Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2017

Bresk kaldastríðs sagnfræði !

 

Nýverið las ég bók breska sagnfræðingsins Antony Beevor um Stalíngrad. Ekki get ég sagt að ég hafi verið sérlega hrifinn af því hvernig eldað var til efnisins. Höfundurinn Antony Beevor var áður liðsforingi í breska hernum og ég leyfi mér að efast um að sú staða hafi aukið honum víðsýni til hlutlausrar sögukönnunar !

 

Svo mikið er sagt frá Þjóðverjum í bókinni að Sovétmenn eru þar nánast í einhverjum aukahlutverkum. Lengi framan af eru lýsingar af svo miklum aumingjadómi, skipulagsleysi, heimsku og klaufagangi af hálfu sovésku herforustunnar að það hálfa væri nóg. Maður spyr sjálfan sig, ef þetta var svona, hvernig í ósköpunum fóru Sovétmenn að því að sigra í þessari meginorustu sem stóð í marga mánuði ?

 

Lýsingar af gangi mála þeirra megin hljóða nánast í einu og öllu upp á stórfelldan vopnaskort, rangar ákvarðanir og algjört tillits og tilfinningaleysi yfirvalda gagnvart eigin mannfalli. Það er því enn og aftur komið inn í sviðsmynd áróðurs og dellumyndarinnar Enemy at the Gates og túlkunina þar. Erfitt er að trúa því að maður sé að lesa efni eftir - “virtan og viðurkenndan” - sagnfræðing. Það eina sem virðist fært Rauða hernum til tekna er að sovéski skriðdrekinn T 34 hafi verið betri en skriðdrekar þýska hersins !

 

En það er stöðugt klifað á því að Rússar hafi haft þvílík ógrynni af mannskap að þeim hafi svo sem ekkert munað um blóðtökuna. Nýjum og nýjum herjum hafi bara verið dælt inn á sviðið, sumum án nokkurrar þjálfunar. Ég spyr bara, ef hægt er að sigra allt með því að hrúga mannskap – jafnvel vopnlausum - í verkið, og hversu vitlaust sem staðið er að málum, - af hverju eru Kínverjar þá ekki búnir að leggja undir sig allan heiminn - ekki vantar þá mannfjöldann ?

 

Árið 1940 var íbúatala Sovétríkjanna áætluð með breytilegum hætti allt frá 162 milljónum upp í 190 milljónir, sennilegast er að hún hafi í raun verið rúmlega 170 milljónir. Á sama tíma var Nazista-Þýskaland með Austurríki, Súdetahéruðum Tékkóslóvakíu og öðrum hjálendum líklega með íbúatölu upp undir 90 milljónir. Bandaríkin á þessum tíma voru með 132 milljónir íbúa. Hinn óendanlegi mannfjöldi Sovétríkjanna er því nokkuð umdeilanleg stærð á þessum tíma, enda sýnilega oft ýkt og notuð til að skýra sigra sem annars hefðu víst ekki átt að geta unnist !

 

Nokkur fjöldi hersveita frá fylgiríkjum Þjóðverja börðust með þeim á austurvígstöðvunum og við Stalíngrad. Rúmenar voru þar til dæmis með tvo heri, auk þeirra voru þar Ungverjar, Ítalir og Króatar með nokkurn herafla. Þar til viðbótar voru einstakar liðssveitir víða að sem börðust með nazistum af ýmsum ástæðum, líklega aðallega í nafni krossferðar gegn heimskommúnismanum !

 

Ég held satt best að segja að það sé ekki á færi vestrænna sagnfræðinga að skýra með hlutlausum hætti það sem gerðist við Stalíngrad. Þeir hafa einfaldlega ekki hugarfarslegan skilning á því. Aftur og aftur falla þeir í gryfjur áróðurslegrar umræðu og viðhafa klisjukenndar staðhæfingar sem draga úr trúverðugleika þess sem þeir eru að segja.

 

Antony Beevor fellur sýnilega nokkuð oft í slíkar gryfjur. Oftast þegar hann nefnir eitthvað af hálfu Sovétmanna hnýtir hann neikvæðum lýsingarorðum við efnið. Það er honum sýnilega svo eðlislægt að hann áttar sig ekki á því hversu hlutdrægt það virkar. Það hugarfarslega viðhorf sem veldur því lýtir allt ritverkið og sýnir að hlutlaus meðferð efnisins er ekki til staðar og raunar mætti halda út frá ýmsu að höfundurinn sé eiginlega meira og minna á bandi Þjóðverja.

 

Þó er að finna í bókinni, ef vel er að gáð, umsagnir sem undirstrika veigamikil atriði, svo sem varðandi ábyrgð þýska hersins á stríðsglæpum. Hin illræmda tilskipun Walter von Reichenaus marskálks til 6. hersins í október 1941 sýnir glögglega að þýski herinn bar fulla ábyrgð á ódæðisverkum gegn Gyðingum og óbreyttum borgurum í Úkraínu. Sú tilskipun var til dæmis studd af yfirboðara von Reichenaus Gerd von Rundstedt marskálki, sem oft hefur verið málaður upp sem herforingi andstæður nazistum. En þarna sýndi hann eðli sitt. Von Rundstedt og Rommel og aðrir þýskir hershöfðingjar þjónuðu nazistastjórninni og það segir það sem segja þarf.

 

Samkvæmt þýskum vitnisburði gaf von Reichenau marskálkur einnig þá fyrirskipun snemma í júlí 1941 að 3000 Gyðingar skyldu skotnir í hefndaraðgerðum. En sjálfur lifði hann ekki lengi eftir það, hann fékk hjartaáfall í janúar og fórst svo í flugslysi í kjölfarið.

 

Meðal þeirra stríðsglæpa sem Þjóðverjar frömdu á þessum tíma voru fjöldamorðin á 33771 Gyðingi í Babi Jar gljúfrinu við Kiev og morðin á 90 Gyðingabörnum, kornabörnum og upp í 7 ára, við Belaya Tserkov. Áður höfðu foreldrar þeirra barna verið myrtir. Úkraínskir hjálparmenn Þjóðverja skutu börnin en fyrirmælin voru þýsk og ábyrgðin af glæpnum fellur á Þjóðverja.

 

Æðstu foringjar þýska hersins á umræddu svæði hljóta sem sagt að hafa vitað af því sem fram fór og samþykkt aðgerðirnar á sína vísu. Fullyrðingar þeirra sem alltaf hafa reynt að hvítþvo þýska herinn af slíkum glæpum eru því algjörlega úr lausu lofti gripnar og lýsa í raun annarlegum viðhorfum viðkomandi manna gagnvart gjörðum sem enginn maður ætti að leyfa sér að verja.

 

Þetta verk Antony Beevors bætir að minni hyggju – og það finnst mér miður - engu sérstöku við það sem áður var vitað um átökin í Stalíngrad. Þarna er hrúgað saman persónulegum umsögnum, aðallega þýskum, um þetta og hitt, og margt af því efni virðist bara til uppfyllingar í ritverkinu og kemur oft kjarna málsins harla lítið við.

 

Mér finnst ýmislegt segja mér eftir lestur þessarar bókar, að það að hafa þjónað sem liðsforingi í breska hernum sé ekki góður skóli fyrir þann sem ætlar sér að verða trúverðugur sagnfræðingur !

 


Sérsveitar-lausnarmengið !

 

Allt þarf nú á tímum að vinna sér borgaralegt traust, en í mörgu virðast farnar undarlegar leiðir til að öðlast það traust. Nýlegt dæmi varðandi mengunarslys í frárennsliskerfi Reykjavíkur sýnir gjörla hvernig stundum er haldið á málum.

 

Borgararnir fengu fyrst ekkert að vita og voru býsna manna-legir þar sem þeir gösluðu í saurmenguðum sjónum. Svo kom viðurkenning á því að í heila tíu sólarhringa hefðu mál verið í ólagi og skapað mengunarleka. Viðkomandi ráðamenn sögðu svo að engin hætta hefði verið á ferðum - og eins og venjan er í slíkum tilvikum, - að farið yrði yfir alla verkferla svo þetta kæmi ekki fyrir aftur !

 

Áfram silaðist svo umræðan, þar til í ljós kom að reyndar hefði lekinn nú staðið yfir lengur en í þessa margnefndu tíu sólarhringa. Það var eins og verið væri að prenta hina slæmu veruleikamynd út í áföngum til að draga úr slæmum viðbrögðum. Ef til vill má segja að slík upplýsingameðferð geti hafa verið hugsuð sem einhverskonar áfallahjálparleið fyrir almenning af hálfu valdakerfis borgarinnar, ef það er þá eitthvað hugsað í þessu sambandi sem ég reyndar efast um !

 

Á tímabili var því borgaralegt traust á forsjá yfirvalda í þessu máli skilið eftir algerlega í lausu lofti. Menn gláptu hver á annan og sumir sögðu: “ Er okkur ætlað að vaða hér um og synda saman - í fjölskyldulegri einingu, í einhverjum skaðlegum skítapolli ?”

 

Ég held að svona mál kalli á það, að Reykjavíkurborg komi sér upp sérsveit, því eins og vitað er leysir sérsveit öll vandamál. Ef borgin hefði á að skipa slíkri sveit yrðu borgaraleg vandamál varðandi lífsöryggi auðvitað miklu betur tryggð !

 

Alkunnugt er að valdamenn hafa frá fyrstu tíð sett úrvalssveitir sínar í að leysa hin verstu vandamál. Próbus Rómarkeisari setti rómverska herinn í það á sínum tíma að ræsa fram fúamýrar og fen til að skapa borgurum betri búsetuskilyrði og heilbrigðara umhverfi. Að vísu leit herinn á þessi verkefni sem niðurlægingu fyrir sig og drap keisarann, en það er aukaatriði. Aðalatriðið er að eðlilegt er að láta úrvals heraflann vinna þjóðhagsleg verk fyrir heildina !

 

Það sem hefur bjargað Vesturlöndum í seinni tíð eru auðvitað sérsveitirnar. Þær ráða yfir háþróuðum mannafla, geta skotið beint í mark á nokkurra kílómetra færi, þurfa ekki að fara eftir venjulegum lögum og geta verndað borgaralegt samfélag með óborgaralegum aðferðum og tryggt með pólitískri hjálp áróðurslegt öryggi !

 

Hvað þurfum við meira ? Hvort sem við þurfum að kljást við kúkamengun eða aðra óáran í mannlegu samfélagi, sendum bara sérsveit í málið. Sérsveitir tryggja skítsæmilega lausn á öllum málum. Og það er sennilega ekki síður þörf á því að minni sveitarfélög komi sér einnig upp sérsveitum til að tryggja borgaralegt öryggi því til dæmis er vitað að fráveitumál eru víðar í lamasessi en í Reykjavík !

 

Þar þarf greinilega sérsveitir hér og þar í þjóðfélaginu. Ef til vill væri hægt að koma á fót sérsveitum sem vakið gætu Verkalýðshreyfinguna til síns rétta lífs, það væri gott að fá sérsveitir til að hrista peningagræðgina úr Íþróttahreyfingunni svo aftur verði farið að rækta land og lýð, það væri vissulega þörf á því að setja sérsveitir í að gera lífeyrissjóðakerfið mannlegt og bankakerfið sömuleiðis. Já, verkefnin eru vissulega mörg og aðkallandi, en verkamennirnir – eins og jafnan fyrr - fáir !

 

Lausnarmengið innifelur því augljóslega í sér að við þurfum miklu fleiri sérsveitir. Það er beinlínis þjóðarnauðsyn að fá sem flesta Bruce Willis gæja, menn sem geta allt, í sérsveitir til að bjarga höfuðvandamálum lands og þjóðar – allt ofan í klóakið !

 

Og rosalega eru sérsveitarmenn nú flottir þegar þeir eru komnir í gallana ? Það falla eiginlega allir kylliflatir fyrir sjarmanum – ekki síst þeir sjálfir !

 


“Farðu í austur, Adolf minn !”


Mjög fróðlegt er að skoða framvindu mála á sviði evrópskra stjórnmála á árunum eftir að nazistar komust til valda í Þýskalandi og fram að stríði. Bretar léku þá tveim skjöldum eins og svo oft áður og blésu með ýmsum hætti að kolum ófriðar bak við tjöldin. Ófriðurinn kom en reyndar ekki með þeim hætti sem að var stefnt !

 

Bretar studdu í raun Franco og fasista á Spáni ásamt fasistaríkjunum Þýskalandi og Ítalíu. Frakkar voru skömminni skárri og studdu lýðveldisstjórnina á Spáni í einhverjum mæli en ekki var það mikið. Stanley Baldwin og eftirmaður hans Neville Chamberlain, formenn breska Íhaldsflokksins, gengu erinda breska auðvaldsins og reyndu á allan hátt að vingast við nazistastjórnina. Neville Henderson var gerður að sendiherra í Þýskalandi með bein fyrirmæli um það !

 

Í dag viðurkenna flestir að borgarastyrjöldin á Spáni hafi verið forleikurinn að síðari heimsstyrjöldinni og framferði ríkja þar hafi sett mark sitt á það hvað Hitler taldi sér óhætt að ganga langt í ásælni sinni. Einkum á það við um Bretland og Frakkland.

 

Þegar Tékkóslóvakíumálin leiddu í ljós að Bretar og Frakkar sviku verndarloforð sín gagnvart Tékkum og færðu Hitler land þeirra á silfurfati, munu ráðamenn Sovétríkjanna endanlega hafa gert sér ljóst að ekki var á neitt að treysta í samningum við Breta og Frakka. Þeir fóru því að huga að eigin öryggi óháð samstarfi við aðra, en þeir töldu sig vita að til stríðs myndi koma og að vinna tíma var þeim lífsnauðsyn !

 

Munchensamningur Chamberlains við Hitler var í raun endanleg staðfesting á því hvílíkar hörmungar undanlátsstefna Baldwins og Chamberlains gagnvart nazisastjórninni í Þýskalandi myndi leiða yfir Bretland. Líklega má segja að eina framlag Chamberlains til mála í Munchen hafi verið hin þráláta beiðni hans í nafni breska auðvaldsins :“ Farðu í austur, Adolf minn !”

En til þess var Nazista-Þýskaland fjármagnað og byggt upp af auðvaldi Vesturlanda, að það réðist á Sovétríkin og kvæði þar kommúnistadrauginn niður !

 

En Hitler lék sér að Chamberlain eins og köttur að mús. Fullvissaði hann um fullan vilja sinn til samvinnu og að hann myndi auðvitað fara kórrétt í málin. Bretinn hélt svo ánægður heim með sérhagsmunafylltan sauðarhausinn sinn og veifaði plagginu með undirskrift Hitlers um leið og hann mælti ein örgustu öfugmæli Sögunnar: “Sjá, ég færi yður frið um vora daga !”

 

Maðurinn hegðaði sér eins og hálfviti ? Hvar voru þeir Baldwin eiginlega staddir með stefnu sína á þessum árum ? Þeir hljóta að hafa lifað í einhverju draumalandi íhaldsins, þar sem allir áttu skilyrðislaust að dansa eftir þeirra takti !

 

Illu heilli voru þetta forsætisráðherrar Bretlands á þessum tíma og hvorugur þeirra reyndist fær til að gegna því starfi. Eftirtíminn sýnir þá sem lítið annað en ábyrgðarlausa sérgæðinga í auðvaldsklíku Montague Normans bankastjóra Englandsbanka !

 

Auðvald Vesturlanda krafðist þess að Hitler stæði við orð sín um sókn í austur, Drang Nach Osten, en skipunin var reyndar orðin að auðmjúkum bænarorðum í Munchen: “ Gerðu það fyrir okkur, Adolf, farðu í austur, við höfum hjálpað þér og stutt þig til valda, nú biðjum við þig að minnast þess og gera það sem gera þarf !

 

En skrímslið var ekki lengur í neinum böndum og það varð ekki hamið. Hatrið á Frökkum mátti sín meira í huga þess en hin fyrirfram ákveðna krossferð gegn Sovétmönnum og heimskommúnismanum. Því fór sem fór !

 

Hitler fór í vestur og það varð til þess að atburðarásin neyddi breska ráðamenn - í úlfakreppu eigin mistaka - í bandalag sem aldrei átti að verða. Breska íhaldið varð að bjarga sér með varnarbandalagi við Sovétríkin, sem ekki hafði komið til greina af þess hálfu í kringum Tékkóslóvakíumálin tiltölulega skömmu áður. Chamberlain varð að axla sín skinn og fara því enginn treysti honum lengur !

 

En hver átti að taka við af honum ? Það voru eiginlega allir í Íhaldsflokknum undir sömu sök seldir, en það var kannski einn til sem hægt væri að notast við ? Aldraður og raunar afdankaður bolabítur var látinn taka við stöðu hins burtrekna, hann hafði gagnrýnt Baldwin og Chamberlain - síðustu 3-4 árin, - fyrir slæleg viðbrögð gegn stóraukinni hervæðingu Þýskalands. Þannig varð Winston Churchill – kommúnistahatarinn mikli, forustusauður Breta, sem enginn hefði búist við, og hann sleikti Sovétríkin og Stalín með, milli hæls og hnakka, næstu árin !

 

Svo kom Fultonræðan strax í marsbyrjun 1946 og sýndi innrætið og stríðsæsingaáráttuna í Churchill sem aldrei fyrr. Ekkert hafði hann lært og áfram vildi hann þjóna auðvaldskröfunni frá því fyrir stríð – í anda Sidney Reillys og hans líka – með því að koma á krossferðinni miklu gegn Sovétríkjunum !

 

En nú var slagorðið: “ Farðu í austur, Sámur frændi !” Járntjaldshugtakið fékk Churchill að láni hjá Göebbels sem hafði notað það í hliðstæðum tilgangi í áróðurs-útsendingum sínum meðan á stríðinu stóð. En sem betur fer fylgdi ekki þriðja heimsstyrjöldin á eftir þeirri annarri, þó sumir óttuðust að Kóreustyrjöldin yrði forleikurinn að henni, enda virtust menn eins og MacArthur tilbúnir að beita þar kjarnorkuvopnum !

 

Enn er slegið á ýmsa ófriðarstrengi og enn er þessi heimur okkar í báli hér og þar. Hvað mun verða veit enginn, en sem samastaður í tilverunni fyrir friðsamt fólk, er veröldin á ýmsan hátt engu tryggari staður en hún var vorið 1939 !

Af hverju er aldrei hægt að læra neitt af Sögunni ?

 

 

 

 

 


Að mæra manndrápin !

 

 

Við virðumst lifa á tímum sem skilgreina það sem nokkurskonar sport að drepa menn !

Jafnvel ríkisstjórnir veigra sér ekki við því að viðurkenna að þær geri út sveitir til slíkra hluta. Osama Bin Laden var ekki tekinn til fanga og færður fyrir rétt til að svara fyrir meinta hryðjuverka-starfsemi sína. Hann var einfaldlega drepinn af mönnum sem gerðir voru út til þess verknaðar af ráðamönnum sem vilja láta kenna sig við lög og rétt ! Erum við í æ meiri mæli að taka upp verklagsreglur lögleysunnar ?

 

Hefði Osama Bin Laden orðið að standa fyrir rétti og mæta þar ábyrgð gerða sinna hefði hryðjuverka-heimurinn fengið að sjá þennan mann dreginn fyrir dóm eins og hvern annan glæpamann sem ekki virðir lög og rétt. Í stað þess var maðurinn gerður að píslarvættishetju í augum allra þeirra sem viljugir eru til að ganga hans veg og þeir virðast hreint ekki svo fáir !

Nú sýnist manni komin upp einhverskonar keppnisstaða hjá sérsveitum hins vestræna öryggisvalds um það hver geti drepið menn á lengstu færi. Stríðsmenn frelsisins eru sjáanlega farnir að stunda eitthvað slíkt. Heimabreskur afburðamaður í manndrápum hafði unnið sér það til frægðar fyrir nokkru að hafa drepið mann með skoti á 2500 metra færi. Og nú er staðfest að kanadísk-breskur yfirburðamaður í sama fagi hafi skotið mann á 3500 metra færi, hvorki meira né minna – líklega í mitt ennið eða þar um bil !

 

Forsætisráðherra Kanada, hinn að því er virðist óþroskaði Justin Trudeau, hefur þegar montað sig af mikilli hæfni síns manns og segir í raun að umrætt langskots-manndráp sé gott dæmi um afburðagóða þjálfun manndrápara á vegum kanadíska ríkisins !

 

Skilaboðin virðast vera : Við erum mestir, við getum drepið menn á lengstu færi, varið ykkur bara ! Og nú þegar heimahaga-Bretar og aflands-Bretar hafa sýnt svona mikla hæfni í miður geðslegum verkum, er trúlegt að Bandaríkjamenn og ýmsir aðrir sport-idiotar fari nú að vilja sanna sig í þessari nýju keppnisíþrótt hins frjálsa heims !

 

Í bók einni segir frá því þegar tveir SS menn í einum af útrýmingarbúðum nazista veðjuðu um það hvor væri með kraftmeiri byssu. Þeir stilltu föngum upp í beinni línu og skutu þá í höfuðið aftan frá. Annar drap þrjá en hinn fjóra og var hann því úrskurðaður sigurvegari – hann drap fleiri og skaut lengra !

 

Fórnarlömbin voru að sjálfsögðu aukaatriði í sportinu eins og þau virðast vera hjá þeim sem hafa nú tekið upp hliðstæða siði. Eftir situr hinsvegar það kjarnaatriði að mannslífið hefur verið óvirt með svívirðilegum hætti. Þannig er það líka með öll manndrápstilfelli lögleysisins, þegar menn eru drepnir án dóms og laga !

 

Hvað er hryðjuverk og hvað ekki ? Hvar erum við stödd þegar lýðræðislega kjörnir forustumenn á Vesturlöndum lofsyngja það að þeir hafi á að skipa manndrápurum sem þykja öðrum færari ? Erum við ekki komin nokkuð nálægt opinberu aftökunum hjá ISIS og fer munurinn á fyrirlitningunni á mannslífinu ekki að verða heldur lítill ?

 

Góður málstaður skaðast alltaf þegar gripið er til löglausra og vondra verka í hans þágu. Ef góðir gæjar eru til í einhverju stríði, verða þeir að vera þeir menn að geta staðið undir þeim réttlætis og mannúðarkröfum sem því hljóta að fylgja !

 

Menn verða ekki góðir gæjar bara vegna þess að þeir eru Bandaríkjamenn, Bretar eða Kanadamenn. Þeir verða það og geta verið það, ef þeir sýna og sanna að þeir séu að berjast fyrir góðum málstað og séu menn til þess. Verkin munu sýna þar merkin og sanna hvernig innrætið er !

 

Það virðingarleysi gagnvart lífinu, sem felst í manndrápum og allri illri meðferð á fólki, er öllum yfirvöldum sem það sýna til skammar. Þá sem brjóta á lífsréttinum og svívirða heilög vé, á að sækja til saka á grundvelli laga og réttar og þannig er siðmenningunni haldið við.

 

Með lögum skal land byggja er hugtak sem við Íslendingar höfum þekkt og virt hingað til, en við eigum líka að vita að ólög eyða hverju landi og jafnframt sérhverri von um frið á jörðu. Hernaður og ofbeldi fer vaxandi í heiminum og þeir sem þar hafa þóst vera öðrum skárri, virðast hreint ekki vera það lengur !

 

Að drepa menn án dóms og laga virðist bara þykja sjálfsagt mál núorðið og jafnvel Kanadamenn eru þar komnir í sportið og toppmaður þeirra sýnist vera yfir sig ánægður með frammistöðu sinna manna !

Mikill er andskotinn sjáanlega í þessu sem mörgu öðru !

 


Aumingjaklíkan 3 x 21 !

 

Til er staður aumur einn,

 

orðstír hans er hvergi hreinn.

 

Þar finnst ekki þroski neinn,

 

3 x 21 ! “

 

Flestir vita að aumingjaklíka stjórnar þessu landi að svo miklu leyti sem því er stjórnað. Í hvert sinn sem einhver stór mál koma upp og fara inn á borð þessarar aumingjaklíku, sannast áþreifanlega að hún er ekkert nema aumingjaklíka !

Og það sem verst er, aumingjadómurinn nær yfir alla sem eru bókaðir á viðkomandi klíkuþingi, hvernig svo sem þeir vilja láta greina sig af ytri kenningarmörkum. Þar er enginn öðrum skárri núorðið og allt sver sig í sérhagsmunaættina - í gegnum kjararáð og önnur sjálfskeiningarverkfæri kerfisins !

 

Og ekki bætir það umræddan aumingjadóm þegar í ljós kemur hvað hann getur verið svívirðilega afturvirkur í samfélagslegu ranglæti sínu. Og þegar uppskeiningin er í algleymingi með syndugu samþykki aumingjaklíkunnar, tala tauhálsar valdsins hreint ekki um að allt fari á hliðina í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nei, þá þegja slíkir þunnu hljóði og sérhagsmuna-samtryggingin brunar fram undir fullum seglum svívirðunnar og postular aumingjaklíkunnar brosa breitt, þeir sem eru falsarar framkvæmdanna !

 

En þegar talað er um þörf á einhverri niðurskeiningu,sem er oftast hreint réttlætisatriði, vandast málið. Þá fara þessir sömu postular aumingjaklíkunnar allir í keng af kviðverkjum kvíða og skelfingar. Þá má ekki hreyfa við neinu og þeir vara við hræðilegum afleiðingum slíkrar skeiningar, óðaverðbólgu og atvinnuleysi, og segja að slíkt megi bara ekki eiga sér stað – og síst af öllu afturvirkt !

 

Sumir hafa alla tíð þurft að berjast fyrir hverri krónu launahækkunar í þessu ríki ranglætisins, en aðrir hafa fengið og fá enn svimandi háar launabætur á færibandi forréttindanna,frá valdhafandi vélasamstæðu ranglætisins – sérhagsmunakerfi ríkisins. Það er löngu ljóst að eitt hinna svokölluðu Norðurlanda er langt á eftir hinum í öllu því sem snertir félagslegt réttlæti og engum óblindum dylst hvaða land það er !

 

Hafa menn eitthvað hugsað út í það hversvegna alltaf er verið að heiðra og hylla Jón Sigurðsson, mann sem dó árið 1879 ? Jú, skýringin er einföld, við höfum ekki eignast neinn síðan sem verðskuldar slíkt atlæti ! Meðalmennskan hefur ráðið lögum og lofum í stjórnkerfi Íslands í áratugi og sumir efast meira segja um að þar hafi einhverjir náð meðalmennsku hvað snertir manndóm til samfélagslegs réttlætis !

Einn forsætisráðherra landsins fékk einu sinni þá ádeilu frá andstæðingi að hann væri enginn skörungur. Hann svaraði - kerfinu trúr og samdauna : “ Hvenær hef ég sagst vera skörungur og hvað höfum við við skörunga að gera ?”

 

Og síðan höfum við – nokkurnveginn samfellt - búið við aumingjaklíku-stjórnarfar, öllum lífskjörum almennings til bölvunar og skaða. Arftakar Danadindlanna lifa í vellystingum praktuglega í íslenska stjórnkerfinu enn þann dag í dag og hugtakið - þjóðlegar framfarir til almannaheilla - er ekki til í þeirra orðabók og hefur vísast aldrei verið !

 

Það er sama hvað þjóðin leggur á sig í vinnu og yfirvinnu, erfiði og álagi. Ágóðanum er alltaf stolið frá henni. Hvatinn til að standa sig er enginn því yfirvöld eru miklu frekar í því að verðlauna allskyns ómennsku. Kerfislegir alikálfar sem eru hvergi að gagni eru að verða á hverju strái, og svo er peningum ausið í innflytjendur og allskyns útlenda landhlaupara !

 

Síðan er þjóðinni sagt að ekki séu til neinir peningar í velferðarmál sem þykja sjálfsögð á hinum Norðurlöndunum, en á sama tíma fá hálaunamenn hálaunanna milljónir á milljónir ofan í samtryggingarbónus svikræðisins gegn heildar-hagsmunum þjóðarinnar !

 

Sérhagsmuna spillingarvald er yfirvaðandi í íslenskri pólitík frá hægri til vinstri. Það vex yfirleitt upp til hægri og sendir svo stríðan straum hugarfars-óhreininda inn á miðjuna og fer síðan í ýmsum soramenguðum lækjarkvíslum til vinstri og þegar ferlið er að fullu drýgt og glæpurinn staðreynd, má segja að aumingjaklíka þjóðarinnar sé þar með orðin fullburða og fær til flestra óhæfuverka – gegn þjóðlegri velferð !

Sjö, níu, þrettán – svei því öllu, 3 x 21 !!!

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 9
  • Sl. sólarhring: 369
  • Sl. viku: 1259
  • Frá upphafi: 316649

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 987
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband