Leita í fréttum mbl.is

Kosningaspjall !

Það stefnir í kosningar og margt skrítið hefur komið fram í opinberri umræðu að undanförnu. Bjarni Ben II lýsti því yfir á landsfundi að flokkur hans væri búinn að endurvinna traustið !

Engar skýringar fylgdu hvernig það traust hefði unnist á ný eða hversvegna þurft hefði að vinna það aftur, hvernig það hefði glatast og svo framvegis. Það eru hlutir sem Bjarni og flokksmenn hans tala ógjarnan um.

Slagorðið sem sett var fram á landsfundinum var hinsvegar eins og hrópandi háðsyrði  - Sjálfstæðisflokkurinn - í þágu heimilanna !

Hafa menn heyrt annað eins ? Af hverju voru heimilin í landinu komin á ystu nöf eftir nærri tveggja áratuga samfellda stjórn Sjálfstæðisflokksins ?

Hefðu ávextirnir af svo löngum valdatíma ekki átt að vera aðrir ef vel hefði verið haldið á málum í þjóðarþágu og þar með í þágu heimilanna í landinu ?

Raunveruleikinn segir nefnilega allt annað, hann segir - Sjálfstæðisflokkurinn - plága heimilanna !

Illhugi flokksins gagnvart almannahagsmunum kemur skýrt fram í tillögum um úrbætur. Þar er ekki verið að koma til móts við aðstæður hins almenna fólks, nei og aftur nei. Tillögurnar miðast allar við að koma almannafé í gagnið fyrir fólk í tekjuhærri hópum og til fyrirtækja, en þar er helstu fylgifiska flokksins yfirleitt að finna.

En sem betur fer virðist fólk vera það vakandi, að það ætlar ekki að sýna þessum svokallaða flokki traust og gerir það vonandi aldrei aftur. Sjálfstæðisflokkurinn er í raun og veru ekki stjórnmálaflokkur, þar er fyrst og fremst um ótrúlega óforskammað sérhagsmunabandalag að ræða, sem gæti ekki þrifist í þjóðfélagi sem byggi við sæmilega lagavernd almannahagsmuna og þjóðarheilla.

Kerfisspillingin á Íslandi er auðvitað sköpuð að langmestu leyti af þeim pólitísku öflum sem ráðið hafa í landsstjórninni.

Og hvaða afl skyldi nú hafa sett sitt kolsvarta brennimark dýpst og lengst á landsstjórnina, misnotað völd og áhrif þar um áratugaskeið ?

Það er einmitt þessi svonefndi flokkur sem vill kenna sig við sjálfstæði lands og þjóðar, en hnuplaði í raun því nafni á sínum tíma vegna þess að annar flokkur sem fyrr var við lýði hafði gert það frægt og vinsælt.

En þetta hagsmunabandalag hægri aflanna hefur aldrei staðið ærlega undir þessu sögufræga nafni og það stóð heldur aldrei til að það gerði það.

Óþjóðlegra flokks-skrípi að allri gerð er ekki til á Íslandi þó Samfylkingin geri reyndar allt sem hún getur til að slá því við í þeim efnum.

Ég ætla annars hvorki að tala hér um Samfylkinguna eða Vinstri græna. Þeir flokkar hafa fengið að reyna sig í landsstjórninni að undanförnu og ég tel að þeir hafi uppskorið mikil vonbrigði stórs hluta kjósenda sinna. Samfylkingin er eins og allir vita með sálina út í Brussel, en ég held að enginn viti núorðið hvar sálin í Vinstri grænum er og sennilega síst af öllu þeir sem þar stjórna málum.

En ég ætla að fara hér nokkrum orðum um Framsóknarflokkinn, því gamla

maddaman virðist ætla að fara að gegna stóru hlutverki á ný í landsmálum sem enginn hafði eiginlega talið að hún ætti eftir að gera.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sennilega mesti lýðskrumarinn í hópi íslenskra pólitíkusa um þessar mundir. Síðustu fjögur árin hefur hann haft á takteinum lausnir á öllum hlutum og ráðamenn, að hans mati, sífellt verið að gera tómar vitleysur !

Ég man þó ekki betur en þessir sömu ráðamenn hafi fengið sérstakan stuðning Sigmundar og Framsóknar þegar þeir hófu sína samvinnu í ríkisstjórn snemma árs 2009 !

Þá talaði Sigmundur öðruvísi og reyndar á hann það til að tala á mjög breytilegum nótum eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Sigmundur Davíð hefði í raun átt að heita Halldór Davíð því það nafn hefði fært hann miklu nær sönnum uppruna !

Hann er í raun talsmaður fyrir auðvaldið í Framsóknarflokknum sem lifði sína bestu tíma á árunum 1995 til 2007, þegar það sameinaðist auðvaldinu í Sjálfstæðisflokknum svo gersamlega að enginn sá þar nokkurn mun á.

Og þessi tengsl hafa hvergi rofnað þó nokkrum Framsóknardruslum hafi verið hent út vegna þess að þjóðin hafði fengið svo mikla skömm á þeim að það tjáði ekki að tjalda þeim lengur.

Ef raunveruleg hugarfarsbreyting hefði fylgt þeim forustubreytingum innan Framsóknarflokksins sem urðu á sínum tíma, hefðu menn að sjálfsögðu skipt um nafn á flokknum !

En blekkingin er sú að það varð engin hugarfarsbreyting. Það var bara Skolli gamli sem fór á kreik til að uppfæra sín vélabrögð við breyttar aðstæður, og það er klárt mál að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður seint leiðtogi sem starfa mun í þágu almennra þjóðarhagsmuna á Íslandi !

Til þess verður hann, að mínu mati, að skera á eigin rætur í svo mörgu og ég sé það ekki fyrir mér að hann muni gera það !

Skoðanakannanir ganga Framsókn mjög í vil um þessar mundir og er það að minni hyggju ekki verðskuldað en þó skiljanlegt þar sem Sigmundur hefur verið að leika það hlutverk sem Steingrímur J. lék sem lengst og best fyrir hrun.

Hann gæti því uppskorið vel í þessum kosningum, eins og Steingrímur gerði 2009, en ég hygg að við þar næstu kosningar verði hann gjörfallin stjarna.

Maðurinn hefur einfaldlega lofað allt of miklu !

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 52
  • Sl. viku: 1629
  • Frá upphafi: 319593

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 1298
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband