Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Hvaðan kemur valdhafinn – hvers eðlis er hann ?

 

Allt er miklum breytingum háð í nútímanum og miklu meir en áður var. Nú veit enginn hverrar þjóðar þjóðarleiðtogi á Vesturlöndum kann að vera í komandi tíð.

Það verður bara einhver, einhversstaðar frá og hananú ! Þannig virkar fjölmenningin, að allir eiga að geta komist til æðstu valda meðal þjóða á Vesturlöndum !

 

Sporin hræða þó nokkuð í slíkum efnum. Korsíkumaður einn tók völd yfir Frökkum, Georgíumaður einn tók völd yfir Rússum, Austurríkismaður einn tók völd yfir Þjóðverjum og í engu þessara tilfella varð niðurstaðan góð !

 

Valdabrölt viðkomandi manna varð til mikillar bölvunar fyrir mannkyn allt og olli dauða milljóna manna. Kannski vantaði þá eðlilega undirstöðu. Bestu mun yfirleitt gegna að hirðir og hjörð séu af sama meiði !

 

Ekki er heldur ýkja langt síðan innfluttur japanskur ,,afburðamaður” varð forseti í Perú sem einhverntíma hefði nú þótt ósennilegt að gæti orðið. En samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja á netinu, er samt tæpast hægt að segja að ferill viðkomandi manns sem forseta í Perú hafi verið perúvískum mannréttindum til mikils ávinnings eða innflutningurinn hafi skilað sér til þjóðarheilla !

 

Og hvert flýði svo maðurinn þegar honum var ekki lengur vært á forsetastóli vegna spillingar og misferlismála ? – Til uppruna síns, til Japanseyja !

 

Menn geta svona í þessu samhengi velt því ofurlítið fyrir sér hvaða líkur séu á því að innflytjandi frá Perú verði forseti í Japan ! Þær eru náttúrulega engar !

 

Eins og fyrr segir, virkar fjölmenning bara á Vesturlöndum og þá yfirleitt á kostnað þeirra manngildishugsjóna og menningar-arfleifða sem þar búa fyrir, enda virðist leikurinn fyrst og fremst til þess gerður að gildis og gengisfella þær og ónýta…….!

Það er þessi sjálfstortímingarhugsun sem mannskepnan burðast svo oft með sem virðist valda því að sífellt er verið að hlaða undir óþjóðlega afstöðu í málum !

 

En í ljósi þess sem getur gerst og er víða að gerast í nútímanum, getum við Íslendingar að sjálfsögðu fengið að upplifa þann veruleika að fá hér forseta eða forsætisráðherra frá Fjarskanistan eða hvaðan sem er. Við getum leikandi sett upp svolítið dæmi um slíkt !

 

Segjum nú - til dæmis - að við værum að tala um forsætisráðherrann okkar, - og ef við höldum okkur við fyrra dæmið, að við látum sem um innflutta japanska stúlku sé að ræða sem komin væri í það embætti !

 

Gefum okkur að stúlkan sú hefði verið snögg að sanna hæfni sína og námsgetu með því að renna eins og smjörklípa í gegnum menntakerfið og tekið flottar gráður þar. Hún hefði kornung þótt mjög róttæk og orðið flokksformaður í róttækum flokki.

 

Hún hefði síðan, líklega fyrir meinlega glettni örlaganna, færst jafnt og þétt til hægri og náð með því afstöðuskriði að verða forsætisráðherra í samsteypu-stjórn hægri afla. Skrúfað sig á skollavísu frá öllu því sem hún áður taldist standa fyrir !

 

Nú þurfum við eiginlega að gefa stúlkunni eða konunni nafn og það verður þá auðvitað að bera japönskum uppruna hennar nokkurt vitni á þjóðlega vísu. Þá er eiginlega allt orðið við hæfi í þessari litlu dæmisögu okkar. Við skulum því gefa okkur að konan heiti Natókata !

 

Við sjáum Natókötu njóta sín til fullnustu í sínu háa embætti, heimsækja aðra þjóðarleiðtoga, kanna heiðursvörð með þeim og brosa í allar áttir. Vera íslenskan leiðtoga af Zero gerð !

 

Við sjáum hana samþykkja þátttöku í stríðsaðgerðum þó að hún sé líklega friðsöm í innsta eðli sínu. En hún gerir það sem hentar henni og telur kannski viðkomandi aðgerðir nógu langt í burtu til að hægt sé að sofa fyrir þeim.

 

Og svo samþykkir hún kannski ýmislegt ef hún getur með því þóknast samstarfsflokkunum og því hernaðarbandalagi sem virðist standa hjarta hennar næst !

 

Að japönskum hætti er Natókata sveigjanleg og taktvís í sinni pólitík og því líklegust allra til að geta spilað á hið pólitíska hringferli með þeim hætti að hún geti hangið við einhver völd til lengri tíma. Það er auðvitað keppikeflið !

 

En hvort svo fer að lokum, að Natókata lendi í einhverjum vandræðum og verði kannski að síðustu að flýja til Japan eða í eitthvert annað skjól, það vitum við auðvitað ekki eins og sakir standa, því tíminn á eftir að leiða í ljós hvað verður.

 

En allt virðist þó leita til uppruna síns að lokum, hvað sem allri fjölmenningu líður, enda segir á vísum stað: - Römm er sú taug sem rekka dregur föðurtúna til !

 

Kannski er það því einmitt aðalmálið í lífinu, að vita hvað maður er, hvar maður býr og hvað eðlilegast er að maður standi fyrir - í ljósi eigin gilda og arfleifðar !

 

Það virðist hinsvegar svo með marga á Vesturlöndum í dag, að þeir séu ekki með neitt af þessu á hreinu. Þeir kunna ekki að rata sína þjóðlegu leið, eru í því að glata gildum sem þeir eiga að virða og tapa áttum eins og Natókata !

 

Ætli það sé ekki alltaf allra hluta best að hver þekki sína arfleifð og hugi að henni ?

 


Offjárfestingar og aðrar ljótar lenskur !

 

Íslendingar hafa oft fengið orð fyrir að vera gullgrafarar, eða sú tegund slíkra sem oftast er einhverskonar helmingablanda skýjaglóps og grasasna. Ef þeir halda að einhvern gróða sé að hafa út úr einhverju rjúka allt of margir á sömu mið og hver spillir fyrir öðrum. Við vitum hvernig menn spiluðu sig út og suður í síldveiðimálunum hér áður fyrr og við vitum hvernig hefur gengið í refa og minkarækt og fiskeldi !

 

Hrunið varð að mestu leyti afleiðing offjárfestinga, þar sem frjálshyggjusinnaðir gróðapungar óðu í lánsfé og ætluðu að verða ofboðslega ríkir. Spilaborgirnar risu hver af annarri og ótrúlegustu menn létu hafa sig að fíflum, en svo kom að skuldadögunum og allt hrundi !

 

Síðasta offjárfestingar-dæmið og ekki það minnsta er ferðamennskan. Hún byggist á þeirri innbyggðu óskhyggju að ferðamenn komi hingað í stórum stíl til frambúðar. Hótel og gistihús þjóta upp út um allar koppagrundir og allir ætla að græða. Bankar og lánastofnanir dragast með í ævintýrið og veita að því er virðist ótakmarkaða fyrirgreiðslu í greinina. Allt á að koma margfalt til baka og ábyrgðin er líklega einhversstaðar í skýjunum !

 

En hvað gerist ef ferðamenn taka nú skyndilega upp á því að hætta að mestu að koma til Íslands ? Hér sé allt orðið svo dýrt og betra að fara eitthvað annað !

 

Þetta gerði síldin hér um árið. Hún tók upp á því að fara annað og ruglaði allar áætlanir og ófáar fjárfestingarnar urðu að engu. Verksmiðjur sem reistar voru og áttu að mala gull eru enn að grotna niður víða um land, vegna þess að menn yfirspiluðu allt í gróðafíkn sinni og lífskjör í landinu versnuðu auðvitað fyrir vikið !

 

Þjóðin borgaði náttúrulega brúsann því skuldakóngarnir eru alltaf látnir sleppa !

 

Hvað ef gullgæsin í ferðamannageiranum flýgur annað ? Hverjir borga brúsann af öllu sem þá verður í bullandi skuld ? Ekki hið glaðbeitta gróðalið, það get ég sagt ykkur. Þjóðin verður látin standa ábyrg fyrir ábyrgðarleysinu. Það eitt er víst !

 

Íslenskir ráðamenn tala oft í hátíðarvímu um land mikilla náttúruauðæfa, orkuríkt land með hafmið ríkrar auðlegðar, land sem flýtur í mjólk og hunangi - svo forn samlíking sé notuð. En það er eins og það sé föst opinber stefna stjórnvalda að fólkið í landinu – yfir heildina, skuli aldrei fá að njóta þessara gæða lands og sjávar. Öll gæði skulu fá greiða leið í einkavasana !

 

Ríkið á samkvæmt hugsun blámanna hægri-ómennskunnar einungis að hafa á hendi óarðbæran rekstur. Allt sem getur skilað hagnaði á að vera í höndum einkaaðila. Ríkið á samkvæmt því að hafa á hendi alla kostnaðarliði í ferðaþjónustu en einkaaðilar eiga að hafa alfrjálsan aðgang að gróðanum. Þjóðin öll á að borga kostnaðar-liðina en einkaaðilarnir eiga að fá að græða hömlulaust - eiga að fá að okra og svína á þeim sem hingað koma – þangað til þeir hrekja þá endanlega burt !

 

Afleiðingar græðginnar munu verða þær sömu hér og þær hafa orðið alls staðar þar sem þannig hefur verið staðið að málum. Gullgæsin hættir að verpa, hún getur kannski verpt 20 eggjum á ákveðnum tíma en það er ætlast til að hún verpi 50. Blóðmjólkuð kýr skilar ekki gæðum til langframa. Ágirndin er rót alls ills !

 

Og náttúruperlur landsins sem hafa verið troðnar niður í skít undanfarin ár verða lengi að jafna sig eftir áganginn og enginn mun taka ábyrgð á því né græða sárin. Þjóðin mun sitja uppi með ósómann - og kostnaðinn !

 

Lífskjör á Íslandi eru ekki síst - af þessum ágirndar-ástæðum aurasjúks fólks - langt á eftir miðað við hin Norðurlöndin og félagsleg aðhlynning að öllum sem þurfa skilnings við, er á brauðfótum. Það má nánast sjá á öllum málaflokkum. Hér ríkir rangur hugsunarháttur, siðblindur hugsunarháttur frjálshyggju og glæpsamlegrar gróðahyggju !

 

Ef haldið verður áfram á slíkri braut verða afleiðingarnar hrikalegar fyrir þjóðina. Hægristjórn íhaldsins sem nú situr að völdum með leppum sínum er stjórn sem er ekki með neina hugsun við almenna velferð. Þar er bara einblínt á fyrrnefnda blámannahugsun – ofþenslu einkagróðans. Haldið er áfram að byggja upp  auðstétt í krafti græðgisvæðingar og valds hinna fáu !

 

Ísland verður í gegnum slíka græðgis og gróðasýn sérgæskunnar að Blámannsey, – eins og segir í hinni heimsfrægu sögu Agöthu Christie. Allir tortímast að lokum fyrir eigin ágirnd vegna algjörs skorts á heilbrigðri lífssýn. Engin sönn lífsgildi fá þá varið neitt. Glæpir og mistök fortíðar kalla á sitt endanlega uppgjör. Það kemur alltaf að skuldadögunum !

 

Þegar bara er fjárfest í græðgi er ekki við góðu að búast því græðgin er ættuð beint úr helvíti. Þangað fara þeir áreiðanlega líka að lokum sem hafa alið sig á græðgi í gegnum lífið, sjálfum sér og öðrum til bölvunar. Slíkra bíður engin blessun !

 

Hvenær á almenningur á Íslandi að fá að búa við lífskjör sem taka mið af auðlindum lands og sjávar ? Af hverju er sérgæskan látin valta hér yfir allt sem heilbrigt er ?

 

Ætlum við sem þjóð alla tíð að láta fámenna auðstétt ráðskast hér með allt líf okkar og barna okkar út yfir gröf og dauða, eins og það sé eini valkostur lífsins ?

 

 

 

 

 

 


Fáein orð um sameiningarpólitík !

 

Enn er verið að fá fólk í hinum dreifðu byggðum til að sameinast í nýjum og stórum sveitarfélögum þar sem öllum á að líða miklu betur. Það er talað um miklu öflugra þjónustustig þegar svo er komið og lítil sveitarfélög ráði bara ekki við verkefnin !

 

Jú, jú, ætli menn kannist ekki við þetta frá fyrri tíð og enn eru sameiningar-rökin þau sömu þó talsvert sé nú farið að slá í þau sum hver. Og ekki sýnist manni að lausn félagslegra vandamála verði neitt auðveldari þó sveitarfélög séu stór eða verði stór við sameiningu.

 

Þó sjá megi nauðsyn hins hjálpandi halds,

þá hamlar oft ráðandi klíka.

Það gleymist í áróðri gleypandi valds

að gallarnir margfaldast líka !

 

Sama tilhneigingin virðist nefnilega löngum til staðar sem áður á kerfislega vísu að lágmarka alla þá þjónustu sem getur orðið almenningi til hagsbóta. Hinsvegar er oft eins og einhver sérþjónustu við einhverja útvalda geti verið fyrir hendi og þá ekki í smáskömmtum !

 

En samt er boðskapur kerfisins alltaf í uppörvunarstíl þó efndir verði oft litlar og alltaf á björgin sem blessar að vera á næstu grösum eða í það minnsta á leiðinni:

 

Í heiminum margt er svo veikburða og valt

og vegferðin þúsunda erfið og sár.

Við erum á leiðinni að laga hér allt

en líklega tekur það fjöldamörg ár !

 

Hvernig var til dæmis með ábyrgð og öryggi barnaverndarmála í stærsta sveitarfélaginu þar sem hættulegur maður lék lausum hala í þeim geira árum saman án þess að kærumálum gegn honum hafi verið sinnt ? Þurfti ekki einhver að segja af sér út af því ? Nei, auðvitað ekki, það þarf fyrst einhver að vera ábyrgur !

 

Hvernig hefur réttindum fatlaðra verið sinnt í Vesturbyggð þar sem fötluð kona fékk ekki lögboðna akstursþjónustu og það í sameinuðu sveitarfélagi ? Er það ekki áfellisdómur yfir viðhorf og vinnubrögð í kerfi hins eflda þjónustustigs ?

 

Sameiningarsinnar segja þegar á svonalagað er minnst : ,, Já, en þetta eru einstök tilfelli !” Já, er það, en eru þau ekki orðin nokkuð mörg yfir það heila ? Og hvernig á svonalagað að geta gerst í stórum sveitarfélögum þar sem þjónustustigið á að sögn að vera miklu betra ?

 

Af hverju gerist slíkt þar sem sagt er - að eftir sameiningu verði miklu betur að málum staðið ? Það mætti vissulega halda að ýmislegt sé hreint ekki á hreinu þó marglofuð sameining hafi átt sér stað !

 

Mál Leonhards Haraldssonar og fleiri vekja til dæmis miklar efasemdir um þá velferð sem sögð er búa í kerfisþjónustunni því býsna oft virðist gyllingin ein til staðar þegar á reynir. Það er vissulega slæmt ef svo er !

 

Fæst viljum við borða eitthvað sem við vitum ekki hvað er og það er nú svo með þessi sameiningarmál að þar er oftast eitthvað líkt á ferð. Fólki er sagt að gleypa eitthvað sem það veit ekki hvað er og ef afleiðingarnar verða slæmar þá á það bara að sitja uppi með þær meltingartruflanir. Engin leið er til baka. Kerfið hefur talað – og svo er nánast sagt ef einhver er með gagnrýni : ,,Æi, þegiðu nú !”

 

Aðalatriðið af kerfisins hálfu virðist vera að koma upp einhverri stjórnsýsluhöll á einhverjum tilteknum stað, þar sem nóg verði líklega um innihaldslitla pappírsvinnu fyrir einhverja útvalda, en ávinningur fyrir almenning vill oft verða næsta lítill !

 

Og svo þarf bara eitt símtal ofan úr ráðuneyti í stjórnsýsluhöllina og ekki þarf að tala víðar. Þvílíkur léttir – fyrir kerfið !

 

Það virðist alveg vilja gleymast í svona umræðu að fyrir nokkrum árum varð hér efnahagslegt hrun sem fór með allt traust í samfélaginu norður og niður. Þá var stolið svo miklu af fólki um allt land að það verður aldrei tölum talið og margir hafa verið í sárum síðan !

 

Og ekkert hefur gerst eftir það sem unnið hefur upp traust á yfirvöldum eða kerfi. Það var bara lögð táli vígð teppisdrusla yfir ósómann og þagnarlögmálið látið gilda. Það hefur sem sagt hvergi verið tekið á neinu til að byggja upp traust aftur og því er það í núll stöðu !

 

En enn á fólk samt að treysta því að eitthvað óskilgreint, eitthvað loftkennt sem hvergi má festa hönd á, sé á leiðinni í stóru fallegu batteríi til að bæta alla þjónustu og það í stjórnkerfi sem hefur gjörsamlega brugðist eins og sannaðist í hruninu, kerfi sem alltaf er duglaust og auralaust þegar kemur að félagslegum lausnum !

 

Löggetan er þá bara sett í afsláttargírinn og fólki sagt að bíða og þar við situr !

 

Það er svo sem ekkert nýtt að almennum borgurum sé boðið upp á hluti með þeim hætti að um leið sé það undirstrikað að ekki muni talið að glóran þvælist fyrir þeim !

 

Hitt má svo auðvitað segja og það með töluverðum rétti að menn séu ekki að detta úr háum söðli frá því sem verið hefur víðasthvar á sveitarstjórnarstiginu. En alltaf er þó æskilegast að breytingar verði til bóta og þegar engin trygging er fyrir því að svo verði, er bara mannlegt að margir séu tortryggnir og hugsi sitt. Menn vita svona nokkurnveginn hvað þeir búa við en ekki hvað breyttar aðstæður bjóða upp á. Tilraunadýr kerfisins hreppa yfirleitt ekki háa vinninga !

 

Mistök í íslenskri stjórnsýslu eru sem vitað er daglegt brauð og enginn býst svo sem við miklu úr þeirri áttinni, allra síst eftir að sérfræðingar allra mála hafa tekið völdin meira og minna í sínar hendur með þeim afleiðingum sem það hefur. Milljarðar hafa fengið að fjúka í tóma vitleysu og þjóðin fær að borga margfaldan gráðuskattinn !

 

Og undarlegustu umsagnir varðandi hin ýmsu mál koma oft frá mönnum sem ættu að vita betur. Þar virðist koma fram - allt að því ósjálfrátt - sú tilhneiging að verja kerfið og vitleysur þess hvað sem tautar og raular !

 

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum sagði til dæmis nýlega í útvarpi varðandi Landeyjahöfn að sumir hefðu sagt að hún myndi sökkva í sand en ekki hefði það nú gerst. Jæja, hver væri staðan þar ef ekki væri búið að dæla ógrynni af sandi burt árum saman fyrir tugi ef ekki hundruð milljóna ? Hverskonar blekkingartal er þetta hjá þjóðkunnum reynslubolta í íslenskum sveitarstjórnarmálum ?

 

Málið er að raddir kerfisins skeyta oft lítið um sannleikann og því kemur oft upp staðan sem lýst er í vísunni góðu :

 

Satt og logið sitt á hvað,

sönnu er best að trúa.

En hvernig á að þekkja það

þegar flestir ljúga ?

 

Þegar búið er að sameina allar lygarnar sem í gangi eru til að rugla fólk enn frekar í ríminu, verður líklega hálfu erfiðara að henda reiður á sannleikanum ; eða hvort boðskapur að sunnan varðandi breytingar í stjórnsýslumálum hafi eitthvað gott í för með sér fyrir þá sem eiga að njóta hinna allt að því ósýnilegu ávaxta !

 

Að ofan kemur ýmislegt

sem ekki er gott að skilja,

er sérvaldið í sinni mekt

svínar á fólksins vilja !

 

Það er sýnilega ráðrík sameiningarstefna í gangi. Hún þarf svo sem ekki að vera alslæm, en margt er við hana að athuga, ekki síst það að valdið verður oftast fjarlægara og ópersónulegra, vald skriffinnsku og aukinnar kerfishyggju – sem endar kannski að lokum í Brussel !

 

Það er full ástæða til að fara varlega í öllum málum sem hafa með frelsi einstaklinga og almennings að gera og valkostir sem leyfa ekki að stigið sé til baka – ef mönnum hugnast ekki boðnar breytingar – hljóta jafnan að teljast tortryggilegir !

 

 

 

 

 

 


Ný Francostjórn ?

 

Hinar ofbeldisfullu aðfarir spænskra stjórnvalda gegn sjálfstæðishreyfingu Katalóníubúa minna ekki á neitt frekar en spænsk stjórnvöld í tíð Francos !

 

Katalóníumenn eru sérstök þjóð, með sérstaka menningar-arfleifð, tala sitt eigið tungumál og vilja vera frjálsir að sínu. Hversvegna skyldu þeir ekki mega það ?

 

Ríki Vestur-Evrópu mikla sig gjarnan af lýðræðishefð sinni, en lýðræðishugsun flestra stjórnvalda þar er mjög þröngsýn og hagsmunir þvælast hvarvetna fyrir.

 

Oftast er niðurstaða stjórnkerfislegra deilumála varðandi sjálfstjórnarmál eða sjálfstæði í allt öðrum farvegi en eðlilegt réttlæti ætti að bjóða upp á. Lýðræðið er talið gott meðan það þjónar ríkjandi valdi en vont þegar það þjónar hagsmunum almennings !

 

Pólitísk stefna Vesturlanda undanfarin ár hefur verið að parta sem mest niður ríki Austur Evrópu og koma þeim í vel viðráðanlegar einingar. Júgóslavía var kurluð niður með allskonar baktjaldaaðgerðum og moldvörpu-starfsemi og þegar Serbía þótti samt of stór og óviðráðanleg var farið í stríð og aldagamalt serbneskt land afhent annarri þjóð með atfylgi ESB og Nató. Sú saga er ljót og verður vonandi afhjúpuð þó síðar verði !

 

Tékkóslóvakía hætti að vera til og var gerð að tveimur ríkjum og ef til vill eigum við eftir að sjá Vestur og Austur Úkraínu sem sérríki. Það eru alltaf einhverjir sem setja eldsmat undir suðupottinn og tilgangurinn er alltaf sá að geta arðrænt aðra við nýjar og betri aðstæður !

 

En í Vestur Evrópu má hinsvegar ekki splitta upp gamalgróinni valdastöðu einstakra ríkja. ESB vill það ekki, Nató vill það ekki. Svo ef fólkið vill það samt, verður að sveigja það til hlýðni við valdið með góðu eða illu og það er það sem við sjáum vera að gerast í Katalóníu í dag !

 

Hin afturhaldssama ríkisstjórn Spánar vill greinilega halda Katalóníu sem sinni nýlendu og geta arðrænt þar áfram eins og hingað til. Þar er um einn iðnvæddasta og afurðabesta hluta ríkisins að ræða og topparnir í Madrid geta ekki hugsað sér að sleppa svo feitum bita !

 

Lýðræði skiptir engu í því sambandi. En áframhaldandi yfirgangur er með öllu óásættanleg niðurstaða fyrir sjálfstæðis-sinnaða Katalóníumenn sem vilja langþreyttir fá sitt frelsi og þó fyrr hefði verið !

 

Í raun og veru hafa bönd Katalóníu lengi verið sterkari við Suður-Frakkland en Spán. Katalónska er til dæmis töluð handan landamæranna í héraðinu Roussillon. Í dag munu líklega alls um 10 milljónir manna tala katalónsku, þar af sennilega um 6 milljónir í Katalóníu. Sjálfstæðisbarátta Katalóníumanna á sér langa sögu og hófst sannarlega ekki á 21. öldinni. Katalónska þjóðin hefur lengi haft alla burði til að vera sjálfstæð, ef hún fær í nafni réttlætisins að vera frjáls að sínu !

 

Árið 1931 var lýst yfir lýðveldi í Katalóníu og ákveðnir áfangar að sjálfsstjórn fengust þá í gegn, en eftir borgarastyrjöldina gengu fasistar hart fram í því að taka allt til baka í þeim efnum og herða þar kúgun og einræðistök. Andstaðan við Franco og fasista var löngum mest í Katalóníu og því er skiljanlegt að Katalóníumönnum þyki nú sem ný Francostjórn sitji að völdum í afturhaldssömum og steingerðum miðstjórnar og miðalda kastala í Madrid !

 

Fátt virðist eiginlega í raun hafa breyst á Spáni frá fjórða áratug síðustu aldar. Þá tryggðu óþokkarnir Hitler og Mussolini sigur spænskra fasista í borgarastyrjöldinni með mikilli hernaðarhjálp og komu öllu lýðræði á Spáni fyrir kattarnef. Franco var skilgetið afkvæmi þeirra á valdastóli þar. Bresk og frönsk stjórnvöld léku tveimur skjöldum í umræddum hildarleik og íhaldsöflin þar vildu í raun spænsku lýðveldisstjórnina feiga !

 

Nú virðast ESB og Nató helst ætla að sinna þeim hlutverkum sem áðurnefndir óþokkar höfðu í fyrri tíð, – að koma í veg fyrir lýðræði og þar með sjálfræði þjóðar, með því að þjóna undir hægri stjórnina í Madrid. Það er sagt að margt sé líkt með skyldum !

Franco virðist genginn aftur – engu betri en áður !

 

 

 

 


Örninn á Patmos

(Frumort ljóð, byggt á upplifun Jóhannesar

postula eins og segir í Opinberunarbókinni.)

 

Leiðsögn ein mun aldrei bregðast

annað flest þó vilji tregðast,

þar um eilífð allt er traust.

Hver sem eyra hefur heyri

hljóminn sem er öllu meiri,

Andans helgu og hreinu raust !

                  *

Á eyjunni litlu hann lifði í kyrrð

og ljósin þar fengu að skína.

Hann barst þar í anda um ómælis firð

í algleymi krefjandi sýna.

Frá vænghafi arnarins vindurinn hvín

sá voldugi súgur með áhrifin sín

sem vekur upp sálir af svefni.

Þar vitnaðist Orðið í vöku þess manns

sem vígðist til postula í þjónustu hans

sem gaf okkur Anda síns efni.

 

Hann lá þar á bæn hverja líðandi stund

og löng var sú andlega glíma.

Og sá allan heiminn sem helfarar grund

við hamfarir þrengingatíma.

Svo djúpt var þar horft fyrir eilífðar Orð

um aldir og sögu, um veraldar storð,

að margir það álitu óra.

En augu hans litu þar himnanna höf

við hafningu andans úr jarðneskri gröf,

það stærsta af öllu því stóra.

 

Og Kristur þar birti honum kjarna þess máls

sem kærleikans hástóli ræður.

Að aðeins sá verður til eilífðar frjáls

sem elskar og ver sína bræður.

Sá þjónustu andi mun þveginn af synd

sem þroskast með fórnum í heilsteypta mynd

og alltaf er eitthvað að bæta.

Það ríki sem eitt á hin ráðandi tök

er réttlætisheimur sem þekkir ei sök,

þar frelsaðir frelsinu mæta.

 

Hann svalg í sig tímanna táknmynda flóð

í tilbeiðslu hugar og sálar.

Og sá hvernig guðsbarna þolandi þjóð

er þungavigt mælandi skálar.

Því líf hvert sem játar hið lifandi Orð

og lærir að nærast við Frelsarans borð

það vinnur sér vængina fleyga.

Hinn eldlegi kraftur sem Andinn fram knýr

er ávallt jafn brennandi, ferskur og nýr

í hjarta sem himnarnir eiga.

 

Hann mundi það allt sem við Meistarans kné

var mótað í sál hans og anda.

Og ósnortið líf hans af frama og fé

var fjarri því lítilla sanda.

En allt var þar tamið við aga og stjórn

og auðgað af Krossberans heilögu fórn

sem andar með eilífu gildi.

Hans sál var því stillt á það stöðuga ljós,

og stefnunni trúr hann af brunni þeim jós,

af kristninnar kærleik og mildi.

 

Það fylgir oft hugsunum farandi manns

að fjötrast í þröngsýnis búi.

En ljósheimur Drottins var lærdómur hans

svo langt ofar hverfulu núi.

Og leiddur af Andanum leit hann þau svið

sem lukt eru og dulin og horfa ekki við

þeim augum sem jörðinni játast.

Hann tilheyrði himnanna þroskuðu þjóð

og þessvegna átti hann dýrmætan sjóð

og þurfti ekki að þykjast og látast.

 

Að sjálfið er þröskuldur harður og hár

og hrösul hin mannlega viska,

að hroki er kaldari en kaldasti nár

og kærleika öllum til miska,

það vissi hann fyrir og vissi því eins

að vegferð án leiðsagnar Guðs er til meins

því ekkert þá götuna greiðir.

Þá fyllir í sálinni tómarúm tækt

með tálsnöru viðhorfin öfug og flækt

sá andi sem afvegaleiðir.

 

En náðin sem enn gegnum skuggana skín

er sköpuð til frelsunar sálum.

Og postulinn elskaði sá það í sýn

í sannleikans framtíðarmálum.

Og upplýstur varð hann af englum um leið

að öll myndi framvindan hafa sitt skeið

uns tæmt yrði tímaglas náðar.

Því mörg er í boði sú blekkingamynd

sem blindar og glepur og vekur upp synd

með athafnir breyskar og bráðar.

 

Í Bókinni miklu er manns sagan öll,

hvert mál hennar letrað og skrifað.

Hver einasta velgjörð, hver örlagaföll

og allt sem menn hafa hér lifað.

Hann vissi að fullu að frelsunin hrein

er fáanleg síst fyrir lífsverkin ein,

þar annað er æðra í sjóði.

Þó sá hann að breytninnar baráttu raun

var bókuð til gildis og náðin í laun

þar gefin með Guðs sonar blóði.

 

Hann tók við svo miklu – hver mynd var svo stór

og mannlegum skilningi hærri.

Og atburðarásin sem æðandi sjór

sem ógnaði og flæddi honum nærri.

Það tók á hans krafta að uppfyllast af

því öllu sem virtist sem bálstrauma haf

og blóðskrifað logandi línum.

En englanna leiðsögn og fræðsla var fyllt

svo fullkomnu ljósi að ekkert gat villt

hans anda frá öllum þeim sýnum.

 

Svo honum var gefið hið glöggasta skyn

og greiningarhæfni sem fylgdi.

Við heilagra bænir og himneskan dyn

hann horfði og lærði og skildi.

Við hásæti Guðdómsins Lambið hann leit,

þá logaði í hjarta hans tilfinning heit,

svo frábær og fögur var sjónin.

Þar ljómaði við honum verðugt í raun

og viðbúið til þess að hljóta sín laun

það Sakleysi er sigraði ljónin.

 

Og hann sem að birtist í Mannssonar mynd

í munni sér sverðið það hefur,

sem tvíeggjað, biturt og brugðið gegn synd

í baráttu sigurinn gefur.

Hinn Fyrsti og Síðasti og Lifandi lífs

sem leysti af mannkyni bölvanir kífs,

þá stendur með stjörnur í hendi.

Þá sést að hann Konungur konunga er

og kraftinn og valdið að eilífu ber

og drottnar við daganna endi !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 71
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1321
  • Frá upphafi: 316711

Annað

  • Innlit í dag: 50
  • Innlit sl. viku: 1029
  • Gestir í dag: 48
  • IP-tölur í dag: 48

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband