Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021

Göngum sjálfstæðir til framtíðar !

 

 

Skagstrendingar ! Nú nálgast sú stund að okkur verði boðið að verða íbúar í hinni uppteiknuðu, ríkiskapitalísku og suður-sameinuðu Blönduóss-byggð ! Það er ekki slorlegt – eða hvað ?

 

Einhverntíma sagði víst einhver hér á Skagaströnd, í vonbrigðum yfir lélegu stundargengi, að Skagstrendingar hugsuðu ekki um neitt nema slor ! Það er auðvitað nokkuð mikið sagt með því og náttúrulega er staðhæfingin ekki rétt, en hvað er annars að því að stunda sjóinn ?

 

Hafið gefur enn sem fyrr og víðasthvar yrði menningarblóminn í landinu líklega heldur smár að vöxtum ef ekki væri róið til fiskjar !

 

Hvert gat fólkið farið þegar sveitirnar voru orðnar yfirfullar og hokrað var á óbyggilegum heiðakotum út um allt land við óbærileg skilyrði ? Auðvitað út að sjónum, þar var bjargræðið og þar er bjargræðið enn !

 

Hvað er ríkisloppan að skipta sér af okkar frelsi til lífs og athafna ? Af hverju megum við ekki fá að lifa í friði í okkar byggðarlagi og af hverju eigum við að fara að axla skuldabagga sem eru ekki okkar ?

 

Þó að við höfum óneitanlega búið við skaðlegt forustuleysi í allt of langan tíma hér á Skagaströnd, megum við ekki gefa okkur að svo verði um alla framtíð !

 

Það eru ekki minni möguleikar á samfélagslegri framfarasókn hér en víða annars staðar, en það vantaði hinsvegar lengstum forustumenn sem gátu séð einhverja möguleika til ávinnings, utan við sinn persónulega hag. Það er leyndarmál sem allir vita !

 

Sjálfsagt er að hafa víðtækt samstarf við nágranna sveitarfélögin um öll helstu hagsmunamál byggðanna, en við þurfum samt ekki að láta éta okkur út úr eigin tilveru !

 

Áróðursgyllingar um aukna þjónustu og fjárframlög frá ríkinu hafa löngum reynst innistæðulítil loforð. Það munu þeir finna sem glepjast vilja af slíku tali sem er ekkert annað en lýðskrum !

 

Látum ekki yfirtaka okkur !

 

Það í ljósi sönnu sést,

sjá má það og skilja,

að sjálfstæð dafnar byggðin best,

bundin heimavilja !

 

 

 


Að missa forræði yfir eigin málum ???

 

 

Nú stefnir í að staða Skagastrandar verði ákveðin til frambúðar í því miðstýrða fyrirkomulagi sem ákveðið virðist hafa verið syðra. Lýðræðisleg sameining skal það víst heita samkvæmt plönunum, en það er eins gott að fólk kjósi rétt svo refsihönd fyrirgreiðsluleysisins falli ekki á það og kýli það niður. Val er ekki alltaf val þó það eigi að heita svo !


Fólk getur nefnilega líka orðið fyrir því að verða eins og höfn sem er opin í öfugan enda, því ráðsmennskan fyrir sunnan er æði oft öfug líka !


Að minnsta kosti er orðið vel ljóst eftir síðustu þrjá áratugina, að það er engin raunveruleg byggðastefna í gangi. Allt er miðað við borgríkið og við erum hætt að vera þjóðríki, enda æðir auðvaldsstefnan yfir allt !


En er það ekki skrítið, að það sem allt miðast við - Reykjavík, virðist ekki vera nein sérstök heimilisdásemd, því strax og vinnu er lokið á föstudögum, æðir stór hluti íbúanna upp í Borgarfjörð eða austur fyrir fjall í helgar-afslöppun. Það er aðeins hægt að slaka á í sumarbústöðunum – ekki heima. Reykjavík er bara staðurinn þar sem fólk aflar peninganna !


Einhverntíma var sagt að orðtakið – Heima er bezt – væri rétta forskriftin að góðu lífi, en eftir að heimilin hættu að vera skjól fjölskyldunnar og urðu aðeins stoppistöð til að skipta um föt eða sofa blánóttina, er sú stefna úr sögunni. Hún er líka sögð gamaldags eins og allt annað sem ætti að teljast gott og gilt !


Á landsbyggðinni þarf nú, samkvæmt ríkiskastala kenningunni, að byggja upp nokkrar meginstöðvar skrifstofuhalds og stjórnunar, svo auðveldara sé að eiga við þessar fáu hræður sem þar búa. Þessvegna þarf að sameina og sameina úti á landi, en ekki í óðaþéttbýlinu syðra, þar mega smákóngarnir valsa um og vera sjálfstæðir, eins og totubúarnir á Seltjarnarnesinu !


Í austur Húnavatnssýslu er fyrirséð að þessi sameining ef af verður, mun gagnast stærsta þéttbýlisstaðnum fyrst og fremst, því þar verður þá stjórnsýsluhöllin í umdæminu og pappírsflóðið sjálfsagt eftir því. Þá verður líklega til sannkölluð Eyðublaðabraut inn á Blönduós !


Þeir sem geta aðeins séð Sveitarfélagið Skagaströnd sem viðhengi við eitthvað annað og meira, fara auðvitað hlýðnu leiðina og fylgja í því hugarfari sínu. Gætu þessvegna endað í Brussel í einhverskonar samfylkingarlegu framhaldi málanna. En aðrir kunna að hugsa til orða Jóns Loftssonar forðum er hann mælti: ,, Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu ! ”


Skrifræðisvald ríkisbáknsins er alltaf að klóra utan í mannfrelsið og setja því auknar skorður. Það er ekki af því góða og þörf að vera á verði gegn slíku framferði nú og eftirleiðis. Lýðræði er auðvitað fyrst og fremst sú stefna, að fólk hafi raunverulegt frelsi til að velja hvert það vilji fara, að það sé ekki undir neinum þvingunarráðstöfunum varðandi val um leiðir til framtíðar, að sameinaður vilji þess nái fram að ganga !


Megi svo jafnan vera í landinu okkar að stjórnarfarið einkennist af frjálsu lýðræði en ekki baktjaldabundnu haftakerfi, sem á eingöngu að þjóna kerfislímdum sérgæskuöflum sem ekkert eiga skylt við almenna velferð !


Kjósum ávallt með almennu lýðfrelsi en ekki aukinni kerfisbindingu !



Mannblót

 

 

Hvað má segja um eigin ævi

írskur snáði hertekinn ?

Strax í skipi á svölum sævi

sá ég fyrir dauða minn.

 

Ég var þræll og frelsi firrtur,

fékk að reyna þraut og stríð.

Allar stundir einskis virtur,

allt mitt líf var kvalatíð.

 

Stöðug þrælkun stakk og særði,

steig ég hvergi vonarskref.

Þrautagangan táp mitt tærði,

tíminn óf mér sáran vef.

 

Stundum grét ég eins og ærður,

ekkert gafst sem líknar stoð.

Loks var ég til fórnar færður

fyrir blóðþyrst heiðin goð.

 

Illa mér þau örlög féllu,

engin vægðin bauðst mér þó.

Dreginn ber að beittri hellu,

brjóst mitt eggin sundur hjó.

 

Blæddi mér þar út og enginn

áleit neitt til vansa þar.

Enginn hirti um unga drenginn

er þar saklaus drepinn var.

 

Stökkt var mínu blóði úr bolla,

bölvuð goðin fengu sitt.

Þeim var gefið hlautið holla,

hjartasærða lífið mitt.

 

Glæpur sá um víddir vega

var í öllu mennsku hrap.

Heiðindómsins hryllilega

hrollvekja mig kvaldi og drap.

 

Von að góðar vættir hljóðni

við þá siði er harma ber.

Þó var mörgum Þór og Óðni

þannig fórnað eins og mér.

 

Hvergi slíkum buðust bjargir,

botnlaust var hið heiðna dramb.

Enda varð ég eins og margir

illra siða fórnarlamb.

 

Bið ég þess frá öld til aldar

oft þó röddin mín sé veik,

að aldrei slíkar vítis valdar

venjur ráði á nýjan leik.

                         

                           Rúnar Kristjánsson fecit


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 42
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 1072
  • Frá upphafi: 309964

Annað

  • Innlit í dag: 40
  • Innlit sl. viku: 943
  • Gestir í dag: 39
  • IP-tölur í dag: 39

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband