Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2017

Upplausnin í íslenskum stjórnmálum !

 

 

Nú er að renna á stjórnmálahirðina í landinu enn einn kosningaskjálftinn þó skammt sé frá þeim síðasta. Fólk á þingi og í stjórn er farið að tala á ný í loforðastílnum alræmda sem aldrei virðist þurfa að hafa neitt raunhæft innihald.

 

Við sem viljum að kjörnir fulltrúar á þingi axli þá ábyrgð að koma á stjórn sem sitji út kjörtímabilið, getum ekki verið sátt við aumingjadóminn sem lýsir sér í dagfari þessara fulltrúa okkar og þjóðhagslega svikulu framferði !

 

Að skella á öðrum kosningum núna, ári eftir þær síðustu, er að bruðla með fjármuni þjóðarbúsins og sýna vítavert kæruleysi gagnvart almenningspyngjunni. Og þetta gerir fólk sem sannarlega hefur fengið sína kauphækkun og fyrir hvað eiginlega ?

 

Þessar 400 milljónir eða þar um bil sem fara í þessar óþörfu kosningar væru betur komnar í heilbrigðiskerfinu okkar og þá til að bæta kerfið en ekki til að svínala sérfræðinga. Þessar kosningar eru óþarfar vegna þess að ef það væri hér starfhæft þinglið hefði ekki þurft að gera þær síðustu ómerkar.

 

Í þess stað hefðu menn axlað ábyrgð sína, myndað samsteypustjórn af festu og heilindum og unnið sín verk í þjóðarþágu út kjörtímabilið. En það er sannarlega ekki því að heilsa !

 

Stjórnmálahirðin hleypur öll út og suður í stefnulausri ólgu augnabliksins. Allir vilja dansa með í teningaspili tálhyggjunnar og þjóðin fær sem fyrr að borga brúsann, hin villuleiðandi veisluhöld þessarar lýðræðis-afskræmingar !

 

Íhaldið talaði einu sinni fjálglega um vinstri glundroða og sagði að vinstri stjórnir sætu aldrei út kjörtímabilið. Síðustu 3 ríkisstjórnirnar sem íhaldið hefur setið í og haft forsæti í tveimur, hafa nú ekki setið út kjörtímabilið og sprungið allar. Þær hafa ekki ráðið við verkefnin. Þær hafa hrunið jafnt í hruninu sem eftir hrunið !

 

Sjálfsagt segja sjallar að þeir hafi staðið sína plikt en hinir brugðist. En það segja allir í pólitík. Það er hinsvegar á ábyrgð forsætisráðherrans hverju sinni að halda saman sinni stjórn og geti hann það ekki, fellur stjórnin. Bjarni Benediktsson myndaði stjórn sína í upphafi á mjög veigalitlum forsendum og honum tókst ekki að byggja neitt ofan á þá tæpu undirstöðu. Stjórn hans var því feigðinni mörkuð frá byrjun !

 

Engeyjarstjórnin er fallin ! Hún bauð ekki upp á bjarta framtíð eða viðreisn í neinum skilningi, hún bauð aðeins upp á vanabundinn hægristjórnar sleikjuhátt við auðstéttina í landinu. Hún var mynduð af misskilningi, getin í glapræði og síðast hengd af sjálfsskaparvítum - í eigin snöru. Enginn sér eftir henni en hverju verður áorkað með nýjum kosningum þegar mikið til sama óheillaliðið býður sig fram aftur eða nýkaraðir framapotarar af sama sauðarhúsi ?

 

Íslensk stjórnmál eru í upplausn og hver höndin uppi á móti annarri. Ný flokksskrípi virðast ætla að streyma fram á vonglöðum, upphituðum bylgjum valdasýkinnar og allir þykjast ætla að verða riddarar réttlætisins !

 

Ekki bauð það upp á gott þegar svonefndir píratar þóttust ætla að bjarga þjóðinni en fóru í allt með öfugum formerkjum, Dögun leið snarlega að aftni, Björt framtíð varð fljótt óttarslegur hundskinnsútnári hræsninnar, Samfylkingin er svipur hjá sjón en enn vilja samt spánnýir riddarar spreyta sig í burtreiðum hins ætlaða lýðræðis !

 

Nú virðist kominn á sviðið einhverskonar Samvinnuflokkur sjálfshyggjunnar, Simma Sóló flokkurinn, Miðflokkur afdankaðs Framsóknargoða sem vill heita eitthvað mikið áfram, svo verða kannski Smára-sósíalistar og fleiri á græðgislegum atkvæðaveiðum. Allskyns lýðskrumarar eru vísast sem fyrr tilbúnir að bjóða upp á allt - nema efndir !

 

Halda menn svo að það verði hægt að mynda ábyrga og sterka ríkisstjórn eftir slík ósköp, á einhverju brotabrotaþingi ? Nei, þessar 400 milljónir fara vísast fyrir lítið eins og svo margt annað af almannafé í þessu ráðleysu-herjaða þjóðfélagi !

 

Ætla menn virkilega að halda áfram þessu glórulausa sundrungarstarfi og eyðileggja lýðræðið endanlega ?

 

Á svo öskurkór andskotans að æpa eftir handleiðslu sterka mannsins - beint úr rústum íslensku lýðræðisbyggingarinnar, hrópa á einvaldinn sem á að koma öllu svínaríinu í lag, líklega undir stormsveitarstefinu - ,,Turn the Wheel Back to 1933 ! “

 

Ætla menn að láta sundrungaröfl sjálfselskunnar leiða íslensku þjóðina fram af Illukleif pólitískra gerningahríða og niður í botnlausan Dauðadalinn ?

 

 

 

 

 


Allt lífið skal meta að jöfnu !

 

 

Á síðari árum hefur æskudýrkun öðlast geysilega mikla þýðingu meðal svo til alls fólks og það svo að margt eldra fólk finnst hreinlega sem það sé dottið upp fyrir þó það sé kannski enn á besta aldri. Áróðurinn fyrir þessari dýrkun æskulífsins er líka með ólíkindum og oft sefjandi sem slíkur. Það er nánast eins og ekkert líf sé í boði fyrir fólk eftir þrítugt !

 

Ég veit um dæmi þar sem menn hafa bókstaflega fengið í sig hroll yfir því að vera orðnir þrítugir – komnir á fertugsaldur. Það virðist sumum eins og ígildi einhverskonar dauðadóms. Þeir eru ekki lengur ungir, kannski ekki beint gamlir, en ekki lengur eins ungir og þeir hefðu viljað vera – að minnsta kosti, svolítið lengur í það minnsta !

 

Sumt fólk sem komið er á fertugsaldur jafnar sig ekki fyllilega á því fyrr en það kemst á fimmtugsaldur. Þá allt í einu uppgötvar það að fertugsaldurinn var bara hreint ekki svo slæmur, að minnsta kosti ekki eins slæmur og fimmtugsaldurinn. Og samskonar ferli heldur áfram, fimmtugsaldurinn verður skaplegur, eftir á séð, í augum þeirra sem komnir eru á sextugsaldur o.s.frv.

 

Kjarni málsins er hinsvegar sá að mannsævin er allt of stutt jafnvel þó hún sé löng. Hrörnunarferli mannslíkamans byrjar allt of snemma. Meðan við sveltum andann og heltum sálina, eltum við líkamsræktina úr hófi fram. Fólk streymir í ræktina til að reyna að halda því sem lengst við sem er dæmt til hrörnunar og vill halda sér í formi sem lengst eins og það er kallað. En afturförin er engu að síður óhjákvæmileg !

 

Það líður ekki nema rétt rúmlega áratugur frá því að táningurinn á óska-aldrinum er kominn á hinn skelfilega fertugsaldur. Og allir vita að tíu ár eru ekki lengi að líða. Sá sem er í augnablikinu í beinni skotlínu æskuáróðursins er allt í einu og mjög skyndilega kominn í annan og eldri flokk, og sumir fíla það alls ekki vel. Þeim finnst sumum sem allt sé að baki, eiga það jafnvel til að fyllast af klökkvafullri sjálfsmeðaumkvun : ,,Aumingja ég, orðinn þrítugur, orðinn allt of gamall !”

 

En við skulum gera okkur fulla grein fyrir því að við lifum í raun ekkert mjög langan tíma verulega ung. Líftími manna er yfirleitt lengri á öðrum tímaskeiðum ævinnar. Og það þarf líka að vera hægt að njóta þeirra æviára og þess lífs sem þau bjóða upp á. Æskudýrkun nútímans er því tvíeggjað fyrirbæri. Það margrómar og ofmetur mjög skammvinnt æviskeið á kostnað þess lífs sem á eftir kemur. En það er líf eftir þrítugt, eftir fertugt og áfram til endadægurs !

 

Fyrst og fremst eigum við að vera það skynsöm að kunna að meta allt líf. Og í Heilagri Ritningu er talað um grá hár sem heiðurskórónu. Þar er auðvitað verið að vísa til þeirrar fengnu lífsreynslu sem færir með sér visku og víða yfirsýn. En vegna þess að enginn vill vera gamall fela margir sín gráu hár og halda jafnvel að það eitt geri þá yngri. Heiðurskórónu sína ætti þó enginn maður að fela og það myndu líklega fáir gera, ef aldri þeirra væri sýnd sú virðing sem vera ber. En í heimi sem er altekinn af æskudýrkun er ekki mikið svigrúm fyrir virðingu í garð aldraðs fólks !

 

Æskudýrkunin er gengin allt of langt og hún er veruleikablekking. Til þess að viðhalda henni og markaðsvæðingu hennar þarf stöðugt að endurstilla viðmiðin. Sama fólkið er ekki inn í dæminu nema í svo örstuttan tíma og fyrir hvern nýjan hóp þarf nýjar áherslur til að halda tökunum því einhverjir vilja þar sem annarsstaðar deila og drottna. Peningamaskínurnar þurfa sitt og æskan er eyðslusöm á fengitíma sínum !

 

Við þurfum öll sem eitt að læra að virða mannlífið, virða unga sem gamla. Allt myndar lífið eina heild, æskan, manndómsárin og ellin. Við þurfum að læra að meta þetta allt og færa feng hvers lífsskeiðs inn í fjársjóðageymslu samfélagsins og ávaxta heildar lífstalenturnar þar til heilla fyrir almenna velferð !

 

Munum og geymum í huga hin gullvægu orð skáldsins Steingríms Thorsteinssonar:

 

Elli, þú ert ekki þung

anda Guði kærum:

Fögur sál er ávallt ung

undir silfurhærum.

 

 

 

 


Mannréttindi heimafyrir – mannréttindi erlendis !

 

Bandaríkin eru líklega það ríki sem lagt hefur mesta áherslu á að mannréttindabrot í öðrum ríkjum séu óþolandi og megi ekki líðast. Áhugi bandarískra stjórnvalda á því að taka á brotum gegn réttindum fólks heimafyrir hefur hinsvegar alltaf verið mjög umdeilanlegur og sýnilega lotið nokkuð þungu tregðulögmáli svo ekki sé meira sagt.

 

Meðferð stjórnvalda almennt á mannréttindamálum í heiminum fer oftast nokkuð mikið eftir því hvað menn sjá sér þar í pólitískum ávinningi. Við sjáum dæmin um það út um allan heim og margir virðast hafa lært í þeim efnum heilmikið af tvíhyggju Bandaríkjanna í þessum málum. Það er hinsvegar leiðum að líkjast !

 

Við sjáum til dæmis að forseti Tyrklands sem er nú ekki beinlínis þekktur sem mikill mannréttindamaður heimafyrir, hefur ýmislegt út á mannréttindabrot að setja þegar þau gerast í Myanmar og beinast þar að auki gegn múslímum. Svo er margt sinnið sem skinnið í þessu sem öðru !

 

Það er líka í hæsta máta skrautlegt þegar svokallað alþjóðasamfélag hleypur upp til handa og fóta í hrifningu á einhverju og misvitrir forustumenn ráða því á sömu forsendum að veita einhverjum friðarverðlaun Nóbels. Við sjáum að ýmislegt getur gerst í lífi slíkra verðlaunahafa síðar eins og virðist nú uppi á borðinu í Myanmar því ekki ber allt upp á sama daginn !

 

En áfram er samt haldið við að grafa undan gildi þessara umdeildu verðlauna með óskynsamlegri veitingu þeirra. Fangabúðastjóri í Guantanamo hefur fengið þau nýlega og einnig barn austur í heimi. Hver veit til dæmis hvað kann að eiga eftir að gerast í lífi þess barns síðar á ævinni. Ekki er víst að þar komi allt til með að samrýmast þessum ætlaða heiðri. Betra er að bíða með slíka viðurkenningu þar til ljóst er að hún sé verðskulduð í ljósi lífsferils viðkomandi manneskju - eins og reyndin var með Móðir Theresu !

 

Íslenskir pólitíkusar virðast margir haldnir undarlegri tvíhyggju í mannréttindamálum og fylgja þar líklega bandaríska módelinu sem segir í raun : “ Merkilegt erlendis – ómerkilegt heimafyrir “ !

Nokkuð hefur til dæmis borið á því - að margra mati, að píratar ergist yfir ýmsu sem gerist í útlöndum, en áhugi þeirra á vaxandi fátækt og bakslagi í velferðarmálum hér heimafyrir virðist ekki vera jafn brennandi mál eða spennandi á slíkt að líta.

Reyndar eru píratar ekki einir um slíkt meðal íslenskra pólitíkusa, sem allir eru þó kosnir á þing til að leysa úr vandamálum eigin þjóðar en ekki vanda alls heimsins !

 

Það er ljóst að þeir sem sýna vanmátt sinn og getuleysi gagnvart því að leysa úr vandamálum eigin þjóðar-heimilis, eru ekki líklegir til að finna lausnir á stærri málum á heimsvísu. En þeir vekja kannski á sér athygli með því að rausa meira um það sem þeim kemur kannski minna við og þá er ef til vill tilganginum náð af þeirra hálfu !

 

Við Íslendingar höfum lengi verið eindæma lélegir í því að koma okkur upp dugandi stjórnmálamönnum. Þeir sem á annað borð hafa verið að atast í málum á því sviði, hafa reynst þar afspyrnu slappir og hrekjast oftast eins og strá fyrir hverjum kenningavindi, fyrir tíðarandanum og fyrir síbreytilegu almenningsáliti. Stefnufesta virðist vera eitthvað sem þeir þekkja afar lítið til !

 

Það er því að mörgu leyti rétt sem Brynjar Níelsson segir, að menn þar standa ekki í lappirnar. En það getur átt við Sjálfstæðismenn engu síður en aðra. Það kemur oft býsna skýrt í ljós að margt fólk sem sækir til áhrifa í pólitík reynist vera mjög ábyrgðarfælið þegar á hólminn er komið og þá er það ekki að standa sig. Annars er ég lítið hrifinn af Brynjari Níelssyni og hans framgöngu í málum, en engum er sýnilega alls varnað !

 

Hin vinstri græna Svandís Svavarsdóttir lét víst hafa eftir sér einhversstaðar, að hún hefði miklar mætur á umræddum Brynjari og verð ég að segja að mér finnst það undarleg smekkleysa af hennar hálfu, ef hún er trú þeim hugsjónum sem hún segist standa fyrir.

Menn eins og Brynjar Níelsson munu alltaf standa þvert fyrir í þeirri götu sem hugsjónafólk á vinstri væng stjórnmálanna mun helst vilja ganga og maður hefur ekki mætur á þeim sem er Þrándur í Götu alls þess sem maður telur rétt að gera !

Það hlýtur því að vera eitthvað annað og óskyldara efni sem veldur umræddu velþóknunar-mati Svandísar Svavarsdóttur á háhægri manninum Brynjari Níelssyni !

 

Alþingismenn á Íslandi eru kjörnir til þess að vera fulltrúar íslensku þjóðarinnar á þjóðarþinginu og til að vinna þar heilshugar að því að tryggja hagsmuni Íslendinga og velferð þeirra í nútíð og framtíð. Fjöldi manna á Íslandi telur hinsvegar með gildum rökum að mikið vanti á að þar séu menn að standa sig og nógu vel sé unnið í þeim anda. Flokksræði er víða farið að skyggja mikið á heilbrigða þjóðarhagsmuni !

 

Íslenskir þingmenn þurfa að vera miklu betur vakandi gagnvart öllum þeim mannréttindabrotum sem hér viðgangast, brot á lögum og reglum og stöðugt vaxandi misskiptingu og mismunun í samfélaginu !

Sumir þeirra virðast miklu meira vakandi fyrir mannréttindabrotum annarsstaðar á hnettinum og kannski knýr samviskubit þá til að létta þannig á sér, en þeir eiga að vera á öryggisvakt fyrir almannahagsmunum HÉRLENDIS !

 

Ávinningur ómælds erfiðis íslenskra launþega á að koma þeim hinum sömu til góða en ekki að svelgjast upp í endalausa aðstoð og fyrirgreiðslu við allskonar landhlaupara utan úr heimi !

 

 

 


Styttur bæja – styttur lands !

 

Endurskoðun fyrri tíma sjónarmiða er ofarlega á baugi í nútímanum. Margt sem áður var tignað og þótti lofsvert þykir nú fyrir neðan allar hellur. Og sú þröngsýni sem kemur fram í þeirri dómhörku tíðarandans er jafnvel sögð víðsýn afstaða til mála !

 

Gamla skynvillan um að núlifandi fólk búi yfir mesta skilningnum, valtar yfir viðhorf genginna kynslóða sem höfðu þó jafn mikinn rétt á sér á sínum tíma og alltaf eru þeir til sem vilja rífa niður þau ölturu sem áður var kropið við. Allir ættu þó að sjá að rétt er að stíga varlega til jarðar í slíkum efnum !

 

Nútíminn er nefnilega ekkert fyrirbæri sem heldur velli. Fyrr en varir er okkar nútími farinn og annar nútími og önnur viðhorf orðin ráðandi í hugmyndafræði nýrrar kynslóðar. Og skyldi þá ekki hin nýja kynslóð vilja fylgja með svipuðum hætti í fótspor okkar og rífa niður margt af því sem við höfum reist á stall og viljað hylla í okkar skammsælu tímavímu ?

 

Menningarverðmæti eru órjúfanlegur hluti sögu okkar og arfleifðar og alltaf verða menn því að athuga vel hvað rétt er að gera og gæta sín á því að eyðileggja ekki sögulegar minjar í augnabliks uppreisnar-æsingi og valda þannig varanlegu tjóni. Talibanar eyðileggingarinnar eru víðar til en í Afghanistan !

 

Menning er skiljanlega miklu frekar fólgin í því að byggja upp en rífa niður. Að vísu er sumt þess eðlis að það getur orðið óhjákvæmilegt að rífa það niður og víkja til hliðar gæðalausum arfi, læra af reynslu og gera bragarbót og byggja á betri siðum til framtíðar. En mat á slíku hlýtur alltaf að vera mjög umdeilanlegt og sérhver menningararfur verður því fyrst og síðast að fá að njóta vafans !

 

Rétt mannhegðun sem er þá í raun sem menningin holdi klædd, felst í því að byggja upp og búa í haginn fyrir sig og sína, efla hið mannlega samfélag og skila farsæld til framtíðar. Að tylla einhverjum á stalla er hinsvegar ekki endilega aflgjafi góðra hluta því fæstir eru svo óumdeildir að ekki verði þar einhverjir á móti !

 

Öll manndýrkun er vafasöm og röng og raunar hættuleg því einn vil tigna þennan og annar hinn. Það kallar því á deilur þegar menn halda sínum dýrlingum fram og þetta kemur oft skýrt í ljós þegar á að fara að reisa styttur af einhverjum í heiðursskyni !

 

Nokkuð hefur verið um það hérlendis að styttur hafa verið færðar til eftir því hvernig tíðarandinn hefur blásið um þær. Sú var tíðin að stytta af Albert Thorvaldsen, hálfum Íslendingi og hálfum Dana, var á Austurvelli en hún varð að þoka þaðan fyrir styttu Jóns Sigurðssonar, sem var að sjálfsögðu alíslenskur . Einhver viðhorfsbreyting hefur sýnilega orðið og Thorvaldsen varð að víkja !

 

Nú er ég lítið fyrir styttur af mönnum og fuglarnir mega svo sem skíta á þær eins og þeim sýnist, mín vegna. En samt hefur mér þó fundist hálf leiðinlegt að sjá þessa styttu af Jóni karlinum, með taumana af fugladriti niður andlitið og við þær aðstæður er sómi Íslands, sverð og skjöldur ekki beint kræsilegur á að líta !

 

Ef menn vilja, af sögulegum og menningarlegum ástæðum, minnast einhverra frumherja, þykir mér betur hlýða að settir séu upp minningarskildir eða áletraðir bautasteinar fremur en styttur í mannlíki. En hvernig svo sem menn líta á þetta sem og annað, er ljóst að ef gangur mála verður í vaxandi mæli þannig að komandi kynslóð rífi niður það sem farandi kynslóð byggði upp, er hætt við að menningarsöguleg arfleifð okkar verði heldur rýr þegar til lengdar er litið !

 

 

 


,,Upplýsingaveitan” Costco !

 

Margt hefur gengið á síðan verslunarkeðjan Costco haslaði sér völl til viðskipta hérlendis. Uggur hefur sjálfsagt verið í mörgum sem hafa litið hingaðkomu fyrirtækisins illu auga og talið það ógna hagsmunum sínum og ákveðinni einokunaraðstöðu sem lengi hefur verið til staðar með tilheyrandi okri !

 

Neytendur hafa hinsvegar fagnað aukinni fjölbreytni í viðskiptalegu tilliti og fundið að þjónusta Costco hefur á margan hátt komið til móts við þarfir þeirra og hagsmuni og nú hafa margir sem áður sáu ekkert athugavert við hlutina áttað sig á því hvernig verðlagsmál hafa löngum verið sett hér upp – að því er virðist - til að viðhalda sem mestu arðráni á kostnað almennings !

 

Viðskiptaframlag Costco hefur þannig virkað á íslenska neytendur sem sannkölluð upplýsingaveita um margt sem afleitt hefur verið hér í viðskiptaháttum og nú sjá margir að hægt er að hafa hlutina öðruvísi og koma miklu meir til móts við neytendur en gert hefur verið. Það er því ekki að furða þó sumum arðránsgreifum líki ekki sú samkeppni sem hafist hefur og vonandi er komin til að vera !

 

Þó að mörgum hafi nú skilist að illa hafi verið að þeim búið á íslenskum neyslumarkaði, vantar samt ekki verjendur fyrir það háttalag sem löngum hefur tíðkast hérlendis af hálfu verslunar-auðvaldsins gagnvart hagsmunum og rétti neytenda. Oftast eru slíkir verjendur hagsmunatengdir því arðráni sem hefur verið svo lengi ríkjandi í íslensku verslunar-umhverfi og efnaleg velmegun þeirra hefur skapast af því að geta verið þar í sérstöðu við kjötkatlana !

 

Það munu því koma fram ýmsar skýringar af slíkra hálfu á því verðlagi sem Costco býður viðskiptavinum sínum og auðvitað verður aldrei viðurkennt að neitt hafi verið athugavert við viðskiptahættina. Innræti arðránsmanna er alltaf með því lægsta sem til er í mannlegu samfélagi og þar verður blóðsugueðlið seint upprætt !

 

En íslenskur almenningur hefur fengið þá upplýsingu í gegnum Costco sem virkilega hefur að margra áliti flett ofan af svikamyllu álagningar og verðlags hérlendis og það sem aldrei fyrr. Fjöldi manna hefur áttað sig á því hvernig þeir hafa verið hlunnfarnir á umliðnum árum og það er uppsöfnuð reiði víða til staðar !

 

Íslensku verslunar-keðjurnar mega vara sig á þeirri reiði því hún er réttlát og ætti skilyrðislaust að bitna á þeim sem til þess hafa unnið. Og flestir vita alveg við hverja er að sakast í þeim efnum !

 

Íslenskir neytendur þurfa að vera miklu meira á verði gagnvart arðráni og uppsprengdu verðlagi en þeir hafa verið. Þeir þurfa að hafa verðskyn á við hagsýnar, þýskar húsmæður. Þegar þær ágætu konur telja á sér brotið með siðlausri verðlagningu, taka þær sig saman og sniðganga þær verslanir sem þannig haga sér !

 

Niðurstaðan verður sú að viðskiptin detta niður og fjara út og viðkomandi gróðapungar neyðast til að setja græðgi sinni mörk. Það ættu fleiri að taka sig saman um að koma slíkum skilaboðum fram þegar þörfin krefur. Íslenska blóðsugukerfið verður að breytast og fara að samlagast heilbrigðum mannlífsháttum !

 

Við sem erum almennir neytendur megum aldrei vera óvitandi um rétt okkar til mannsæmandi viðskiptakjara – og hlynna í vanþekkingu að þeim sem vilja í óseðjandi græðgi sinni sjúga lífsblóðið úr okkur og fjölskyldum okkar. Það hefur verið nóg um slíka aðila hérlendis og mál að linni !

 

Megi Costco áfram bjóða Íslendingum viðunandi verslunarkosti og landið vera opið fyrir öllum þeim sem vilja hefja hér verslunar-rekstur á mannlegri og betri hátt en hingað til hefur að mestu tíðkast.

Þjónustustig gæða við almenna velferð mun alltaf verða grundvallar-forsenda fyrir góðum viðskiptaháttum og neytendur munu leita til þeirra sem bjóða þar besta kosti !

 

Vinnum gegn sýki í verslunar líki,

verum þar einhuga þjóð.

Mafíur víki – það réttlæti ríki

sem ræktar upp viðskipti góð !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 6
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 1036
  • Frá upphafi: 309928

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 909
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband