Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020

Hvatningarvísur til úthalds !

 

 

Í veröldinni er veirustríð

og vandann margt vill auka.

Það verður eflaust enn um hríð,

svo allir verða að þrauka !

 

Þar fyrirmælum fylgja þarf

og forðast blessað knúsið.

Þó það sé erfitt stöðu starf

að stunda innidúsið.

 

En margt er nýtt við málin öll

sem mæta okkur núna.

Og vandræði sem virðast fjöll

þau veikja sigurtrúna.

 

En látum ekki undan þeim

og engu því sem svíkur.

Og byggjum svo upp betri heim

er baráttunni lýkur !

 

Svo nauðsynlegast það er þjóð

að þola við í stríði.

Og rata þar um rétta slóð

og reyna að hlýða Víði.

 

Og Þórólf eins og Ölmu við

í öllu skulum virða.

Og allt það fólk sem leggur lið

og léttir þunga byrða.

 

Að fylgja í öllu úthalds sið

er Íslendinga máti.

Og almennt talað erum við

á einum og sama báti !

 

 

 


Hvar má finna friðarskjól ?

 

 

Heimurinn eins og við þekkjum hann hefur alltaf verið fullur af mannvonsku og þeirri vonsku vonskunnar sem þar er á bak við. Öll Sagan, eins og við þekkjum hana, er hrópandi vitni um það !

 

En á öllum öldum hafa þó verið til manneskjur sem hafa staðið í gegn þessari viðvarandi vonsku og það hefur einkum orðið til þess að hún hefur aldrei náð að hrósa afgerandi sigri alls staðar !

 

Alltaf hafa menn samt verið að leita sér að griðastað í einhverjum afkima þessarar veraldar, þar sem þeir gætu fengið að lifa í friði og notið sjálfir ávaxta erfiðis síns. Þannig byggðust til dæmis Bandaríkin upp. Það er kaldhæðnisleg og hláleg staðreynd í ljósi þeirrar framvindu sem varð !

 

Fólk flýði ófrelsið í gamla heiminum, kúgun og áþján konungsvaldsins, takmarkalausan yfirgang aðalsins, flýði allt það forréttindahyski sem gerði sér mat úr erfiði þess og át afraksturinn. Það var því ekkert lítið sem rak á eftir því, enda öllu til þess kostað að fara þetta !

 

Menn fóru vestur um haf í leit eftir friði og frelsi. En svo féllu þeir flestir í gildru græðginnar. Þeir byrjuðu á því að svipta indíánaþjóðirnar þar vestra öllu því sem þær áttu, landi, friði og frelsi. Þær þjóðir eru margar hverjar útdauðar í dag og það skrifast að stórum hluta á syndareikning hvíta kynstofnsins !

 

Það segir sig sjálft, að meðan sú aðferð er viðurkennd til lífs og afkomu, að frelsi eins megi vera ófrelsi annars, mun hringrás ógæfunnar halda áfram í þessum heimi og sjá til þess að hvergi sé neinn öruggur griðastaður til eða friðarskjól fyrir fólk. Það er hinn sjálfskapaði vítahringur þess !

 

En fólk heldur samt áfram að flýja og leita að öðrum stöðum þar sem því gæti liðið betur. Það er að hluta til skýringin á yfirstandandi þjóðflutningum til Evrópu og yfirtöku nýrra þjóðfélagshópa á samfélögum álfunnar. Þær þjóðir sem hafa byggt Evrópu eru að breytast við þann mikla innflytjendastraum og öll menningar-arfleifð þeirra með !

 

Gildi hins þjóðlega evrópska arfs rýrnar með hverju árinu sem líður, því hinir aðkomnu meta þann arf ekki mikils, sem varla er von. Þeirra arfsgildi eru allt önnur og ganga í ýmsum meginatriðum þvert gegn aldagömlum menningararfsgildum evrópskra þjóða !

 

Evrópuþjóðirnar gömlu eru því að komast í hlutverk indíánaþjóðanna í Norður-Ameríku, sem nú eru að miklu leyti horfnar af sjónarsviðinu og menning þeirra og saga týnd og gleymd. Erum við núlifandi Evrópumenn að kalla eftir þeirri framtíð með andvaraleysi á líðandi stund ?

 

En margt er að varast og við vitum að hið yfirlýsta frelsisríki sem stofnað var vestanhafs með útrýmingu indíánanna og menningar þeirra, hefur á okkar tímum orðið að einu versta ríki jarðarinnar fyrir hernaðar-yfirgang og allskyns dulbúna kúgun á almennu mannfrelsi. Auðvald hinna fáu ræður þar öllu og þar situr fjármálalegt ofbeldi í hásæti mannvonskunnar !

 

Til hvers voru menn að flýja vestur, fyrst þeir fóru strax að skapa undirstöður kúgunar og yfirgangs þar með tilkomu nýrrar yfirstéttar ?

 

Sem Rómverjar okkar tíma hafa Bandaríkjamenn stundað það öllum þjóðum fremur að deila og drottna. Þeir lærðu fyrstu lexíurnar í því af Bretum. En spurningin er, hvað hefur áunnist í raun með því framferði til blessunar fyrir þá sjálfa ? Lifa Bandaríkjamenn, almennt talað, í einhverju friðarskjóli nú til dags. Geta menn séð þá sviðsmynd í lífi þeirra í dag ?

 

Hafa þeir byggt upp eitthvað sem telja má að hafi raunverulega svarað þeim væntingum sem menn höfðu í hjörtum sínum þegar þeir lögðu af stað vestur um haf í óvissuna - frá öllum viðbjóðnum í Evrópu fyrir um 400 árum ?

 

Hvernig hefur þeim tekist til við uppbyggingu þess farsældaríkis sem hugmyndin var að skapa ? Ég held að allir hljóti að sjá að Bandaríkin hafi ekki þróast upp í að verða neinn griðastaður eða friðarskjól !

 

Það er hættulegt að lifa í stórborgunum vestanhafs og núorðið hættulegra en víðasthvar í Evrópu. Nýi skítastaðurinn hefur yfirgengið þann gamla. Það má jafnvel spyrja sig, hvort óhætt sé að ganga yfir götu í Bandaríkjunum, án þess að vera skotinn, keyrður niður eða rændur ?

 

Eitt er víst að ekki getur það ofbeldisfulla ríki sem Bandaríkin eru í dag, verið það sem hinir púritönsku landnemar á Mayflower stefndu að á sínum tíma. Þar var um að ræða draum sem fyrir löngu hefur snúist upp í miskunnarlausa martröð !

 

Friðarskjólið sem menn ætluðu að koma sér upp í Nýja heiminum varð aldrei að veruleika. Það hefur hinsvegar fyrir löngu breyst í blóðugt helvíti ofbeldis og glæpa !

 

En hvernig geta menn fundið friðarskjól í þessum heimi ? Svarið við því er enn það sama og hefur hljómað síðustu tvö þúsund árin. Það hefur aldrei glatað gildi sínu og mun aldrei gera það. Það er hið mikla boð Krists um breytingu háttalagsins : ,,Yður ber að endurfæðast !”

 

Meðan sú rödd er hundsuð, verður aldrei um neitt friðarskjól að ræða í þessum heimi !


,,Allt er í heiminum hverfult !”

 

Staða mála í heiminum í dag er nokkuð sérstök, og í henni felst ýmislegt sem segir okkur að við þurfum að endurmeta líf okkar og skilgreiningar okkar á þeim gæðum sem við höfum lengi notið og talið sjálfsögð !

 

Nú hljótum við að vera farin að sjá, að það er margt sem enganveginn er sjálfsagt í þeim efnum og þá getum við leitt huga okkar að því að minnast þess, að víða um heim er fólk sem þarf að berjast hart fyrir mörgu af því sem við höfum talið sjálfsagt !

 

Fólk á Vesturlöndum hefur lengi notið velsældarmeira lífs í efnalegum skilningi en aðrir hér á jörð, en hefur það orðið að betri manneskjum fyrir vikið ? Mér hefur löngum sýnst, að þar sem sérgæskan fær að vaða uppi, þar fari náungakærleikurinn yfirleitt lóðrétt niður á við. Allt verður þannig virt til verðs, manngildi lítils metið en auðgildi þeim mun meira !

 

Veskið er látið segja til um persónulega stöðu hvers og eins og framkoma fólks við hvert annað hefur að miklu leyti ráðist af því. Þannig hefur það lengi verið og spillt samskiptum sem ella gætu verið betri. En fólk hefur vanist stöðugt meira á að sleikja upp fyrir sig og sparka niður fyrir sig !

 

En nú þarf heimurinn að glíma við þessa Covid-19 veiru. Og það merkilega er, að hún fer sýnilega ekkert eftir þeim lögmálum sem virðast ráða öllu í okkar kapitalíska umhverfi. Hinir auðugu eru í jafnmikilli hættu og aðrir, þeir sýkjast ekki síður og jafnvel öllu fremur !

 

Sú staðreynd gengur eiginlega þvert gegn öllu í venjulegum kapitalískum hugsunarhætti, sem gengur út frá því að veskið eigi alltaf að geta bjargað. En svo kemur í ljós að hinir ríku geta ekki keypt sig frá hættunni !

 

Þvílíkt virðingarleysi er þetta af Covid-19 að taka ekkert tillit til þess hvað vægi manna er misjafnt í þessum heimi. Sumir myndu nú líklega meira en fúsir til að líta á þetta veirustand sem einhverja bölvaða kommaplágu !

 

En af hverju segi ég að þeir ríku séu jafnvel í meiri hættu ? Jú, þeir ferðast meira, hafa efni á því. Þeir leika sér meðal annars á skíðum í öðrum löndum og eiga jafnvel önnur heimili í útlöndum. En þegar kreppir að þeim erlendis, flýja þeir ,,heim” í gamla öryggið og taka veiruna með sér !

 

Covid-19 er mannkyns-hættulegt fyrirbæri og það er enganveginn víst að hún renni bara yfir sem tiltölulega tímabundinn faraldur ? Hún getur herjað á mannkynið mánuðum saman, hún getur stökkbreyst og komið fram í öðrum og enn hættulegri myndum en þeirri sem við blasir í dag. Hún getur orðið viðloðandi vandamál í heiminum á næstu árum og heimsótt okkur aftur og aftur. Við vitum ekkert um það hvar við höfum hana ?

 

Við stöndum þannig frammi fyrir þeim veruleika, að þrátt fyrir öll okkar hálofuðu vísindi og margrómað tæknistig, virðumst við ekki sérlega burðug í glímunni við þetta illskeytta fyrirbæri eða eiga þar margra kosta völ. Og hvaðan skyldi svo þessi veira vera komin ?

 

Er hún kannski eitthvað sem á ættir að rekja til tilrauna sem gerðar hafa verið í veirufræði í einhverjum þeim stofnunum þar sem vísindamenn leika sér ábyrgðarlaust dags daglega með fjöregg mannkynsins ?

 

Við vitum svo fátt í raun og veru - og hvernig á annað að vera í heimi þar sem flest fólk ver ¾ hlutum af ævitíma sínum alfarið í það verkefni að eignast peninga. Og telur gildi sitt felast að öllu leyti í eignum og auratali, lyftir sérgæskunni í hæðir og sendir náungakærleikann norður og niður !

 

Í slíkum heimi þykir auðvitað ekkert gott á seyði, þegar eitthvað óþekkt fyrirbæri tekur hann allan í gíslingu, herkví eða sóttkví, og virðir hvorki kóng né prest. Skapar hættu fyrir alla, jafnvel þá sem telja auðgildi sitt svo mikið, að þeir eigi samkvæmt kapitalískum stöðlum að vera ósnertanlegir !

 

Covid-19 veiran virðist hinsvegar sjálfstæðari en nokkur ,,self made man.” Hún er sjáanlega algerlega óháð mannfélagslegum viðmiðum, virðir greinilega ekki efnalega stöðu manna, og fer sínu fram hvað sem hver segir. What a terrible devil !

 

Við getum sjálfsagt lengi velt þessu öllu fyrir okkur, en kjarni málsins er - hvað ætlum við að gera í málinu ? Þegar og ef þetta gengur yfir, hvað þá ? Ætlum við að læra eitthvað af þessu ? Sjáum við ástæðu til að breyta einhverju frá fyrri háttum og hugleiða eitthvað hvort við höfum komið rétt fram við aðra og hegðað okkur vel sem manneskjur ?

 

Má líta á þessa veirusýkingu sem einhverja viðvörun um að ávanabundnir lífshættir okkar séu okkur ekki sérlega heilsusamlegir ? Eða ætlum við bara að hjakka áfram í sama farinu og hugsa eins og Lúðvík XV, ,, Syndafallið kemur eftir minn dag !”

 

Já, ætli það verði ekki raunin ! Það er líklega enginn fús til að fara í hreingerningu sem krefst þess að einhverjum þægilegheitum verði fórnað í nafni ábyrgðar sem eiginlega er hvergi til !

 

 

 

 

 

 


Þegar tíðarandinn brýtur niður - !

 

Sagt er á hátíðastundum, að öll störf séu jafn nauðsynleg í samfélaginu, en flestir vita að það er langt frá því að þau séu virt og metin með þeim hætti. Verkfall Eflingar hefur til dæmis sýnt hvað vantar mikið upp á það, og ekki hefur því fólki verið umbunað sérlega vel sem passar börnin okkar á leikskólum og annars staðar. Já, börnin okkar, það dýrmætasta sem við eigum !

 

Eitt merkasta og virðingarverðasta starf sem unnið hefur verið í mannlegu samfélagi er starf húsmæðra fyrr og síðar, starf mæðra inn á heimilunum. Þar vantaði ekki fórnfýsina, þjónustulundina og ábyrgðarkenndina. En hvernig var það launað ? Það vantaði oftast mikið upp á skilning annarra á gildi þess starfs. Og hvernig fór að lokum ?

 

Þessu grundvallarstarfi samfélagsins var sýnd slík óvirðing að með eindæmum var. Í framhaldinu voru konur svo flæmdar út á vinnumarkaðinn, vegna þess að heimastarfið þeirra var svo lítils metið. Sumir sögðu jafnvel, að það væri ekki hægt að láta þær bara hanga heima. Heyr á endemi - hanga heima !

 

En það kom fljótt í ljós sem oftar, að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ótalmargar samfélagslegar meinsemdir fóru fljótt að vaða uppi þegar konunum leyfðist ekki lengur að sinna áður þekktri varðstöðu sinni um heimilin og börnin. Afleiðingarnar urðu hrikalegar !

 

Þannig fór samfélagið til dæmis að koma sér upp því sem kallaðist ,,lyklabörn,” börn sem enginn gat hugsað um, því nú voru báðir foreldrarnir úti að vinna, vinna fyrir meiri tekjum, vinna fyrir peningum – og dugði þó vinna beggja varla til í vaxandi dýrtíð og neysluhyggju !

 

Skyldi einhver leið vera til að meta skaðann sem samfélagið varð fyrir, þegar konurnar voru hraktar út af heimilum sínum og sagt að fara að vinna ? Og tónninn var eins og þær hefðu bara legið í leti heima. En enginn í samfélaginu var að vinna þjóðnýtari og þarfari störf en þær !

 

Heimilisstörfin og uppeldishlutverkið var jafnvel óvirt af forustuliði réttindabaráttu kvenna og jafnað við kúgun og þrælahald. En nú eru margir farnir að skilja að ein skýringin á misfarnaði mannlífs á seinni árum og ekki sú minnsta, er beintengd við þá staðreynd að geysilega mikilvæg varðstaða hafði verið yfirgefin og þær manneskjur sem höfðu svo lengi staðið hana, verið neyddar til að víkja þar af verði fyrir tilverknað skilningslauss tíðaranda sem blindur var á báðum augum !

 

Það getur enginn til lengdar búið við þá stöðu að framlag hans sé einskis metið. Það getur enginn lagt sig allan fram endalaust án þess að njóta nokkurrar viðurkenningar. Samt gerðu konur það ótrúlega lengi !

 

En að lokum varð óvirðingin og neikvæðnin þeim um megn. Það þarf enginn að vera hissa á því. Það er hægt að brjóta allt sem er gott og gilt og göfugt niður með þeim hætti sem þar var gert. Og við höfum líka fengið að gjalda þess allar götur síðan, - með ómanneskjulegra samfélagi !

 

Ég ætla að setja hér í lokin merkilegan texta sem barst mér í hendur fyrir nokkrum árum og margir þekkja sjálfsagt. Hann er sígildur að efni og hugsun og hverjum manni þörf og gagnleg lesning. Hverjum manni sem ekki hefur þeim mun meira ský fyrir skilningarvitum sínum !

 

BARA HÚSMÓÐIR

Það gerðist bara.........

Börnin vöktust og klæddust.

Grauturinn eldaðist og átst.

Það bjóst um rúmin og sópaðist.

Þvotturinn þvoðist og hengdist upp.

Það gerðist við og stoppaðist í.

Það saumaðist og prjónaðist.

Tertan bakaðist og borðaðist.

Það vaskaðist upp og gekkst frá.

Börnin hugguðust og hjúfruðust.

Það breiddist yfir þau og þau kysstust góða nótt.

Þegar þau voru spurð:

Hvað gerir mamma þín ?

Urðu þau undirleit og svöruðu lágt:

Ekkert, hún er bara heima ! “

N.N.

 

 

 

 

 


Þankar um yfirstandandi heimshremmingar !

 

 

Það fár sem nú er að ganga yfir heimsbyggðina sýnir glöggt hversu viðkvæmt allt okkar alheimskerfi er. Það sprettur einhver fjandi upp á einum stað og eftir nokkrar vikur er hann kominn um allt. Enda hvernig á annað að vera ? Flugið gerir ferðalög skjót og greið og fjarlægðir eru ekki lengur sú hindrun eða vörn sem áður var. Það er fátt svo að það fylgi því ekki bæði gott og slæmt !

 

Nú er það meira en mikilvægt, að menn viti sem fyrst af hverju veira eins og Covid -19 kemur upp, hverjar eru orsakirnar ? Getum við búist við öðrum hliðstæðum árásum á heilsufar mannkynsins á næstu árum ? Er þessi veira eitthvað sem við sjálf höfum komið af stað og framleiðum jafnvel í gegnum eitthvað sem við gerum rangt ? Getum við búist við ýmsum stökkbreyttum útgáfum af þessum fjanda í komandi tíð ? Í stuttu máli sagt, af hverju gerist þetta ?

 

Við erum nú líklega mitt í heilsufarslegum afleiðingum þessarar sóttkveikju, en allar líkur benda til þess að í framhaldinu verði um að ræða mjög erfiðar efnahagslegar afleiðingar af þessu fári víða um heim. Þær munu trúlega geta valdið kreppu í mörgum þjóðlöndum, sem mega ekki við miklu, og þannig haft slæm áhrif á afkomu milljóna manna !

 

En umfram allt vekur þetta ástand miklar spurningar um almennt öryggi, þegar sú staða er uppi, að einn sýkist af öðrum og hættan felst meðal annars í of miklu og nánu samneyti við annað fólk ? Það er vafalaust fyrir flesta óþægileg upplifun að þurfa að neyðast til að breyta háttum sínum og atferli varðandi almenna umgengni við aðra !

 

Flestu fólki er það svo eðlilegt að tjá væntumþykju sína og hlýju við hvert annað, að það er erfitt að koma sér upp einhverri fjarlægðarvörn í þeim efnum. En lífshættulegur veirufaraldur eins og Covid-19 gerir það í meira lagi varasamt að viðhalda fyrri háttum. Staðreyndirnar tala sínu máli varðandi það. Svo stöðumatið er : Haldið ykkur í hæfilegri fjarlægð frá hvert öðru. Engin handabönd, ekkert knús, engir kossar !

 

Úff ! Það er óskemmtilegt fyrir flesta að þurfa að una slíkum kærleiks-takmörkum, en þannig verður það víst að vera meðan þetta hættuástand varir, vegna sameiginlegrar velferðar okkar allra !

 

Samfélagskennd okkar Íslendinga hefur nú oft þótt býsna einkennileg og margir segja hana felast allt of mikið í því að fá eitthvað hjá öðrum en láta lítið af hendi á móti. Ef það er rétt mat er meiri vandi fyrir dyrum en ella. Það felst nefnilega mikil áskorun í því að takast á við Covid -19 veiruna !

 

Okkur er fyrirlagt af forsvarsmönnum ríkisvalds og heilbrigðismála, að standa þetta veraldarfár af okkur sameiginlega og með trúverðuga ábyrgðarkennd allra landsmanna að kjölfestu. Það er sem sagt kallað eftir þjóðlegri samstöðu varðandi þetta mál. Það þýðir að samfélagskennd okkar Íslendinga mun verða að taka sitt próf í gegnum þetta ferli !

 

,,Vandi fylgir vegsemd hverri,” segir máltækið og höfum við ekki jafnan litið svo á, að það væri þjóðleg vegsemd að vera Íslendingur ? Þurfum við þá ekki að sýna í verki, enn og aftur þegar á herðir, að við getum virkilega staðið saman ? Að við eigum áfram fulla samleið í gegnum súrt og sætt ?

 

Vonandi mun fyrrnefnt próf ábyrgðar og samfélagskenndar færa okkur og öðrum viðhlítandi sönnur fyrir því að við séum fær um að halda velli á sæmilega heilbrigðum grundvelli á vettvangi lífsins !


Að búa við þjóðmenningu eða hrærigraut !

 

 

Líklega má halda því fram, að Bandaríkin séu helsta dæmi fjölmenningarríkis í nútímanum og þaðan hefur áróður fyrir fjölmenningu breiðst mjög út því Bandaríkin eiga í sjálfu sér enga þjóðmenningu sem slíka. Og menn jafnt sem þjóðir geta ekki lagt rækt við það sem þeir eiga ekki !

 

Vegna þess að heildstæða þjóðmenningu vantar í Bandaríkjunum og slíkt grundvallarmál sameiningar er ekki til staðar þar, er sú ofuráhersla lögð á þjóðfánann sem svo víða kemur fram. Fáninn er í raun látinn vera sameiningartákn Bandaríkjamanna, hverrar þjóðar sem þeir annars eru !

 

Lengi framan af voru Bandaríkin menningarlega þó undir enskumælandi forræði og litu valdhafar þar vestra svo á að það væri hin eðlilega staða. En á síðustu áratugum hefur þetta verið að breytast mikið og spænskumælandi íbúar suðvesturfylkanna eru orðnir svo fjölmennir að fyrri valdahlutföll eru ekki lengur til staðar !

 

Spænskættað fólk er að taka þar yfir. Innflytjendastraumurinn að sunnan hefur valdið þessu ásamt hærri fæðingartíðni meðal þess fólks. Það er ekki af engu sem Donald Trump, helsti forvígismaður hægri aflanna í Bandaríkjunum og núverandi forseti, vill byggja Berlínarmúr á suðurlandamærunum !

 

Í æði mörgum fylkjum Bandaríkjanna eru mjög fjölmennir hópar frá ákveðnum löndum, afkomendur fólks sem kom þaðan sem innflytjendur á sínum tíma. Stór hluti þessa fólks heldur fast í erfðir sinnar þjóðmenningar frá gamla landinu, þó að í hlut eigi þriðja eða fjórða kynslóðin í nýja landinu. Hollustan er sterk við gamla landið og tengslin rík !

 

Það er í frásögur færandi að fjölmargir Bandaríkjamenn af þýskum stofni fóru til Þýskalands til að berjast með Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni þó öfgastefna nazista réði þar. Bandaríska lýðræðis-uppfræðslan sem þeir höfðu átt að hafa notið var nú ekki haldbetri en það. Þessum mönnum óx það ekkert í augum að eiga að drepa Bandaríkjamenn !

 

Þeir höfðu öðlast full borgararéttindi í Bandaríkjunum, voru að fullu viðurkenndir þar, en hollustan var engu að síður tengd við ómennsk yfirvöld í gamla landinu. Engum datt þó í hug að setja þýska Bandaríkjamenn í fangabúðir, en það var hinsvegar gert við japanska Bandaríkjamenn. Þeir höfðu víst ekki útlitið með sér í þjóðagrautnum !

 

Það er heldur ekkert óvenjulegt að Bandaríkjamaður taki það fram, að hann sé til dæmis sænskættaður eða eitthvað á þá vísu, en Íslendingur tekur það varla fram að hann sé af dönskum ættum. Hann er nefnilega þjóðmenningarlegur í viðhorfi sínu en hinn er það ekki, sem varla er von !

 

Tíðni morða og manndrápa er í sögulegum hæðum innan Bandaríkjanna og skyldi það ekki geta verið að hluta vegna þess að þar eru svo margir sem eiga ekki samleið ? Ef fjölmenningarsamfélag eða allra þjóða ríki væri virkilega af því góða, væri sameinandi frekar en sundrandi, ætti þá ekki að vera minna um glæpi í Bandaríkjunum en annarsstaðar ? Væru menn þá ekki búnir að höndla lausn lausnanna í samskiptum þar vestra ?

 

Nei, það er ekki svo og verður aldrei svo ! Bandaríkin eru ríkjabandalag þjóðahópa sem í mörgum tilfellum eiga ekki samleið og vilja í raun ekki eiga samleið. Og þetta bandalag er viðkvæmara en flestir gera sér grein fyrir og laustengt í flesta staði. Eitt af því sem virðist halda ríkisbákninu saman er viðvarandi stríðsrekstur !

 

Bandaríkin verða sýnilega alltaf að vera í stríði við einhvern út á við. Það á víst að virka sem ákveðinn stoppari á viðsjárnar í innanlandsmálunum. En ríki sem þarf stöðugt að standa í stríði til að hanga saman, er ekki líklegt til að búa við raunverulegt öryggi og framtíðargæfu !

 

Borgarastyrjöldin varð sú ógæfa sem hrakti Bandaríkin út af fyrri braut og gerði frelsishugsjónina afstæða. Hún varð þá ekki lengur sameiginleg öllum ríkjunum á þann hátt sem áður hafði verið. Þegar Suðurríkin voru þvinguð inn í ríkjasambandið á ný eftir ósigurinn í styrjöldinni með fullu hervaldi og nýlendukúgun, fylgdu því brestir sem aldrei hafa gróið !

 

Menn voru neyddir til að vera í mörg ár í þeirri mannskemmandi stöðu. Lífsaðstæður þeirra voru ekki lengur undir frjálsum vilja þeirra komin. Þeir fengu ekki að lifa áfram við það frelsi sem þeir töldu sjálfsagt og eðlilegt. Þar byrjaði átumeinið sem síðan hefur spillt svo mörgu og nánast nagað sundur allan grundvöll ríkisins !

 

Þegar heimsvaldastefnan hóf svo í framhaldi mála fyrir alvöru innreið sína í Hvíta húsið, breyttist allt stjórnarfar Bandaríkjanna stórlega til hins verra. Borgarastyrjöldin og eftirfylgjandi ránskapur og arðrán í Suðurríkjunum æsti blóðbragðið upp í valdamönnum þar vestra og þeir vildu meira. Nýr vargur var þar með kominn í hóp þáverandi stórvelda heimsins og græðgi hans varð brátt meiri en allra hinna !

 

Bandaríkin urðu fljótt að ,,hundingja sem hausi veltir, hvar sem bráð á jörðu lítur.” Og hið áður þokkalega orðspor Bandaríkjanna sem ríkis frelsis og manndáða, versnaði eftir það með hverju árinu sem leið og gerir enn. Þar er nú búið að eyðileggja flest það sem áður var almennt viðurkennt gott og gildisbært. Allt vegna yfirþyrmandi fjármálaauðvalds sem þekkir engin takmörk og virðir engin takmörk !

 

Og hvernig skyldi hinn dæmigerði Bandaríkjamaður vera nú á dögum ? Hver skyldi hinn þjóðernislegi bakgrunnur hans vera ? Það er líklega hægt að fá nokkuð mörg svör við slíkum spurningum. Aðlögun að einhverju sem á að vera öllum jafn sameiginlegt hefur gengið afskaplega treglega í Bandaríkjunum sem fyrr segir. Þar stendur margt á móti og sú sameiningartilraun hefur ekki heppnast enn og gerir það líklega seint !

 

Frelsisfrasar Bandaríkjamanna eru löngu gengnir sér til húðar. Sjálfstæðisyfirlýsingin margfræga er löngu orðið marklaust plagg fyrir þeirra eigin tilverknað. Ekkert heldur gildi sínu til lengdar nema staðið sé við það. Það hefur aldrei verið hægt að halda sömu lyginni endalaust að fólki. Og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fyrir löngu svikið sína eigin arfleifð og sögu !

 

Allt það sem stofnfeður Bandaríkjanna vildu hafa í heiðri í upphafi er nú einskismetið af eftirmönnum þeirra. Þar sem lýðræði var áður er nú gjörspillt fjármagnsvald í hásæti undir forustu auðhringa, sem eru eins langt frá því að vera almenningsvænir eins og nokkuð getur verið. Hvert stefnir þegar svo er komið ?

 

Bandaríkin eiga vissulega eftir að tortímast innan frá vegna þeirra andstæðna sem ríkja í innviðum þeirra og hefur þegar gert þá svo rotna, að þeir standa ekki mikið lengur undir því sem þeir eiga að bera. Þar er allt burðarvirkið orðið svikult og bý ekki yfir þeim styrk sem þyrfti að vera !

 

Og jafnframt þeirri innri vá, felst eyðingarmáttur úrkynjunar í græðginni og yfirganginum sem ræður öllu út á við og hefur lengi gert. Þar er oftast um að ræða ofbeldiskennd viðskiptasamskipti sem koma engu góðu til leiðar og skilja aðeins eftir uppsafnaða óánægju og reiði. Bandaríkin eru Babylon nútímans og það í margföldu veldi.

Það styttist þar í syndafallið !

 

 

 

 


,,Íþrótta-fyrirtækin” !

 

 

Það ættu nú flestir að sjá það nú til dags að íþróttir eru orðnar allt annað en þær voru hér áður fyrr. Nú gengur þar allt út á peninga, ekki síst þar sem boltinn snýst. Það sem áður hét og var félagslið er í raun í dag ekkert nema fyrirtæki, oftar en ekki í eigu einhvers auðkýfings !

 

Og auðvaldið þar á bak við þarf ekkert endilega að vera af meiði þeirrar þjóðar þar sem fyrirtækið starfar. Ensk fótbolta-fyrirtæki geta þessvegna verið í eigu rússneskra oligarka, arabískra olíukónga eða íslenskra gervigreifa. Það er ekkert þjóðlegt við starfsemina lengur !

 

Og leikmennirnir – eða öllu heldur starfsmennirnir – ganga kaupum og sölum. Verð þeirra er ekkert smáræði, enda líklegir kaupendur ekki á flæðiskeri staddir. Og allt er miðað við að kaupa vopn sem duga og tryggja gróðavænlegan rekstur. Þau vopn eru starfsmenn sem kunna að sparka frá sér. Allt í bransanum kallar á boltasnillinga sem skila mörkum, skila sigrum, skila peningum !

 

Og hvar eru þá íþróttirnar ? Þær eru vafðar inn í sögu liðins tíma, alveg eins og hugtakið ,,Ræktun lands og lýðs.” Hinar raunsönnu íþróttir gengu ekki út á fjárhagslega stóriðju eins og íþróttir virðast gera svo mikið í dag !

 

Þær voru miðaðar við ,,mens sana in corpore sano” - heilbrigða sál í hraustum líkama. Þær voru iðkaðar mönnum til vaxtar og viðgangs og fyrir heilbrigð viðmið í lífinu !

 

Lárviðarsveigar íþróttamanna til forna voru heiðurstákn og sæmdarmerki, þar var ekki verið að keppa eftir gulli á forsendum græðgi og auðgunarhyggju. Þá stóðu íþróttir undir nafni sem slíkar !

 

Tíminn heldur stöðugt áfram sinni för og venjur og viðmið breytast og því miður allt of oft til hins verra. Grundvallarforsendur góðra hluta geta þannig breyst með þeim hætti að ekkert þekkist þar lengur á sama veg og áður. Kjarninn er þá orðinn annar eða hefur verið leystur upp í andstæðu sína. Allt farið að þjóna einhverju öðru en að var stefnt í byrjun !

 

Á slíku ferli má sjá, að jafnvel góðir hlutir geta að lokum orðið slíkir að þeir séu ekki góðir lengur, einkum þegar það er orðið vafamál í hugum margra að svo sé. Það er dapurlegt þegar svo er komið málum !

 

Þá er tæpast lengur um þróun að ræða, heldur öfugþróun og afturför frá heilbrigðum gildum. Þá er búið að skadda eitthvað sem þótti gott og uppbyggilegt meðan það var og hét. Og slíkur viðsnúningur getur stundum orðið án þess að það hafi í sjálfu sér verið að honum stefnt, Menn dragast oft með í einhvern svelg án þess að hafa ætlað sér það !

 

Ekki held ég að neinum hugnist í raun framvinda sem spillir hugsjónum og góðum gildum, og verður að lokum einhver afskræming þess sem hún var hugsuð til að vera og ætti að vera. En það er eflaust þungt að standast strauminn sem veldur slíku niðurrífandi bakflæði gildismála með mammonískum þrælatökum nú til dags !

 

Íþróttir virðast mér því á margan hátt orðnar, fyrir áhrif óheftrar markaðshyggju og efnishyggju-sjónarmiða, með skaddað gildismat nú til dags. Afreksmenn vaða þar í þvílíku peningaflóði að það er með ólíkindum. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig slík ofgnótt hlýtur að fara með marga þá sem eiga að vera öðrum góðar fyrirmyndir í íþróttalegum skilningi !

 

Þegar hugsjónin er lögð undir auraveltuna að fullu og öllu, verður hún fljótt að engu. Þá eru það allt önnur markmið sem taka völdin og halda þeim. Þar er oftast meira lagt á menn en þeir þola !

 

Þegar svo er komið er það nefnilega ekki lengur íþróttin sem slík sem laðar og dregur, það eru peningarnir !


Frakkland neðar núlli !

 

Oft er erfitt að vita hver lægsti punktur einhverrar þjóðarsögu er. En það eiga Þjóðverjar og Frakkar trúlega sameiginlegt, að sömu tímar eru lægstir að gildi í þeirra þjóðarsögu, árin frá 1939 til 1945. Ég ætla ekki að fjalla hér um Þjóðverja, en vil fara nokkrum orðum um yfirgengilegan aumingjaskap franskra stjórnvalda í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari og þann ótrúlega uppgjafaranda sem réði öllu hjá þeim á þessum tíma, jafnt stjórnmálaforustunni sem hershöfðingjunum !

 

Frakkar hafa löngum viljað láta telja sig með stórveldum og vissulega hafa þeir lengstum verið það, ef tekið er mið af evrópskri sögu. Á tímum Lúðvíks 14. og aftur á tímum Napóleons fóru franskir herir víða um Vestur Evrópu og voru oft sigursælir. En þeir voru ófáir Lúðvíkarnir sem sátu á konungsstóli í Frakklandi og gerðu þjóð sinni lítið annað en illt með stjórnarháttum sínum !

 

Jákvætt mál var það því þegar 19. öldin hreinsaði kóngahyskið ásamt Bonaparte valdhöfum burt úr Frakklandi og kom endanlega lýðræðisstjórnarfari á í landinu. En valdhafarnir voru þó sannarlega misgóðir áfram eins og löngum vill vera og val fólksins oft í meira lagi umdeilanlegt sem slíkt og er enn. Í fyrri heimsstyrjöldinni gátu Frakkar sér þó allgóðan orðstír við að verja sitt land og misstu aldrei móðinn !

 

Það gerðu þeir hinsvegar rækilega í seinni heimsstyrjöldinni. Jafnvel yfirlýstar hetjur úr fyrri styrjöldinni fóru illa að ráði sínu í þeirri seinni svo sem Pétain marskálkur. Sá maður hefði verið heppinn ef hann hefði dáið 1938. Þá væri orðspor hans annað og betra. En það hrundi allt hjá Frökkum 1940, stjórnmálalegar lyddur og hershöfðingjaheybrækur fóru með allt til fjandans, allur baráttuhugur var úr þeim skekinn í fyrstu lotu !

 

Churchill sagði síðar um þá stöðu mála, þegar hann var að reyna að stappa stálinu í franska uppgjafarliðið: ,, Þegar ég sagði Frökkunum að Bretland mundi halda baráttunni áfram eitt síns liðs, sögðu franskir hershöfðingjar við franska forsætisráðherrann, að Bretland yrði snúið úr hálsliðnum eins og hænuungi áður en þrjár vikur væru liðnar. Látum svo vera. Því er nú einu sinni svo varið, að sumir eru eins og hænsn en aðrir hafa nokkuð seigan háls !” Kannski felur þessi umsögn Churchills í sér ákveðinn grundvallar eðlismun á Bretum og Frökkum !

 

En þegar stórveldisbragur Frakklands var fokinn út í veður og vind og Þjóðverjar orðnir allsráðandi í París, frönsk leppstjórn undir forustu Pétains sest að í Vichy, gerðist hinsvegar hálfgert undur. Tiltölulega lítt kunnur franskur hershöfðingi neitaði að gefast upp og fór að rífa kjaft !

 

Hann þrástagaðist á því að Frakkland væri enn það stórveldi sem það hefði verið og neitaði að taka það til greina að veruleikinn væri annar. Fyrst tóku nú ekki margir undir þann málflutning. Maðurinn var jafnvel talinn með lausa skrúfu og best geymdur á hæli. En smátt og smátt fóru Frakkar að halla sér að honum, enda var eiginlega ekkert annað í boði !

 

Þannig fóru menn að vita að til væri einhver de Gaulle, einhver leiðtogi sem talaði um frjálsa Frakka á sama tíma og þeir voru upp til hópa ófrjálsir. Churchill tók því fagnandi að einhver Frakki væri til sem vildi berjast og greiddi veg hans, meðal annars hjá BBC, en margir háttsettir breskir foringjar urðu fljótt mjög þreyttir á de Gaulle og meintri frekju hans. Bandaríkjamenn áttu þó enn verr með að lynda við þennan franska gíraffa sem talaði ekki um annað en að Frakkland væri enn stórveldi og krafðist þess stöðugt að það væri áfram viðurkennt sem slíkt !

 

De Gaulle virtist alveg blindur fyrir raunverulegri stöðu mála og niðurbrotnir landar hans fóru að taka sig saman og flykkjast um hann, því þótt allir aðrir sæju Frakkland neðar núlli, viðurkenndi de Gaulle ekkert slíkt. Og með bítandi þrjósku sinni tókst honum að koma sinni stefnu fram og verða viðurkenndur varnaraðili varðandi franska þjóðarhagsmuni. Bandaríkjamenn reyndu þó á tímabili að koma upp öðrum frönskum leiðtoga, Giraud hershöfðingja, en hann hafði ekkert að segja í de Gaulle !

 

Og jafnt og þétt fjölgaði í hersveitum Frjálsra Frakka og jafnframt því óx áhrifavald og vægi de Gaulles. Ýmsir landstjórar í nýlenduveldi Frakka sögðu Vichy stjórninni upp hollustu og tóku höndum saman við de Gaulle. Hann var greinilega hin rísandi stjarna á hinum franska valdahimni. Það var bara verst hvað sá himinn var takmarkaður um þessar mundir !

 

En de Gaulle lét það ekkert á sig fá og hélt áfram á sinni braut og gaf sig hvergi. Hann varð flestum ef ekki öllum leiðandi mönnum Breta og Bandaríkjamanna vægast sagt hvimleiður á þessum tíma. Roosevelt forseti fékk til dæmis hálfgert ofnæmi fyrir honum. Jafnvel Churchill átti stundum erfitt með að þola hann og stöðuga stórmennskutilburði hans. Hann gekk um eins og hann væri Frakkland holdi klætt !

 

En það merkilega var – að hann komst upp með þetta. Forusta bandamanna fór að telja frönsku þjóðina aftur með í dæminu, þjóðina sem fór niður fyrir núllið og hafði kolfallið við að verja sitt eigið land. De Gaulle hafði afrekað það og knúið fram þá viðhorfsbreytingu með ódrepandi og eðlisgrónu samblandi af þrákelkni og hroka. Hann hafði þannig híft Frakkland upp úr manndómslægðinni og gefið Frökkum sjálfstraust og kraft til baráttu á nýjan leik !

 

Og Frakkland komst með þeim hætti upp fyrir núllið, eignaðist á ný hershöfðingja sem reyndust standa undir nafni sem slíkir, menn eins og Leclerc og Köenig og fleiri, sem stóðu alfarið með de Gaulle !

 

Síðan hefur hinsvegar gengið á ýmsu í málum Frakklands og frönsku þjóðarinnar og engan leiðtoga hafa Frakkar eignast frá umræddum tíma sem jafnast á við de Gaulle – engan sem hefur haft slíkan sprengikraft í sér til varnar þjóðlegum hagsmunum Frakklands !

 

Menn geta bara séð hvernig staðan í þeim málum er í dag, enda hafa franskir leiðtogar lengi verið smáir til geðs og gerðar. En Frakkland er samt ekki neðar núlli nú á tímum og hverjum skyldi það vera að þakka öðrum en de Gaulle ? Frakkland er talið með enn í dag, og nýtur þar þó einkum fornrar frægðar, hvað lengi sem það þó verður !

 

Þýska valdið er nefnilega aftur farið að hafa drjúgmikil áhrif í París, þó með öðrum hætti sé en á styrjaldarárunum – og enginn de Gaulle er í sjónmáli til varnar því að Frakkland verði í komandi tíð að einhverskonar fylgiríki Þýskalands – og þá líklega neðar núlli !

 

 

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 1315
  • Frá upphafi: 316234

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1045
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband