Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2021

Glæpurinn mesti !

 

 

Þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum sínum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki, var meginástæðan sú - að þeir vildu ólmir og óðfúsir prófa hið nýja ofurvopn !

 

Þar var ekki um að ræða það yfirlýsta markmið, að með því væru þeir að bjarga bandarískum mannslífum, vegna þess að það yrði svo mannfrekt að gera innrás á japönsku heimaeyjarnar. Sú yfirlýsing var bara fyrirsláttur !

 

Bandaríkjamenn höfðu þegar gert margar innrásir á eyjar og eyðisker og ekki horft í mannslífin við þær aðgerðir. Það var miklu fremur eins og hershöfðingjunum væri gefinn þar algerlega frjáls taumur í stríðsleik sínum. Til hvers var verið að fórna öllum þessum mönnum á Iwo Jima og öðrum eyjaskikum ?

 

Af hverju voru Bandaríkin að tína upp þessar smáeyjar og taka þær hverja af annarri með því mannfalli sem því fylgdi ? Af hverju beindu þeir ekki geirum sínum að heimaeyjunum miklu fyrr, að Japan sjálfu, því engu skipti með hersveitir japana á þessum eyjaskikum víðsvegar um Kyrrahafið ef heimaríkið var sigrað !

 

Þegar japanska heimsveldishjartað í Tokyo væri brostið, var ekkert annað fyrir einstakar herdeildir á fjarlægum eyjum að gera en gefast upp.

 

Japanski flotinn var á þessum tíma orðinn aðeins svipur hjá sjón. Hann var lítil sem engin ógn lengur. Flest skip hans lágu á þessum tíma hér og þar á botni Kyrrahafsins !

 

Bandaríkjamenn voru komnir með full yfirráð í lofti. Þeir gátu þessvegna knúið japana til uppgjafar með hefðbundnum loftárásum í stórum stíl, þurftu alls ekki að fórna miklum mannafla með innrás !

 

En þeir vildu prófa nýja vopnið…! Þeir vildu ólmir henda þessu dauðahelvíti á lifandi fólk, venjulega borgara í venjulegum borgum. Það var það sem öllu skipti í augum herstjórnar Bandaríkjanna. Og nú voru þeir komnir með forseta sem kippti sér ekki upp við slíkt !

 

Fælingarmáttur kjarnorkusprengjunnar, hins nýja ofurvopns, átti að kenna öllum að halda frið við Bandaríkjamenn – hvernig svo sem þeir kæmu til með að hegða sér í komandi tíð !

 

Sovétmenn voru líka komnir að því að ráðast inn á Japanseyjar að norðan og sennilega hefur það haft sín áhrif að talin var pólitísk þörf á því að hespa stríðinu af sem fyrst, áður en til þess kæmi !

 

Samt var sú hernaðaraðgerð Sovétmanna algerlega eftir þeirri forskrift sem leiðtogar bandamanna höfðu samið um á ráðstefnum sínum !

 

Engri annarri þjóð í veröldinni hefði liðist þessi stríðsglæpur nema Bandaríkjamönnum. Þeim leyfðist allt. Þeir voru góðu gæjarnir sem aldrei gátu framið stríðsglæpi og hlutu að gera allt rétt !!!

 

Og svo var ráðandi viðhorf að japanar ættu ekkert gott skilið, jafnvel ekki óbreyttir borgarar. Japanar voru orðnir í bandarískum hugarheimi eins og indíánarnir, aðeins góðir þegar búið var að drepa þá !

 

Enn í dag er það svo, að ,,góðu gæjarnir” eru þeir einu sem hafa notað kjarnorkusprengjur á fólk. Jafnvel kommarnir, eins vondir og þeir voru sagðir, gerðu það ekki. Og vonandi verður slíkt aldrei framar gert !

 

En ömurlegt hlutskipti hlýtur það að vera fyrir þá þjóð, sem alltaf hefur talið sig mestu frelsisþjóð veraldar, að hafa framið mesta glæpinn sem framinn hefur verið á þessari jörð !

 

Það er fylgja sem ber með sér bölvun og það bölvun sem á eftir að koma fram gagnvart þeirri iðrunarlausu þjóð sem glæpinn drýgði !

 

 

 

 

 

 


Dansaðu með !

 

Nú til dags virðist það vera einhverskonar samfélagsleg krafa að allir dansi með. Það er alveg sama hvaða vitleysa er höfð uppi við, þú átt að dansa með. Annars ertu ekki gjaldgengur, talinn leiðinlegur og auðvitað ómögulegur sérviskupúki !

 

Fyrir hrun áttu allir í fjármálageiranum að dansa með, dansa í kringum gullkálfinn, dansa þjóðina norður og niður. Þeir örfáu sem ekki fengust til þess voru kallaðir gleðispillar og brennimerktir sem slíkir !

 

En þessháttar gleðispilla var ekki að finna í bankakerfinu og ekki í neinum sérstökum valdastöðum, enda enn með vott af almennri skynsemi og sæmilega heilbrigðir til höfuðsins. Það eitt útilokaði þá sem þátttakendur í veislu fjármálalífsins, þar réði bara sú tilskipun að ofan – dansaðu með...

Og burt með þá sem vildu ekki taka þátt í veisluhöldunum !

 

Þeir sem stjórnuðu gleðinni og dansinum voru nefnilega háttsettir og valdamiklir menn, kviðmiklir og kærulausir, dæmigerðir íslenskir fjármálasnillingar þess tíma. En dansinn sem þeir leiddu, dró þjóðina út á ystu brún þess hengiflugs, sem síðan hefur verið talinn hugsanlegur ógæfuendir okkar þjóðlegu tilvistar því lítið höfum við lært. Og enn er sagt : Dansaðu með !

 

Af hverju skyldu dýralæknar verða að lykilmönnum í stjórnmálum landsins ? Er það vegna þess að þeir teljast kunna öðrum betur á húsdýrin, skepnurnar – fólkið í landinu, eða hvað veldur ?

 

Af hverju dansa yfirlýst og gráðum prýdd gáfnaljós úr háskólum með hverri vitleysu sem upp kemur ? Ættu þau ekki að vita betur ? Taldi ekki gáfnahausinn mikli, forseti landsins, að Íslendingar myndu leggja undir sig heiminn fjármálalega séð ?

 

,, You Ain´t Seen Nothing Yet !” sagði mikilmenni smáþjóðarinnar fram í gegnum nefið, með kokhreysti á fyrirhrunsárunum. Hann sá enga hættu, bjargaði ekki neinu, en dansaði með fram á síðustu stund !

 

Og forsætisráðherrann, eins menntaður í efnahags-fræðum og mögulega unnt var að vera í gegnum æðri skóla, sat skjálfandi á örlagabekknum og vissi ekkert hvað gera skyldi, eins og meintur meistari hans komst að orði !

 

Hann bað bara Guð að blessa þjóð sem var sokkin á kaf í fjármálavíti Mammons, og var leidd þangað af bönkum og fjármálastofnunum sem dönsuðu alla dómgreind norður og niður. Engin blessun getur verið í boði við slíkar aðstæður – aðeins bölvun !

 

Af hverju erum við, fólkið í landinu, aldrei í þeirri stöðu að geta haft verulega hæft fólk á öryggisvakt þjóðarinnar ? Af hverju erum við stöðugt í stórhættu vegna flónsku og mistaka þessa liðs ?

 

Er algert rof komið á milli menntunar og getu, er hæfnin engin þegar á hólminn er komið ? Hverskonar skólakerfi erum við komin með ? Hverskonar menntun fá menn eiginlega í dag ?

 

Er það eina sem krafist er nú til dags – að fólk dansi með hverri vitleysu sem upp kemur ? Er ekki kominn tími til að hætta slíkum dansi ?

 

Þurfum við ekki að fara að endurskoða býsna margt, ef við ætlum að halda hér uppi sæmilega siðuðu samfélagi til framtíðar ?


Siðspilling valdhrokans !

 

 

 

,,Ljót og móti lögum öll

lýðræðis var fórnin.

Á nú þing við Austurvöll

umboðsvafa-stjórnin !”

 

Framkvæmdavaldið hefur á liðnum árum jafnt og þétt gengið á rétt löggjafarvaldsins og gert sjálfstæði þess að engu og nú er svo komið að það er farið að sporðrenna heilu þingi eins og ekkert sé !

 

Jafnvel þeir menn innan stjórnarliðsins sem hafa verið taldir öðrum skárri, virðast ekki sjá neitt athugavert við það hvernig skilist var við síðustu kosningar. Það er sárt að sjá hvernig valdaspillingin fer með menn !

 

Nefndin sem átti sýnilega bara að kasta ryki í augu almennings, mun hafa lokið sínu verki í samræmi við það sem ætlast var til af henni.

Hún var látin vera ,, að störfum” þangað til málin róuðust, en aldrei var efi um það hver hennar niðurstaða yrði. Það er sjálfu sér mikið umhugsunarefni hvernig haldið hefur verið á málum !

 

Maður sá sem var formaður þeirrar nefndar er nú forseti alþingis og sú staðreynd er líklega vottur þess að hann hafi þótt standa sig vel í mjög svo vandasömu starfi - að áliti stjórnarmeirihlutans !

 

En eru menn orðnir svona samdauna pólitískum spillingaraðgerðum gagnvart lýðræðislegum gildum, að þeir sjá ekki brotin sem verið er að fremja – eða hvað veldur ?

 

Og það má gjarnan halda því til haga, að hér er verið að tala um þá menn sem helst hefði verið hægt að vænta skilnings frá í þessum efnum. Hinir sem verri menn hafa þótt, hafa náttúrulega verið glataðir í þessu sem öðru !

 

Er það ekki ömurlegt að hugsa til þess að til þess að réttlát málsmeðferð sé virt og geti fengist á Íslandi verður að senda málin til erlends dómsvalds !

 

Hvar er stolt Íslendinga þegar þannig er staðið að málum ? Þegar troðið er á þeim gildum sem öll okkar helstu gögn vitna um sem sannhelg, þjóðleg réttindi ? Erum við þá bara eins og hundar sem snúa aftur til spýju sinnar ?

 

Síðustu kosningar voru eyðilagðar sem sá réttindagjafi sem þær áttu að verða og hefðu átt að vera. Óhæfir vörslumenn kjörgagna settu vafastimpil á allt ferlið. En þeir sem áttu að sjá mistökin og vita hver var eina leiðin til að leiðrétta þau og höfðu völdin til þess, reyndust þó verri þegar til kom.

 

Þeir misbuðu lýðræðisgildum okkar og létu fylgismenn sína á þingi samþykkja niðurskurð á þeim með þeim hætti sem er hrein svívirða.

Kosningarnar 2021 geta því aldrei orðið viðurkenndar sem eðlilegur gjörningur í heilbrigðu lýðræðisríki !

 

Eina vonin um leiðréttingu á því stjórnarfarslega ofbeldi sem átt hefur sér stað, er sem fyrr segir, bundin við erlent dómsvald. Íslenskt dómsvald er ekki fært um að koma þar nærri. Það hefur ekkert traust til þess meðal þjóðarinnar og síst á meðal þeirra aðila sem láta sig málið mest varða !

 

Svo enn einu sinni verðum við að fara með réttlætismál okkar út úr landinu til að þau geti verið dæmd af dómstóli sem gengið er útfrá að muni heiðra ærleg gildi.

 

Allt ferli af slíku tagi virðist orðið vafa bundið hérlendis og í klóm illskeytts framkvæmdavalds sem virðist í stöðugt auknum mæli vera farið að telja sig ofar lögum landsins !

 

Við búum nú á Íslandi við umboðsvafa-ríkisstjórn ! Það er óholl staða fyrir þjóðina og það lýðræði sem öllum borgurum hér átti og á að vera skylt að verja og halda uppi. Slík staða mála mun hefna sín héðan í frá !

 

Það er okkur þjóðlega séð til skammar og sér í lagi illskeyttu framkvæmdavaldinu, að ekki skuli vera hægt að fá neina leiðréttingu réttlætismála hér innanlands. Engin lýðræðisþjóð ætti að þurfa að búa við slíkt og láta slíku forsmán yfir sig ganga !

 

Hvar er þjóðin sem hreykti sér lengi af því að einu sinni var sagt hér á alræmdu kúgunarþingi : ,, Vér mótmælum allir !” ?

 

 


Bragur um sullumbull og svínarí !

 

 

Margt á vondu málin knýr,

meina farsótt eitri spýr.

Orðstír víða reiknast rýr,

riðlast gömlu völdin.

Unnin spjöll í grófum gír

greinast eftir skipti dýr.

Þrátt eru óhrein ævintýr

iðkuð bak við tjöldin !

 

Ekki er veröld vonarhlý,

váleg rísa þrumuský,

kvenfjandsamlegt KSÍ

kórónuna missir.

Breytni slæm og hopp og hí

hrekur friðinn enn á ný.

Margur út um borg og bý

beygður vöndinn kyssir !

 

Nú skulu ekki gefin grið,

gengið á hólm við misréttið.

Krafti búið kvenna lið

kuta fer að brýna.

Karlrembunnar kosin svið

kikna öll og falla við.

Þar hafa ýmsir undir kvið

alla hugsun sína !

 

Heiftin býr til hatursleið,

hrist þá eru spjótin breið.

Sumir brjóta sérhvern Eið,

sveifla vígabröndum.

Fjörs á velli fram í deyð

fjötrast málin kvöl og neyð.

Fást þá engin ferli greið,

fyllist allt af Vöndum !

 

Konur berja körlum á,

karlar fátt með réttu sjá.

Flest er þrungið verstu vá,

vantar allan bata.

Samfélagið sönsum frá

siglir undir feigðarspá.

Fjármál þjóðar fálkablá

frjálsum kostum glata !

 

Undir fölskum ytri glans

enn sér leikur blindur fans,

samviska þar sérhvers manns

svíkur æru haginn.

Stunda menn þar dáradans,

dauf er glóran innanlands.

Svo fer allt til andskotans

eins og fyrri daginn !

RK


ValdaGráðuga hreyfingin !

 

 

Nú er það væntanlega orðið flestum ljóst að þriðji stjórnarflokkurinn, sá litli, er tilbúinn að fórna öllu fyrir stóla og stöður. Þannig hefur hann haldið á málum síðustu fjögur árin og ætlar að bæta þar fjórum við !

 

Og sú tækifærissinnaða framganga sem VG hefur stundað þann tíma, mun hafa það í för með sér að flokkurinn mun verða minni og minni, eins og Alþýðuflokkurinn þegar hann þjónaði sem mest undir íhaldið. Það er eins og flokkurinn sé í gíslingu hjá auðvaldi landsins. Sporin ættu að hræða, en blindnin ræður !

 

Stefán Jóhann fékk að vera forsætisráðherra á sínum tíma á líkum forsendum og Kata nú. Þar er sannarlega leiðum að líkjast. Sjá má að flokkur Skallagríms er á feigðarbraut og það ber síst að harma.

Hann er genginn inn á fyrrum þjónustubraut krata við íhaldið !

 

Allar vinstri hugsjónir og öll félagshyggjusjónarmið hafa verið svikin af þessum heillum horfna flokki og lagðar á Mammons altari kapitalismans undir æðstaprests þjónustu Bjarna Ben !

 

Öllu skal spilað út og suður, svo að Kata fái að vera áfram forsætisráðherra. Það er enn agnið sem út er sett og bitið er á !

 

Ömurlegt er að horfa upp á það hvernig fámenn og valdagráðug flokkselíta getur ekki aðeins eyðilagt starf þúsunda í þessu landi heldur einnig misnotað það að vild. Ekki verða eftirmælin góð !

 

Gengið er til bandalags við samsteypu sem inniheldur nánast allt auðvald landsins. Þetta er því líkast sem ónefndur aðili drægi sig til hliðar tímabundið á sínum stað og léti einhvern í ljósengils líki koma í staðinn til að blekkja og afvegaleiða !

 

Það hefði einhverntíma þótt skrítin latína að meintur vinstri leiðtogi tryggði íhaldinu algjör ráð yfir ríkisfjármálunum árum saman. Enda er þjónustan þar í þeim anda sem aldrei getur orðið almenningsvænn. Samt er þjónað og þjónað undir sérgæskuna. Og íhaldspúkarnir fitna á fjósbitunum um allt land !

 

En Kata krónprinsessa svífur í draumi kringum stólinn sinn og sér ekki hvað er að gerast, hvað þá elítuhirðin í kringum hana. Þetta er ekki fólk sem er að vinna að vinstri hugsjónum og félagshyggju, þetta er þvert á móti fólk sem er að eyðileggja vinstri hugsjónir og félagshyggju. Það á eftir að sannast enn betur en orðið er !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 202
  • Sl. viku: 1030
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 903
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband