Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017

Um sjálfstæði og frelsi í fallvöltum heimi !

 

Sjálfstæði virðist mjög afstætt hugtak í margra augum. Sumir sem hafa svikið þjóð sína og frelsi hennar hafa alltaf talið sig hafa barist fyrir sjálfstæði og frelsi eigin fólks. Þegar slíkir hafa verið teknir af lífi fyrir landráð hafa þeir jafnvel staðið í þeirri trú að þeir hafi ekkert rangt gert !

 

Þegar menn berjast fyrir röngum málstað verður siðvillan leiðandi í hugsun þeirra. Þannig er samviskan svæfð og rangindin látin ráða för. Dæmi um slíkt öfugstreymi í ráðslagi manna finnast meðal allra þjóða !

 

Á Íslandi hafa löngum margir kosið sjálfstæðisflokkinn vegna þess að þeir hafa álitið hann einhverja sérstaka vörn fyrir sjálfstæði lands og þjóðar. Einkum gilti það þó fyrr á árum. En sjálfstæðisflokksmenn hafa ekkert endilega verið sjálfstæðis-sinnaðir í raun og veru og það hefur oft komið berlega í ljós eins og dæmin sanna.

 

Nokkrum mönnum innan flokksins, mönnum sem áttu enn til þjóðhollustu, þótti stundum á árum áður ömurlegt að horfa upp á þjónkun flokksforustunnar við Breta og Nató, – einkum þó í landhelgismálunum sem alræmt var. En nú eru slíkar raddir líklega þagnaðar með öllu ásamt þeirri þjóðhollustu sem þá var til staðar !

 

Síðar meir urðu svo Bandaríkjamenn átrúnaðargoð flestra Sjálfstæðismanna og voru sleiktir milli hæls og hnakka, sérstaklega þó meðan hermangið gat haft sinn gang. Sjálfstæðishugsunin varð auðvitað að víkja fyrir gróðamöguleikunum kringum það.

 

Þar fundust menn sem höfðu jafnvel við orð að við ættum að sækja um aðild að Bandaríkjunum og sést þar hvað sjálfstæðishugsjónin var þeim dýrmæt í raun eða hitt þó heldur !

 

Sumir sjálfstæðismenn vilja nú á tímum að við látum svelgja okkur inn í Evrópusambandið og segjast vera jafn sjálfstæðir fyrir því. Svo víða virðist nú þetta nafngildi “ sjálfstæðismaður ” geta verið bundið öfugum formerkjum og taka bara pólitískt mið af innantómu, uppblásnu áróðursheiti !

 

Sjálfstæði er hinsvegar enn sem fyrr raunhæft hugtak sem býr yfir stóru gildi og það kemur fram hvar sem er á jörðinni. Það innifelur frelsisþrá mannsins til að ráða eigin málum. Við höfum oft viljað eigna Evrópuþjóðum sérstaka lýðræðishefð, en gleymum því jafnframt oft að sú lýðræðissaga hefur býsna oft verið spillt og rotin !

 

Það voru t. d. hægristjórnir Englands og Frakklands sem áttu drýgstan þáttinn í því, ásamt Hitler og Mussolini, að koma Franco til valda á Spáni og þar með tortíma spænsku lýðræði. Sumum í Katalóníu finnst nú sem vofa fasismans frá hinum langa einræðistíma Francos sé enn til staðar í Madrid. !

 

Og nærtækt er að spyrja, af hverju á Katalónía að lúta spænskum lögum ef Katalónar vilja fara sína leið og segja skilið við Spán ? Er þar ekki um sérstaka þjóð að ræða sem á sitt land og sinn rétt ?

 

Það þarf heldur ekki að koma neinum á óvart að bresk stjórnvöld styðji spænsku stjórnina, Skotlandsmálin hræða þar og hugsanleg hreyfing fyrir aðskilnaði í Wales. Bandaríkin og Evrópusambandið vilja ekki vegna Nató og annarra hagsmuna Vesturlanda að Spánn fari að partast.

 

Öll stjórnvöld Vestur-Evrópu eru á móti sjálfstæðishreyfingum þar. Þau hafa hinsvegar flest viljað stuðla að því að ríki í austurhluta álfunnar partist sem mest svo auðveldara verði að ráðskast með þau !

 

Spánn má ekki minnka og Katalónía má ekki fá sjálfstæði, hvað þá Baskaland ! En hvað er lýðræði, er það ekki skírskotun til þess að fólk fái að ráða sínum málum ? Af hverju máttu Suðurríkin ekki segja sig úr bandaríska ríkjasambandinu á sínum tíma fyrst þau vildu það ? Hverskonar sýn réði í Washington gagnvart réttindum þeirra ?

 

Í kvöldverðarboði á afmælisdegi Thomasar Jefferson um 1830 lyfti Andrew Jackson forseti glasi sínu, leit til varaforsetans John C. Calhoun og mælti: ,, Fyrir alríkinu okkar. Það ber okkur að varðveita !” Calhoun stóð upp og svaraði skjótlega: ,, Fyrir alríkinu. Það gengur næst á eftir frelsinu sem við metum öllu ofar !”

 

Af hverju áttu Norðurríkin að ráða frelsiskjörum Suðurríkjamanna og neyða þá til að vera áfram í ríkjasambandinu ? Voru þau þá ekki komin í það illræmda hlutverk sem Bretland hafði í þeirra eigin frelsisstríði – að vera sá aðilinn sem hindrar annarra frelsi - og kúgar ?

 

Það hefur verið farið illa með mannfrelsið oft og tíðum í Bandaríkjunum. Alríkið hefur vaðið yfir aðildarríkin með margvíslegum yfirgangshætti allar götur frá borgarastyrjöldinni sem aldrei hefði átt að eiga sér stað.

 

Það kostaði 600.000 mannslíf þá að halda Bandaríkjunum saman – á kostnað mannfrelsisins, en meðan hvítir Suðurríkjamenn kröfðust þess frelsis fyrir sig vildu þeir halda öðrum í ánauð. Aldrei er maðurinn sjálfum sér samkvæmur. Alltaf knýr sérgæskan hann til að segja : ,,Eitt gildir fyrir mig og annað fyrir þig !”

 

Bandaríski Republikanaflokkurinn er nú fyrst og fremst flokkur hinna ríku, flokkur hinna alréttháu tíu prósenta, alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn er hér. Þar er til staðar sama hugsunin og sama hagsmunagæslan – að standa vörð um auðklíkurnar !

 

Þeir sem styðja slíkan flokk fyrir utan hina innvígðu eru aðallega þeir sem vonast eftir beinum af borðum greifanna. Þeir bíða – eins og hundarnir – eftir því að einhverju verði hent í þá - að þeir fái eitthvað að naga ! Í þeim hópi er engin sjálfsvirðing til staðar heldur undirlægjuhátturinn einber !

 

Hvernig fer maður sem fullur er af þrælslund að því að verða sjálfstæður ? Þarf slíkur maður ekki alltaf að fá að heyra His Master´s Voice ! Er sjálfstæðisvitund eitthvað sem sumir menn eru ófærir um að þroska með sér ? Er þrælslund þeirra orðin algjör ?

 

Þegar maður upplifir framferði sumra manna gæti maður sem best haldið að svo hljóti að vera, því þeir virðast fæddir til að vera á fjórum fótum alla tíð !

 

Lýðræði Vesturlanda er sem fyrr segir mjög brotakennt fyrirbæri og margar eru misfellurnar þar og sumar þær verstu sniðnar til veruleikans vísvitandi, af ástæðum sérgæsku og mismununar. Baráttan fyrir mannfrelsinu þarf alltaf að halda áfram – um allan heim !

 

En mannréttindi verða að taka mið af því sem byggir samfélög upp en mega ekki virka niðurbrjótandi á þau gildi sem styrkja heilbrigt samfélag. Þá eru röng viðhorf farin að kalla eftir frelsi sem vinnur gegn almennri velferð.

 

Hin siðrænu viðhorf verða að fá að leggja sitt til mála á grundvelli þeirrar velferðar. Þar er enn eitt stórmálið sem mjög hefur skekkst í meðförum á síðustu áratugum og þarfnast þeirrar samfélagslegu endurhæfingar sem enn bíður síns tíma !

 

Árið 2018 er að ganga í garð. Þá verða 100 ár frá hildarleiknum mikla sem kallaður hefur verið fyrri heimsstyrjöldin. Vonandi þarf ekki að breyta því heiti í fyrsta heimsstyrjöldin. Og svo eru 100 ár frá því Ísland varð fullvalda ríki !

 

Fullveldi og sjálfstæði haldast í hendur og við Íslendingar höfum þjóðlegar skyldur gagnvart þessum hugtökum. Megi íslenska þjóðin jafnan minnast þess og sinna þeim skyldum áfram sem hingað til og hlynna þannig sem best að eigin rótum !

 

 

 

 


Undir bláu brennimarki !

 

 


Íhaldinu er tjón að trúa,

tíðum vill það sannast enn.

En verra er jafnvel við að búa

vinstri græna hægrimenn !

 

Hugmyndafræðilega gengur síðasta stjórnarmyndun þvert á pólitískar stöðulínur og svo virðist í flestu að Sjálfstæðisflokkurinn, eða hið dæmigerða íhald, hafi haft þar vinninginn. Allir vita að Framsóknarflokkurinn hefur verið mjög hægrisinnaður frá því að Halldór Ásgrímsson sveigði hann til þeirrar áttar, svo hann hefur bara verið í þeirri stöðu síðan að vera fylgihnöttur Sjálfstæðisflokksins - eða litla íhaldið !

 

Vinstri grænir voru hinsvegar á góðri leið með að tryggja sér þá stöðu að vera forustuaflið til vinstri þegar þeir tóku upp á því að skíta á sig með þeim hætti sem þeir gerðu. Afgerandi tilraun af þeirra hálfu til að sameina félagshyggjuöflin í landinu til ríkisstjórnar-þátttöku var aldrei gerð. Þar létu þeir Framsókn véla sig af leið !

 

Þó var staðan sú að Samfylkingin virtist undir róttækari og vinstrisinnaðri forustu en oftast áður og raunhæfir möguleikar á að einangra íhaldið og koma því út úr landsstjórninni voru líklega betri en lengstum áður !

 

Sjálfstæðismenn misstu 5 þingsæti og núverandi formaður flokksins er talinn maður spillingar í augum fjölmargra. Kjörið tækifæri til að koma flokknum frá völdum var því fyrir hendi en því var ekki sinnt af forustu VG. Flokkurinn sem talinn var lengst til vinstri var allt í einu orðinn algerlega einsýnn til hægri og svo fíkinn í völd og frama að öllu virðist hafa verið fórnað fyrir ráðherrastólana !

 

Hvað gekk Vinstri grænum eiginlega til ? Féll öll forustan þar - eins og Kata - fyrir forsætis-ráðherrastólnum ? Er ekki augljóst mál að VG mun tapa á þessum villu-viðsnúningi sínum og ætti skilið að fá herfilega útreið við næstu kosningar ?

Ég vona bara að sú útreið verði svo afgerandi að hún slái þennan aumingjaflokk alveg út af hinu pólitíska korti. Hann á ekki annað skilið eftir sleikjuháttinn við íhaldið, en fólkið í landinu á skilið að fá heilsteyptari vinstri flokk upp á kortið í staðinn !

 

Hver skyldi svo stefna þessarar furðulegu ríkisstjórnar vera ? Er hún vinstrisinnuð og félagshyggjuvæn ? Nei, slík stefna er ekki gerleg með íhaldið innanborðs ! Hver er þá stefnan, er hún hægrisinnuð og auðvaldsvæn ? Já, hún getur alveg verið það því VG er ekki lengur neitt afl sem hindrar slíkt. Sumir tala um fjarstýringu í þeim efnum. Forustan í VG er bara ánægð með að vera við völd, skítt með stefnuna !

 

Hver skyldi svo staðan vera - eftir þetta sérgæskufulla og ómerkilega valdabrölt VG, - séð af sjónarhóli þess fólks sem vill í alvöru berjast gegn allri spillingu ? Jú, Bjarni Ben er aftur orðinn fjármálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra. Hvorugur þessara manna telst æskilegur valdamaður í augum þeirra sem vilja hreint borð og trúverðuga meðferð mála. Og þeir eru leiddir til áframhaldandi valda í umboði VG !

 

Kristján Þór segist telja sig geta tekið ákvarðanir um sjávarútvegsmál þar sem Samherji kemur ekki við sögu, en Samherji kemur alls staðar við sögu í íslenskum sjávarútvegi og það veit Kristján Þór auðvitað eins og aðrir. Kvótakerfið er að mínu mati í traustum vinarhöndum hjá hinum nýja sjávarútvegsráðherra og VG hefur sýnilega lagt flokkslega blessun sína yfir þá stöðu mála !

 

Mér liggur nú bara við að segja, af hverju stigu menn ekki skrefið til fulls og gerðu Þorstein Má sjálfan að sjávarútvegsráðherra ? Mátti ekki gera það alveg eins og að skipa umhverfismálaráðherrann úr hagsmunahópi úti í bæ ?

 

VG hefur tapað trúverðugleika sínum og þar anaði öll forustuhjörðin á eftir formanninum - að því er virðist í blindri persónudýrkun. Sú var nú öll félagshyggju-afgreiðslan þar á bæ. Einhver hefði nú haldið að þar væri horft hærra en að taka við hækjuhlutverki þeirrar Björtu framtíðar sem aldrei skilaði sér. Fyrir kosningar og jafnvel fyrst eftir þær hefði varla nokkur maður búist við slíkum vinnubrögðum af hálfu forustu VG !

 

Svikagjörningur flokksins mun hafa mikil og varanleg áhrif á stjórnmálin á komandi árum og ekki til góðs. Kata Kobba hefur sýnt að hún er ekki merkilegur leiðtogi og hún verður varla langlíf í marktækri forustu hér eftir, ef að líkum lætur, og Skalli karlinn er orðinn áttavilltur í meira lagi og sýnilega litblindur í þokkabót !

 

Eftir valdatíma núverandi stjórnar mun koma sá tími að VG mun reyna að endurheimta fyrri stöðu og þann trúverðugleika sem henni fylgdi, reyna að taka sér stöðu á ný sem aðal andspyrnuafl gegn íhaldinu !

 

En það verður ekki auðvelt mál. VG forustuklíkan er nú orðin sambærileg við Framsóknarflokksforustuna í sleikjuhætti við íhaldið, svo traustið getur ekki orðið það sama. Það endurheimtist ekki svo glatt eftir þau stefnusvik sem framin hafa verið.

 

Bláa brennimarkið mun nefnilega fylgja VG hér eftir !

 

Nýr flokkur – trúr sínum stefnumiðum - þarf nú sem fyrst að koma fram til vinstri !

 

 


Um gerendur og þolendur !

 

 

Nú er umræða dagsins, eflaust fyrir atbeina ákveðinna aðila, komin á það stig sem ég hef haft fullan grun um að hún færi fyrr en síðar. Það er byrjað að reyna að skipta um hlutverk í hinum mikla þjóðarharmleik sem sögulega hefur fengið nafnið Hrunið !

 

Nú er nefnilega verið að gera þolendur þar að gerendum og gerendur að þolendum. Þeir sem urðu fyrir mótmælum og andúð í kjölfar Hrunsins vegna græðgisathafna sinna, skulu nú leiddir fram sem saklausir píslarvottar, fórnarlömb múgsefjunar og skrílsláta, og sagt frá því hversu ægilega þeim hefur liðið allar götur síðan !

En það er ekkert nýtt að reynt sé að vekja samúð með röngum aðilum og þarna er blygðunarlaust verið að fara þá leið – og allri sök skal komið á almenning !

 

Nú á sem sagt veislufólkið frá því fyrir Hrun að fá sakleysisvottun í gegnum hliðholla fjölmiðla og allskyns óhreinan áróður. Það vissi víst ekki til þess að það hefði gert neitt rangt og virðist ekki vita það enn og nú vill það fá leiðréttingu mála fyrir það sem það hefur mátt þola. Heyr á endemi !

 

Spillingarstyrkir, sjálflaunataka, fjárplógsstarfsemi, allskyns svikræði við almenna velferð, allt slíkt og meira til á nú ekki að skipta neinu máli lengur. Það eina sem ámælisvert virðist vera í augum gjammandi varðhunda veisluhaldaranna sem komu hér öllu í þrot, er að réttlát reiði almennings skyldi fá að beinast að einstaklingum sem voru svo óttalega varnarlausir og berskjaldaðir og höfðu ekki enn komið sér upp einkahersveitum til að gæta sín eins og þekkist erlendis !

 

Lögreglunni er ámælt fyrir að hafa ekki varið forréttindahyskið nógu vel á þessum örlagatímum og það er talað um að einum hafi verið fórnað fyrir hina og auðvitað hafi konur farið verst út úr öllu af því að þær voru konur !

 

Komu konur eitthvað við sögu í Hruninu ? Voru þær ekki stikkfríar þar eins og í öðru ? Það þyrfti kannski að fara miklu betur ofan í saumana varðandi þá hluti og varpa ljósi á eitt og annað í þeim efnum ?

 

En ég verð nú að segja að ausandi tilfinninga og táraflóð í sjónvarpi frá sumu af þessu veislufólki virkar nú ekki sterkt á mig en sjálfsagt þeim mun betur á ýmsa aðra. Ég tel mig nefnilega vita hverjir voru gerendur og hverjir voru þolendur í Hruninu og það fær mig enginn til að gleypa við hinum nýju söguskýringum. Ég taldi mig vita það fyrir að þær myndu koma, því ákveðin öfl vilja alltaf fá að leiðrétta staðreyndir. Áróðursútvarp íhalds og einkavæðingar hefur sýnt það - að mínu mati - varðandi þessa hluti og aðra, að þar viti menn gjörla fyrir hvað og hverja þeir starfa !

 

Mér er minnistætt þegar Helgi Hjörvar var í viðtali í fyrrnefndu áróðursútvarpi í marslok 2017 og útvarpsmaðurinn hvæsti á hann : ,, Þið sátuð í 4 ár og gerðuð ekki neitt !” Þarna kom fram enn eitt dæmið um öfuga hugsun gagnvart gerendum og þolendum, af hálfu þeirra sem eiga að gæta hagsmuna þeirra sem aldrei mega verða sakaðir um eitt eða neitt. Gerendur afsakaðir og þolendur ásakaðir !

 

Því miður svaraði Helgi þessu ekki eins og hann hefði átt að gera, hann fór bara í keng en þarna átti hann að svara málsvara íhaldsins af fullri hörku: ,,Þetta er alrangt hjá þér, hverjir sátu að völdum í 16 ár þar á undan og skildu við allt í rúst ? Hverjir skildu við þannig, að í þessi fjögur ár gátum við ekki annað en staðið í stöðugum skítmokstri eftir þá og þeirra verk, hugsaðu um það og svaraðu því ?’’

 

Er nú búið að gleyma þúsundum landsmanna sem voru sviknir og vélaðir af vikadrengjum auðvaldsins í bönkum og fjármálastofnunum ? Hvað um allt gamla fólkið sem var fullvissað um að peningar þess væru vel ávaxtaðir, en missti svo allt sitt, missti allt sparifé ævinnar, heiðarlega fengið en með botnlausu vinnustriti ?

 

Þar má finna þolendur þess óheiðarleika og þess siðleysis sem var í fullum gangi árin fyrir Hrunið. Þar var efnahagslegt ofbeldi í fullum gangi og kerfið lét það átölulaust, gaf því jafnvel blessun sína. Þar bjargaði enginn, þar var ekkert öryggi til, þó hundruðir manna væru á háum launum í ýmsum embættum til að tryggja að ekkert slíkt glæfraspil gæti átt sér stað !

 

Þar var hið ónýta öryggiskerfi sem gerði ekkert í fjögur ár og meira til, nema hirða launin sín, en tilteknir útvarpsmenn myndu trúlega aldrei fást til að sjá þá staðreynd eða viðurkenna hana á nokkurn hátt. Þeir eru gerðir út til annarra verka !

 

Og nú á að búa til þolendur úr gerendunum ? Nú ætlar ,,varnarlið sérhagsmuna-klíkunnar’’ að þvo skítinn af sínu hyski og setja geislabaug á það allt saman !

 

Nei, það þýðir ekki að bjóða mér upp á slíkt. Ég á og hef lesið Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er hrikaleg lesning um siðlaust framferði !

 

Ég læt ekki ljúga því að mér að hýenur séu heiðursdýr, að hreysikettir séu trúverðugir, að rottur séu virðingarverðar, að gerendur glæpa séu þolendur !

 

Það verða víst alltaf til sníkjudýr sem sækja í brauðmolana af borðum hinna ríku, einhverjir sem hlaupa til þegar peningagreifinn og valdsherrann sigar. Slík og þvílík þý eru greinilega að reyna að velta sök á almenna borgara í umræddum efnum og hvítþvo þá sem brugðust öllum samfélagsskyldum sínum. En það mun ekki takast því íslenskur almenningur er ekki neitt samansafn af huglausum hálfvitum !

 

Samúð mín er og verður með þolendum Hrunsins, hinum raunverulegu þolendum þess sem látið var gerast, þolendum þeirra efnahagslegu glæpa sem drýgðir voru gegn þúsundum landsmanna og almennri velferð þjóðarinnar. Gerendur verða í smáu sem stóru að axla sína ábyrgð og bera sitt óafmáanlega brennimark !

 

Þeir eiga ekki að fá neina syndakvittun fyrir framferði sitt og þaðan af síður að fá þá stöðu að þeir hafi verið þolendur ranglætis. Þeir geta áfram komið í skipulögð viðtöl og látið leigupenna skrifa bækur um sakleysi sitt og óverðskuldaðar þjáningar, en þeir bera markið sem allir þekkja og myndu þar af leiðandi skammast sín ef þeir kynnu það. Látum ekki villa okkur sýn og telja okkur trú um að gerendur séu fórnarlömb !

 

Spillingar-veislukóngarnir og fylgjendur þeirra, þeir sem voru arkitektar Hrunsins, hafa aðeins að litlu leyti uppskorið það sem þeir sáðu til með himinhrópandi græðgi sinni sem öll var á kostnað alþjóðar. Varnarlið þeirra - í kerfinu og utan kerfisins, getur aldrei þvegið þá hreina í augum þjóðar sem enn er í sárum eftir siðlaus glæfraverk þeirra !

 

 

 

 

 

 


Nokkur orð um ,,flott fólk” !

 

Um daginn heyrði ég nýjan alþingismann tala um flokk sinn og síðustu kosningar. Talaði hann um uppstillingu á framboðslistum þar. Varð hinum nýbakaða þingmanni tíðrætt um að vel hefði tekist þar til með val á frambjóðendum og margt flott fólk komið þar inn !

 

Nú er það svo, að ef talað er um að sumir séu ,,flott fólk,” má gera ráð fyrir að slík umsögn feli það í sér að til sé annað fólk sem sé þá ekki flott. Og þar sem viðkomandi þingmaður er úr Samfylkingunni, sem telst vera jafnaðarmannaflokkur, varð þetta mér nokkurt umhugsunarefni !

 

Ég hefði ekki verið neitt hissa á því að heyra svona tekið til orða af þingmanni úr hægri flokki, einhverjum með þrá í huga eftir horfinni Versaladýrð, en af hverju talar yfirlýstur jafnaðarmaður svona ?

 

Hvaða jafnaðar-sjónarmið liggja að baki því að skilgreina suma sem flott fólk og viðhafa slíka aðgreiningar umsögn ? Það væri fróðlegt að vita hvað lægi að baki þessari flott-lýsingu !

 

Sumir tala um að það séu tvær þjóðir í þessu landi og er í því sambandi einkum vísað til vaxandi misskiptingar og aukinnar fátæktar í okkar samfélagi. Það er náttúrulega ekki góð framvinda í málum og mikil þörf á réttum viðsnúningi þar !

 

En skyldi fátækt fólk flokkast undir það að vera flott fólk í hugarheimi jafnaðar-þingmannsins ? Ég er ekki viss um það, enda aðalatriðið í mínum huga að fólk sé gott hvað sem líður flottheitunum !

 

En við vitum líka að til er svokallaður ,,stjörnuheimur,“ þar sem fólk þykir flott í augum þeirra sem hylla hégóma og yfirborðsmennsku. En í þeim heimi ríkir líka eindæma mikil sérgæska, mismunun, ójöfnuður og ranglæti !

 

Ég vona að jafnaðar-þingmaðurinn sé ekki að vísa til einhvers sem er talið flott í einhverjum stjörnuheims skilningi, því slíkt viðhorf á sannarlega heima annars staðar en hjá þingmanni sem býður sig fram til að vinna að hugsjónum jafnaðarstefnunnar ?

 

Í gamla daga þegar svokallað aðalsfólk ráðskaðist með réttindi annars fólks á svívirðilegan hátt, lá ljós fyrir skilgreiningin á flottu fólki. Það voru afæturnar sem lifðu á erfiði annarra – blóðsugur þeirra tíma !

 

Í seinni tíð hefur borið á því að menntahroki hafi tekið við af aðalshrokanum og þar sé nútíma skilgreiningin á því hvað sé flott fólk í dag og kannski eru bara blóðsugurnar komnar aftur – eða fóru þær kannski aldrei ? Biðu þær bara nýrra tækifæristíma og eru þeir kannski komnir núna ? Eftir því sem gráðurnar eru fleiri á manneskjan að vera flottari !

 

En hvað sagði Oscar Wilde eitt sinn: ,, Education is an admirable thing, but it is well to remember from time to time that nothing that is worth knowing can be taught !“

 

Hégóminn er samt alltaf samur við sig og manngildið á alltaf í vök að verjast gegn honum og fylgjendum hans. Alltaf eru fundnar upp nýjar leiðir til að aðgreina fólk og setja upp einhverja goggunarröð, einhvern tignarstiga, einhverja metorðaskráningu !

 

Og inntakið í því öllu er sama gamla sjálfsupphafningar-tuggan : Ég er betri, meiri og merkilegri maður en þú, ég á að hafa margfaldan rétt umfram þig !

 

En allt slíkt framafíknareðli byggir sitt á eftirsókn eftir vindi og hefur mjög lítið að gera með raunverulegt manngildi sem býr miklu frekar og öllu heldur í því sem er gott heldur en því sem þykir flott !

 

Ef framboðslistar vitnuðu meira um það að gott fólk væri þar að finna, gott fólk með hjarta fyrir samfélagi sínu, værum við á mun betri braut en ella, jafnvel þó fólk sem þætti flott kæmi þar lítið sem ekkert við sögu. Yfirborðsmennska gyllinganna á aldrei raunhæfa samleið með heilbrigðu manngildi !

 

Ekki kæmi mér á óvart að umræddur jafnaðar-þingmaður hefði þá skoðun að ríkisstjórnin nýja sé skipuð flottu fólki en ekki finnst mér það. Það er margklifað á því að þar sé fólk sem komi úr ólíkum flokkum, en er það í rauninni svo, er þetta ekki bara mjög líkt fólk, fólk sem er fyrst og fremst upptekið af eigin frama og ferilskrá ?

 

Það mun sannast með þessa ríkisstjórn eins og annað sem líkt er á komið með, að þegar sáningin er slæm getur uppskeran aldrei orðið góð !

 


Sandkassavísur

 

Í sandkassanum sviðið allt

svipt var ráði snjöllu.

Þar var bæði blautt og kalt,

blendin staða á öllu.

 

Liðið allt var hengt í hnút,

horfði út og suður.

Þar að öllum sótti sút,

sannur ófögnuður !

 

Bjarni í mestum vanda var

á vegi þyngstu nauða.

Svo Kata trítlaði til hans þar

og tók að hugga kauða.

 

Fram hún lagði sjarma sinn,

sagði í máli hvötu:

,,Blessaður vertu, Bjarni minn,

brostu nú til Kötu !”

 

Sagði hún hvorki svei né nei,

svip ei beitti ströngum.

Upp leit hrakið íhaldsgrey,

enn með tár á vöngum.

 

Strax við þessi hlýju hót

hresstist aumur maður.

Sagði þó frá sálar rót:

,, Síst er ég nú glaður !”

 

,,Mín eru örlög meir´en ill,

mjög af þreki dregið,

enginn leika við mig vill,”

vældi íhaldsgreyið !

 

Svaraði kauða kvenhetjan,

klár með gæsku sína:

,, Af því að þú ert útundan

áttu samúð mína !”

 

,,Við skulum bara sitja sátt,

saman grípa um tauma.

Reyna svo að horfa hátt,

halda í okkar drauma !”

 

Brátt var staðan stærri séð,

stillt á kosti ríka.

Siggi vildi vera með,

vernda Bjarna líka !

 

Í sandkassanum saman þrjú

sagt er nú að liggi

og leiki kátt við kosið bú,

Kata, Bjarni og Siggi !

 

Þó finnst mörgum margt um svið

merkt í líki skötu.

Og einkum mun það eiga við

ýmislegt hjá Kötu !

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 290
  • Sl. sólarhring: 314
  • Sl. viku: 1547
  • Frá upphafi: 316548

Annað

  • Innlit í dag: 248
  • Innlit sl. viku: 1252
  • Gestir í dag: 235
  • IP-tölur í dag: 231

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband