Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Þeir sem leita að sora finna hann !

 


Nútíminn flytur með sér undarlegan uppreisnarsnúning á viðhorfum og afstöðu fólks til margs af því sem áður bjó við virðingu og traust. Mikill vilji virðist hafa skapast til að endurskoða allt í dag og rífa niður fyrri tíma gildi. Þar sem traust er að mestu horfið úr samfélaginu í öllum samskiptum, efast fólk um allt, og einkum það sem gott hefur verið talið !


Margir reyna að nýta sér þessa breyttu stöðu til að drýgja egóið og hagnast um leið á þeim gildisfellingum sem boðaðar eru í niðurrifs áróðri tíðarandans. Það gera menn og konur með ritverkum og ýmsum ásökunum sem æði oft virðast beinast að látnu fólki, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér lengur og liggur því vel við höggi. Minning margra látinna er því ausin sora átölulaust !


Þetta er vond framvinda. En hvernig á að koma í veg fyrir slíkt í samfélagi sem virðist hætt að mestu að rækta góð gildi og grunar alla um græsku ? Siðferðileg undirstaða þjóðfélagsins er orðin verulega skökk og margskonar ætluð og yfirlýst réttindabarátta hefur leitt fólk inn á hugarslóðir sorakenninga sem fá það til að trúa hverju sem er. Og sjónarmiðin virðast raunar verða tortryggnari og tillitslausari með hverju árinu sem líður. Þar er ekki neitt á ferð sem boðað getur gott fyrir okkar berskjölduðu þjóð, meðan sjálfsagt þykir að rífa niður alla þjóðlega siðmennt !


Uppreisnarandinn í samfélaginu er því satt best að segja að verða verulega illur. Sumir vilja ryðjast um og brjóta niður öll þau ölturu sem aðrir hafa kropið við. Engum er því ætlað neitt gott og það sem illt er fær að ráða. Þeir sem þannig hegða sér, leita að sora og þeir munu finna sora, því hugarfar þeirra heimtar það. Þeir vilja nota sorann til að rífa niður og afnema helst alla helgi mannlífsins. Öllu skal því bylt sem búið hefur við virðingu !


Nú er þannig hatast við margt af því sem alltaf hefur verið talið gott. Og fulltrúar langtíma siðleysis eru jafnframt heiðraðir með ýmsum hætti. Tíðarandinn hefur snúið allri eðlilegri siðfræði á hvolf og virðist vilja hafa hana alfarið í öfugri stöðu. Og tilhneigingin til að leita sorans sýnist stöðugt vaxa því ekkert virðist mega búa við traust í samfélagi sem sjáanlega er búið að glata, nánast að  fullu, þeim hæfileika, að geta treyst öðrum til góðs. Þá er hin þjóðfélagslega öryggisstaða orðin verulega tæp !


Allskyns átyllur virðast notaðar til að vekja efasemdir um góðan ásetning. Saklausustu mál eru gerð að ákæruatriðum. Þjóðfélagið er sýkt af illum grunsemdum um óheilindi einstaklinga sem hafa hingað til þótt hafnir yfir slíkan grun. Mannaveiðar eru hafnar aftur og ofsóknir í gangi til að spilla góðum orðstír látins fólks, jafnvel fólks sem þjónaði öðrum allt sitt líf af mikilli fórnarlund. Ekkert skal hafið yfir rannsóknarrétt nútímans sem þykist vera að byggja upp, en er í raun og veru að rífa niður !


Ég hef ekki mikla trú á því, ef við ætlum að byggja hér upp betra samfélag, að höfuðsmiðir áætlana fyrir slíka framvindu verði einhverjir menningarsprautu-gúrúar úr Reykjavík 101. Menn sem kjósa yfirleitt að yfirhúða öll sín ,,menningarverk“ með soraáferð eru ekki líklegir til að verða samfélagi sínu til góðs !


Margir sem eru alla daga að rífa niður góðar undirstöður fyrir frekari uppbyggingu, halda sjálfsagt í eigingjörnum hroka sínum að þeir séu að byggja upp og gera gott þó þeir séu í raun að þjóna andstæðum anda. En ranghugmyndir slíks fólks hafa því miður þegar eyðilagt býsna margt í samfélaginu, því margir vita greinilega ekki hvað mikið illt þeir eru að gjöra !


Það er miklu auðveldara en margur heldur að tortíma mannlegu samfélagi. Við höfum þegar stigið skref í þá átt með ýmsu móti. Heilbrigði og siðferði samfélagsins ræðst af því hvernig fólk hegðar sér. Og við erum ekki að hegða okkur vel. Ætlar það fólk sem lifir í dag, að skilja við íslenskt samfélag í rúst ? Á það að vera arfleifð kynslóðar barna okkar ?


Við skulum fara að gæta að okkur ! Við erum komin nokkuð nálægt ystu brúninni á því samfélagsbjargi sem viðurkennt var í eina tíð sem rétt undirstaða. Og þar fyrir framan er hyldýpið eitt. Ætlum við að fara þar fram af ? Ætlum við að drýgja samfélagslegt sjálfsmorð ? Hverjum yrði það til góðs ? Nei, annað liggur fyrir að gera og það sem fyrst !


Við þurfum að breyta tíðarandanum sem er vondur. Við þurfum að hefja hugarfarslega siðbót innan samfélagsins, og taka þar aðra og betri stefnu. Stefnu sem leiðir okkur frá soramálum viðbjóðs og vantrausts beint upp á við, til hreinni viðhorfa. Með þeim hætti getum við unnið að því að samfélag okkar læri á ný að treysta, vona og trúa, og nái á ný að sjá til sólar, - nái að skapa sér heilbrigða og góða framtíðarsýn !

 


Um raunastöðu í ranglætisheimi !

 

 

 

 

Það er hvorki Bandaríkjunum, Nató eða ESB þóknanlegt að ríki í Vestur-Evrópu klofni vegna þess að tvær eða fleiri þjóðir þar eigi ekki lengur samleið. Þessi valda-batterí hafa hinsvegar stuðlað grimmt að því að sundra ríkjum austar í álfunni og gera þau að litlum og meðfærilegum stjórnar-einingum fyrir yfirtöku Brussel-klíkunnar, eins og til dæmis Júgóslavíu, en þar var níðst á öllu því af hálfu Nató sem átt hefði að verja, ef eitthvað væri að marka yfirlýst stefnumið !

 

En Baskar á Spáni og Katalóníumenn eiga ekki og mega ekki fá frelsi sitt og þar er lýðræðið ofurselt spænsku forræði. Eins er það í Bretlandi, Skotar og Walesbúar fá ekki sjálfstæði sitt vegna þess að forræði Englendinga hentar betur auðvaldinu í Brussel !

 

Hið tilbúna belgíska ríki á líka áfram að vera sami tilbúningurinn og Vallónar eiga ekki að sameinast Frakklandi eða Flæmingjar Hollandi. Það er ekki samkvæmt vilja drottinvaldsins í Brussel og því má allt lýðræði fara fjandans til !

 

Írland verður heldur ekki eitt ríki í fyrirsjáanlegri framtíð, því það þykir henta að þar verði engu breytt. Norður-Ítalía verður heldur ekki sjálfstætt ríki með Mílanó sem höfuðstað, þó margir þar vilji það, því þar má engu breyta. Ríki sem eru í Nató verða að haldast í heilu lagi hvað sem líður lýðræði og mannfrelsi. Spánverjar fá því að drottna yfir Böskum og Katalóníumönnum og kúga þá, eins Englendingar yfir Skotum og Walesbúum o.s.frv.

 

Þetta er hinn ólýðræðislegi veruleiki stjórnarfarsins í Vestur-Evrópu. Það mátti sundra Júgóslavíu og það var gert, Tékkóslóvakía var skorin í tvennt og Brusselvaldið hefði helst viljað fara eins að með Pólland og Ungverjaland, svo þessi ríki væru til friðs og hlýddu því sem þeim er ætlað að hlýða !

 

Í raun þýðir þetta, að hernaðarmáttur Nató er látin vera forsendan fyrir nauð-ungarstöðu margra þjóða í ríkisheildum Vestur-Evrópu. En það er staða sem gengur þvert gegn lýðræðislegum vilja fullkomins meirihluta fólks í mörgum landshlutum !

 

Af hverju var stýring Bandaríkjavaldsins og Brusselklíkunnar á slíkum málum þveröfug í Kosovo ? Þar fékk einn landshluti að ráða þvert gegn heildar-sjónarmiðum í sambandsríkinu ? Ef Bandaríkin hefðu fylgt þeirri línu 1860 hefði aldrei þurft að koma til borgara-stríðsins og 600.000 mannslífum, og það háheilögum bandarískum mannslífum, verið borgið !

 

Hráskinnaleikur pólitískra afla verður víst seint afnuminn á þessari jörð, enda erum við mennirnir ekki á neinni aukinni þroskaleið. Valdabaráttan verður sífellt ógeðslegri og öllum óþverrabrögðum er beitt í þeim hættulega leik. Og mannkynið líður fyrir það hvern einasta dag. Allsherjarheimilið okkar er stöðugt gert að verri og verri svínastíu siðleysis og lasta. Mala domestica majora sunt lacrimis !


Sumt getur verið ekta en margt er óekta !

 

 

 

Þegar farið er yfir herstjórnarhæfni hershöfðingja bandamanna í seinni heims-styrjöldinni, kemur fljótt í ljós að helstu hershöfðingjar Breta og Banda-ríkjamanna voru ekki neinir afburðamenn í þeim efnum. Meðal Breta var eiginlega ekki um neinn sérstakan að ræða og hjá Bandaríkjamönnum var Patton kannski helsti foringinn sem stóð sig sæmilega á vígvellinum !

 

Líklega hefur sovéski hershöfðinginn Giorgi Zukhov verið rismesti hershöfðingi bandamanna, en Sovétmenn áttu samt ýmsa aðra hershöfðingja sem stóðu honum ekki langt að baki. Þar má nefna Konstantin Rokossovski, Ivan Konev, Andrei Yeremenko, Nikolai Vatutin, Alexander Vasilevski, Ivan Bagramyan, Nikolai Voronov, Rodion Malinovski, Feodor Tolbukhin, Vassily Chuikov o.fl.

 

Virðist þó svo, að jafnvel sæmilegir áhugamenn um stríðssöguna hafi þekkt lítið til forustumanna í herjum Sovétríkjanna, enda löngum lítið verið gert til að halda nöfnum þeirra á lofti á Vesturlöndum. Vestrænar heimildir tala yfirleitt bara um Stalín og yfirleitt bara á einn veg !

 

En á hinn bóginn er stöðugt flaggað nöfnum eins og Eisenhower, MacArthur og Montgomery, enda kannast jafnvel þeir sem lítið sem ekkert vita um styrjöldina, við nöfn þeirra. En líklega hefur enginn þeirra verið sérlega mikill bógur sem hershöfðingi, þó þeir hafi haft réttu samböndin til að öðlast tignargráðurnar !

 

Það má segja um framangreinda hers-höfðingja Sovétmanna, að þeir hafi allir verið vígvallahershöfðingjar með bardaga-reynslu. Einn þeirra Nikolai Vatutin féll í fyrirsát úkraínskra fasista sem börðust með nazistum. Þeir voru jafnvel verri en þýskir SS menn, eins og sannaðist í Babi Yar og víðar. Vatutin var mjög hugmynda-ríkur og snjall hershöfðingi !

 

Vestræn fréttatúlkun hefur löngum verið mikils til allsráðandi á Íslandi. Hún segir meðal annars : Rússar eru ruslara-lýður, í stríðinu voru þeir bara með drasl, allir leiðtogar þeirra voru glæpamenn og þeir áttu enga frambærilega menn til eins eða neins og þannig hefur það alltaf verið !“

 

En af hverju sigruðu Rússar Hitlersherina, af hverju komu þeir fram með jafnbesta skriðdreka stríðsins, af hverju voru þeir fyrstir til að senda mann út í geiminn o.s.frv. o.s.frv o.s.frv ?

 

Er ekki eitthvað athugavert við vestrænar fréttaskýringar ? Hvenær byrjuðu Íslend-ingar almennt á því að gleypa við fréttum frá öðrum aðilanum í stríði eða deilum og telja að þar sé sannleikurinn sagður ? Gamalt þjóðlegt spakmæli segir : ,, Sjaldan veldur einn þá tveir deila !“ En fjöldi Íslendinga gleypir stöðugt við áróðursbeitunni áratugagömlu : ,, Það er allt Rússum að kenna !“

 

Sumir hafa fylgt þeirri línu að segja að allt væri Gyðingum að kenna, og öll veröldin yrði bara góð ef þeim væri útrýmt, enda trúa sumir því. Aðrir hafa farið í sömu spor varðandi Rússa. En það er engin þjóð annarri betri og óþokkar eru alls staðar til og illska og mannhatur sömuleiðis !

 

Margt er að í heimsmálunum, en einna verst er þó þegar þeir sem þykjast öðrum betri og telja sig góðu gæjana, fremja síst minni glæpi en hinir sem brennimerktir eru sem vondir gæjar. Og svo eru glæpir þeirra jafnan þaggaðir niður en glæpum hinna haldið á lofti linnulaust. Hvað á slík túlkun sameiginlegt með réttlæti ?

 

Í tuttugu ár kvöldu Bandaríkin víetnömsku þjóðina á allan hugsanlegan máta, drápu og pyntuðu, eyddu landsgæðum með allra handa eiturhernaði, til að gera þjóðinni ókleift að lifa í landinu. Þeir notuðu nála-sprengjur, kúlusprengjur, gas, bensín-hlaup og napalm. En Víetnamar voru ekki sigraðir, ekki frekar en af Frökkunum þar á undan. Jafnvel Mongólar á sínu ægilega herhlaupi yfir Asíu og vestur í Evrópu, gátu ekki sigrað Víetnama og ekki Kín-verjar með innrás á fyrri öldum heldur !

 

Aðeins á árunum 1965 til 1967 var kastað meira sprengjumagni á Víetnam en á Evrópu alla í síðari heimsstyrjöldinni. Í hörðum bardögunum um bandarísku herstöðina Khe Sanh notuðu hinir yfirlýstu ,,góðu gæjar“ meira en 100.000 tonn af sprengjum á svæði sem var aðeins nokkrir ferkílómetrar að stærð. Það var fimm sinnum meira magn en fólst í kjarnorkusprengjunni sem þeir vörpuðu á Hírósíma, en samt urðu þeir að flýja að lokum !

 

Í skýrslu frá 1966 taldi bandarískur vísindamaður að 750.000 börn hefðu látið lífið í Suður-Víetnam vegna stríðsins en 250.000 væru örkumla. Þetta er aðeins eitt dæmi um heimsvaldasinnaðan og blóðugan yfirgang Bandaríkjanna gagnvart umheiminum og Víetnamar eru sannarlega í hópi margra þjóða sem orðið hafa að þola slíkt. En þjóð sem stendur slíkt af sér er hetjuþjóð !

 

Bandarískir hershöfðingjar í Víetnam voru eins og bandarískir hershöfðingjar hafa langflestir verið, tæplega miðlungsmenn að getu og atgervi, og höfðu ekkert í einhuga, víetnamskan þjóðarvilja að segja. Þeir komu til Víetnam, uppblásnir af amerískum herraþjóðarhroka, og fóru þaðan eins og sprungnar blöðrur !

 

Stríð sem stefnir að kúgun heillar þjóðar, frelsis-sviptingu og þrælkun milljóna manna, getur aldrei skilað neinum endan-legum sigri. Svo við notum íslensk hugtök, - það er hægt að kúga og undiroka í einhvern tíma, en kvikan safnast saman og skilar af sér gosi og gjörbreyttum aðstæðum til að lifa áfram !

 

Bandaríkjamenn héldu til dæmis að þeir hefðu byggt upp sterkan og vel vopnaðan her í Afghanistan gegn Talibönum, en sá her leystist upp og hætti að vera til á nokkrum dögum. Allur herbúnaðurinn lenti svo í höndum Talibana. Banda-ríkjaher er heldur ekki eins öflugur og Washington-valdaklíkan heldur. Til þess eru innantómu fúleggin í hershöfðingja-bransanum orðin, vægast sagt, allt of mörg !

 

 

 

 


Nokkur orð um breskan blekkingaferil !

 

Athyglisvert er hvernig Bretar hafa alltaf tekið á málum gagnvart Rússum. Það á við um stjórnmálamenn þeirra, bankayfirvöld þeirra og auðhringa, fjármálaheiminn allan og hermálayfirvöld, sagnfræðinga þeirra, aðalinn og menntamannaelítuna. En sennilega býr þarna að baki afar inngróin minnimáttarkennd !

 

Það þarf eiginlega sálfræðing og hann verulega glöggan til að skilja afstöðu Breta í þessum efnum. Þeir sviku Tékkóslóvakíu ásamt Frökkum, ríki sem þeir höfðu þó tekið ábyrgð á, um 20 árum fyrr við stofnun þess. Eftir Munchensvikin sagði Churchill að sögn, í bréfi til Chamberlains : ,,You were given the choice between war and dishonour. You chose dishonour and you will have war !“

 

Þegar Hitler ætlaði að leika sama leikinn gagnvart Póllandi, var Bretum loks nóg boðið og þeir sögðu Þýskalandi stríð á hendur í septemberbyrjun 1939 og Frakkland líka. Þjóðverjar rúlluðu Frakklandi upp á stuttum tíma, enda var fimmta herdeildin franska búin að vinna þar sitt verk. Ekkert virkaði rétt hjá Frökkum. Þeir sköpuðu þar sjálfir sína aumustu stund með svikara út um allt !

 

Breski herinn á meginlandinu var síðan rekinn til Dunkirk og þá voru Bretar verulega illa staddir. Þaðan tókst þeim þó að flýja yfir sundið, því hver fleyta var send yfir það til að bjarga hernum heim. En Bretar urðu að skilja eftir allan sinn búnað. Það var Vesturlanda viðskilnaður á Afghanistan-vísu. Og hver var búnaðurinn ? Við skulum skoða það. Það sem þeir skildu eftir handan sundsins af hergögnum var sem hér segir :

 

Meira en 2000 fallbyssur, 60 þúsund farartæki, 76 þúsund tonn af skotfærum og 600 tonn af bensíni. Þar við bættist tap við alla flutningana yfir sundið sem var yfir 200 skip og 177 flugvélar, þar á meðal 40% af bestu sprengjuflugvélum Breta. Eftir þessa útreið var talið að í Bretlandi væri eftir búnaður fyrir tvö herfylki, en Þjóðverjar réðu þá yfir meira en 200 slíkum. Bretar tóku jafnvel gamlar byssur af söfnum í neyð sinni !


Þessi atburðarás var vorið 1940 og Bretar voru sem sagt orðnir allslausir um miðjan maí. En skömmu áður höfðu þeir sent til Finnlands hernaðarhjálp og það gerðu Frakkar líka. Við skulum líta á þá ,,aðstoð” hér á eftir, og vera jafnframt minnug þess hver staða Breta og Frakka var á þeim tíma, bundin algjöru hernaðarlegu allsleysi !

 

En áður en við gerum það, skulum við gera okkur grein fyrir því að það höfðu aðrir verið að styrkja stöðu sína fyrir komandi uppgjör. Þegar stjórnvöld í Moskvu fóru að bregðast við stríðshættunni sem var orðin yfirvofandi ógn vegna framferðis Þjóðverja, kröfðust Sovétmenn lands af Finnum til að tryggja varnir Leningrad fyrir hið komandi uppgjör sem allir vissu að hlaut að vera á leiðinni. Þeir buðu Finnum land í staðinn norðurfrá. Finnar höfnuðu boðinu og svokallað Vetrarstríð hófst eftir það, 30. nóvember 1939 !

 

Upp úr því ákváðu ríkisstjórnir Bretlands og Frakklands að senda her til aðstoðar Finnum gegn Sovétríkjunum, en það fórst fyrir, líklega vegna þess að sænsk stjórnvöld neituðu að leyfa slíkum her að fara yfir sænskt land. En á þessum tíma, þegar umrædd ríki voru mjög illa í stakk búin að öllu leyti til að mæta árás Þjóðverja á Frakkland sem hófst um 10. maí, var ákveðið að senda Finnum hergögn úr mjög svo takmörkuðu hergagnabúri Breta og Frakka !

 

Allt sem þessar þjóðir sendu Finnum er skráð og vitað. En sannleikur málsins var að þeir höfðu ekki efni á að senda eitt eða neitt. Hin hægrisinnuðu valdaöfl í Bretlandi og Frakklandi voru enn að vona að það tækist að siga Hitler austur á bóginn. Út á það hafði hann verið fjármagnaður af þeim, Hann átti að kyrkja Sovétríkin, vinna verkið sem hafði mislukkast hjá hvítliðum í lok fyrra stríðsins, þrátt fyrir allan þann stuðning sem þeir fengu frá Vesturlöndum í hinni alræmdu fjórtán þjóða innrás í Rússland !

 

En þegar Sovétmenn höfðu séð að ekki var hægt að treysta Bretum og Frökkum til samstarfs varðandi vörn Tékkóslóvakíu, komu þeir með mótleik sem kom valdaklíkum viðkomandi ríkja algerlega á óvart. Þeir sömdu við Hitler.....!!!

 

Nú en var það ekki einmitt það sem Bretar og Frakkar höfðu gert í Munchen ? Sovétmenn voru enn að flytja verksmiðjur og varnarþing austur fyrir Úralfjöll. Þeir þurftu meiri tíma og fengu með þessu 22 mánuði, - tímann frá 23. ágúst 1939 til 22. júní 1941 og þeir nýttu sér auðvitað þann tíma eins og þeir frekast gátu !

 

Hitler nýtti sama tímann til að bruna í vestur og hjóla í algerlega óviðbúin Vesturveldin. Hatrið til Frakka var leiðandi afl hjá Þjóðverjum. Þeir höfðu ekkert að erfa við Rússa frá fyrra stríði. Allar götur síðan þetta gerðist, hafa Bretar bölsótast út í Sovétmenn fyrir það sem þeir kalla svikasamninginn við Hitler. Að þeirra mati áttu og máttu Rússar ekki semja við Hitler, aðeins þeir og Frakkar máttu gera það og svíkja hvað sem var í leiðinni !

 

Hvern sviku Rússar með því að reyna að tryggja sína hagsmuni ? Kannski Breta og Frakka sem voru búnir að margsvíkja þá ? Nei, Rússar sviku ekki neinn með þessu tímavinningsbragði sínu. En þeir gerðu nokkuð sem hvorki Bretar né Frakkar töldu nokkurn möguleika á að gæti gerst og það kom algerlega flatt upp á þá. Það situr enn í Bretum !

 

Rússum tókst að semja við Hitlers-stjórnina sem taldi sér hag í því að berjast ekki á tveimur vígstöðvum. Hugsunin var að fara í vestur og tryggja sig á meðan í austri. Það var undirritaður griðasamningur. Og úrslit stríðsins mæla með því að þar hafi Hitlersstjórnin leikið af sér, en Rússar tryggt sér þann ávinning sem dugði þeim til sigurs !


En Bretum, hinum krónísku tækifærissinnum í allri alþjóða-pólitík, er ógerlegt að líta á málið út frá þeim pólitísku klókindum sem í því fólust fyrir hagsmuni Sovétríkjanna. Þeir tönnlast sí og æ á svikum Rússa sem sviku ekki neinn, en Bretar og Frakkar sviku hinsvegar Tékka og Slóvaka í Munchen og það verður ævarandi ljótur blettur á hinum mjög svo óhreina skildi þeirra !

 

Í fordæmingu Breta felst hin breska hræsni, hin breska afstaða og hin breska sagnfræði í hnotskurn. Og hún helgast af þeirri grundvallarástæðu, að Bretar hafa líklega síðustu 300 árin þjáðst af stöðugum ótta við Rússa og stundað það að ljúga upp á þá öllu sem þeim hefur til hugar komið, til að ómerkja þá sem mest. Það er algerlega hefðbundin viðleitni hjá Bretum að stunda þá ófrægingu eins og þeir frekast geta !

 

Sú árátta byggist á sálarástandi þeirra. Þeir fylgja rómversku reglunni : ,,Ljúgðu og lastaðu sem mest. Þú getur treyst því að það situr alltaf eitthvað eftir !“ Og með þeim falska hætti fljúga breskar fjölmiðlalygar vítt um heiminn allar stundir, en nú er þeim hinsvegar ekki trúað nema að hálfu miðað við það sem var, því vægi Breta hefur minnkað svo mikið allar götur frá 1945 !


Lengi er þó mannskepnan að læra af reynslunni, enda sýnilegt af öllu að hin breska leið til þess hlýtur að vera afskaplega seinfarin !

 

 


Gegn mannætum Mammons og nýfrjálshyggju !

 

 

 

Í dag er ljóst að Ísland er sokkið svo niður í stórkapitalisma, að sérgæska og eigingirni valta yfir allt annað í samfélaginu. Það er ekki endilega vegna þess að fólk hafi viljað það, heldur virðist flæðið að utan algert ofurefli góðum meiningum innanlands og auk þess má heita að stór hluti Íslendinga séu sofandi sauðir !

 

Við erum því ekki lengur fær um að meta það, að hollur sé heimafenginn baggi eða að byggja pund okkar á þjóðlegum dyggðum. Nú þarf allt að vera erlendis frá og ekkert hefur gildi nema það sé komið að utan. Frjálshyggjan kom að utan og hún var slæm sending, en afkvæmi hennar nýfrjáls-hyggjan er enn verri. Hún hefur alið af sér nýja manntegund á Íslandi, fólk sem er hreint út sagt 99,9% sérgæðingar !

 

Í augum þessa fólks eru samfélagsleg sjónarmið einskisverð og fyrirlitleg. Þú átt að klifra til frama á bökum annarra. Eigingirni og andfélagsleg viðhorf fylla huga þessara einstaklinga. Stærsti hlutinn af þessu fólki verður sér úti um mennta-gráður frá einkareknum sérgæskuskólum, ekki síst á sviði hagfræði og viðskipta. Þetta fólk, ef fólk skyldi kalla, er beinlínis þjálfað til þess að verða harðsvíraðir frjálshyggjukapítalistar, með auðsöfnun og aukin völd sem eina markmiðið í lífinu !

 

Eðlileg mannleg samskipti eru þessari egósköpun frjálshyggjunnar fjarlæg og framandi, því öll tengsl við aðra byggjast á því að geta hagnýtt sér sambönd til efnalegs ávinnings. Þetta fólk getur ekki eignast vini, það er of tilfinningalega fatlað til þess. Það kaupir sér þess í stað fylgjendur og þjónustumenn. Þetta fólk byggir ekki neitt upp nema sitt eigið egó. Það hefur enga samfélagskennd. Það fer ránshöndum um allt sem það kemur nálægt og er bókstaflega yfirfullt af óseðjandi græðgi. Það er stórhættulegt fyrir mannfélagsheildina !

 

Þannig er hin rísandi valdaelíta viðskiptalífs og fjármála í landinu okkar. Andstæða við allt það líf Íslands sem að var stefnt með fullveldi og lýðveldis-stofnun. Nýr aðall og verri en sá sem var. Yfirgangslið sem vill sölsa undir sig auðlindir lands og þjóðar með öllum hugsanlegum klækjum og útrýma af köldum huga öllum jöfnuði í þjóðfélaginu. Vill þjóðin hlaða undir slíkar mannætur ?

 

Á næsta ári verða 40 ár liðin frá því að kvótakerfið var leitt í lög, sem aldrei skyldi verið hafa. Það kerfi var yfirlýst frá byrjun sem verndarkerfi fiskistofnanna og sagt að það myndi tryggja örugga viðkomu þeirra til framtíðar. En þetta kerfi hefur ekki tryggt neitt í þeim efnum. Svo til allir fiskistofnar okkar umhverfis Ísland eru nú í verri stöðu en þeir voru 1984 – það er árangurinn eftir fjóra áratugi í heljargreipum þessa margbölvaða misréttis-kerfis. Eina verndin sem kvótakerfið hefur tryggt þennan tíma er að vernda hagsmuni stórútgerðarvaldsins á allan hugsanlegan máta, á kostnað heildarhagsmuna íslensku þjóðarinnar !

 

Og þar er sérgæskunni stöðugt þjónað og frjálshyggjan tilbeðin og auðhyggjunni hampað. Og þar krjúpa æðstu menn ríkisvaldsins allar stundir í glórulausri auðmýkt frammi fyrir altari Mammons.

Engin hagsmunagæsla er hinsvegar viðhöfð fyrir almannahag. Það hefur komið skýrt fram í umræðu að undanförnu, að Sjálfstæðisflokkurinn muni aldrei standa fyrir samfélagslegum jöfnuði, og margir virtust verða furðu lostnir yfir því. En sú staðreynd hefur alltaf legið ljós fyrir, enda þjónar umræddur flokkur engu nema hagsmunum þeirra ríkustu. Almenningur hefur alltaf mátt éta það sem úti frýs, að áliti íhaldsins !

 

En alþýðuvald meðal þjóðarinnar þarf stórlega að eflast. Í því felst eina vörnin gegn þessari vá. Það er rík nauðsyn á því að standa vörð um eignir og auðlindir þjóðar okkar svo þau verðmæti lendi ekki öll og alfarið í tröllahöndum. Alþýðan þarf að vakna til vitundar um rétt sinn til mannsæmandi lífs og verjast árásum hinnar hömlulausu sérgæsku. Það hefur komið fram hér að framan í þessum pistli, að það eru margar ræningjahendur á lofti í íslensku samfélagi og verði þær ekki stöðvaðar í yfirgangsæði sínu, verður engin almenn velferð fyrir hendi á Íslandi eftir nokkur ár !

 

Þá kann svo að fara að allt mannlíf lands okkar verði lamað af allsherjar kvótakerfi siðblindra sæ og landgreifa, sem munu eigna sér allan okkar þjóðarauð með kolsvörtu og kolröngu samviskuleysi satanískra þjóðarböðla !


Forustulaus þjóð undir erlendu forræði !

 

 

Íslensk stjórnvöld hafa, að margra áliti á allra síðustu árum, skaðað allmikið orð-spor lands og þjóðar með skriðdýrshætti sínum gagnvart Bandaríkjunum og Nató. Nú er Ísland afgreitt af mörgum ríkjum sem fullkomið fylgiríki Bandaríkjanna og þar af leiðandi ekki með neina sjálfstæða afstöðu sem þörf sé að hugleiða frekar !

 

Þetta er afturför fyrir íslensku þjóðina og virðing hennar hefur beðið hnekki. Við áttum aldrei að snúa baki við hlut-leysisstefnu okkar og ef við hefðum reynst henni trú, hefðum við aldrei verið læst inn í stórveldapólitík samfara sjálf-stæðissvikum !

 

Ferli kalda stríðsins virðist hafa þurrkað upp glóruna hjá stórum hluta landsmanna og bundið endahnútinn á algjöra vangetu okkar til að leggja mat á mál út frá heilbrigðum viðmiðum. Við höfum verið bundin af þeim örlagahnút í áratugi !

 

Vont var það sem gerðist 1262 og þá var það ekki gott sem gerðist 1662, en verst var það fyrir sjálfstæði þjóðarinnar sem gerðist 1949. Frá þeim tíma hefur sjálfstæði okkar verið leikfang í höndum erlends valds !

 

Með því að ganga í Nató eyðilögðum við frelsisáfangann 1918 og gerðum sjálfa lýðveldisstofnunina að nánast gildis-lausum atburði í sögu lands og þjóðar. Síðan höfum við verið föst milli þils og veggja í tilvistarlegu tómarúmi hræsnis-fullrar skítaumræðu varðandi þjóðleg gildi, sem hafa öll verið svikin og eyðilögð !

 

Það er nöturlegt fyrir hvern þann mann sem vill vera sjálfstæður maður í sjálfstæðu landi, að horfa upp á aumingjadóm stjórn-valda landsins og algjöra vöntun þeirra á íslenskri reisn. Hin ósögðu en augljósu skilaboð frá okkar æðstu tautuskum til þjóðarinnar, eftir alla fundi með ofanfrá talandi talsmönnum Bandaríkjanna, ESB og Nató, eru alltaf þau sömu : ,,Við verðum að beygja okkur, af því að við erum svo miklir aumingjar“ !

 

Sjálfstæð íslensk utanríkisstefna er ekki til. Utanríkismálanefnd er aldrei virt neins og öll örlagamál lands og þjóðar vandlega leidd framhjá henni. Hún virðist bara ætluð til skrauts og málamynda en nær því ekki á neinn hátt !

 

Og slíka meðferð sættir þingið sig við, enda virðing þess meðal þjóðarinnar allt önnur en hún ætti að vera. Slíka nefnd á að leggja niður, því hún hefur ekkert valdsvið og er bara uppsett sjónarspil um sýndarmennsku !

 

Það valdsvið sem utanríkismálanefnd  ætti að hafa, er trúlega orðið að einhverju skúffu-skitiríi vestur í Bandaríkjunum, líklegast í Pentagon, og er jafnvel - ekki einu sinni þar - talið tilheyra sjálfstæðu ríki. Svo kyrfilega kúguð og bæld hafa íslensk stjórnvöld verið, og fyrir vikið málað okkur af og út í horn sem gildis-bært, sjálfstætt ríki !

 

Ekki veit ég frekar en aðrir hvernig eftirtíminn á eftir að meta þann tíma í þjóðarsögu okkar sem nú fer um garð. En ég er þess fullviss að það fólk sem nú spriklar í valdastöðum á Íslandi og telur sig líklega búið að gera töluvert gagn og jafnframt að koma egói sínu vel fyrir á spjöldum þeirrar sögu, mun fá þar harða dóma síðar meir, fyrir steindauða framgöngu sína og ræfilshátt gagnvart erlendi valdi !

 

Og það álit mitt gildir um allt svokallað forustulið þjóðarinnar. Þar er, svo ömur-legt sem það er, ekki hægt að undanskilja neinn. Svo lítil er þjóðleg reisn okkar, enda er augljóslega ekkert gert til að halda henni uppi !


Íslenska þrælahalds-bankakerfið !

 

 

Bankakerfin á hinum Norðurlöndunum virðast á allan hátt töluvert manneskulegri en íslenska bankakerfið. Í Noregi og Danmörku er bankakerfið að lána fólki til íbúðarkaupa af samfélagslegri ábyrgð en hér virðist bankakerfinu sléttsama hvernig það fer með fólk !

 

Íslendingar sem flutt hafa til Noregs, segja norska bankamenn bara ekki skilja hvernig bankarnir hér fara með fólk. Þeir hafi jafnvel boðið fólki að gera upp skuldir þess við íslenska banka og boðið þeim svo endurfjármögnun á skuldastöðunni í Noregi. Og sú aðstoð býður upp á miklu manneskjulegri fjárhagsaðstæður og meira öryggi. Þarna virðist vera mikill munur á !

 

Í norska bankakerfinu er miklu frekar verið að hjálpa fólki, hér er hinsvegar verið að festa það í óendanlegu arðránskerfi sem er aðeins sambærilegt við blóðsjúgandi þrælahald. Íslenska þjóðin virðist að miklu leyti vera njörvuð föst í ómannlegum og andstyggilegum skuldafjötrum skítugra bankaskrímsla ævina á enda. Átti íslenska sjálf-stæðisævintýrið að fara þannig ?

 

Íslensku bankarnir virðast í flestu vera græðgisfullar mannætur. Þeir byggja ekkert upp í samfélaginu á heilbrigðan hátt og sýna enga jákvæða breytni á samfélagslegum nótum. Þeir draga þvert á móti heilbrigðan þrótt úr samfélaginu með gengdarlausu arðráni sínu. Græðgi þeirra er hömlulaus og kann sér engin takmörk. Þeir eru þegar búnir að steypa samfélaginu einu sinni og það er ekkert sem segir að þeir eigi ekki eftir að gera það aftur, enda engin iðrun verið sýnd vegna ótaldra fjárhagslegra misgerða á liðnum árum !

 

Ef það kæmi norskur eða danskur banki hér, teldi ég kjörið fyrir íslenska viðskipta-vini að skipta við hann og finna hvernig það kæmi út. Það yrði líklega eins og fólk væri raunverulega að skipta við manneskju-legan íslenskan banka, sem hingað til hefur ekki verið til. En slíkt myndi ekki gerast, því norrænu bankarnir myndu ekki kæra sig um að fara inn á einkaslóðir mannætu-hákarla og flækjast í blóðugum hengingarsnörum þar og glíma jafnframt við óvinveitt og mannfjandsamlegt ríkiskerfi !

 

Íslenska bankakerfið er stórlega vanþróað hvað ábyrgð og allan þjóðlegan hugsjóna-metnað varðar. Öll samfélagsleg siðbót á Íslandi gagnar lítið meðan fjármálakerfi þjóðarinnar er jafn gráðugt og siðlaust og það er. Einstakar þjónustupersónur þar eru að vísu stundum látnar ,,stíga til hliðar“ þegar brotin uppgötvast, en kerfið sjálft breytist hinsvegar ekkert og lagast ekki hót !

 

Það þarf umfram allt að koma einhverri siðmenningu inn í bankana og rækta þar upp samfélagslega ábyrgðarkennd. En það væri meira en að segja það að koma slíku í verk, meðan hugarfar þeirra sem stjórna þar er óbreytt. Það þarf því að senda hið bankakerfislega mannætuhugarfar græðginnar sem fyrst aftur til skrattans sem lagði það til !

 

Og auðvitað ættu yfirvöld lands og þjóðar að hafa forustu um manndómslega endur-hæfingu í bönkunum og hvernig gætu þau það ? Þau eru nú þannig að þau þyrftu ekki síður sjálf að endurhæfast og vígjast þjóðlegri dáð. Það dylst engum manni eins og málin horfa við. En hver á að moka allan skítinn út ?

 

Gæti það orðið og er einhver von til þess að þjóðin geti eignast óspillt og frambærilegt forustulið, miðað við hið vægast sagt ömurlega spillingarstig kerfisheildarinnar í dag, sem hlýtur að blasa við hverjum manni sem hefur heila sjón ? Hvaða trú hafa menn á þeim möguleika eins og málin horfa við okkur í tíðaranda dagsins ? Svari því hver fyrir sig ?


Nútími hrokans verður fljótt fortíð gleymskunnar !

 

 

Fyrir allmörgum árum voru mál varðandi söfnun og geymslu muna frá fyrri tíð tekin til meðferðar af áhugasömum einstaklingum hér á Skagaströnd sem og víða annarsstaðar um landið. Margir gáfu muni til varðveislu og mikið af ljósmyndum skilaði sér, enda mátti segja að það ætti sér stað viss vitundarvakning varðandi þennan málaflokk á þessum tíma !

 

En sumir höfðu ekki mikinn áhuga fyrir þessu gamla drasli, sem þeir kölluðu svo, og einhvernveginn fóru mál þannig að hvergi virtist vera til staður fyrir þessa söfnunarmuni svo þeir þvældust í slæmum meðförum árum saman og týndu tölunni. Enginn Þórður Tómasson hélt utan um hlutina, en slíkan mann hefði víða þurft !

 

Margt fór því forgörðum á neyðarlegri hrakhólaferð hinna gömlu muna, týndist og eyðilagðist með ýmsum hætti. Á sínum tíma talaði ég við ráðamenn hér um að kaupa gamla kaupfélagshúsið og gera það að safnahúsi Skagastrandar og byggja þar upp arfleifð hins liðna tíma, enda var við-komandi hús í sjálfu sér merkur safn-gripur. Vel var tekið í þá hugmynd en enginn raunverulegur áhugi sýndi sig þó. Það vill löngum svo fara varðandi málefni almannahags, að góðar undirtektir verða innihaldslausar !

 

Svokallaðir ráðamenn virðast oft vera undarlegur söfnuður. En af hverju eru áhugalausir menn um samfélagsmál að bjóða sig fram til þjónustu fyrir samfélagið ? Skyldu ekki einhver annarleg sjónarmið búa þar að baki ? Gamla kaupfélagshúsið var í fram-haldinu keypt af peningamönnum sem hafa gert það upp með sínum hætti og nýtt það til annarra hluta. Og líklega með all-ríkum stuðningi hreppsyfirvalda varðandi leigumál og notkun !

 

Einkaframtakið gerir sig oftast gildandi þegar ekki er hirt um félagslegar og samfélagslegar lausnir. Hygg ég að víða megi finna hliðstæðan framgang mála varð-andi slíka hluti í landinu. Arfur hins liðna, sagan og geymd hennar, situr oftast við skarðan hlut í hinum dreifðu byggðum, en helst gert eitthvað ef það stendur til að tildra einhverju upp í höfuðborginni. En sá sem ber enga virðingu fyrir eigin sögu, endar með því að eiga enga sögu !

 

Og nú er farið að flytja söguna til með þeim hætti, að minningarreitur sem ætti að vera úti í sveit á réttum stað viðkomandi atburðar, er færður inn í næsta þéttbýlisstað, sennilega í þeirri von að það muni auka á straum ferðamanna þangað. Það er svona svipuð sögutilfærsla eins og að tala um Skagafjörð sem Sturlungaslóð. Sennilega hafa engir landsmenn verið Sturlungum jafn mótsnúnir og fjandsamlegir alla tíð og Skagfirðingar !

 

Öll rangtúlkun söguatburða hittir sig sjálfa fyrir og dregur úr tiltrú á því að rétt sé með farið. Og býsna margir virðast ekki sjá neina sérstaka þörf á því að fara rétt með, ef þeir geta fjölgað einhverjum krónum í rekstrarkassanum :

 

Sitthvað ferlið falska skapar,

frómlegheitin mæta grandi.

Margir verða af aurum apar,

ekki síst í þessu landi !

 

En það vill svo til, að fáum er annt um okkar sögu og ef við sinnum henni ekki sjálf getur hún farið forgörðum á tiltölulega skammri stund. Þetta gamla drasl, sem sumir kalla svo, er tengiliður okkar við fortíðina og það líf sem var lifað í landinu fyrir ekki svo löngu síðan. Þann tengilið þarf að varðveita !

 

Það er ótvíræð skylda íslensku þjóðarinnar að vernda sögu sína og arfleifð sem best og halda þar tengslum. Það kostar alltaf eitthvað fyrir hvern og einn að gera skyldu sína. Ef við lærum ekkert af því liðna og þykjumst standa á toppi allrar fremdar og tilvistar í dag, er jafnvíst að við skilum litlu sem engu til framtíðarinnar og fyrir eftirkomendur okkar í þessu landi !

 

Þá hefur líf okkar ekki haft mikinn tilgang. Kannski ekki neinn ? Líf sem er alfarið þrælbundið þeim hégóma að skemmta sér allar stundir, brennur fljótt út á báli hins hraðfleyga tíma. Það er auðvitað gaman að vera 18 ára, en aðeins 20 árum síðar eru menn 38 ára - að verða miðaldra ..... og kannski ekki búnir að vinna neitt sér til gildis sem þroskaðir menn. Vanitatum vanitas !

 

Heiðrum forfeður okkar og formæður, virðum baráttu þeirra í þágu þess lífs sem okkur hefur verið gefið, göngum vel um allt það sem getur minnt okkur á það sem áar okkar urðu að búa við, og skilum okkar hlutverki af okkur eins heiðarlega og þeir gerðu. Leggjum þeim sem taka við af okkur lifandi arfleifð í hendur !

 

Við erum lítil þjóð og við höfum því miður verið að minnka okkur á síðustu árum. En við getum aukið gildi okkar, ef við höldum tryggð við arfleifð okkar sem er drjúgum meiri en ætla mætti, og þannig skipað okkar sess í samfélagi þjóðanna með fullum heiðri !


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 169
  • Sl. sólarhring: 211
  • Sl. viku: 1306
  • Frá upphafi: 316992

Annað

  • Innlit í dag: 159
  • Innlit sl. viku: 1006
  • Gestir í dag: 157
  • IP-tölur í dag: 156

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband