Leita í fréttum mbl.is

"Treystu mér, ég er læknir !"

Fyrirsögn þessa pistils er jafnframt heiti nýlegs sjónvarpsmyndaflokks og langar mig til að pæla aðeins í því sem felst í þeirri staðhæfingu sem þarna kemur fram. Í almennum skilningi er þó kannski ekki neitt athugavert við hana í sjálfu sér en í raun segir hún talsvert meira en hún getur staðið undir með sannferðugum hætti.

Það er ekkert sem segir að þú eigir að treysta lækni bara vegna þess að hann segist vera læknir og jafnvel þó að hann sé það. Læknar eru alls ekki allir þannig að ástæða sé til að treysta þeim. Þeir eru upp og ofan eins og annað fólk. Traust er hinsvegar nokkuð sem lærist við reynslu og viðkynningu.

Þú getur kynnst lækni sem reynist þannig að allri gerð að þú myndir hvenær sem væri leggja líf þitt í hans hendur – í öruggu trausti. En þú gerir það ekki bara vegna þess að hann sé læknir, heldur vegna þess að hann hefur sýnt það og sannað með daglegu framferði sínu að hann er það sem hann á að vera og stendur sem slíkur undir nafni.

Það er því á misskilningi byggt að manni sé treystandi bara vegna þess að hann sé læknir. Hann getur hafa útskrifast úr háskóla sem læknir, hann getur haft alla pappíra í lagi varðandi það, en hvort hann er í raun og sannleika læknir sem þú getur treyst, það er nokkuð sem þú kemst aðeins að raun um í gegnum samskipti þín við hann.

Og því miður virðist það hafa farið í vöxt á seinni árum að læknum sé ekki treystandi bara vegna þess að þeir hafi menntunarlegar forsendur til að vera læknar. Alls kyns reynslusögur sem ganga fólks á milli af samskiptum þess við lækna, virðast staðfesta það að full ástæða sé til þess að bíða með traustið þar til samskiptin hafa byggt undir það með áþreifanlegum hætti !

Það er eins með þetta og svo margt annað í samfélagi nútímans, að fólki virðist yfirleitt í allri umræðu yfirborðsins vera uppálagt þetta og hitt á þeim forsendum einum að menntun sé og hljóti að vera 100% ígildi þess sem hún er sögð vera !

Það eru eflaust miklir hagsmunir tengdir því að koma á slíku viðhorfi, en það breytir engu um þá staðreynd að það er rangt. Það getur átt að vera búið að slípa einstaklinginn sem demant, en það er það sem skólaganga og menntun á að gera til að áskapaðir hæfileikar manna skili sér, en reynslan ein mun færa heim sanninn um það hvort viðkomandi einstaklingur kemur til með að skína með sönnum hætti og hvort yfirleitt sé um einhvern demant að ræða !

Sum störf geta með góðum, siðrænum rökum talist störf sem þarf köllun til að rækja vel. Læknismenntaður maður sem hefur ekki í sér neina köllunarskyldu til líknarverka er ekki maður sem sjálfgefið er að treysta vegna þess eins að hann er bókaður á lista mannfélagsins sem læknir. Guðfræðimenntaður maður sem hefur ekki í sér neina köllunarskyldu við prests-starfið eða trúarlega hollustu gagnvart Almættinu, er ekki maður sem ákjósanlegur er sem boðberi fagnaðarerindisins eða huggari fyrir sál í neyð. Og áfram mætti eflaust nefna margt í hliðstæðu sambandi varðandi aðrar stéttir.

En alls staðar er traust sú undirstaða mannlegra samskipta sem skiptir höfuðmáli. Menn kynnast og smám saman byggja þeir upp traust sín á milli þegar reynslan sýnir að það eru fullar forsendur til þess. Yfirlýsingar eins og fyrirsögn þessa pistils gera kröfu til trausts á litlum sem engum forsendum !

Á Íslandi myndi tæpast þykja trúverðugt nú um stundir að maður segði : „Ég er bankamaður, treystu mér !“ Það þýðir hinsvegar enganveginn að það sé hvergi til bankamaður hérlendis sem hægt sé að treysta. Reynslan sker úr í því máli sem öðrum. En í víðari skilningi getur þú að öllum líkindum verið nokkuð viss um að þú búir í þokkalega heilbrigðu þjóðfélagi, ef þú telur þig geta sagt á fullum forsendum: „Ég treysti lækninum mínum, prestinum mínum og bankastjóranum mínum !“

Og gott hlýtur þjóðfélagið að vera ef þú telur þig yfir höfuð geta sagt með fullum sanni : „Ég treysti náunga mínum til alls góðs !“

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Rúnar Kristjánsson
Höfundur er húsasmiður og býr á Skagaströnd.

Eldri færslur

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 59
  • Sl. sólarhring: 629
  • Sl. viku: 2006
  • Frá upphafi: 319502

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 1630
  • Gestir í dag: 44
  • IP-tölur í dag: 44

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband