Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2020

Að hanga við völd !

Það er kunnara en frá þurfi að segja að veðurlag á Íslandi getur verið rysjótt. Því ætti það að vera heldur ákjósanlegra að kosningar fari fram meðan eiga má von á skaplegri tíð !

 

Ríkisstjórn Íslands á hverjum tíma ætti því samkvæmt þjóðhagslegum forsendum að hafa slíkt í huga, ef ekki sín vegna, þá þjóðarinnar vegna !

 

Þó að kjörtímabil þingmanna sé vissulega 4 ár, hlýtur ríkisstjórn sem telur sig hafa verið að gera vel og hefur þannig trú á verkum sínum, að geta stytt umboðstíma sinn um svo sem 3 - 4 mánuði til að hægt sé að kjósa á betri árstíma. Það virðist hinsvegar ekki hafa verið pælt mikið í slíku !

 

September er sem vitað er oft rokgjarn og regnviðrasamur mánuður og ekki er langt síðan menn lentu í verulegum vandræðum út af veðurfari í göngum og það í fyrri hluta mánaðarins !

 

Einhverntíma var kveðið “pólitík og tíðarfar / töluvert er svipað” svo menn í pólitík ættu að geta skilið forsendur umræddra mála með sæmilega skynsömum hætti. En nei, svo er ekki, flokksleg sjónarmið ráða öllu og hangið skal á völdunum fram á síðasta dag !

 

Ekki virðist reisnin mikil eða einhver merki um þjóðhollustu í fyrirrúmi. Það er gömul og ný saga um íslensk stjórnmál að þeir sem þar virðast jafnan mestu ráða eru meðalskussar einir. Sjáið ráðherrana, sjáið þingliðið, lítið á þessa hörmung, allt undir meðalvigt að manntaki !

 

Ef gildi ríkisstjórnarinnar hefði verið meira og trú hennar á eigin verkum, hefði hún látið kjósa á mannsæmilegri tíma en ákvarðað hefur verið. En það gera víst engir meira en þeir eru menn til, og því liggur kjördagur fyrir með þeim hætti sem nú er búið að ákveða. Maður gæti haldið út frá því að sumir væru beinlínis að vonast eftir dræmri kjörsókn ?

Það sannast að minnsta kosti löngum - að smátt er það sem smáir gera !


Ortar vísur til gamans við myndir í bókinni Skáldið sem sólin kyssti !

 

 

 

Bls.19.

 

Litlu betra bæjar val

bauðst en greni refa.

Rústir Suddu í Reykholtsdal

rétta mynd þar gefa.

 

Bls.172.

 

Mörg í tré er myndin rist,

mögnuð framar orðum.

Guðmundur þar lék af list

líkt og Hjálmar forðum.

 

Bls. 197.

 

Sumir verða að kúra á kodda,

kallast á við vonlaust tóm.

Lífs á morgni dó hún Dodda,

deydd eru víða fögur blóm.

 

Bls. 203.

 

Skáldið stendur hér á höndum,

hrifning sýnd á lífsins kveik.

Þarna er ekkert bundið böndum,

barnsleg gleði í frjálsum leik.

 

Bls. 222.

 

Hér er mikið sjónarsvið,

sitthvað hægt að lít´ á.

Úrvalsfólk í önnum við

ullarþvott í Hvítá.

 

Bls. 250.

 

Eljuskapinn skýrt ég lít,

skilaverkið drjúgast.

Meðan feðgar moka skít

má við góðu búast.

 

Bls. 348.

 

Horfi ég á sannan segg,

sviðsmyndina sterka.

Hér er brýnt svo bíti egg,

bóndinn kann til verka.

 

 

Bls. 356.

 

Hérna sitja saman tveir

sómamenn að spjalli.

Orðstír þeirra ekki deyr,

er sem viti á fjalli.

 

Bls. 363.

 

Lít ég hjón á leið í gleðskap,

létt er yfir þeirra brún.

Eins er gleðin kringum kveðskap,

kannski engin betri en hún ?

 

Bls. 381.

 

Sitja á palli sæmdarhjón,

sést þar bragur valinn.

Myndin hjartans hreina tón

hefur í sér falinn.

 

Bls. 388.

 

Sólarskáldið situr hér

sjónum leiðir grundir.

Hugsunin hjá Ingu er

allar lífsins stundir.

 

Bls. 412.

 

Fróðleikur til yndis er,

opnar vegi um höf og lönd.

Guðmundur með gleði hér

gripið hefur bók í hönd.

 

Rúnar Kristjánsson fecit.


Veruleikinn elur á heimsku !

 

Samtíminn er ekki sem heilbrigðastur þegar á allt er litið og kallar í mörgu fram veruleika sem virðist ekki byggður á sérlega mikilli dómgreind !

 

Maðurinn elur á andstæðum með háttalagi sínu og virðist meira og minna í uppreisn gegn Skapara sínum og því sköpunarverki sem byggt var á heilnæmum aðstæðum í hreinni náttúru endur fyrir löngu !

 

Það er því augljóst að maðurinn byggir ekki upp á heilbrigðan hátt, hann rífur miklu frekar niður. Og fólki virðist bókstaflega kennt og innrætt að hafa svo miklar þarfir, að það á að réttlæta öll afglöp sem framin eru gegn Skaparanum og sköpunarverkinu. Sífellt glymur í eyrum fólks : ,, Þú þarft að fá þér þetta og þetta og þetta, o.s.frv. “

 

Niðurstaðan verður sú að efnishyggjan tekur algerlega yfir í lífi fólks. Heilbrigt fjölskyldulíf lamast því báðir forsjáraðilarnir vinna úti og veitir ekki af. Börnunum er hent út og suður og allir eru á hlaupum eftir nýjum ávinningi !

Margir taka sér aðra vinnu á kvöldin til að auka greiðslugetuna því alltaf þarf að kaupa eitthvað nýtt og betra. Þrælahald nútímans lýsir sér ljóslega í gegnum allt kaupæðið, því allir eru að verðlauna sig með einhverju fyrir ómanneskjulegt vinnuframlagið og álagið sem því fylgir !

 

Smám saman skapast sú válega veruleikamynd, að fólk gefur sér ekki tíma til að lifa. Það treystir sér ekki og getur ekki verið manneskjulegt smástund því þá heldur það að það sé að missa af einhverju. Svo það heldur áfram að hlaupa lífið frá sér, í ímyndaðri sókn að einhverjum ávinningi !

 

En lífshamingjan felst ekki í söfnun dauðra hluta og efnishyggju átrúnaði.

,,Gleðin er heilust og dýpst við það smáa” var einu sinni sagt og hamingjan felst meira í því að eiga lítið en eiga mikið. Sá sem sankar að sér miklu verður þræll eigna sinna, hann á ekki eignirnar, þær eiga hann !

 

Hugfræðileg samtíðarhyggja mannsins er því meira og minna byggð á rugli. Sumir taka meira að segja þátt í vitleysunni þó að þeir sjái í gegnum hana. Það gildir að vera með, jafnvel þó verið sé að ganga fyrir björg !

 

Það sannaðist eftirminnilega fyrir hrunið. Enginn má fara að æpa að keisarinn sé ekki í neinu. Það þarf sakleysingja til þess að bera sannleikanum vitni og fáir eru saklausir í dag. Jafnvel börnunum er spillt frá fyrstu tíð með því að láta allt eftir þeim og agi er sagður af því illa !

 

Þegar vegirnir eru lagðir út í vitleysu, ana flestir hugsunarlaust eftir þeim.

Vitum við annars nokkuð hvert við erum að fara ?


Gengið um garð sumarið 2019

 

Þegar ég var á ferð um Flókadal í Borgarfirði í sumar er

leið, til að hitta kveðskapar-bróður minn Dagbjart Kort

Dagbjartsson á Hrísum, fóru áætlanir mínar nokkuð á

annan veg en að var stefnt.

 

Ég fékk fréttir af því að Dagbjartur væri í önnum á

yfirstandandi bjargræðistíma,og auðvitað kom mér ekki

til hugar að fara að trufla hann við heyskaparvinnu á

öðrum bæ í dalnum. Breytti ég því snarlega áætlun minni

á þann veg, að ég renndi vagni mínum niður í Reykholt og

átti þar nokkra viðdvöl.

 

Meðan Kristján sonur minn brunaði þar um malbikuð svæði

á einhjólinu sínu, gekk ég um kirkjugarðinn hljóður í

bragði og hugði þar að leiðum.

 

Sá ég þá að í litlum skika þar voru fjórir þjóðkunnir

menn jarðsettir nánast hlið við hlið. Það voru þeir

Guðmundur Hagalín, Jónas Árnason, Flosi Ólafsson og

Ingólfur Margeirsson. Hugði ég um stund að leiðum þeirra

og kvað yfir Gvendi :

 

Hagalín með Unni ól

aldur sinn á Mýrum.

Fann sér efri ára skjól,

enn með huga skýrum.

 

Svo leit ég á leiði Jónasar og bætti við :

 

Drýgði sálar sinnar föng,

saup úr mörgu glasi.

Kátur hló og kvað og söng

Kópareykja-Nasi.

 

Síðan sneri ég mér að leiði Flosa og kvað þar :

 

Meðan Flosi á Bergi bjó,

brattur sig hann stælti.

Sveitin öll að sumu hló

sem hann gerði og mælti.

 

Þar næst hvarflaði ég augum að leiði Ingólfs :

 

Ingó Margeirs eins er hér

undir jarðarmosa.

Nærri systur sinni er,

sem var kona Flosa.

 

Svo varð mér hugsað til kvennanna sem hvíla þarna og kvað :

 

Bjuggu sínum mönnum með

mála bjartar sunnur.

Bættu þeirra gerð og geð,

Guðrún, Lilja og Unnur.

 

Svo signdi ég yfir öll leiðin – kvaddi þannig hina ágætu

sofendur sem þarna hvíldu, og gekk minn veg.

 

Ritað í byrjun október 2019,

Rúnar Kristjánsson


Alþýðuhetjan Gunna fótalausa

 

 

Snemma hlaustu snúin kjör,

snauð að ytri gæðum.

Þrautir mæddu þína för

þrátt með tökum skæðum.

Samt þú barðist sérhvern dag,

sýndir fljótt í verkum lag,

byggðir upp og bættir hag,

búin krafti í æðum.

 

Steinadals á heiði í hríð

heljarveðri lostin,

veg þú braust og vannst það stríð,

vonin hvergi brostin.

Önduð móðir eftir lá,

upp þig sleistu líki frá,

komst til byggða úr kulda vá,

kalin eftir frostin.

 

Fimmtán ára fótalaus

fékkstu líf að reyna.

Þó í engu frá þér fraus

framtaksþráin hreina.

Lagt var á þig ok sem var

eins og rakið dauðasvar,

en þú gafst þig ekki þar,

uppgjöf kaust ei neina.

 

Sjálfsbjargar við sanna dáð,

sálarhugsun sterka,

fram þú sóttir lífs um láð,

lærðir margt til verka.

Raungott fólk þér lagði lið

langtum framar tíðarsið.

Áfram bættust afrek við

ævisögu merka.

 

Bátagerðin hóf þinn hag,

hugsuð fram með prýði.

Þar í öllum línum lag

lýsti góðri smíði.

Stöðugt þínum stúfum á

stóðstu full af kappi þá,

sinntir verkum sveitt á brá,

sveitar virt af lýði.

 

Ekki var þitt viðmót kalt,

vermt af anda ljúfum.

Gildisheil í gegnum allt

gekkstu á þínum stúfum.

Síst þér vel um vanga strauk

veröldin með allt sitt brauk,

að þér sneri uns yfir lauk

ávallt lófa hrjúfum.

 

Næða fannst þér kalt um kinn,

kólna í vonarlandi,

er þú misstir Magnús þinn,

merktan dauðans brandi.

Enn var reynslan gefin grimm,

gnúðu um þig élin dimm.

Aðeins hlaustu árin fimm

í því hjónabandi.

 

Áfram samt með sama dug,

særð við élin skæðu,

vísaðir þú vanda á bug,

vannst þig burt frá mæðu.

Angurs meina málin því

máttu þoka enn á ný.

Sigur gastu sótt þér í

sálar innistæðu.

 

Ekkert kæfði eldmóð þinn,

orku hugsun fleyga.

Fékk þar alltaf framgang sinn

frelsishvötin seiga.

Bjóstu að þínu, búin að

byggja upp efni fyrir það.

Vinum hjá þinn verustað

vildir síðan eiga.

 

Reyndist þér með réttu vel,

röskur lífs á velli,

vinur einn með vandað þel,

var það Jón frá Felli.

Þó hann ætti í sjálfum sér

sanna hæfni er lofa ber,

lærði hann smíðar lengi af þér,

létti þér svo elli.

 

Heyrn og sjón þér hurfu frá,

hart var það að bera.

Samt í gegnum þolraun þá

þér fannst margt að gera.

Í þrjátíu ár við þannig kjör

þú gast kennt og gefið svör.

Leiðbeint mörgum lífs á för,

lést það hvergi vera.

 

Vegferðar þú varðann hlóðst

vígðan elju nægri.

Fótalaus á fótum stóðst

fram að endadægri.

Næstum orðin níræð þá

naustu dóms sem fyrir lá,

að ævigildið sérhver sá,

sýnt með stöðu frægri.

 

                Rúnar Kristjánsson, Skagaströnd.

               ( Ort 11. apríl 2019. )

 

 

 

 


Um gildismikið og gott fólk !

 

Það er eitt af því skemmtilega í tilverunni að kynnast góðu fólki, einstaklingum sem virkilega verða manni hugstæðir vegna manngildis og persónuleika. Ég hef verið svo heppinn að kynnast allmörgum slíkum lífsljósum, konum og körlum, frábæru fólki til geðs og gerðar !

 

Það eru miklar minningar sem gefast af samskiptum við slíkt fólk, minningar sem halda áfram að gleðja og ylja. Það er líklega fyrst og fremst í gegnum slík sambönd sem maður skilur best hið fornkveðna “ Maður er manns gaman “. Og samferðafólk af þessu tagi leggur ekki svo lítið inn í líf okkar og gerir vegferðina stórum ánægjulegri, með því að vera til eins og það er !

 

Mörgum góðum mönnum af Ströndunum kynntist ég þegar þeir komu á bátum sínum til Skagastrandar, annaðhvort í tengslum við Skipasmíðastöð Guðmundar Lárussonar meðan hún var og hét, sællar minningar, eða til að fara í slipp á seinni árum. Þeir voru ekki lítilla sanda þessir karlar sem komu þannig til okkar yfir flóann. Það var mannbætandi að kynnast þeim !

 

Einn af þessum kjarnakörlum var Ásbjörn Magnússon frá Drangsnesi. Þegar þeir bræðurnir hann og Teddi voru að vinna við Sundhanann í Skipasmíðastöð Guðmundar á sínum tíma, mátti vel heyra að Ásbjörn var á staðnum. Það gekk mikið á og starfið fleygðist áfram, enda sindraði áhuginn og krafturinn af Ásbirni og Teddi seig fast á árar sinna verkefna !

 

Og nú er Ásbjörn allur. Þessi vaski og kraftmikli maður ! Það kom sárt við mig að heyra lát hans og ég minntist þess þegar hann fyllti heila skipasmíðastöð dag eftir dag með lífsmagni sínu og starfsgleði !

 

Ég orti um hann þessar vísur sem hér fara á eftir, en slíkum einstaklingum verður aldrei lýst til fulls. Það gera þeir bara sjálfir í krafti persónuleika síns meðan þeir lifa. Og þökk sé Guði fyrir slíka fullhuga fjörs og dáða, sem gera mannlífið stórum gróskumeira og betra en það annars væri !

 

 

 

Ásbjörn Magnússon, Drangsnesi – eftirmæli um góðan

 

dreng :

 

 

Meðan Ásbjörn andann dró

orka brann í sinni.

Líf hans allt á landi og sjó

leiftrum brá á kynni.

 

Lítt hann sinnti um lágan róm,

löngum skýr í tali.

Röddin sterkan hafði hljóm,

heyrðist vítt um sali.

 

Frjálslegt þótti fasið allt,

frægt að töktum snjöllum.

Aldrei bar hann höfuð hallt,

heill í skiptum öllum.

 

Þó að hérlíf hans sé frá,

heiðurs skeið er runnið.

Virtur fékk hann vegi á

valinn sigur unnið.

 

Sálargildi sitt ber hann

sjóla ljóss með hróðri.

Víst með góðan hlut fer hann

heim úr lífsins róðri.

 

                           Rúnar Kristjánsson


Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 192
  • Sl. sólarhring: 233
  • Sl. viku: 1329
  • Frá upphafi: 317015

Annað

  • Innlit í dag: 181
  • Innlit sl. viku: 1028
  • Gestir í dag: 178
  • IP-tölur í dag: 176

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband