Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2015

"Flóttamannaráðuneytið !"

Stundum mætti halda að vissir fjölmiðlar hérlendis bættust sjálfkrafa við stjórnarráðið sem sérstakt ráðuneyti þegar vissar aðstæður leyfa. Þeir verða þá nánast eins og einhverskonar innflytjendaráðuneyti eða flóttamannaráðuneyti, en þó allra helst afskaplega óþjóðlegt ráðuneyti !

Það getur verið með ólíkindum hvað langt er gengið af þessu viðbótar-ráðuneyti í því að hella yfir þjóðina allskonar áróðri fyrir því að við tökum hér inn sem flesta innflytjendur, sem flesta flóttamenn og sýnum umheiminum almennilega með slíku hvað við séum góð og umburðarlynd þjóð !

Þetta sjálfskipaða ráðuneytislið á fjölmiðlavaktinni virðist yfirleitt hafa afskaplega lítinn áhuga fyrir íslenskum mannlífserfiðleikum, íslensku skuldabasli og þverrandi velferð flestra þeirra sem landið byggja. Það eru allt gamlar leiðindalummur og varla mikil von til þess að nokkur verði sleginn til riddara með því að fjalla um slíkt.

En þetta lið virðist hinsvegar mjög opið fyrir útlendingadekri og hamrar á því að við Íslendingar hljótum að vera vondir menn og mannúðarsnauðir, ef við bjóðum ekki hverjum sem er að setjast hér að og helst með tvöföldum mannréttindum á við þá sem búa hér fyrir !

Til hvers byggjum við upp velferð í landinu okkar ? Til hvers hafa kynslóðir Íslendinga unnið myrkranna á milli til að reyna að bæta lífskjör sín í þjóðfélagi þar sem arðrán og láglaunastefna hefur verið og er viðvarandi vandamál ? Höfum við verið að því til að safna í sístækkandi fyrirgreiðslupakka fyrir útlendinga ? Ég held að allir viti hversvegna menn hafa lagt mikið á sig í vinnu og erfiði, fólk gerir það til að byggja upp fyrir börn sín og niðja og bæta lífsaðstæður þeirra – að sjálfsögðu. Það er höfuðskylda hvers manns !

En svo höfum við fullt af liði sem í býsna mörgum tilfellum – vil ég meina – hefur aldrei lagt mikið á sig eða erfiðað í þessu landi, en sem vill að afrakstrinum af erfiði okkar hinna sé varið í allt aðra hluti. Þar kemur hið arðránsmettaða sjónarmið fram varðandi meðferð almannafjár sem eitt sinn var orðað svo af sjálfskipuðum tignartindáta: „Fólkinu kemur ekkert við hvað gert er við þessa peninga !“

En það er bara alls ekki rétt. Fólki kemur við hvað gert er við almannafé og það er hrópandi ranglæti í því að nota almannafé gegn hagsmunum fólks eins og ég tel til dæmis að gert sé í gegnum lífeyrissjóðakerfið. Einsýnar geðþóttaklíkur í bæjarstjórnum og á ýmsum valdastigum eiga ekki að fá að ákveða upp á sitt eindæmi hvort við tökum hér á móti flóttamönnum og hvað mörgum. Þar er bara verið að leika sér með almannafé og um leið að auglýsa sýndarmanngöfgi á annarra kostnað !

Einstaka bæjarstjórnir eru í raun að segja : „Ef ríkisstjórnin veitir fjárhagslega innspýtingu í bæjarsjóðinn okkar skulum við taka á móti flóttamönnum !“ Svo verða einhverjar hugmyndir til hjá ríkisvaldinu að efla hinar dreifðu byggðir með því að setja flóttamenn niður hér og þar með ærnum tilkostnaði. Innan tveggja ára eða þar um bil eru þeir svo oftast komnir allir til Reykjavíkur, þar sem eru að myndast útlendingahverfi eins og víða erlendis !

Hverskonar stefna er þetta eiginlega ? Vestur Evrópulönd sem lúta forustu Bandaríkjanna í flestu eru að karpa sín á milli um einhvern flóttamannakvóta en hvað skyldu Bandaríkin hafa tekið við mörgum flóttamönnum frá Sýrlandi síðan óöldin hófst þar, sem hrakið hefur meira en fjórar milljónir manna frá heimilum sínum.  ? Mér skilst að þeir séu 1500 talsins.... Talað er um að hugsanlega verði tekið við 8000 á næsta ári en það er þó enganveginn víst !

Sumir eru að tala um að við hér ættum að taka við 100 flóttamönnum inn í rúmlega 300 þúsund manna samfélag, ef það væri ávísun á settan kvóta hvað ættu þá Bandaríkin með sínar 323 milljónir að taka við mörgum ? Reiknið þið bara sjálf og veltið því fyrir ykkur hvort höfuðgæskuríkið sjálft muni vilja taka við 100 þúsund flóttamönnum ?

Þó að fjölmiðlar hamist á fullu og hegði sér sem uppsett flóttamannaráðuneyti og vilji helst opna hér allar dyr, er flestum ljóst að rétt er að fara varlega í þessi mál og gæta vel að hagsmunum íslenskrar þjóðar sem enn telst eiga þetta land. Hversu lengi hún kemur til með að eiga það getur farið eftir ýmsu, til dæmis því hvað við viljum koma mörgum útlendingum hér fyrir, hvort að hin Gasa-legu yfirvöld í Reykjavík fari að - og komist upp með - að reka sína eigin utanríkismálastefnu í trássi við íslenska ríkið, hvort að ábyrgðarleysi og öfugsnúið umburðarlyndi eigi að fá að ráðskast með fjöregg þjóðarinnar og leiða öll okkar vandmeðförnu þjóðaröryggismál inn í kolsvarta blindgötu ?

Það er afskaplega margt sem virðist segja okkur að yfirvöld hér séu gjörn á að gera allskyns klúður sem þjóðin verður svo að gjalda fyrir með einum eða öðrum hætti !

 

 

 


Evrópu skortir skilvirka forustu !

Leiðtogar Evrópu eru ekki stórbrotnir menn og það leynir sér ekki að sýn þeirra fyrir nútíð og framtíð er mjög takmörkuð. Flestir þeirra virðast vera á daglegum vinsældaveiðum og sumir eru greinilega dauðhræddir við að ímynd þeirri bíði skaða af þessu og hinu. Geta þeirra til að bregðast við aðsteðjandi vandamálum er því ekki mikil að vöxtum og álfan sem heild líður fyrir það !

Frakkland hefur til dæmis ekki átt sæmilega frambærilegan forseta síðan Mitterrand var á dögum og Bretland hefur lengi vel haft úr gosum einum að spila. Líklega er núverandi kanslari Þýskalands sterkasti leiðtogi Evrópu í dag bæði með hliðsjón af persónulegri stöðu og ríkisstöðu. En þar er heldur ekki allt sem sýnist og sumt brothættara en margir myndu ætla.

Angela Merkel er búin að vera kanslari Þýskalands í um áratug. Hún hefur sem fyrr segir þótt nokkuð skeleggur leiðtogi en ég er ekki viss um að hún eigi eftir að bæta nokkru við orðstír sinn úr þessu. Kannski ætti hún að fara að huga að því að hætta, svo hún venjist ekki svo völdunum að hún geti ekki hugsað sér að missa þau. Það er mjög nauðsynlegt fyrir stjórnmálamann að vita hvenær best er fyrir hann að víkja – og það þarf að gerast áður en það verður til krafa um að hann fari – eins og til dæmis varð í tilfelli svonefndrar Járnfrúar !

Varðandi efnahagsmálavandann í Grikklandi virtist Merkel kanslari lengi vel mjög tvíátta og sýndi ekki þann styrk sem hún hafði þó stundum áður virst hafa til að bera. En nú varðandi flóttamanna-flóðölduna virðist hún vera komin niður á eitthvert kvótakerfi fyrir þjóðir Evrópu um viðtöku á fólki og talar jafnframt um fordóma og mannfyrirlitningu ef menn eru ekki sammála henni !

Það er hreint út sagt mitt álit - að Merkel kanslari ætti sem leiðtogi Þýskalands að tala varlega um mannfyrirlitningu. Við þurfum ekki að fara langt aftur í söguna til þess tíma þegar einhver mesta mannfyrirlitning sem mannkynssagan kann frá að greina þreifst og dafnaði innan Þýskalands og það fyrir atbeina stjórnvalda þar. Þegar valdhafar fara að tala með þeim hætti, að þeir séu ekki í húsum hæfir eða á vetur setjandi sem ekki eru sammála þeim, eru þeir ekki lengur að tala á lýðræðislegum forsendum og Angela Merkel mætti vel hafa þá staðreynd í huga !

Það er hinsvegar stórt og stækkandi vandamál á okkar tímum hvað það virðist mikið stundað að reyna að þagga niður í fólki með andstæðar skoðanir með því að ásaka það um fordóma – og þá jafnframt líklega mannfyrirlitningu ! Þegar einhver einn ásakar annan um fordóma, er hann í raun sjálfur að sýna fordóma gagnvart skoðunum viðkomandi manns. Hann er í raun að segja: „Ég er með réttar og viðurkenndar skoðanir, en þú ekki, athugaðu það, þessvegna ættir þú bara að skammast þín og hafa vit á því að þegja !“ Ég spyr, hvar er lýðræðið í svo hrokafullri framkomu ?

Þjóðverjar eru í allt annarri stöðu en Bretar og Frakkar gagnvart yfirstandandi flóttamanna-vandamáli. Hinir síðarnefndu fengu yfir sig gífurlegan fjölda innflytjenda á forsendum samveldislaga á sínum tíma. Þar kom nýlendukúgunin gamla með afleiðingum sínum harkalega í bakið á móðurlöndunum og líklegast áttu þau það bara skilið, en hið svo til nýlendulausa Þýskaland þurfti ekki að glíma við slíkan vanda. Bretar og Frakkar voru því komnir með innflytjendur í tugþúsundatali áður en Þjóðverjar vissu eiginlega hvað innflytjendur væru – eða hvað hugsanlega gæti fylgt þeim til landsins !

Þegar hið svokallaða þýska efnahagsundur fór að framkallast um 1960 – mest fyrir bandarískt fjármagn, vantaði hinsvegar vinnuafl í Vestur-Þýskalandi og fjöldi fólks frá Tyrklandi og ýmsum öðrum ríkjum sem ekki stóðu vel efnahagslega, streymdi inn í auðsæluríki þeirra Adenauers og Erhardts. Síðan hefur gengið á ýmsu í Þýskalandi, ósameinuðu sem sameinuðu. Kanslarar hafa komið og farið við misjafnan orðstír og þriðja kynslóð þýskra Tyrkja eða eigum við að segja tyrkneskra Þjóðverja er komin á sviðið ?

Aðlögun að þýsku samfélagi er hinsvegar lítt sem ekki mælanleg. Upprunalandið ræður enn sem fyrr öllu en viðkomulandið litlu sem engu. En þýsk stjórnvöld eru í klemmu milli arískrar kynþáttahyggju fyrri tíma og vandamála í seinni tíma sem hafa orsakast af ótta við að taka af festu og einurð á þessum málum. Og meðan það er ekki gert heldur vandinn skiljanlega áfram að aukast ! Stjórnvöld reyna að finna einhvern milliveg og koma þannig til móts við sem flesta en slíkur millivegur er því miður ekki til.

Leiðtogar Evrópu vita því ekki sitt rjúkandi ráð gagnvart flóttamanna-innrásinni í álfuna og engin áætlun er til hvað gera skuli. Meðan streymir annarra þjóða fólk í þúsundatali inn í evrópsk samfélög og það mun hafa sín áhrif á það hvernig málefnum álfunnar verður stjórnað á komandi árum. Vægi þeirra sem fyrir eru, rýrnar stöðugt í augum stjórnmálamanna sem vita ekki lengur hverju þeir eiga að þjóna og hafa enga þjóðlega sýn á framtíðina. Þjóðir Evrópu eru að missa frelsi sitt í hendur aðkominna afla !

Forustulaus heimsálfa, með stefnuleysið eitt að kjölfestu, andlega fjötruð í áttleysu fjölmenningar og sífellds undanhalds í eigin gildismálum, getur hvergi endað nema í því kviksyndi sem gera mun alla evrópska þjóðmenningar-arfleifð að engu á næstu fimmtíu árum ! Vei Evrópu, ef svo fer !

 


Um lausnir sem ganga ekki upp !

Sú var tíðin að Saddam Hússein var einræðisherra í Írak og þá var ástandið ekki gott í því landi. Sú var tíðin að Talibanar réðu í Afghanistan og þá var ástandið þarlendis ekki gott. Sú var tíðin að Muammar Gaddafi var einvaldur í Líbýu og þá var ástandið ekki gott þar.......En hvernig er ástandið í þessum löndum núna ?

Vesturveldin ákváðu að hreinsa þarna til og hver er niðurstaðan ? Ástandið er verra í þessum löndum eftir á en það var áður. Hundruð þúsunda mannslífa hafa verið þurrkuð út við aðgerðir sem hafa litlum sem engum ávinningi skilað. Ástandið í Írak hefur fætt af sér islamska ríkið og margfaldað ógnir og manndráp í þessum heimshluta. Í Afghanistan voru Talibanar komnir að fótum fram þegar ákveðið var að ráðast þar inn, fólkið var búið að fá nóg af þeim og vildi þá burt.

En afskipti Vesturveldanna reyndist algjör vítamínsprauta fyrir Talibana, nú er staða þeirra miklu sterkari en hún var og fjölmargir berjast nú með þeim sem aldrei hefðu látið sér það til hugar koma áður. Þegar menn eru í þeirri stöðu að búið er að drepa alla fjölskyldu þeirra með ábyrgðarlausum loftárásum á þorp uppi í fjöllum, ganga þeir auðvitað í lið með þeim sem berjast gegn þeim sem slíkt gera !

Þeir eru því ófáir sem berjast nú með Talibönum sem jafnvel hötuðu þá áður. Frá Lýbíu var ekki stanslaus straumur flóttafólks yfir Miðjarðarhafið í tíð Gaddafis. Þá drukknuðu ekki þúsundir manna á þeirri leið, fólk sem er að flýja skelfingarnar í þessu nýfrelsaða ríki og í heimshluta þar sem allt hefur gengið úr skorðum. Hverskonar afskipti voru þetta eiginlega af málefnum Lýbíu ? Átti ekki að koma lýðræði á þarna ? Hverjir eru þar við völd núna, er ekki tvíhöfða ófreskja þar núna í stað Gaddafis ?

Er öllum sama um viðbjóðinn í Sýrlandi, er það kannski vegna þess að Rússar eru ekki á sviðinu ? Hvar er hið svokallaða alþjóðasamfélag í því tilviki, þetta áhrifaríka fyrirbæri sem látið er hoppa fram þegar stórveldapólitíkin krefst þess ? Alþjóðasamfélagið er greinilega ekki vakið upp varðandi ástandið í Sýrlandi. Þar má drepa og drepa og enginn gerir neitt til að taka í alvöru á því máli !

Hin svonefnda hryðjuverkaógn er í raun og veru að talsverðu leyti afleiðing stefnu og gerða hinna almáttugu Vesturvelda í málefnum Miðausturlanda. Þar leiða Bandaríkin hjörðina og skilningur á utanríkismálum hefur aldrei verið mikill af hálfu bandarískra stjórnvalda, hvorki fyrr né síðar.

Sá sem telur sig á toppnum horfir svo lítið niður fyrir sig og virðist fremur hugsa sitt eftir línunni per ardua ad astra – áfram til stjarnanna. Fjölmenningarhrærigrautur Bandaríkjanna veldur því líka að bandarískir ráðamenn skilja ekki aðstæður þar sem ein þjóð er ráðandi í eigin landi og vill fá að vera það áfram. Þessvegna er svo margt sem bandarísk stjórnvöld leggja til mála í alþjóðlegum efnum andstætt þeirri einingarhugsun manna sem felst í að þeir vita sig vera af sömu rótum komna og vilja halda þar um sitt !

Þjóðflutningarnir frá islömskum ríkjum til Evrópu eru þegar farnir að ógna öllum sögulegum gildum evrópskra ríkja. Girðingar og múrar eru að rísa upp á landamærum Evrópuríkja því hver þjóð reynir að verja sitt land gegn þeirri holskeflu flóttamanna sem sækir á. Ríki suður Evrópu sem mörg hver standa tæpt efnahagslega séð, ráða enganveginn við vandann og enginn getur heldur ætlast til þess.

Tyrkir sem eru aðildarþjóð Nato virðast hafa beitt sér í málum flóttamanna og stríðandi aðila með mjög sérkennilegum hætti og stundum virðist full þörf á að spyrja – með hverjum standa þeir eiginlega ?

Afskipti Vesturveldanna af málum í þessum heimshluta hafa reynst örlagarík til þessa. Þau hafa ekki leyst neinn vanda, þvert á móti hafa vandamálin margfaldast og þau öfl sem átti að kveða niður hafa fengið byr undir báða vængi. Einhverntíma hefðu menn litið á slík afskipti allt öðrum augum en sem leiðum til lausna ?

Framtíðar-Vandalar evrópskra þjóðmenninga flykkjast nú til álfunnar sem flóttamenn, en eftir 10-15 ár verða þeir forsenda vaxandi yfirtökuliðs í þeim löndum sem þeim verður leyft að setjast að í. Sagan endurtekur sig stöðugt með æ hrikalegri afleiðingum.

Ég er eiginlega mest hissa á því að evrópskir ráðamenn skuli ekki fullkomna sjálfsmorðsferlið í eitt skipti fyrir öll, eins blindir og þeir eru. Íslenskir ráðamenn gætu til dæmis gert það með því að opna landið fyrir svona 100.000 flóttamönnum !

Það leysti að vísu engan sérstakan vanda erlendis í þessum efnum, en það myndi leiða til þess að ekki þyrfti lengur að vera vesenast yfir íslenskri þjóð og tilvistarvandamálum hennar því þá hætti hún einfaldlega að vera til !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 398
  • Sl. viku: 1420
  • Frá upphafi: 315401

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1137
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband