort jól séu í aðsigi eða ekki. Og líklega finnst þessum þjóðvilltu gróðapungum alltaf vera jól þegar þeirra menn eru í aðstöðu til að gefa slíka pakka !

Viðskiptahættir á Íslandi virðast æði oft vera með því móti að samráð er haft um samkeppni, það er jafnvel haft samráð um fákeppni, en umfram allt virðist vera víðtækt samráð um að arðræna almenning !

 Verðlag á vöru hefur aldrei verið eðlilegt á Íslandi og milliliðagróðinn er oft slíkur að fæstum gæti órað fyrir því hvílíkar upphæðir er þar um að ræða. En þeir sem best til þekkja og eru í þessum hlutum á fullu, vita líka að það er eftir miklu að slægjast, enda er í þeim sérhagsmunagróða sem þarna fæst, fólgin ein af skýringunum á vaxandi viðgangi hrokafullrar auðstéttar í þessu landi  !

Almenningsheill á Íslandi er sennilega það hugtak sem mest hefur verið svikið og svívirt til þessa og það af þeim sem hefðu átt að telja það skyldu sína að vaka yfir velferð þjóðarinnar. Þessvegna hefur okkur borið svo illa af leið í mörgum málum sem raun ber vitni. Sigling þjóðarskútunnar er ekki sigling fyrir almannaheill !

Það er ekki verið að sækja að því takmarki að þjóna heildarhagsmunum, heldur er sí og æ verið að sinna sérhagsmunum og það með margvíslegum hætti, á kostnað heildarinnar, hins íslenska mannfélags. Íslensk þjóðlegheit eru sýnilega bara  tyllidagamálefni að áliti þeirra sem fara með stjórn mála í þessu landi og virðist núorðið gilda nánast einu úr hvaða flokkum þeir aðilar koma !

Það má því segja, að það sé eiginlega haft samráð af valdamönnum í þjóðfélaginu um nánast allt í þessu landi - nema velferð og heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar !

 


Vegurinn frá hornprýði til geldingar !

Ég las einu sinni frásögn af því hvernig bóndi nokkur skráði kind eina í ærbók sína. Í upphafi hét hún Hyrna, enda þótti hún hornprúð með afbrigðum. Svo bar hún alltaf tveim lömbum, svo nafnið varð brátt Tvílembu-Hyrna. En svo kom að því að hún missti hornin og varð að lokum geld, og þá var svo komið að í ærbókinni stóð nafn hennar bókað með fullum bravúr Geldatvílembuhyrnakollótta !

En þótt nafnið væri orðið svona umfangsmikið var gildið orðið talsvert miklu minna en það var áður þegar aðeins var um Hyrnu nafnið eitt að ræða. Stundum verða umbúðir mjög fyrirferðarmiklar um kjarna mála, og það sama getur gilt um lifandi verur, til dæmis sauði, tvífætta sem ferfætta !

Sú var tíðin að ætlast var til að lærdómsmenn skrifuðu ritgerðir til að sýna og sanna faglega hæfni og áunninn fróðleik. En svo kom að því að ritgerð varð að vera eitthvað meira samkvæmt vaxandi tíðarkröfum til þess sem kallað er hæfni, og þá fóru að verða til svokallaðar meistararitgerðir, og gott ef sumar samtektir í þessum efnum eru ekki nú orðnar stórmeistararitgerðir, og það stefnir með sama áframhaldi í ritgerðaflokk sem líklega mun kallast yfirstórmeistararitgerðir. Svo gætu komið þar í framhaldinu Fyrsta flokks yfirstórmeistararitgerðir og allt hugsanlegt sem á orðanna sviði gæti drýgt ætlað gildi verksins. En allar líkur eru samt á því, að eftir því sem ritgerðarheitið verður lengra og torskildara, verði raunverulegt innihald minna og merkingarlausara !

Ég hugsa stundum um hvað verði um allar þessar þúsundir ritgerða sem skrifaðar eru í svokölluðum æðri skólum, hvað skyldi nú vera gert við þetta allt saman ? Fer þetta ekki bara 80-90% í eldinn fljótlega ? Lærdómsgráðan er fengin sem þýðir launabót og meiri umbúðir um hið brothætta sjálf !

Það er nú ekki hægt að segja annað en að maðurinn sé á margan hátt yfirgengilegt snobbhænsni. Ekki síst þegar hann telur sig vera kominn í efri tröppur þjóðfélagsstigans og uppskrúfuð mannvirðing sé að aukast honum til handa. Hann telur sig þá í óhaminni sjálfumgleði stöðugt vera að vaxa að visku og dáð, þó í raun sé hann kannski löngu búinn að fella fjaðrirnar sem lyftu honum til flugs í upphafi og fljúgi ekki lengur fyrir afli eigin hugar og handa. Hinsvegar er honum kannski lengi vel haldið uppi af tískuvindum samtryggingar og vinargreiðaviðskipta, í  gráðumettuðum heimi snobbsins. En meðan hann heldur að hann sé að þokast upp á við, í áttina að einhverjum heiðurstindi hefðar og valds, er hann líklegast í raun á niðurleið, vegna sjálfskapaðs gildisfalls á eigin mannkostum !

Þannig virkar nefnilega yfirborðsmennska snobbheimsins á ærleg viðhorf, hún  gerir þau að litlu sem engu og jafnframt hvern mann sem hugsanlega hefði getað orðið að erni, að kjúklingi í hlöðugarði heimsku, hroka og yfirdrepsskapar !

Og þó að Hyrna hafi kannski verið efnileg í byrjun og frjósöm fyrsta kastið, endar hún oftast með því að verða kollótt og geld, jafnvel löngu fyrir tímann !  Öðruvísi getur ekki farið því fordildin elur ekki af sér gæði !

Í eina tíð voru magnaðir hæfileikamenn kallaðir meistarar, svo sem Da Vinci og Michelangelo og þótti það fyllilega við hæfi. Svo fóru menn að kalla aðra meistara og gildisstaðallinn fyrir nafnbótinni lækkaði jafnt og þétt með öldum og árum og nú í dag eigum við til dæmis menn eins og Megas, sem nefndir eru meistarar !

Viðmiðin lækka en þau hækka ekki ! Kannski vegna þess að forsendur virðast ekki vera til fyrir neinni manngildis-aukningu í samtímanum. Kannski vegna þess að snobbið og yfirborðsmennskan hefur tekið svo yfir, að annað kemst ekki að. Kannski vegna þess að menn hafa ágæta framfærslu af því nú um stundi að lofa stöðugt nýju fötin keisarans ?

Í grein um frægan bandarískan rithöfund, sagði glöggur maður fyrir nokkrum árum, að hann skrifaði líklega svo mikið um fortíðina vegna þess að hann fyndi enga dýrð í samtíðinni. Það er ekki ólíklegt að þar hafi viðkomandi hitt naglann á höfuðið. Hégóminn og umbúðafarganið um menn og málefni í yfirstandandi tíð er svo yfirþyrmandi að enginn finnur þar lengur nokkurn kjarna sem hönd á festir og hugur grípur. Það virðist því þurfa að leita aftur í söguna að súrefni fyrir bitastætt, hugrænt líf.

Það byrja margir lífið eins og Hyrna blessunin, með getu til ýmissa hluta, en ærbók hins stórsnobbaða yfirskólasamfélags sér til þess fyrr en síðar, að flestallir verða þar kollóttir kerfissauðir og enda þar með gráðum umvafða geldingarskráningu, á háum launum líkast til, en í tómi tilveru sem er löngu búin að glata tilgangi sínum !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 37
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 1067
  • Frá upphafi: 309959

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 940
  • Gestir í dag: 36
  • IP-tölur í dag: 36

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband