Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Hugleiðing um hjálpræðisher Hippokratesar og skyld mál !

Eitt sinn var uppi maður sem hét Natan og var Ketilsson. Hann hafði líklega mikla áskapaða hæfileika til læknisstarfa, en þótti þó ekki vandur að meðulum. Og læknir sem ekki er vandur að meðulum er ekki góður læknir. Natan sagði bóndanum Sveini Þorvaldssyni á Illugastöðum á Vatnsnesi að hann gæti læknað hann, en Sveinn var sjúkur maður. En Natan sagðist vilja fá jörðina í staðinn !

Þannig eignaðist Natan Illugastaði, hann neyddi sjúkan mann til að afhenda sér jörðina á þessum forsendum. Það má segja að sá verknaður hans hafi ekki orðið honum til blessunar. Hann var myrtur af manneskjum sem hann hafði komið illa fram við. Það voru fleiri en Sveinn Þorvaldsson sem urðu fyrir yfirgangi hans. Sennilega hafa nokkuð margir á þeim tíma haft þungan hug til Natans Ketilssonar, enda var hugsun hans til manna ekki kærleiksrík eða þrungin líknarhugsjón. Hann orti til dæmis þessa vísu sem segir líklega sitt um afstöðu hans til náungans:

Þó ég annars vildi var

verða um sannleiks þankafar,

veginn banna betrunar,

bölvaðar mannaskammirnar !

En þegar mikill skortur var á læknum hérlendis á sínum tíma risu víða upp menn sem öfluðu sér þekkingar á læknisdómum og hjálpuðu fólki ótakmarkað. Sumir þeirra voru að öllum líkindum afburðamenn hvað læknishæfni varðar og höfðu áreiðanlega náðargáfu til að sinna sjúkum. Slíkt veganesti getur verið betra en háskólapróf í læknisfræði sem er kannski án slíkrar náðargáfu.

Fjöldi lækna hefur verið til á öllum öldum sem hafa borið stétt sinni fagurt vitni, líknað sjúkum og linað þrautir, staðið í eldi drepsótta og allskyns pesta, lifað með svo fórnfúsum anda að ég er ekki í nokkrum vafa um að á þeim stað sem í hugum manna er himnaríki, hamingjustaður útvalinna Guðs barna, mun áreiðanlega vera mikið um lækna. En ég hygg að þeir verði þar færri frá þeim tíma sem nú fer yfir jörðina, því andinn sýnist vera orðinn talsvert annar innan læknastéttarinnar en hann var.

Meðal íslenskra lækna hafa samt verið margir afburðamenn, menn sem hafa haft mikla verklega hæfni til starfans og sannan mannúðaranda í brjósti. Erfiðleikar læknisstarfsins hér áður fyrr voru hinsvegar tröllauknir að umfangi. Læknar þurftu að þjónusta stór umdæmi, áður fyrr, að sundríða ár og berjast við náttúruöflin óblíð og ströng í öllum þeirra myndum til að ná til sjúklinga sinna, hlynna að þeim, lina þrautir þeirra, bjarga mannslífum !

Þar hefur göfugmennska og óeigingirni verið sýnd ótal sinnum í svo miklum mæli að enginn veit né skilur það nema Guð einn. Þó læknisstarf sé ekki ástundað í dag hérlendis við slíkar aðstæður þarf samt sama andann enn og áfram til að líkna og lina þrautir, til að hjálpa, bjarga mannslífum og græða andleg og líkamleg sár, öll mannanna mein eftir því sem mögulega er hægt.

En önnur og eigingjarnari sjónarmið hafa líka oft spillt hinum helga reit hugsjónanna í þessum efnum svo margt hefur skaddast þar sem áður var heilt. Stóraukin einkavæðing læknisstarfsins í seinni tíð í þágu peningalegra viðmiða hefur ekki reynst veganesti til góðs, hvorki fyrir samfélagið né læknana sjálfa. Menn hafa þar fjarlægst þau markmið sem keppa bar að og trúlega skaðað með því eigin sál og skert lífsgæði annarra. Fleiri en Sveinn Þorvaldsson þurfa jörð til að lifa á !

Kannski fer að koma að því að við þurfum aftur að leita á náðir hómópata, vegna þess að réttindalæknar eru þegar að verða eða þegar orðnir of dýrir fyrir venjulegt fólk, svo það er ekki að verða á færi annarra en efnafólks að búa við þjónustu þeirra. Við slíkar aðstæður verðum við í krafti neyðarréttar að koma okkur upp utankerfis-læknum, hæfnisfólki sem hefur það í sér að líkna og hjálpa og starfa í anda þeirrar köllunar að verja lífið og viðhalda því, en lifir ekki fyrir tekjustigið eitt !

Heldur kysi ég að njóta þjónustu slíks manns en tískulæknis eða sérfræðings út í bæ, sem kann að hafa mikið batterí í kringum sig en hefur ekki þann anda í sér sem hefur gefið Hippókratesareiðnum líf til samfélagslegrar blessunar á liðnum öldum. Það er sá andi sem hefur gefið læknastéttinni þann frábæra orðstír sem hún hefur löngum haft í mannlegu samfélagi og án hans skapast dauði þar sem áður var líf !

Að lækna sjúkleika manna en rýja þá jafnframt inn að skinni fjárhagslega, er læknishjálp sem hefur andfélagslegar afleiðingar í för með sér, og að geta ekki læknað sjúkleika manna en rýja þá engu að síður inn að skinni fjárhagslega, er meira en andfélagslegur framgangsmáti, þá erum við að tala um verri hluti en það. Sérhver tími hefur sinn tíðaranda – og sá tíðarandi sem fer um allt samfélag okkar í dag er vondur, hann er hrokafullur, eigingjarn, gráðugur og fullur af sjálfselskulegum viðhorfum.

Það er alls staðar illt að mæta slíkum viðhorfum, en einna verst þar sem allir hafa lengstum búist við öðru. Við þurfum öll að leggja okkar til í baráttu við þennan vonda tíðaranda sem er skapaður af okkur sjálfum, skapaður af þeim eðliseiginleikum Mr. Hydes sem búa í okkur öllum. Við þurfum öll að leggja okkar til þess að göfugur andi Dr. Jekylls ráði þess í stað - öllu samfélagi manna til blessunar !

 


Misheppnuð tilraun - eða hvað ?

Það virðist býsna margt undirstrika það að sameiginlegur sáttagrundvöllur þjóðar í þessu landi sé kominn víða að þolmörkum. Stjórnkerfið hefur löngum verið fellt að þörfum þeirra sem búa að mestum efnum og varðhundur þeirrar stefnu, sjálfstæðisflokkurinn með litlum staf - eða Stóri þjóðarógæfuflokkurinn - er jafnan iðinn við sitt hlutverk. Sérgæskan situr þar í hásæti sem bústin blóðsuga. Enginn flokkur hefur mótað ríkiskerfið eins og það alræmda sérréttindabatterí sem sjálfstæðisflokkurinn er, enda hafa merkin löngum sýnt glöggt hvað þar situr í fyrirrúmi. Samfélagsleg uppbygging á félagslegum forsendum hefur gengið mjög til baka hérlendis, ekki síst á árunum eftir 1990, en hákarlasvipur frjálshyggjunnar færðist þá á margan hátt yfir íslenskt samfélag eins og tilfinningalaus helgríma og bölvun hlaut að fylgja í kjölfarið.

Það stýrði auðvitað ekki góðri lukku þegar stjórnvöld fóru að miða allt við Mammon, enda lauk fjármálalegri kappsiglingu frjálshyggjunnar með algerri brotlendingu og skipbroti og eyðileggingu áratuga uppbyggingar ásamt ótöldum harmleikjum í lífi einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja um land allt. Enginn fær tölu á það komið hvað skemmt var þá og skaddað í lífsmálum þessarar litlu þjóðar við ysta haf, sem þarf þó öllu öðru fremur á því að halda að samstaða og samheldni sé til staðar í samfélaginu og það í sem mestum mæli.

Og menn fóru að hugsa margt upp á nýtt. Var þessi sjálfstæðissókn og lýðveldisstofnun sem hér átti sér stað á sínum tíma eitthvað sem skilaði sér íslenskri þjóð til þrifa ? Áttu tvær, þrjár kynslóðir að þræla baki brotnu í þessu landi til að skapa verðmæti sem yrðu svo yfirtekin í fyllingu tímans, stolin og sérmerkt eignarmarki kúgara og arðræningja eins og þekkist svo víða erlendis ? Var baráttan háð til þess ? Var ekki sagt að íslenskur almenningur myndi höndla mikla velferð þegar öll landhelgin væri komin í hendur þjóðarinnar ? En hvað gerðist svo, örfáum árum síðar var búið að stýra öllum ágóða sjávar-auðlindarinnar inn í einkadilka sem enn halda herfangi sínu með ofstopa og blindum hroka. Kvótagreifarnir hegða sér sumir hverjir eins og kóngar liðinnar tíðar og slíkt ætti hvergi að líðast í frjálsu landi. Slíkt framferði er óíslenskt í alla staði !

Margir Íslendingar hafa farið í vonbrigðum sínum að líta til Noregs sem draumalands heilbrigðra lífshátta og félagslegs öryggis og til eru þeir sem hugsa jafnvel svo að við hefðum aldrei átt að fara þaðan á sínum tíma og ættum bara að pilla okkur aftur heim á þeim forsendum að tilraunin til nýrrar þjóðfélagssköpunar við ysta haf hafi endanlega misheppnast ! En að spyrja  hvort við megum koma heim aftur til Noregs, líkt og glataði sonurinn eftir ævintýrið sem fór í vaskinn, er nú tæplega gerlegt fyrir Íslendinga á 21. öldinni, enda mætti spyrja í því sambandi – heim hvert ? Ekki förum við heim í þann Noreg sem forfeður okkar fóru frá, nei, auðvitað ekki, ekki heldur heim í þann velferðar-skapaða Noreg sem fórnfúsar kynslóðir Norðmanna sköpuðu á áratugum síðustu aldar. Nei,nei, nú er allt öðru að mæta þar en þá var !

Noregur er nefnilega ekki lengur það sem hann var, því miður. Norska ríkið virðist á nokkuð hraðri leið í það að umskapast í einhverskonar múslimska hjálendu, kannski það sem kalla mætti Norður Pakistan, og gæti þessvegna við áframhaldandi þjóðardoða orðið islömsk ríkiseining innan fárra áratuga. Íbúar Noregs eru að breytast úr norrænum stofni í fólk af allt öðru sauðahúsi. Víða í borgum og bæjum Noregs er að skapast meirihluti innflytjenda sem hefur gjörólík viðhorf til trúar, menningar og siða en það fólk hefur haft sem landið hefur byggt til þessa. Það virðist hægt nú til dags að leggja undir sig heilu löndin með ýmsum hætti og þarf ekki opinberan hernað til. Það er bara skipt um þjóð með ótakmörkuðu magni innflytjenda. Vinsælasta nafngift sveinbarns í Osló um þessar mundir er sagt vera Múhameð !

Nei, við Íslendingar förum ekki til Noregs í norrænt velferðarríki ! Það er að vísu velferð þar ennþá, en hún verður eflaust islamiseruð með tímanum og skilyrt við „rétta trú og rétta siði“ eins og þekkist í þeim heimshluta sem leggur hinar breyttu forsendur til. Noregur er að af-norrænast eins og Svíþjóð og Danmörk og meginástæðan er sú arfavitlausa innflytjendastefna sem hefur verið við lýði í þessum löndum síðustu fimmtíu árin eða svo. Fjölmenningarfarsóttin er hrein og klár dauðastefna. Ríkisvaldið í umræddum löndum hefur bersýnilega þjónað innflytjendum miklu betur og meira en eigin landsmönnum á þessum tíma sem hér um ræðir og virðist nú orðið meira en lítið hrætt við afleiðingar eigin verka. Sú hræðsla endurspeglast í stöðugri eftirgjöf og sleikjuhætti við þetta lið sem áfram fær að streyma inn í þessi lönd og éta þar upp félagsleg hlunnindi landsmanna eins og rétthafinn eini og sanni, með tilheyrandi frekju og yfirgangi.

Jú, íslenska tilraunin til góðrar samfélagssköpunar hefur ef til vill misheppnast, en ég sé ekki betur en jafnvel enn verri vanþróun sé að eyðileggja norrænu velferðarríkin, því þeir sem á verðinum sofa munu seint dag að morgni lofa. Yfirvöld viðkomandi landa, úr hvaða flokkum sem þau koma, hafa gjörsamlega villst í fjölmenningarskógi fáviskunnar og norræn gildi eru sýnilega hvarvetna þar á undanhaldi og útleið fyrir öðrum og verri gildum. Og við hér á Íslandi sem höfum dæmin fyrir okkur frá nágrannalöndunum virðumst ekkert ætla að læra af þeirra mistökum !

Það hefur oft sannast að margt sem misheppnast fyrir dómgreindarleysi manna og glatast af þeim sökum, verður aldrei endurheimt ! Og ég spyr því, hvenær ætla menn að vakna til varnar þeim gildum sem varða trú okkar, menningu, sögu og siði, – allt okkar líf ?

Erum við ekki komin fram á ystu nöf ?

 


"Hershöfðingjalýðræðið !"

Lýðræði er stjórnarfyrirkomulag þar sem menn eins og John Adams, Thomas Jefferson, James Madison, James Monroe og John Quincy Adams ættu að vera leiðandi forsvarsmenn. En það eru ekki lýðræðisfrömuðirnir sem hafa oftast hlotið mestan stuðning eftir þá sigra sem unnist hafa. Það eru öllu heldur stríðsmennirnir, hershöfðingjarnir, sem hafa þá vinninginn.

Við skulum líta aðeins á bandaríska sögu með þetta atriði í huga.

Eftir sjálfstæðis-stríðið var Washington hershöfðingi kosinn forseti en John Adams varð í öðru sæti. Seinna kom Andrew Jackson hershöfðingi á forsetastól, hetjan úr stríðinu 1812 og John Quincy Adams varð að víkja.

Nokkru síðar varð William Henry Harrison hershöfðingi forseti, hetjan frá orustunni við Tippecanoe, en hann tórði bara sem forseti í 62 daga. Skömmu síðar varð Zachary Taylor hershöfðingi forseti, hetjan úr Mexicó-styrjöldinni.

Reynt var að velta Lincoln úr sessi 1864 með framboði George B. McClellan hershöfðingja en það tókst sem betur fer ekki. Síðan varð Ulysses S. Grant hershöfðingi forseti eftir að seinna kjörtímabili Lincolns lauk með Andrew Johnson í forsetastól. Reyndar voru menn svo óþolinmóðir eftir því að koma stefnu Lincolns fyrir kattarnef að reynt var að hrekja Johnson frá völdum og munaði litlu að það tækist. Þar var ljótur leikur í gangi sem svívirti í raun minningu hins myrta forseta.

Arftaki Grants á forsetastóli Rutherford B. Hayes var fyrrverandi hershöfðingi í sambandsher Norðurríkjanna. Hann hafði lýst því yfir fyrirfram að hann myndi ekki gefa kost á sér sem forseti nema til eins kjörtímabils og stóð við þau orð sín.

James A. Garfield varð forseti þar á eftir en hann var líka fyrrverandi hershöfðingi í her Norðurríkjanna. Hann hafði ekki fallið fyrir kúlu í stríðinu en féll hinsvegar sem forseti fyrir morðingjakúlu hálfu ári eftir að hann tók við embætti.

Benjamin Harrison varð svo forseti um áratug síðar en hann hafði einnig verið hershöfðingi í borgarastyrjöldinni og fyrrnefndur William Henry Harrison var afi hans.

Fljótlega þar á eftir kom Teddy Roosevelt, hann var að vísu ekki formlegur hershöfðingi en hegðaði sér sem slíkur og var óhemju vinsæll fyrir Rough Riders þátttöku sína í styrjöldinni við Spánverja og komst líklega til mikilla áhrifa meðal annars vegna þess.

John Pershing hershöfðingi hefði þannig samkvæmt reglunni líklega verið kosinn forseti eftir fyrri heimsstyrjöldina ef hann hefði farið í framboð, en hann var yfirhershöfðingi bandaríska heraflans sem sendur var til Evrópu 1917. Hann er hinsvegar undantekningin frá reglunni.

Dwight D. Eisenhower hershöfðingi sem gegndi samsvarandi stöðu í seinni heimsstyrjöldinni var kosinn forseti Bandaríkjanna 1952 og sat sem goð á stalli sín 8 ár. Hann var ekki atkvæðamikill forseti en sennilega frekar ljúfur maður í viðkynningu. Hann átti ýmsa að sem veittu honum stuðning bæði framan af og síðar, þungavigtarmenn eins og George C. Marshall.

1968 bauð hægriöfgamaðurinn George Wallace sig fram til forseta og varaforsetaefni hans var flughershöfðinginn Curtis LeMay. Þeir höfðu hinsvegar ekki erindi sem erfiði, enda svo langt til hægri að flestir bandarískir kjósendur máttu heita vinstrisinnaðir miðað við þá.

Eftir 1990 fóru sumir að tala um Colin Powell hershöfðingja sem vænlegt forsetaefni, en þær bollaleggingar runnu út í sandinn þegar ferill og orðstír viðkomandi manns varð nánast að engu í gereyðingarvopna-lygaferli bandarískra stjórnvalda gagnvart Írak.

Sumir hafa í tímans rás orðað fleiri hershöfðingja við forsetaembættið svo sem Douglas MacArthur og Norman Schwarzkopf, en slíkar pælingar hafa oftast komið fram hjá mönnum sem staðið hafa lengst til hægri í bandarískri pólitík og viljað hafa harðlínu hauka í Hvíta húsinu.

Í bókinni Sjö Dagar í Maí er lýst valda-togstreitu í Bandaríkjunum milli kjörins forseta og atkvæðamikils harðlínu hershöfðingja. Kvikmynd var gerð eftir bókinni og er sú mynd allrar athygli verð. Forsetinn er þar leikinn af Fredric March og hershöfðinginn af Burt Lancaster og gera þeir hlutverkum sínum góð skil sem vænta mátti.

Sagan segir að Kennedy forseti hafi talið að svona hlutir gætu komið upp á og hann hafi meðal annars vegna þess verið hlynntur því að myndin yrði gerð, en Pentagonhjörðin hafi hinsvegar ekki verið ánægð með framtakið.

En það getur vissulega verið talsverð spurning hvert hershöfðingjadýrkun af framangreindu tagi getur leitt kjósendur í lýðræðisríki og margir gætu trúlega svarað því svo - að stefnan gæti helst orðið í því tilfelli frá lýðræði til einræðis.

Vonandi reynir aldrei á slíkt með þeim hætti sem kvikmyndin Sjö Dagar í Maí greinir frá !

 

 

 


Um keisaraföt og klára nekt !

Einu sinni var það svo að fólk þráði menntun til þess fyrst og fremst að gera sig hæfari til þjónustu við land sitt og þjóð. Það var sem sagt hugsjón á bak við menntaþrána, löngun til að verða að liði. Oftar en ekki tengdist þessi hugsjón persónulegri sýn til þjóðlegra verðmæta og vilja til þess að auka þau og gera þau meira gildandi í lífi hvers og eins.

Þannig eignuðumst við sem aðrar þjóðir hugsjónaleiðtoga með heilbrigð samfélagsleg viðhorf, menn sem höfðu hjarta fyrir framtíð eigin þjóðar. Slíkir menn sáðu vel fyrir málum í samtíð sinni og fyrir framgöngu þeirra vissum við löngum fyrir hvað við stóðum og fyrir hvað við ættum að standa og vildum standa í nútíð og framtíð.

Það voru sem betur fer alltaf einhverjir sem vildu takast á við það verkefni að leiða þjóðina að góðum áföngum til almenningsheilla og margir gerðu það af fyllstu trúmennsku og óeigingirni í hvívetna.

En nú er öldin önnur ! Það virðist beinlínis orðið sjaldgæft að hugsjón búi að baki því að fólk sæki til mennta. Það eru allt önnur sjónarmið sem eru drifkraftur mála þar í dag. Það er hinn persónulegi ávinningur, í peningum talinn, það er hið aukna tekjustig sem dregur, það eru fjárhagslegar forsendur og fíkn til frama sem ráða för að langmestu leyti. Í stuttu máli sagt, það er hin vanhelga goggunarröð í samfélagi yfirborðsmennskunnar sem krefst menntunarstigsins nú til dags sem staðfestingar á mannlegu gildi !

Þannig er þjóðfélag okkar í dag. Allir dansa þar sífellt í kringum nýju fötin keisarans sem eru auðvitað engin, en samt þorir ekki nokkur maður að segja sannleikann varðandi hlutina því þá getur verið að hann styggi einhvern sem vís er þá til að bregða fæti fyrir hann síðar á vegferðinni. Allir reyna því að vera allra vinir en enginn er öðrum trúr. Hin fölsku viðhorf fá að ráða alfarið í samskiptum manna á milli !

Kannast menn ekki við sviðsmyndina ? Hún er í sjálfu sér ekki ný frekar en annað í heimi okkar manna, sem byggist á framkomu okkar og ferli á lífsleiðinni. Þar er allt meira og minna endurtekið efni !

En er hið menntunarkrefjandi samfélag að færa okkur eitthvað áleiðis í betri siðmennt og til móts við meiri velferð í mannlegum skilningi ? Nei, verð ég því miður að segja, við erum miklu frekar að deila samfélaginu upp í harðsvíraða réttargæsluhópa sem standa gráir fyrir járnum hver gegn öðrum og sjá ekkert nema eigin hagsmuni. Hjá slíkum sjónarmiðum hinna þröngu eiginhagsmuna er ekkert til sem gefur samfélaginu sem heild gildi. Það viðhorf sem veður yfir allt annað og er til dæmis orðið allsráðandi í sérréttindageiranum er hið eigingjarna síbylgjustef: „ Ég, um mig, frá mér, til mín – annað skiptir ekki máli !“

Við erum með öðrum orðum farin að stunda niðurrif samfélagsins í gegnum það sem átti að vera því til uppbyggingar. Við erum að ofmennta fólk, langt umfram þjóðfélagslegar þarfir og þannig gröfum við í reynd undan framleiðslugreinunum, stórum hluta þess starfssviðs sem stuðlar að vinnuframlagi sem skapar verðmæti og fjölgum stórlega í þeim stéttum sem taka til sín framlag af þessum verðmætum en skila oftast litlu sem engu í staðinn. Samfélagsbyggingin vex sem pýramídi á hvolfi eins og ég hef áður bent á og sem slík er hún dæmd til að falla. Það er bara spurning um tíma !

En græðgisfull gráðuhjörðin sér þetta ekki ! Allir sem dansa með og virðast hafa þá skoðun eina, að þeir megi ekki skemma veisluhöldin í kringum háskólabatteríin, horfa annað þegar staðreyndir mála sýna fram á eitthvað sem þeim líkar ekki. Og í dag verða þeir hinir sömu að horfa að mestu leyti annað, því til þess að sjá ekki sjúkdómsmerki samfélagsins verða þeir að einbeita sér að slíku áhorfi.

Og sóunarstefna þjóðlegra verðmæta heldur því áfram eins og ekkert mæli þar á móti og háskólasamfélagið sem eitt sinn átti að vera háborg og varnarþing íslenskra þjóðfélagsverðmæta og menningar, er nú til dags orðin afskræming þeirra miklu málefna sem það átti að standa fyrir, ekkert nema innantómur fílabeinsturn öfugsnúinnar framadýrkunar !

Hvernig er lýsing Gríms Thomsens á gömlum veisluhöldum ? „Hjá Goðmundi á Glæsivöllum /gleði er í höll, / glymja hlátra sköll, / og trúðar og leikarar leika þar um völl /en lítt er af setningi slegið.“ Og síðar í sama kvæði segir : „ Á Glæsivöllum aldrei /með ýtum er fátt, /allt er kátt og dátt; /en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt, / í góðsemi vegur þar hver annan.“

„Við krefjumst launa í samræmi við menntun“ er slagorð háskólahópanna, en þar er ekki vikið einu orði að hæfni. Menntunarstig segir í raun afar lítið um hæfni. Þó einhver hafi komist í gegnum skóla með einum eða öðrum hætti, er ekki þar með sagt að hann hafi í rauninni mikla hæfni til að bera. Það kemur í ljós þegar starfið er hafið hver hæfnin er og hver getan er til verka !

Það ætti að sannast þegar viðkomandi menntamaður fer að takast á við verkefnin í lífinu hver hæfni hans er, ef hann fær þá ekki einhverja vel launaða stöðu í krafti menntunar sinnar – sem gerir engar kröfur til hans nema að hirða kaupið sitt. Þannig virðist það nú því miður vera með marga sem flagga óspart menntunarlegu gildi sínu, að þeir eru í gervistöðum, ekki síst hjá ríkinu, að sinna gerviverkefnum, en laun þeirra eru sannarlega ekki nein gervilaun !

Og sá peningur sem fer í slíkt gervilið er tekinn frá okkur hinum sem vinnum og erum ekki gervilið. Þessvegna er aldrei hægt að veita okkur sómasamleg launakjör. Það er yfirleitt lítið sem ekkert eftir þegar kemur að okkur, því venjulegt launafólk er auðvitað það fólk sem síst fær að njóta virðingar í samfélagsbyggingu sem er pýramídi á hvolfi og það fær því ekki að koma að borðinu fyrr en mylsnan ein er eftir. Fyrst þarf græðgisliðið að fá sitt og það ríflega, svo afæturnar, og þessar afætur sem leggja ekki neitt til þjóðfélagsins eru sannarlega orðnar allt of margar á Íslandi !

Keisarinn er kviknakinn og berrassaður í öllum birtingarmyndum veruleikans hérlendis og sérhver ímynd hans er til bölvunar fyrir land og þjóð, ekki síst í háskólalegu samhengi. Það þarf sem fyrst að hverfa frá þessu oflætisfulla og eyðileggjandi menntasnobbi og fólk þarf að einbeita sér að því að bera virðingu fyrir manngildi hvers og eins !

Gráður eru ekki mælikvarði á manngildi og manneskja sem sér um þrif í háskólanum getur haft tvöfalt manngildi samanborið við einhvern uppskrúfaðan prófessor við sama skóla. Það þarf að skúra snobbið burt og það verður bara að hafa það þó það kunni að koma niður á einhverjum litlum sálum sem þarfnast mikilla umbúða um lítið innihald og eru því ekki búnar með masterinn sinn !

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 67
  • Sl. viku: 1261
  • Frá upphafi: 316262

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1005
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband