Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2022

Er endurhervæðing Þýskalands að hefjast ?

 

 

 

Þjóðverjar hafa lengi farið sér hægt í allri hervæðingu og skýringin hefur verið afskaplega augljós. Fortíðar-arfurinn í þeim efnum er langt frá því að vera góður. Engin þjóð Evrópu hefur leitt aðrar eins hörmungar yfir álfuna og þýska þjóðin og þau forustuöfl sem hún bjó við í einni tíð og kaus yfir sig !

 

En nú bendir margt til þess að þýsk stjórnvöld séu reiðubúin til að nota Úkraínustríðið sem tækifæri til vígbúnaðar og aukinnar hernaðarhyggju. Ef svo reynist, felst í því mikil breyting á þýskri utanríkisstefnu og sú breyting spáir illu fyrir komandi tíð !

 

Þýsk hervæðing er nefnilega nokkuð sem getur með afgerandi hætti pumpað upp sérstaka hrollvekju í Evrópu og endurvakið minningar um sögu sem er svo ólýsanlega ljót að þess eru fá dæmi í allri sögu mannkynsins !

 

Þeir hljóta því að vera fáir, að minnsta kosti utan Þýskalands, sem óska eftir endurtekningu á einhverri slíkri martraðar martröð eins og heimurinn fékk að kynnast á árunum 1933 - 1945, í sjálfri höfuðálfu hinnar ætluðu æðstu menningar !

 

Óþokkar eins og Quisling, Antonescu, Laval, Pavelitsj og þeirra líkar munu að vísu ennþá til víða um lönd, en slíkir komast ólíklega til valda nema fyrir atbeina einhvers utanaðkomandi valds sem gengur að fullu fyrir innspýtingu illskunnar eins og Andkristur sjálfur. En kannski fer að koma tími fyrir þann höfuðóvin mennskunnar að birtast á sviðinu ?

 

Endurhervæðing Þýskalands ef til kemur, verður tákn um kaflaskil í sögunni og undirstrikar enn frekar að litlir friðartímar séu framundan. Ef þýski örninn fer að fljúga á ný um evrópskar lendur, í krafti yfirtekins þýsks efnahagsbandalags og stóraukins herstyrks, munu margir fá að finna fyrir því á komandi árum !

 

Engin þjóð Evrópu hefur sokkið dýpra í ómanneskjulegt stjórnarfar en Þjóðverjar á framangreindum árum. Menn eiga enn erfitt með að skilja hvernig slíkt gat gerst með eina hæfileikamestu þjóð heimsins. Hverskonar vitfirring var þar eiginlega í gangi ?

 

Að standa frammi fyrir því að þjóðin sem gaf heiminum Göethe, Schiller, Beethoven, Schweitzer og mörg önnur andleg stórmenni, skuli hafa fallið fram og tilbeðið einn versta óþokka sögunnar sem braut niður öll góð gildi og dró þjóðina að lokum langleiðina niður í helvíti sálarlausrar ómennsku, er þyngra en nokkrum tárum taki !

 

Að þýska þjóðin skyldi kjósa Hitler yfir sig og lúta valdi hans á annan áratug, sama hvað hann gerði, horfa á hann byggja upp herafla landsins, ekki til varnar, heldur til árásarstríðs á nágrannalöndin og fagna öllum hans glæpum árum saman. Það er ein ægilegasta staðreynd sögunnar og skilur eftir sig í hugum milljóna manna óafmáanlegan blett á þeirri þjóð sem laut svo ótrúlega lágt !

 

Og nú virðast skuggaöfl Þýskalands vera að taka við sér aftur. Nú finnst þeim sennilega kominn tími til að koma gömlum fyrirætlunum fram. En endurhervæðing Þýskalands er ógn við allan frið í Evrópu og heimsfriðinn um leið. Þegar Þýskaland fer að ánetjast hernaðarhyggju á ný og magna upp slíka strauma mega menn vita að fjandinn er laus !

 

 


Um baráttuna gegn blóðsugunum !

 

 

Það hefur alltaf verið vitað að alþýðuvald er ekki hátt metið af þeim sem standa til hægri í pólitík og gangast fyrir sérhagsmunum. Í gegnum alla sögu verkalýðsbaráttunnar frá fyrstu tíð hefur þurft að berjast við öfl sem vildu aldrei að venjulegt fólk sæi til sólar í sínu lífi og svo er enn !

 

Arðránsöfl sem lifa á blóði og svita alþýðu manna eru því enn til og munu verða til meðan sérgæska og eigingirni stjórna einstaklingum. Þeir eru því miður margir sem vilja njóta ávaxtanna af ómældu erfiði annarra !

 

Forustumenn verkalýðsins og hins almenna mannfrelsis þurfa því ætíð að vera vel á verði. Óheilindi geta víða verið fyrir hendi í almennu félagsstarfi, ekki síst innan fjöldahreyfinga, og mörg tilboð geta komið þar fram sem freista lítilsigldra manna til að svíkja það sem þeir ættu öllu heldur að heiðra !

 

Sumir eru þannig gerðir að þeim hugnast bara að fá að éta beinin sem hrökkva af borðum hinna ríku. Þar ræður skriðdýrs-eðlið öllu !

 

Hið gamla sérhagsmunavald er enganveginn dautt. Það rís alltaf aftur á legg með mútum og mannlífsspillingu eins og forðum og vill alla heilbrigða samfélags-framþróun feiga. Baráttan við það illa vald mun halda áfram því það verður seint alsigrað. Það mun leynast áfram í eðli þeirra manna sem meta allt til verðs og lifa sjálfum sér í öllu og alltaf til skammar !

 

Hægri öfl Íslands eru ekki betri en samsvarandi öfl erlendis. Nú er farið að reyna af þeirra hálfu að grafa undan áunnum réttindum almennra launþega með lagasetningum á þingi. Réttindi sem áunnin voru fyrr á tíð með mikilli baráttu, eiga nú að strokast út svo auðvaldið eigi auðveldara um vik með að kúga og undiroka !

 

Látum slíkt aldrei ná fram að ganga. Höldum vörð um áunnin réttindi okkar og vísum arðránsöflunum á bug. Þau hafa aldrei staðið fyrir neinu góðu fyrir alþýðu manna og ekki eru þau betri í dag en þau voru. Allt sem kemur úr helvíti þeirra hugarfarsafla stendur á móti heilbrigðum gildum og allri velmegun almennings !

 

Sumir einstaklingar, bæði hér á landi sem og erlendis, eru sýnilega að innréttingu til þannig gerðir, að þeir eru miklu nær því að vera djöflar en menn. Látum slíka aðila aldrei aftur ráða ferðinni varðandi lífskjör þau sem við eigum að búa við. Stöndum í gegn blóðsugunum !


Svíar í sjóðheitri súpu sjálfskaparvítisins !

 

 

 

 

Vegna hinna afdrifaríku mistaka sænskra stjórnvalda á síðustu áratugum varðandi galopna og kolranga innflytjendapólitík, þar sem umföðmuð hefur verið hin nánast óframkvæmanlega fjölmenningarstefna, er Svíþjóð á kafi í djúpum skít !

 

Ekkert stjórnvald hefur hingað til ráðið við vandann sem búinn hefur verið til í kringum fjölmenningardrauminn og rétt-hugsunarstefnuna sem ríkt hefur. Sá vandi var sjálfskapaður af sænskum yfir-völdum með blindri tilbeiðslu þeirra á skaðvænustu skurðgoð þroskavillu og þjóð-menningarleysis !

 

Nú er hinsvegar meiningin að gera alvarlega tilraun til þess að sigrast á þessu sívaxandi átumeini sænska þjóðfélagsins. Hin nýja stjórn ætlar nú að taka sitt reynslupróf sem varnaraðili fyrir framtíðarfriði sænsku þjóðarinnar og vonandi veit hún að hún þarf að taka til hendinni. Nú þurfa nefnilega verkin að tala !

 

Úrræðalaus sænsk stjórnvöld voru – eins og vitað er - orðin svo örvæntingarfull vegna ástandsins í landinu, að þau töldu sig verða að sækja um aðild að Nató til þess að Svíar vöknuðu ekki upp við það einn morguninn að landinu þeirra hefði verið endanlega stolið frá þeim, ekki utanlands frá, nei, nei, heldur innanlands frá . Ógnin sem steðjar að Svíþjóð er fyrst og síðast heimatilbúið klúður !

 

Lögleysið fer nefnilega núorðið hamförum í landinu og margir Svíar þora varla um þvert hús að ganga í borgum landsins fyrir alls kyns vandræðalýð sem veður uppi með ofbeldi og yfirgangi og ætlar allt að drepa. Aðrir landsmenn hneigjast af þeim sökum til ábyrgðarlausrar öfgastefnu og vilja hreinsa sitt land af margra ára uppsafnaðri óværu, sem skapast hefur fyrir tilverknað stjórnvalda !

 

Allar fyrri ríkisstjórnir landsins, vinstri og hægri, hafa skitið á sig varðandi vandann og grafið höfuð, sem hugsaði lítið af viti, í sand. Nú eru drepnir fleiri menn með byssukúlum í Svíþjóð en í nokkru öðru landi Evrópu þar sem ekki er stríð. Það hefðu einhvern tíma þótt mikil tíðindi frá þessu fyrrum friðsæla landi, en nú eru manndráp þar nánast að verða daglegt brauð !

 

Fjölmenningarhræran í Svíþjóð hefur mistekist með öllu eins og búast mátti við og alls konar glæpaöfl virðast leika þar lausum hala. Hin ætlaða Paradísarheimt sósíaldemókrata, um meint framtíðarheimili friðarins og ríki réttlætisins hefur breyst í martröð og hrylling og kostað æðimarga lífið !

 

Þó segja megi að svokallaðir jafnaðarmenn hafi farið fyrir í allri rétthugsunarkröfu vitleysunnar, hafa öll stjórnmálaöfl landsins samt verið meðsek í þeirri rugluðu stefnu sem hefur verið fylgt og nú verður að fara að vinda ofan af henni og taka upp ábyrgari og dómgreindarlegri stjórnarhætti !

 

Verulega verður að lækka tölu innflytjenda og fara í saumana á því hvort ekki verði jafnframt að vísa heilu vandræðahópunum úr landi. Ásýnd Svíþjóðar frá fyrri tímum friðar og samstöðu er stórlöskuð eftir hið stanslausa og stórvillta fjölmenningar-fyllerí undanfarinna ára !

 

Norðurlöndin öll verða af læra af þessu harðvítuga hryllings-ástandi í Svíþjóð og standa saman í því að koma málum sínum í betra horf. Það er löngu orðið tímabært og nú algjör nauðsyn. Norræna velferðar-stefnan er þegar í bráðri hættu !

 

Lögreglan í Svíþjóð virðist hreint ekki ráða við ástandið, sænski herinn gerir það kannski ekki heldur. Þarna er því líklega verðugt verkefni fyrir Nato að tryggja innanlandsfriðinn, því ,,hernaðar-bandalag er auðvitað alltaf í því á fullu að tryggja frið“ - eða þannig, og í Svíþjóð er ærin þörf á því að verja nýtt aðildarland bandalagsins fyrir – já, fyrir hverju, - fyrir eigin heimskupörum !


Að níðast á eigin þjóð !

 

 

Íslensk stjórnvöld hafa nánast aldrei verið með þeim hætti að þau hafi verðskuldað mikla virðingu eigin þjóðar. Það er vægast sagt ömurleg staðreynd. Flestar ríkisstjórnir landsins hafa alltaf þjónað efsta lagi samfélags-pýramídans, þeim allra ríkustu og ágengustu, eins og mögulega hefur verið hægt. Afkoma þjóðarbúsins á hverjum tíma hefur verið látin taka mið af þörfum þeirra og ítrustu kröfum, allri almannaheill til sárustu bölvunar !

 

Allt hefur verið gert til að halda auðlindum þjóðarinnar sem mest frá henni og spila þeim í hendur sérgæskunnar. Það hefur alla tíð vitnað um það hversu forspillt valdstjórnin er og hvað Mammons-valdið virðist hafa heltekið hverja sál þar á bæ. Þegar svo er komið virðast menn komnir meira en hálfa leið til helvítis !

 

Af þessum sökum eru velferðar og aðhlynningarmál samfélagsins mörg hver í uppnámi. Ýmsir innviðir eru farnir að bresta og þeir sem hallast standa fá að finna fyrir því. Ekkert stjórnvald er að sinna þeim. Geðsjúkir ráfa um götur og langveikt fólk er í einskis manns landi. Öll fyrirgreiðsla kerfisins virðist miðast við þarfir hinna ,,þurftarmiklu“ og ríku !

 

Eitt sinn sagði siðblindur forstjóri ergilega, þegar talað var um hvernig nota bæri skattpening og einhver sagði að þá þyrfti að nota í þágu fólksins : ,, Fólkinu kemur ekkert við hvað gert er við þessa peninga !“ Meiningin var auðvitað að þeir ættu að nýtast honum og hans líkum, eins og alltaf hafði tíðkast hjá úrkynjuðu yfirstéttarvaldinu !

 

Íslenskir stjórnmálamenn, einkum þó á tímanum eftir lýðveldis-stofnunina,hafa oftast og yfirleitt verið lítilla sæva og sanda. Þó er það mín skoðun, að aldrei hafi ríkisstjórn og alþingi verið jafn illa skipað hvað hæfni varðar og nú. Þar eru úlfshalar einir á króki í dag því um mannval er ekki að ræða !

 

Hversvegna er þetta svona ? Hversvegna virðist hollusta sumra íslenskra ráðamanna vera úti í Brussel eða hjá Nató eða vestur í Vostúni ? Hvað veldur því að maður getur ekki borið virðingu fyrir einum eða neinum úr þessum hópi sem kallast ráðamannalið Íslands nú til dags ? Manni finnst það lið allt orðið samruglað. Svo sannarlega vildi ég geta virt það og geta jafnframt treyst því að hagsmunir lands og þjóðar séu í góðum höndum !

 

En slíku er því miður ekki að heilsa. Snautleg meðalmennskan, íklædd geldum og grátlega innantómum lærdómsgráðum er við völd. Ferilskráin virðist skipta öllu hjá því liði sem situr í valdastólunum. Það er engin hugsjón í gangi þar, engin þjóðrækni eða nokkur manndómsmynd. Slíkt forustulið sem við búum við myndi víða vera kallað hyski og í mínum augum virðist það vera raunin. Allt verður sem löngum fyrr Íslands óhamingju að vopni !

 

Ég skora á þá landa mína sem enn eru hugsandi, að fara yfir lýðveldistímann, og reyna að finna einhvern þjóðrækinn skörung í hópi ráðamanna okkar á þeim tíma. Ég finn engan slíkan en samt nokkra sem eru skárri en snobbhænsnin og skoffínin sem nú sólunda þjóðarauði okkar fullkomlega ábyrgðarlaust, meðal annars í sífellt fleiri flóttamenn sem innviðir okkar eru hættir að þola,botnlausan menningarhégóma og öfugar orkupakka-kröfur erlendis frá !

 

,,Íslenskur almenningur á ekki að njóta neins“, er sýnilega viðhorf hinna aumu ráðsmanna þjóðarbúsins. Siðblindir forstjórar og algerlega upphrokaðir stórútgerðarmenn, óseðjanlegir auðmenn sem vilja stöðugt meira, skulu höndla hér með allt – segir hin vélræna rödd valdakerfisins. Fólkinu, almenningi í landinu, kemur ekkert við hvað gert er við eignir þjóðarinnar. Það er boðskapur gjörspilltrar blóðsugu-klíkunnar enn sem fyrr !

 

Með þeim hætti varð kvótakerfið til. Þegar þjóðin hafði með sameinuðu átaki unnið landhelgina, var auðlindin afhent innlendu arðránsvaldi og allt svikið sem barist hafði verið fyrir til sigurs. Sigurinn í landhelgismálunum var þannig myrtur innanfrá. Og síðan hafa þau ógeðslegheit vafið um sig margföldum viðbjóði og siðblindað fullt af fólki sem lifir í vellystingum á rangfengnum kvótapeningum og virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því að það er að arðræna eigin þjóð !

 

Sérgæskumafía íslenskrar pólitíkur hafði beðið færis og hirti ávexti sigursins frá þeim sem unnu hann. Almenningur var rændur og allur sá þjófnaður á eðlilegum mannrétti var löghelgaður af harðsvíruðum drullusokkum ómennskukerfisins, innmúruðum varðhundum valdstéttar, sem er eins siðlaus og skítleg og verstu einræðis-stjórnir erlendis !

 

Slík stjórnvöld virðast telja það höfuðverkefni sitt að níðast á eigin þjóð og það hafa þau gert, að mínu áliti, allar götur frá því að Dönum var hent hér út. En að ýmsu leyti er mörgum farið að skiljast í seinni tíð - að danska stjórnvaldið var ekki verra, líklega jafnvel betra, þegar allt er meðtalið !

 

Vonandi losnum við sem fyrst við þessa ónýtu, flötu og lötu Kötustjórn, sem hefur fyrst og fremst opinberað sig sem algert prímadonnufyrirbæri fáránleikans, og náum að varna Bjarna að sitja eins og gráðugur Engeyjar-svartbakur, til enn lengri tíma, yfir ríkisfjármálunum, þjóðinni til algerrar óþurftar – að minni hyggju !

 

 


,,Hið illa og hið góða ?“

Ekkert er stöðugt í þessari veröld okkar og allra síst Sannleikurinn. Jesú Kristur sagði Ég er Sannleikurinn og Lífið og flestir hljóta að sjá að heimurinn ber Frelsaranum lítið vitni. Lygin virðist alfarið orðin undirstaða margra þjóðfélaga nútímans og hún er auðvitað breytileg frá degi til dags. Ný lygi á boðstólum hvern dag. Svo stöðugleikinn er enginn í raun því undirstaðan er svikul !

Í dag er pólitísk skilgreining Vesturlanda sú að Rússar séu vondir og verstir eins og þeir hafa reyndar alltaf verið sagðir en Úkraínumenn góðir. Á Sovéttímanum voru Úkraínumenn hinsvegar hluthafar í ,,heimsveldi hins illa”, eins og Ronald Reagan kallaði Sovétríkin, og því ekki góðir. En nú er atburðarásin búin að hvítþvo þá í augum Vesturlandabúa af allri synd eftir vondan félagsskap, en seint verður því samt neitað að þar voru þeir býsna valdamiklir lengi vel !

Því hverjir voru æðstu valdamenn Sovétríkjanna lengst af ? Yfirleitt var valdamesta embættið aðalritarastaða sovéska kommúnistaflokksins og auðvitað hljóta vondir Rússakommar að hafa gegnt því alla tíð - eða hvað ?

Nei, svo var nú ekki. Jósef Stalín gegndi því í rúm 30 ár og hann var Georgíumaður. Eftir hann, frá síðsumri 1953 til vetrarbyrjunar 1964 var Nikita Kruschev æðsti leiðtoginn en hann var Úkraínumaður. Hann notaði völd sín meðal annars til að færa Krímskagann 1954 frá Rússlandi undir forræði Úkraínu, líklega til að hygla sínu heimaríki. Afleiðingarnar af því uppátæki eru flestum kunnar. Kruschev var alltaf mikið ólíkindatól. Við af honum tók svo Leonid Brezchnev sem var toppskarfurinn frá 1964  fram í nóvember 1982, en hann var líka Úkraínumaður !

Yuri Andropov var Rússi en tórði ekki nema í rúmt ár í embættinu  ! Þá tók við Konstantin Chernenko sem var Úkraínumaður og sat við völd í rúmt ár. Mikhail Gorbachev varð þá aðalritari og var það til 24. ágúst 1991 eða í rúm 6 ár. Hann var Rússi. Síðast var svo Vladimir Ivashko í embættinu í 5 daga, en hann var Úkraínumaður !

Svo hvað segir þetta okkur ? Að ,,heimsveldi hins illa” hafi verið undir forræði Úkraínumanna í full 30 ár og ríflega önnur 30 ár undir Georgíumanni. Af þeim 69 árum sem Sovétríkin voru við lýði var æðsti valdsmaður þeirra rússneskur að þjóðerni í aðeins rúm 7 ár eða svo. Það er því mikil spurning hverjir hafi alltaf verið verstir í hópi hinna verstu ?

Hið illa er til staðar í mörgum öðrum ríkjum heimsins þó Reagan talaði eins og hann gerði. Bandaríkin sjálf eru ekki sísta dæmið um það. Og ef við ættum að dæma um Reagan sjálfan og þann mann sem hann fékkst við í hanaslag risaveldanna, Rússann Mikhail Gorbachev, þá myndi ég hiklaust telja þann síðarnefnda hafa verið betri mann og það munu fleiri gera !

Við skulum því fara varlega í það að mála allt í hvítu og svörtu. Það sem ætlað er hvítt er aldrei svo hvítt sem menn ætla og það svarta er aldrei eins svart og menn ætla !

Lygin málar yfirleitt með þessum litum og hún virðist því miður stjórna stórum hluta af heiminum, en við megum samt aldrei gleyma því að henni er ekki treystandi til að gera neitt rétt þó margir veiti henni brautargengi, og það engu síður í vestri en austri !


Um stríðsglæpi í vitfirrtri veröld !

Það hefur löngum verið vitað, að svokallaðir stríðsglæpir og ásakanir um stríðsglæpi eru meiriháttar vopn í áróðursmálum þegar ófriður er í gangi. Þó er eins og þyki minna um það vert ef verið er að fremja stríðsglæpi í Afríku eða austur í Asíu, eða jafnvel í Suður Ameríku. Eiginlega gæti maður stundum haldið að alls staðar mætti fremja stríðsglæpi nema í Evrópu – hinni goðumbornu heimsálfu vestrænnar menningar !

Og fréttaflutningur af nútímaviðburðum er oft alveg furðulegur og ekki í takt við neitt af því sem er þó raunveruleg framvinda. Tékknesk fréttaumsögn tiltók nýlega að stríðsglæpir væru alveg óásættanlegir á 21. öldinni... Bíðum við, voru þeir ásættanlegir áður og hvað hefur þá breyst ?

Er fólk betra nú, skynsamara, kærleiksríkara eða hvað ? Auðvitað hefur ekkert breyst, hvorki í almennu mannlífi eða stríði. Sami skepnuskapurinn og áður þekktist er alls staðar til staðar enn og þjóðir heims hafa ekkert lært af fyrri styrjöldum og þeim viðbjóði sem hrópar til himins hvern dag !

Það er hinsvegar alveg ljóst að stríðsglæpir eru óásættanlegir hvernig sem á málið er litið. En því má heldur ekki gleyma að stríð er í allflestum tilvikum glæpur í sjálfu sér og glæpur elur af sér glæp !

Menn búa þannig til glæpsamlegar aðstæður og fremja glæpi í skjóli þeirra.

Sú slóð er orðin löng, Amritsar, Katynskógur, Babi Jar, Lidice, Oradour Sur Glane, Malmedy, Róm, Hiroshima, Nagasaki, My Lai, Abu Ghraib, Dasht el Leili, Ruanda, bara svo nokkuð sé nefnt. Alls staðar er skepnuskapurinn yfirþyrmandi og kolsvartur blettur á allri mennsku og svo er enn. Hin háttlofaða menntun nútímamanna bætir þar ekki eitt eða neitt !

Vladimir Putin Rússlandsforseti er áreiðanlega enginn gæðamaður, enda komast góðir menn yfirleitt ekki til valda. Það er hin manngerðin sem nær völdum, mennirnir sem svíkja og ljúga sitt á hvað og ekkert er heilagt.

Og þess ber að geta að slíka leiðtoga eru sannarlega víðar að finna en í Rússlandi og reyndar um heim allan !

En hversvegna Boris Jeltsin, ástvinur og undirlægja Vesturlanda, leiddi Vladimir Putin til valda 1999 er mörgum hulin ráðgáta, því engin rök hefðu átt að mæla með því. En Jeltsin var sjaldnast sagður ódrukkinn og kannski er það skýringin. En svo getur líka verið á hinn bóginn að hann hafi aldrei þessu vant verið ódrukkinn og það sé skýringin. Putin veitti Jeltsin nefnilega sakaruppgjöf við valdaskiptin, gegn hugsanlegum síðari tíma ákærum vegna embættisglapa, en nóg var um þau hjá Jeltsin !

En hvernig sem þau hrossakaup annars voru, er ljóst að Vesturveldin gátu ekki með nokkru móti búist við að þau gætu stjórnað Rússlandi til lengdar í gegnum strengjabrúðu eins og Boris Jeltsin. En þau virðast samt hafa haldið það lengi framan af, enda var Clintonstjórnin bandaríska þekkt að flestu öðru en glöggskyggni í utanríkismálum !

Og nú er staðan líklega þessi. Rússar hafa brugðist harkalega við til varnar ásælni þýska Evrópusambandsins til austurs og segjast til í allt ef út í það fer. Það er býsna sterk yfirlýsing og heimshættuleg sem slík. Það ætti að segja öllum deiluaðilum og öðrum að best sé að fara með gát og magna ekki upp ófriðareldana sem loga nú þegar ærið glatt !

Staðreyndin er líka sú að Bandaríkin, með gamalmenni við stjórnvölinn og nýbúin að skíta á sig upp á bak í Afghanistan, eru í raun komin í stríð við Rússa í Úkraínu. Bandarísk afskiptasemi er sem fyrr þekkt um allan heim og nú er hún jafnvel hættulegri en oft áður !

Trúir því annars einhver skyni borinn maður, að Úkraínumenn hafi kunnað þegar í stað á þessi hátæknivopn sem Nató hefur verið að moka í þá, með landið að veði fyrir borgun ? Auðvitað eru sérfræðingar frá Nató að nota þessi vopn gegn Rússum í Úkraínu og Rússar vita það áreiðanlega manna best. Átökin í landinu eru því rétt að byrja og rússneski björninn á trúlega eftir að vakna svo um munar á næstunni, ef að líkum lætur !

En vestrænar fréttastofur hafa sinn háttinn á því að skýra frá atburðum. Í hvert skipti sem fyrrnefndur Putin opnar kjaftinn, eru kallaðir til ,,algerlega óháðir aðilar” eða hitt þó heldur, til að túlka orð hans og ætlanir. Erlendis eru það til dæmis þeir Zelensky, skilgreindur sem Úkraínuforseti og Olof Scholz, meintur járnkanslari þýska Evrópusambandsins !

Hérlendis eru það aðallega Jón Ólafsson stórheimspekingur og Rússlands-sérfræðingur eftir vestrænum lögmálum, og Friðrik nokkur Jónsson, meintur langtíma innanbúðarmaður hjá Nató. Allt eru þetta líklega tilvaldir menn í hefðbundið vestrænt upplýsingastarf !

Svo menn ættu af þessu að geta séð að túlkendur orða Putins eru menn sem eru öllum hnútum mála kunnugir - frá sjónarmiði annars aðilans. En það er nú kannski ekki það eina sem ætti að gilda í málinu, ef menn eru á annað borð að leita lausna á þessum átökum. En margir telja hinsvegar að frekar sé stefnt að áframhaldandi stríði en lausnum í þessu evrópska nýlendustríði. Vopnasalar og auðhringar stefna því að auknum markaðsumsvifum á næstunni svo margir þéna trúlega vel þessa dagana !

En það er og verður lýsandi fyrir það hvernig menn hegða sér, þegar verið er að tíunda vandlega hvað mörg börn hafi kannski farist í tiltekinni eldflaugaárás - ekki til að samhryggjast - nei, nei, heldur til að koma höggi á andstæðing í stríði. Síðan loftárásir hófust sögulega séð að verulegu marki, hafa börn verið drepin af öllum stríðsaðilum. Sprengjur og eldflaugar hlífa þeim ekki frekar en öðru lífi og hafa aldrei gert !

Í stríði er maðurinn fjær mennsku en í flestu öðru. Átökin í Úkraínu sanna það að við höfum lítið sem ekkert lært af fyrri hörmungum og maðurinn stefnir enn sem fyrr til glötunar !

Hvenær ýtt verður á kjarnorkutakkana er þó ekki ljóst, en það er alveg ljóst að við færumst stöðugt nær þeim aðstæðum sem munu kalla á að það verði gert !


Andlegir krypplingar ?

 

 

Í bókinni Stefnumót í Jerúsalem segir frá því er Lydía Christensen talar við Arne Konrad, sem starfað hafði við kristniboðsstörf í Kína. Hún sagði frá sínum aðstæðum og Konrad horfði á hana með tindrandi augum og sagði: ,, Systir Christensen, Danmörk er full af andlegum krypplingum sem hafa heyrt kall Guðs, en verið hræddir við að stíga trúarskrefið. Þú skalt ekki verða einn af þeim !“

 

Þegar ég las þessi orð varð mér hugsað til stöðu mála í þessum efnum á Íslandi. Hvernig skyldi hún vera ? Hvað skyldu þessir andlegu krypplingar vera margir hérlendis ? Hvað margir skyldu hafa svikið köllun sína og farið með líf sitt í annað en Guð ætlaði þeim að gera ? Og fundið til þess síðan alla tíð að þeir hafi brugðist köllunarhlutverki sínu ?

 

Ég veit ekki svarið við þeirri spurningu, en hef það sterkt á tilfinningunni að staðan sé hér engu betri en hún var á umræddum tíma í Danmörku. Hjarta afar margra Íslendinga virðist nefnilega nú á tímum nákvæmlega vera þar sem veskið þeirra er og enginn getur þjónað tveimur herrum. Sá sem ánetjaður er Mammon getur því ekki þjónað Guði !

 

Hin venjulega mannsævi hér á jörðinni er ekki löng, jafnvel þó hún nái hinum oftnefndu 70-80 árum. Og hvað tekur þá við ? Flestir eru þannig hugsandi að þeir búast við einhverju framhaldi lífsins, í einni eða annarri mynd. Og í því sambandi verður mér á að hugsa, en hvað með þá sem hafa komið inn í heiminn gagngert til að svara köllun sem þeir hafa svo brugðist ? Hvað bíður þeirra við hin endanlegu skil ?

 

Erum við kannski öll fædd til einhverrar köllunarskyldu í lífinu og hvernig höfum við tekið á því máli ? Skyldi sambandsleysi af okkar hálfu við Guðdóminn hafa leitt okkur afvega og komið í veg fyrir að við sinntum ætluðu lífshlutverki okkar með þeim hætti sem okkur bar ? Það skyldi þó aldrei vera svo ? Höfum við kannski öll meira og minna reynst andlegir krypplingar í samskiptum okkar við Almættið ?

 

Ég hef aðeins hitt einn mann á lífsleiðinni sem taldi allt líf búið eftir jarðlífið. Það var gagnheiðarlegur maður og virðingarverður í allan máta og einstaklega óeigingjarn. Hann var meira að segja það sem margir á þeim tíma kölluðu kommúnista. En hann er einn af bestu mönnum sem ég hef umgengist og haft samskipti við og ég verð alltaf þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast honum og lært að meta manngildi hans !

 

Ég trúi því að sá maður hljóti að eiga góða heimvon til annars lífs þó hann segðist ekki trúa því að slíkt væri í boði. Breytni hans var þannig alla tíð að hann lét annarra þarfir ganga fyrir sínum og var trúr þjónn Guðdómsins þó hann segðist ekki trúa á neinn guðdóm. Sérgæska var ekki til í hans huga, hann var sannur í öllu dagfari sínu og heill í hjarta gagnvart náunga sínum eins og allir ættu að vera !

 

Það hlýtur að vera ömurlegt hlutskipti að vera andlegur krypplingur og ganga lífsveginn á þeim forsendum. Það er því öllum nauðsyn að gera það upp við sig, eins tímanlega og þeir mögulega geta, hvaða afstöðu þeir hafa til Guðs og hvaða skyldur þeir hafa gagnvart Almættinu. Það varðar ekki bara tímanlega velferð þeirra heldur eilífa velferð þeirra og áframhaldandi líf í kærleiks-þjónustu áframhaldandi köllunar !

 

 


Heimurinn í gær !

 

 

Það er afskaplega mikill hraði á öllu í dag. Unga fólkið er svo upptekið við að skemmta sér og missa ekki af neinu, að það getur ekki á heilu sér tekið. En það er von að því liggi á – á morgun verður það líklega orðið of gamalt til að skemmta sér og annað enn yngra fólk komið í forgang !

 

Tíminn, þessi mikli ósigranlegi óvinur lífsins veður áfram sem ófreskja og spillir allri gleði og allri ásættanlegri framtíð !

 

Það fer því nístandi hrollur um unga fólkið okkar. Það sér hin voðalegu örlög fyrir sér og það nánast á næstu grösum, eftir aðeins örfá ár verður það orðið þrítugt, sem er alveg skelfileg tilhugsun, hundgamalt, hrukkótt og af sér gengið !

 

Það er sjálfsagt mikið horft í speglana, ekki síst af stúlkunum, er ásjónan í lagi ? Er einhver hrukka komin eða á leiðinni, hvernig verð ég eftir ár ? Það er örvænting í sálinni og hugurinn kvelst. Það var svo sem allt í lagi í gær, en í dag er allt ömurlegt og hvernig verður lífið á morgun ?

 

Og unga fólkið grætur augnablikið sem er að glatast, það hefur misst af ánægju gærdagsins, sá dagur er farinn og það þykist ekki sjá lengur til sólar í neinu, í allt um lykjandi sjálfsmeðaumkvun sérgæskunnar. Það er varla tími til að lifa !

 

Heimur versnandi fer“ er svo oft sagt, og hefur það ekki alltaf verið sagt ? Kannski byrjuðu Adam og Eva með þann frasa eftir að þau voru rekin burt úr Eden ? Auðvitað fannst þeim vont að þurfa að fara að vinna, eins og æ fleirum finnst víst núorðið !

 

Svo það má svo sem vel vera að heimurinn lagist lítið, en eitt er víst, að sjálfsmeðaumkvun gerir engum gott og leiðir engan á betri veg. Það þarf að hafa eitthvað sem gefur heillavænlegri leiðsögn um lífsveginn en sú sjálfselska sem er svo áberandi í dag og einkum að því er virðist meðal unga fólksins !

 

Og er þá ekki vert að minnast þess og hafa það í huga, að hver sem vinnur í því að laga sjálfan sig hlýtur þó alltaf að bæta heiminn sem því nemur !

 

Og víst er að lífið endar ekki um þrítugt þó margt ungt fólk standi í þeirri trú um tvítugt. Það er nefnilega til líf eftir þrítugt ?

 

Svo sannarlega er til líf eftir þrítugt og meira að segja áfram eftir það meðan góð heilsa varir. Og það getur verið ágætt líf – ekki síst ef fólk setur sér það að markmiði að nota tímann til að glæða ljósið í eigin lífi og annarra !

 

Segir ekki gamla máltækið – allt er fertugum fært og sumir vilja jafnvel segja – allt sem fertugur getur, fimmtugur gerir betur. Er ekki kjarni málsins sá að hafa jákvætt hugarfar gagnvart lífinu meðan það endist ? Ekki hugsa málin bara út frá einhverri æskudýrkun sem á sér afskaplega skammvinnar forsendur !

 

Æskutíminn nær eiginlega bara yfir grunnskóla lífsins, svo spyrja má, er eitthvað vit í því að sleppa efri bekkjunum ?

 

Er einhver glóra í því að fara á mis við þá reynslu sem þar er gefin og skilar sér ef til vill best af öllum tíma á vegi tilverunnar ? Nei auðvitað ekki. Fólk kynnist lífinu með því að taka allan pakkann !

 

Reynum því að sjá það góða í tilverunni á öllum stigum, okkur sjálfum og samferðarfólki okkar til blessunar. Við erum hér til þess að læra en ekki bara til að skemmta okkur. Gleymum því ekki !

 

 

 


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 40
  • Sl. sólarhring: 89
  • Sl. viku: 1315
  • Frá upphafi: 316234

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 1045
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 27

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband