Leita í fréttum mbl.is

Tjáningarfrelsi úr túninu heima !

 

 

 

Ekki virðist mikil umræða hafa átt sér stað á Skagaströnd varðandi framtíð mála í hinum dreifðu byggðum í landinu. Þjóð-félagið hefur samt verið rekið í meira en 30 ár, alfarið á hagnaðarforsendum höfuðborgarsvæðisins. Landsbyggðin hefur jafnframt allan þann tíma verið skilgreind sem afgangsstærð í samfélaginu af þeim sem ráðið hafa ferðinni í háköstulum ríkisvaldsins og mörgum ávinningi frá fyrri tíð verið spillt !

 

Níðingsleg langtíma framkoma yfirvalda gagnvart lífsafkomu bænda og ekki síst síðustu árin, hefur stórskaðað heilbrigðar undirstöðuforsendur mannlífsins í landinu og skapað geysilega mikið vantraust á kerfinu og öryggisleysi meðal fólks í sveitum landsins, sem bitnar á öllu samfélaginu. Það miðast allt sem fyrr við suðvesturhorn landsins og menningar-mafíulegar áherslur mála sem eru oftast úr öllum takti við vitrænan veruleika !

 

Mikill þrýstingur hefur verið viðhafður af kerfinu á öllum þeim tíma sem hér um ræðir, að heimta sameiningu sveitarfélaga úti á landi, meðan jafnvel smátotur á suðvesturhorninu, eins og Seltjarnarnes, komast upp með að vera sjálfstæð á forsendum sérgæskueiningar ríkisbubba sem vilja enga samleið eiga með venjulegu fólki, eða snauðum plebbum, eins og það er kallað !

 

Á Skagaströnd hefur verið unnið nokkuð í því að tala fyrir sameiningu við Blönduós, en sú hugmynd hefur víða fallið í grýttan jarðveg. Og nú þegar peningalegur vara-forði vegna fyrri eignastöðu er líklega mikið til uppurinn, líklega vegna aumrar ávöxtunar, er sameiningarumræða ef til vill ofar á baugi en áður hjá sumum og neðar hjá öðrum !

 

Og kannski er áhugi fyrir slíkri sameiningu ekkert endilega sá sami nú og hann var af hálfu yfirvalda á Blönduósi, þar sem fyrrnefndur varaforði er líkast til að fullu og öllu liðin tíð !

 

Við Skagstrendingar höfum lengst af getað mannað okkar stjórnunareiningu á bæjar-skrifstofu með heimafólki og þar þóttu samskipti oftast vera með nokkuð eðlilegum hætti. Nú um tíma hefur sú staða þó ekki verið í boði. Aðkomufólk hefur þar tekið við störfum og öll persónuleg samskipti hafa orðið heldur stífari og ánægjuminni fyrir vikið. Hin persónulega nánd sem áður var þó til staðar virðist horfin. Kannski eru þar komin fram fyrstu kynni okkar Skagstrendinga af því að vera undir aðra settir ?

 

Allmargir virðast líka vera að komast á þá skoðun, að sjálfstæði okkar sveitarfélags hljóti senn að verða liðin tíð og þá er líklega aðallega horft til sameiningar við Blönduós og kannski aðra hreppa innan sýslunnar. En til munu þeir menn vera meðal Skagstrendinga sem þykir það, við gjörbreyttar aðstæður, öllu fýsilegri kostur að sameinast þvert yfir Skagann til austurs. Það er að segja að sameinast Skagafirði. En þá er ein spurningin sú hvort Skagfirðingum hugnist slík sam-eining, en líklega mun Blönduósingum ekki lítast á slíkar hugmyndir. Allt er þó ókannað í þessum efnum, en orð eru samt til alls fyrst !

 

Með stórbættum samgöngum yfir Þverárfjall hafa þó forsendur sameiningarmála breyst mikið og kann sú breyting að fela í sér nýja möguleika samstarfs sem ekki hefur verið hugað að í neinni verulegri alvöru fyrr. Virk atvinnulífstenging milli Skagastrandar og Sauðárkróks hefur þó áður gefið nokkra reynslu í sambandi við útvegsmál og verið báðum í hag, að áliti sumra !

 

Þó að það sé löngum best að hvert sveitarfélag hafi burði til að geta verið sjálfstætt, verður því ekki neitað að ríkisvaldið hefur sett smáum sveitar-félögum um allt land nokkuð þröngar skorður, með sívaxandi kröfum um nánast alla hluti. Það getur því komið upp sú staða að sveitarfélag verði of fámennt til að standa undir álögum kerfislegrar ofstjórnunar af hálfu ríkisins og jafnvel þá kannski að viðbættri heimatilbúinni vanhæfni til stjórnunar !

 

Við slíkar aðstæður verður auðvitað ekki unað til lengdar. Setulið í sveitar-stjórnum verður skiljanlega á hverjum stað að axla þá ábyrgð sem af því er krafist. En við umræðu um sameiningarmál er rétt að hafa í huga, að það er ekki endilega bara einn valkostur til í því reikningsdæmi. Blönduós þarf því ekki að vera eini sameiningarkostur Skagstrendinga. En í öllu slíku efni er best að fara sér hægt og kanna möguleika þá sem kunna að vera fyrir hendi sem best til hlítar !

 

Við þær aðstæður og raunar allar aðstæður, væri auðvitað hagkvæmast ef menn byggju við trausta og ábyrga forustu, en því miður vill oft verða nokkur misbrestur á því að svo sé. Og þegar mál hafa farið í vondan farveg, er auðvitað verr af stað farið en heima setið. Lýðræðið virðist geta búið við töluverðan atgervisskort meðal kerfislegra fulltrúa sinna og það er greinilega vaxandi vandamál í samfélagslegum skilningi, líklega bæði hér og annarsstaðar !

 

Vantrú manna á kosningalegar lausnir virðist orðin svo mikil víða, að það er hætt að kjósa. Þrisvar sinnum hafa kosningar fallið niður á Skagaströnd á seinni árum, líklega vegna áhugaleysis kjósenda og þeirrar aumu útkomu sem þær hafa gefið að dómi of margra. En það er lýðræðisleg skylda að mæta á kjörstað og virða leikreglurnar. Og það þarf ekki síður að skapa valkosti sem fólk er tilbúið að kjósa um !

 

Álagning og hækkun gjalda, jafnvel í litlum sveitarfélögum virðist líka á seinni árum vera að fara í lóðbeint ris og telja margir að sveitarstjórnir á slíkum stöðum, séu víða í litlu jarðsambandi við hag óbreyttra borgara. Þar svífi yfir-borðskennt fólk bara um í einhverju menningarsósuðu uppstreymi, sem hafi lítið með veruleikann að gera, og þjóni heildarhagsmunum samfélagsins jafnvel með hangandi hendi og jafnvel öfugum hætti við það sem ætti að vera !

 

Það er því ljóst að Skagstrendingar þurfa, sem aðrir í þessu landi, að huga vel að lýðræðislegum réttindum sínum og skyldum, svo að þeir láti ekki aðra teyma sig eitthvað sem þeir vilja ekki fara. Og alltaf þyrfti með vitrænum hætti að búa svo um hnúta hvers máls, í sam-einingarmálum sem öðru, að menn eigi leið til baka ef væntingar ganga ekki eftir !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 44
  • Sl. sólarhring: 85
  • Sl. viku: 1274
  • Frá upphafi: 317468

Annað

  • Innlit í dag: 36
  • Innlit sl. viku: 972
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband