Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Þýska sambandið !

 

Hið svokallaða Evrópusamband hefur stöðugt verið að breytast með þeim hætti um allmörg undanfarin ár, að full ástæða er til að fara að kalla það einfaldlega Þýska sambandið. Sumir gætu þessvegna álitið rétt að nefna það Stórþýska sambandið !

 

Forræði Þýskalands er nefnilega að verða algjört í Evrópusambandinu og það var eitt af því sem í raun pirraði Breta. Frakkar hafa hinsvegar valið þann kostinn að lúffa fyrir Þjóðverjum, kannski að einhverju leyti í uppgjafar-andanum frá 1940 !

 

Germanska valdið hefur löngum verið ásækið og nú er því að heppnast ýmislegt sem ekki gekk áður. Þegar Þjóðverjum skildist loksins eftir tvær heimsstyrjaldir að fjármálavald væri vænlegra til sigurs en hervald fór allt að ganga miklu betur hjá þeim. Og nú er vesturhluti Evrópu að mestu í þeirra höndum !

 

Hjarta Evrópu slær nú í Þýskalandi og dregur til sín blóð úr nánast allri álfunni. Og það hefur löngum verið vitað að hjarta Evrópu er þurftarmikil dæla og þarf mikið blóð. Nú streymir nýlendublóð ekki lengur til Evrópu á sama hátt og áður og því verða einhverjir að taka að sér að fylla á í evrópska Blóðbankanum !

 

Nú kann því slíkt blóð að verða að koma til frá öðrum Evrópuríkjum. Það eru þegar til ríki í Evrópu sem hafa verið svínbeygð fjárhagslega og líklega verða þau látin næra þýska sambandshjartað á komandi árum. Einhverjir verða auðvitað að vera í hinum fórnandi hlutverkum. Það geta aldrei allir fengið að vera blóðsugur !

 

Það er eitt að vera þræll og annað að vera þrælahaldari, það er eitt að vera blóðsugubanki og annað að vera blóðsuga, það er eitt að vera kúgaður og annað að vera kúgari. Nóg er til af fólki og þjóðum sem vilja vera í síðartalda hlutverkinu. Þessvegna er heimurinn eins og hann er, skítugur í báða enda og allt þar á milli !

 

Ef menn vilja velta því fyrir sér hvernig Evrópa verði á komandi árum, þá skulu þeir beina sjónum sínum til Þýskalands og Berlínar. Þar verður framvindan mótuð og stefnupakkinn svo að því loknu sendur í kórréttum umbúðum til Brussel. Svo mun Brussel, sem afgreiðslustofnun og útibú fyrir þýska yfirvaldið, sjá um að koma fyrirmælunum áfram, meðal annars til Íslands !

 

Ein lítil vísa getur lýst hinni fullveldis-fjarandi stöðu okkar í því sambandi :

Fátt mun okkur vaxa í vil

og verja frelsið heima,

meðan áfram Íslands til

orkupakkar streyma !

 


Að gera Ameríku mikla á ný !

 

Viðmið stjórnvalda í Bandaríkjunum í siðfræðilegum efnum, eins og þau eru sett fram af núverandi forseta, hljóta að koma illa við margan manninn sem hefur alist upp í þeirri trú að bandarísk gildi séu góð og þjóni því sem rétt er !

 

Nú virðist nefnilega bandarísk siðfræði segja að viðskiptalegir hagsmunir Bandaríkja Norður Ameríku eigi að hafa forgang á öll siðalögmál. Jafnvel þó andstyggilegir morðingjar séu annarsvegar, skipti það ekki máli þegar um það er að ræða að gera Ameríku mikla aftur !

 

Þegar svo mikið liggur undir á sem sagt að vera heimilt þessvegna að semja við skrattann sjálfan. Sækjast sér um líkir og kanar og saudar hugsa málin sýnilega á sama veg. Hagsmunirnir fara saman og það er kjarni málsins. Hrottalegt morð á einum blaðamanni skiptir engu í því sambandi. Skítt með Khashoggi-málið !

 

Þar með ætti almenningur í Bandaríkjunum að vita til fulls hvaða viðmiðanir eiga að gilda í Guðs eigin landi, að morð skulu til dæmis verða meðal þess sem leiða skal hjá sér, þegar um það er að ræða að endurreisa mikilleika Bandaríkjanna !

 

Hvað hefur verið gert við arfleifð George Washingtons og framtíðarleiðsögn hans í burtfarar-ræðunni ? Hvað hefur orðið af stjórnarfarslínum þeim sem þeir lögðu John Adams og Jefferson, að viðbættum Lincoln ? Hvar eru 14 punktarnir hans Wilsons og mannúðar sjónarmið Franklins D. Roosevelts ? Hefur öllu þessu verið sturtað niður að fullu og öllu í þágu hagsmuna auðhringa Bandaríkjanna ?

 

Er bandarísk siðleysingja-stefna orðin að höfuðmáli Hvíta hússins ? Ráða kaldrifjuð sjónarmið CIA og bandarískrar heimsvaldahyggju alfarið framvindu mála þar ? Margt virðist líkt með skyldum og hjörtum mannanna svipar greinilega saman í stjórnarhöllunum í Ryadh og Washington. Ekki er sviðsmyndin fögur !

 

Í bók sinni “ Í leit að betri heimi “ varaði Róbert Kennedy við stöðugt vaxandi hroka Bandaríkjamanna gagnvart öðrum, ekki síst löndunum í suðri. Hann sagði brýnt að breyta um brag, ekki síst fyrir Bandaríkin sjálf. Þau viðvörunarorð hljómuðu fyrir meira en hálfri öld. Heimurinn væri annar í dag ef á þau hefði verið hlustað og farið eftir þeim.

 

Þá þegar voru farnir að koma brestir í ofurvald Ameríku gagnvart öðrum þjóðum. Ofríkið varð fljótt svo mikið að fleiri en Frökkum fannst það óþolandi. Róbert Kennedy sá hinar illu afleiðingar fyrir, William Fulbright sá líka hvert stefndi að óbreyttu og ýmsir fleiri. Þeir vöruðu óspart við. Þá þegar þurfti að taka í taumana og stýra málum til betri vegar !

 

En það var ekki gert og á slíkar viðvaranir var ekki hlustað og þeir sem sáu öðrum betur hvert stefndi voru annaðhvort myrtir eða flæmdir úr öllum áhrifastöðum í bandaríska stjórnkerfinu. Allar skynsemisraddir voru þaggaðar niður og afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Ameríka hætti að vera mikil og fór að safna glóðum elds að höfði sér !

 

Hver skyldi annars vera ástæðan fyrir því að Ameríka hætti að vera mikil, jafnvel í augum Bandaríkjamanna sjálfra ? Ástæðan er alfarið sök þeirra sjálfra. Þeir hafa valtað yfir alla heimsbyggðina til margra ára, ráðskast með allt og alla, þeir hafa talað niður til allra þjóða, þeir hafa verið yfirfullir af valdhroka og ekkert tillit tekið til skoðana annarra. Einsýni og eiginhagsmunir hafa ráðið för að öllu leyti. Allt hefur þurft að vera eftir vilja Bandaríkjamanna og andúðin á yfirgangi þeirra hefur vaxið jafnt og þétt. Með slíku framferði einangra menn sig og fá að kynnast því af frostbiturri raun – að það er kalt og meira að segja verulega kalt - á toppnum !

 

Siðmenningargildi Vesturlanda hafa í raun verið svívirt af forseta þeirrar þjóðar sem allt sitt hefur þegið af þeim arfi sem þau eru. Blóði drifin hagsmunagæsla, gjörsneydd siðferði og ærlegum viðmiðum, virðist með einbeittum brotavilja ráða för hjá núverandi stjórnvöldum í Washington !

 

Verði Ameríka mikil á ný, með þeim aðferðum sem núverandi forseti telur sýnilega ásættanlegar, á það sjáanlega að verða á kostnað allra mannlegra dyggða og alls réttlætis. Það verður þá mesta ógæfa mannkynsins á síðari tímum og nákvæmlega engum til góðs, allra síst þeirri þjóð sem í örvæntingu sinni er að leita horfins mikilleika !


Ekkert til skiptanna fyrir almennt launafólk !

 

Nú er gamli sérgæskukórinn kominn á fullt með hrakspár um verðbólgu og allskyns óáran ef almennt launafólk gerir kröfur um það sem kalla mætti kauphækkun !

Atvinnurekendahjörðin, auðvitað með sérgæskufullt ríkisvaldið að baki, er tilbúin að útdeila einhverri smámynt til almennings en ef það á að vera eitthvað meira, er sagt að allt fari á hliðina. Þennan söng hef ég heyrt alla mína lífstíð !

 

Oftast eru það heilaþvegnir fulltrúar auðvalds og sérhagsmuna sem hreiðra um sig í valdastöðum í ráðuneytum og stjórnarskrifstofum. Þegar upp koma kröfur um að eitthvað sé gert til almenningsheilla er viðkvæði slíkra að það séu ýmsir tæknilegir örðugleikar á málinu. Svo er það tafið og þvælt uns ekki verður neitt úr neinu. Þar ræður öllu baksviðs leikaraskapur forréttindamanna gegnvart almennum mannrétti !

 

Hverskonar ríki er Ísland eiginlega í raun og veru ? Sumir tala um bananalýðveldi, aðrir um velferðarríki. Kannski er hvorttveggja rétt, ef viðmiðanir eru sérvaldar með fyrirfram gefna útkomu í huga ?

 

Sérgæskufull sjónarmið gömlu íslensku stórbændanna, sem voru engu betri en barónarnir og greifarnir á meginlandinu, hafa alltaf lifað gróskuríku blóðsugulífi hérlendis. Þau drottna enn í hugum arftakanna, íslensku auðstéttarinnar. Almannaréttur hefur hinsvegar alltaf átt hér erfitt uppdráttar !

 

Lagasetningar á Íslandi hafa löngum borið miklu meiri svip af sérhagsmunum en almannahagsmunum. Þær hafa líka iðulega verið pantaðar í gegnum pólitísk sambönd og peningavaldið sem þar hefur ráðið hefur auðvitað aldrei verið almenningsvænt. En velferð fólksins eru æðstu lögin og þeim lögum ber fyrst og síðast að fylgja !

 

Forréttinda og sérgæskuhópar þessa litla samfélags sem hér er, eru alltaf á fullu í því verki að tryggja stöðu sína á kostnað heildarinnar. Á seinni árum hafa þeir á margvíslegan og lævísan hátt læst klónum í peninga fólksins í gegnum hin ýmsu lífeyrissjóðakerfi og svo er það fjármagn notað miskunnarlaust gegn almanna-hagsmunum. Þar hefur risið hver spillingar-skítahaugurinn upp af öðrum !

 

Sem Norðurlandaríki hefur Ísland alla tíð verið félagslega fatlað. Því hefur einkum valdið sú gífurlega sérgæska sem hér hefur náð að hreiðra um sig alla tíð. Hún virðist allt að því blóðmerkja stóran hluta þjóðarinnar. Jafnvel yfirlýst félagshyggjufólk getur verið illa sýkt af henni án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. Það þyrftu þónokkuð margir virkilega að skoða hvar og hvernig þeir standa !

 

Það er grundvallar-atriði í stefnuskrá alls afturhalds, að fjármagnið sé og eigi að vera þess og þess eins. Ríki og sveitarfélögum á að stjórna með þeim hætti að sem minnst fjármagn fari til óverðugra. Hinir útvöldu eiga að vera vel fóðraðir á kostnað allra hinna. Það gerir það að verkum að það er og verður aldrei neitt til skiptanna þegar kemur að almannakjörum. Hinir útvöldu eiga að fá allt og hafa löngum fengið allt !

 

Afrakstur allrar verðmæta-sköpunar á að fara til fjármagns-eigenda og gera þá enn ríkari, en þeir sem vinna þau störf sem eru forsenda verðmæta-sköpunarinnar eiga ekkert að fá. Afturhalds-hugsunin er hugsun þrælahalds, ranglætis og yfirgengilegs mannhroka. Þar hefur aldrei verið neitt til sem er ærlegt og siðlegt !

 

Þegar til forustu fyrir launafólk velst fólk sem enn er óspillt, er strax tekið til við að reyna að spilla því, grafa undan því, gera það tortryggilegt og fella það með allskyns mútuboðum. Margt fólk sem í upphafi var ærlegt og vildi vel, hefur fallið af þessum sökum, hefur ekki staðist ásóknina eða ráðið við alla þá Móra og Skottur sem herjað hafa á líf þess. Það er því mikil þörf að slá skjaldborg um þá leiðtoga sem í raun sýna sig trúverðuga í baráttu fyrir almennum mannréttindum og verja þá falli !

 

Það hefur löngum verið talið íslensku samfélagi til gildis að hér sé ekki her. Þó hafa sumir viljað koma hér upp einhverju herskrípi, líklega helst til varnar spillingar sköpuðum stöðuhagsmunum ofréttindamanna. En þó að ekki sé hér opinber her, eru hér hinsvegar ýmsir skuggaherir að tjaldabaki, moldvörpuherir þess myrkravalds sem stöðugt nagar rætur allra heilbrigðra gilda. Slíkt hervald berst ávallt gegn allri almannaheill og verði því ekki settar skorður, geta menn að fullu og öllu kvatt allar vonir um almenna velferð !

 

Níðingsháttinn gegn almannaheill verður að brjóta á bak aftur og til þess er verkalýðshreyfingin stofnuð að standa þar í fylkingarbrjósti. Sinni hún ekki því meginhlutverki sínu er hún einskis virði !

Lífskjör almennings eru og eiga að vera mannréttindamál, líka á Íslandi, og sanngjarn hluti verðmæta-sköpunarinnar í landinu þarf að ganga til þeirra sem verkin vinna !

 


Að taka veröldina með trumpi !

 

Mannkynið virðist nú farið að ókyrrast meira en lítið, enda kominn nánast mannsaldur frá síðustu stórstyrjöld. Það var eiginlega ekki að marka hvað stutt var á milli fyrstu og annarrar heimsstyrjaldarinnar því sú seinni var eins og flestir vita skilgetið afkvæmi þeirrar fyrri og fæddist meira að segja fyrir tímann !

 

Margir leiðtogar sýnast telja sig með tromp í höndum og virðast kjósa að láta reyna á vald sitt til hins ítrasta, auka gengi eigin lands á kostnað allra hinna. Andi Vilhjálms II virðist vera kominn á sviðið og heimta sem fyrr hærri hlut sér til handa !

 

Það virðist oft sannast að þegar allir sem átt hafa um sárt að binda eftir síðustu Ragnarök eru dauðir eða því sem næst, virðist ráðamönnum tímabært að hefjast handa um nýtt ferli í ófriðarefnum.Þá er farið að tefla æ meir á tvær hættur og heimsfriðurinn virðist verða að einhverju aukaatriði !

 

Eitt af því sem undirstrikar þá stöðu er valdataka æ óábyrgari leiðtoga. Við erum að sjá menn verða að leiðtogum í dag sem hefðu verið taldir óhæfir sem slíkir fyrir tuttugu árum eða svo. Og þegar einn af því tagi er kominn á koppinn, og það í stærra lagi, virðist hann beinlínis geta af sér hliðstæður í öðrum löndum !

 

Suður Ameríka virðist nú vera komin fram með sinn Trump, óábyrgan hægri mann, sem telur það best til friðar fallið að allir gangi alvopnaðir. Þegar leiðtogar fara að verða æ herskárri í yfirlýsingum sínum, jafnt í innanlandsmálum sem út á við, er stutt í að ófriðarfjandinn verði laus. Og hvernig endar slík framvinda ? Mannkynið fær rétt einu sinni blóði drifna grisjun, er milljónum verður slátrað á altari hinnar vítis-ættuðu mannvonsku !

 

Stríðsæsingamennirnir munu þá tala fjálglega um föðurlandsást og hetjuskap sem löngum fyrr, en nú verður það kjarnorkan sem mun tala. Glæsimyndirnar verða engar, ekkert mun ríkja nema dauðinn einn. Eldflaugar munu þjóta um himinhvolfið landa milli og hæfa sín mörk. Milljónir munu farast í eldi og eimyrju án þess jafnvel að vita hversvegna !

 

Engu verður skilað til eftirkomenda nema hægum og kvalafullum dauða af völdum geislavirkni. Chernobyl-ástand mun skapast um víða veröld og leiða allt sem mannlegt getur talist undir lok !

 

Er það framtíðin ? Er það arfurinn sem við viljum skila í hendur barna okkar ? Nei, auðvitað ekki, en við virðumst samt stefna að þeim skilum. Við gerum það með því að hlaða undir frambjóðendur sem eru svikulir í innstu æð, hafa ekki neitt fram að færa nema lýðskrum og lygar, hafa engar hugsjónir að leiðarljósi, en þyrstir í völd !

 

Við setjum slíkt fólk á stall og veitum því brautargengi með lýðræðisgefnu vali okkar. Við bruggum okkur sjálfum banaráð með slíku framferði og mörkum framtíð barna okkar feigðinni einni. Það er engin dýrð yfir kjarnorkustríði og enginn sigur eða framtíð eftir slíkt stríð. Þá er bara öllu lokið, lífi, menningu og allri mennsku !

 

Verum ábyrgari í því hvernig við kjósum og hleypum ekki óhæfum mönnum til valda. Gleymum því ekki að það  gerðist 1933 með skelfilegum afleiðingum fyrir allan heiminn !


Djöfullegt vald !

 

Enn er eitt voðaverkið framið í Bandaríkjunum og enn falla margir fyrir samborgara sem síðan tekur sitt eigið líf. Hvað er í gangi í Bandaríkjum Norður Ameríku ?

 

Það virðist augljóst að eitthvert djöfullegt vald nær tökum á hverjum manninum af öðrum, vald sem kallar á tortímingu lífs án þess að nokkur hafi til þess unnið. Markmiðið virðist vera það eitt að drepa bara einhverja og jafnvel sem flesta !

 

Hvaða vald er það sem fær menn til að kasta frá sér allri mennsku ? Gerir þá að skepnum og skrímslum í mannsmynd. Hvaða vald vekur upp í mönnum svo blint hatur og svo ofboðslega reiði að hugurinn nemur það eitt að drepa ?

 

Það vald er vissulega í öllu eðli sínu djöfullegt því í gegnum það rís makt myrkranna upp úr Víti sjálfu !

 

Lífsfirringin virðist orðið stórfellt samfélags-vandamál í Bandaríkjunum og ameríski draumurinn er sem óðast að snúast í ameríska martröð. Nokkur dæmi eru um hliðstæð voðaverk í öðrum löndum, en hvergi í þeim mæli sem þau birtast í Bandaríkjunum. Þar eru þau í algleymingi hryllingsins !

 

Hversvegna þetta djöfullega vald virðist eiga greiðari leið að fólki í Bandaríkjunum er mikil spurning og beinir athyglinni helst að samfélagsgerðinni. Hliðstæð voðaverk virðast líka heldur eiga sér stað þar sem eftirfylgni við bandarísk lífsviðhorf er í meira lagi !

 

Það er enganveginn ásættanlegt að búa við það að nánast hver sem er í umhverfi manns geti brjálast og skotið fólk niður án nokkurrar skýringar. Hver truflast næst, er það nágranninn, sem verður vitlaus, einhver löggæslumaður, hermaður í leyfi eða bara einhver ? Alls staðar er nóg af drápsvopnunum. Það virðist ekki þurfa annað en að opna skúffu á bandarísku heimili til að finna skotvopn, tilbúin til notkunar !

 

Svo segja ráðamenn sem þykjast vera ábyrgir, að þetta hafi ekkert að gera með galopið aðgengi að vopnum. Og á meðan þeir tala, falla saklausir borgarar í tugatali fyrir morðsjúkum einstaklingum sem ganga um alvopnaðir meðal fólks – helteknir djöfullegu valdi sem knýr þá til ódæðisverka, knýr þá til að breyta lífi í dauða !

 

Bandaríkin eru augljóslega minna varin en önnur ríki fyrir þessum ófögnuði. Þau hafa kallað þetta yfir sig öðrum ríkjum fremur. Hver er skýringin ?

 

Það er áreiðanlega til lítils að hafa skrifað einhversstaðar í skinhelgi - In God We Trust - og treysta svo sýnilega á allt annað. Það ríki er aumt sem getur enganveginn verndað eigin borgara fyrir eigin annmörkum og sjálfsköpuðum voða. Þar er lífið í umgerð sem er langt frá eðlilegum kringumstæðum !

 

Bandarísk yfirvöld hafa sýnilega í hroka sínum haft forgöngu um það að hleypa að þjóðinni öflum sem ekkert hafa í för með sér nema tortímingu lífs og heilbrigðra gilda. Þeim er ekki sjálfrátt og efnishyggjan og auðvaldið blindar þau alveg. Það er nánast gangandi Úteyjarástand um öll Bandaríkin. Leitin að hamingjunni hefur þar snúist í andstæðu sína !

 

Hver hefur sinn verndarengil og hver hefur sinn djöful að draga segir Heilög Ritning. Það er ekki erfitt að sjá hvort aflið er drýgra í bandarísku samfélagi. Af hverju víkur þar hin guðlega vernd, og af hverju margfaldast hið djöfullega vald með þessum hætti, svo hvert voðaverkið tekur við af öðru ? Það er eitthvað mikið að í samfélagi þar sem svona atburðir eru að verða daglegt brauð !

 

Bandaríkjamenn þurfa að hætta að þykjast alltaf vera að taka til hjá öðrum, já, út um allan heim. Það er löngu kominn tími til þess að þeir taki til hjá sjálfum sér, taki til heimafyrir, þar sem þjóðarheimili þeirra er blóði drifið og fórnarlömbin liggja sundurskotin á víð og dreif, ekki síst ungt fólk sem ætti að eiga framtíðina fyrir sér !

 

Ætla bandarísk yfirvöld aldrei að vitkast ?

 

 


Hvar er heims samviskan ?

Það virðist nú svo komið fyrir siðagildum í þessum heimi að ógeðsleg morð sem framin eru eftir fyrirmælum ríkjandi valdhafa þykja ekkert sérstakt tiltökumál. Það er hoppað aðeins upp um stundarsakir meðan málið er gangandi fréttamatur, en svo fellur allt fljótlega í lognmollu siðvana starfshátta. Samviska manna er komin út í hafsauga og allir í gróðavímu með alla hluti !

 

Morðið á Jamal Khashoggi er svívirðilegur glæpur sem kallar á margar áleitnar spurningar. Hvernig hafa Sameinuðu þjóðirnar brugðist við, hvernig hafa hinar ýmsu Mannréttindastofnanir brugðist við, hvernig hafa Bandaríkin brugðist við, ríkið sem þykist öllum fremur hafa verið einhverskonar vörn fyrir samvisku heimsins ?

 

Er ekki ljóst að allir þessir aðilar geta ekki fengið annað en falleinkunn fyrir það hvernig þeir í raun hafa látið sér fátt um finnast þó vegið hafi verið hrottalega að grunngildum allrar siðmenningar og allrar mannúðar í þessum heimi ?

 

Fréttamenn út um allan heim hafa oft staðið erfiða vakt fyrir almennum mannréttindum og vakið athygli á ólíðandi framferði jafnt valdhafa sem einstaklinga. Þeir hafa líka ófáir orðið að gjalda fyrir þá framgöngu með lífi sínu og nöfn slíkra manna eru mörg heiðri helguð !

 

Gamla sagan um að þagga þurfi niður í þessum og hinum gerist því miður aftur og aftur. Nútíminn er ekki betri í þeim efnum en fyrri tímar og býsna oft hugsar maður : ,,Höfum við virkilega ekkert lært ?”

 

Morðið á Khashoggi sýnir ljóslega hversu langt sumir eru komnir út á glæpabrautina þó teljast eigi til valdhafa. Og skollaleikurinn í kringum málið er allur hinn ógeðslegasti og virðist eiginlega af allra hálfu snúast fyrst og fremst um kaldrifjaða og hjartalausa pólitík. Enginn er sýnilega á verði fyrir samvisku heimsins !

 

Bandaríkin hefðu vísast tekið öðruvísi á málinu ef í hlut hefði átt eitthvað ríki í tengslum við Rússland eða Kína ; ef hægt hefði verið að sverta viðkomandi ríki með eftirgrennslun atburðarásarinnar. En því er ekki að heilsa og viðskiptahagsmunir sitja því í fyrirrúmi !

 

En glæpurinn er sá sami hver sem drýgir hann og þannig hefðu réttsýnir menn eins og John Adams og Abraham Lincoln litið á málið. En þeirra sjónarmið eru ekki leiðarljós Bandaríkjanna nú til dags – ekki á nokkurn hátt. Það sér hver heilvita maður !

 

Khashoggi-málið sýnir enn og aftur hvað ofbeldi er nærtækt ráð af hálfu stjórnvalda Saudi-Arabíu. Yfirvöld þar fara sínu fram hvað sem hver segir. Atburðarásin í Yemen sem er mannkynssögulegur hryllingur er ekki hvað síst á ábyrgð Saudi Arabíu, sem í krafti olíuauðs síns virðist telja sér leyfast allt. Slíkt framferði er heiminum öllum til skammar !

 

Khashoggi málið hefur fengið mikla frétta-umfjöllun en þau eru mörg málin af svipuðum toga sem ættu það ekki síður skilið. Svívirðingasaga veraldar lengist jafnt og þétt og þar virðist sem löngum fyrr fátt til varnar !

 

Meðan ríki eins og Saudi-Arabía og Norður-Kórea eru til, er ekki hægt að búast við að mennskan búi við eðlileg lífsskilyrði í þessum heimi !

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 75
  • Sl. viku: 1099
  • Frá upphafi: 315004

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 823
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband