Leita í fréttum mbl.is

Að taka afstöðu til mála !

Stundum sé ég ástæðu til að velta því nokkuð fyrir mér á hvaða forsendum fólk tekur afstöðu til mála ? Í eina tíð held ég að það hafi skipt miklu máli hjá flestum að vera sannleikans megin og styðja helst í engu það sem rangt væri, en sú afstaða virðist mér búa við fallandi gengi mjög víða, eins og sakir standa.

Það er ekki annað að heyra nú til dags, en mjög margir spái fyrst og fremst í það að taka afstöðu til mála út frá því hvað sé og geti verið hagkvæmast fyrir þá. Viðhorfin til þess hvað sé rétt eða rangt virðast víðsfjarri þeim sem þannig hugsa. Og svo er oft að heyra, að vilji til þess að þurfa kannski að fórna einhverjum lífsþægindum fyrir það að standa á sínu og því sem menn telja rétt, sé vægast sagt orðinn af skornum skammti í okkar ofurneysluruglaða samfélagi. Það er dapurleg niðurstaða ef menn eru almennt orðnir svo fullir af siðlausum sofandahætti að þeir láti allt falt við freistingum !

Í Einræðum Starkaðar segir Einar Ben „ gleðin er heilust og dýpst við það smáa" og er ég ekki grunlaus um að sá fjölhæfi maður hafi lesið Orðskviðina í Biblíunni vel yfir áður en hann lagði út með mörg þau spekiorð sem í umræddu kvæði búa. En Einar Ben var margbrotinn maður og vildi alla tíð fá sitt tillag í lífinu og það í ríflegra lagi. Spekimál kvæða hans var því kannski öðru fremur hugsað sem leiðbeiningar-framlag til annarra, heldur en eitthvað sem hann sjálfur ætti að lifa eftir. Að minnsta kosti var líf hans í flestu nokkuð frábrugðið því sem hann boðaði.

Þegar hann eitt sinn fúlsaði við soðinni ýsu, svaraði Valgerður kona hans : „Þetta er soðin ýsa með floti og kartöflum og það er fullgóður matur handa þér á mánudegi !" En Einar svaraði að bragði: „Á mánudegi, hvers á mánudagurinn eiginlega að gjalda ? Hvers vegna má ekki vera veislumatur á mánudegi ?"

Svo fórnarlund Einars Ben gagnvart lífsgæðum og skilningur hans á gleðinni í því að búa við það smáa, mun nú lengstum hafa verið nokkuð mikið með sínum sérstaka hætti. En samt er það svo, að sá sem hefur ekki of mikið umleikis í sínu lífi upplifir oft sælli gleði en sá sem telur sig þurfa alls að gæta vegna hagsmuna sinna og gefur sér ekki nokkurn tíma til þess - að lifa !

Best fer jafnan á því að hugsjónir og framferði rími saman í mannlegri tilveru, enda er það að vera sjálfum sér samkvæmur oft hið erfiðasta mál en jafnan þó sigur þroska, samvisku og sæmdar í lífi hvers manns. Þann sigur vinna hinsvegar allt of fáir og enn færri nú til dags en áður var. Það vantar allar hugsjónir í tilvistarstrengina í dag, það vantar háleit markmið og  hreina og göfuga sýn til samfélagslegra þarfa. Það vantar að koma hinu allsráðandi eigingirnisstefi nútímans undir aga og hemja græðgisfullar hvatir sjálfsins !

Það vantar endurlífgaðan kristinn anda í þjóðarsálina, og ég segi það hiklaust nú þegar ríkisútvarpið er farið að kasta því út úr dagskrá sinni sem í áraraðir hefur verið því til sóma, og telur það ekki lengur eiga við  -  vegna samtíma sem er á sinni breysku blinduför inn í meiri og meiri siðleysu. Hvenær hefur þörfin verið meiri á því að standa hvarvetna vaktina fyrir hinum góðu, gömlu gildum ?

Sá forsvarsmaður sem telur sig þjóna þjóðinni best með því að fella niður Morgunbænir og Orð kvöldsins úr dagskrá útvarpsins er sjáanlega að þjóna einhverju allt öðru en hann ætti að þjóna. Andinn í þeirri ákvörðun afhjúpar sig mjög skýrt og sýnir sig vera anda niðurrifs og lausungar í siðferðilegu tilliti. Það er hinsvegar ekkert nýtt að verið sé að þóknast einhverju sem ekki er af okkar meiði og seint verður þjóð okkar til þrifnaðar !

En nýir stjórnendur eru oft Mammons mestu vinir og þeir sem eru það taka afstöðu til allra mála á grundvelli þess sem þeir telja hagkvæmt, hagkvæmt fyrir sjálfið og yfirdrepsskapinn, hagkvæmt fyrir rotin sjónarmið dauðra sálna. Og slíkir stjórnendur trúa því að allir aðrir séu þeim líkir, elski sjálfa sig 100% á kostnað allrar elsku gagnvart öðrum, taki afstöðu til mála eftir því sem þeir telja sér hagfellt, hafi enga sýn á hvað sé rétt eða rangt, þekki ekki neitt til fórnarlundar og hafi ekki neina sannfæringu, samvisku eða sómatilfinningu !

Og eigi slíkir stjórnendur að fá að móta og leiða þjóðfélagið, er það ávísun á blessunarlausan ófarnað, ávísun á annað og verra hrun. Þá er samfélagið dæmt til andlegs dauða, dæmt til kyrkingar og hengingar heiðarlegra viðmiða og blygðunarlausrar aftöku allra heilbrigðra siðagilda !

Hvaða afstöðu viljum við hafa til mála ? Ætlum við að láta andlega berrassaða sperrileggi leggja okkur línurnar í okkar eigin lífsmálum ? Eiga þjónustubundnir andar, innfluttir í gegnum kukl framandi þjóða, að fá að vaða hér yfir allt og alla ?

Eigum við ekki að vera áfram kristin þjóð, og halda fast í Herrans klæðafald ? Er það ekki leið hjálpræðisins og þess vonarljóss sem hefur lýst þjóðinni í gegnum dimmar aldir til þeirra föðurhúsa sem fyrri kynslóðir trúðu statt og stöðugt að væri heimahöfnin eina og sanna ?

Eigum við virkilega að sætta okkur við að ríkisútvarpið okkar vinni andlegt skemmdarverk í þágu skurðgoða öfugsnúins tíðaranda og neiti okkur um þá þjónustu sem verið hefur þar í boði, að hefja hvern dag með morgunbæn og ljúka honum með orði kvöldsins ? Erum við orðin svo andlega dauð ?

Ég vil að endingu spyrja, verður næst ráðist á þjóðsönginn okkar ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 1246
  • Frá upphafi: 317440

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 950
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband